Hagnýt bók fyrir nútímamanninn
Bækur, sem veita ráðleggingar, eru mjög vinsælar nú á tímum. En þeim hættir til að úreldast og eru fljótlega endurskoðaðar eða nýjar koma í staðinn. Hvað um Biblíuna? Hún var fullgerð fyrir næstum 2000 árum. Þó hefur upphaflegur boðskapur hennar aldrei verið lagfærður eða endurskoðaður. Er mögulegt að slík bók innihaldi hagnýta leiðsögn fyrir nútímafólk?
SUMIR svara því neitandi: „Enginn myndi mæla með að efnafræðikennslubók útgefin árið 1924 yrði notuð við efnafræðikennslu í skólum nú á dögum,“ skrifaði læknirinn Eli S. Chesen þegar hann var að útskýra hvers vegna hann teldi Biblíuna úrelta.1 Fljótt á litið virðist þetta vera gild röksemd. Vissulega hefur þekking á geðheilsu og mannlegri hegðun aukist verulega síðan Biblían var skrifuð. Hvernig gætu því leiðbeiningar svona gamallar bókar gagnast fólki nú til dags?
Sígildar frumreglur
Að vísu hafa tímarnir breyst en grundvallarþarfir manna eru áfram þær sömu. Á öllum tímum mannkynssögunnar hefur fólk þarfnast kærleika og væntumþykju. Það hefur langað til að vera hamingjusamt og lifa innihaldsríku lífi. Það hefur þarfnast ráðlegginga um hvernig ráða mætti við fjárhagsörðugleika, hvernig gera mætti hjónabandið farsælt og hvernig það ætti að innprenta börnum sínum gott siðgæði og siðfræðileg gildi. Biblían inniheldur ráðleggingar sem snerta þessar grundvallarþarfir. — Prédikarinn 3:12, 13; Rómverjabréfið 12:10; Kólossubréfið 3:18-21; 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.
Leiðbeiningar Biblíunnar endurspegla skarpan skilning á mannlegu eðli. Lítum á nokkur dæmi um sérstakar, sígildar frumreglur hennar sem eru hagnýtar fyrir nútímamanninn.
Hagnýtar hjónabandsleiðbeiningar
Tímaritið UN Chronicle segir að fjölskyldan „sé elsta og þýðingarmesta eining mannlegs samfélags, bráðnauðsynlegasti hlekkurinn milli kynslóða.“ Þessi ‚bráðnauðsynlegi hlekkur‘ er hins vegar að bresta með ógnarhraða. „Í heimi nútímans,“ segir Chronicle, „horfast margar fjölskyldur í augu við skelfilega erfiðleika sem geta staðið þeim fyrir þrifum og reyndar leyst þær upp.“2 Hvaða ráðleggingar hefur Biblían upp á að bjóða til að hjálpa fjölskyldunni að standast álagið?
Í fyrsta lagi hefur Biblían margt að segja um það hvernig eiginmaður og eiginkona ættu að koma fram hvort við annað. Hún segir til dæmis um eiginmenn: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ (Efesusbréfið 5:28, 29) Eiginkonu var ráðlagt að bera „lotningu [„mikla virðingu,“ NW] fyrir manni sínum.“ — Efesusbréfið 5:33.
Hugleiddu hvað það þýðir að fylgja slíkum ráðleggingum Biblíunnar. Eiginmaður, sem elskar konuna sína ‚eins og eigin líkama,‘ er ekki andstyggilegur og hrottalegur við hana. Hann hvorki veitir henni líkamleg högg né misþyrmir henni með orðum eða tilfinningalega. Þess í stað lætur hann hana njóta sömu virðingar og nærgætni og hann sýnir sjálfum sér. (1. Pétursbréf 3:7) Konan hans finnur þannig að hún er elskuð og örugg í hjónabandinu. Eiginmaðurinn gefur með því börnum sínum gott fordæmi hvernig koma eigi fram við konur. Sú kona, hins vegar, sem ber „mikla virðingu“ fyrir manni sínum, sviptir hann ekki reisn sinni með því að gagnrýna hann stöðugt eða gera lítið úr honum. Sökum þess að hún virðir hann fær hann það á tilfinninguna að honum sé treyst, hann tekinn góður og gildur og metinn að verðleikum.
Eru slíkar ráðleggingar hagnýtar í heimi nútímans? Það er athyglisvert að þeir sem sérhæfa sig í fjölskyldurannsóknum nú á tímum hafa komist að svipaðri niðurstöðu. Kona, sem stýrir fjölskylduráðgjöf, sagði: „Heilbrigðustu fjölskyldurnar, sem ég þekki, eru þær þar sem faðirinn og móðirin tengjast sterkum kærleiksböndum. . . . Þetta sterka grundvallarsamband virðist ala á öryggi hjá börnunum.“3
Í tímans rás hafa hjónabandsráðleggingar Biblíunnar reynst langtum áreiðanlegri en ráð ótalmargra velviljaðra fjölskylduráðgjafa. Satt að segja er ekki ýkja langt síðan margir sérfræðingar mæltu með skilnaði sem skjótri og auðveldri lausn á óþægilegu hjónabandi. Núna hvetja margir þeirra fólk til að halda fast í hjónabandið sé þess nokkur kostur. En þessi viðhorfsbreyting varð ekki fyrr en mikill skaði var skeður.
Biblían gefur aftur á móti áreiðanlegar og öfgalausar leiðbeiningar um hjónabandið. Hún viðurkennir að skilnaður sé leyfilegur við alveg sérstakar aðstæður. (Matteus 19:9) En hjónaskilnað af lítilfjörlegu tilefni fordæmir Biblían. (Malakí 2:14-16) Hún fordæmir líka hjúskaparbrot. (Hebreabréfið 13:4) Hjónabandið, segir hún, leggur fólki skuldbindingu á herðar: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“a — 1. Mósebók 2:24; Matteus 19:5, 6.
Ráð Biblíunnar um hjónaband eiga jafn vel við nú á tímum eins og þegar Biblían var skrifuð. Þegar eiginmaður og eiginkona sýna hvort öðru ást og virðingu og líta á hjónabandið sem dýrmætt samband sín á milli eru meiri líkur á að hjónabandið verði farsælt — og fjölskyldan sömuleiðis.
Hagnýtar leiðbeiningar fyrir foreldra
Fyrir nokkrum áratugum héldu margir foreldrar — vegna áhrifa frá „nýjum hugmyndum“ um barnauppeldi — að það væri „bannað að banna.“8 Þeir óttuðust að væru börnunum settar hömlur gæti það valdið skapraun og sálrænu tjóni. Uppeldisráðgjafar kröfðust þess í bestu meiningu að foreldrar létu aðeins hina mildustu ofanígjöf duga á börnin sín. En margir slíkir sérfræðingar eru farnir að íhuga betur hlutverk agans og umhyggjusamir foreldrar leita að einhverjum skýrum línum í þessu máli.
Skýrar og skynsamlegar leiðbeiningar um barnauppeldi stóðu samt alltaf í Biblíunni. Fyrir næstum 2000 árum sagði hún: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Gríska nafnorðið, sem þýtt er ‚agi,‘ merkir „uppeldi, þjálfun, fræðsla.“9 Biblían segir að slíkur agi eða fræðsla beri vitni um kærleika foreldranna. (Orðskviðirnir 13:24) Börn þurfa að búa við skilmerkilegar siðgæðisreglur og þroskað skyn á réttu og röngu til að þau þrífist vel. Agi segir þeim að foreldrum þeirra sé annt um þau og sé ekki sama um hvers konar persónur börnin sín verða.
En foreldravaldinu — ‚vendi agans‘ — skyldi aldrei misbeitt.b (Orðskviðirnir 22:15; 29:15) Biblían aðvarar foreldra: „Setjið ekki of mikið ofan í við börnin ykkar, ellegar látið þið þau missa móðinn.“ (Kólossubréfið 3:21, Phillips) Hún viðurkennir einnig að líkamleg refsing sé yfirleitt ekki áhrifaríkasta kennsluaðferðin. Orðskviðirnir 17:10 segja: „Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.“ Auk þess mælir Biblían með fyrirbyggjandi aga. Í 5. Mósebók 11:19 eru foreldrar hvattir til að nýta sér hversdagslegar stundir til að glæða hjá börnum sínum siðferðileg og andleg gildi. — Sjá einnig 5. Mósebók 6:6, 7.
Sígild ráð Biblíunnar til foreldra eru skýr. Börn þarfnast aga sem er kærleiksríkur og sjálfum sér samkvæmur. Reynslan sýnir að slíkar ráðleggingar koma að góðum notum.c
Komist yfir þá múra sem aðgreina fólk
Nú á tímum er fólk aðgreint eftir kynþáttum og þjóðerni. Slíkir gervimúrar hafa stuðlað að slátrun fjölda saklausra manna í styrjöldum um heim allan. Ef miða ætti við mannkynssöguna eru horfurnar á því að karlar og konur af ólíkum kynþáttum og þjóðum líti á og komi fram við hvert annað sem jafningja sannarlega ekki glæsilegar. „Lausnin,“ segir afrískur stjórnmálamaður, „liggur í hjörtum okkar.“11 En það er ekki auðvelt að breyta hjörtum manna. Skoðum þó hvernig boðskapur Biblíunnar höfðar til hjartans og stuðlar að jafnréttishugmyndum.
Sú kenning Biblíunnar að Guð hafi skapað „af einum [manni] allar þjóðir jarðarinnar“ útilokar sérhverja hugmynd um kynþáttayfirburði. (Postulasagan 17:26) Hún sýnir að í rauninni sé til aðeins einn kynþáttur — kynþáttur manna. Biblían hvetur okkur enn fremur til að verða „eftirbreytendur Guðs“ en um hann segir hún: „[Hann] fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Efesusbréfið 5:1; Postulasagan 10:34, 35) Þessi þekking hefur sameinandi áhrif á þá sem taka Biblíuna alvarlega og leitast í alvöru við að lifa eftir kenningum hennar. Hún kemst að dýpstu rótunum, hjarta mannsins, og brýtur niður þá múra sem maðurinn hefur gert sér og sundra fólki. Lítum á dæmi.
Þegar Hitler háði stríð um alla Evrópu var einn hópur kristinna manna — vottar Jehóva — sem staðfastlega neitaði að taka þátt í að strádrepa saklaust fólk. Þeir vildu ekki „sverð reiða“ að öðrum mönnum. Þeir tóku þessa afstöðu vegna löngunar sinnar til að þóknast Guði. (Jesaja 2:3, 4; Míka 4:3, 5) Þeir trúðu svo sannarlega því sem Biblían segir — að engin þjóð eða kynþáttur sé öðrum betri. (Galatabréfið 3:28) Vegna hinnar friðsömu afstöðu sinnar voru vottar Jehóva meðal fyrstu vistmanna fangabúða nasista. — Rómverjabréfið 12:18.
En ekki tóku allir sem sögðust fylgja Biblíunni slíka afstöðu. Skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina skrifaði þýski mótmælendapresturinn Martin Niemöller: „Hver sá sem vill gera Guð ábyrgan hér [fyrir styrjöldum] þekkir ekki orð Guðs eða vill ekki þekkja það. . . . Kristnar kirkjur hafa hvað eftir annað í aldanna rás fallist á að blessa styrjaldir, hersveitir og vopn, og . . . þær hafa beðið á mjög ókristilegan hátt fyrir útrýmingu stríðsóvinarins. Allt er þetta okkur að kenna og feðrum okkar en sannarlega ekki Guðs sök. Og við kristnir menn nú á tímum stöndum skömmustulegir frammi fyrir svokölluðum sértrúarflokki eins og Einlægu biblíunemendunum [vottum Jehóva] sem fóru í hundraða- og þúsundatali í fangabúðir og [jafnvel] dóu vegna þess að þeir neituðu að gegna herþjónustu og aftóku að skjóta á menn.“12
Allt til þessa dags eru vottar Jehóva vel kunnir fyrir bræðralag sitt sem sameinar Araba og Gyðinga, Króata og Serba, hútumenn og tútsa. Vottar Jehóva viðurkenna fúslega að slík eining sé möguleg, ekki vegna þess að þeir séu betri en aðrir heldur vegna þess að krafturinn í boðskap Biblíunnar gefur þeim þá hvatningu sem til þarf. — 1. Þessaloníkubréf 2:13.
Hagnýt leiðsögn sem stuðlar að góðri geðheilsu
Geðheilsa manna og tilfinningaástand hefur oft áhrif á líkamlega heilsu þeirra. Vísindarannsóknir hafa til dæmis staðfest hve reiði getur haft skaðleg áhrif. „Flestar þær niðurstöður, sem við höfum, bera með sér að uppstökku fólki sé hættara við að fá hjarta- og æðasjúkdóma (svo og aðra sjúkdóma) af ýmsum ástæðum. Það fær til dæmis minni félagslegan stuðning og þegar því rennur í skap verða streituviðbrögðin meiri en almennt gerist. Auk þess hellir slíkt fólk sér meira út í heilsuspillandi hegðun,“ segja læknirinn Redford Williams, stjórnandi hegðunarrannsókna við læknamiðstöð Duke háskólans, og eiginkona hans, Virginia Williams, í bók sinni Anger Kills.13
Þúsundum ára áður en slíkar vísindarannsóknir voru gerðar tengdi Biblían með einföldu en skýru orðalagi tilfinningaástand og líkamsheilsu: „Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða [„afbrýði,“ NW] er eitur í beinum.“ (Orðskviðirnir 14:30; 17:22) Viturlega ráðlagði Biblían: „Lát af reiði og slepp heiftinni,“ og „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast.“ — Sálmur 37:8; Prédikarinn 7:9.
Biblían hefur líka að geyma skynsamleg ráð til að hafa taumhald á reiðinni. Til dæmis segja Orðskviðirnir 19:11: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ Hebreska orðið, sem þýtt er „hyggni,“ er leitt af sagnorði sem beinir athyglinni að því ‚að þekkja ástæðuna‘ fyrir einhverju.14 Hið viturlega ráð er þetta: „Hugsaðu áður en þú hefst handa.“ Ef maður leitast við að skilja ástæðurnar að baki því að sumir tala eða hegða sér á vissan hátt getur það hjálpað manni að verða umburðarlyndari — og ekki eins reiðigjarn. — Orðskviðirnir 14:29.
Annað hagnýtt ráð er að finna í Kólossubréfinu 3:13 sem segir: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum.“ Minniháttar gremjuvaldar eru hluti af lífinu. Orðalagið „umberið hver annan“ leggur til að við líðum það sem okkur mislíkar hjá öðrum. „Fyrirgefið“ þýðir að láta af gremjunni. Stundum er skynsamlegt að láta af beiskum tilfinningum í stað þess að ala á þeim. Málið verður okkur einungis þungbærara ef við látum reiðina krauma í okkur. — Sjá rammann „Hagnýtar leiðbeiningar um mannleg samskipti.“
Nú á tímum koma ráðleggingar og leiðsögn úr mörgum áttum. En Biblían er sannarlega einstök. Ráðleggingar hennar eru aldrei einungis óreyndar kenningar og ráð hennar eru okkur heldur aldrei til óþurftar. Öllu heldur hefur viska hennar reynst ‚harla áreiðanleg.‘ (Sálmur 93:5) Þar að auki eru ráðleggingar Biblíunnar sígildar. Þó að ritun hennar hafi verið lokið fyrir næstum 2000 árum eiga orð hennar enn við og skiptir þá engu máli hver litarháttur okkar er eða í hvaða landi við búum. Orð Biblíunnar búa líka yfir krafti — krafti til að breyta fólki til hins betra. (Hebreabréfið 4:12) Með því að lesa Biblíuna og beita frumreglum hennar getur þú þar af leiðandi lifað betra og innihaldsríkara lífi.
[Neðanmáls]
a Hebreska orðið da·vaqʹ, hér þýtt „býr við,“ „ber í sér merkinguna að halda fast við einhvern af ást og tryggð.“6 Á grísku er orðið, sem þýtt er „bindast“ í Matteusi 19:5, skylt orðinu sem merkir „að líma,“ „að tengja þétt saman.“7
b Orðið „vöndur“ (hebreska, sheʹvet) þýddi á biblíutímanum „prik“ eða „stafur“ eins og fjárhirðir notar.10 Í þessu samhengi gefur vöndur valdsins til kynna kærleiksríka leiðsögn, ekki hrottaskap. — Samanber Sálm 23:4.
c Sjá kaflana „Kenndu barninu þínu frá blautu barnsbeini,“ „Hjálpaðu unglingnum þínum að dafna,“ „Er uppreisnarseggur á heimilinu?“ og „Verndaðu fjölskyldu þína gegn skaðlegum áhrifum“ í bókinni The Secret of Family Happiness, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 24]
Biblían gefur skýrar og skynsamlegar ráðleggingar um fjölskyldulífið.
[Rammagrein á blaðsíðu 23]
Það sem einkennir heilbrigðar fjölskyldur
Fyrir allnokkrum árum gerðu kennari og fjölskyldufræðingur víðtæka könnun þar sem rúmlega 500 sérmenntaðir einstaklingar, sem vinna við fjölskylduráðgjöf, voru beðnir um að nefna þá eiginleika sem þeim virtust einkenna „heilbrigðar“ fjölskyldur. Athyglisvert er að meðal eiginleikanna, sem helst voru nefndir, voru nokkrir sem Biblían hafði mælt með fyrir löngu.
Góðar tjáskiptavenjur voru efstar á listanum, þar með taldar árangursríkar aðferðir til að jafna ágreining. Almenn viðmiðunarregla, sem finna má hjá heilbrigðum fjölskyldum, er sú að „enginn fer í háttinn reiður út í annan,“ skrifaði frumkvöðull könnunarinnar.4 Fyrir meira en 1900 árum sagði Biblían: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ (Efesusbréfið 4:26) Á tímum Biblíunnar var dagurinn talinn frá sólarlagi til sólarlags. Löngu áður en nútímasérfræðingar tóku að rannsaka fjölskylduna gaf Biblían þetta viturlega ráð: Verið fljót að leysa úr því sem vekur sundurlyndi — áður en dagurinn endar og nýr rennur upp.
Heilbrigðar fjölskyldur „fara ekki að ræða um hugsanlega eldfim efni rétt áður en farið er út eða að sofa,“ komst höfundurinn að raun um. „Hvað eftir annað heyrði ég orðalagið ‚á réttum tíma.‘ “5 Slíkar fjölskyldur bergmála óafvitandi biblíuorðskviðinn sem skráður var fyrir meira en 2700 árum: „Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð.“ (Orðskviðirnir 15:23; 25:11) Þessi samlíking kann að ýja að gylltum, eplalaga skrautgripum í útskornum silfurskálum eða -bökkum — mikils metnum og fallegum eigum á biblíutímanum. Hún ber með sér hve fögur og verðmæt þau orð eru sem sögð eru á réttum tíma. Þegar spenna liggur í loftinu eru rétt orð á réttum tíma ómetanleg. — Orðskviðirnir 10:19.
[Rammagrein á blaðsíðu 26]
Hagnýtar leiðbeiningar um mannleg samskipti
„Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir.“ (Sálmur 4:5) Oftast, þegar um minniháttar áreitni er að ræða, kann að vera skynsamlegt að halda aftur af orðum sínum og forðast þannig tilfinningalegan árekstur.
„Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ (Orðskviðirnir 12:18) Hugsaðu áður en þú talar. Hugsunarlaus orð geta sært aðra og eyðilagt vináttubönd.
„Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Það krefst sjálfstjórnar að bregðast mjúklega við en slík stefna gerir oft vandamál að engu og stuðlar að friðsamlegum samskiptum.
„Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.“ (Orðskviðirnir 17:14) Ef ástandið er að verða eldfimt er skynsamlegt að draga sig í hlé áður en maður missir stjórn á skapi sínu.
„Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Prédikarinn 7:9) Tilfinningar eru oft undanfari athafna. Sá sem er fljótur að móðgast er kjáni vegna þess að slíkt hugarástand getur leitt til vanhugsaðra orða eða athafna.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Vottar Jehóva voru meðal fyrstu vistmanna fangabúða nasista.