Gakktu fram í ráðvendni
„Ég geng fram í grandvarleik.“ — SÁLMUR 26:11.
1, 2. (a) Hvers vegna er ráðvendni mannsins veigamikill þáttur í deilumálinu um drottinvald Guðs? (b) Hvernig geta vitibornar sköpunarverur sýnt að þær styðji drottinvald Jehóva?
ÞEGAR SATAN gerði uppreisn í Edengarðinum vakti hann upp deilumál um rétt Guðs til að fara með drottinvald yfir öllum sköpunarverum sínum. Síðar meir hélt hann því fram að menn myndu aðeins þjóna Guði ef það væri sjálfum þeim í hag. (Jobsbók 1:9-11; 2:4) Ráðvendni mannsins hefur þannig orðið veigamikill þáttur í deilumálinu um alheimsdrottinvald Jehóva.
2 Þó að drottinvald Guðs sé ekki háð ráðvendni sköpunarvera hans geta menn og andasynir hans sýnt hvorum megin þeir standa í þessu deilumáli. Hvernig þá? Með því að velja að vera annaðhvort ráðvandir eða ekki. Því er hægt að dæma einstakling eftir ráðvendni hans.
3. (a) Hvað vildu Job og Davíð að Jehóva rannsakaði? (b) Hvaða spurningar vakna um ráðvendni?
3 Job sagði fullur trúartrausts: „Guð [vegi] mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt [„ráðvendni mína,“ NW]!“ (Jobsbók 31:6) Davíð konungur bað Jehóva: „Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.“ (Sálmur 26:1) Hann var að biðja Jehóva um að rannsaka ráðvendni sína. Það er afar brýnt að við göngum fram í ráðvendni. En hvað er ráðvendni og hvað merkir það að ganga fram í henni? Hvað hjálpar okkur að vera ráðvönd?
„Ég geng fram í grandvarleik“
4. Hvað er ráðvendni?
4 Ráðvendni eða grandvarleikur merkir að vera heiðarlegur, ámælislaus, réttsýnn og óaðfinnanlegur. Ráðvendni felur hins vegar meira í sér en að gera rétt. Hún er heilbrigt siðferði eða heilshugar hollusta við Guð. Satan véfengdi hvatir Jobs þegar hann sagði við Guð: „Rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ (Jobsbók 2:5) Ráðvendni útheimtir að réttar hvatir séu að baki réttum verkum.
5. Hvað sýnir að ráðvendni útheimtir ekki að við séum fullkomin?
5 Við þurfum hins vegar ekki að vera fullkomin til að vera ráðvönd. Davíð konungur var ófullkominn og gerði nokkur alvarleg mistök á lífsleiðinni. Biblían talar samt um að hann hafi ,gengið í hreinskilni hjartans‘. (1. Konungabók 9:4) Hvers vegna? Vegna þess að hann elskaði Jehóva. Hjarta hans var heilt gagnvart honum. Hann var fús til að viðurkenna mistök sín, þiggja aga og leiðrétta stefnu sína. Ráðvendni Davíðs sést greinilega af heilshugar hollustu hans við Jehóva Guð og kærleikanum til hans. — 5. Mósebók 6:5, 6.
6, 7. Hvað er fólgið í því að ganga fram í ráðvendni?
6 Ráðvendni manna einskorðast ekki við eitthvert ákveðið svið eins og til dæmis trú. Hún nær yfir alla lífsstefnu okkar. Davíð ,gekk fram‘ í ráðvendni. „Sagnorðið ,að ganga‘ gefur til kynna ,lífsstefnu‘ eða ,lífsstíl‘,“ segir í bókinni The New Interpreter’s Bible. Sálmaritarinn söng um þá sem „breyta grandvarlega“: „Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.“ (Sálmur 119:1-3) Ráðvendni útheimtir að við leitumst stöðuglega við að gera vilja Guðs og ganga á vegum hans.
7 Til að ganga fram í ráðvendni verðum við að vera holl Jehóva, jafnvel þegar róðurinn er þungur. Ráðvendni okkar blasir við þegar við erum þolgóð í raunum, erum staðföst í mótlæti eða látum ekki undan freistingum frá hinum óguðlega heimi. Við ,gleðjum hjarta Jehóva‘ þar sem hann getur þá svarað þeim sem smánar hann. (Orðskviðirnir 27:11) Við höfum því ærna ástæðu til að hafa sama ásetning og Job: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ (Jobsbók 27:5) Sálmur 26 sýnir hvað getur hjálpað okkur að ganga fram í ráðvendni.
‚Hreinsa nýru mín og hjarta‘
8. Hvað geturðu lært af því að Davíð skyldi biðja Jehóva um að prófa nýru sín og hjarta?
8 Davíð bað: „Prófa mig, drottinn! og reyn mig, (hreinsa) mín nýru og mitt hjarta.“ (Sálmur 26:2, Biblían 1859) Nýrun liggja djúpt inni í líkamanum. Þau eru notuð táknrænt um innstu hugsanir okkar og tilfinningar. Og hið táknræna hjarta er hinn innri maður í heild, hvatir hans, tilfinningar og vitsmunir. Þegar Davíð bað Jehóva um að prófa sig var hann að biðja þess að leyndustu hugsanir hans og tilfinningar yrðu grandskoðaðar.
9. Á hvaða hátt hreinsar Jehóva táknræn nýru okkar og hjörtu?
9 Davíð bað þess heitt að Jehóva hreinsaði nýru hans og hjarta. Hvernig hreinsar Jehóva okkar innri mann? Davíð söng: „Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ (Sálmur 16:7) Þetta merkir að ráðleggingar frá Guði náðu inn í innstu fylgsni Davíðs og settust þar að, þær leiðréttu leyndustu hugsanir hans og tilfinningar. Þannig getur það líka verið hjá okkur ef við hugleiðum með þakklæti þau ráð sem við fáum frá Guði fyrir milligöngu orðs hans, fulltrúa og safnaðar og leyfum þeim að setjast að djúpt innra með okkur. Með því að biðja Jehóva reglulega um að hreinsa okkur á þennan hátt eigum við auðveldara með að ganga í ráðvendni.
„Ég hefi elsku þína fyrir augum“
10. Hvað hjálpaði Davíð að ganga í sannleika Guðs?
10 „Ég hefi elsku þína fyrir augum,“ heldur Davíð áfram, „og ég geng í sannleika þínum.“ (Sálmur 26:3) Davíð þekkti vel til kærleiksverka Guðs og hann hugleiddi þau með þakklæti. „Lofa þú Drottin, sála mín,“ söng hann „og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“ Davíð minnist ákveðinna ,velgjörða‘ Guðs og heldur áfram: „Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum. Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.“ (Sálmur 103:2, 6, 7) Ef til vill var Davíð að hugsa um kúgunina sem Egyptar beittu Ísraelsmenn á dögum Móse. Þegar Davíð velti fyrir sér hvernig Guð opinberaði Móse hjálpræðisleið sína hlýtur það að hafa snert hjarta hans og styrkt þann ásetning hans að ganga í sannleika Guðs.
11. Hvað getur hjálpað okkur að ganga fram í ráðvendni?
11 Að nema orð Guðs reglulega og hugleiða það sem við lærum hjálpar okkur líka að ganga fram í ráðvendni. Tökum dæmi. Þegar við höfum það hugfast að Jósef flúði siðlausar umleitanir konu Pótífars hvetur það okkur til að flýja þegar svipaðar aðstæður koma upp á vinnustað, í skóla eða annars staðar. (1. Mósebók 39:7-12) Við fáum kannski freistandi tækifæri til að efnast eða öðlast völd og frama í heiminum. Þar er Móse okkur fyrirmynd en hann hafnaði fjársjóðum Egyptalands. (Hebreabréfið 11:24-26) Þolgæði Jobs styrkir eflaust ásetning okkar að vera trúföst þegar veikindi og erfiðleika ber að garði. (Jakobsbréfið 5:11) Þegar við verðum fórnarlömb ofsókna fyllir það okkur hugrekki að minnast Daníels sem var varpað í ljónagryfjuna. — Daníel 6:16-22.
„Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum“
12, 13. Hvers konar félagsskap ættum við að forðast?
12 Það var fleira sem styrkti ráðvendni Davíðs. Hann sagði: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn. Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.“ (Sálmur 26:4, 5) Davíð sat einfaldlega ekki meðal óguðlegra manna. Hann hataði vondan félagsskap.
13 Hvað um okkur? Neitum við að eiga félagsskap við lygara þegar við horfum á sjónvarpsþætti, myndbönd og kvikmyndir eða með öðrum hætti eins og til dæmis á Netinu? Forðumst við fláráða eða undirförla menn? Sumir í skólanum eða á vinnustaðnum látast kannski vera vinir okkar til að blekkja okkur. Viljum við mynda náin tengsl við þá sem ganga ekki í sannleika Guðs? Fráhvarfsmenn þykjast kannski einlægir en markmið þeirra er að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva. Í söfnuðinum geta einnig verið einstaklingar sem lifa tvöföldu lífi. Þeir fela líka sinn innri mann. Jayson, sem nú er safnaðarþjónn, átti þess konar vini á æskuárum sínum. Hann segir um þá: „Eitt sinn sagði einn af þeim við mig: ,Það skiptir ekki máli hvað við gerum núna. Þegar nýi heimurinn kemur verðum við dánir og höfum ekki hugmynd um af hverju við misstum.‘ Þess konar tal kom mér til að hugsa. Ég vil ekki vera dáinn þegar nýi heimurinn kemur.“ Jayson tók viturlega ákvörðun og hætti að umgangast þessa einstaklinga. „Villist ekki,“ aðvaraði Páll postuli. „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Það er afar mikilvægt að við forðumst vondan félagsskap.
,Ég segi frá öllum þínum dásemdarverkum‘
14, 15. Hvernig getum við ,gengið í kringum altari‘ Jehóva?
14 „Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,“ heldur Davíð áfram. Til hvers? „Til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.“ (Sálmur 26:6, 7) Davíð vildi vera siðferðilega hreinn þannig að hann gæti tilbeðið Jehóva og lýst yfir hollustu sinni við hann.
15 Allt sem tengdist sannri tilbeiðslu við tjaldbúðina og síðar í musterinu var ,eftirmynd og skuggi hins himneska‘. (Hebreabréfið 8:5; 9:23) Altarið táknaði þann vilja Jehóva að viðurkenna að fórn Jesú Krists endurleysti mannkynið. (Hebreabréfið 10:5-10) Við þvoum hendur okkar í sakleysi og ,göngum í kringum altari‘ Jehóva með því að iðka trú á þessa fórn. — Jóhannes 3:16-18.
16. Hvernig er það okkur til gagns að kunngera dásemdarverk Guðs?
16 Fyllist hjarta okkar ekki þakklæti til Jehóva og eingetins sonar hans þegar við hugsum um allt sem þetta lausnargjald gerir mögulegt? Við skulum því með þakklæti í hjarta kunngera dásemdarverk Guðs — allt frá sköpun mannsins í Eden til fullkominnar endurreisnar í nýjum heimi Guðs. (1. Mósebók 2:7; Postulasagan 3:21) Það er líka mikil vernd að vera önnum kafin í boðunar- og kennslustarfinu. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það hjálpar okkur að hafa vonina skýrt í huga, trúna á loforð Guðs sterka og kærleikann til Jehóva og náungans lifandi.
„Ég elska bústað húss þíns“
17, 18. Hvaða viðhorf ættum við að hafa gagnvart safnaðarsamkomum?
17 Tjaldbúðin, ásamt altarinu og fórnunum, var miðstöð tilbeiðslunnar á Jehóva í Ísrael. Davíð hafði yndi af þessum stað og lét það í ljós er hann sagði: „Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.“ — Sálmur 26:8.
18 Höfum við yndi af því að safnast saman á stöðum þar sem við lærum um Jehóva? Hver einasti ríkissalur er miðstöð sannrar tilbeiðslu í samfélaginu. Þar fer reglulega fram andleg fræðsla. Auk þess höfum við árleg landsmót, svæðismót og sérstaka mótsdaginn. Á þessum samkomum eru „reglur“ Jehóva til umfjöllunar. Ef við lærum að ,elska þær mjög‘ erum við óðfús að sækja samkomur og taka vel eftir. (Sálmur 119:167) Það er einkar endurnærandi að vera með trúsystkinum sem er annt um velferð okkar og hjálpa okkur að ganga á vegi ráðvendninnar. — Hebreabréfið 10:24, 25.
,Hríf eigi líf mitt burt‘
19. Um hvaða syndir vildi Davíð ekki vera sekur?
19 Davíð vissi mætavel hverjar afleiðingarnar yrðu ef hann hætti að ganga í sannleika Guðs. Hann sárbændi því Guð: „Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum, þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.“ (Sálmur 26:9, 10) Davíð vildi ekki vera talinn með mönnum sem væru sekir um svívirðingar eða mútur.
20, 21. Hvað getur leitt okkur út á óguðlega braut?
20 Siðlaus verk flæða yfir heim nútímans. Í sjónvarpi, tímaritum og kvikmyndum er hvatt til lauslætis — ,frillulífis, óhreinleika og saurlífis‘. (Galatabréfið 5:19) Sumir hafa ánetjast klámi sem hefur oft leitt til siðleysis. Unglingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þess konar áhrifum. Í sumum löndum er hefð fyrir stefnumótum og þrýst er á unglinga að fylgja hefðinni. Margir unglingar verða ástfangnir þó að þeir séu of ungir til að ganga í hjónaband. Þetta örvar kynhvötina og til að fullnægja henni leiðast þeir út í siðlaust hátterni sem endar með saurlifnaði.
21 Fullorðnir eru engan veginn ónæmir fyrir slæmum áhrifum. Óheiðarleiki í viðskiptum og eigingjarnar ákvarðanir eru merki um skort á ráðvendni. Við fjarlægjumst Jehóva ef við göngum á vegum heimsins. ,Hötum því hið illa og elskum hið góða‘ og höldum áfram að ganga á braut ráðvendninnar. — Amos 5:15.
„Frelsa mig og líkna mér“
22-24. (a) Hvaða hvatningu fáum við í lokaorðum 26. sálmsins? (b) Hvaða tálgryfja verður til umfjöllunar í næstu grein?
22 Davíð lauk bæn sinni til Guðs með því að segja: „Ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér. Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.“ (Sálmur 26:11, 12) Beiðni hans um frelsun eða endurlausn var nátengd því að hann var ákveðinn í að vera ráðvandur. Þetta er einkar hughreystandi. Þrátt fyrir syndugt ástand okkar hjálpar Jehóva okkur ef við göngum fram í ráðvendni.
23 Látum líferni okkar bera þess vitni að við virðum og metum mikils alvald Guðs á öllum sviðum lífsins. Hvert og eitt okkar getur beðið Jehóva um að rannsaka og hreinsa leyndustu hugsanir okkar og tilfinningar. Við getum haft sannleika hans stöðugt í huga með því að nema orð hans ötullega. Forðumst þess vegna fyrir alla muni vondan félagsskap en lofum Jehóva í söfnuðinum. Tökum virkan þátt í boðunar- og kennslustarfinu og leyfum heiminum aldrei að stofna dýrmætu sambandi okkar við Guð í hættu. Við getum verið viss um að Jehóva sýni okkur miskunn þegar við reynum eftir fremsta megni að ganga fram í ráðvendni.
24 Þar sem ráðvendni kemur við sögu á öllum sviðum lífsins verðum við að varast hættulega tálgryfju — misnotkun áfengis. Þetta verður til umfjöllunar í næstu grein.
Manstu?
• Hvers vegna er hægt að dæma vitibornar sköpunarverur út frá ráðvendni þeirra?
• Hvað er ráðvendni og hvað felur það í sér að ganga fram í ráðvendni?
• Hvað hjálpar okkur að ganga á braut ráðvendninnar?
• Hvaða hættur verðum við að vera okkur meðvituð um og forðast til að vera ráðvönd?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Hefur þú kærleiksverk Jehóva fyrir augum?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Biður þú Jehóva reglulega um að rannsaka leyndustu hugsanir þínar?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Jehóva gleðst þegar við erum ráðvönd í prófraunum.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Nýtir þú þér það sem Jehóva hefur látið í té til að hjálpa okkur að ganga fram í ráðvendni?