Stundaðu ‚helgun í guðsótta‘
Í BIBLÍUNNI kemur fram að Jehóva er heilagur í æðsta skilningi þess orðs. Þar segir: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn.“ (Jes. 6:3; Opinb. 4:8) Hebresku og grísku orðin, sem eru þýdd „heilagur“, fela í sér að vera tær eða hreinn í trúarlegum skilningi, vera aðgreindur frá því sem mengar eða saurgar. Að Guð skuli sagður heilagur lýsir því að hann sé siðferðilega fullkominn.
Er ekki eðlilegt að heilagur Guð ætlist til þess að tilbiðjendur sínir séu heilagir — hreinir bæði líkamlega, siðferðilega og andlega? Það kemur mjög skýrt fram í Biblíunni að Jehóva vill að þjónar sínir séu heilagir. Við lesum í 1. Pétursbréfi 1:16: „Verið heilög því ég er heilagur.“ Geta ófullkomnir menn líkt eftir heilagleika Jehóva? Já, en þó ekki fullkomlega. Jehóva lítur hins vegar á okkur sem heilög ef við tilbiðjum hann í hreinleika og eigum náið samband við hann.
Hvernig getum við haldið okkur hreinum í heimi sem er siðferðilega óhreinn? Hvað þurfum við að forðast? Hvaða breytingar getum við þurft að gera á máli okkar og hegðun? Könnum hvaða lærdóm má draga af kröfum Guðs til Gyðinga þegar þeir sneru heim frá Babýlon árið 537 f.Kr.
„Braut sem skal heita Brautin helga“
Jehóva boðaði að þjóð sín, sem var í útlegð í Babýlon, skyldi snúa aftur heim til ættjarðar sinnar. Í endurreisnarspádóminum sagði: „Þar verður breið braut sem skal heita Brautin helga.“ (Jes. 35:8a) Þessi orð sýna að Jehóva opnaði Gyðingum ekki aðeins leiðina heim heldur fullvissaði þá einnig um að hann myndi vernda þá á heimleiðinni.
Þegar litið er til okkar tíma opnaði Jehóva þjónum sínum ‚Brautina helgu‘ út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Árið 1919 leysti hann andasmurða kristna menn úr andlegum fjötrum falstrúar og þeir hreinsuðu síðan tilbeiðslu sína jafnt og þétt af öllum falskenningum. Við sem tilbiðjum Jehóva núna búum í andlega hreinu og friðsömu umhverfi þar sem við getum tilbeðið Jehóva og átt friðsamleg samskipti við hann og náungann.
Þeir sem tilheyra ‚lítilli hjörð‘ andasmurðra kristinna manna og vaxandi ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum‘ hafa ákveðið að ganga á helgri braut og bjóða öðrum að slást í för með sér. (Lúk. 12:32; Opinb. 7:9; Jóh. 10:16) „Brautin helga“ stendur opin öllum sem vilja ‚bjóða fram sjálfa sig að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn‘. — Rómv. 12:1.
„Enginn óhreinn má hana ganga“
Gyðingarnir, sem héldu heimleiðis árið 537 f.Kr., þurftu að uppfylla mikilvægt skilyrði. Í Jesaja 35:8b segir um þá sem fá að ganga á ‚Brautinni helgu‘: „Enginn óhreinn má hana ganga því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um og heimskingjar munu ekki villast þar.“ Markmiðið með heimför Gyðinga til Jerúsalem var að endurreisa sanna tilbeiðslu. Þess vegna átti enginn heima þar sem var eigingjarn, kunni ekki að meta það sem heilagt var eða stundaði eitthvað óhreint. Þeir sem sneru heim urðu að halda í heiðri hinar háleitu siðferðisreglur Jehóva. Þeir sem vilja njóta velþóknunar Guðs núna þurfa að uppfylla sömu skilyrði. Þeir verða að ‚fullkomna helgun sína í guðsótta‘. (2. Kor. 7:1) Hvaða óhreint hátterni þurfum við þá að forðast?
„Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi,“ skrifaði Páll postuli. (Gal. 5:19) „Frillulífi“ merkir allar hugsanlegar kynferðisathafnir utan hjónabands þar sem kynfærin koma við sögu. Með „saurlífi“ er átt við ‚lauslæti, taumleysi og lostafulla og blygðunarlausa hegðun‘. Bæði frillulífi og saurlífi ganga greinilega í berhögg við heilagleika Jehóva. Þeir sem stunda eitthvað slíkt fá því ekki að ganga í kristna söfnuðinn eða þeim er vikið úr honum. Hið sama er að segja um þá sem leggja stund á grófan óhreinleika, það er að segja „alls konar óhreinleika af græðgi“. — Ef. 4:19, NW.
„Óhreinleiki“ nær yfir margs konar syndir. Gríska orðið, sem svo er þýtt, lýsir hvers kyns óhreinleika eða óþverra — í hegðun, tali og trúarlegum samskiptum. Það felur í sér óhreinar athafnir sem er ekki sjálfgefið að kalli á meðferð dómnefndar.a En er hægt að segja að þeir sem stunda slíkan óhreinleika stundi jafnframt heilaga breytni?
Segjum að kristinn maður byrji að horfa á klám í laumi. Eftir því sem óhreinar langanir verða sterkari dregur smám saman úr þeim ásetningi hans að vera hreinn í augum Jehóva. Hann er kannski ekki kominn út í grófan óhreinleika enn þá en hann heldur sannarlega ekki áfram að einbeita sér eingöngu að því sem er ‚hreint, gott afspurnar, dygð og lofsvert‘. (Fil. 4:8) Klám er óhreint og spillir sambandi manns við Guð. Óhreinleiki yfirleitt á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal okkar. — Ef. 5:3.
Hugsum okkur annað dæmi. Segjum að kristinn maður stundi það að fróa sér — erti kynfæri sín til að hljóta kynferðislega fullnægingu — hvort heldur það tengist klámi eða ekki. Þó svo að orðið „sjálfsfróun“ standi hvergi í Biblíunni leikur enginn vafi á því að sjálfsfróun saurgar huga manns og tilfinningar. Er ekki hætt við því að sá sem stundar sjálfsfróun skemmi samband sitt við Jehóva og geri sig óhreinan í augum hans? Tökum alvarlega hvatningu Páls postula um að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál‘ og ‚deyða hið jarðbundna í fari okkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd‘. — 2. Kor. 7:1; Kól. 3:5.
Heimurinn er undir stjórn Satans. Hann umber óhreina hegðun og hvetur jafnvel til hennar. Það getur verið þrautin þyngri að standast þá freistingu að gera eitthvað sem er óhreint. En sannkristnir menn mega ekki „hegða [sér] eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus.“ (Ef. 4:17) Jehóva leyfir okkur því aðeins að ganga á ‚Brautinni helgu‘ að við forðumst óhreina hegðun, hvort sem hún fer leynt eða ekki.
„Þar verður ekkert ljón“
Við getum þurft að gera róttækar breytingar á hegðun okkar og tali til að njóta velþóknunar hins heilaga Guðs, Jehóva. Í Jesaja 35:9 stendur: „Þar verður ekkert ljón, ekkert glefsandi rándýr fer þar um,“ það er að segja um ‚Brautina helgu‘. Fólki, sem er ofbeldisfullt eða árásarhneigt í orðum eða atferli, er hér líkt við villidýr. Það á ekki heima í réttlátum nýjum heimi Guðs. (Jes. 11:6; 65:25) Þess vegna þurfa þeir sem þrá velþóknun Guðs að uppræta úr fari sínu dýrsleg einkenni og stunda heilaga breytni.
„Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt,“ segir í Biblíunni. (Ef. 4:31) Í Kólossubréfinu 3:8 stendur: „Nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ Þegar talað er um „lastmæli“ í þessum tveim versum er átt við meiðandi og niðurlægjandi tal eða guðlast.
Særandi og dónaleg orð eru orðin býsna algeng, jafnvel innan veggja heimilisins. Hjón hreyta nöprum, meiðandi og niðrandi orðum hvort í annað og í börnin. Þess konar munnsöfnuður ætti ekki að þekkjast á kristnu heimili. — 1. Kor. 5:11.
Það er til blessunar að stunda ‚helgun í guðsótta‘
Það er mikill heiður að mega þjóna Jehóva, Guði heilagleikans. (Jós. 24:19) Andlega paradísin, sem hann hefur leitt okkur inn í, er ákaflega dýrmæt. Besta leiðin til að lifa lífinu er að stunda heilaga breytni fyrir augliti hans.
Innan skamms verður hin fyrirheitna paradís á jörð að veruleika. (Jes. 35:1, 2, 5-7) Þeir sem þrá hana og halda áfram að stunda heilaga breytni fá að búa þar. (Jes. 65:17, 21) Við skulum því fyrir alla muni halda áfram að tilbiðja Guð í hreinleika og varðveita náið samband við hann.
[Neðanmáls]
a Í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júlí 2006, bls. 29-31, er fjallað um muninn á „óhreinleika“ og „óhreinleika af græðgi“.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvað þurftu Gyðingar að gera til að ganga á ‚Brautinni helgu‘?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Við skemmum samband okkar við Jehóva ef við horfum á klám.
[Mynd á blaðsíðu 28]
„Látið hvers konar . . . hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur.“