„Reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit“
„Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ – ORÐSKV. 3:5.
1, 2. (a) Í hvers konar aðstæðum getum við lent? (b) Á hvern eigum við að treysta þegar við erum áhyggjufull, tökum ákvarðanir eða eigum í baráttu við freistingar? Af hverju?
SILVÍAa vinnur hjá fyrirtæki sem hefur þurft að draga saman seglin og segja upp nokkrum starfsmönnum. Hún óttast að hún sé næst í röðinni. Hvað er til ráða ef hún missir vinnuna? Hvernig á hún að sjá sér farborða? Móniku langar til að flytja á svæði þar sem vantar fleiri boðbera. En á hún að gera það? Samúel er rúmlega tvítugur en hann á við annars konar vanda að etja. Hann horfði á klámmyndir þegar hann var strákur og þær freista hans enn. Hvernig getur hann staðist freistinguna?
2 Á hvern treystirðu þegar þú ert áhyggjufullur eða í nauðum, þarft að taka alvarlegar ákvarðanir eða átt í baráttu við freistingar? Treystirðu eingöngu á sjálfan þig eða varparðu áhyggjum þínum á Jehóva? (Sálm. 55:23) „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra,“ segir í Biblíunni. (Sálm. 34:16) Það er því ákaflega mikilvægt fyrir okkur að treysta Jehóva af öllu hjarta en reiða okkur ekki á eigið hyggjuvit. – Orðskv. 3:5.
3. (a) Hvernig sýnum við að við treystum á Jehóva? (b) Af hverju gæti sumum hætt til að reiða sig um of á eigið hyggjuvit?
3 Við sýnum að við treystum Jehóva af öllu hjarta með því að fara alltaf eftir vilja hans. Við þurfum að vera dugleg að leita til hans í bæn og biðja hann einlæglega um að leiðbeina okkur. Mörgum finnst hins vegar erfitt að reiða sig algerlega á Jehóva. Lena er systir í söfnuðinum. Hún segir að það hafi tekið sig langan tíma að læra að treysta fullkomlega á Jehóva. Af hverju? „Ég hef aldrei haft neitt af pabba mínum að segja og mamma sinnti hvorki tilfinningalegum né líkamlegum þörfum mínum. Ég lærði því snemma að spjara mig sjálf.“ Fortíð Lenu gerði henni erfitt fyrir að reiða sig algerlega á einhvern annan. Öðrum hættir til að treysta um of á eigin hæfileika í stað þess að leita ráða hjá Jehóva. Öldungur gæti til dæmis reitt sig um of á reynslu sína í stað þess að leita leiðsagnar Jehóva í málefnum safnaðarins.
4. Um hvað er rætt í þessari grein?
4 Jehóva væntir þess að við leggjum okkur fram um að breyta í samræmi við bænir okkar og fylgja leiðbeiningum hans í einu og öllu. En hvar liggur jafnvægið milli þess að varpa byrðum okkar á hann og reyna að leysa sjálf úr erfiðleikum okkar? Á hverju þurfum við að vara okkur þegar við tökum ákvarðanir? Af hverju er mikilvægt að biðja þegar við reynum að standast freistingar? Við skulum leita svara við þessum spurningum með því að skoða nokkur dæmi úr Biblíunni.
Í nauðum
5, 6. Hvernig brást Hiskía við þegar Assýríukonungur hafði í hótunum?
5 Í Biblíunni segir um Hiskía Júdakonung: „Hann var Drottni handgenginn og vék ekki frá honum. Hann hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse.“ Já, hann „treysti Drottni, Guði Ísraels“. (2. Kon. 18:5, 6) Sanheríb Assýríukonungur hafði ráðist með fjölmennan her inn í Júda, unnið nokkrar víggirtar borgir og hafði nú augastað á Jerúsalem. Hann sendi því herinn þangað ásamt marskálki sínum og tveim öðrum til að hæða Jerúsalembúa og hræða þá. Hvernig brást Hiskía við? Hann gekk í musteri Jehóva og bað: „Drottinn, Guð okkar, bjargaðu okkur nú úr greipum hans svo að öll konungsríki veraldar komist að raun um að þú, Drottinn, þú einn ert Guð.“ – 2. Kon. 19:14-19.
6 Hiskía breytti í samræmi við bæn sína. Áður en hann gekk í musterið til að biðja var hann meira að segja búinn að segja fólkinu að það ætti ekki að svara háðsglósum marskálksins einu orði. Hann sendi einnig menn til Jesaja spámanns til að leita ráða hjá honum. (2. Kon. 18:36; 19:1, 2) Hiskía gerði ráðstafanir sem hann vissi að Jehóva hafði velþóknun á. Hann reyndi ekki að leysa vandann í bága við vilja Jehóva, til dæmis með því að leita stuðnings Egypta eða annarra þjóða. Hann reiddi sig ekki á eigið hyggjuvit heldur treysti Jehóva. Eftir að engill Jehóva hafði banað 185.000 hermönnum Assýringa sneri Sanheríb aftur til Níníve. – 2. Kon. 19:35, 36.
7. Af hverju eru bænir Hönnu og Jónasar hughreystandi fyrir okkur?
7 Hanna, eiginkona Levítans Elkana, var miður sín yfir því að geta ekki eignast barn. En hún reiddi sig á Jehóva. (1. Sam. 1:9-11, 18) Og Jónas spámaður var frelsaður úr kviði stórfisks eftir að hafa beðið til Jehóva: „Í neyð minni kallaði ég til Drottins og hann svaraði mér. Úr djúpi heljar hrópaði ég á hjálp og þú heyrðir hróp mitt.“ (Jónas 2:2, 3, 11) Það er ákaflega hughreystandi til þess að vita að við getum alltaf sárbænt Jehóva um hjálp, óháð því í hve miklum nauðum við erum stödd. – Lestu Sálm 55:2, 17.
8, 9. Hvað kemur fram í bænum Hiskía, Hönnu og Jónasar og hvað lærum við af því?
8 Bænir Hiskía, Hönnu og Jónasar minna okkur einnig á hverju við megum ekki gleyma í bænum okkar þótt við séum í nauðum stödd. Öll voru þau miður sín vegna erfiðleikanna sem þau áttu í. En bænir þeirra vitna um að þau voru ekki aðeins að hugsa um sína eigin vanlíðan heldur var þeim mikið í mun að heiðra nafn Guðs, tilbiðja hann á réttan hátt og gera vilja hans. Hiskía þótti sárt að nafn Guðs skyldi sæta háðung. Hanna lofaði að sonurinn, sem hún þráði svo heitt að eignast, skyldi þjóna í tjaldbúðinni í Síló. Og Jónas sagði: „Heitið, sem ég hef unnið, vil ég efna.“ – Jónas 2:10.
9 Þegar við eigum við erfiðleika að etja og biðjum Jehóva að hjálpa okkur er skynsamlegt að skoða hvað okkur gengur til. Viljum við bara losna við erfiðleikana eða höfum við Jehóva og vilja hans í huga? Við getum orðið svo upptekin af þjáningum okkar að vilji Jehóva og tilbeiðslan á honum hverfi í skuggann. Þegar við biðjum hann um hjálp skulum við hugsa öðru fremur um að nafn hans helgist og að drottinvaldi hans sé haldið á lofti. Það getur hjálpað okkur að vera jákvæð jafnvel þó að málin leysist ekki á þann veg sem við helst vildum. Stundum bænheyrir Jehóva okkur með því að veita okkur þolgæði í erfiðleikunum. – Lestu Jesaja 40:29; Filippíbréfið 4:13.
Þegar við tökum ákvarðanir
10, 11. Hvað gerði Jósafat þegar upp komu aðstæður sem hann vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við?
10 Hvernig tekurðu mikilvægar ákvarðanir í lífinu? Ertu kannski vanur að taka ákvörðun og biðja síðan Jehóva að blessa hana? Jósafat Júdakonungur er gott dæmi um mann sem tók ákvarðanir á réttan hátt. Sameinaður her Móabíta og Ammóníta var á leið að ráðast inn í landið og Júdamenn voru allsendis ófærir um að verjast þeim. Hvað gerði Jósafat?
11 „Jósafat varð skelfingu lostinn og ákvað að leita svara hjá Drottni,“ segir í Biblíunni. Hann lýsti yfir að allir Júdamenn skyldu fasta og safnaði síðan fólkinu saman til að „leita úrskurðar Drottins“. Síðan gekk hann fram fyrir söfnuð Júdamanna og Jerúsalembúa og bað: „Munt þú, Guð, ekki dæma þá? Vér erum aflvana gegn þessum volduga her sem heldur gegn oss. Vér vitum ekki hvað vér getum gert, þess vegna beinum vér sjónum vorum til þín.“ Hinn sanni Guð heyrði bæn Jósafats og frelsaði Júdamenn af hendi óvinanna. (2. Kron. 20:3-12, 17) Þegar við tökum ákvarðanir, ekki síst ef þær hafa áhrif á samband okkar við Jehóva, ættum við að treysta á hann í stað þess að reiða okkur á eigið hyggjuvit.
12, 13. Hvað getum við lært af Davíð konungi varðandi ákvarðanir?
12 En hvað eigum við að gera þegar vandinn, sem við blasir, virðist auðleystur? Kannski finnst okkur lausnin liggja í augum uppi vegna þess að við höfum áður lent í svipuðum aðstæðum. Í Biblíunni er að finna frásögu af Davíð konungi sem hjálpar okkur að sjá málið í réttu ljósi. Amalekítar réðust á borgina Siklag og tóku að herfangi eiginkonur Davíðs og manna hans ásamt börnum. Davíð leitaði svara hjá Jehóva og spurði: „Á ég að elta þennan ræningjaflokk?“ Jehóva svaraði: „Eltu þá. Þú nærð þeim örugglega og frelsar þá sem teknir voru til fanga.“ Davíð gerði það og „frelsaði alla sem Amalekítarnir höfðu rænt“. – 1. Sam. 30:7-9, 18-20.
13 Einhvern tíma eftir ránsför Amalekíta réðust Filistear inn í Ísrael. Aftur leitaði Davíð til Jehóva og fékk skýrt svar: „Farðu norður eftir því að ég mun vissulega selja Filistea þér í hendur.“ (2. Sam. 5:18, 19) Skömmu síðar gerðu Filistear aðra árás. Hvað gerði Davíð nú? Hann hefði getað hugsað með sér að hann vissi mætavel hvað hann ætti að gera vegna þess að hann hafði lent í þessum aðstæðum tvisvar áður. Hann hefði getað ákveðið upp á sitt einsdæmi að berjast við þá. En Davíð reiddi sig ekki á fyrri reynslu og eigið hyggjuvit. Enn á ný leitaði hann til Jehóva í bæn. Hann hlýtur að hafa verið feginn að hann skyldi gera það vegna þess að nú fékk hann önnur fyrirmæli en í hin tvö skiptin. (2. Sam. 5:22, 23) Þegar við stöndum frammi fyrir kunnuglegum aðstæðum eða vandamáli þurfum við að gæta þess að treysta ekki bara á fyrri reynslu. – Lestu Jeremía 10:23.
14. Hvaða lærdóm má draga af samskiptum Jósúa og öldunga Ísraels við Gíbeoníta?
14 Við erum ófullkomin og okkur hættir stundum til að gleyma. Þess vegna þurfa allir, einnig reyndir öldungar, að muna eftir að biðja Jehóva um leiðsögn þegar þeir taka ákvarðanir. Rifjum upp hvernig Jósúa, arftaki Móse, og öldungar Ísraels brugðust við þegar Gíbeonítar báðu þá um að gera friðarsáttmála við sig. Gíbeonítar sýndu þá kænsku að dulbúast og þykjast vera frá fjarlægu landi. Jósúa og öldungarnir gerðu friðarsáttmála við þá án þess að leita ráða hjá Jehóva. Jehóva lét vera að fella sáttmálann úr gildi en sá til þess að frásagan yrði skráð í Biblíuna til að við gætum dregið lærdóm af henni. – Jós. 9:3-6, 14, 15.
Þegar við eigum í baráttu við freistingar
15. Af hverju er bænin mikilvæg hjálp í baráttunni við freistingar?
15 Þar sem við erum syndug að eðlisfari þurfum við að berjast af hörku gegn syndugum tilhneigingum. (Rómv. 7:21-25) En við getum sigrað í baráttunni. Hvernig? Jesús sagði fylgjendum sínum að bænin væri mikilvæg vörn gegn freistingum. (Lestu Lúkas 22:40.) En jafnvel þó að við biðjum til Guðs geta rangar langanir eða hugsanir verið þrálátar. Þá þurfum við að halda áfram að biðja hann um visku til að standast freistinguna. Við fáum það loforð að hann gefi öllum „örlátlega og átölulaust“. (Jak. 1:5) Jakob skrifar einnig: „Sé einhver sjúkur [í andlegri merkingu] ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan.“ – Jak. 5:14, 15.
16, 17. Hvenær er best að biðja um hjálp til að standast freistingar?
16 Bænin er mikilvæg hjálp í baráttunni gegn freistingum en við verðum að muna eftir að biðja á réttu augnabliki. Tökum sem dæmi ungan mann sem nefndur er í Orðskviðunum 7:6-23. Þegar rökkvar að kvöldi gengur hann eftir götu þar sem hann veit að siðlaus kona á heima. Hann lætur glepjast af fagurgala hennar og blíðum orðum og fer rakleiðis á eftir henni eins og naut á leið til slátrunar. Af hverju lagði ungi maðurinn leið sína þangað? Í Biblíunni segir að hann hafi verið „vitstola“. (Orðskv. 7:7) Hann var ungur og óreyndur og átti líklega í baráttu við rangar langanir. Hvenær hefði bænin gert honum mest gagn? Auðvitað hefði verið gott fyrir hann að biðja hvenær sem var við þessar aðstæður. En best hefði þó verið ef hann hefði beðið til Guðs þegar honum datt fyrst í hug að leggja leið sína í þessa götu.
17 Segjum sem svo að maður nokkur sé að berjast gegn þeirri freistingu að horfa á klámfengið efni. En hugsum okkur að hann fari inn á vefsíður þar sem hann veit að finna má myndir eða myndskeið af kynferðislegu tagi. Stæði hann þá ekki í svipuðum sporum og ungi maðurinn sem talað er um í 7. kafla Orðskviðanna? Hann væri kominn út á hættulega braut. Sá sem vill standast freistinguna að horfa á klámfengið efni þarf að leita hjálpar Jehóva í bæn áður en hann freistast til að fara inn á vefsíður sem hann veit að eru vafasamar.
18, 19. (a) Af hverju getur verið erfitt að standast freistingar en hvernig getum við það? (b) Hvað ætlar þú að gera?
18 Það er engan veginn auðvelt að standast freistingar eða sigrast á slæmum ávana. „Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu,“ skrifaði Páll postuli. „Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið.“ (Gal. 5:17) Til að sigra í baráttunni þurfum við að biðja innilega til Guðs um leið og röng hugsun kviknar eða við finnum fyrir freistingu. Síðan þurfum við að gera allt sem við getum til að forðast hið ranga. Við höfum „ekki reynt nema það sem menn geta þolað“, og með hjálp Jehóva getum við verið honum trú. – 1. Kor. 10:13.
19 Bænin er frábær gjöf sem Jehóva hefur gefið okkur til að takast á við erfiðleika, taka mikilvægar ákvarðanir eða reyna að standast freistingar. Við sýnum að við treystum Jehóva með því að biðja um hjálp hans. Við ættum líka að biðja hann að gefa okkur heilagan anda sinn til að leiðbeina okkur og styrkja. (Lúk. 11:9-13) Fyrir alla muni skulum við treysta Jehóva en ekki reiða okkur á eigið hyggjuvit.
[Neðanmáls]
a Nöfnum hefur verið breytt.
Manstu?
• Hvað má læra af Hiskía, Hönnu og Jónasi um það að treysta Jehóva?
• Hvernig eru Davíð og Jósúa dæmi um að við þurfum að gæta okkar vel þegar við tökum ákvarðanir?
• Hvenær er mikilvægast að biðja um hjálp til að standast freistingar?
[Mynd á bls. 9]
Hvenær er mikilvægast að biðja um hjálp til að standast freistingu?