„Leitið Jehóva og máttar hans“
„Því að augu [Jehóva] hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ — 2. KRONÍKUBÓK 16:9.
1. Hvað er vald og hvernig hafa menn beitt því?
MÁTTUR getur þýtt ýmislegt, svo sem vald yfir öðrum, yfirráð eða áhrifavald; getu til að framkvæma; líkamlegur eða andlegur styrkur eða siðferðisþrek. Sagan sýnir að mannkynið kann ekki með vald að fara. Sagnfræðingurinn Acton lávarður sagði um vald stjórnmálamanna: „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega.“ Sagan geymir fjölda dæma sem sýna að Acton hafði lög að mæla. Á tuttugustu öldinni hefur ‚maðurinn drottnað yfir öðrum honum til ógæfu‘ meir en nokkru sinni fyrr. (Prédikarinn 8:9) Spilltir einræðisherrar hafa gróflega misnotað vald sitt og þurrkað út líf milljóna manna. Vald sem er hvorki beitt af kærleika, visku né réttlæti er hættulegt.
2. Útskýrðu hvernig aðrir eiginleikar Jehóva hafa áhrif á það hvernig hann beitir valdi sínu.
2 Guð beitir alltaf valdi sínu til góðs, ólíkt mönnum. „Því að augu [Jehóva] hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kroníkubók 16:9) Jehóva beitir valdi sínu alltaf á agaðan hátt. Hann er þolinmóður og frestar eyðingu óguðlegra svo að þeir fái tækifæri til að iðrast. Hann er kærleiksríkur og lætur sólina skína á alla menn, bæði réttláta og rangláta. Hann er réttlátur og notar ótakmarkaðan mátt sinn að lokum til að eyða Satan djöflinum sem á sök á dauðanum. — Matteus 5:44, 45; Hebreabréfið 2:14; 2. Pétursbréf 3:9.
3. Hvers vegna gefur almætti Guðs okkur tilefni til að setja traust okkar á hann?
3 Við treystum himneskum föður okkar vegna hins mikilfenglega máttar hans og treystum bæði á fyrirheit hans og vernd. Lítið barn finnur til öryggis innan um ókunnuga við að grípa í hönd föður síns því að það veit að það er óhult hjá honum. Himneskur faðir okkar, sem ‚mátt hefur til að frelsa,‘ mun líka vernda okkur gegn varanlegum skaða ef við fylgjum vegum hans. (Jesaja 63:1; Míka 6:8) Jehóva heldur alltaf loforð sín eins og góður faðir. Ótakmarkaður máttur hans tryggir að ‚orð hans framkvæmir það sem honum vel líkar og kemur því til vegar, er hann fól því að framkvæma.‘ — Jesaja 55:11; Títusarbréfið 1:2.
4, 5. (a) Hver varð árangurinn þegar Asa konungur treysti Jehóva skilyrðislaust? (b) Hvernig gæti farið ef við treystum því að menn leysi vandamál okkar?
4 Hvers vegna megum við ekki missa sjónar á þeirri vernd sem himneskur faðir okkar veitir? Vegna þess að við gætum látið kringumstæðurnar buga okkur og gleymt hvar varanlegt öryggi er að finna. Asa konungur, sem treysti alla jafna á Jehóva, er gott dæmi um þetta. Á stjórnarárum hans réðst milljón manna her Blálendinga eða Eþíópíumanna gegn Júdaríki. Asa vissi að óvinirnir höfðu hernaðarlega yfirburði og bað því: „[Jehóva], enginn nema þú getur hjálpað lítilmagnanum gegn hinum voldugu. Hjálpa þú oss, [Jehóva], Guð vor, því að við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. [Jehóva], þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana.“ (2. Kroníkubók 14:11) Jehóva bænheyrði Asa og veitti honum ótvíræðan sigur.
5 Trú Asa á frelsismátt Jehóva fór að dvína eftir áralanga trúfasta þjónustu. Hann leitaði aðstoðar Sýrlendinga við að afstýra hernaðarárás frá norðurríkinu Ísrael. (2. Kroníkubók 16:1-3) Mútuféð sem hann fékk Benhadad Sýrlandskonungi afstýrði árás Ísraelsríkis á Júdaríki, en sáttmálinn við Sýrland bar vott um vantraust á Jehóva. Hananí spámaður spurði Asa beint út: „Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við [Jehóva] gaf hann þá þér á vald.“ (2. Kroníkubók 16:7, 8) Asa lét leiðbeiningarnar samt sem vind um eyru þjóta. (2. Kroníkubók 16:9 -12) Setjum ekki traust okkar á menn þegar við verðum fyrir erfiðleikum heldur sýnum að við treystum á Guð. Ef við treystum á mátt manna til að leysa vandann verðum við óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. — Sálmur 146:3-5.
Sækjumst eftir þeim krafti sem Jehóva veitir
6. Hvers vegna ættum við að ‚leita Jehóva og máttar hans‘?
6 Jehóva getur bæði veitt þjónum sínum kraft og vernd. Biblían hvetur okkur til að ‚leita [Jehóva] og máttar hans.‘ (Sálmur 105:4) Hvers vegna? Vegna þess að þegar við gerum eitthvað í krafti Guðs verður styrkur okkar öðrum til góðs fremur en ills. Jesús Kristur er besta dæmið um þetta, en hann gerði mörg kraftaverk með krafti [Jehóva.]‘ (Lúkas 5:17) Jesús hefði getað helgað sig því að auðgast, öðlast frægð eða jafnvel að verða alráður konungur. (Lúkas 4:5-7) Hann notaði í stað þess kraftinn sem Guð veitti honum til að kenna og fræða og til að hjálpa og lækna. (Markús 7:37; Jóhannes 7:46) Hann var okkur framúrskarandi fordæmi!
7. Hvaða ómissandi eiginleika erum við að leggja rækt við þegar við gerum eitthvað með krafti Guðs en ekki í eigin mætti?
7 Það er auðveldara fyrir okkur að sýna auðmýkt ef við gerum allt „eftir þeim mætti, sem Guð gefur.“ (1. Pétursbréf 4:11) Valdagráðugir menn verða hrokafullir. Asarhaddon Assýríukonungur er gott dæmi um það. Hann sagði hrokafullur: „Ég er voldugur, ég er alvaldur, ég er hetja, ég er gífurlega mikill, ég er tröllaukinn.“ Ólíkt þessu hefur Jehóva „útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða.“ Sannkristinn maður hreykir sér aðeins af Jehóva því að hann veit að hann getur ekkert gert í eigin krafti. ‚Auðmýkið ykkur því undir Guðs voldugu hönd,‘ það veitir sanna upphefð. — 1. Korintubréf 1:26-31; 1. Pétursbréf 5:6.
8. Hvað eigum við fyrst af öllu að gera til að öðlast kraft frá Jehóva?
8 Hvernig öðlumst við kraft frá Guði? Í fyrsta lagi verðum við að biðja um kraft í bæn. Jesús fullvissaði lærisveina sína um að faðir hans gæfi þeim heilagan anda sem bæðu hann. (Lúkas 11:10-13) Hugleiðum hvernig bænin fyllti lærisveinana krafti er þeir ákváðu að hlýða Guði fremur en trúarleiðtogunum sem höfðu skipað þeim að hætta að vitna um Jesú. Þegar þeir báðu til Jehóva um hjálp var einlægum bænum þeirra svarað og heilagur andi veitti þeim kraft til að halda áfram að boða fagnaðarerindið af djörfung. — Postulasagan 4:19, 20, 29-31, 33.
9. Hvað annað veitir okkur andlegan styrk og gefið biblíulegt dæmi um áhrif þess.
9 Í öðru lagi getum við fengið andlegan kraft frá Biblíunni. (Hebreabréfið 4:12) Máttur orðs Guðs kom skýrt fram á dögum Jósía Júdakonungs. Hann hafði fjarlægt öll heiðin skurðgoð úr landinu, en þegar lögmálsbók Jehóva fannst óvænt í musterinu var hann staðráðinn í að efla hreinsunaraðgerðirnar.a Eftir að hann las sjálfur lögmálið fyrir fólkið gerði þjóðin sáttmála við Jehóva og önnur enn öflugri herferð gegn skurðgoðadýrkun var hafin. Árangurinn af siðbót Jósía varð sá að „meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja [Jehóva], Guði feðra sinna.“ — 2. Kroníkubók 34:33.
10. Hver er þriðja leiðin til að öðlast styrk frá Jehóva og hvers vegna er hún mikilvæg?
10 Í þriðja lagi veitir hið kristna samfélag okkur styrk. Páll hvatti kristna menn til að sækja samkomur reglulega og ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka‘ og til að uppörva hver annan. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þegar Pétur losnaði á yfirnáttúrulegan hátt úr fangelsi langaði hann til að vera með bræðrum sínum. Þess vegna fór hann rakleitt heim til móður Jóhannesar, er kallaður var Markús, en „þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.“ (Postulasagan 12:12) Auðvitað hefðu allir getað beðist fyrir heima hjá sér. En þeir ákváðu að safnast saman til að biðja og uppörva hver annan á þessum erfiðu tímum. Er leið að lokum hinnar löngu og hættulegu ferðar Páls til Rómar hitti hann nokkra bræður í Púteólí og síðar hitti hann aðra sem höfðu lagt land undir fót til að hitta hann. Hver voru viðbrögð hans? „Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.“ (Postulasagan 28:13-15) Hann styrktist við að hitta trúbræður sína á ný. Samfélagið við trúsystkini veitir okkur líka styrk. Reynum aldrei að feta ein þrönga veginn er liggur til lífsins, svo framarlega sem við búum við frelsi til að hafa samfélag hvert við annað. — Orðskviðirnir 18:1; Matteus 7:14.
11. Nefnið tilvik þegar við þurfum sérstaklega á ‚ofurmagni kraftarins‘ að halda.
11 Reglulegt bænasamband, nám í orði Guðs og samfélag við trúsystkini ‚styrkir okkur nú í Drottni og í krafti máttar hans.‘ (Efesusbréfið 6:10) Við þurfum án efa öll á ‚styrk Drottins‘ að halda. Sumir eru haldnir þjakandi sjúkdómum en aðrir eiga í höggi við ellina eða hafa misst lifsförunaut sinn. (Sálmur 41:4) Enn aðrir þola andstöðu vantrúaðs maka. Foreldrum, einkum einstæðum foreldrum, finnst oft ákaflega erfitt að vinna fulla vinnu og ala jafnframt upp börn. Kristin ungmenni þurfa á styrk að halda til að standast hópþrýsting og hafna fíkniefnum og siðleysi. Enginn skyldi hika við að biðja Jehóva um „ofurmagn kraftarins“ til að geta staðist slíkt álag. — 2. Korintubréf 4:7.
„Veitir kraft hinum þreytta“
12. Hvernig styrkir Jehóva okkur í hinni kristnu þjónustu?
12 Jehóva veitir þjónum sínum auk þess kraft til að rækja þjónustuna. Við lesum í spádómi Jesaja: „Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. . . . en þeir, sem vona á [Jehóva] fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jesaja 40:29-31) Páll postuli hlaut sjálfur kraft til að boða fagnaðarerindið og það varð til þess að starf hans bar árangur. Hann skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda.“ (1. Þessaloníkubréf 1:5) Krafturinn í prédikun hans og kennslu gerbreytti lífi áheyrenda hans.
13. Hvað veitti Jeremía styrk til að standast andstöðu?
13 Við getum orðið vondauf þegar fólk er sinnulaust, til dæmis á svæði þar sem við höfum prédikað árum saman með litlum árangri. Jeremía missti kjarkinn sökum andstöðu og sinnuleysis og af því að fólk gerði gys að honum. „Ég skal ekki minnast [Guðs] og eigi framar tala í hans nafni,“ sagði hann við sjálfan sig. En hann gat ekki orða bundist. Boðskapurinn var eins og ‚eldur sem brann í hjarta hans.‘ (Jeremía 20:9) Hvað fyllti hann nýjum krafti í öllu þessu mótlæti? „[Jehóva] er með mér eins og voldug hetja,“ sagði hann. (Jeremía 20:11) Hann tók til sín hvatningu Jehóva og mat að verðleikum bæði boðskapinn og verkefnið sem Jehóva hafði falið honum.
Vald til að særa og vald til að græða
14. (a) Hve kröftugt verkfæri er tungan? (b) Nefnið dæmi um hve miklum skaða hún getur valdið.
14 Við höfum vald sem er ekki allt frá Guði. Tungan hefur til dæmis vald til að særa og til að græða. Salómon varaði við því að ‚dauði og líf séu á tungunnar valdi.‘ (Orðskviðirnir 18:21) Stutt samtal Satans og Evu sýnir hvað orð geta gert mikinn usla. (1. Mósebók 3:1-5; Jakobsbréfið 3:5) Við getum líka valdið miklu tjóni með tungunni. Niðrandi orð um holdafar ungrar stúlku geta leitt hana út í lystarstol. Hægt er að eyðileggja lífstíðarvináttu með því að hafa eftir niðrandi ummæli. Já, við verðum að hafa stjórn á tungunni.
15. Hvernig getum við notað tunguna til að byggja upp og græða?
15 Tungan getur á hinn bóginn byggt upp alveg eins og hún rífur niður. Biblíuorðskviður segir: „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ (Orðskviðirnir 12:18) Skynsamir kristnir menn nota mátt tungunnar til að uppörva niðurdregna og syrgjendur. Vinsamleg orð geta verið til hvatningar unglingum sem eiga í baráttu við skaðlegan hópþrýsting. Umhyggjusöm tunga getur fullvissað aldraða bræður og systur um að þeirra sé enn þörf og að öðrum þyki vænt um þau. Vingjarnleg orð geta hresst þá sem eru veikir. En fyrst og fremst ættum við að nota tunguna til að boða öllum, sem vilja hlusta, hinn kröftuga guðsríkisboðskap. Það er á okkar færi að boða orð Guðs svo framarlega sem við höfum rétt hjartalag. Biblían segir: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ — Orðskviðirnir 3:27.
Að fara rétt með vald
16, 17. Hvernig geta öldungar, foreldrar, eiginmenn og eiginkonur, sem fara með yfirráð frá Jehóva, líkt eftir honum?
16 Jehóva er almáttugur en stjórnar söfnuðinum með kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kristnir umsjónarmenn líkja eftir honum og sjá um hjörðina af kærleika. Þeir misnota ekki vald sitt. Umsjónarmenn þurfa vissulega stundum að ‚vanda um, ávíta og áminna‘ en það á að gera „með öllu langlyndi og fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Öldungar hafið hugföst orðin sem Pétur postuli skrifaði til þeirra sem fara með yfirráð í söfnuðinum: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ — 1. Pétursbréf 5:2, 3; 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
17 Jehóva hefur líka veitt foreldrum og eiginmönnum yfirráð. Þetta vald á að nota til að hjálpa, annast og hlúa að. (Efesusbréfið 5:22, 28-30; 6:4) Fordæmi Jesú sýnir að það ber góðan árangur að fara með vald á kærleiksríkan hátt. Stefnufastur og yfirvegaður agi gerir börnin ekki ístöðulaus. (Kólossubréfið 3:21) Hjónabandið styrkist þegar kristinn eiginmaður fer á kærleiksríkan hátt með forystuna og eiginkonan sýnir honum djúpa virðingu sem höfði fjölskyldunnar. Hún reynir ekki að stjórna eða ná sínu fram með því að fara út fyrir það valdsvið sem Guð hefur veitt henni. — Efesusbréfið 5:28, 33; 1. Pétursbréf 3:7.
18. (a) Hvernig eigum við að fylgja fordæmi Jehóva í að hafa stjórn á skapi okkar? (b) Hvað eiga þeir sem fara með yfirráð að reyna að glæða hjá þeim sem eru í umsjón þeirra?
18 Þeir sem fara með yfirráð í fjölskyldunni og söfnuðinum ættu einkum að gæta þess að hafa stjórn á skapi sínu því að reiði leiðir til ótta en ekki kærleika. Nahúm spámaður sagði: „[Jehóva] er seinn til reiði og mikill að krafti.“ (Nahúm 1:3; Kólossubréfið 3:19) Það er merki um styrkleika að hafa stjórn á skapi sínu en veikleikamerki að gefa reiðinni lausan tauminn. (Orðskviðirnir 16:32) Markmiðið er að glæða kærleikann, bæði innan fjölskyldunnar og safnaðarins — kærleikann til Jehóva, náungans og réttra meginreglna. Kærleikurinn er sterkasta einingarbandið og það er fyrst og fremst hann sem knýr okkur til að breyta rétt. — 1. Korintubréf 13:8, 13 ; Kólossubréfið 3:14.
19. Hvaða uppörvandi loforð gefur Jehóva og hver ættu viðbrögð okkar að vera?
19 Við skynjum mátt Jehóva ef við þekkjum hann. Hann segir fyrir munn Jesaja: „Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? [Jehóva] er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.“ (Jesaja 40:28) Máttur Jehóva er óþrjótandi. Ef við treystum á hann en ekki sjálf okkur yfirgefur hann okkur aldrei. Hann segir: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jesaja 41:10) Hver eru viðbrögð okkar við kærleiksríkri umhyggju hans? Notum alltaf kraftinn, sem Jehóva gefur okkur, til að hjálpa öðrum og uppbyggja þá eins og Jesús gerði. Höfum stjórn á tungunni svo að hún græði en særi ekki. Og verum ávallt andlega vakandi, staðföst í trúnni og styrk í krafti hins mikla skapara, Jehóva Guðs. — 1. Korintubréf 16:13.
[Neðanmáls]
a Gyðingarnir fundu greinilega frumeintak Móselaganna sem hafði verið komið fyrir í musterinu mörgum öldum áður.
Geturðu útskýrt?
• Hvernig beitir Jehóva valdi sínu?
• Hvernig veitir kraftur Jehóva okkur styrk?
• Hvernig ber að fara með vald tungunnar?
• Hvernig getur yfirvald frá Guði verið til blessunar?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Jesús notaði kraft Jehóva til að hjálpa öðrum.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Það er á okkar valdi að boða orð Guðs, svo framarlega sem við höfum rétt hjartalag.