Munt þú njóta góðs af sáttmálum Guðs?
„‚Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.‘ Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.“ — GALATABRÉFIÐ 3:8, 9.
1. Hvað sýnir mannkynssagan um getuleysi margs kyns stjórnarforma?
SUMIR af valdsherrum Evrópu á 18. öld voru kallaðir „hinir menntuðu einvaldar.“ Þeir ‚hugðust stjórna þegnum sínum með föðurlegri gæsku, en áform þeirra mistókust og endurbæturnar runnu út í sandinn.‘a (The Encyclopedia Americana) Það varð síðan ein af meginorsökum byltinganna sem skömmu eftir það brutust út í mörgum Evrópuríkjum.
2, 3. Í hverju er Jehóva ólíkur mennskum einvöldum?
2 Jehóva er harla frábrugðinn hinum óútreiknanlegu mennsku stjórnendum. Ekki er vandséð að mannkynið þarfnast þess sárlega að sjá breytingar er geta veitt því varanlega lausn undan ranglæti og þjáningum. En við þurfum ekki að óttast að aðgerðir Guðs til þessa ráðist af duttlungum augnabliksins. Í útbreiddustu bók veraldar hefur hann skjalfest loforð sitt um að veita trúuðu mannkyni varanlega blessun. Það mun hann gera óháð þjóðerni, kynþætti, menntun eða þjóðfélagsstöðu manna. (Galatabréfið 3:28) En getur þú treyst því?
3 Páll postuli vitnaði einu sinni í hluta þess loforðs er Guð hafði gefið Abraham: „Sannlega mun ég ríkulega blessa þig.“ Páll bætti við að ‚óhugsandi væri að Guð færi með lygi‘ og við hefðum því ‚sterka uppörvun í þeirri von sem við ættum.‘ (Hebreabréfið 6:13-18) Það styrkir traust okkar á þessum loforðum að íhuga hve traustan grundvöll Guð hefur lagt að því að láta þau rætast.
4. Hvernig notaði Guð sér ýmsa sáttmála til að fullna tilgang sinn?
4 Við höfum þegar veitt athygli að Guð gerði sáttmála við Abraham um afkvæmi er eiga skyldi þátt í að blessa „allar þjóðir á jörðinni.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Ísraelsmenn urðu holdlegt afkvæmi hans, en í hinni þýðingarmeiri, andlegu uppfyllingu var Jesús Kristur aðalsæði Abrahams. Jesús var einnig sonur, sæði eða afkvæmi hins meiri Abrahams, Jehóva. Kristnir menn, sem ‚tilheyra Kristi,‘ mynda viðbótarsæði Abrahams. (Galatabréfið 3:16, 29) Eftir að Guð hafði gert sáttmálann við Abraham bætti hann til bráðabirgða við lagasáttmálanum er hann gerði við Ísraelsþjóðina. Hann sannaði að Ísraelsmenn voru syndarar er þörfnuðust ódauðlegs æðsta prests og fullkominnar fórnar. Hann verndaði ættlegg sæðisins og hjálpaði mönnum að bera kennsl á það. Lagasáttmálinn sýndi einnig fram á að Guð myndi á einhvern hátt mynda þjóð konunga og presta. Meðan lagasáttmálinn var enn í gildi gerði Guð sáttmála við Davíð um konungaætt í Ísrael. Sáttmálinn við Davíð um ríki benti einnig fram til þess að sá skyldi koma er fengi eilíft stjórnvald yfir jörðinni.
5. Hvaða spurningar þörfnuðust enn svara?
5 Ýmsar hliðar þessa sáttmála virtust þó ófullnægjandi eða óljósar. Hvernig gat hið komandi sæði orðið eilífur prestur er gæti áorkað meiru en fyrri prestar, ef það átti að vera konungur af ættlegg Davíðs? (Hebreabréfið 5:1; 7:13, 14) Gæti þessi konungur ráðið yfir meiru en aðeins afmörkuðum jarðarskika? Hvernig gæti viðbótarsæðið uppfyllt þau skilyrði er þyrfti til að tilheyra fjölskyldu hins meiri Abrahams? Og ef það gæti það, yfir hverju ætti það að ríkja með hliðsjón af því að einungis minnihluti þess myndi vera kominn af Davíð? Við skulum skoða hvernig Guð gerði nauðsynlegar, lagalegar ráðstafanir í mynd viðbótarsáttmála, til að svara þessum spurningum og gera eilífa blessun mögulega.
Sáttmáli um himneskan prestdóm
6, 7. (a) Hvaða sáttmála gerði Guð samkvæmt Sálmi 110:4? (b) Hvaða vitneskja hjálpar okkur að skilja þennan sáttmála?
6 Eins og við höfum séð gerði Guð sáttmála við Davíð, meðan lagasáttmálinn var enn í gildi, þess efnis að afkomandi hans (sæði) myndi fá varanlegt stjórnvald yfir jörðinni. En Jehóva upplýsti Davíð einnig um að koma myndi eilífur prestur. Davíð skrifaði: „[Jehóva] hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: ‚Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks.‘“ (Sálmur 110:4) Hvað lá að baki þessum eiði sem var í reynd einkasáttmáli milli Jehóva og hins komandi prests?
7 Melkísedek hafði verið konungur í Salem til forna þar sem borgin Jerúsalem var síðar byggð. Nafnið „Salem“ er innifalið í borgarnafninu. Frásagan af fundi Abrahams og Melkísedeks greinir frá því að hann hafi verið konungur er tilbað ‚hinn hæsta Guð.‘ (1. Mósebók 14:17-20) En orð Guðs í Sálmi 110:4 sýna að Melkísedek var að því leyti óvenjuleg persóna að hann var einnig prestur. Hann var bæði konungur og prestur á þeim sama stað og konungar af ætt Davíðs og prestar af ætt Leví ræktu síðar skyldur síðan gagnvart Guði.
8. Við hvern var þessi sáttmáli um prest að hætti Melkísedeks gerður og með hvaða afleiðingum?
8 Páll veitir okkur ítarlegri upplýsingar um þennan sáttmála um prestdóm að hætti Melkísedeks. Til dæmis segir hann að Jesús Kristur hafi verið „af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.“ (Hebreabréfið 5:4-10; 6:20; 7:17, 21, 22) Enda þótt Melkísedek væri augljóslega af mennskum foreldrum kominn eru engar upplýsingar gefnar um ætt hans. Jesús erfði ekki prestdóm vegna ættartengsla við Melkísedek heldur var hann skipaður beint af Guði. Prestdómur Jesú gengur ekki heldur til neins arftaka því að „hann heldur áfram að vera prestur um aldur.“ Með því er átt við að gæðin sem fylgja prestþjónustu hans verða eilíf. Það er mikil blessun að eiga sér prest sem „getur . . . til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð,“ og getur um alla eilífð frætt og leiðbeint trúföstum mönnum. — Hebreabréfið 7:1-3, 15-17, 23-25.
9, 10. Hvernig eykur vitneskjan um þennan fimmta sáttmála skilning okkar á því hvernig tilgangur Guðs mun fullnast?
9 Annað mikilsvert atriði er það að hlutverk Jesú sem prestkonungs takmarkast ekki við jörðina. Í því samhengi sem minnst er á þennan sáttmála um prest að hætti Melkísedeks skrifaði Davíð: „Svo segir [Jehóva] við herra minn: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘“ Við sjáum þannig að Jesús — herra Davíðs — átti að taka sæti á himnum hjá Jehóva, en það átti sér stað við uppstigningu hans. Frá himnum ofan getur Kristur beitt valdi sínu ásamt föðurnum til þess að leggja undir sig óvinina og fullnægja dómum. — Sálmur 110:1, 2; Postulasagan 2:33-36; Hebreabréfið 1:3; 8:1; 12:2.
10 Vitneskja okkar um þennan fimmta sáttmála gefur okkur gleggri mynd af því hversu skipulega og nákvæmlega Jehóva mun fullna tilgang sinn. Hann staðfestir að aðalsæðið verður einnig prestur á himnum og að sem prestkonungur mun hann fara með alheimsvald. — 1. Pétursbréf 3:22.
Nýi sáttmálinn og viðbótarsæðið
11. Hvaða vandi kom upp í sambandi við viðbótarsæðið?
11 Þegar við fjölluðum um Abrahamssáttmálann veittum við athygli að Jesús varð aðalsæði hans vegna náttúrlegs réttar. Hann var beinn afkomandi ættföðurins Abrahams, og sem fullkominn maður hlaut hann viðurkenningu sem sonur hins meiri Abrahams. En hvað um menn sem hafa þau sérréttindi að verða viðbótarsæði Abrahams, „erfingjar eftir fyrirheitinu“? (Galatabréfið 3:29) Með því að þeir voru ófullkomnir afkomendur syndarans Adams voru þeir ekki hæfir til að tilheyra fjölskyldu Jehóva, hins meiri Abrahams. Hvernig var hægt að yfirstíga þann tálma sem ófullkomleikinn var? Þótt það væri ógerlegt fyrir menn var það alls ekki Guði um megn. — Matteus 19:25, 26.
12, 13. (a) Hvernig sagði Guð fyrir tilkomu nýs sáttmála? (b) Hvaða ákvæði þessa sáttmála verðskulda athygli okkar?
12 Meðan lögmálið var enn í gildi sagði Guð fyrir munn spámanns síns: „Ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, . . . sáttmálann sem þeir hafa rofið . . . Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: ‚Lærið að þekkja [Jehóva],‘ því að þeir munu allir þekkja mig . . . Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ — Jeremía 31:31-34.
13 Veittu því athygli að einn þáttur þessa nýja sáttmála var fyrirgefning synda, bersýnilega á annan hátt en möguleg var vegna dýrafórnanna undir lögmálinu. Jesús varpaði ljósi á það á dánardegi sínum. Eftir að hafa haldið páska með lærisveinum sínum, eins og lögmálið krafðist, stofnaði Kristur kvöldmáltíð Drottins. Við þessa árlegu kvöldmáltíð áttu þeir að drekka af sameiginlegum vínbikar sem Jesús sagði um: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ — Lúkas 22:14-20.
14. Hvers vegna er nýi sáttmálinn þýðingarmikill til að leiða fram viðbótarsæðið?
14 Nýi sáttmálinn átti því að taka gildi vegna blóðs Jesú. Á grundvelli slíkrar fullkominnar fórnar gat Guð ‚fyrirgefið misgjörðir og syndir‘ í eitt skipti fyrir öll. Hugsaðu þér hvað það myndi hafa í för með sér! Með því að Guð gat fyrirgefið fullkomlega syndir manna af ætt Adams gat hann litið á þá sem syndlausa, getið þá sem andlega syni hins meiri Abrahams, og síðan smurt þá með heilögum anda. (Rómverjabréfið 8:14-17) Þessi nýi sáttmáli, sem fullgiltur var með fórn Jesú, gerir lærisveinum hans þannig fært að verða viðbótarsæði Abrahams. Páll skrifaði: „Með dauða sínum [gat Jesús] að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi. Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.“ — Hebreabréfið 2:14-16; 9:14.
15. Hverjir eiga aðild að nýja sáttmálanum?
15 Jesús var því bæði meðalgangari nýja sáttmálans og sú fórn sem fullgilti hann. En milli hverra var sáttmálinn gerður? Jeremía sagði fyrir að Guð myndi gera þennan sáttmála við „Ísraels hús.“ Hvaða Ísrael er þar um að ræða? Ekki er það Ísrael að holdinu, umskornir menn undir lagasáttmálanum, því að nýi sáttmálinn gerði hinn fyrri úreltan. (Hebreabréfið 8:7, 13) Nú ætlaði Guð að eiga viðskipti bæði við Gyðinga og heiðingja sem vegna trúar sinnar voru á táknrænan hátt ‚umskornir á hjarta í anda.‘ Það kemur heim og saman við þau orð hans að aðilar að nýja sáttmálanum myndu fá ‚lög hans rituð í hugskot sitt og hjarta.‘ (Rómverjabréfið 2:28, 29; Hebreabréfið 8:10) Páll kallaði slíka andlega Gyðinga „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16; Jakobsbréfið 1:1.
16. Hvernig á nýi sáttmálinn þátt í að áorka því sem 2. Mósebók 19:6 vísaði fram til?
16 Þar eð Guð átti nú viðskipti við andlegan Ísrael opnuðust nýir möguleikar. Þegar Guð gaf Ísraelssonum lögmálið talaði hann um að þeir ættu að vera honum „prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:6) En Ísrael að holdinu gat aldrei orðið og varð aldrei þjóð þar sem allir voru prestkonungar. Það gátu hins vegar Gyðingar og heiðingjar er hlutu viðurkenningu sem viðbótarsæði Abrahams.b Pétur postuli staðfesti það og sagði við þá: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ Hann talaði einnig um ‚ófölnandi arfleifð sem þeim var geymd á himnum.‘ — 1. Pétursbréf 1:4; 2:9, 10.
17. Hvers vegna er nýi sáttmálinn „betri“ en lagasáttmálinn?
17 Nýi sáttmálinn vinnur því með Abrahamssáttmálanum, sem fyrir var, að því að leiða fram viðbótarsæðið. Þessi nýi sáttmáli milli Jehóva og andagetinna kristinna manna býður upp á að mynduð sé himnesk þjóð prestkonunga í konungsætt hins meiri Abrahams. Við skiljum nú hvers vegna Páll sagði að þetta væri ‚betri sáttmáli sem byggðist á betri fyrirheitum.‘ (Hebreabréfið 8:6) Fyrirheitin fela í sér þá blessun að dyggir þjónar Guðs fá lögmál hans skrifað á hjörtu sér, að synda þeirra er ekki minnst framar og að allir, „jafnt smáir sem stórir,“ skulu þekkja Jehóva. — Hebreabréfið 8:11.
Sáttmáli Jesú um ríki
18. Hvaða spurningum er enn ekki svarað og hvers vegna?
18 Þegar litið er á sáttmálana sex, sem við höfum nú rætt, er ekki annað að sjá en að Jehóva hafi gengið frá öllum lagalegum atriðum sem þurfti til að fullna tilgang sinn. En Biblían nefnir enn einn sáttmála er tengist því sem við höfum fjallað um, sáttmála sem fullkomnar enn einn hluta þessa mikilvæga máls. Andagetnir kristnir menn geta réttilega vænst þess að ‚Drottinn frelsi þá frá öllu illu og leiði þá hólpna inn í sitt himneska ríki.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:18) Á himnum verða þeir þjóð prestkonunga, en yfir hverju eiga þeir að ríkja? Þegar þeir eru reistir upp til himna er Kristur þar fyrir sem fullkominn æðsti prestur. Hann hefur þá einnig gengið fram sem konungur yfir öllu. (Sálmur 2:6-9; Opinberunarbókin 11:15) Hvað hafa hinir prestkonungarnir þá að gera?
19. Hvenær og hvernig var sjöundi sáttmálinn gerður?
19 Þann 14. nísan árið 33, kvöldið sem Jesús stofnsetti kvöldmáltíð Drottins og minntist á ‚nýja sáttmálann í sínu blóði,‘ talaði hann um annan sáttmála, þann sjöunda sem við fjöllum um. Hann sagði trúföstum postulum sínum: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur [„geri við ykkur sáttmála um ríki,“ NW], eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúkas 22:20, 28-30) Alveg eins og faðirinn hefur gert sáttmála við Jesú um prestdóm að hætti Melkísedeks hefur Kristur gert einkasáttmála við drottinholla fylgjendur sína.
20. Við hverja var sáttmálinn um ríki gerður og hvers vegna? (Daníel 7:18; 2. Tímóteusarbréf 2:11-13)
20 Postularnir ellefu höfðu vissulega staðið með Jesú í þrengingum hans og sáttmálinn sýndi að þeir ættu að sitja í hásætum. Opinberunarbókin 3:21 sýnir enn fremur að allir andagetnir kristnir menn, sem sýna sig trúfasta, munu sitja í hásætum á himnum. Sáttmálinn er því gerður við allar þær 144.000 sem eru keyptar með blóði Jesú, fá upprisu til himna og verða þar prestar og ‚ríkja yfir jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 1:4-6; 5:9, 10; 20:6) Sáttmálinn, sem Jesús gerir við þá, gefur þeim hlutdeild í stjórn hans. Að sumu leyti má líkja þessu við brúði af göfugri ætt sem giftist ríkjandi einvaldi. Hún kemst við það í aðstöðu til að eiga hlutdeild í valdi hans. — Jóhannes 3:29; 2. Korintubréf 11:2; Opinberunarbókin 19:7, 8.
21-23. Hvaða blessun munu þessir sáttmálar hafa í för með sér, og hvað eru menn hvattir til að gera?
21 Hvaða gæði mun þetta hafa í för með sér fyrir hlýðið mannkyn? Hvorki Jesús né hinar 144.000 verða eins og hinir menntuðu einvaldar sem ‚kunnu engin eiginleg svör.‘ Við erum þess í stað fullvissaðir um að Jesús sé æðsti prestur sem hafi verið ‚freistað á allan hátt eins og okkar, en án syndar.‘ Við skiljum þannig hvernig hann getur „séð aumur“ á veikleikum manna og hvers vegna hinir ‚aðrir sauðir‘ geta einnig, fyrir milligöngu Krists, nálgast hásæti Guðs „með djörfung,“ líkt og smurðir kristnir menn. Þannig getum við ‚öðlast miskunn og hlotið náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.‘ — Hebreabréfið 4:14-16; Jóhannes 10:16.
22 Þeir sem eiga í krafti sáttmálans að þjóna sem prestkonungar ásamt Kristi eiga einnig hlut í því að blessa mannkynið. Eins og Levítaprestarnir til forna voru allri Ísraelsþjóðinni til góðs, eins munu þeir sem sitja í himneskum hásætum með Jesú dæma alla jarðarbúa með réttlæti. (Lúkas 22:30) Þessir prestkonungar voru einu sinni menn og skilja því tilfinningar manna. Þetta viðbótarsæði mun vinna með Jesú að því að ‚allar þjóðir hljóti blessun.‘ — Galatabréfið 3:8.
23 Öllum sem þrá að eiga hlutdeild í þessari blessun mannkynsins og njóta góðs af sáttmálum Guðs er boðið að gera það. Þeir eru eindregið hvattir til að hlusta vel á það sem „andinn og brúðurin segja“ og notfæra sér boðið: „‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ — Opinberunarbókin 22:17.
[Neðanmáls]
a „Jafnvel eftir djörfustu umbæturnar skiptust þjóðirnar enn sem fyrr í fátæka bændastétt, ofdekraða, lágt skattlagða aðalstétt, og miðstétt sem féll illa inn í stjórnkerfi og þjóðfélag . . . Þegar hið menntaða einveldi tók að standa frammi fyrir spurningum, sem ekki var lengur hægt að skella skollaeyrunum við, kunni það engin eiginleg svör innan ramma ríkjandi stjórnmála- og efnahagsveruleika.“ — Western Civilization—Its Genesis and Destiny: The Modern Heritage.
b Jesús er ekki aðili að nýja sáttmálanum. Hann er meðalgangari hans og hefur engar syndir drýgt er hann þarf að fá fyrirgefnar. Hann þarfnast hans ekki heldur til að verða prestkonungur, því að hann er konungur samkvæmt Davíðssáttmálanum og einnig prestur að hætti Melkísedeks.
Manst þú?
◻ Hvers vegna var gerður sáttmálinn sem talað er um í Sálmi 110:4 og hverju áorkaði hann?
◻ Hverjir eiga aðild að nýja sáttmálanum og hvernig stuðlaði hann að tilurð þjóðar prestkonunga?
◻ Hvers vegna gerði Jesús persónulegan sáttmála við lærisveina sína?
◻ Hvað sjö sáttmála höfum við fjallað um?
[Skýringamynd á blaðsíðu 15]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Sáttmálinn í Eden — 1. Mósebók 3:15
Abrahamssáttmálinn
Lagasáttmálinn
Sáttmálinn við Davíð um ríki
Sáttmáli um prestdóm að hætti Melkísedeks
Aðalsæði
Viðbótarsæði
Eilíf blessun
[Skýringamynd á blaðsíðu 17]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Sáttmálinn í Eden — 1. Mósebók 3:15
Abrahamssáttmálinn
Lagasáttmálinn
Nýi sáttmálinn
Sáttmálinn við Davíð um ríki
Sáttmáli um prestdóm að hætti Melkísedeks
Aðalsæði
Sáttmáli um himneskt ríki
Viðbótarsæði
Eilíf blessun