Guðsótti — getur hann gagnað þér?
„Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — PRÉDIKARINN 12:13.
1, 2. (a) Á hverju ber tilbeiðsla okkar á Guði að byggjast? (b) Hvers annars krefst Guð þó af okkur? (5. Mósebók 10:12)
FINNST þér orðin „guðhræðsla“ eða „guðsótti“ láta kynlega í eyrum? Mörgum finnst að ef þeir í raun elski Guð þá þurfi þeir ekki að óttast hann líka. Þurfum við bæði að elska hann og óttast? Ef svo er, hvernig getur þá guðhræðsla gagnað okkur?
2 Ritningin sýnir okkur að tilbeiðsla okkar og þjónusta við Guð verður að byggjast á kærleika. Jesús tók af öll tvímæli um það þegar hann sagði okkur að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:30) En mikilvægi þess að óttast Guð er einnig undirstrikað í orði hans. Okkur er sagt mjög hnitmiðað í Prédikaranum 12:13: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ Er Jehóva sjálfum sér ósamkvæmur þegar hann ætlast til þess að við óttumst hann og elskum samtímis?
3. Hvað ber að hafa í huga í sambandi við ótta?
3 Í rauninni ekki — ef við höfum í huga að ótti getur verið mismunandi. Þegar menn hugsa um ótta eða hræðslu hafa þeir venjulega í huga niðurdrepandi tilfinningu sem sviptir okkur von og dregur úr okkur kjark. Augljóslega vill Jehóva ekki að við berum þannig tilfinningar til hans! Himneskur faðir okkar vill að við komum til hans alveg eins og barn kemur til föður síns og treystir á kærleika hans, en óttast þó um leið að misþóknast honum. Slíkur ótti hjálpar okkur að vera hlýðin himneskum föður okkar þegar við finnum fyrir freistingu til að gera eitthvað rangt. Þetta er viðeigandi ‚guðhræðsla‘ sem kristnir menn verða að hafa. — Hebreabréfið 5:7; 11:7.
4. Hvers konar ótta rekur kærleikurinn burt?
4 Jehóva er ekki eins og tilfinningalaus dómari sem einfaldlega refsar þjónum sínum í hvert sinn sem þeir misstíga sig. Nei, hann elskar þá og vill að þeim gangi allt í haginn. Ef okkur því verða á mistök eða við syndgum ætti ótti Jehóva ekki að hindra okkur í að tala við hann um það. (1. Jóhannesarbréf 1:9; 2:1) Djúp virðing okkar og ótti við Jehóva er ekki ótti við að vera vísað á bug. Eins og við lesum í 1. Jóhannesarbréfi 4:18: „Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann.“ „Fullkomin elska“ eyðir þó ekki þeirri djúpu virðingu og tilhlýðilega ótta sem við ættum að hafa af Jehóva sem skapara okkar og lífgjafa. — Sálmur 25:14.
Hin gagnlegu áhrif
5. (a) Hver er eina leiðin til að afla sér visku? (b) Hvað kom fíkniefnaneytanda til að breyta lífsháttum sínum?
5 Við skulum líta nánar á sumt af því gagni sem við höfum af því að óttast Jehóva. Til dæmis leiðir það til þess að við tileinkum okkur sanna visku. Menn hafa reynt á marga vegu og einskis látið ófreistað til að afla sér slíkrar visku, en þeim hefur mistekist vegna þess að þeir hafa ekki fylgt undirstöðureglunni: „Upphaf speki er ótti [Jehóva].“ (Sálmur 111:10; Orðskviðirnir 9:10) Við skulum taka sem dæmi hvernig slíkur ótti hjálpaði fyrrverandi fíkniefnaneytanda til að breyta viturlega. Hann segir: „Þegar ég aflaði mér þekkingar á Guði myndaðist líka með mér ótti við að særa hann eða misþóknast. Ég vissi að hann fylgdist með og mig langaði til að vera velþóknanlegur í augum hans. Það kom mér til að eyðileggja fíkniefnin sem ég átti með því að skola þeim niður um salernisskálina.“ Þessi maður sigraðist á slæmum ósiðum sínum, vígði líf sitt Jehóva og er núna þjónn orðsins í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.
6. Hvernig mun ‚ótti Jehóva‘ vernda okkur gegn því sem illt er og hvert mun hann leiða okkur?
6 Langar þig til að forðast það sem illt er? „Að óttast [Jehóva] er að hata hið illa.“ (Orðskviðirnir 8:13) Já, þessi tilhlýðilegi ótti getur forðað þér frá margs kyns slæmum ávönum sem Guð fordæmir, svo sem reykingum, fíkniefnaneyslu, drykkjuskap og siðleysi. Auk þess að þóknast Jehóva ert þú að vernda þig gegn margs kyns hörmungum, sem fólk verður fyrir, þar á meðal óttalegum sjúkdómum sem það gerir sig berskjaldað fyrir. (Rómverjabréfið 1:26, 27; 12:1, 2; 1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Þessaloníkubréf 4:3-8) Guðhræðsla mun bæði hjálpa þér að forðast það sem er illt og siðlaust og einnig leiða þig til þess sem er hreint og heilnæmt, því að okkur er sagt að ‚ótti Jehóva sé hreinn.‘ — Sálmur 19:10.
7, 8. (a) Hvernig fékk ung stúlka að reyna að ‚ótti Jehóva‘ leiðir til hamingju? (b) Nefndu annað og fleira gagn sem við höfum af því að óttast Jehóva.
7 Hamingja er annað markmið sem flestir keppa að. Hvernig getur þú eignast hana? Orð Guðs segir: „Sæll [eða hamingjusamur] er sá maður, sem óttast [Jehóva].“ (Sálmur 112:1; 128:1) Unglingsstúlka hefur sannreynt það. Hún hafði prófað alls kyns óhreint kynlíf auk þess að leggja stund á spíritisma og þjófnað. Þá fór hún að nema Biblíuna og gerði sér grein fyrir að hún þurfti að hlusta á og óttast Jehóva. Hún segir: „Að kynnast Jehóva er það besta sem hefur hent mig. Jehóva hjálpaði mér svo mikið við að finna sannleikann og hamingjuna. Mér finnst ég eiga honum háa skuld að gjalda vegna þess að hann opnaði augu mín og gaf mér tækifæri til að hugsa og finna sig. Núna langar mig til að hjálpa öðrum að höndla þessa hamingju.“
8 Jehóva lofar því einnig að hann muni umbuna ‚þeim sem óttast nafn hans.‘ (Opinberunarbókin 11:18) Enn fremur segir: „Ótti [Jehóva] leiðir til lífs, þá hvílist maðurinn mettur, verður ekki fyrir neinni ógæfu.“ (Orðskviðirnir 19:23) Í rauninni er það ‚ótti Jehóva‘ sem veitir okkur allt sem við getum þarfnast. Þegar hann er samfara auðmýkt verður árangurinn „auður, heiður og líf.“ — Orðskviðirnir 22:4; 10:27.
9. Hvers vegna leiðir ‚ótti Jehóva‘ til einu lífsstefnunnar sem ber vott um visku? (Jobsbók 28:28; Míka 6:9)
9 Er þetta okkur ekki ærin hvatning til að óttast hinn sanna Guð? Í rauninni er ‚ótti Jehóva‘ mjög svo aðlaðandi. Hann hefur í för með sér allt það sem veitir okkur sanna lífsfyllingu — og hún er orðin sjaldgæf nú á dögum. Víst eru hvetjandi þessi innblásnu orð: „Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna. En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð“! (Prédikarinn 8:12, 13) Hver vill ekki láta sér „vel vegna“? Þeir sem óttast Guð verða þessarar hamingjuríku lífsreynslu aðnjótandi. — Sálmur 145:19.
10. Nefndu nokkrar mikilvægar ástæður sem ættu að hvetja okkur til að óttast Guð.
10 Ætti þetta ekki að gera okkur staðráðin í að bera djúpa lotningu fyrir himneskum föður okkar Jehóva, já, óttablandna lotningu og aðdáun? Í rauninni ættum við að hafa heilnæman ótta við að misþóknast honum. Við metum mjög mikils alla þá ástríku góðvild og gæsku sem hann hefur sýnt okkur. Allt sem við höfum er frá honum komið. (Opinberunarbókin 4:11) Enn fremur er hann dómarinn mikli, hinn alvaldi, og ræður yfir mætti til að taka af lífi þá sem óhlýðnast honum. „Vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta,“ hvetur Páll postuli. — Filippíbréfið 2:12; Hósea 3:5; Lúkas 12:4, 5.
11. (a) Hvaða viðhorf ættu kristnir menn nú á síðustu dögum að forðast? (b) Hvaða viðhorf ber okkur að rækta?
11 Ekkert bendir til að við getum öðlast hjálpræði með því að tileinka okkur kæruleysisleg viðhorf, gera eins lítið og mögulegt er og vonast til að okkur muni einhvern veginn vegna vel. Þetta er ekki það viðhorf sem kristnum mönnum núna á hinum síðustu dögum ber að hafa þegar þeir leitast við að viðhalda sambandi við hann sem getur séð beint inn í hjörtu þeirra og þekkir þeirra innstu hugsanir og hneigðir. (Jeremía 17:10) Jehóva viðurkennir aðeins þá sem bera tilhlýðilega virðingu fyrir honum. Hann segir: „Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.“ — Jesaja 66:2.
Við verðum að læra að óttast Jehóva
12. (a) Á hvaða vegu naut Ísraelsþjóðin hylli umfram aðrar þjóðir? (b) Hvers ætlaðist Jehóva til á móti?
12 Ef við íhugum viðskipti Jehóva við Ísrael getur það undirstrikað enn frekar fyrir okkur nauðsyn þess að óttast hann. Engin önnur þjóð naut slíkrar gæslu og athygli frá drottinvaldi alheimsins. (5. Mósebók 4:7, 8, 32-36; 1. Samúelsbók 12:24) Með eigin augum sáu Ísraelsmenn hvað Jehóva gerði við Egyptana sem óttuðust hann ekki, þrælkuðu Ísraelsmenn og kúguðu. Til hvers ætlaðist hann á móti? „Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast [Jehóva] Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast [Jehóva] Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.“ — 5. Mósebók 31:12, 13; 14:23.
13. Hvað ættu foreldrar fyrst og fremst að leggja rækt við í uppeldi barna sinna?
13 Alveg eins og Ísraelsmenn þurfa nútímaþjónar Guðs að ‚læra að óttast Jehóva.‘ Þetta leggur okkur öllum á herðar mikla ábyrgð — einkanlega foreldrum! Foreldrar, spyrjið ykkur: ‚Hvernig get ég hjálpað börnum mínum að öðlast hjarta sem óttast Jehóva?‘ Hvað getur veitt þeim betri vernd andlega, hugarfarslega og efnislega þegar þau vaxa úr grasi og fara að heiman? Jehóva leggur sjálfur áherslu á mikilvægi þessa þegar hann biður innilega: „Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.“ — 5. Mósebók 5:29; 4:10.
14. Nefndu eitt atriði sem foreldrar ættu að hafa í huga við uppeldi barna sinna, þannig að þau læri að óttast Jehóva, og útskýrðu nánar hvernig hægt er að gera það.
14 Allir kristnir foreldrar munu vafalaust taka undir að barnauppeldi sé ekki auðvelt verk. Engu að síður vekur innblásið orð Guðs athygli foreldra á ýmsum þýðingarmiklum atriðum. Eitt er það að byrja meðan börnin eru ung. Hversu ung? Þegar Ísraelsmenn komu saman til að hlýða á fræðslu frá Jehóva áttu ‚börnin‘ að vera með. (5. Mósebók 29:10-13; 31:12, 13) Augljóst er að ísraelskar konur komu með börnin sín við slík tækifæri, því að þess var krafist að allir væru viðstaddir. Allt „frá blautu barnsbeini“ myndu börn þeirra læra að vera hljóð og hlusta á þegar komið var saman með þeim hætti. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Taktu því börnin þín með þér á samkomurnar. Hjálpaðu þeim líka að taka þátt í þjónustunni á akrinum jafnskjótt og þau geta. Mörg börn hafa lært að bjóða blöð eða flugrit jafnvel áður en þau hófu skólagöngu. Byrjaðu snemma að kenna börnunum þínum á margvíslega vegu að óttast Jehóva.
15. Hvaða annað atriði skiptir máli og hvernig geta foreldrar hagað sér í samræmi við það?
15 Annað atriði er að vera sjálfum sér samkvæmur. Það er hægt að gera með því að halda sér alltaf við orð Guðs í uppeldi, ögun og fræðslu sem börnunum er veitt. Jafnvel þegar afþreying og skemmtun á í hlut skaltu vera sjálfum þér samkvæmur í því að láta meginreglur Biblíunnar stýra því sem þið takið ykkur fyrir hendur. (Efesusbréfið 6:4) Það gerist ekki áreynslulaust eins og orð Guðs gefur greinilega til kynna þegar það segir: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:4-9; 4:9; 11:18-21) Ef foreldrarnir eru sjálfum sér samkvæmir við uppeldið mun það eiga stóran þátt í að hjálpa börnunum að læra að óttast Jehóva í hjarta sér.
16. (a) Hvert er þriðja atriðið og hvers vegna er það mjög mikilvægt? (b) Hvaða spurninga ættu foreldrar að spyrja sig?
16 Foreldrarnir verða einnig að kappkosta að innprenta börnum sínum að þau óttist Jehóva líka. (Sálmur 22:24) Ein leiðin til að gera það er að fylgja guðræðislegum meginreglum við uppeldi og ögun barna sinna. Þetta er þriðja atriðið sem íhuga skal. Spyrðu þig: ‚Hef ég reglulega biblíunám með börnum mínum? Nota ég til fullnustu hjálpargögn svo sem Biblíusögubókina mína og Hlýðum á kennarann mikla meðan börnin eru ung? Nota ég bókina Æskuárin — notið þau vel og greinarnar „Ungt fólk spyr“ í Vaknið! þegar börnin stækka? Skipulegg ég heilnæma afþreyingu og skemmtun sem hefur ekki skaðleg áhrif á börnin mín? Hef ég viðurkennt það sem skipulag Jehóva hefur sagt um æðri menntun? Kenni ég börnum mínum í samræmi við það? Set ég börnunum mínum slík markmið sem munu hjálpa þeim að óttast Guð?‘ — Hebreabréfið 5:7.
17. Hverjir hafa gagn af þegar börnin læra að óttast Jehóva? Lýstu með dæmi.
17 Ef þú gerir allt sem þú getur til að kenna börnum þínum að óttast Jehóva mun það ekki aðeins vera þeim til gagns og gleði heldur líka þér. Systir, sem fannst hún dálítið „bardagalúin“ við lok dagsins, svo hennar eigin orð séu notuð, finnst hún fá umbun erfiðis síns þegar hún heyrir sjö ára dóttur sína biðja til Jehóva. Hún fær tár í augun og kökk í hálsinn þegar hún hlustar á bæn dóttur sinnar: „Kæri Jehóva, þakka þér fyrir allt það góða sem þú hefur gert fyrir mig í dag. Og þakka þér fyrir matinn. Hjálpaðu öllum bræðrunum í fangelsi og fangabúðum að fá mat, Jehóva, og öllum mögru bræðrunum og systrunum í öðrum löndum. Hjálpaðu þeim líka að fá nægan mat, Jehóva. Og hjápaðu þeim sem eru veikir að láta sér batna þannig að þeir komist á samkomur. Viltu láta englana passa mig á meðan ég sef í nótt, Jehóva, og líka mömmu og pabba og bróður minn og afa og ömmu og alla bræðurna og systurnar í sannleikanum. Í nafni sonar þíns Jesú. Amen.“
18. Hvernig höfum við áhrif hvert á annað í sambandi við að óttast Jehóva?
18 Við verðum að hafa í huga, í sambandi við það að óttast Jehóva, að við höfum áhrif hvert á annað með fordæmi okkar. Foreldrar hafa áhrif á börnin sín. Öldungar og safnaðarþjónar hafa áhrif á söfnuði sína. Farandhirðar hafa áhrif á þá sem þeir þjóna. Það var bersýnilega þess vegna sem Ísraelskonungum var fyrirskipað að lesa lögmál Guðs alla ævidaga sína til að þeir „læri að óttast [Jehóva].“ (5. Mósebók 17:18-20) Fordæmi konungsins í að óttast Jehóva gat haft áhrif á alla þjóðina.
19. Hverju ber sagan vitni í sambandi við Ísraelsmenn?
19 Sagan staðfestir að sem þjóð hættu Ísraelsmenn að óttast Jehóva. Þeim fannst það vera sér vernd að musterið stóð í Jerúsalem, rétt eins og það væri „verndargripur“ fyrir þá, óháð því hvort þeir hlýddu lögum Guðs eða ekki. (Jeremía 7:1-4; Míka 3:11, 12) En þar voru þeir á villigötum. Jerúsalem og musterið var lagt í eyði. Síðar, þegar þeir urðu aftur þjóð í landi sínu, gættu þeir þess ekki heldur að óttast Jehóva með tilhlýðilegum hætti. (Malakí 1:6) Við getum margt lært af þessum atvikum og um það verður fjallað í greininni á eftir.
20. Lýstu í hnotskurn hvers vegna við ættum að óttast Jehóva.
20 Við skulum því muna að ótti Jehóva veikir ekki kærleika okkar til hans heldur styrkir hann og eflir. Hlýðni við öll hans boð sannar að við ekki aðeins óttumst Jehóva heldur líka elskum hann. Hvort tveggja er lífsnauðsynlegt. Það er ómögulegt að gera aðeins annað en láta hitt vanta. Sannarlega er mikilvægt að foreldrar innræti börnum sínum þessa guðhræðslu og kærleika til Jehóva! Og það er öllum, bæði ungum sem öldnum, til mikillar gleði! Megi okkur því vera eins innanbrjósts og sálmaritaranum sem sagði: „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — Sálmur 86:11.
Til umhugsunar
◻ Hvernig getum við bæði elskað og óttast Jehóva?
◻ Á hvaða vegu er það okkur til gagns að óttast Jehóva?
◻ Á hvaða þrjá vegu geta foreldrar hjálpað börnum sínum að rækta með sér guðsótta?
◻ Hvernig höfum við áhrif hvert á annað í sambandi við að óttast Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Foreldrar ættu að hjálpa börnum sínum að rækta með sér heilnæman ótta við Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 13]
‚Guðhræddum mönnum, er óttast Guð, mun vel vegna.‘ — Prédikarinn 8:12.
[Rétthafi]
Birt með leyfi Slöngu- og dýragarðsins í Hartebeespoort.