Hneigðu hjarta þitt að hyggindum
„[Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 2:6.
1. Hvernig hneigjum við hjarta okkar að hyggindum?
JEHÓVA er hinn mikli fræðari okkar. (Jesaja 30:20, 21) En hvað þurfum við að gera til að hafa gagn af ‚þekkingunni á Guði‘ sem opinberuð er í orði hans? Meðal annars verðum við að ‚hneigja hjarta okkar að hyggindum‘ — þrá innilega að tileinka okkur þennan eiginleika og sýna hann. Við verðum að leita til Jehóva Guðs til að gera það því að spekingurinn sagði: „[Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ (Orðskviðirnir 2:1-6) Hvað er þekking, speki og hyggindi?
2. (a) Hvað er þekking? (b) Hvernig skilgreinirðu visku? (c) Hvað eru hyggindi?
2 Þekking er það að vera kunnugur staðreyndum sökum reynslu, eftirtektar eða náms. Speki eða viska er hæfnin til að nota þekkingu. (Matteus 11:19) Salómon konungur sýndi mikla visku þegar tvær konur gerðu tilkall til sama barns og hann notaði þekkingu sína á móðurástinni til að útkljá deiluna. (1. Konungabók 3:16-28) Með hyggindum er átt við skarpskyggni og næma dómgreind. Þau eru „sú hæfni hugans að greina eitt frá öðru.“ (Webster’s Universal Dictionary) Ef við hneigjum hjartað að hyggindum veitir Jehóva okkur þau fyrir milligöngu sonar síns. (2. Tímóteusarbréf 2:1, 7) En hvernig geta hyggindi haft áhrif á ýmis svið lífsins?
Hyggindi og málfar okkar
3. Hvernig skýrirðu Orðskviðina 11:12, 13 og hvað merkir það að vera „óvitur“?
3 Hyggindi segja okkur að það ‚hafi sinn tíma að þegja og sinn tíma að tala.‘ (Prédikarinn 3:7) Hyggindi gera okkur líka orðvör. Orðskviðirnir 11:12, 13 segja: „Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir. Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.“ Já, sá sem fyrirlítur aðra manneskju er „óvitur.“ Að sögn orðabókarhöfundarins Wilhelms Geseniusar er slíkur maður „skilningslaus.“ Hann hefur slæma dómgreind og hinum innri manni hans er áfátt. Ef kristinn maður gerist svo lausmáll að jaðrar við slúður eða lastmæli, þá verða hinir útnefndu öldungar að láta til sín taka og stöðva þessi óheilnæmu áhrif í söfnuðinum. — 3. Mósebók 19:16; Sálmur 101:5; 1. Korintubréf 5:11.
4. Hvernig meðhöndla skarpskyggnir og trúfastir kristnir menn trúnaðarupplýsingar?
4 Ólíkt ‚óvitrum‘ manni þegir „hygginn maður“ þegar við á. Hann ljóstrar ekki upp leyndarmáli. (Orðskviðirnir 20:19) Hann veit að gáleysislegt tal getur valdið tjóni og er því „staðfastur í lund.“ Hann er tryggur trúbræðrum sínum og ljóstrar ekki upp trúnaðarmálum sem gætu sett þá í hættu. Ef hygginn kristinn maður fær í hendur trúnaðarupplýsingar af einhverju tagi sem varða söfnuðinn, þegir hann yfir þeim uns skipulag Jehóva kemur þeim á framfæri opinberlega á þann hátt sem það telur við hæfi.
Hyggindi og breytni okkar
5. Hvernig líta ‚heimskingjar‘ á lausung og hvers vegna?
5 Orðskviðir Biblíunnar hjálpa okkur að vera hyggin og forðast óviðeigandi hegðun. Til dæmis segja Orðskviðirnir 10:23: „Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing, en viskan er hyggnum manni gleði.“ Þeir sem hafa ‚ánægju‘ af svívirðilegri breytni eða lausung eru blindir á ranga breytni sína og láta eins og þeir þurfi ekki að standa Guði reikningsskap gerða sinna. (Rómverjabréfið 14:12) Slíkir ‚heimskingjar‘ spillast svo í hugsun sinni að þeir halda að Guð sjái ekki ranga breytni þeirra. Með verkum sínum eru þeir eiginlega að segja: „[Jehóva] er ekki til.“ (Sálmur 14:1-3; Jesaja 29:15, 16) Þeir láta ekki stjórnast af meginreglum Guðs þannig að þá skortir hyggindi og þeir skilja ekki hvað rétt er. — Orðskviðirnir 28:5.
6. Hvers vegna er lausung heimskuleg og hvernig lítum við á hana ef við erum hyggin?
6 ‚Hygginn maður‘ gerir sér ljóst að lausung er ekkert ‚ánægjuleg‘ og enginn leikur. Hann veit að Guð hefur vanþóknun á henni og hún getur spillt sambandi okkar við hann. Slík hegðun er heimskuleg af því að hún rænir mann sjálfsvirðingu, spillir hjónaböndum, skemmir huga og líkama og gerir andlega viðleitni að engu. Við skulum því hneigja hjarta okkar að hyggindum og forðast hvers kyns lausung eða siðleysi. — Orðskviðirnir 5:1-23.
Hyggindi og skapsmunir
7. Hvaða áhrif hefur reiði á líkamann?
7 Að hneigja hjarta sitt að hyggindum er líka hjálp til að stjórna skapi sínu. „Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd [eða hyggindum],“ segja Orðskviðirnir 14:29, „en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.“ Ein ástæðan fyrir því að hygginn maður kappkostar að stjórna skapi sínu er sú að stjórnlaus reiði hefur skaðleg áhrif á líkamann. Hún getur hækkað blóðþrýsting og valdið öndunarfærasjúkdómum. Læknar hafa bent á að reiði og bræði geti valdið eða ýtt undir astma, húðsjúkdóma, meltingartruflanir og magasár.
8. Hvað getur óþolinmæði leitt af sér en hvernig geta hyggindi hjálpað okkur?
8 En við ættum ekki bara að vera hyggin og ‚sein til reiði‘ í þeim tilgangi að forðast heilsutjón. Óþolinmæði getur leitt af sér heimskulega fljótfærni sem okkur iðrar síðar. Hyggindi fá okkur til að íhuga hvað gæti hlotist af taumlausri tungu eða vanhugsuðum verkum og forða okkur þannig frá ‚mikilli fíflsku.‘ Ef við erum hyggin skiljum við að reiði getur sett hugsun okkar úr skorðum þannig að við sýnum ekki heilbrigða dómgreind. Það myndi draga úr hæfni okkar til að gera vilja Guðs og lifa í samræmi við réttlátar meginreglur hans. Já, stjórnlaus reiði er andlega skaðleg. Reyndar er „reiði“ eða „reiðiköst“ (NW) flokkuð með viðurstyggilegum ‚verkum holdsins‘ sem hindra menn í að erfa Guðsríki. (Galatabréfið 5:19-21) Við skulum því vera hyggnir kristnir menn og vera ‚fljótir til að heyra, seinir til að tala, seinir til reiði.‘ — Jakobsbréfið 1:19.
9. Hvernig geta hyggindi og bróðurást hjálpað okkur að jafna ágreining?
9 Ef við reiðumst geta hyggindi fengið okkur til að þegja og afstýrt árekstri. Orðskviðirnir 17:27 segja: „Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur.“ Hyggindi og bróðurást hjálpa til að hafa hemil á lönguninni að gusa einhverju skaðlegu út úr sér. Ef við höfum misst stjórn á skapinu fær kærleikur og auðmýkt okkur til að biðjast afsökunar og bæta fyrir. En setjum sem svo að einhver hafi móðgað okkur. Þá skulum við tala við hann einslega með mildi og hógværð og gera okkur sérstaklega far um að stuðla að friði. — Matteus 5:23, 24; 18:15-17.
Hyggindi og fjölskyldan
10. Hvert er hlutverk visku og hygginda í fjölskyldulífinu?
10 Allir í fjölskyldunni þurfa að sýna visku og hyggindi því að þessir eiginleikar uppbyggja heimilið. Orðskviðirnir 24:3, 4 segja: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast, fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.“ Viska og hyggindi eru eins og góðir hleðslusteinar farsæls fjölskyldulífs. Hyggindi hjálpa kristnum foreldrum að fá börnin til að tjá tilfinningar sínar og áhyggjur. Hygginn maður er fær um að tjá sig og hlusta og fá innsýn í tilfinningar og hugsanir maka síns. — Orðskviðirnir 20:5.
11. Hvernig getur hyggin eiginkona byggt upp heimili sitt?
11 Viska og hyggindi eru tvímælalaust ómissandi fyrir hamingjuríkt fjölskyldulíf. Til dæmis segja Orðskviðirnir 14:1: „Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.“ Vitur og hyggin eiginkona, sem er manni sínum undirgefin, leggur sig alla fram til góðs fyrir fjölskyldu sína og byggir hana þar með upp. Eitt sem ‚reisir hús hennar‘ eða byggir upp heimilið er það að hún talar alltaf vel um eiginmann sinn og eykur þar með virðingu annarra fyrir honum. Og dugandi og hyggin eiginkona, sem ber djúpa lotningu fyrir Jehóva, ávinnur sér hrós. — Orðskviðirnir 12:4; 31:28, 30.
Hyggindi og lífsstefna okkar
12. Hvernig lítur ‚óvitur‘ maður á fíflsku og hvers vegna?
12 Hyggindi hjálpa okkur að halda réttri stefnu í öllum málum. Það má ráða af Orðskviðunum 15:21 sem segja: „Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur [eða hygginn] maður gengur beint áfram.“ Hvernig eigum við að skilja þennan orðskvið? Óvitur maður, kona og unglingur hafa gaman af fíflskunni. Þau vantar réttar áhugahvatir og eru svo óvitur að þau njóta fíflskunnar.
13. Hvað kom Salómon auga á í sambandi við hlátur og glaðværð?
13 Hinn hyggni Ísraelskonungur Salómon komst að raun um að glaðværð er ósköp lítils virði. Hann viðurkenndi: „Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi. Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið?“ (Prédikarinn 2:1, 2) Salómon var hygginn maður og komst að raun um að glaðværð og hlátur einn sér er lítils virði því að hann veitir manninum ekki sanna og varanlega hamingju. Við getum gleymt vandamálum okkar um stund meðan við hlæjum, en eftir á virka þau kannski enn stærri. Salómon gat réttilega talað um hláturinn sem ‚vitlausan.‘ Hvers vegna? Vegna þess að hugsunarlaus hlátur slævir heilbrigða dómgreind. Hann getur gert okkur léttúðug í mjög alvarlegum málum. Þess konar glaðværð og trúðslæti geta ekki skilið neitt eftir sig sem máli skiptir. Þegar við skiljum hvaða þýðingu reynsla Salómons af hlátri og glaðværð hefur, forðar það okkur frá því að ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 4.
14. Hvernig gengur skynsamur eða hygginn maður „beint áfram“?
14 Í hvaða skilningi gengur hygginn og skynsamur maður „beint áfram“? Andleg hyggindi, ásamt því að fara eftir meginreglum Guðs, vísa fólki beina braut ráðvendninnar. Þýðing Byingtons segir hispurslaust: „Heimskan er sæla heilalausum manni en skynsamur maður gengur beint.“ „Skynsamur maður“ lætur fætur sína feta beinar brautir og er fær um að greina gott frá illu vegna þess að hann fer eftir orði Guðs. — Hebreabréfið 5:14; 12:12, 13.
Leitaðu alltaf hygginda hjá Jehóva
15. Hvað lærum við af Orðskviðunum 2:6-9?
15 Til að fylgja braut ráðvendninnar í lífinu þurfum við öll að viðurkenna ófullkomleika okkar og leita andlegra hygginda hjá Jehóva. Orðskviðirnir 2:6-9 segja: „[Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega, með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu. Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, — í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.“ — Samanber Jakobsbréfið 4:6.
16. Hvers vegna er engin viska, hyggindi eða ráð til gegn Jehóva?
16 Við skulum viðurkenna að við séum Jehóva háð og leitast auðmjúk við að skilja vilja hans með því að kafa djúpt ofan í orð hans. Hann býr yfir visku í algerum skilningi og ráð hans eru alltaf gagnleg. (Jesaja 40:13; Rómverjabréfið 11:34) Reyndar eru öll ráð gagnslaus sem ganga í berhögg við orð hans. Orðskviðirnir 21:30 segja: „Engin viska er til og engin hyggni, né heldur ráð gegn [Jehóva].“ (Samanber Orðskviðina 19:21.) Aðeins andleg hyggindi, þroskuð við nám í orði Guðs með hjálp rita frá ‚hinum trúa og hyggna þjóni,‘ hjálpa okkur að fylgja réttri stefnu í lífinu. (Matteus 24:45-47) Við skulum því móta lífi okkar farveg í samræmi við heilræði Jehóva í þeirri vissu að engin ráð, sem stríða gegn orði hans, fá staðist þótt þau virðist trúverðug.
17. Hvað getur hlotist af röngum ráðleggingum?
17 Hyggnir kristnir menn, sem gefa öðrum ráð, gera sér ljóst að þau verða að byggjast algerlega á orði Guðs, og þeir vita að þeir þurfa að rannsaka Biblíuna og íhuga áður en þeir svara spurningu. (Orðskviðirnir 15:28) Mikið tjón getur hlotist af ef þeir gefa röng svör við spurningum um alvarleg mál. Þess vegna þurfa kristnir öldungar að vera andlega hyggnir og ættu að biðja um leiðsögn Jehóva þegar þeir leitast við að aðstoða trúbræður sína andlega.
Vertu auðugur að andlegum hyggindum
18. Hvernig geta hyggindi hjálpað okkur að halda andlegu jafnvægi ef vandamál kemur upp í söfnuðinum?
18 Við þurfum að hafa „skilning á öllu“ til að þóknast Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 2:7) Ef við nemum Biblíuna af kappi og fylgjum handleiðslu anda Guðs og skipulags berum við skyn á hvað við eigum að gera þegar við lendum í aðstæðum sem gætu leitt okkur á ranga braut. Til dæmis gæti okkur fundist eiga að taka eitthvert mál öðrum tökum í söfnuðinum en gert er. Andleg hyggindi segja okkur að þetta sé ekki tilefni til að hætta að umgangast fólk Jehóva og þjóna honum. Hugsaðu um sérréttindi okkar að þjóna Jehóva, um hið andlega frelsi sem við njótum, og um gleðina af því að þjóna sem boðberar Guðsríkis. Andleg hyggindi gera okkur fær um að sjá hlutina í réttu samhengi og hafa hugfast að við erum vígð Guði og ættum að láta okkur annt um samband okkar við hann, hvað sem aðrir gera. Ef við getum ekkert gert guðræðislega til að leysa vandamál, þá þurfum við að bíða þess þolinmóð að Jehóva geri það. Við skulum sýna biðlund og „vona á Guð“ í stað þess að hætta eða verða örvæntingarfull. — Sálmur 42:6, 12.
19. (a) Hvert var inntakið í bæn Páls fyrir Filippímönnum? (b) Hvernig geta hyggindi hjálpað okkur ef við skiljum ekki eitthvað til hlítar?
19 Andleg hyggindi hjálpa okkur að sýna Guði og fólki hans hollustu. Páll sagði kristnum mönnum í Filippí: „Þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists.“ (Filippíbréfið 1:9, 10) Til að rökhugsa rétt þurfum við ‚þekkingu og alla dómgreind.‘ Gríska orðið, sem hér er þýtt „dómgreind,“ merkir „næm siðferðisvitund.“ Þegar við lærum eitthvað viljum við sjá hvernig það tengist Jehóva og Kristi og hugleiða hvernig það miklar persónuleika Jehóva og ráðstafanir hans. Það eflir dómgreind okkar, hyggindi og þakklæti fyrir það sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur. Ef við skiljum ekki eitthvað til hlítar, þá fær dómgreind og hyggindi okkur til að gefa ekki upp á bátinn trúna á allt sem við höfum lært um Krist, Guð og tilgang hans.
20. Hvernig getum við verið rík af andlegum hyggindum?
20 Við verðum auðug að andlegum hyggindum ef við samstillum alltaf hugsanir okkar og verk orði Guðs. (2. Korintubréf 13:5) Ef við gerum það á uppbyggilegan hátt verðum við auðmjúk, ekki þver og gagnrýnin á aðra. Hyggindi hjálpa okkur að hafa gagn af leiðréttingu og fullvissa okkur um það sem mestu máli skiptir. (Orðskviðirnir 3:7) Við skulum láta okkur langa til að þóknast Jehóva og leitast við að fyllast nákvæmri þekkingu á orði hans. Þá getum við greint rétt frá röngu, gengið úr skugga um hvað skipti raunverulega máli og varðveitt dyggilega hið dýrmæta samband okkar við Jehóva. Allt er þetta gerlegt ef við hneigjum hjarta okkar að hyggindum. En fleira þarf til. Við verðum að láta hyggindin varðveita okkur.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna ættum við að hneigja hjarta okkar að hyggindum?
◻ Hvernig geta hyggindi haft áhrif á mál okkar og hegðun?
◻ Hvaða áhrif geta hyggindi haft á skapsmuni okkar?
◻ Hvers vegna ættum við alltaf að leita hygginda hjá Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hyggindi hjálpa okkur að hafa stjórn á skapsmunum okkar.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Salómon konungur var hygginn og gerði sér ljóst að glaðværð og gamansemi veitir ekki sanna lífsfyllingu.