Jehóva verðskuldar að við lofum hann í sameiningu
„Hallelúja. Ég vil lofa Drottin.“ — SÁLM. 111:1.
1, 2. Hvað merkir orðið „hallelúja“ og hvernig er það notað í grísku ritningunum?
„HALLELÚJA!“ Oft má heyra þessa upphrópun í kirkjum kristna heimsins. Sums staðar er fólki tamt að nota þetta orð til áherslu í daglegu tali. Fáir þekkja hins vegar hina helgu merkingu þess, og margir, sem taka sér það í munn, óvirða Guð með líferni sínu. (Tít. 1:16) Í biblíuorðabók kemur fram að „höfundar ýmissa sálma nota orðið hallelúja til að hvetja alla til að taka undir með sér og lofa Jehóva“. Nokkrir biblíufræðingar benda á að „hallelúja“ merki „‚lofið Jah‘, [það er] Jehóva“.a
2 Það er vel skiljanlegt að í Nýheimsþýðingunni skuli þetta orð í Sálmi 111:1 vera þýtt: „Lofið Jah!“ Gríska mynd orðsins er að finna fjórum sinnum í Opinberunarbókinni 19:1-6 þar sem fagnað er endalokum falstrúarbragðanna. Þegar það á sér stað hafa sannir tilbiðjendur Guðs sérstaka ástæðu til að lofa hann og segja „hallelúja“.
Mikilfengleg verk Jehóva
3. Hvert er helsta markmiðið með því að safnast reglulega saman?
3 Í Sálmi 111 eru nefndar margar ástæður fyrir því að Jehóva verðskuldi að við lofum hann í sameiningu. Í 1. versinu segir sálmaskáldið: „Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta í félagi og söfnuði réttvísra.“ Vottum Jehóva nú á dögum er eins innanbrjósts. Helsta markmiðið með því að koma reglulega saman, bæði á safnaðarsamkomum og fjölmennum mótum, er að lofa Jehóva.
4. Hvernig geta menn íhugað verk Jehóva?
4 „Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum er hafa unun af þeim.“ (Sálm. 111:2) Að sögn heimildarrits má heimfæra versið á menn sem „rannsaka og hugleiða“ verk Guðs af einlægni og áhuga. Augljóst er að allt sem hann hefur skapað þjónar stórfenglegum tilgangi. Hann staðsetti sólina, jörðina og tunglið þannig að afstaða þeirra hvert til annars tryggir jörðinni birtu og yl, og það skiptast á dagar og nætur, árstíðir og sjávarföll.
5. Hvað hefur aukin þekking á alheiminum leitt í ljós?
5 Vísindamenn hafa uppgötvað margt varðandi stöðu jarðar í sólkerfinu. Meðal annars hafa þeir komist að raun um að stærð, massi og sporbraut tunglsins hæfir jörðinni fullkomlega. Staðsetning himintunglanna og samspil þeirra gerir að verkum að við sjáum skiptast á fagrar árstíðir með reglubundnu millibili. Sömuleiðis hefur margt komið í ljós varðandi fínstillingu náttúruaflanna í alheiminum. Prófessor í vélaverkfræði skrifaði grein fyrir fáeinum árum sem hann nefndi: „Alheimurinn var hannaður nákvæmlega svona“. Þar segir: „Það er auðskilið hvers vegna svona margir vísindamenn hafa skipt um skoðun á síðustu 30 árum og fallast á að það þurfi býsna sterka trú til að halda því fram að alheimurinn hafi orðið til af hreinni tilviljun. Því betur sem við skiljum hve vönduð smíði jörðin er því sterkari verða rökin fyrir því að hún sé hönnuð af hugviti.“
6. Hvað finnst þér um gerð mannslíkamans?
6 Við mennirnir erum annað dæmi um snilldarlegt sköpunarverk Guðs. (Sálm. 139:14) Guð gaf manninum huga og líkama með öllum nauðsynlegum líffærum ásamt hæfni og getu til að vinna. Okkur er áskapaður sá undursamlegi hæfileiki að geta talað og hlustað og við getum lært að lesa og skrifa. Mannslíkaminn, sem er hrein meistarasmíð, er þannig byggður að við getum staðið upprétt, haldið jafnvægi og unnið með höndum okkar. Við neytum matar og vinnum orku úr fæðunni. Flókið taugakerfi líkamans, hugarstarfsemin og skilningarvitin skara langt fram úr öllu sem vísindamenn hafa getað búið til. Sannleikurinn er sá að mennirnir gætu ekki búið til nokkurn skapaðan hlut ef þeir hefðu ekki hugann og skilningarvitin. Jafnvel færasti og menntaðasti verkfræðingur gæti ekki smíðað jafn fallegt og vel hannað verkfæri og mannshöndina með sínum fimu fingrum. Það er gott að spyrja sig hvort maðurinn hefði getað búið til fögur listaverk og fallega gripi án þess að beita fingrunum tíu sem Guð gaf honum.
Eiginleikar Guðs og sköpunarverk
7. Af hverju ættum við að líta á Biblíuna sem eitt af stórverkum Jehóva?
7 Jehóva hefur einnig unnið mikilfengleg verk í þágu mannkynsins. Þeim er lýst í Biblíunni sem er ein samræmd heild og sannkallað meistaraverk. Ólíkt öllum öðrum bókum er hún „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu“. (2. Tím. 3:16) Í fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók, kemur til dæmis fram hvernig Jehóva hreinsaði jörðina af allri illsku á dögum Nóa. Í framhaldinu, 2. Mósebók, er sagt frá því hvernig hann upphóf guðdóm sinn með því að frelsa Ísraelsmenn undan þrælkun Egypta. Sennilegt er að sálmaritarinn hafi haft þessa atburði í huga þegar hann orti: „Tign og vegsemd eru verk [Jehóva] og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu. Hann hefur látið minnast dásemdarverka sinna, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.“ (Sálm. 111:3, 4) Ertu ekki sammála því að verk Jehóva á öllum tímum, einnig á okkar tímum, minni á „tign og vegsemd“ hans?
8, 9. (a) Að hvaða leyti eru verk Guðs ólík mörgum af verkum manna? (b) Hvaða eiginleika Jehóva kanntu sérstaklega að meta?
8 Við tökum eftir að sálmaritarinn leggur einnig áherslu á einstaka eiginleika Jehóva, til dæmis réttlæti, náð og miskunn. Verk syndugra manna byggjast sjaldan á réttlæti eins og við vitum. Oft eru þau sprottin af græðgi, hroka og öfund. Það má sjá af drápstólunum sem menn framleiða í gróðaskyni og til að heyja stríð með tilheyrandi hryllingi og hörmungum fyrir milljónir saklausra manna. Mörg af verkum mannanna hafa komið illa niður á fátækum og aukið á kúgunina. Nefna mætti sem dæmi hvernig Egyptar notuðu þræla til að byggja píramídana, en þeir voru fyrst og fremst reistir sem grafhýsi stoltra faraóa. Og mörg af verkum mannkyns núna eru ekki bara þjakandi heldur ‚eyða jörðina‘. — Lestu Opinberunarbókina 11:18.
9 Verk Jehóva eru gerólík vegna þess að þau eru alltaf byggð á réttlæti. Eitt af verkum hans er það að sýna syndugu mannkyni þá miskunn að veita því von um hjálpræði. Hann sýndi réttlæti sitt með því að láta lausnargjaldið í té. (Rómv. 3:25, 26) Það má með sanni segja að réttlæti hans „stendur stöðugt að eilífu“. Og Guð hefur sýnt syndugum mönnum náð sína með því að vera þolinmóður við þá. Hann talaði stundum mjög hlýlega til þeirra þegar hann hvatti þá til að snúa baki við rangri stefnu sinni og gera rétt. — Lestu Esekíel 18:25.
Trúr loforðum sínum
10. Hvernig hélt Jehóva sáttmálann við Abraham?
10 „Hann gaf þeim fæðu er óttast hann, minnist sáttmála síns ævinlega.“ (Sálm. 111:5) Sálmaritarinn virðist vísa hér til sáttmálans sem Jehóva gerði við Abraham. Jehóva hét að blessa niðja Abrahams og sagði að þeir myndu ná borgarhliðum óvina sinna. (1. Mós. 22:17, 18; Sálm. 105:8, 9) Þessi fyrirheit uppfylltust í byrjun með þeim hætti að Ísraelsþjóðin kom af niðjum Abrahams. Þjóðin var hneppt í langa þrælkun í Egyptalandi en síðan „minntist [Jehóva] sáttmála síns við . . . Abraham“ og frelsaði hana. (2. Mós. 2:24) Samskipti hans við Ísraelsmenn í framhaldinu sýna glöggt hve örlátur hann er. Hann sá þeim bæði fyrir líkamlegri fæðu og nærði hugi þeirra og hjörtu. (5. Mós. 6:1-3; 8:4; Nehem. 9:21) Á næstu öldum á eftir sneri þjóðin oft baki við Guði en hann sendi spámenn til hennar til að hvetja hana til að snúa við. Meira en 1.500 árum eftir að hann frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi sendi hann einkason sinn til jarðar. Meirihluti Gyðinga hafnaði Jesú og lét taka hann af lífi. Þá myndaði Jehóva nýja þjóð, andlega þjóð sem kölluð er „Ísrael Guðs“. Þessi þjóð er, ásamt Kristi, andlegir niðjar Abrahams sem Jehóva sagðist myndu nota til að blessa mannkyn. — Gal. 3:16, 29; 6:16.
11. Hvernig minnist Jehóva enn sáttmálans við Abraham?
11 Jehóva ‚minnist enn sáttmála síns‘ og þeirrar blessunar sem er lofað samkvæmt honum. Nú á dögum lætur hann í té andlega fæðu í miklu magni á meira en 400 tungumálum. Hann svarar einnig bænum okkar um líkamlega fæðu í samræmi við bænarorðin: „Gef oss hvern dag vort daglegt brauð.“ — Lúk. 11:3; Sálm. 72:16, 17; Jes. 25:6-8.
Ógnarmáttur Jehóva
12. Á hvaða hátt var Ísraelsmönnum gefinn ‚erfðahlutur annarra þjóða‘?
12 „Hann kunngjörði þjóð sinni mátt verka sinna með því að gefa henni erfðahlut annarra þjóða.“ (Sálm. 111:6) Sálmaritarinn kann að hafa haft í huga þann merkisatburð í sögu Ísraels þegar Jehóva frelsaði þjóðina með undraverðum hætti frá Egyptalandi. Þegar Jehóva leyfði Ísraelsmönnum að lokum að ganga inn í fyrirheitna landið tókst þeim að sigra þjóðir bæði austan og vestan Jórdanar. (Lestu Nehemíabók 9:22-25.) Jehóva gaf Ísraelsmönnum sannarlega „erfðahlut annarra þjóða“. Hvílík opinberun á mætti hans!
13, 14. (a) Hvaða opinberun á mætti Guðs í tengslum við Babýlon kann sálmaritarinn að hafa haft í huga? (b) Hvaða önnur máttarverk hefur Jehóva unnið til að frelsa þjóna sína?
13 Við vitum þó að þrátt fyrir allt sem Jehóva hafði gert fyrir Ísraelsmenn sýndu þeir hvorki honum né forfeðrum sínum, þeim Abraham, Ísak og Jakobi, virðingu. Þeir gerðu uppreisn æ ofan í æ uns Guð notaði Babýloníumenn til að flytja þá í útlegð. (2. Kron. 36:15-17; Nehem. 9:28-30) Sumir biblíufræðingar telja að Sálmur 111 hafi verið ortur eftir heimkomu Ísraelsmanna frá Babýlon. Ef það er rétt hafði sálmaritarinn enn sterkara tilefni til að lofa Jehóva fyrir mátt hans og hollustu sem hann sýndi með því að leysa Gyðinga úr greipum Babýlonar en Babýloníumenn höfðu þá stefnu að sleppa aldrei bandingjum. — Jes. 14:4, 17.
14 Um fimm öldum síðar beitti Jehóva mætti sínum með enn stórfenglegri hætti þegar hann frelsaði iðrandi menn úr þrælkun syndar og dauða. (Rómv. 5:12) Þar með opnaðist leið fyrir 144.000 manns til að verða andasmurðir fylgjendur Krists. Árið 1919 notaði Jehóva mátt sinn til að frelsa lítinn hóp sem eftir var af þessum andasmurðu úr ánauð falstrúarbragða. Það sem þeir hafa afrekað núna á endalokatímanum verður ekki skýrt öðruvísi en að máttur Guðs hafi verið að verki. Með því að vera trúir allt til dauða fá þeir að ríkja með Jesú Kristi á himnum og stjórna málefnum jarðar til góðs fyrir iðrandi menn. (Opinb. 2:26, 27; 5:9, 10) Þeir erfa jörðina í mun ríkari mæli en Ísraelsmenn forðum daga. — Matt. 5:5.
Eilífar og traustar meginreglur
15, 16. (a) Hvað er meðal annars fólgið í verkum Guðs? (b) Hvaða lög setti Guð í Ísrael?
15 „Hann er trúr og réttlátur í öllum verkum sínum, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg, standa óhagganleg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.“ (Sálm. 111:7, 8) Meðal verka Jehóva má nefna steintöflurnar tvær sem á voru rituð tíu mikilvæg lög í Ísrael. (2. Mós. 31:18) Þessi lög voru byggð á eilífum og traustum meginreglum, og hið sama er að segja um öll hin ákvæðin sem voru í lagasáttmála Móse.
16 Til dæmis segir í einu af ákvæðunum sem var að finna á steintöflunum: „Ég, Jehóva Guð þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“ (2. Mós. 20:5, NW) Þar kemur einnig fram að Jehóva „sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska [hann] og halda boð [hans]“. Á steintöflunum voru sígildar meginreglur eins og „heiðra föður þinn og móður“ og „þú skalt ekki stela“, ásamt djúphugsuðu ákvæði þess efnis að ekki mætti girnast eigur annarra. — 2. Mós. 20:6, 12, 15, 17.
Heilagur lausnari — „óttalegt er nafn hans“
17. Af hverju hefðu Ísraelsmenn átt að virða heilagt nafn Guðs?
17 „Hann sendi lausn lýð sínum, setti sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.“ (Sálm. 111:9) Vera má að hér hugsi sálmaritarinn aftur til þess að Jehóva var trúr sáttmálanum sem hann gerði við Abraham. Það var vegna þessa sáttmála sem Jehóva yfirgaf ekki þjóð sína meðan hún var í ánauð í Egyptalandi og ekki heldur meðan hún var í útlegð í Babýlon. Í báðum tilvikum leysti hann þjóð sína úr haldi. Þessi stórvirki Jehóva hefðu átt að nægja til þess að Ísraelsmenn virtu heilagt nafn hans. — Lestu 2. Mósebók 20:7; Rómverjabréfið 2:23, 24.
18. Af hverju er það mikill heiður að bera nafn Guðs?
18 Hið sama er að segja um kristna menn nú á tímum sem hafa verið leystir úr ánauð syndar og dauða. Við ættum að gera okkar besta til að lifa í samræmi við fyrstu beiðnina í faðirvorinu: „Helgist þitt nafn.“ (Matt. 6:9) Þetta háleita nafn ætti að vekja með okkur guðsótta. Sálmaritarinn sá guðsótta í réttu ljósi og orti: „Að óttast Drottin er upphaf speki, þeir vaxa að viti sem hlýða boðum hans.“ — Sálm. 111:10.
19. Um hvað er fjallað í næstu grein?
19 Heilnæmur guðsótti hjálpar okkur að hata hið illa. Hann hjálpar okkur einnig að líkja eftir hinum fögru eiginleikum Guðs. Það sést greinilega af Sálmi 112 sem farið verður yfir í næstu grein. Í þeim sálmi kemur fram hvernig við getum fengið að tilheyra þeim milljónum sem lofa Jehóva Guð að eilífu. Hann verðskuldar ekkert minna en það. „Lofstír hans stendur um eilífð.“ — Sálm. 111:10.
[Neðanmáls]
a Í orðaskýringum við Biblíuna 2007 segir: „Á hebresku: hallelu Jah ‚lofið Drottin‘ (Jah er styttri mynd af Jahve). Orðið er oft notað sem upphaf eða niðurlag í lofsöngvum.“
Til upprifjunar
• Af hverju verðskuldar Jehóva að við lofum hann öll saman?
• Hvaða eiginleikar Jehóva birtast í verkum hans?
• Hvernig líturðu á það að mega bera nafn Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Helsta markmiðið með því að koma reglulega saman er að lofa Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Öll lög Jehóva eru byggð á traustum og eilífum meginreglum.