Aldrei betra að vera til
ÞRÁIR þú hina „gömlu góðu daga“ þegar erfiðleikar steðja að? Hugleiddu þá það sem hinn vitri Salómon konungur sagði: „Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.“ — Prédikarinn 7:10.
Hvers vegna gaf Salómon þessi ráð? Hann vissi að raunsæi gagnvart hinu liðna hjálpar okkur að takast á við erfiðar aðstæður núna. Þeir sem þrá „gömlu góðu dagana“ gleyma kannski að lífið var í þá daga einnig fullt af vandamálum og erfiðleikum, og að það var aldrei alveg fullkomið. Sumt var ef til vill betra áður, en að öllum líkindum var ýmislegt verra. Eins og Salómon benti á er ekki viturlegt að einblína á fortíðina þar sem augljóst er að við getum ekki snúið við gangi tímans.
Er eitthvað slæmt við það að horfa til baka og þrá liðna tíð? Já, ef það kemur í veg fyrir að við séum sveigjanleg og að við lögum okkur að núverandi aðstæðum, eða ef það hindrar okkur í að vera þakklát fyrir að lifa á þessum tímum og fyrir vonina sem við getum öðlast.
Í raun og veru hefur aldrei verið betra að vera til en núna þrátt fyrir að vandamál heimsins séu sífellt að aukast. Af hverju er hægt að segja það? Af því að tilgangur Guðs með jörðina og sú blessun sem friðsælt ríki hans færir, verður brátt að veruleika. Biblían lofar: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Eftir að ástandið hefur breyst þannig til batnaðar mun enginn hafa ástæðu til að þrá „gömlu góðu dagana.“