Ljósleiftur á postulatímanum
„Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.“ — SÁLMUR 97:11.
1. Hvernig líkjast vottar Jehóva nútímans frumkristnum mönnum?
VIÐ sem erum sannkristin kunnum vel að meta orðin í Sálmi 97:11! Oft hefur ‚ljós runnið upp‘ og leiftrað okkur til handa. Sum okkar hafa horft á leiftrandi upplýsingu Jehóva um áratuga skeið. Þetta minnir okkur á Orðskviðina 4:18 þar sem stendur: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ Við, vottar Jehóva, líkjumst frumkristnum mönnum í því að taka Ritninguna fram yfir erfikenningar manna. Afstaða þeirra er auðsæ af hinum sögulegu bókum og bréfum kristnu Grísku ritninganna er voru skrifuð vegna innblásturs frá Guði.
2. Hver voru einhver fyrstu ljósleiftrin sem fylgjendur Jesú sáu?
2 Einhver fyrstu ljósleiftrin, sem fylgjendur Jesú Krists á fyrstu öld sáu, tengdust Messíasi. Andrés sagði Símoni Pétri bróður sínum: „Við höfum fundið Messías!“ (Jóhannes 1:41) Nokkru síðar gerði faðirinn á himnum Pétri postula kleift að bera vitni um það er Pétur sagði við Jesú Krist: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ — Matteus 16:16, 17 Jóhannes 6:68, 69.
Ljós um prédikunarstarf þeirra
3, 4. Hvaða upplýsingu veitti Jesús fylgjendum sínum eftir upprisu sína um framtíðarstarf þeirra?
3 Eftir upprisu sína sendi Jesús ljósleiftur um skyldu sem hvíldi á öllum fylgjendum hans. Líklega var það við lærisveinana 500, er voru samankomnir í Galíleu, sem hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20; 1. Korintubréf 15:6) Eftir það áttu allir fylgjendur Krists að vera prédikarar, og prédikun þeirra átti ekki að einskorðast við ‚týnda sauði af Ísraelsætt.‘ (Matteus 10:6) Þeir áttu ekki heldur að skíra iðrunarskírn til syndafyrirgefningar að hætti Jóhannesar. Þeir áttu að skíra fólk „í nafni föður, sonar og heilags anda.“
4 Rétt áður en Jesús steig upp til himna spurðu 11 trúfastir postular hans: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Í stað þess að svara spurningunni gaf Jesús þeim frekari fyrirmæli um prédikunarstarfið og sagði: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Fram að því höfðu þeir aðeins verið vottar um Jehóva, en nú yrðu þeir líka vottar Krists. — Postulasagan 1:6-8.
5, 6. Hvaða ljósleiftur fengu lærisveinar Jesú á hvítasunnunni?
5 Aðeins tíu dögum síðar sáu fylgjendur Jesú skær ljósleiftur. Á hvítasunnudeginum árið 33 skildu þeir í fyrsta sinn þýðingu Jóels 3:1, 2: „Síðar meir mun ég [Jehóva] úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.“ Lærisveinar Jesú sáu heilagan anda setjast sem eldtungur á höfuð allra viðstaddra — um 120 karla og kvenna — er voru samankomnir í Jerúsalem. — Postulasagan 1:12-15; 2:1-4.
6 Það var einnig á hvítasunnudeginum sem lærisveinarnir skildu fyrst að orðin í Sálmi 16:10 áttu við hinn upprisna Jesú Krist. Sálmaritarinn hafði sagt: „Þú [Jehóva Guð] ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.“ Lærisveinunum varð ljóst að þessi orð gátu ekki átt við Davíð konung því að leiði hans var meðal þeirra allt til þess dags. Það var því engin furða að um 3000, sem fræddust um þetta nýja ljós, skyldu sannfærast og láta skírast samdægurs. — Postulasagan 2:14-41.
7. Hvaða skært ljós fékk Pétur postuli á heimili rómverska herforingjans Kornelíusar?
7 Um aldaraðir höfðu Ísraelsmenn kunnað vel að meta það sem Guð hafði sagt um þá: „Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar.“ (Amos 3:2) Það var því sannarlega skært ljósleiftur, sem Pétur postuli og samferðamenn hans í hús rómverska herforingjans Kornelíusar fengu, er heilögum anda var í fyrsta sinn úthellt yfir trúaða, óumskorna menn af þjóðunum. Eftirtektarvert er að þetta var í eina skiptið sem mönnum veittist heilagur andi fyrir skírn. En þannig varð það að vera. Ella hefði Pétur ekki vitað að þessir óumskornu menn af þjóðunum voru hæfir til skírnar. Pétur gerði sér fulla grein fyrir þýðingu þessa atburðar og spurði: „Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér.“ Enginn viðstaddra gat auðvitað andmælt því með réttu og þetta fólk af þjóðunum var því skírt niðurdýfingarskírn. — Postulasagan 10:44-48; samanber Postulasöguna 8:14-17.
Engin umskurn framar
8. Af hverju áttu sumir frumkristnir menn erfitt með að sleppa umskurninni?
8 Skært sannleiksljós leiftraði líka fram í sambandi við spurninguna um umskurn. Umskurnin átti rætur sínar að rekja til ársins 1919 f.o.t. er Jehóva gerði sáttmálann við Abraham. Guð fyrirskipaði þá að Abraham og allir karlmenn á heimili hans skyldu umskornir. (1. Mósebók 17:9-14, 23-27) Umskurnin varð þar með einkennandi fyrir afkomendur Abrahams. Og þeir voru ekki lítið stoltir af þessum sið! „Óumskorinn“ var því notað sem niðrandi orð. (Jesaja 52:1; 1. Samúelsbók 17:26, 27) Auðséð er hvers vegna sumir snemmkristnir Gyðingar vildu viðhalda þessu tákni. Sumir þeirra áttu í miklu orðastappi við Pál og Barnabas um þetta mál. Til að útkljá það fóru Páll og fleiri til Jerúsalem til að ráðfæra sig við hið stjórnandi ráð kristinna manna. — Postulasagan 15:1, 2.
9. Hvaða ljósleiftur opinberuðust hinu stjórnandi ráði á fyrstu öld eins og greint er frá í Postulasögunni 15. kafla?
9 Nú var það ekki augljóst kraftaverk sem veitti frumkristnum mönnum það ljós að ekki væri lengur krafist umskurnar af þjónum Jehóva. Núna fengu þeir skærara ljós með því að rannsaka Ritninguna, leita leiðsagnar heilags anda og heyra Pétur og Pál greina frá reynslu sinni í sambandi við trúhvarf óumskorinna heiðingja. (Postulasagan 15:6-21) Úrskurðurinn var birtur í bréfi sem hljóðaði svo að hluta til: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:28, 29) Frumkristnir menn voru þar með leystir undan umskurnarkvöðinni og öðrum kröfum Móselögmálsins. Páll gat því sagt kristnum Galötum: „Til frelsis frelsaði Kristur oss.“ — Galatabréfið 5:1.
Ljós í guðspjöllunum
10. Nefndu nokkur ljósleiftur í Matteusarguðspjalli.
10 Engum blöðum er um það að fletta að í Matteusarguðspjalli, sem skrifað var um árið 41, eru mörg ljósleiftur til gagns þeim er lesa það. Tiltölulega fáir kristnir menn á fyrstu öld höfðu heyrt Jesú útlista kenningar sínar í eigin persónu. Matteusarguðspjall leggur sérstaka áherslu á að Guðsríki væri stefið í prédikun Jesú. Og Jesús hafði svo sannarlega lagt þunga áherslu á réttar áhugahvatir! Stórkostleg ljósleiftur voru í fjallræðu hans, dæmisögum (svo sem í 13. kaflanum) og í hinum mikla spádómi hans í 24. og 25. kafla. Frásögn Matteusar vakti athygli frumkristinna manna á öllu þessu, en hún var skrifuð aðeins um átta árum eftir hvítasunnuna árið 33.
11. Hvað er hægt að segja um efni Lúkasar- og Markúsarguðspjalls?
11 Lúkas skrifaði guðspjall sitt um 15 árum síðar. Þótt mikið af efni þess sé líkt frásögn Matteusar eru 59 af hundraði viðbót við það. Lúkas greinir frá sex af kraftaverkum Jesú og yfir tvöfalt fleiri líkingum hans sem aðrir guðspjallamenn láta ógetið. Aðeins fáein ár virðast hafa liðið uns Markús skrifaði guðspjall sitt þar sem hann leggur áherslu á framtakssemi og kraftaverk Jesú Krists. Markús segir aðallega frá atburðum sem Matteus og Lúkas höfðu fjallað um áður, en greinir þó frá einni dæmisögu sem þeir geta ekki um. Í þessari dæmisögu líkti Jesús ríki sínu við fræ sem spírar, vex hátt og ber smám saman ávöxt.a — Markús 4:26-29.
12. Í hvaða mæli veitti Jóhannesarguðspjall frekari upplýsingu?
12 Þá er það Jóhannesarguðspjall, skrifað meira en 30 árum eftir að Markús færði frásögu sína í letur. Jóhannes varpar skæru ljósi á þjónustu Jesú, einkum með því að vísa oft til fortilveru hans! Hann einn greinir frá upprisu Lasarusar, og hann einn flytur okkur margar af hinum ágætu athugasemdum Jesú við trúfasta postula sína og hina hlýlegu bæn hans nóttina sem hann var svikinn, eins og lesa má í 13. til 17. kafla. Sagt er að 92 af hundraði efnis Jóhannesarguðspjalls sé ekki að finna annars staðar.
Ljósleiftur í bréfum Páls
13. Hvers vegna hafa sumir litið á bréf Páls til Rómverja sem nokkurs konar guðspjall?
13 Páll postuli var notaður sérstaklega til að senda ljósleiftur til kristinna manna á postulatímanum. Til dæmis má nefna bréf Páls til Rómverja, skrifað um árið 56 — nokkurn veginn um svipað leyti og Lúkas skrifaði guðspjallið. Í þessu bréfi leggur Páll áherslu á þá staðreynd að réttlæti tilreiknist vegna óverðskuldaðrar góðvildar Guðs og fyrir trú á Jesú Krist. Áhersla Páls á þennan þátt fagnaðarerindisins hefur komið sumum til að líta á bréf hans til Rómverja sem eins konar fimmta guðspjall.
14-16. (a) Hvaða ljósi varpaði Páll á nauðsyn einingar í fyrra bréfi sínu til kristinna manna í Korintu? (b) Hvernig var varpað skærara ljósi á viðeigandi hegðun í 1. Korintubréfi?
14 Páll skrifaði um viss mál sem öngruðu kristna menn í Korintu. Bréf hans til Korintumanna inniheldur mikið af innblásnum heilræðum sem kristnir menn allt fram á þennan dag hafa notið góðs af. Í upphafi þurfti hann að upplýsa Korintumenn um þá skyssu þeirra að búa til persónudýrkun í sambandi við ákveðna einstaklinga. Postulinn leiðrétti þá með því að segja þeim djarfmannlega: „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10-15.
15 Gróft siðleysi var umborið í kristna söfnuðinum í Korintu. Maður þar hafði tekið konu föður síns og stundaði þannig ‚slíkan saurlifnað sem gerðist jafnvel ekki meðal heiðingja.‘ Páll sagði hreint og beint: „Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.“ (1. Korintubréf 5:1, 11-13) Þetta var nýlunda fyrir kristna söfnuðinn — brottrekstur. Annað, sem kristni söfnuðurinn þurfti upplýsingu um, tengdist því að sumir safnaðarmenn leiddu andlega bræður sína fyrir veraldlega dómstóla til að útkljá ágreiningsmál. Páll ávítaði þá harðlega fyrir það. — 1. Korintubréf 6:5-8.
16 Kynferðismál voru einnig til vandræða í söfnuðinum í Korintu. Í 1. Korintubréfi 7. kafla sýndi Páll fram á að sökum þess hve siðleysi í kynferðismálum var útbreitt væri gott fyrir hvern mann að eiga konu og fyrir hverja konu að eiga mann. Páll benti einnig á að enda þótt einhleypingar geti þjónað Jehóva tiltölulega truflunarlaust er einhleypi ekki öllum gefið. Og missi kona mann sinn er henni frjálst að giftast aftur en „aðeins að það sé í Drottni.“ — 1. Korintubréf 7:39.
17. Hvaða ljósi varpaði Páll á upprisukenninguna?
17 Hvílík ljósleiftur sem Drottinn notaði Pál til að varpa á upprisuna! Í hvers konar líkama verða smurðir kristnir menn reistir upp? „Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami,“ skrifaði Páll. Enginn holdlegur líkami fer til himna því að „hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki.“ Páll bætti við að ekki þurfi allir hinir smurðu að sofa dauðasvefni heldur verði sumir reistir upp á augabragði til ódauðleika við dauða sinn á nærverutíma Jesú. — 1. Korintubréf 15:43-53.
18. Hvaða ljós í sambandi við framtíðina er að finna í fyrra bréfi Páls til Þessaloníkumanna?
18 Í bréfinu til kristinna manna í Þessaloníku var Páll notaður til að varpa ljósi á framtíðina. Dagur Jehóva myndi koma sem þjófur á nóttu. Páll útskýrði líka: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.
19, 20. Hvaða ljósleiftur fengu kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu í bréfi Páls til Hebreanna?
19 Með ritun Hebreabréfsins kom Páll ljósleiftrum áleiðis til frumkristinna manna í Jerúsalem og Júdeu. Hann sýndi þar kröftuglega fram á yfirburði kristinnar tilbeiðslu yfir tilbeiðsluna undir Móselögunum! Í stað þess að fylgja lögmáli, sem miðlað var fyrir milligöngu engla, trúa kristnir menn á hjálpræði sem sonur Guðs boðaði fyrstur, og hann er englasendiboðunum langtum æðri. (Hebreabréfið 2:2-4) Móse var bara þjónn í húsi Guðs. En Jesús Kristur er yfir öllu húsinu. Kristur er æðsti prestur að hætti Melkísedeks og gegnir miklu æðri stöðu en prestar af ætt Arons. Páll benti líka á að Ísraelsmenn gátu ekki gengið inn til hvíldar Guðs sökum skorts á trú og hlýðni, en kristnir menn ganga inn til hennar vegna trúfesti sinnar og hlýðni. — Hebreabréfið 3:1–4:11.
20 Og nýi sáttmálinn er miklu fremri lagasáttmálanum. Eins og spáð var 600 árum áður í Jeremía 31:31-34 fengu þeir sem áttu aðild að nýja sáttmálanum lögmál Guðs ritað á hjörtu sín og njóta raunverulegrar syndafyrirgefningar. Í stað þess að hafa æðsta prest, sem þurfti að færa fórnir árlega fyrir sínar eigin syndir og syndir lýðsins, hafa kristnir menn Jesú Krist sem æðsta prest, en hann er syndlaus og hefur fært syndafórn í eitt skipti fyrir öll. Í stað þess að ganga inn í helgidóm gerðan af mannahöndum til að bera fórn sína fram gekk hann inn í sjálfan himininn til að birtast fyrir augliti Jehóva. Og dýrafórnirnar, sem færðar voru undir lagasáttmála Móse, gátu ekki algerlega afmáð syndir, ella hefðu þær ekki verið færðar árlega. En fórn Krists, sem færð var í eitt skipti fyrir öll, afmáir syndirnar. Allt varpar þetta ljósi á hið mikla andlega musteri, en það er í forgörðum þess sem hinar smurðu leifar og hinir ‚aðrir sauðir‘ þjóna nú á dögum. — Jóhannes 10:16; Hebreabréfið 9:24-28.
21. Hvað hefur þessi umfjöllun sýnt um uppfyllingu Sálms 97:11 og Orðskviðanna 4:18 á postulatímanum?
21 Rúm leyfir ekki að tekin séu fleiri dæmi, svo sem ljósleiftrin í bréfum Péturs postula og lærisveinanna Jakobs og Júdasar. En það sem nefnt hefur verið ætti að nægja til að sýna að Sálmur 97:11 og Orðskviðirnir 4:18 rættust á áberandi hátt á postulatímanum. Sannleikurinn tók að breytast úr táknum og skuggum í uppfyllingu og veruleika. — Galatabréfið 3:23-25; 4:21-26.
22. Hvað gerðist eftir dauða postulanna og um hvað er fjallað í næstu grein?
22 Ljós sannleikans var ósköp dauft eftir dauða postula Jesú og með tilkomu fráhvarfsins sem boðað var. (2. Þessaloníkubréf 2:1-11) En eins og Jesús hafði heitið sneri húsbóndinn aftur öldum síðar og fann ‚trúan og hygginn þjón‘ sem veitti „hjúunum“ fæðuna á réttum tíma. Það varð til þess að Jesús Kristur setti þennan þjón „yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Hvaða ljós leiftaði fram eftir það? Um það er fjallað í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Jörðin táknar hér það umhverfi sem kristinn maður kýs að rækta persónueiginleika sína í. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. júní 1980, bls. 18-19.
Manstu?
◻ Hvaða ritningargreinar sýna að skilningur á sannleikanum veitist skref fyrir skref?
◻ Nefndu nokkur ljósleiftur sem er að finna í Postulasögunni.
◻ Hvaða ljós er að finna í guðspjöllunum?
◻ Hvaða ljósleiftur eru í bréfum Páls?