Er heimili þitt staður hvíldar og friðar?
„[Jehóva] gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ — RUTARBÓK 1:9.
1. Hvaða þrjár konur lögðu upp í ferð til Júda fyrir 3000 árum?
FYRIR um það bil 3000 árum lögðu þrjár konur upp í hættuför. Þær ætluðu yfir torfærur Móabslands, um svæði þar sem þjófar og misindismenn höfðust við. Sú elsta var ekkjan Naomí sem var á leið til Betlehem í Júda í heittelskuðu heimalandi sínu. Með henni voru tvær yngri ekkjur, Orpa og Rut, móabítískar konur, eiginkonur látinna sona Naomí, þeirra Kiljóns og Mahlóns. Hlýðið á!
2. Hvaða ósk átti Naomí vegna Orpu og Rutar?
2 Þá sagði Naomí: „Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. [Jehóva] auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér.“ Og Naomí átti eina ósk. „[Jehóva] gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ (Rutarbók 1:8, 9) Já, Naomí hvatti tengdadætur sínar til að snúa aftur til þjóðar sinnar, í von um að Guð myndi veita þeim báðum þar þá hvíld og huggun sem er samfara því að eiga góðan eiginmann og heimili.
3. Hvaða afstöðu tók Rut og hverjar urðu afleiðingarnar?
3 Orpa hélt á brott en ekki hin trúfasta Rut. Hún neitaði að yfirgefa tengdamóður sína og sagði ákveðin: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ Hverjar urðu afleiðingarnar? Rut eignaðist heimili hvíldar og friðar með Bóasi og hlaut ‚fullkomin laun‘! Hún varð ættmóðir Davíðs konungs og Jesú Krists, hins óviðjafnanlega herra hans. — Rutarbók 1:16; 2:12; 4:13-22; Sálmur 110:1; Matteus 1:1-6.
4. Hvaða umhugsunarefni er vakið upp hér?
4 Naomí lét í ljós þá ósk að Jehóva færði báðum tengdadætrum hennar öryggi hjónabandsins og heimili hvíldar og friðar að gjöf. Vissulega vill Guð að þjónar hans lifi friðsælu fjölskyldulífi. Ef þú ert vottur Jehóva, geturðu þá með sanni sagt að heimili þitt sé staður hvíldar og friðar?
Veldu réttan maka
5. Ef þú ert ógiftur, kristinn maður í giftingarhugleiðingum, hvert er fyrsta skrefið í átt að friðsælu fjölskyldulífi?
5 Ef þú ert ógiftur, kristinn maður í giftingarhugleiðingum vonast þú vafalítið eftir friðsælu fjölskyldulífi. Páll postuli bendir á fyrsta skrefið í þá átt er hann skrifar: „Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni.“ — 1. Korintubréf 7:39.
6. (a) Hvað þýðir það að ‚giftast aðeins í Drottni‘? (b) Hvaða spurningar eiga þeir sem eru að leita sér að maka að íhuga? (c) Hvers vegna ber að leita til Jehóva í bæn við val á skírðum maka?
6 Að ‚giftast aðeins í Drottni‘ þýðir að giftast aðeins trúbróður eða -systur. En kristinn maður ætti ekki að steypa sér út í hjónaband, jafnvel ekki með vígðum þjóni Jehóva. Leitast einstaklingurinn í raun við að ‚ástunda réttlæti og auðmýkt‘? (Sefanía 2:3) Þjónar hann eða hún Guði af heilu hjarta? Talar þessi einstaklingur þannig að augljóst sé að hjarta hans er fullt af kærleiksríku lofi um Jehóva? Er starfið á akrinum reglulegur og mikilvægur þáttur í lífi hans? Hefur hann eða hún þá eiginleika til að bera sem nauðsynlegir eru til þjónustunnar og til kristins hjónabands? Já, menn ættu að sýna visku þegar þeir velja sér maka, jafnvel þótt hann sé skírður, og ræða málið við Jehóva í bæn. Vertu eins viss um og mögulegt er að hinn trúaði búi yfir góðum andlegum eiginleikum. Slíkt samband fyrirbyggir þær áhyggjur og þá sorg sem svo oft spilla friðnum í trúarlega skiptum fjölskyldum.
7. Hvers þurfum við að gæta til að öðlast sem mesta hamingju í hjónabandi?
7 Þegar tveir sannkristnir einstaklingar ganga í hjónaband geta þeir fullnægt tilfinningalegum þörfum hvor annars og deilt með sér andlegum hugðarefnum. Það tengir þá eins sterkum böndum og hægt er meðal manna. Svo sannarlega æskja kristnir menn og konur þess að vera nátengdir maka sínum. Maðurinn var skapaður með ríka þörf fyrir að tilbiðja Guð og við erum sælust þegar við gerum viðeigandi ráðstafanir til að fullnægja þessari andlegu þörf. (Matteus 5:3) Við gerum okkur þetta ljóst og viljum áreiðanlega ekki óhlýðnast Jehóva með því að giftast þeim sem ekki er í trúnni og fara þannig á mis við þá andlegu einingu sem auðgar svo mjög hjónabandið. (5. Mósebók 7:3, 4) Já, til að öðlast sem mesta hamingju í hjónabandinu þurfum við að fullvissa okkur um að Guð sé með okkur í því. Svona táknrænan, „þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.“ (Prédikarinn 4:12) Það mun styrkja hjónaband þitt og hjálpa þér að gera heimili þitt að stað hvíldar og friðar ef þú hefur Jehóva Guð með í ráðum.
Ráð sem stuðla að heimilisfriði
8. Hvaða ráð eru sérstaklega eftirtektarverð fyrir gifta, kristna einstaklinga?
8 Hvers þurfa kristnir einstaklingar, sem þegar eru giftir, við til að eignast heimili hvíldar og friðar? Vitaskuld margs en þó eru ráð Páls í Efesusbréfinu 5:21-33 sérstaklega eftirtektarverð. Vissulega gæti eiginmaður eða eiginkona reynt að nota þessi ráð til að draga fram ágalla maka síns. En það er auðvitað langtum affarasælla að einbeita sér að því sem hægt er að heimfæra á sjálfan sig!
9. Hvaða ráð gaf Páll kristnum eiginmönnum?
9 Sért þú kristinn eiginmaður mun það að heimfæra ráð Páls á sjálfan þig hjálpa þér til að gera heimilið að stað hvíldar og friðar. Postulinn hvetur: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ Páll sagði ennfremur: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna . . . Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ Eiginmaðurinn á að „elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig“ — eins og væri hún hann sjálfur, og það er við hæfi þar sem ‚þau tvö eru eitt hold‘! — 1. Mósebók 2:24.
10. Hvaða ábyrgð ber kristinn eiginmaður í ljósi 1. Tímóteusarbréfs 6:8?
10 Eiginmaður, sem elskar konu sína eins og sjálfan sig, tekur forystuna í andlegum málum. Hann ber ábyrgð á stöðu mála innan fjölskyldunnar og getur ekki bara látið reka á reiðanum. Hann verður að sjá vel fyrir bæði efnislegum og andlegum þörfum allra í fjölskyldunni. Páll segir: „En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
11. Hvaða ráð gaf Páll kristnum eiginkonum?
11 Kristin eiginkona getur gert margt til að gera heimilið að stað hvíldar og friðar. Páll gaf eiginkonum þessi innblásnu ráð: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. . . . Konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Efesusbréfið 5:21-24, 33) Þessi ‚lotning‘ stuðlar að því að gera heimilið að stað hvíldar og friðar. Það er sannarlega mikill munur á því og hinu, sem svo margar veraldlegar konur hafa tileinkað sér, að vera sjálfstæðar og storkandi og spilla með því heimilisfriðnum.
12. Hvernig ættu kristnir eiginmenn og -konur að hegða sér?
12 Kristin hjón ættu að hegða sér þannig að það stuðli að ást og virðingu. Eiginmaðurinn ætti að vera tillitssamur, ástríkur og andlega þroskaður. Og eiginkonan ætti að vera guðhrædd, samvinnuþýð og elskuverð. Það er ekki vandséð hvernig slíkt gerir heimilið að stað hvíldar og friðar.
„Gefið djöflinum ekkert færi“
13. Hvaða ráð gefur Páll í Efesusbréfinu 4:26, 27?
13 Þar sem menn eru ófullkomnir getur reynst allt annað en auðvelt að halda heimilisfriðinn. Til dæmis getur utanaðkomandi álag leitt til spennu sem gæti rænt heimilið friðnum. En ef við förum að ráðum Páls í Efesusbréfinu 4:26, 27 getur það stuðlað að friði á heimilinu. Páll skrifaði: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ Jafnvel þótt eiginmaður eða kona fyllist stökum sinnum réttmætri reiði ættu þau aldrei að syndga með því að láta reiðina taka völdin, halda áfram að vera í örgu skapi og ala þannig fjandskap í brjósti sér. Látum aldrei friðarspillinn, Satan djöfulinn, ræna kristin heimili friði! — 1. Pétursbréf 5:8.
14. Hvað er ráðlagt til að endurheimta heimilisfriðinn ef upp koma vandamál sem valda sundrungu?
14 Bæði hjónin verða auðvitað að fara að ráðum Biblíunnar til að heimilið sé friðsælt. Ef upp koma vandamál sem valda sundrungu getur sameiginleg bæn um anda Guðs leitt til þess að ávextir hans komi í ljós og aftur komist á friður á heimilinu. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Já, jafnvel við mjög erfiðar kringumstæður mun þessi aðferð hjálpa til að gera heimilið að stað hvíldar og friðar.
Áhrif barnanna á heimilisfriðinn
15. Hvernig geta börnin stuðlað að heimilisfriði?
15 Ungu fjölskyldumeðlimirnir geta líka stuðlað að heimilisfriði. Hvernig? Með því að vera hlýðnir og samvinnuþýðir. Slíkur andi veltur að miklu leyti á þeirri kennslu sem þeir fá frá Ritningunni og því hvernig kristnir foreldrar þeirra eru kennarahlutverki sínu vaxnir. Hluti af þessari mikilvægu kennslu er að foreldrarnir gefi gott fordæmi. Eins og Orðskviðirnir 22:6 segja réttilega: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ Fái börnin gott uppeldi og gefi foreldrarnir þeim gott fordæmi munu þau í fæstum tilvikum víkja af hinum rétta vegi. En vitanlega veltur mikið á gæðum og umfangi kennslunnar, ekki síður en hjartalagi barnanna.
16. Hvernig getur uppeldi Tímóteusar verið okkur fordæmi?
16 Foreldrar ættu að hefja andlegt uppeldi barna sinna meðan þau eru mjög ung. Það var gert við Tímóteus, eins og hvatningarorð Páls til hans sýna: „En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Já, Tímóteus hafði „fest trú á“ sannindi Ritningarinnar. Gríska orðið, sem hér er notað, merkir „að vera fullkomlega sannfærður um, að vera fullviss um“ eitthvað. (New Thayer’s Greek-English Lexicon, bls. 514) Evnike, kristin móðir Tímóteusar, og Lóis amma hans hafa þurft að leggja sig mjög fram við að gera Tímóteus ‚fullkomlega sannfærðan.‘ Þeim tókst að rækta með honum ‚hræsnislausa trú,‘ þrátt fyrir að faðir hans virðist ekki hafa verið í trúnni. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Vinnur þú að því að byggja upp ámóta trú með börnum þínum?
17. Á hverju má sjá að hægt er að kenna börnum frá blautu barnsbeini?
17 Tímóteus hlaut fræðslu úr Ritningunni frá blautu barnsbeini. Því skyldum við aldrei vanmeta hæfileika barnsins til að læra. The New York Times segir að samkvæmt rannsóknum „séu tvöfalt fleiri taugamót — staðir þar sem greinaskúfar heilafrumnanna mætast — á vissum svæðum barnsheilans heldur en í fullorðnum.“ Mjög ung börn geta meira að segja lært eitthvað um það hvað sé gott og hvað sé vont, þægilegt eða sársaukafullt. Í bók sinni The Brain segir Richard M. Restak læknir: „Allar lifandi verur geta geymt minningar í heilanum í samræmi við mikilvægi þeirra fyrir lífsafkomu sína. Dýr ‚man‘ kvalara sinn og dregur sig í hlé um leið og hann birtist. Minningum er líka raðað eftir mikilvægi þeirra í sambandi við tilfinningalega reynslu. Það þarf ekki að segja börnum oftar en einu sinni að leggja ekki hendurnar á heitan ofn.“ Vissulega eigum við enn margt ólært um starfsemi heilans, en barn getur lært af reynslunni. Til dæmis geta jafnvel kornung börn lært að sitja kyrr og hljóð á kristnum samkomum.
18. Hvaða ráð gaf Páll börnum og foreldrum í Efesusbréfinu 6:1-4?
18 Börnin geta tekið við andlegum leiðbeiningum stig af stigi eftir því sem þau stækka. Þau geta meðal annars lært að Guð ætlast til að þau hlýði foreldrum sínum. Þetta krefst ákveðinnar en kærleiksríkrar kennslu frá foreldrunum, því Páll skrifaði: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ,til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘ Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:1-4) Hlýðin börn eiga drjúgan þátt í að gera heimilið að stað hvíldar og friðar.
19. Hvað getur styrkt tengsl foreldris og barns?
19 En hvað getur styrkt tengslin milli foreldris og barns? Það er áreiðanlegt að sameiginlegur lestur Biblíunnar og kristinna rita getur hjálpað til þess. Rit svo sem Biblíusögubókin mín og Hlýðum á kennarann mikla eru sérstaklega notadrjúg er við hjálpum börnunum. Leggið áherslu á kærleikann til Guðs, bæði þegar þið lesið Biblíuna og við önnur tækifæri. Þegar þið matist, látið orð falla sem lofa Jehóva fyrir að sjá fyrir okkur öllum. Þegar þið ferðist með börnunum, eignið þá Jehóva með þakklæti öll undur sköpunarverksins — plöntur, blóm, tré, fjöll, ár, vötn og dýr. Þegar þið eruð í starfinu úti á akrinum, notið þá tækifærið til að ræða um kærleika Guðs. Hjálpið barninu dag hvern að vaxa í kærleika til Jehóva sem persónu. Að sjálfsögðu verður slíkur kærleikur að vera í ykkar eigin hjörtum ef þið eigið að ná til hjartna barna ykkar. — 5. Mósebók 6:4-7.
20. Hversu mikilvægur er góður agi?
20 Gleymið því aldrei að agi er nauðsynlegur. Þegar honum er réttilega beitt og hann móttekinn gefur hann „ávöxt friðar og réttlætis.“ (Hebreabréfið 12:11) Og börn, sem eru svo vitur að taka við aga foreldranna, færa fjölskyldunni gleði, heiðra hana og viðhalda góðu orðspori hennar. (Orðskviðirnir 10:1; 13:1; 23:24, 25) Það má með sanni segja að bæði foreldrar og börn geti, með því að rækja hlutverk sín samkvæmt Ritningunni, gert heimilið að stað hvíldar og friðar.
Varðveitið hvíld og frið á heimilinu
21. Hvernig er hægt að varðveita heimilið sem stað hvíldar og friðar samkvæmt Orðskviðunum 24:3, 4?
21 Hvernig er hægt að varðveita heimilið sem stað hvíldar og friðar? Orðskviður segir: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast, fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.“ (Orðskviðirnir 24:3, 4) Iðin fjölskylda getur með þekkingu sinni og vinnu fyllt heimilið af fögrum efnislegum hlutum. En því aðeins er hægt að byggja upp og festa fjölskyldu á traustum grunni að meðlimir hennar sýni dómgreind og iðki guðlega visku og noti biblíuþekkingu sína á réttan hátt. Já, viska styrkir fjölskylduna og gerir hana farsæla.
22. Hvaða árangri skilar það að fylgja leiðbeiningum Guðs?
22 Sé leiðbeiningum Guðs fylgt í fjölskyldunni mun það hafa frið í för með sér, því Ísraelsmönnum var sagt: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18) Megi því allir guðræknir eiginmenn, eiginkonur og börn nýta sér himneska visku. Þá munu heimili okkar ávallt verða staðir hvíldar og friðar.
Manst þú?
◻ Hvernig ætti ógiftur, kristinn maður í giftingarhugleiðingum að velja sér maka til að tryggja friðsælt fjölskyldulíf?
◻ Hvað þurfa eiginmenn og eiginkonur að gera samkvæmt Efesusbréfinu 5:21-33 til að eignast friðsælt heimili?
◻ Hvernig getur það hjálpað okkur að gera heimilið að stað friðar ef við förum að ráðunum í Efesusbréfinu 4:26, 27?
◻ Hvernig geta börnin stuðlað að fjölskyldufriði?
◻ Hvernig getum við varðveitt heimili okkar sem staði hvíldar og friðar?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Kristin hjón þurfa að hegða sér þannig að það stuðli að ást og virðingu.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Tímóteusi var kenndur sannleikur Guðs frá blautu barnsbeini. Hjálpar þú börnum þínum til að vaxa í þekkingu og kærleika til Jehóva?