Námskafli 33
Nærgætni og festa
NÆRGÆTNI er hæfileikinn til að umgangast aðra án þess að móðga þá að þarflausu. Maður veit hvenær og hvernig maður á að segja vissa hluti. Þetta er ekki hið sama og að sniðganga það sem rétt er eða hagræða sannleikanum. Nærgætni á ekkert skylt við mannahræðslu. — Orðskv. 29:25.
Besta leiðin til að vera nærgætinn er að þroska með sér ávöxt andans. Kærleiksríkur maður vill ekki skaprauna öðrum heldur hjálpa þeim. Góðviljaður og gæskuríkur maður er mildur og þægilegur í viðmóti. Friðsamur maður reynir að stuðla að góðum samskiptum við aðra. Og langlyndur maður heldur ró sinni þó að aðrir séu hranalegir í viðmóti. — Gal. 5:22, 23.
En sumir taka boðskap Biblíunnar óstinnt upp, og gildir þá einu hvernig hann er borinn á borð. Gyðingar á fyrstu öld voru upp til hópa illir í hjarta sér og höfnuðu Jesú Kristi svo að hann varð þeim að „ásteytingarsteini og hrösunarhellu.“ (1. Pét. 2:7, 8) „Ég er kominn að varpa eldi á jörðu,“ sagði Jesús og var þá að tala um boðunarstarf sitt. (Lúk. 12:49) Og boðskapurinn um ríki Jehóva, sem felur í sér að menn verði að viðurkenna drottinvald skapara síns, er enn þann dag í dag eins og eldur meðal mannkyns. Margir bregðast ókvæða við þeim boðskap að ríki Guðs muni bráðlega afmá hið illa heimskerfi sem nú er. En við höldum áfram að prédika eins og Guð hefur fyrirskipað. Jafnframt höfum við hugfast að Biblían ráðleggur okkur að ‚hafa frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á okkar valdi.‘ — Rómv. 12:18.
Nærgætni í boðunarstarfinu. Við tölum við aðra um trú okkar undir alls konar kringumstæðum. Við gerum það auðvitað þegar við störfum hús úr húsi en við leitum líka færis, eftir því sem við á, til að vitna fyrir ættingjum, vinnufélögum og skólafélögum. Nærgætni er alltaf nauðsynleg þegar við kynnum fagnaðarerindið.
Við megum búast við neikvæðum viðbrögðum frá fólki ef við flytjum boðskap Guðsríkis eins og við séum að segja því til syndanna. Það er hætta á að fólk taki því illa ef það hefur ekki beðið um ráð og telur sig ekki þurfa á þeim að halda en fær á tilfinninguna að við séum komin óbeðin til að leiðrétta það. Hvernig getum við komið í veg fyrir að fólk misskilji markmið okkar? Við þurfum að læra listina að halda uppi vinsamlegum samræðum.
Reyndu að hefja samræðurnar á því að vekja máls á einhverju sem viðmælandinn hefur áhuga á. Ef þetta er ættingi, vinnufélagi eða skólafélagi veistu kannski hvað höfðar til hans. En þó að þú hafir aldrei hitt manninn áður gætirðu vakið máls á einhverju sem þú heyrðir í fréttum eða last í dagblaði. Fjölmiðlarnir endurspegla yfirleitt það sem fólki er hugstætt hverju sinni. Vertu athugull þegar þú starfar hús úr húsi. Veggjaskraut, leikföng í garðinum, trúarlegir munir og límmiðar aftan á bíl í innkeyrslunni geta gefið einhverja vísbendingu um áhugamál húsráðandans. Þegar húsráðandi kemur til dyra skaltu hlusta á það sem hann leggur til málanna. Það sem hann segir getur annaðhvort staðfest ályktanir þínar um áhugamál hans og sjónarmið eða gefið nánari upplýsingar um þau og bestu aðferðina til að vitna fyrir honum.
Þegar líður á samtalið skaltu reyna að koma með ábendingar frá Biblíunni og biblíufræðsluritum sem snerta umræðuefnið. En einokaðu ekki samræðurnar. (Préd. 3:7) Dragðu húsráðandann inn í samtalið ef hann er fús til að tjá sig. Sýndu áhuga á skoðunum hans og sjónarmiðum. Þau geta gefið þér nægar vísbendingar til að sýna viðeigandi nærgætni.
Áður en þú segir eitthvað ættirðu að hugleiða hvernig það muni hljóma í eyrum viðmælanda þíns. Orðskviðirnir 12:8 tala lofsamlega um ‚hyggilegt tal.‘ (Biblían 1859) Hebreska orðasambandið, sem hér er notað, lýsir innsæi og fyrirhyggju. Hyggindin eru sem sagt fólgin í því að hugleiða málin vel til að breyta viturlega og vera orðvar. Átjánda versið í sama kafla Orðskviðanna bendir á að ‚þvaður geti verið sem spjótsstungur.‘ Það er hægt að halda sannleika Biblíunnar á loft án þess að móðga eða særa.
Það eitt að vera gætinn í orðavali getur forðað manni frá því að reisa óþarfa múra. Ef orðið „Biblía“ myndi vekja andúð gætirðu til dæmis talað um „heilaga ritningu“ eða „bók sem þýdd hefur verið á meira en 2000 tungumál.“ Ef þú nefnir Biblíuna gætirðu spurt viðmælandann hvaða álit hann hafi á henni og tekið mið af svari hans í framhaldinu.
Nærgætni er oft fólgin í því að bera skyn á hvenær sé rétti tíminn til að segja eitthvað ákveðið. (Orðskv. 25:11) Þú ert kannski ekki sammála öllu sem viðmælandi þinn segir en það er ástæðulaust að gera veður út af öllum óbiblíulegum sjónarmiðum sem hann lætur í ljós. Reyndu ekki að segja húsráðanda allt í einni lotu. Jesús sagði lærisveinunum: „Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.“ — Jóh. 16:12.
Hrósaðu viðmælanda þínum hvenær sem færi gefst. Það er jafnvel hægt að hrósa þrætugjörnum manni fyrir að hafa ákveðna skoðun. Páll postuli gerði það er hann ræddi við heimspekingana við Areopagus í Aþenu sem ‚áttu í orðakasti við hann.‘ Hvernig gat Páll komið boðskapnum á framfæri án þess að móðga þá? Hann hafði veitt því eftirtekt að Aþenumenn höfðu reist guðum sínum mörg ölturu. Í stað þess að fordæma skurðgoðadýrkun þeirra hrósaði hann þeim nærgætnislega fyrir trúrækni þeirra. „Þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,“ sagði hann. Þessi aðferð opnaði honum leið til að koma boðskap sínum um hinn sanna Guð á framfæri með þeim árangri að sumir tóku trú. — Post. 17:18, 22, 34.
Bregstu ekki of harkalega við mótbárum. Haltu ró þinni og líttu á þær sem tækifæri til að glöggva þig á hugsunarhætti viðmælandans. Þú gætir þakkað honum fyrir að segja skoðun sína. Hvað gerirðu ef hann segir skyndilega: „Ég hef mína trú“? Þú gætir spurt nærgætnislega: „Hefurðu alltaf verið trúhneigður?“ Eftir að hann hefur svarað gætirðu bætt við: „Heldurðu að mannkynið eigi einhvern tíma eftir að sameinast í einni trú?“ Þetta gæti orðið kveikja að frekari samræðum.
Með því að sjá sjálfan sig í réttu ljósi er auðveldara að vera nærgætinn. Við erum sannfærð um að vegir Jehóva séu réttir og orð hans sannleikur og tölum um það með sannfæringu. En það er engin ástæða til að vera sjálfbirgingslegur. (Préd. 7:15, 16) Við erum þakklát fyrir að mega þekkja sannleikann og njóta blessunar Jehóva en við vitum mætavel að velþóknun hans er óverðskulduð og byggist ekki á því að við séum réttlát heldur á því að trúa á Krist. (Ef. 2:8, 9) Okkur er ljóst að við þurfum í sífellu að ‚reyna okkur sjálf, hvort við séum í trúnni og prófa okkur.‘ (2. Kor. 13:5) Þegar við nefnum við fólk að það sé mikilvægt að uppfylla kröfur Guðs eins og Biblían ráðleggur förum við þess vegna auðmjúklega eftir því sjálf. Það er ekki okkar hlutverk að dæma náungann. Jehóva hefur ‚falið syninum allan dóm‘ og þess vegna þurfum við öll að birtast fyrir dómstóli hans og svara fyrir gerðir okkar. — Jóh. 5:22; 2. Kor. 5:10.
Gagnvart fjölskyldu og trúsystkinum. Við eigum að vera nærgætin víðar en í boðunarstarfinu. Þar sem nærgætni er merki um ávöxt anda Guðs ættum við líka að vera nærgætin heima fyrir í samskiptum við fjölskylduna. Kærleikurinn gerir okkur nærgætin gagnvart tilfinningum annarra. Eiginmaður Esterar drottningar tilbað ekki Jehóva en hún sýndi virðingu og mikil hyggindi er hún bar upp við hann mál sem varðaði þjóna Jehóva. (Esterarbók 3.-8. kafli) Stundum getum við þurft að sýna ættingjum, sem eru ekki vottar, þá nærgætni að mæla með vegi sannleikans með framkomu okkar í stað þess að reyna að boða þeim trúna. — 1. Pét. 3:1, 2.
Hið sama er að segja um trúsystkini okkar. Þó að við þekkjum þau vel þýðir það ekki að við megum vera ónærgætin eða óvingjarnleg við þau. Við megum ekki hugsa sem svo að þau eigi að geta tekið því af því að þau eru andlega þroskuð. Og ekki ættum við að afsaka okkur og segja: „Ég er nú bara svona.“ Ef við uppgötvum að við móðgum eða særum aðra með talsmáta okkar ættum við að leggja okkur fram um að breyta honum. Við eigum að hafa „brennandi kærleika hver til annars“ og ættum þar af leiðandi að ‚gera trúbræðrum okkar gott.‘ — 1. Pét. 4:8, 15; Gal. 6:10.
Á ræðupallinum. Þeir sem tala frá ræðupallinum þurfa líka að vera nærgætnir. Áheyrendur eru af ýmsum uppruna, búa við alls konar aðstæður og eru misjafnlega þroskaðir í trúnni. Sumir eru kannski að koma í ríkissalinn í fyrsta sinn. Hjá sumum gæti verið óvenjumikið álag af einhverju tagi sem ræðumaðurinn veit ekki af. Hvernig getur hann forðast að móðga eða særa áheyrendur?
Gerðu þér far um að ‚lastmæla engum, vera sanngjarn og sýna hvers konar hógværð við alla menn‘ eins og Páll postuli ráðlagði Títusi. (Tít. 3:2) Líktu ekki eftir heiminum með því að nota orð og orðalag sem niðurlægir fólk af öðrum kynþætti, málhópi eða þjóðerni. (Opinb. 7:9, 10) Ræddu hreinskilnislega um kröfur Jehóva og bentu á hve viturlegt það sé að fylgja þeim, en gættu þess að tala ekki niðrandi um þá sem eru ekki enn þá farnir að ganga að fullu leyti á vegi Jehóva. Þú ættir frekar að hvetja alla til að kynna sér vilja Guðs og gera það sem hann hefur velþóknun á. Mildaðu ráðleggingar þínar með því að hrósa hlýlega og innilega. Láttu raddblæ þinn og orðaval enduróma þá bróðurást sem við ættum öll að bera hvert til annars. — 1. Þess. 4:1-12; 1. Pét. 3:8.