Vertu hygginn og sannfærandi kennari
„Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna á vörum hans.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 16:23.
1. Af hverju er það að kenna orð Guðs meira en upplýsingamiðlun?
MARKMIÐ biblíukennara er að upplýsa bæði huga og hjarta nemenda sinna. (Efesusbréfið 1:18) Kennsla er því meira en upplýsingamiðlun. Orðskviðirnir 16:23 segja: „Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna [„sannfæringarkraftinn,“ NW] á vörum hans.“
2. (a) Hvað merkir það að sannfæra? (b) Hvernig geta allir kristnir menn verið sannfærandi kennarar?
2 Páll postuli fór vissulega eftir þessari meginreglu í kennslustarfi sínu. Þegar hann var í Korintu „ræddi [hann] við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.“ (Postulasagan 18:4) Að sögn heimildarrits merkir gríska orðið, sem hér er þýtt „sannfæra,“ að „valda hugarfarsbreytingu með rökum eða siðaboðskap.“ Með sannfærandi rökum tókst Páli að fá fólk til að breyta hugsunarhætti sínum. Svo mikill var sannfæringarkrafturinn að óvinir hans óttuðust hann. (Postulasagan 19:24-27) En kennsla Páls studdist ekki við mannlega hæfileika. Hann sagði Korintumönnum: „Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar, til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.“ (1. Korintubréf 2:4, 5) Þar eð allir kristnir menn njóta hjálpar anda Jehóva Guðs geta þeir allir verið sannfærandi kennarar. En hvernig? Skoðum nokkrar áhrifaríkar kennsluaðferðir.
Hlustaðu vel
3. Af hverju er nauðsynlegt að vera hygginn og skynugur til að kenna öðrum, og hvernig getum við náð til hjarta biblíunemanda okkar?
3 Fyrsta kennsluaðferðin er sú að hlusta en ekki tala. Eins og bent er á í Orðskviðunum 16:23 verðum við að vera hyggin til að vera sannfærandi kennarar. Jesús var vissulega hygginn og skynugur í samskiptum við þá sem hann kenndi. Jóhannes 2:25 segir: „Hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.“ En hvernig er hægt að vita hvað býr í hjarta þeirra sem við kennum? Ein leiðin er sú að hlusta vel á þá. Jakobsbréfið 1:19 segir: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ Menn eru auðvitað misjafnlega fúsir til að segja hug sinn. En þegar biblíunemendur okkar sannfærast um að við höfum einlægan áhuga á þeim aukast líkurnar á því að þeir segi hvað þeim býr í brjósti. Vingjarnlegar en hyggilegar spurningar ná oft til hjartans og hjálpa okkur að ‚ausa‘ upp því sem þar býr. — Orðskviðirnir 20:5.
4. Hvers vegna þurfa kristnir öldungar að hlusta vel?
4 Það er sérstaklega þýðingarmikið að kristnir öldungar hlusti vel. Að öðrum kosti vita þeir ekki með vissu ‚hvernig þeir eiga að svara hverjum manni.‘ (Kólossubréfið 4:6) Orðskviðirnir 18:13 vara við: „Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm.“ Tveir velviljaðir bræður töluðu við systur, sem hafði vantað á nokkrar samkomur, og vöruðu hana við veraldlegu hugarfari. Systirin var mjög sár yfir því að þeir skyldu ekki spyrja af hverju hún hefði ekki komið, en hún hafði verið að jafna sig eftir uppskurð. Það er mjög mikilvægt að hlusta áður en við gefum ráð.
5. Hvernig geta öldungar tekið á deilum milli bræðra?
5 Kennslustarf öldunga felur oft í sér ráðleggingar og þá er mjög mikilvægt að hlusta vel. Það er sérstaklega áríðandi þegar deilur koma upp milli trúbræðra. Öldungar verða að hlusta til að líkja eftir ‚föðurnum sem dæmir án manngreinarálits.‘ (1. Pétursbréf 1:17) Mönnum hitnar oft í hamsi við þess háttar aðstæður og öldungur ætti að hafa heilræði Orðskviðanna 18:17 í huga: „Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans.“ Góður kennari hlustar á báða málsaðila. Með því að bera fram bæn stuðlar hann að stillingu og ró. (Jakobsbréfið 3:18) Ef mönnum hitnar í hamsi getur hann stungið upp á að báðir bræðurnir beini orðunum til sín í stað þess að rífast hvor við annan. Með viðeigandi spurningum getur öldungurinn hugsanlega glöggvað sig á um hvað deilan snýst. Oft reynast deilur stafa af sambandsleysi en ekki illgirni. En hafi biblíulegar meginreglur verið brotnar getur kærleiksríkur kennari veitt hyggilegar leiðbeiningar eftir að hafa heyrt báðar hliðar málsins.
Einfaldleiki er mikilvægur
6. Hvernig gættu Páll og Jesús þess að kennslan væri einföld?
6 Einfaldleiki er önnur góð kennslutækni. Að vísu viljum við að biblíunemendur okkar ‚fái ásamt öllum heilögum skilið‘ hve sannleikurinn er „víður og langur, hár og djúpur.“ (Efesusbréfið 3:18) Sumir þættir biblíukenninganna eru hrífandi og stundum krefjandi rannsóknarefni. (Rómverjabréfið 11:33) En þegar Páll prédikaði fyrir Grikkjum einbeitti hann sér að hinum einfalda boðskap um ‚Krist krossfestan.‘ (1. Korintubréf 2:1, 2) Prédikun Jesú var líka skýr og aðlaðandi. Orðfæri hans í fjallræðunni var einfalt en samt flutti hann þar einhver djúpstæðustu sannindi sem sögð hafa verið. — Matteus, 5.-7. kafli.
7. Hvernig getum við notað einfaldar kennsluaðferðir?
7 Við getum líka notað einfaldar kennsluaðferðir. Hvernig? Með því að einbeita okkur að ‚því sem máli skiptir.‘ (Filippíbréfið 1:10) Þegar við fjöllum um torskilin viðfangsefni ættum við að reyna að tjá okkur á einföldu máli. Við ættum að einbeita okkur að aðalritningarstöðum í stað þess að reyna að lesa og ræða um hverja einustu ritningargrein sem vísað er til í ritinu. Þetta kostar góðan undirbúning. Við megum ekki drekkja nemandanum í smáatriðum eða hvarfla frá efninu til að ræða um þýðingarminni mál. Ef nemandinn spyr spurningar sem er ekki beinlínis tengd námsefninu getum við stungið nærgætnislega upp á að ræða hana í lok námsstundarinnar.
Áhrifaríkar spurningar
8. Hvernig notaði Jesús spurningar?
8 Spurningar eru annað áhrifaríkt kennslutæki. Jesús Kristur var óspar á spurningar þegar hann kenndi. Til dæmis spurði hann Pétur: „‚Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?‘ ‚Af vandalausum,‘ sagði Pétur. Jesús mælti: ‚Þá eru börnin frjáls.‘“ (Matteus 17:24-26) Jesús var eingetinn sonur þess Guðs sem tilbeðinn var í musterinu og bar því engin skylda til að greiða musterisskatt. En hann kom þessum sannleika á framfæri á áhrifaríkan hátt með spurningum. Þannig hjálpaði hann Pétri að draga rétta ályktun byggða á fyrri vitneskju.
9. Hvernig getum við notað spurningar þegar við kennum?
9 Við getum beitt spurningum þegar við kennum. Ef nemandinn svarar rangt er freistandi að koma einfaldlega með rétta svarið. En festist það í minni? Oft er besta aðferðin að spyrja nemandann spurninga til að reyna að láta hann sjálfan draga rétta ályktun. Ef hann á til dæmis erfitt með að skilja hvers vegna við notum nafn Guðs gætum við spurt hann: ‚Skiptir nafnið þitt máli fyrir þig? . . . Af hverju? . . . Hvað fyndist þér um það ef einhver vildi ekki nefna þig með nafni? . . . Er ekki eðlilegt að Guð krefjist þess af okkur að við notum einkanafn hans?‘
10. Hvernig geta öldungar beitt spurningum til að hjálpa fólki sem er illa leikið tilfinningalega?
10 Öldungar geta líka beitt spurningum í hjarðgæslu sinni. Heimur Satans hefur leikið marga safnaðarmenn grátt tilfinningalega og þeim finnst þeir kannski óhreinir eða óelskuverðir. Öldungur gæti rökrætt við slíkan safnaðarmann og spurt: ‚Þú segir að þér finnist þú óhreinn, en hvernig heldurðu að Jehóva líti á þig? Heldurðu ekki að kærleiksríkur faðir okkar á himnum elski þig, fyrst hann leyfði að sonur sinn dæi til að greiða lausnargjald fyrir þig?‘ — Jóhannes 3:16.
11. Hvaða tilgangi þjóna ræðuspurningar og hvernig er hægt að nota þær í fyrirlestrum?
11 Ræðuspurningar eru líka gott kennslutæki. Áheyrendum er ekki ætlað að svara þeim upphátt en þær hjálpa þeim að rökhugsa. Spámennirnir til forna spurðu oft slíkra spurninga til að fá áheyrendur sína til að hugsa djúpt. (Jeremía 18:14, 15) Jesús beitti ræðuspurningum fagmannlega. (Matteus 11:7-11) Ræðuspurningar eru sérstaklega áhrifaríkar í fyrirlestrum. Það getur verið áhrifaríkara að spyrja: ‚Ætli Jehóva sé ánægður ef við þjónum honum ekki af allri sálu?‘ en að segja áheyrendum hreinlega að þeir verði að þjóna Jehóva af allri sálu til að þóknast honum.
12. Hvert er gildi viðhorfsspurninga?
12 Viðhorfsspurningar eru gagnlegar til að ganga úr skugga um að biblíunemandinn trúi því sem hann er að læra. (Matteus 16:13-16) Nemandi svarar kannski réttilega að saurlífi sé rangt. En af hverju ekki að fylgja slíkri spurningu eftir með fleiri spurningum: ‚Hvað finnst þér sjálfum um siðferðiskröfur Guðs? Finnst þér þær of strangar? Finnst þér það skipta máli hvort þú fylgir siðferðisreglum Guðs eða ekki?‘
Líkingar sem ná til hjartans
13, 14. (a) Hvað merkir það að nota dæmi eða líkingu? (b) Af hverju eru góðar líkingar áhrifaríkar?
13 Áhrifaríkar líkingar og dæmi eru enn ein leið til að ná til hjarta áheyrenda og biblíunemenda. Gríska orðið, sem þýtt er „dæmi“ eða „dæmisaga,“ merkir bókstaflega „að setja saman eða við hliðina á.“ Þegar þú lýsir einhverju með dæmi skýrirðu það með því að ‚setja það við hlið‘ einhvers sem líkist því. Jesús spurði til dæmis: „Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?“ Síðan tók hann mustarðskorn sem dæmi. — Markús 4:30-32.
14 Spámenn Guðs gripu oft til kröftugra líkinga og dæma. Guð hafði notað Assýringa til að refsa Ísraelsmönnum en síðar gerðu þeir sig seka um skefjalaust ofbeldi. Jesaja afhjúpaði ósvífni þeirra með þessari líkingu: „Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni?“ (Jesaja 10:15) Jesús notaði líkingar og dæmisögur mikið þegar hann kenndi. Sagt er að ‚án dæmisagna hafi hann ekki talað til fólks.‘ (Markús 4:34) Góðar líkingar og dæmi eru áhrifarík af því að þau virkja bæði huga og hjarta. Þau leyfa áheyrendum að tileinka sér nýjar upplýsingar með því að bera þær saman við eitthvað sem þeir þekkja.
15, 16. Hvernig má gera líkingar sem áhrifaríkastar? Lýstu með dæmi.
15 Hvernig getum við notað líkingar sem ná til hjartans? Í fyrsta lagi þarf líkingin að vera þokkalega hliðstæð því sem verið er að útskýra. Ef samlíkingin er ekki nógu góð dregur hún athyglina frá efninu í stað þess að upplýsa. Ræðumaður tók einu sinni húsbóndatryggan hund sem dæmi um undirgefni hinna smurðu leifa við Jesú Krist. En er svona niðrandi samlíking við hæfi? Biblían kemur sömu hugmynd á framfæri með miklu meiri reisn og líkir 144.000 smurðum fylgjendum Jesú við „brúði, er skartar fyrir manni sínum.“ — Opinberunarbókin 21:2.
16 Líkingar eru áhrifaríkastar ef þær tengjast lífi fólks. Líking Natans um slátraða lambið snerti hjarta Davíðs konungs af því að hann hafði verið fjárhirðir í æsku og þótti vænt um sauðfé. (1. Samúelsbók 16:11-13; 2. Samúelsbók 12:1-7) Trúlega hefði líkingin ekki hitt jafn vel í mark ef Natan hefði talað um naut. Líkingar sóttar í vísindaleg fyrirbæri eða lítt þekkta söguatburði segja áheyrendum okkar oft lítið. Jesús sótti líkingar sínar í daglegt líf. Hann talaði um jafnhversdagslega hluti og ljós, fugla himinsins og liljur vallarins. (Matteus 5:15, 16; 6:26, 28) Áheyrendur Jesú þekktu þá og skildu.
17. (a) Hvert getum við sótt líkingar og dæmi? (b) Hvernig getum við lagað líkingarnar í ritum okkar að nemandanum?
17 Í starfi okkar bjóðast fjölmörg tækifæri til að nota einfaldar en áhrifaríkar líkingar og dæmi. Vertu athugull. (Postulasagan 17:22, 23) Kannski geturðu notað börn áheyrandans, heimili, atvinnu eða tómstundagaman sem dæmi. Þú getur notað vitneskju þína um hann til að auka við líkingu sem er að finna í námsefninu. Tökum sem dæmi áhrifamikla líkingu í 14. tölugrein 8. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Þar er sagt frá ástríku foreldri sem nágranni rægir. Við getum kannski hugleitt hvernig hægt sé að laga líkinguna að aðstæðum biblíunemanda sem er sjálfur foreldri.
Fagmannlegur upplestur úr Biblíunni
18. Af hverju ættum við að kappkosta að lesa vel?
18 Páll hvatti Tímóteus: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.“ (1. Tímóteusarbréf 4:13) Þar eð Biblían er undirstaða kennslunnar er gott að geta lesið reiprennandi upp úr henni. Levítarnir höfðu þau sérréttindi að lesa Móselögmálið upp fyrir fólk Guðs. Rak þá í vörðurnar eða var lesturinn tilbreytingarlaus? Nei, Biblían segir í Nehemíabók 8:8: „Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“
19. Hvernig getum við bætt upplestur okkar úr Ritningunni?
19 Þess eru dæmi að mælskir ræðumenn séu lakir lesarar. Hvernig geta þeir bætt sig? Með því að æfa sig og lesa textann upphátt aftur og aftur uns lesturinn verður hnökralaus. Þar sem Biblían er fáanleg á hljóðsnældum á heimamálinu geta menn hlustað eftir merkingaráherslum lesarans, raddbrigðum, framburði nafna og framandlegra orða. Þeir sem eiga Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar á heimamáli sínu geta notfært sér framburðartákn hennar.a Með æfingu verður jafnvel auðvelt að lesa nöfn eins og Beer-Lahaj-róí. — 1. Mósebók 16:14.
20. Hvernig getum við ‚haft gát á kennslu okkar‘?
20 Það eru mikil sérréttindi að vera þjónar Jehóva og láta hann nota sig sem kennara. Við skulum því öll taka þessa ábyrgð alvarlega. Megum við sífellt ‚hafa gát á sjálfum okkur og fræðslunni.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Við getum verið góðir kennarar með því að hlusta vel, hafa efnið einfalt, spyrja hyggilegra spurninga, nota áhrifaríkar samlíkingar og með því að lesa fagmannlega upp úr Biblíunni. Megum við öll njóta góðs af þeirri þjálfun sem Jehóva veitir okkur í skipulagi sínu, því að það getur hjálpað okkur að hafa „lærisveina tungu.“ (Jesaja 50:4) Með því að notfæra okkur til fulls öll þau verkfæri, sem okkur eru látin í té til boðunarstarfsins, þar á meðal bæklinga, hljóðsnældur og myndbönd, getum við orðið hyggnir og sannfærandi kennarar.
[Neðanmáls]
a Rétt er að minna á að í íslensku er áhersla alltaf á fyrsta atkvæði orðs, einnig í framandlegum biblíunöfnum.
Manstu?
◻ Hvernig getur það hjálpað kennara að hlusta vel?
◻ Hvernig getum við líkt eftir einfaldri kennslu Páls og Jesú?
◻ Hvers konar spurninga getum við spurt þegar við kennum?
◻ Hvers konar líkingar og dæmi eru áhrifaríkust?
◻ Hvernig getum við bætt upplestur okkar?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Góður kennari hlustar.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Jesús byggði líkingar sínar á daglegu lífi.