Fyrri hluti - Ljósleiftur – stór og smá
„Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:18.
1. Af hverju hefur sannleikurinn verið opinberaður smám saman?
ÞAÐ ber visku Guðs gott vitni að andleg sannindi skuli hafa verið opinberuð smám saman eins og ljósleiftur í samræmi við Orðskviðina 4:18. Í greininni á undan sáum við hvernig þessi ritningargrein uppfylltist á postulatímanum. Ef sannleikur Ritningarinnar hefði verið opinberaður allur í einu hefði hann verið bæði blindandi og ruglandi — líkt og áhrifin af því að koma út úr dimmum helli í glampandi sólskin. Og sannindi, sem eru opinberuð smám saman, styrkja trú kristinna manna jafnt og þétt. Það gerir von þeirra æ bjartari og götu þeirra æ greinilegri.
„Sá trúi og hyggni þjónn“
2. Hvern sagðist Jesús ætla að nota til að veita fylgjendum sínum andlegt ljós og hverjir mynda þann hóp?
2 Á postulatímanum áleit Jesús Kristur réttast að beita yfirnátturlegum aðferðum við að senda fylgjendum sínum fyrstu ljósleiftrin. Við höfum tvö dæmi um það: hvítasunnuna árið 33 og trúhvarf Kornelíusar árið 36. Seinna taldi Kristur réttast að nota menn eins og hann hafði sagt fyrir: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Þessi þjónn gat ekki verið bara einn maður því að hann átti að miðla andlegri fæðu allt frá stofnun kristna safnaðarins á hvítasunnunni uns húsbóndinn, Jesús Kristur, kæmi til að gera upp reikningana. Staðreyndir sýna að þessi trúi og hyggni þjónshópur er allir smurðir kristnir menn á jörðinni í heild á hverjum tíma.
3. Hverjir voru meðal fyrstu meðlima þjónshópsins?
3 Hverjir voru meðal fyrstu meðlima trúa og hyggna þjónshópsins? Pétur postuli var einn þeirra en hann fylgdi fyrirmælum Jesú: „Gæt þú sauða minna.“ (Jóhannes 21:17) Af hópi hinna fyrstu má líka nefna guðspjallamanninn Matteus og Pál, Jakob og Júdas sem skrifuðu innblásin bréf. Jóhannes postuli, sem skráði Opinberunarbókina, guðspjallið og bréfin sem við hann eru kennd, tilheyrði líka trúa og hyggna þjónshópnum. Þessir menn skrifuðu bækur sínar í umboði Jesú.
4. Hver eru ‚hjúin‘?
4 En hver eru ‚hjúin‘ ef allir hinir smurðu tilheyra þjónshópnum, hvar sem þeir búa á jörðinni? Það eru líka hinir smurðu en séðir frá öðrum sjónarhóli — sem einstaklingar. Já, sem einstaklingar tilheyrðu þeir ‚þjóninum‘ eða töldust ‚hjú‘ eftir því hvort þeir voru að útbýta andlegri fæðu eða neyta hennar. Lýsum þessu með dæmi: Í 2. Pétursbréfi 3:15, 16 minnist Pétur á bréf Páls. Þegar Pétur las þau var hann einn af hjúunum og nærðist á andlegri fæðu er Páll kom á framfæri sem fulltrúi þjónshópsins.
5. (a) Hvað varð um þjóninn eftir daga postulanna? (b) Hvaða þróun átti sér stað á síðari helmingi 19. aldar?
5 Bókin Þúsundáraríki Guðs er í nánd segir um þetta: „Við höfum ekki nákvæma, sögulega mynd af því hverjir mynduðu hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ og hvernig hann þjónaði eftir dauða postula húsbóndans, Jesú Krists. Svo virðist sem ein kynslóð ‚þjónsins‘ hafi nært þá næstu. (2. Tímóteusarbréf 2:2) En á síðari helmingi nítjándu aldar voru til guðhræddir menn sem elskuðu hina andlegu fæðu heilagrar Biblíu og þráðu að nærast af henni . . . Biblíunámshópar . . . voru myndaðir og þeim fór fram í skilningi á grundvallarsannindum Heilagrar ritningar. Einlægir og óeigingjarnir menn úr þessum biblíunemendahópi voru mjög áfram um að koma þessari mikilvægu, andlegu fæðu á framfæri við aðra. Þeir höfðu trúfestianda ‚þjónsins‘ sem skipaður var til að gefa ‚hjúunum‘ þann andlega ‚mat á réttum tíma‘ sem þau þurftu. Þeir voru ‚hyggnir‘ á þann hátt að þeir báru skyn á að tímabært væri orðið að bera fæðuna á borð og hvernig best væri að gera það. Þeir leituðust við að bera hana á borð.“ — Bls. 344-5.a
Ljósleiftur snemma á okkar tímum
6. Hvaða staðreynd er mjög áberandi í sambandi við sívaxandi opinberun sannleikans?
6 Eitt er mjög áberandi í sambandi við þá sem Jehóva notaði til að koma þessu sívaxandi andlega ljósi á framfæri — þeir eignuðu sjálfum sér engan heiður af því. Viðhorf C. T. Russells, fyrsta forseta Varðturnsfélagsins, var það að Drottni þóknaðist að nota lítilmótlega hæfileika þeirra. Í sambandi við þau viðurnefni, sem óvinir bróður Russells notuðu gjarnan, sagði hann með miklum áhersluþunga að hann hefði aldrei hitt nokkurn „Russellíta“ og að það væri ekkert til sem héti „Russellismi.“ Guð einn skyldi heiður hljóta.
7. Hvernig sýndu bróðir Russell og samstarfsfélagar hans að þeir væru svo sannarlega hluti hins trúa og hyggna þjóns?
7 Eftir árangrinum að dæma leikur enginn vafi á að heilagur andi stýrði viðleitni bróður Russells og félaga hans sem með honum voru. Þeir báru þess merki að þeir væru hluti af hinum trúa og hyggna þjóni. Þótt margir prestar á þeim tíma segðust trúa því að Biblían væri innblásið orð Guðs og að Jesús væri sonur Guðs, þá aðhylltust þeir falskar, babýlonskar kennisetningar, svo sem um þrenninguna, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir. Í samræmi við fyrirheit Jesú var það sannarlega vegna heilags anda sem hógvær viðleitni bróður Russells og félaga hans kom sannleikanum til að skína skærar en nokkru sinni fyrr. (Jóhannes 16:13) Þessir smurðu Biblíunemendur sýndu að þeir voru sannarlega hluti af hinum trúa og hyggna þjónshópi er hafði það verkefni að sjá hjúum húsbóndans fyrir andlegri fæðu. Viðleitni þeirra var mikil hjálp við samansöfnun hinna smurðu.
8. Hvað frumstaðreyndir um Jehóva, Biblíuna, Jesú Krist og heilagan anda skildu Biblíunemendurnir greinilega?
8 Það er athyglisvert að sjá hvernig Jehóva blessaði þessa fyrstu Biblíunemendur með ljósleiftrum fyrir atbeina heilags anda síns. Í byrjun sýndu þeir skýrt og greinilega að skaparinn væri til og að hann bæri hið einstæða nafn Jehóva. (Sálmur 83:18, NW; Rómverjabréfið 1:20) Þeir sáu að Jehóva hefur fjóra höfuðeiginleika — mátt, réttvísi, visku og kærleika. (1. Mósebók 17:1; 5. Mósebók 32:4; Rómverjabréfið 11:33; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þessir smurðu kristnu menn studdu óhrekjandi rökum að Biblían sé innblásið orð Guðs og sannleikur. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Enn fremur álitu þeir að sonur Guðs, Jesús Kristur, hefði verið skapaður og að hann hefði gefið líf sitt sem lausnargjald fyrir allt mannkyn. (Matteus 20:28; Kólossubréfið 1:15) Þeir litu ekki á heilagan anda sem þriðju persónu einhverrar þrenningar heldur sem starfskraft Guðs. — Postulasagan 2:17.
9. (a) Hvaða sannindi skildu Biblíunemendurnir vel í sambandi við eðli mannsins og þau örlög sem Biblían ætlar honum? (b) Hvaða önnur sannindi sáu þjónar Jehóva greinilega?
9 Biblíunemendurnir sáu greinilega að maðurinn hefur ekki ódauðlega sál heldur er hann dauðleg sál. Þeim varð ljóst að „laun syndarinnar er dauði,“ ekki eilífar kvalir því að það er ekkert til sem heitir brennandi víti. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23; 1. Mósebók 2:7; Esekíel 18:4) Auk þess sáu þeir greinilega að þróunarkenningin var ekki bara óbiblíuleg heldur algerlega úr lausu lofti gripin. (1. Mósebók 1. og 2. kafli) Þeir áttuðu sig einnig á að Biblían ætlar mönnum tvenns konar örlög — himnesk handa 144.000 smurðum fylgjendum Krists og jarðneska paradísarvist handa ótöldum ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða.‘ (Opinberunarbókin 7:9; 14:1; Jóhannes 10:16) Þessir fyrstu Biblíunemendur gerðu sér grein fyrir að jörðin mun standa að eilífu en ekki brenna upp eins og mörg trúfélög kenna. (Prédikarinn 1:4; Lúkas 23:43) Þeir uppgötvuðu líka að endurkoma Krists yrði ósýnileg og hann myndi þá fullnægja dómi yfir þjóðunum og koma á jarðneskri paradís. — Postulasagan 10:42; Rómverjabréfið 8:19-21; 1. Pétursbréf 3:18.
10. Hvaða sannindi lærðu Biblíunemendurnir í sambandi við skírn, skiptingu í klerka og leikmenn og minningarhátíðina um dauða Krists?
10 Biblíunemendurnir komust að raun um að biblíuleg skírn felst ekki í því að stökkva vatni á ómálga börn heldur ættu menn, sem hefðu fengið kennslu, að skírast niðurdýfingarskírn í samræmi við fyrirmæli Jesú í Matteusi 28:19, 20. Þeir skildu að skipting safnaðarins í klerka og leikmenn ætti sér enga biblíulega stoð. (Matteus 23:8-10) Þvert á móti ættu allir kristnir menn að vera prédikarar fagnaðarerindisins. (Postulasagan 1:8) Biblíunemendunum varð ljóst að halda ætti minningarhátíðina um dauða Krists aðeins einu sinni á ári, hinn 14. nísan. Þeir sáu ennfremur að páskarnir voru heiðin hátíð. Auk þess voru hinir smurðu svo fullvissir um að Guð stæði að baki starfi þeirra að þeir tóku aldrei upp samskot. (Matteus 10:8) Allt frá upphafi skildu þeir að kristnir menn verða að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar sem felur í sér að rækta ávöxt heilags anda Guðs. — Galatabréfið 5:22, 23.
Æ fleiri ljósleiftur
11. Hvaða ljós skein á starfsumboð kristinna manna og á dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana?
11 Þjónar Jehóva hafa séð æ fleiri ljósleiftur, einkanlega frá árinu 1919. Það var skært ljósleiftur sem skein á mótinu í Cedar Point árið 1922 er J. F. Rutherford, annar forseti Varðturnsfélagsins, lagði þunga áherslu á að það væri höfuðskylda þjóna Jehóva að ‚kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.‘ Strax næsta ár skein skært ljós á dæmisöguna um sauðina og hafrana. Þá skildu þjónar Guðs að þessi spádómur ætti að uppfyllast núna á Drottins degi, ekki í framtíðinni í þúsundáraríkinu eins og áður hafði verið haldið. Í þúsundáraríkinu yrðu bræður Krists ekki sjúkir og ekki heldur fangelsaðir. Auk þess er það Jehóva Guð, ekki Jesús Kristur, sem dæmir í lok þúsundáraríkisins. — Matteus 25:1-46.
12. Hvaða ljós leiftraði fram um Harmagedón?
12 Árið 1926 opinberaði annað skært ljósleiftur að stríðið við Harmagedón ætti ekki að vera þjóðfélagsbylting eins og Biblíunemendurnir héldu einu sinni. Það yrði stríð þar sem Jehóva sýnir mátt sinn svo greinilega að allar þjóðir sannfærast um að hann sé Guð. — Opinberunarbókin 16:14-16; 19:17-21.
Jólin — heiðin hátíð
13. (a) Hvaða ljósi var varpað á jólahald? (b) Af hverju var hætt að halda upp á afmæli? (Taktu neðanmálsathugasemd með.)
13 Skömmu síðar kom ljósleiftur Biblíunemendunum til að hætta að halda jól. Fram að þeim tíma höfðu Biblíunemendurnir um heim allan alltaf haldið jól, og jólahaldið var mjög hátíðlegt í aðalstöðvunum í Brooklyn. En þá gerðu þeir sér grein fyrir að hátíðahöldin hinn 25. desember væru í rauninni heiðin og að hinn fráfallni kristni heimur hefði valið þann dag til að auðveldara yrði að snúa heiðingjum til trúar. Enn fremur komust þeir að raun um að Jesús hafði ekki getað fæðst um vetur, því að þegar hann fæddist voru fjárhirðar með hjarðir sínar á beit í haga — sem hefði ekki gerst að næturlagi síðla í desember. (Lúkas 2:8) Ritningin gefur reyndar til kynna að Jesús hafi fæðst nálægt 1. október. Biblíunemendunum varð einnig ljóst að hinir svokölluðu vitringar, sem heimsóttu Jesú um tveim árum eftir fæðingu hans, voru heiðnir stjörnuspámenn.b
Nýtt nafn
14. Af hverju var nafnið Biblíunemendur ekki réttnefni á þjónum Jehóva?
14 Árið 1931 opinberaði skært ljósleiftur þessum Biblíunemendum viðeigandi, biblíulegt nafn. Þjónar Jehóva höfðu skilið að þeir gátu ekki viðurkennt neitt þeirra viðurnefna sem þeim höfðu verið gefin, svo sem Russellítar, þúsundáraríkismenn og „helvítisbanar.“c En það rann líka smám saman upp fyrir þeim að nafnið, sem þeir höfðu sjálfir tekið sér — Alþjóðasamtök biblíunemenda — var ekki heldur réttnefni. Þeir voru miklu meira en biblíunemendur. Auk þess gátu svo margir aðrir kallað sig biblíunemendur þótt þeir ættu ekkert saman við Biblíunemendurna að sælda.
15. Hvaða nafn tóku Biblíunemendurnir upp árið 1931 og hvers vegna er það viðeigandi?
15 Hvernig fengu Biblíunemendurnir nýtt nafn? Um árabil hafði Varðturninn haldið nafni Jehóva á loft. Þess vegna var mjög við hæfi að Biblíunemendurnir skyldu taka sér nafnið sem er að finna í Jesaja 43:10: „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.“
Réttlæting og ‚múgurinn mikli‘
16. Af hverju áttu endurreisnarspádómarnir ekki við heimför Gyðinga að holdinu til Palestínu en við hverja áttu þeir?
16 Í öðru bindi bókarinnar Réttlæting, sem Varðturnsfélagið gaf út árið 1932, opinberaði ljósleiftur að endurreisnarspádómar Jesaja, Jeremía, Esekíels og annarra spámanna ættu ekki (eins og áður var haldið) við Gyðinga að holdinu er voru að snúa heim til Palestínu sem trúleysingjar og af pólitískum hvötum. Þessir endurreisnarspádómar, sem áttu sér minni háttar uppfyllingu er Gyðingar sneru heim úr útlegðinni í Babýlon árið 537 f.o.t., áttu sér hins vegar meiri háttar uppfyllingu með frelsun og endurreisn hins andlega Ísraels frá 1919 og velsæld andlegu paradísarinnar sem sannir þjónar Jehóva njóta núna.
17, 18. (a) Hvað sýndi ljósleiftur að væri aðaltilgangur Jehóva? (b) Hvaða ljós leiftraði í sambandi við Opinberunarbókina 7:9-17 árið 1935?
17 Ljósleiftur opinberuðu með tíð og tíma að aðaltilgangur Jehóva væri ekki hjálpræði manna heldur réttlæting drottinvalds síns. Þjónar Jehóva sáu að þýðingarmesta stef Biblíunnar var ekki lausnargjaldið heldur ríkið, því að það mun réttlæta drottinvald hans. Hvílíkt ljósleiftur! Nú hugsuðu vígðir kristnir menn ekki fyrst og fremst um að komast til himna.
18 Árið 1935 sýndi skært ljósleiftur að múgurinn mikli, sem nefndur er í Opinberunarbókinni 7:9-17, væri ekki minni háttar himneskur hópur. Talið hafði verið að þeir sem nefndir eru í þessum versum væru þeir af hinum smurðu sem hefðu ekki verið fullkomlega trúfastir og stæðu því frammi fyrir hásætinu í stað þess að sitja í hásætum og ríkja sem konungar og prestar með Jesú Kristi. En það er bara ekkert til sem heitir hálfgildings trúfesti. Annaðhvort er maður trúfastur eða ekki. Það var því ljóst að þessi spádómur átti við ótalinn mikinn múg af öllum þjóðum sem verið er að safna saman núna til að lifa á jörðinni. Þetta eru ‚sauðirnir‘ í Matteusi 25:31-46 og hinir ‚aðrir sauðir‘ í Jóhannesi 10:16.
Krossinn — ekki kristið tákn
19, 20. Af hverju getur krossinn ekki verið tákn sannrar kristni?
19 Um árabil höfðu Biblíunemendurnir haldið krossinum á loft sem tákni kristninnar. Þeir höfðu jafnvel nælu sem var í laginu eins og kross og kóróna. Samkvæmt flestum biblíuþýðingum bað Jesús fylgjendur sína að taka „kross“ sinn og fylgja sér og margir álitu því að hann hefði verið líflátinn á krossi. (Matteus 16:24; 27:32) Um áratuga skeið var þetta tákn einnig á forsíðu tímaritsins Varðturninn.
20 Bókin Auðæfi, sem Félagið gaf út árið 1936, sýndi fram á að Jesús Kristur hafi ekki verið líflátinn á krossi heldur á uppréttum bjálka eða staur. Samkvæmt einu heimildarriti merkir gríska orðið (stárosʹ), sem þýtt er „kross“ í flestum biblíuþýðingum, „fyrst og fremst stólpa eða staur. Greina ber á milli þess og tvíarma kirkjukross. . . . Hið síðarnefnda rekur uppruna sinn til Forn-Kaldeu og var notað þar sem tákn guðsins Tammúsar.“ Í stað þess að dýrka aftökutækið, sem notað var til að lífláta Jesú, ætti að hafa viðbjóð á því.
21. Hvað verður fjallað um í næstu grein?
21 Nefna má fleiri dæmi bæði um stór ljósleiftur og smá. Um þau er fjallað í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Síðar varð þeim ljóst að fyrst ekki ætti að halda upp á þýðingarmestu fæðingu, sem átt hefði sér stað, ætti ekki að halda upp á afmæli nokkurs manns. Auk þess héldu hvorki Ísraelsmenn né frumkristnir menn upp á afmæli. Biblían nefnir aðeins tvö afmæli, þeirra Faraós og Heródesar Antípasar. Á báðum afmælunum voru menn líflátnir. Vottar Jehóva halda ekki upp á afmæli af því að það er af heiðnum uppruna og upphefur helst afmælisbarnið. — 1. Mósebók 40:20-22; Markús 6:21-28.
c Margar kirkjudeildir kristna heimsins gerðu þessi mistök. Lúterstrúarmenn var viðurnefni sem óvinir Marteins Lúters gáfu fylgjendum hans en þeir tóku síðan upp. Sömuleiðis tóku baptistar sér viðurnefni sem utansafnaðarmenn höfðu gefið þeim af því að þeir prédikuðu niðurdýfingarskírn. Meþódistar tóku sér með nokkuð svipuðum hætti nafn sem utansafnaðarmaður gaf þeim. Um tildrög þess að farið var að kalla trúfélagið Society of Friends kvekara segir alfræðiorðabókin The World Book Encyclopedia: „Orðið kvekari var upphaflega hugsað sem móðgun við Fox [stofnandann] sem sagði enskum dómara að ‚skjálfa fyrir orði Drottins.‘ Dómarinn kallaði Fox ‚quaker‘ [„skjálfara“].“
Manstu?
◻ Hver er hinn „trúi og hyggni þjónn“ og hver eru ‚hjúin‘?
◻ Nefndu nokkur ljósleiftur snemma á okkar tímum.
◻ Af hverju var nýja nafnið, vottar Jehóva, viðeigandi?
◻ Hvaða athyglisverð sannindi voru opinberuð árið 1935?
[Mynd á blaðsíðu 15]
C. T. Russell og félagar hans útbreiddu andlegt ljós en Jehóva einn hlaut heiðurinn af því.