KAFLI 24
Hver er sannleikurinn um engla?
Jehóva vill að við fræðumst um fjölskyldu sína á himnum. Í henni eru meðal annars englar, sem eru kallaðir „synir Guðs“. (Jobsbók 38:7) Hvað segir Biblían um engla? Hvaða áhrif hafa þeir á fólk? Tilheyra allir englar fjölskyldu Guðs?
1. Hverjir eru englarnir?
Jehóva skapaði englana á undan jörðinni. Þeir eru ósýnilegar andaverur á himnum eins og hann. (Hebreabréfið 1:14) Til eru milljónir engla og engir tveir eru eins. (Opinberunarbókin 5:11) Þeir ‚fylgja fyrirmælum Jehóva og hlýða orði hans‘. (Sálmur 103:20) Til forna sendi Jehóva stundum engla til að flytja boðskap eða til að hjálpa og bjarga þjónum sínum. Englar leiða þjóna Guðs nú á dögum til fólks sem vill kynnast Guði.
2. Hverjir eru Satan og illir andar hans?
Sumir englar voru Jehóva ekki trúir. Fyrsti engillinn sem gerði uppreisn „er kallaður Djöfull og Satan og [hann] afvegaleiðir alla heimsbyggðina“. (Opinberunarbókin 12:9) Satan vildi drottna yfir öðrum og fékk því Adam og Evu, og síðar jafnvel aðra engla til að óhlýðnast Jehóva. Þessir englar sem gerðu uppreisn eru kallaðir illir andar. Jehóva lét reka þá frá himnum til jarðarinnar og þeim verður tortímt. – Lestu Opinberunarbókina 12:9, 12.
3. Hvernig reyna Satan og illu andarnir að blekkja okkur?
Satan og illu andarnir blekkja marga með spíritisma og annarri dulspeki. Sumir leita til dæmis til stjörnuspekinga, spásagnarmanna, miðla, heilara eða galdralækna. Og sumir leita læknismeðferða sem tengjast dulspeki. Fólk er einnig blekkt til að trúa því að það geti talað við hina látnu. En Jehóva gefur okkur þessa viðvörun: „Leitið hvorki til andamiðla né til spásagnarmanna.“ (3. Mósebók 19:31) Hann varar okkur við þessu til að vernda okkur gegn Satan og illu öndunum. Þeir eru óvinir Guðs og vilja gera okkur mein.
KAFAÐU DÝPRA
Kynntu þér það góða sem englar gera, hættur sem fylgja dulspeki og hvernig við getum varið okkur gegn Satan og illu öndunum.
4. Englar hjálpa fólki að kynnast Jehóva
Englar Guðs boða ekki fólki trúna milliliðalaust. En þeir geta leitt þjóna Guðs til fólks sem langar að kynnast honum. Lesið Opinberunarbókina 14:6, 7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvers vegna þurfum við hjálp englanna til að boða trúna?
Finnst þér hvetjandi að vita að englarnir geta hjálpað okkur að finna fólk sem er að leita að sannleikanum? Hvers vegna?
5. Hafnaðu dulspeki
Satan og illu andarnir eru óvinir Jehóva. Þeir eru líka óvinir okkar. Lesið Lúkas 9:38–42 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig fara illu andarnir með fólk?
Við viljum ekki hleypa illu öndunum að okkur. Lesið 5. Mósebók 18:10–12 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvernig reyna illu andarnir að hafa áhrif á okkur og komast í samband við okkur? Hvaða aðferðir þeirra eru algengar þar sem þú býrð?
Finnst þér sanngjarnt að Jehóva skuli banna dulspeki? Hvers vegna?
Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Heldur þú að það hafi verið skaðlegt að bera armbandið sem dóttir Palesu var með? Hvers vegna?
Hvað þurfti Palesa að gera til að fá vernd gegn illu öndunum?
Sannkristnir menn hafa alltaf staðið gegn illu öndunum. Lesið Postulasöguna 19:19 og 1. Korintubréf 10:21 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvers vegna er mikilvægt að eyðileggja allt sem maður á og tengist dulspeki?
6. Sigraðu í baráttunni gegn Satan og illu öndunum
Illu andarnir eru undir stjórn Satans. En trúföstu englarnir lúta leiðsögn erkiengilsins Mikaels, en það er annað nafn á Jesú. Hve öflugur er Mikael? Lesið Opinberunarbókina 12:7–9 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvort eru Mikael og englar hans eða Satan og illir andar hans öflugri?
Heldur þú að fylgjendur Jesú þurfi að vera hræddir við Satan og illa anda hans?
Þú getur sigrað í baráttunni gegn Satan og illum öndum hans. Lesið Jakobsbréfið 4:7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig geturðu varið þig gegn Satan og illu öndunum?
SUMIR SEGJA: „Það er ekkert rangt við að spila leiki eða horfa á bíómyndir um dulspeki. Það er bara skemmtun.“
Hvers vegna er hættulegt að hugsa þannig?
SAMANTEKT
Trúfastir englar hjálpa okkur. Satan og illir andar hans eru óvinir Jehóva og þeir nota dulspeki til að blekkja fólk.
Upprifjun
Hvernig hjálpa englar Jehóva fólki að kynnast honum?
Hverjir eru Satan og illir andar hans?
Af hverju viltu halda þig algerlega frá dulspeki?
KANNAÐU
Sjáðu rökin fyrir því að Jesús sé erkiengillinn Mikael.
Skoðaðu sannanir fyrir því að Djöfullinn sé ekki bara táknmynd illsku sem býr innra með okkur.
Lestu um hvernig kona sleit sig lausa undan áhrifum illra anda.