Trúboðinn mikli — Jesús Kristur
„Ég er frá honum og hann sendi mig.“ — JÓHANNES 7:29.
1, 2. Hvað er trúboði og hvern má réttilega kalla trúboðann mikla?
HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið „trúboði“? Sumir sjá eflaust fyrir sér trúboða kristna heimsins sem blanda sér margir hverjir í stjórnmál og efnahagsmál þeirra landa þar sem þeir starfa. En vottum Jehóva verður trúlega hugsað til trúboðanna sem hið stjórnandi ráð sendir til að prédika fagnaðarerindið víðs vegar í heiminum. (Matt. 24:14) Þessir trúboðar sýna þá óeigingirni að helga sig því göfuga verkefni að hjálpa öðrum að nálægja sig Guði og eignast náið samband við hann. — Jak. 4:8.
2 Jehóva er auðvitað mestur allra trúboða. Hann er þó ekki trúboði í þeim skilningi að hann sé sendur af öðrum. Jesús Kristur sagði hins vegar: „Ég er frá honum [föðurnum á himnum] og hann sendi mig.“ (Jóh. 7:29) Jehóva sýndi mannkyninu þann mikla kærleika að senda eingetinn son sinn til jarðar. (Jóh. 3:16) Jesús var sendur hingað meðal annars til að ‚bera sannleikanum vitni‘. Það má því með réttu kalla hann trúboðann mikla. (Jóh. 18:37) Enginn hefur boðað fagnaðarerindið um ríkið eins og hann og við njótum góðs af starfi hans enn þann dag í dag. Til dæmis getum við líkt eftir kennsluaðferðum hans í boðunarstarfinu, hvort sem við erum trúboðar eða ekki.
3. Hvaða spurningar ætlum við að líta á?
3 Það hlutverk Jesú að boða fagnaðarerindið um ríkið vekur ýmsar spurningar, til dæmis: Hvaða aðstæðum kynntist Jesús hér á jörð? Af hverju var kennsla hans áhrifarík? Og hvers vegna náði hann góðum árangri sem trúboði?
Fús til að starfa í nýju umhverfi
4-6. Nefndu nokkrar af þeim breytingum sem það hafði í för með sér fyrir Jesú að vera sendur til jarðar.
4 Þegar trúboðar eru sendir til annarra landa þurfa þeir stundum að venjast því að búa við lakari lífskjör en í heimalandi sínu. Hið sama er að segja um aðra votta sem flytja búferlum til að starfa þar sem mikil þörf er fyrir boðbera. Hins vegar getum við varla ímyndað okkur hvílík breyting það hefur verið fyrir Jesú að flytjast til jarðar frá himnum þar sem hann hafði búið með föður sínum og englunum. (Job. 38:7) Það var allt annað að búa meðal syndugra manna í spilltum heimi en meðal englanna sem þjónuðu Jehóva af hreinu tilefni. (Mark. 7:20-23) Jesús þurfti jafnvel að umbera öfund og samkeppni meðal lærisveinanna sem voru nánustu félagar hans. (Lúk. 20:46; 22:24) En auðvitað brást hann fullkomlega rétt við öllu sem dreif á daga hans hér á jörð.
5 Það var ekki fyrir kraftaverk að Jesús talaði tungu manna heldur lærði hann það frá barnsaldri. Það voru mikil umskipti því að á himnum hafði hann stjórnað englum og sagt þeim fyrir verkum. Hér á jörð notaði Jesús að minnsta kosti eina af „tungum manna“. Hún var gerólík „tungum . . . engla“. (1. Kor. 13:1) En enginn maður notaði jafn hugnæm orð og Jesús. — Lúk. 4:22.
6 Margt annað breyttist verulega hjá syni Guðs þegar hann kom til jarðar. Hann erfði að vísu ekki syndina frá Adam en varð samt maður eins og þeir sem síðar urðu ‚bræður‘ hans eða andasmurðir fylgjendur. (Lestu Hebreabréfið 2:17, 18.) Síðustu nóttina, sem hann var maður hér á jörð, hefði hann getað beðið föðurinn á himnum að senda sér „meira en tólf sveitir engla“. Hann gerði það samt ekki. En hugsaðu þér englasveitirnar sem hann hafði haft undir stjórn sinni sem höfuðengillinn Míkael. (Matt. 26:53; Júd. 9) Jesús vann vissulega kraftaverk, en það sem hann gerði meðan hann var hér á jörð var þó fremur takmarkað miðað við það sem hann hefði getað gert á himnum.
7. Hvernig litu Gyðingar á lögmálið?
7 Áður en Jesús kom til jarðar var hann „Orðið“ eða talsmaður Guðs. Hugsanlegt er að það hafi verið hann sem leiddi Ísraelsmenn um eyðimörkina. (Jóh. 1:1; 2. Mós. 23:20-23) Þeir höfðu fengið lögmálið „fyrir umsýslan engla, en [höfðu] þó eigi haldið það“. (Post. 7:53; Hebr. 2:2, 3) Trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld skildu ekki einu sinni raunverulega þýðingu lögmálsins. Tökum hvíldardagslögin sem dæmi. (Lestu Markús 3:4-6.) Fræðimenn og farísear hirtu ekki um „það, sem mikilvægast [var] í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti“. (Matt. 23:23) En Jesús hélt áfram að boða sannleikann.
8. Hvers vegna getur Jesús komið okkur til hjálpar?
8 Jesús var alltaf fús til að liðsinna öðrum. Hann elskaði mennina og langaði ákaflega til að hjálpa þeim. Hann hafði alltaf brennandi áhuga á að boða fagnaðarerindið. Þar sem hann var Jehóva trúr meðan hann var á jörð „gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis“. Og „sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu“, þar á meðal okkur. — Hebr. 2:18; 5:8, 9.
Vel menntaður sem kennari
9, 10. Hvers konar menntun fékk Jesús áður en hann var sendur til jarðar?
9 Hið stjórnandi ráð sér um að trúboðar fái starfsmenntun áður en þeir eru sendir út til starfa. Fékk Jesús líka starfsmenntun? Já, en hann sótti ekki skóla hjá rabbínum áður en hann var smurður sem Messías. Og ekki lærði hann heldur við fætur þekktra trúarleiðtoga. (Jóh. 7:15; samanber Postulasöguna 22:3.) Hvernig stóð þá á því að Jesús var svona góður kennari?
10 Jesús lærði eflaust margt af Maríu, móður sinni, og af Jósef, stjúpföður sínum. En það var fyrst og fremst hjá Jehóva, mesta kennara alheims, sem hann lærði hvernig ætti að boða fagnaðarerindið. Jesús sagði: „Ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.“ (Jóh. 12:49) Við tökum eftir að sonurinn fékk ítarleg fyrirmæli um hvað hann ætti að kenna. Áður en hann kom til jarðar hefur hann eflaust varið miklum tíma í að hlusta á leiðbeiningar föður síns. Betri menntun var ekki hægt að fá.
11. Hve vel líkti Jesús eftir hugarfari Jehóva í garð mannanna?
11 Jesús átti innilegt samband við föður sinn alveg frá því að hann var skapaður. Áður en hann kom til jarðar fylgdist hann með samskiptum Jehóva við mennina og sá hvernig hann hugsaði um þá. Svo vel líkti hann eftir kærleika föður síns að sem persónugervingur viskunnar sagðist hann hafa haft „yndi . . . af mannanna börnum“. — Orðskv. 8:22, 31.
12, 13. (a) Hvað lærði Jesús af samskiptum föður síns við Ísraelsmenn? (b) Hvernig notaði Jesús þá menntun sem hann hlaut?
12 Jesús lærði einnig margt af föður sínum með því að fylgjast með hvernig hann brást við erfiðum aðstæðum. Tökum sem dæmi samskipti Jehóva við óhlýðna Ísraelsmenn. Í Nehemía 9:28 segir: „Er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu [Jehóva]. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum.“ Þegar Jesús vann með Jehóva og fylgdist með honum tileinkaði hann sér sams konar umhyggju fyrir þeim sem hann átti eftir að boða fagnaðarerindið. — Jóh. 5:19.
13 Jesús notaði það sem hann hafði lært. Hann var umhyggjusamur við lærisveinana. Allir postularnir, sem honum þótti svo vænt um, „yfirgáfu hann . . . og flýðu“ kvöldið áður en hann dó. (Matt. 26:56; Jóh. 13:1) Pétur postuli afneitaði honum meira að segja þrisvar. En Jesús gaf postulunum færi á að snúa aftur til sín. Hann sagði Pétri: „Ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“ (Lúk. 22:32) Hinn andlegi Ísrael er grundvallaður á ‚postulunum og spámönnunum‘ og borgarmúr hinnar nýju Jerúsalem hvílir á undirstöðusteinum sem bera nöfn 12 trúfastra postula lambsins Jesú Krists. Andasmurðir kristnir menn og ‚aðrir sauðir‘, sem eru vígðir félagar þeirra, boða fagnaðarerindið um ríkið af miklu kappi. Voldug verndarhendi Guðs er yfir þeim og þeir starfa undir tryggri forystu sonar hans. — Ef. 2:20; Jóh. 10:16; Opinb. 21:14.
Kennsla Jesú
14, 15. Lýstu muninum á kennslu Jesú annars vegar og kennslu fræðimanna og farísea hins vegar.
14 Hvernig notaði Jesús menntun sína þegar hann kenndi fylgjendum sínum? Þegar við berum saman hvernig Jesús kenndi og hvernig trúarleiðtogar Gyðinga fóru að er augljóst að aðferðir Jesú voru miklu betri. Fræðimenn og farísear ‚ógiltu orð Guðs með erfikenningu sinni‘. En Jesús talaði ekki frá eigin brjósti heldur hélt sig alltaf við orð Guðs. (Matt. 15:6; Jóh. 14:10) Það þurfum við líka að gera.
15 Það var einnig annað sem gerði að verkum að Jesús var gerólíkur trúarleiðtogunum. Hann sagði um fræðimennina og faríseana: „Þér [skuluð] gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ (Matt. 23:3) Jesús lifði í samræmi við kenningu sína. Lítum á dæmi því til sönnunar.
16. Lifði Jesús í samræmi við það sem hann sagði í Matteusi 6:19-21?
16 Jesús hvatti lærisveinana til að safna „fjársjóðum á himni“. (Lestu Matteus 6:19-21.) Lifði hann í samræmi við þessa hvatningu sína? Já, því að hann gat með sanni sagt um sjálfan sig: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Lúk. 9:58) Jesús lifði einföldu lífi. Hann var önnum kafinn að boða fagnaðarerindið um ríkið og var lifandi dæmi um hvað það þýddi að safna ekki fjársjóðum á jörð og vera laus við áhyggjurnar sem fylgja því. Hann benti á hve miklu betra það væri að safna sér fjársjóðum á himni „þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela“. Ferð þú eftir hvatningu Jesú um að safna fjársjóðum á himni?
Eiginleikar sem löðuðu fólk að Jesú
17. Hvaða eiginleikar Jesú gerðu hann að einstökum trúboða?
17 Hvaða eiginleikar Jesú gerðu hann að einstökum trúboða? Meðal annars viðhorf hans til þeirra sem hann boðaði fagnaðarerindið. Jesús var lítillátur, kærleiksríkur og umhyggjusamur eins og Jehóva, faðir hans. Könnum hvernig þessir eiginleikar löðuðu marga að Jesú.
18. Hvernig sjáum við að Jesús var lítillátur?
18 Þegar Jesús hafði tekið að sér það verkefni að koma til jarðar „svipti [hann] sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur“. (Fil. 2:7) Þetta var skýrt merki þess að hann var lítillátur. Og Jesús leit ekki niður á fólk. Hann hugsaði ekki með sér: ‚Ég kom nú alla leið frá himnum svo að þið skuluð hlusta á mig.‘ Jesús básúnaði ekki að hann væri Messías eins og sjálfskipaðir falsmessíasar voru vanir að gera. Stundum bað hann fólk að segja ekki frá því hver hann væri eða hvað hann hefði gert. (Matt. 12:15-21) Jesús vildi að fólk byggði ákvörðun sína um að fylgja honum á því sem það sjálft sæi og heyrði. Það var mikil blessun fyrir lærisveinana að Drottinn þeirra ætlaðist ekki til að þeir væru eins og fullkomnir englar sem hann hafði umgengist á himnum.
19, 20. Hvernig voru kærleikur Jesú og umhyggja honum hvöt til að hjálpa fólki?
19 Jesús Kristur var einnig kærleiksríkur en það er einn af höfuðeiginleikum föðurins á himnum. (1. Jóh. 4:8) Jesús kenndi fólki af því að hann elskaði það. Tökum sem dæmi hvaða augum hann leit ungan höfðingja sem kom til hans. (Lestu Markús 10:17-22.) Jesús „horfði á hann með ástúð“ og langaði til að liðsinna honum, en ungi höfðinginn átti miklar eignir og var ekki tilbúinn til að segja skilið við þær og fylgja Kristi.
20 Umhyggja Jesú var einn þeirra eiginleika sem laðaði fólk að honum. Þeir sem tóku við kennslu hans áttu við alls konar vandamál að stríða, eins og gerist og gengur hjá ófullkomnum mönnum. Jesús vissi þetta og sýndi mikla umhyggju og samúð þegar hann kenndi. Lítum á dæmi. Einu sinni voru Jesús og postularnir svo önnum kafnir að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast. En hvernig brást hann við þegar hann sá að mikill mannfjöldi hafði safnast saman? „Hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ (Mark. 6:34) Jesús sá hve illa fólk var á sig komið og lagði sig allan fram við að gera því gott með því að kenna og vinna kraftaverk. Sumir löðuðust að honum vegna eiginleika hans, og orð hans snertu þá svo að þeir gerðust lærisveinar hans.
21. Um hvað er fjallað í næstu grein?
21 Við getum lært margt fleira af þjónustu Jesú Krists hér á jörð. Á hvaða aðra vegu getum við líkt eftir trúboðanum mikla? Um það er fjallað í næstu grein.
Hvert er svarið?
• Hvaða menntun fékk Jesús áður en hann kom til jarðar?
• Að hvaða leyti voru kennsluaðferðir Jesú mun betri en aðferðir fræðimanna og farísea?
• Hvaða eiginleikar Jesú löðuðu fólk að honum?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hvernig kenndi Jesús mannfjöldanum?