Fjórði kafli
Maðurinn er alveg einstakur!
FLESTIR skoða sem snöggvast útlit sitt í spegli á morgnana áður en þeir ganga til starfa. Þá gefst samt sjaldan tími til mikilla hugleiðinga. En tökum okkur núna stutta stund til að íhuga hve mikið felst í slíkri skyndiskoðun.
Augun gera okkur kleift að sjá okkur í fullum litum þó að litaskyn sé í sjálfu sér ekki lífsnauðsynlegt. Við heyrum í stereó vegna staðsetningar eyrnanna og vitum því hvaðan hljóðið kemur þegar einhver ávarpar okkur. Það virðist kannski sjálfsagt en í bók fyrir hljóðtæknimenn segir: „Þegar heyrnarfæri mannsins eru skoðuð vandlega er erfitt annað en að álykta að margbrotin starfsemi þeirra og bygging sé verk einhverrar hollrar handar.“
Nefið endurspeglar líka stórkostlega hönnun. Í gegnum nefið drögum við andann sem heldur í okkur lífinu. Þar eru líka milljónir skynfrumna sem gera okkur mögulegt að greina á milli um 10.000 ilmtegunda. Þegar við neytum máltíðar kemur annað skynfæri til sögunnar. Þúsundir bragðlauka segja okkur hvernig maturinn bragðast. Aðrar skynfrumur á tungunni hjálpa okkur að finna hvort tennurnar séu hreinar.
Já, við höfum fimm skilningarvit — sjón, heyrn, bragðskyn, lyktarskyn og snertiskyn. Sum dýr hafa að vísu skarpari nætursjón, næmara lyktarskyn eða betri heyrn, en samspil þessara skilningarvita hjá manninum lætur hann vissulega skara fram úr þeim á margan hátt.
Veltum því aðeins fyrir okkur hvers vegna við njótum góðs af þessum skilningarvitum. Öll eru þau háð líffærinu inni í höfðinu, heilanum, sem er um hálft annað kíló. Dýr hafa líka heila sem starfar vel en mannsheilinn er samt í sérflokki og gerir okkur óneitanlega alveg einstök. Hvernig þá? Og hvaða tengsl eru á milli þessarar sérstöðu og löngunar okkar að lifa löngu og tilgangsríku lífi?
Hinn stórkostlegi mannsheili
Árum saman hefur mannsheilanum verið líkt við tölvu en nýlegar uppgötvanir sýna að slíkur samanburður nær afar skammt. „Hvernig ætti maður að geta skilið starfsemi líffæris sem hefur eitthvað í námunda við 50 milljarða taugafrumna með 1000 billjónir taugamóta (tenginga) og sem í heild senda frá sér kannski 10.000 billjónir taugaboða á sekúndu?“ spyr taugasérfræðingurinn Richard M. Restak. Hann svarar því sjálfur: „Afkastageta jafnvel háþróuðustu tauganetstölva . . . er um það bil einn tíu þúsundasti af hugargetu húsflugu.“ Ímyndaðu þér hve langt slík tölva stendur þá að baki margfalt öflugri mannsheilanum.
Hvaða tölva, smíðuð af mönnum, getur gert við sjálfa sig, endurskrifað hugbúnað sinn eða betrumbætt sig með árunum? Þegar lagfæra þarf tölvukerfi verður forritari að skrifa og slá inn í tölvurnar ný fyrirmæli á sérstöku merkjamáli. Heilinn gerir það sjálfkrafa, bæði í æsku og á elliárunum. Það eru engar ýkjur að segja að fullkomnustu tölvur séu mjög frumstæðar í samanburði við mannsheilann. Vísindamenn hafa kallað hann „margslungnustu smíði sem þekkist“ og „flóknasta fyrirbærið í alheiminum.“ Lítum núna á nokkrar uppgötvanir sem fengið hafa marga til að álykta að mannsheilinn sé verk skapara sem er annt um okkur.
Ef þú notar hann ekki visnar hann
Notagildi gagnlegra uppfinninga eins og bíla og þotna takmarkast við fastan vél- og rafbúnað sem menn hafa hannað og útbúið þær með. Aftur á móti er heili okkar, svo vægt sé til orða tekið, afskaplega sveigjanlegur búnaður eða kerfi. Hann getur haldið áfram að breytast eftir því hvernig hann er notaður eða misnotaður. Það eru einkum tveir þættir sem virðast ráða því hvaða breytingum heilinn tekur á ævi mannsins — það sem maður hleypir inn í hann gegnum skilningarvitin og það sem maður kýs að hugsa um.
Þó að erfðir kunni að hafa áhrif á frammistöðu hugans sýna nútímarannsóknir að við getnað setja genin heilanum ekki fastar skorður. „Engan grunaði að heilinn væri jafnbreytanlegur og vísindin hafa núna sýnt fram á,“ skrifar rithöfundurinn og pulitzerverðlaunahafinn Ronald Kotulak. Að loknum viðtölum við 300 rannsóknarmenn komst hann að þessari niðurstöðu: „Heilinn er ekki í kyrrstöðu; hann er síbreytilegur massi frumutenginga sem reynslan hefur veruleg áhrif á.“ — Inside the Brain.
Það er þó ekki einungis reynslan, það sem við verðum fyrir í lífinu, sem mótar heila okkar. Hugsunin hefur líka áhrif. Vísindamenn hafa fundið út að heili fólks, sem heldur áfram að virkja hugann, er með upp undir 40 prósent fleiri tengingar (taugamót) milli taugafrumna (taugunga) en heili hinna hugsunarlötu. Niðurstaða taugafræðinga er því þessi: „Ef þú notar hann ekki visnar hann.“ En hvað um þá sem komnir eru á efri ár? Svo virðist sem einhverjar heilafrumur tapist með aldrinum og ellinni getur fylgt minnisleysi. Þetta tap virðist þó vera mun minna en eitt sinn var talið. Í umfjöllun National Geographic um mannsheilann sagði: „Eldra fólk . . . heldur hæfninni til að mynda nýjar tengingar og halda hinum gömlu með því að reyna á hugann.“
Það sem menn hafa nýlega komist að um breytanleika heilans kemur heim og saman við ráðleggingar í Biblíunni. Sú vísdómsbók hvetur lesendur sína til að ‚taka háttarskipti með endurnýjung hugarfarsins‘ eða „endurnýjast til fullkominnar þekkingar“ sem hugurinn er látinn meðtaka. (Rómverjabréfið 12:2; Kólossubréfið 3:10) Vottar Jehóva hafa séð þetta gerast þegar fólk kynnir sér Biblíuna og fer eftir leiðbeiningum hennar. Þúsundir manna — af öllum þjóðfélags- og menntastigum — hafa gert þetta. Þeir halda sínu einstaklingseðli en verða hamingjusamari og yfirvegaðri, sýna það sem ritari á fyrstu öldinni kallaði ‚fullt vit‘ eða ‚heilbrigðan huga.‘ (Postulasagan 26:24, 25) Slíkar breytingar til batnaðar eru að miklu leyti afleiðing þess að notfæra sér vel þann hluta heilabarkarins sem er fremst í höfðinu.
Ennisblaðið
Flestar taugafrumurnar í ysta lagi heilans, heilaberkinum, eru ekki beintengdar vöðvum eða skynfærum. Tökum sem dæmi þá milljarða taugafrumna sem mynda ennisblaðið. (Sjá teikningu á blaðsíðu 56.) Heilalínurit sanna að ennisblaðið verður virkt þegar við hugsum um orð eða köllum minningar fram í hugann. Fremsti hluti heilans á sérstakan þátt í að gera okkur að þeim persónum sem við erum.
„Fremsti heilabörkurinn . . . tengist hvað helst rökhugsun, greind, áhugahvöt og persónuleikanum. Hann tengir saman reynslu eða upplifun sem er forsenda óhlutbundinna hugmynda, dómgreind, þrautseigju, áætlanagerð, umhyggju fyrir öðrum og samvisku. . . . Það er háþróuð starfsemi þessa svæðis sem greinir mennina frá dýrunum.“ (Human Anatomy and Physiology eftir Elaine N. Marieb) Afrek mannanna á sviðum eins og stærðfræði, heimspeki og lögfræði eru vissulega til vitnis um þennan greinarmun, en þar kemur fremsti heilabörkurinn einkum við sögu.
Hvers vegna hafa mennirnir stóran og sveigjanlegan heilabörk fremst í höfðinu sem nýtist þeim til æðri hugarstarfsemi, en dýrin aftur á móti ekki eða í mjög frumstæðum mæli? Andstæðan er svo mikil að líffræðingar, sem fullyrða að maðurinn sé afsprengi þróunar, tala um hina „dularfullu sprengingu í stærð heilans.“ Í tengslum við hina fordæmalausu stækkun heilabarkarins viðurkennir prófessor í líffræði, dr. Richard F. Thompson: „Enn sem komið er skiljum við ekki á neinn skýlausan hátt hvers vegna þetta gerðist.“ Gæti ástæðan legið í því að maðurinn hafi verið skapaður með heila sem á ekki sinn líka?
Óviðjafnanleg hæfni til tjáskipta
Aðrir hlutar heilans eiga líka sinn þátt í að gera okkur einstök. Fyrir aftan heilabörk ennisblaðsins er ræma þvert yfir höfuðið — hreyfisvæðið. Í því eru milljarðar taugafrumna sem tengjast vöðvum okkar. Eiginleikar þess eiga líka hlut í að gera okkur gerólík öpum og öðrum dýrum. Aðalhreyfisvæðið veitir okkur „(1) óvenjulega hæfileika til að beita höndum, fingrum og þumlinum af mikilli fimi og (2) nota munninn, tunguna, varirnar og andlitsvöðvana þegar við tölum.“ — Textbook of Medical Physiology eftir Arthur Guyton.
Skoðum lítillega hvernig hreyfisvæðið hefur áhrif á málhæfni okkar. Meira en helmingur þess er helgaður talfærunum. Það auðveldar okkur að skýra hina óviðjafnanlegu hæfni mannsins til tjáskipta. Þó að hendurnar gegni vissu hlutverki í boðskiptum (við skrift, eðlilega tilburði eða táknmál) fer munnurinn yfirleitt með aðalhlutverkið. Mannamál — frá fyrsta orði barnsins til raddar öldungsins — er tvímælalaust algert undur. Um það bil 100 vöðvar í tungunni, vörunum, kjálkanum, hálsinum og brjóstkassanum búa í sameiningu til óteljandi hljóð. Eftirfarandi munur er athyglisverður: Ein heilafruma getur stjórnað 200 þráðum í kálfavöðva íþróttamanns en heilafrumurnar, sem stýra barkakýlinu, einbeita sér kannski aðeins að tveimur til þremur vöðvaþráðum hver. Gefur það ekki til kynna að mannsheilinn sé sérstaklega útbúinn til tjáskipta?
Þótt ekki séu sögð nema fáein orð þurfa vöðvarnir að hreyfast á alveg sérstakan hátt. Örlítið minni eða meiri hreyfing fjölda mismunandi vöðva og breytt tímasetning hennar, þó að hún nemi aðeins sekúndubroti, getur breytt merkingu þess sem við segjum. „Þegar við tölum á þægilegum hraða,“ segir talfræðingurinn dr. William H. Perkins, „gefum við frá okkur um 14 hljóð á sekúndu. Það er tvisvar sinnum hraðar en við getum stýrt tungunni, vörunum, kjálkanum eða einhverjum öðrum hluta talfæra okkar þegar við hreyfum þau eitt og sér. En þegar þau starfa öll saman til að úr verði mælt mál vinna þau eins og fingur á reyndum vélritara eða konsertpíanóleikara. Hreyfingarnar renna hver inn í aðra í samspili hárfínnar tímasetningar.“
Þau gögn, sem þarf til að segja hina einföldu setningu „komdu sæll og blessaður,“ eru geymd í þeim hluta ennisblaðs heilans sem nefnt er Broca-svæðið og sumir álíta málstöð heilans. Nóbelsverðlaunahafinn og taugafræðingurinn sir John Eccles skrifaði: „Menn hafa ekki fundið neitt svæði í öpum sem samsvarar . . . Broca-málsvæðinu.“ Jafnvel þótt einhver svipuð svæði fyndust í dýrum er staðreyndin sú að vísindamenn geta ekki látið apa mynda meira en fáein gróf talhljóð. Menn geta hins vegar talað flókin tungumál. Til þess þarf að raða niður orðum í samræmi við málfræði hverrar tungu. Broca-svæðið hjálpar okkur til þess, bæði í ræðu og riti.
Vitaskuld getur maður ekki notfært sér undur tungumálsins nema að kunna að minnsta kosti eitt tungumál og skilja merkingu orða þess. Þar kemur við sögu annar sérstakur hluti heilans, Wernicke-svæðið. Í því eru milljarðar taugunga sem greina merkingu talaðra eða skrifaðra orða. Wernicke-svæðið auðveldar okkur að skilja staðhæfingar og fá botn í það sem við heyrum eða lesum; við getum þannig tileinkað okkur upplýsingar og brugðist skynsamlega við þeim.
Til að tala liðugt mál þarf jafnvel enn meira. Til dæmis getur hið litla orð „halló,“ þegar svarað er í símann, gefið fjölmargt til kynna. Raddblærinn segir hvort maður sé í góðu skapi, æstur, leiður, undir álagi, gramur, dapur eða hræddur og af honum má jafnvel ráða ýmis stig þessara geðbrigða. Annað svæði í heilanum gefur talfærunum upplýsingar um tilfinningaástand okkar þá stundina. Það eru því ýmis svæði í heilanum sem eiga hlut að máli þegar við tjáum okkur.
Menn hafa kennt simpönsum svolítið táknmál en aparnir nýta það vart til annars en að biðja um mat eða aðrar nauðsynjar. Eftir að hafa unnið við að kenna simpönsum einföld, orðalaus boðskipti dró dr. David Premack þessa ályktun: „Tungumál mannsins er vandræðalegt fyrir þróunarkenninguna vegna þess að það er langtum öflugra en hún getur gert grein fyrir.“
Spyrja mætti: ‚Hvers vegna búa mennirnir yfir þessari dásamlegu hæfni til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar, til að spyrja og svara?‘ Fræðiritið The Encyclopedia of Language and Linguistics segir að „mál [mannsins] sé einstakt“ og viðurkennir að „leitin að forvera í tjáskiptum dýra komi að litlu gagni við að brúa hina miklu gjá sem skilur tungumál og tal manna frá hegðun dýra.“ Prófessor Ludwig Koehler segir í stuttu máli um þennan mismun: „Mannamál er leyndardómur; það er guðsgjöf, kraftaverk.“
Það er óhemjumunur á því hvernig api notar merki og hinni margbrotnu málhæfni barna. Sir John Eccles vísar til þess sem flest okkar höfum líka tekið eftir, það er að segja hæfileikans „sem jafnvel þriggja ára börn sýna með spurningaflóðinu sínu af því að þau langar til að skilja það sem er í kringum þau.“ Hann bætir við: „Apar, aftur á móti, spyrja ekki spurninga.“ Já, mennirnir eru einir um að bera fram spurningar, þar með taldar spurningar um tilgang lífsins.
Minnið og margt annað
Þegar þú lítur í spegil hugsar þú kannski um það hvernig þú leist út á yngri árum og berð það jafnvel saman við hvernig þú gætir litið út á ókomnum árum eða eftir að hafa notað einhverjar snyrtivörur. Þessum hugsunum getur slegið niður næstum ómeðvitað en samt er eitthvað mjög sérstakt að gerast, nokkuð sem ekkert dýr getur fengið að reyna.
Ólíkt dýrum, sem aðallega lifa og starfa fyrir líðandi stund og þarfir, geta mennirnir hugleitt fortíðina og gert áætlanir um framtíðina. Eitt af því sem gerir mönnum þetta kleift er næstum takmarkalaust minni mannsheilans. Dýrin hafa að sönnu minni í vissum mæli og geta þar af leiðandi ratað heim eða munað hvar fæðu er að finna en minni mannsins er langtum meira. Vísindamaður hefur áætlað að mannsheilinn geti geymt upplýsingar sem „myndu fylla um tuttugu milljónir bóka, álíka margar og eru í stærstu bókasöfnum heims.“ Það er mat sumra taugavísindamanna að meðalmaðurinn noti á ævinni aðeins 1/100 úr 1 prósenti (0,0001) af getu heilans. Er nokkuð óeðlilegt að spyrja: ‚Hvers vegna erum við með heila með þvílíkri getu að við náum tæplega að nota nema örlítið brot hennar á venjulegri mannsævi?‘
Heilinn í okkur er ekki heldur aðeins geymslustaður fyrir gríðarlegt magn upplýsinga eins og stórtölva. Líffræðiprófessorarnir Robert Ornstein og Richard F. Thompson skrifuðu: „Námshæfileiki mannshugans — að geyma og kalla fram upplýsingar — er athyglisverðasta fyrirbærið í öllu lífríkinu. Allt sem gerir okkur mennsk — tungumálið, hugsunin, þekkingin, menningin — er afleiðing þessa einstæða hæfileika.“
Hugur okkar er auk þess meðvitaður um sjálfan sig. Það hljómar kannski einfalt en það lýsir í stuttu máli nokkru sem óneitanlega greinir okkur frá öðrum lífverum. Huganum hefur verið lýst sem „hinum óskilgreinanlega stað þar sem greind, ákvarðanataka, skynjun, vitund og sjálfsvitund býr.“ Eins og lækir, ár og fljót renna út í sjóinn þannig renna í sífellu minningar, hugsanir, myndir, hljóð og tilfinningar inn í eða í gegnum huga okkar. Meðvitund hefur verið skilgreind sem „skynjunin á því sem fram fer í manns eigin huga.“
Vísindamönnum nútímans hefur orðið mikið ágengt í að skilja hvernig heilinn er byggður upp og sum þau rafefnafræðilegu ferli sem eiga sér stað í honum. Þeir geta líka útskýrt rafrásir í tölvu og hvernig hún virkar. En það er reginmunur á heila og tölvu. Vegna eiginleika heilans erum við meðvituð um eigin tilvist, en það er tölvan svo sannarlega ekki. Hvað veldur þessum mismun?
Í sannleika sagt er það alger ráðgáta hvernig og hvers vegna meðvitundin verður til vegna líffræðilegrar starfsemi heilans. „Ég fæ ekki séð hvernig nokkur vísindi geta útskýrt það,“ sagði taugalíffræðingur. Prófessor James Trefil hefur líka sagt: „Hvað það nákvæmlega þýðir fyrir mann að hafa meðvitund . . . er eina stóra spurningin í vísindunum sem við vitum ekki einu sinni hvernig á að spyrja.“ Ein ástæða þess er sú að vísindamennirnir nota heilann til að reyna að skilja heilann. Ef til vill er ekki heldur nóg að kanna aðeins lífeðlisfræðilega hlið heilans. Meðvitundin er „ein af mestu ráðgátum tilverunnar,“ segir dr. David Chalmers, „og þekking á heilanum einum og sér dugar ef til vill ekki til að leysa hana.“
Við búum engu að síður öll yfir meðvitund. Ljóslifandi minningar okkar um liðna atburði eru til dæmis ekki aðeins upplýsingar í geymslu, eins og skrár í tölvu. Við getum hugleitt það sem drifið hefur á daga okkar, lært af því og notað það til að móta framtíð okkar. Við erum fær um að íhuga ýmsar stefnur sem málin geta tekið í framtíðinni og meta hugsanleg áhrif þeirra hverrar fyrir sig. Við höfum hæfni til að kryfja málin, skapa eitthvað nýtt, meta allt mögulegt að verðleikum og elska. Við getum átt ánægjulegar samræður um fortíðina, nútíðina og framtíðina. Við leggjum siðfræðilegan mælikvarða á hegðun og getum notað hann þegar við tökum ákvarðanir sem sumar gagnast okkur strax en aðrar ekki. Okkur finnst fegurð, jafnt í listum sem siðgæði, aðlaðandi. Í huganum getum við mótað og fágað hugmyndir okkar og ímyndað okkur viðbrögð manna ef við hrindum þeim í framkvæmd.
Allt þetta skapar vitund sem greinir mennina frá öllum öðrum lífverum á jörðinni. Hundur, köttur eða fugl lítur í spegil og bregst við eins og hann sæi annað dýr sömu tegundar. En þegar við lítum í spegil erum við meðvituð um okkur sem veru með þá eiginleika sem við vorum að minnast á. Við getum íhugað erfiðar spurningar eins og: ‚Hvers vegna geta sumar skjaldbökur lifað í 150 ár og nokkrar trjátegundir í meira en 1000 ár en skynsemigæddur maðurinn kemst í fréttirnar nái hann 100 ára aldri?‘ Dr. Richard Restak segir: „Mannsheilinn, og ekkert nema mannsheilinn, hefur þann hæfileika að getað staldrað við, kannað eigin starfsemi og þannig í vissum mæli skoðað sig utan frá. Reyndar er það sá hæfileiki að geta endurskoðað eigin áætlanir og endurmetið stöðu okkar í heiminum sem greinir okkur frá öllum öðrum skepnum heimsins.“
Vitund mannsins um sjálfan sig er sumum alveg óskiljanleg. Þótt bókin Life Ascending hallist að því að skýringin sé aðeins líffræðileg viðurkennir hún: „Þegar við spyrjum hvernig ferli [þróunin], sem líkist áhættuleik með ógnvænlegri hegningu fyrir þá sem tapa, hafi mögulega getað getið af sér eiginleika eins og ást á fegurð og sannleika, samúð, frelsisþrá og umfram allt getu mannsandans til að skoða sífellt og skilja ný viðfangsefni, þá setur okkur hljóða. Því meir sem við íhugum andlega getu okkar því meiri verður undrun okkar.“ Það er hverju orði sannara. Við getum því slegið botninn í þessa athugun okkar á sérstöðu mannsins með því að líta á nokkur atriði þar sem sjálfsvitund mannsins kemur glöggt fram. Þau skýra hvers vegna margir eru sannfærðir um að það hljóti að vera til greindur hönnuður, skapari sem er annt um okkur.
Listir og fegurð
„Hvers vegna sækist fólk eftir list af slíkri ástríðu?“ spyr prófessor Michael Leyton í bókinni Symmetry, Causality, Mind. Eins og hann bendir á gætu sumir sagt að hugarstarfsemi eins og reikningur komi mönnum greinilega að gagni, en er nokkur ávinningur að listinni? Leyton nefnir sem dæmi að fólk ferðist langar leiðir á listsýningar eða hljómleika. Hvaða innra skyn knýr það áfram? Um alla jörð hengir fólk líka fallegar myndir eða málverk upp á veggi heimilisins eða skrifstofunnar. Og lítum á tónlistina. Flestum finnst ánægjulegt að hlusta á einhvers konar tónlist heima eða í bílnum. Hvers vegna? Það er sannarlega ekki vegna þess að tónlist hafi eitt sinn látið hina hæfustu lifa af. Leyton segir: „List er ef til vill óútskýranlegasta fyrirbærið hjá mannskepnunni.“
Engu að síður vitum við öll að list- og fegurðarskynið er hluti af því sem skapar hjá okkur „mannlegar“ kenndir. Dýr getur setið uppi á hæð og horft á litríkan himininn, en hrífst það af fegurðinni sem slíkri? Við horfum bergnumin á fjallalæk glitra í sólskininu, hrífumst af ólýsanlegri fjölbreytni lífvera regnskógarins, lítum hugföngnum augum á pálmaströnd eða dásömum sindrandi stjörnuhimininn. Á slíkum stundum fyllumst við oft lotningu, er ekki svo? Slík fegurð yljar okkur um hjartaræturnar og andi okkar fer á flug. Hvers vegna?
Hvers vegna er okkur ásköpuð löngun í hluti sem í raun og veru koma okkur að nær engu áþreifanlegu gagni í lífsbaráttunni? Hvernig lærðum við að meta fegurð? Ef við útilokum skapara sem útbjó manninn með fegurðarskyn fáum við engin fullnægjandi svör við þessum spurningum. Sama gildir um fagrar dyggðir.
Siðgæðisgildi
Margir líta svo á að fegurðin rísi hæst í góðum verkum. Fastheldni við grundvallarreglur andspænis ofsóknum, ósérhlífni við að létta þjáningar annarra og það að fyrirgefa einhverjum sem hefur sært okkur er hegðun sem höfðar til siðgæðisvitundar hugsandi manna hvar sem er. Farið er fögrum orðum um slíka hegðun í gömlum biblíuorðskvið: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ Eða eins og annar orðskviður segir: „Unun mannsins er kærleiksverk hans.“ — Orðskviðirnir 19:11, 22.
Við vitum öll að til eru menn, jafnvel hópum saman, sem forsmá háleitt siðgæði, en meirihluti manna gerir það ekki. Hvaðan koma þau siðgæðisgildi sem finna má nær alls staðar og á öllum tímum? Ef ekki er til neinn frumkvöðull siðgæðis, enginn skapari, er þá réttlætisvitundin einungis frá mönnum komin, samfélagi manna? Lítum á dæmi: Flestir einstaklingar og samfélög telja rangt að myrða mann. En spyrja mætti: ‚Rangt með hliðsjón af hverju?‘ Það er greinilega einhvers konar siðgæðisvitund að finna í innviðum mannlegs samfélags almennt og áhrifa hennar gætir í löggjöf margra landa. Hver er uppruni þessa siðgæðismælikvarða? Gæti það ekki verið vitsmunavera, skapari, sem býr yfir háleitu siðgæði og sem við sköpunina gaf manninum samvisku og siðgæðisvitund? — Samanber Rómverjabréfið 2:14, 15.
Við getum hugleitt framtíðina og gert áætlanir
Önnur hlið á meðvitund mannsins er hæfni okkar til að íhuga framtíðina. Þegar prófessor Richard Dawkins var spurður hvort mennirnir hefðu eiginleika sem greindu þá frá dýrunum, viðurkenndi hann að maðurinn byggi vissulega yfir einstökum eiginleikum. Eftir að hafa nefnt „hæfnina til að gera áætlanir fram í tímann þar sem beitt er meðvituðu ímyndunarafli og forsjálni,“ bætti hann við: „Skammtímahagur hefur alltaf verið það eina sem gildir í þróuninni; langtímahagur hefur aldrei skipt máli. Ef eitthvað hefur verið einstaklingnum til óhagræðis um stundarsakir í byrjun hefur það aldrei náð að þróast. Í fyrsta sinn í sögunni er mögulegt fyrir í það minnsta suma menn að segja: ‚Gleymdu að þú getir haft skammtímahag af því að fella þennan skóg; hvað um hagnaðinn til langs tíma?‘ Ég held að þetta sé eitthvað alveg nýtt og einstakt.“
Aðrir vísindamenn staðfesta að hæfni mannsins til að gera sér meðvitað áætlanir til langs tíma eigi sér enga hliðstæðu. Taugalífeðlisfræðingurinn William H. Calvin segir: „Að undanskildum hormónastýrðum undirbúningi fyrir vetrarkomu og mökun eru furðulitlar vísbendingar um að dýrin geri áætlanir lengra en nokkrar mínútur fram í tímann.“ Dýr birgja sig kannski upp af fæðu áður en kuldatími gengur í garð en þau hugsa ekki málið frá upphafi til enda og gera áætlanir. Mennirnir aftur á móti velta fyrir sér framtíðinni, jafnvel óralangt fram í tímann. Sumir vísindamenn hugleiða hvað kunni að verða um alheiminn eftir milljarða ára. Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvers vegna maðurinn geti, svo ólíkt dýrunum, hugsað um framtíðina og gert áætlanir?
Biblían segir um mennina: „Jafnvel eilífðina hefir [skaparinn] lagt í brjóst þeirra.“ (Prédikarinn 3:11) Við notum þennan einstæða hæfileika dag hvern, jafnvel við svo hversdagslega athöfn sem að líta í spegil og leiða hugann að því hvernig við munum líta út eftir 10 eða 20 ár. Og við staðfestum það sem Prédikarinn 3:11 segir þegar við hugleiðum, þótt ekki sé nema andartak, hugtök eins og óendanleika tíma og rúms. Sú staðreynd ein að við getum þetta kemur heim og saman við þau orð að skaparinn hafi ‚lagt eilífðina í brjóst mannsins.‘
Við löðumst að skapara
Mörgum er hins vegar ekki fyllilega nægilegt að njóta fegurðar, gera náunga sínum gott og hugsa um framtíðina. „Jafnvel á þeim hamingjustundum með ástvinum þegar okkur líður hvað best og við metum mest finnst okkur oft, þótt furðulegt sé, eitthvað upp á vanta,“ segir prófessor C. Stephen Evans. „Við finnum að við þráum meira en vitum ekki hvað það er.“ Já, hinn meðvitaði maður finnur hjá sér enn aðra þörf, og hana á hann ekki sameiginlega með öðrum dýrum hér á jörð.
„Trúarþörfin á sér djúpar rætur í eðli mannsins og hana er að finna hjá fólki af öllum stigum þjóðfélagsins, hver sem efnahagur þess og menntun er.“ Þessi fullyrðing var í stuttu máli niðurstaða rannsóknar sem prófessor Alister Hardy kynnti í bókinni The Spiritual Nature of Man. Hún staðfestir það sem fjöldi annarra rannsókna hefur leitt í ljós: Í manninum býr meðvitund um Guð. Einstaka menn geta verið guðleysingjar en heilu þjóðirnar eru það ekki. Í bókinni Is God the Only Reality? segir: „Hin trúarlega leit að tilgangi . . . er almennt fyrirbæri í sérhverju menningarsamfélagi og á öllum tímum síðan maðurinn kom fram á sjónarsviðið.“
Hvaðan kemur þessi að því er virðist áskapaða meðvitund um Guð? Ef maðurinn er aðeins afleiðing tilviljunarkenndrar uppröðunar kjarnsýru og prótínsameinda hvers vegna skyldu þá þessar sameindir hafa þróað með sér ást á list og fegurð, gerst trúaðar og farið að velta eilífðinni fyrir sér?
Sir John Eccles dró þá ályktun að útskýring þróunarkenningarinnar á tilvist mannsins „standist ekki á þýðingarmestu sviðunum. Hún getur ekki gert grein fyrir tilvist sérhvers okkar sem einstæðrar, meðvitaðrar veru.“ Því meira sem við lærum um starfsemi mannsheilans og huga þeim mun augljósara er hvers vegna milljónir manna hafa ályktað sem svo að meðvituð tilvist mannsins sé vitnisburður um skapara sem lætur sér annt um okkur.
Í næsta kafla munum við sjá hvers vegna fólk af öllum stigum þjóðfélagsins hefur uppgötvað að þessi rökrétta ályktun leggur grunninn að því að finna fullnægjandi svör við stóru spurningunum: Hvers vegna erum við hér og hvað er framundan?
[Rammi á blaðsíðu 51]
Skákmeistari gegn tölvu
Þegar hin öfluga tölva Dimmblá sigraði heimsmeistarann í skák kom upp spurningin: „Neyðumst við ekki til að álykta að Dimmblá hljóti að geta hugsað?“
Prófessor David Gelernter við Yale-háskóla svaraði á þessa leið: „Nei. Dimmblá er aðeins vél. Hún getur ekkert frekar hugsað en blómapottur. . . . Hún segir okkur fyrst og fremst að mennirnir séu meistarar í vélsmíði.“
Prófessor Gelernter benti á eftirfarandi meginmismun: „Heilinn er vél sem getur skapað meðvitund um sjálfa sig. Mannsheilinn getur kallað fram hugarheima; tölvur geta það ekki.“
Niðurstaða hans var þessi: „Gjáin milli manns og [tölvu] er varanleg og verður aldrei brúuð. Vélar munu halda áfram að gera lífið léttara, heilbrigðara og auðugra, svo og erfiðara að botna í. Áhugi manna og umhyggja mun halda áfram að beinast einkum að því sama og hingað til: Að þeim sjálfum, að öðru fólki og, hvað marga snertir, að Guði. Í þessum efnum hafa vélar aldrei haft neitt að segja. Þær munu heldur aldrei gera það.“
[Rammi á blaðsíðu 53]
Ofurtölva jafnast á við snigil
„Nútímatölvur nálgast ekki einu sinni fjögurra ára barn í hæfni til að sjá, tala, hreyfa sig eða beita heilbrigðri skynsemi. Ein af ástæðunum er vitaskuld reikningsgetan ein og sér. Áætlað hefur verið að upplýsingavinnslugeta öflugustu ofurtölvu jafnist á við taugakerfi snigils – en sú vinnslugeta er agnarsmátt brot af afli ofurtölvunnar í höfuðkúpu mannsins.“ — Steven Pinker, forstjóri rannsóknarsviðs við Center for Cognitive Neuroscience, Massachusetts Institute of Technology.
[Rammi á blaðsíðu 54]
„Mannsheilinn er svo til eingöngu samsettur úr heilaberkinum. Í heila simpansa, til dæmis, er líka heilabörkur en í miklu minna mæli. Heilabörkurinn gerir okkur kleift að hugsa, muna og ímynda okkur allt mögulegt. Það er í meginatriðum heilaberkinum að þakka að við erum mannverur.“ — Edoardo Boncinelli, yfirmaður sameindalíffræðirannsókna í Mílanó á Ítalíu.
[Rammi á blaðsíðu 55]
Öreindafræðin og mannsheilinn
Prófessor Paul Davies hefur skrifað um hugleiðingar sínar um hæfni heilans til að kljást við hið óhlutbundna svið stærðfræðinnar. „Stærðfræði er ekki eitthvað sem menn finna á förnum vegi. Hún er tilbúningur mannshugans. En ef við spyrjum hvar stærðfræðin virkar best er það á sviðum eins og öreindafræði og stjarneðlisfræði, á sviði grunnvísinda sem eru afskaplega fjarri hversdagsleikanum.“ Til hvers bendir það? „Ég tek það sem vísbendingu um að meðvitundin og stærðfræðigáfan sé ekki hrein tilviljun, ekkert lítilræði, engin ómerkileg aukaafurð þróunarinnar.“ — Are We Alone?
[Rammi/mynd á blaðsíðu 56, 57]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
Ennisblað
Fremsti heilabörkurinn
Broca-svæðið
Wernicke-svæðið
Hreyfisvæði
● Heilabörkurinn er það yfirborðssvæði heilans sem tengist hvað mest greindinni. Ef heilabörkur mannsins væri flattur út myndi hann þekja fjögur vélritunarblöð; heili simpansa myndi þekja aðeins eitt blað og heili rottu næði yfir frímerki. — Scientific American.
[Rammi á blaðsíðu 58]
Alls staðar er að finna tungumál
Frá því að sögur hófust hafa menn aldrei hitt fyrir aðra menn án þess að báðir töluðu eitthvert tungumál. Bókin The Language Instinct segir: „Aldrei hefur fundist mállaus ættflokkur og engar vísbendingar eru um að eitthvert svæði hafi verið ‚vagga‘ tungumálsins og það síðan dreifst þaðan til hópa sem fram að því höfðu ekkert tungumál. . . . Að flókið tungumál sé alls staðar að finna er uppgötvun sem hrífur málfræðinga og er ein helsta ástæðan til að gruna að tungumál sé . . . til komið vegna sérstakrar eðlisávísunar mannsins.“
[Rammi á blaðsíðu 59]
Tungumál og greind
Af hverju skarar maðurinn langt fram úr dýrum, eins og öpum, í greind? Svarið er meðal annars að finna í notkun okkar á setningum. Við setjum saman hljóð til að mynda orð og notum orð til að mynda setningar. William H. Calvin, sem fæst við fræðilega taugalífeðlisfræði, skýrir þetta þannig:
„Villtir simpansar nota um það bil þrjár tylftir ólíkra hljóða til að ná fram um það bil þremur tylftum mismunandi merkinga. Þeir endurtaka ef til vill hljóð til að skerpa merkingu þess en þeir strengja ekki saman þremur hljóðum til að auka orðaforða sinn.
Við mennirnir notum líka um það bil þrjár tylftir hljóða, svonefnda hljóðunga eða fónem. Þau öðlast þó aðeins innihald þegar þau koma saman: Við strengjum saman hljóðum sem eru ein og sér merkingarlaus til að búa til orð sem merkja eitthvað.“ Dr. Calvin bendir á að „enginn hafi enn útskýrt“ stökkið frá „eitt hljóð/ein merking“ aðferð dýranna yfir í einstæða getu mannsins til að nota orð og setningar.
[Rammi á blaðsíðu 60]
Menn geta meira en krassað
„Er maðurinn einn, Homo sapiens, fær um að tjá sig með tungumáli? Svarið hlýtur greinilega að vera háð því hvað átt sé við með ‚tungumáli,‘ af því að öll æðri dýr tjá sig vissulega með margvíslegum merkjum, eins og látbragði, lykt, köllum, öskri og söng, og jafnvel dansi eins og býflugurnar. Önnur dýr en maðurinn virðast þó ekki hafa tungumál sem lúta málfræðilögmálum. Og eitt, sem kann að skipta miklu máli, er það að dýrin teikna ekki hlutlægar myndir. Þegar best lætur krassa þau aðeins.“ — Prófessorarnir R. S. og D. H. Fouts.
[Rammi á blaðsíðu 61]
„Þegar við snúum okkur að mannsheilanum finnum við líka furðulega flókna uppbyggingu,“ segir prófessor A. Noam Chomsky. „Tungumálið er gott dæmi en ekki það eina. Sjáum hæfni heilans til að kljást við óhlutbundin hugtök talnakerfisins, [hæfni sem virðist] einskorðuð við manninn.“
[Rammi á blaðsíðu 62]
„Áskapað“ að spyrja spurninga
Í tengslum við framtíð alheimsins skrifaði eðlisfræðingurinn Lawrence Krauss: „Við vogum okkur að spyrja spurninga um hluti sem við eigum kannski sjálf aldrei eftir að sjá vegna þess að við getum spurt þeirra. Börnin okkar eða þeirra börn munu einhvern daginn svara þeim. Okkur er ímyndunaraflið áskapað.“
[Rammi á blaðsíðu 69]
Ef alheimurinn og líf okkar í honum er tilviljun getur líf okkar ekki haft neinn varanlegan tilgang. En ef líf okkar er til orðið vegna sköpunar hlýtur það að hafa fullnægjandi tilgang.
[Rammi á blaðsíðu 72]
Er það afleiðing þess að forfeðurnir viku sér undan sverðkettinum?
John Polkinghorne við háskólann í Cambridge á Englandi segir:
„Paul Dirac, sérfræðingur í fræðilegri eðlisfræði, kom fram með nokkuð sem nefnt er skammtasviðsfræði og er undirstöðuatriði í skilningi okkar á efnisheiminum. Ég get ekki trúað því að hæfni Diracs til að setja fram þessa kenningu, eða hæfni Einsteins til að móta afstæðiskenninguna, sé einhvers konar aukaafurð þess að forfeður okkar þurftu að víkja sér undan árásum sverðkattarins. Eitthvað miklu djúpstæðara, miklu dularfyllra, er hér á seyði. . . .
Þegar við lítum á rökrétt skipulag og augljósa fegurð efnisheimsins, sem náttúruvísindin opinbera okkur, sjáum við heim þar sem merki um greind skín alls staðar í gegn. Í augum trúmannsins er það greind skaparans sem sýnir sig á þennan hátt.“ — Commonweal.
[Mynd á blaðsíðu 63]
Aðeins mennirnir spyrja spurninga. Sumar þeirra eru um tilgang lífsins.
[Mynd á blaðsíðu 64]
Ólíkt dýrunum eru mennirnir meðvitaðir um sjálfa sig og um framtíðina.
[Mynd á blaðsíðu 70]
Mennirnir einir kunna að meta fegurð, hugsa um framtíðina og laðast að skapara.