Göngum á veginum sem verður æ bjartari
„Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:18.
1, 2. Hvernig hafa þjónar Guðs notið góðs af andlegu ljósi frá honum?
HVER gæti verið betur til þess fallinn að lýsa áhrifum sólarupprásar á náttmyrkrið en sjálfur skapari ljóssins, Jehóva Guð? (Sálmur 36:9) Þegar morgunnroðinn grípur „í jaðar jarðarinnar“, segir Guð, breytist hún „eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði“. (Jobsbók 38:12-14) Með hækkandi sól tekur jörðin á sig nýja mynd, líkt og mjúkur leir breytist þegar þrýst er á hann með innsigli.
2 Jehóva veitir einnig andlegt ljós. (Sálmur 43:3) Heimurinn er í niðamyrkri en hinn sanni Guð heldur áfram að lýsa þjónum sínum veginn. Biblían lýsir þeim áhrifum sem ljósið hefur: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ (Orðskviðirnir 4:18) Með æ skærara ljósi heldur Jehóva áfram að lýsa þjónum sínum veginn. Það betrumbætir skipulag þeirra, kenningar og siðferði.
Skærara ljós leiðir til framfara í skipulagsmálum
3. Hverju er lofað í Jesaja 60:17?
3 Jehóva sagði fyrir munn Jesaja: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts.“ (Jesaja 60:17) Vottar Jehóva hafa gert ýmsar betrumbætur á skipulagsmálum sínum á hinum „síðustu dögum“ við endalok veraldar, rétt eins og þegar verðmætara efni kemur í stað verðminna. — Matteus 24:3; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
4. Hvaða fyrirkomulag tók gildi árið 1919 og hvernig kom það að gagni?
4 Snemma á hinum síðustu dögum kusu Biblíunemendurnir, eins og Vottar Jehóva voru kallaðir þá, öldunga og djákna með lýðræðislegum hætti. En sumir öldungar höfðu ekki ósvikinn trúboðsanda. Þeir voru ekki aðeins tregir til að taka sjálfir þátt í boðunarstarfinu heldur höfðu þeir líka letjandi áhrif á aðra. Árið 1919 var þess vegna komið á fót nýju fyrirkomulagi í öllum söfnuðunum. Skipaður var þjónustustjóri sem var útnefndur af deildarskrifstofu þjóna Jehóva en ekki kosinn af söfnuðinum. Hann sá meðal annars um að skipuleggja boðunarstarfið, úthluta starfssvæðum og hvetja fólk til að taka þátt í boðunarstarfinu. Á árunum þar á eftir jókst boðunarstarfið gífurlega.
5. Hvaða betrumbætur voru gerðar á þriðja áratug síðustu aldar?
5 Orðin „kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans“ hvöttu alla í söfnuðinum til dáða en þau voru sögð á merku móti Biblíunemendanna í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum árið 1922. Árið 1927 var boðunarstarfið skipulagt með hliðsjón af því að sunnudagurinn hentaði best fyrir starfið hús úr húsi. Hvers vegna var sá dagur valinn? Vegna þess að flestir voru í fríi á þeim degi. Vottar Jehóva nú á tímum leggja sig einnig fram um að heimsækja fólk þegar líklegast er að það sé heima, til dæmis um helgar og á kvöldin.
6. Hvaða yfirlýsing var samþykkt árið 1931 og hvaða áhrif hafði hún á boðunarstarfið?
6 Sunnudaginn 26. júlí árið 1931 fékk boðunarstarfið byr undir báða vængi þegar samþykkt var yfirlýsing á móti í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum og síðan á mótum um allan heim. Að hluta til hljóðaði yfirlýsingin svona: „Við erum þjónar Jehóva sem hann hefur falið að sinna starfi í sínu nafni, að veita vitnisburð um Jesú Krist í hlýðni við fyrirmæli hans og kunngera fólki að Jehóva sé hinn sanni og almáttugi Guð. Við tökum því fagnandi við nafninu sem við höfum fengið frá munni Drottins Guðs og viljum láta nefna okkur og þekkjast undir nafninu Vottar Jehóva.“ (Jesaja 43:10) Þetta nýja nafn lýsti svo sannarlega vel aðalstarfi þeirra sem báru það. Já, Jehóva hafði verk að vinna fyrir alla þjóna sína. Mannfjöldinn tók undir yfirlýsinguna af ákafa.
7. Hvaða breyting var gerð árið 1932 og hvers vegna?
7 Margir öldungar lögðu sig alla fram í boðunarstarfinu. En sumir öldungar stóðu gegn þeirri hugmynd að allir í söfnuðinum ættu að boða fagnaðarerindið meðal almennings. Hins vegar voru enn frekari framfarir á næsta leiti. Árið 1932 fengu söfnuðirnir leiðbeiningar í Varðturninum um að hætta að kjósa öldunga og djákna. Þeir áttu þess í stað að kjósa í þjónustunefnd trústerka menn sem tækju þátt í boðunarstarfinu. Umsjónin var því í höndum þeirra sem voru virkir í því að boða fagnaðarerindið og starfið blómstraði.
Skærara ljós hefur fleiri framfarir í för með sér
8. Hvaða lagfæring var gerð árið 1938?
8 Birtan hélt áfram að verða „æ skærari“. Árið 1938 voru kosningar endanlega lagðar niður. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ myndi þaðan í frá skipa alla umsjónarmenn í söfnuðinum í samræmi við fyrirmæli Guðs. (Matteus 24:45-47) Næstum allir söfnuðir Votta Jehóva samþykktu breytinguna fúslega og boðunarstarfið hélt áfram að bera ávöxt.
9. Hvaða fyrirkomulag tók gildi árið 1972 og hvers vegna má segja að það hafi verið til framfara?
9 Önnur breyting á umsjón safnaðanna tók gildi 1. október 1972. Í öllum söfnuðum Votta Jehóva var skipað öldungaráð í stað eins safnaðarþjóns eða umsjónarmanns. Þetta nýja fyrirkomulag hefur verið þroskuðum mönnum mikil hvatning til að reynast hæfir til að fara með forystuna í söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7) Fyrir vikið hafa fleiri bræður öðlast reynslu í því að axla ábyrgð í söfnuðinum. Þeir hafa komið að góðum notum við að hjálpa mörgum nýjum biblíunemendum sem hafa tekið við sannleika Biblíunnar.
10. Hvaða fyrirkomulagi var komið á fót árið 1976?
10 Bræðrunum í hinu stjórnandi ráði var skipt í sex nefndir og frá og með 1. janúar 1976 fóru þær með umsjón höfuðstöðva Votta Jehóva og deildarskrifstofa þeirra auk allra safnaðanna. Það hefur verið til mikillar blessunar að „margir ráðgjafar“ skuli hafa haft umsjón með öllu sem tengist boðunarstarfinu. — Orðskviðirnir 15:22; 24:6.
11. Hvaða endurbætur voru gerðar árið 1992 og hvers vegna?
11 Árið 1992 voru gerðar frekari endurbætur sem eru sambærilegar þeim sem gerðar voru eftir að Ísraelsmenn og aðrir sneru heim eftir útlegðina í Babýlon. Á þeim tíma voru ekki nógu margir levítar til að sjá um þjónustuna í musterinu. Musterisþjónar, sem voru ekki af ísraelskum uppruna, fengu því umsjón með fleiri störfum til aðstoðar levítunum. Sumir af ‚öðrum sauðum‘ fengu einnig fleiri ábyrgðarstörf árið 1992 til að aðstoða hinn trúa og hyggna þjónshóp við að sinna umsvifameiri störfum hér á jörð. Þeir voru skipaðir aðstoðarmenn nefnda hins stjórnandi ráðs. — Jóhannes 10:16.
12. Hvernig hefur Jehóva gert friðinn að valdstjórn okkar?
12 Hverju hafa allar þessar breytingar komið til leiðar? „Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum,“ segir Jehóva. (Jesaja 60:17) Þjónar Jehóva njóta friðar og réttlætisástin er valdsmaður þeirra, það er að segja hvötin til að þjóna honum. Þeir eru vel skipulagðir til að geta sinnt því starfi að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
Jehóva varpar ljósi á kenningar
13. Hvernig varpaði Jehóva ljósi á kenningar á þriðja áratug 20. aldar?
13 Jehóva vísar fólki sínu líka veginn með því að varpa ljósi á kenningar. Í Opinberunarbókinni 12:1-9 er dæmi um það. Í frásögunni eru þrjár táknrænar persónur: Þunguð „kona“ sem fæðir, „dreki“ og „sveinbarn“. Veistu hvað persónurnar tákna? Borin voru kennsl á þær í greininni „Fæðing þjóðar“ í Varðturninum á ensku 1. mars 1925. Hún veitti fólki Guðs betri skilning á spádómum um fæðingu Guðsríkis. Af henni var ljóst að til eru tvær fylkingar, fylking Jehóva og fylking Satans. Á árabilinu 1927 og 1928 gerðu þjónar Guðs sér grein fyrir því að jól og afmæli væru óbiblíuleg. Þeir hættu því að halda þessar hátíðir.
14. Hvaða kenningar voru skýrðar á fjórða áratugnum?
14 Á fjórða áratugnum var skærara ljósi varpað á þrjár kenningar. Biblíunemendurnir höfðu vitað árum saman að hinn mikli múgur, sem nefndur er í Opinberunarbókinni 7:9-17, væri ekki sami hópur og hinar 144.000 sem myndu stjórna sem konungar og prestar með Kristi. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-5) En ekki var vitað með vissu hver múgurinn mikli væri. Árið 1935 skildu menn hins vegar að hann væri sá hópur sem kæmi lifandi úr „þrengingunni miklu“ og hefði von um að lifa að eilífu á jörðinni. Þessu má líkja við það þegar dagsbirtan gefur umhverfinu skýrari blæ. Síðar á sama ári fékkst aukinn skilningur sem snerti börn votta Jehóva á skólaaldri í mörgum löndum. Á meðan þjóðerniskennd réð ríkjum víða um heim gerðu vottarnir sér grein fyrir því að fánahylling væri annað og meira en formsatriði. Ári síðar voru færð rök fyrir því að Kristur hefði dáið á staur en ekki krossi. — Postulasagan 10:39.
15. Hvenær var lögð áhersla á heilagleika blóðsins og hvernig?
15 Það varð venja í síðari heimstyrjöldinni að gefa særðum hermönnum blóð. Í kjölfarið var skærara ljósi varpað á heilagleika blóðsins. Varðturninn 1. júlí 1945 á ensku hvatti „alla tilbiðjendur Jehóva, sem vilja fá að lifa að eilífu í réttlátum nýjum heimi, til að virða heilagleika blóðsins og lúta réttlátri stjórn Jehóva í þessu mikilvæga máli“.
16. Hvenær var Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar gefin út og hvaða kosti hefur hún?
16 Árið 1946 gerðu menn sér grein fyrir því að þörf væri á nýrri biblíuþýðingu sem væri ekki lituð af erfikenningum kristindómsins og tæki mið af nýjustu heimildum og rannsóknum. Í desember 1947 var hafist handa við þessa þýðingu. Árið 1950 var Nýheimsþýðing kristnu Grísku ritninganna gefin út á ensku. Hebresku ritningarnar komu síðan út í fimm bindum frá árinu 1953. Síðasta bindið kom út 1960, rúmlega 12 árum eftir að þýðingin hófst. Árið 1961 var Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar gefin út í einu bindi. Þessi þýðing, sem er nú fáanleg á fjölmörgum tungumálum, hefur marga kosti. Í henni er að finna nafn Guðs, Jehóva, eins og í frummálunum. Þar að auki hefur nákvæm þýðing hennar lagt grunninn að auknum skilningi á sannleika Guðs.
17. Á hvað var skærara ljósi varpað árið 1962?
17 Árið 1962 fékkst betri skilningur á því hver væru ‚yfirvöldin‘ sem talað er um í Rómverjabréfinu 13:1 og að hve miklu leyti kristnir menn eigi að vera undirgefnir þeim. Við nákvæma rannsókn á 13. kafla Rómverjabréfsins og á biblíuversum eins og Títusarbréfinu 3:1, 2 og 1. Pétursbréfi 2:13, 17 kom í ljós að þessi yfirvöld eru ekki Jehóva Guð og Jesús Kristur heldur stjórnvöld manna.
18. Á hvaða sannindi var varpað ljósi á níunda áratugnum?
18 Á árunum þar á eftir hélt gata réttlátra áfram að verða æ skærari. Árið 1985 var ljósi varpað á hvað það þýðir að vera lýstur réttlátur „til lífs“ og réttlátur sem „Guðs vinur“. (Rómverjabréfið 5:18, Biblían 1912; Jakobsbréfið 2:23) Árið 1987 var útskýrt til hlítar hvað hið kristna fagnaðarár merkir.
19. Hvernig hefur Jehóva veitt fólki sínu meira andlegt ljós á undanförnum árum?
19 Árið 1995 fékkst betri skilningur á því hvernig ‚sauðirnir‘ og ‚hafrarnir‘ eru aðgreindir. Árið 1998 kom nákvæm útskýring á musterissýn Esekíels en hún er að uppfyllast núna. Árið 1999 var útskýrt hvenær og hvernig „viðurstyggð eyðingarinnar“ stendur á helgum stað. (Matteus 24:15, 16; 25:32) Og árið 2002 skildu menn betur hvað það þýðir að tilbiðja Guð í „anda og sannleika“.— Jóhannes 4:24.
20. Á hvaða öðrum sviðum hafa þjónar Guðs gert betrumbætur?
20 Það hefur fleira verið betrumbætt en skipulagsmál og kenningar. Kristnir menn hafa líka þurft að bæta afstöðu sína til ýmissa mála. Árið 1973 var til dæmis farið að líta á tóbaksnotkun sem „saurgun á líkama“ og alvarlega synd. (2. Korintubréf 7:1) Áratugi síðar var afstaða okkar til skotvopna skýrð betur í Varðturninum 1. febrúar 1984. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um aukið ljós á okkar tímum.
Höldum áfram að ganga á veginum sem verður æ bjartari
21. Hvaða viðhorf getur hjálpað okkur að halda áfram að ganga á veginum sem verður æ bjartari?
21 Gamalreyndur öldungur viðurkennir að það geti verið „erfitt að sætta sig við breytingar og laga sig að þeim“. Hvað hefur auðveldað honum að taka til sín allar breytingarnar sem hann hefur upplifað á þeim 48 árum sem hann hefur verið boðberi fagnaðarerindisins? Hann svarar: „Rétt viðhorf er lykillinn. Að neita því að viðurkenna breytingu jafngildir því að sitja eftir þegar söfnuðurinn heldur áfram. Ef ég á erfitt með að viðurkenna ákveðna breytingu hugsa ég um orð Péturs til Jesú: ‚Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.‘ Ég spyr mig síðan: Hvert ætti ég að fara? Inn í myrkur heimsins? Þetta hugarfar hjálpar mér að halda mér fast við söfnuð Guðs.“ — Jóhannes 6:68.
22. Hvaða gagn höfum við af því að ganga í ljósinu?
22 Heimurinn er sannarlega í niðamyrkri. Jehóva heldur áfram að lýsa þjónum sínum veginn þannig að bilið breikkar milli þeirra og fólks í heiminum. Hvað gerir þetta ljós fyrir okkur? Holur á myrkum vegi hverfa ekki við það eitt að lýsa á þær. Ljósið frá orði Guðs fjarlægir ekki heldur tálgryfjur. En það hjálpar okkur að forðast þær og halda áfram að ganga á veginum sem verður æ bjartari. Höldum því áfram að gefa gaum að spádómsorðum Jehóva „eins og ljósi, sem skín á myrkum stað“. — 2. Pétursbréf 1:19.
Manstu?
• Hvaða skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á söfnuði Guðs?
• Hvaða kenningar hafa verið skýrðar betur samfara auknu ljósi?
• Hvaða breytingar hefur þú upplifað og hvað hefur hjálpað þér að taka þær til þín?
• Hvers vegna vilt þú halda áfram að ganga á veginum sem verður æ bjartari?
[Myndir á blaðsíðu 9]
Biblíunemendurnir fengu hvatningu til að sinna þjónustunni á móti í Cedar Point í Ohio árið 1922.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Nathan H. Knorr tilkynnir um útgáfu „Nýheimsþýðingar kristnu Grísku ritninganna“ árið 1950.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 8]
© 2003 BiblePlaces.com