NÁMSGREIN 6
Hvað má læra af Biblíunni um höfund hennar?
„Skrifaðu í bók öll þau orð sem ég segi við þig.“ – JER. 30:2.
SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður
YFIRLITa
1. Hvers vegna ertu þakklátur fyrir Biblíuna?
VIÐ erum Jehóva Guði innilega þakklát fyrir Biblíuna. Í henni er að finna skynsamlegar leiðbeiningar sem geta hjálpað okkur að leysa vandamál sem við þurfum að takast á við. Jehóva gefur okkur líka dásamlega framtíðarvon. En það sem meira máli skiptir er að hann hefur í Biblíunni birt okkur margar hliðar persónuleika síns. Það snertir hjarta okkar að hugleiða fallega eiginleika Jehóva og fær okkur til að vilja nálgast hann með því að styrkja sambandið við hann. – Sálm. 25:14.
2. Á hvaða mismunandi vegu hefur Jehóva opinberað sig mönnum?
2 Jehóva vill að fólk þekki hann. Áður fyrr opinberaði hann sig í draumum, sýnum og fyrir milligöngu engla. (4. Mós. 12:6; Post. 10:3, 4) Við myndum ekki geta rannsakað það sem kom fram í þessum draumum, sýnum og skilaboðum frá englum ef það hefði ekki verið skrifað niður. Þess vegna lét Jehóva menn ,skrifa í bók‘ það sem hann vildi að við fengjum að vita. (Jer. 30:2) Við getum verið viss um að þessi samskiptaleið sé sú besta og okkur til góðs vegna þess að „vegur hins sanna Guðs er fullkominn“. – Sálm. 18:30.
3. Hvernig sá Jehóva til þess að Biblían varðveittist? (Jesaja 40:8)
3 Lestu Jesaja 40:8. Trúfastir karlar og konur hafa um þúsundir ára fengið góðar leiðbeiningar í orði Guðs. Hvernig hefur það verið mögulegt? Biblían var skrifuð fyrir löngu á forgengilegt efni þannig að engin upprunaleg handrit eru til svo vitað sé. En Jehóva sá til þess að gerð voru afrit af þessum helga texta. Þótt afritararnir hafi verið ófullkomnir voru þeir ótrúlega vandvirkir. Biblíufræðingur einn skrifaði um Hebresku ritningarnar: „Það er óhætt að segja að engin önnur forn bók hafi varðveist svona nákvæmlega.“ Við getum því verið viss um að það sem við lesum í Biblíunni nú á dögum endurspegli hugsanir höfundarins, Jehóva, þótt langur tími sé liðinn frá ritun hennar, forgengilegt efni hafi verið notað og afritararnir ófullkomnir.
4. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
4 „Sérhver góð og fullkomin gjöf“ kemur frá Jehóva. (Jak. 1:17) Biblían er ein besta gjöfin sem Jehóva hefur gefið okkur. Gjöf segir okkur ýmislegt um þann sem gefur hana – hversu vel hann þekkir okkur og þarfir okkar. Það sama á við um þann sem gaf okkur Biblíuna. Við lærum margt um Jehóva þegar við skoðum þessa gjöf. Við komumst að því hversu vel hann þekkir okkur og þarfir okkar. Í þessari námsgrein skoðum við hvað Biblían segir um þrjá eiginleika Jehóva: visku hans, réttlæti og kærleika. Lítum fyrst á hvað Biblían segir um visku Guðs.
BIBLÍAN VARPAR LJÓSI Á VISKU GUÐS
5. Hvernig endurspeglar Biblían visku Guðs?
5 Jehóva veit að við höfum þörf fyrir viturlegar leiðbeiningar hans. Og í Biblíunni, sem hann hefur gefið okkur, er að finna mikla visku. Ráð hennar hafa jákvæð áhrif á fólk. Biblían breytir lífi fólks. Þegar fyrstu bækur Biblíunnar voru skrifaðar sagði Móse þjóð Guðs, Ísraelsmönnum: „Þetta eru ekki innantóm orð heldur er líf ykkar undir þeim komið.“ (5. Mós. 32:47) Þeir sem hlýddu Ritningunum gátu átt ánægjulegt líf. (Sálm. 1:2, 3) Tíminn hefur ekki dregið kraftinn úr orði Guðs til að bæta líf fólks. Í greinaröðinni „Biblían breytir lífi fólks“ á jw.org er til dæmis að finna meira en 40 reynslusögur sem sýna hvernig Biblían hefur ,áhrifamátt á þá sem trúa‘ nú á dögum. – 1. Þess. 2:13.
6. Hvers vegna getum við sagt að Biblían sé engri annarri bók lík?
6 Engin önnur bók jafnast á við orð Guðs. Hvernig getum við fullyrt það? Höfundur þessarar bókar, Jehóva Guð, er almáttugur, eilífur og hefur óviðjafnanlega visku. Margar aðrar bækur endast lengur en höfundar þeirra en ráðin í þeim standast ekki alltaf tímans tönn. Viturlegar meginreglur Biblíunnar eru á hinn bóginn tímalausar – þær hafa reynst gagnlegar fólki á öllum tímum. Þegar við lesum þessa heilögu bók og hugleiðum það sem við lærum beitir höfundurinn öflugum heilögum anda sínum til að hjálpa okkur að sjá hvernig við getum heimfært ráð Biblíunnar á líf okkar. (Sálm. 119:27; Mal. 3:16; Hebr. 4:12) Höfundur Biblíunnar lifir og vill mjög gjarnan hjálpa okkur. Hvílík hvatning til að lesa Biblíuna reglulega!
7. Hvernig sameinaði Biblían þjóna Guðs til forna?
7 Sú staðreynd að Biblían sameinar fólk Guðs sýnir fram á viskuna í orði hans. Þegar Ísraelsmenn komu inn í fyrirheitna landið settust þeir að víðs vegar um landið. Sumir fóru að stunda fiskveiðar, aðrir nautfjárrækt og enn aðrir garðrækt. Ísraelsmenn sem bjuggu á einu svæði hefðu auðveldlega getað misst áhugann á velferð Ísraelsmanna sem bjuggu annars staðar í landinu. En Jehóva gerði ráðstafanir til að Ísraelsmenn söfnuðust saman við mismunandi tilefni til að hlusta á orð hans lesið og útskýrt. (5. Mós. 31:10–13; Neh. 8:2, 8, 18) Ímyndaðu þér hvernig trúföstum Ísraelsmanni hefur liðið þegar hann kom til Jerúsalem og sá kannski milljónir trúsystkina sinna frá öllum landshlutum. Þannig hjálpaði Jehóva fólki sínu að viðhalda einingunni. Þegar kristni söfnuðurinn varð til samanstóð hann af körlum og konum sem töluðu mismunandi tungumál og voru af mismunandi þjóðfélagsstéttum. En þau voru sameinuð í tilbeiðslu á hinum sanna Guði vegna þess að þau elskuðu Ritningarnar. Þeir sem tóku trú gátu aðeins skilið orð Guðs með hjálp trúsystkina sinna og með því að safnast saman með þeim. – Post. 2:42; 8:30, 31.
8. Hvernig sameinar Biblían þjóna Guðs nú á dögum?
8 Vitur Guð okkar heldur áfram að nota Biblíuna til að kenna fólki sínu og sameina það. Hún er uppspretta andlegu fæðunnar sem er okkur svo dýrmæt. Við komum reglulega saman á samkomum og mótum til að heyra lestur úr Biblíunni, fá útskýringar á henni og heyra ræður um hana. Biblían gegnir þannig stóru hlutverki í fyrirætlun Jehóva um að tilbiðjendur hans ,þjóni honum einhuga‘. – Sef. 3:9, Biblían 2010.
9. Hvaða eiginleiki er nauðsynlegur til að skilja boðskap Biblíunnar? (Lúkas 10:21)
9 Skoðum hvernig viska Guðs birtist með öðrum hætti. Hann lét skrifa stóran hluta Ritninganna þannig að aðeins auðmjúkt fólk gæti skilið þær. (Lestu Lúkas 10:21.) Fólk alls staðar í heiminum les Biblíuna. Biblíufræðingur einn sagði að engin bók væri lesin af eins mörgum og jafn vandlega og Biblían. En það er aðeins auðmjúkt fólk sem skilur hana rétt og fer eftir því sem hún segir. – 2. Kor. 3:15, 16.
10. Hvernig endurspeglar Biblían visku Jehóva með öðrum hætti?
10 Við sjáum visku Guðs í Biblíunni á enn annan hátt. Jehóva notar Ritningarnar ekki bara til að kenna okkur sem hóp heldur til að leiðbeina hverju og einu okkar og hughreysta. Þegar við lesum í orði Jehóva getum við séð að hann hefur áhuga á hverju og einu okkar. (Jes. 30:21) Hve oft hefur þú leitað í Biblíuna þegar þú glímir við vandamál og lesið vers sem virðist skrifað bara fyrir þig? Samt höfðar hún til milljóna manna. Hvernig getur hún haft að geyma leiðbeiningar sem eiga vel við og eru sniðnar að þínum þörfum? Þetta er mögulegt vegna þess að höfundur Biblíunnar er einstaklega vitur. – 2. Tím. 3:16, 17.
BIBLÍAN ENDURSPEGLAR RÉTTLÆTI GUÐS
11. Hvernig sýndi Guð óhlutdrægni þegar Biblían var rituð?
11 Annar eiginleiki sem Jehóva býr yfir er réttlæti. (5. Mós. 32:4) Réttlæti er nátengt óhlutdrægni, og Jehóva er óhlutdrægur. (Post. 10:34, 35; Rómv. 2:11) Það endurspeglar óhlutdrægni Jehóva að Biblían skuli vera skrifuð á því tungumáli sem margir töluðu á þeim tíma. Fyrstu 39 bækur Biblíunnar voru að mestu leyti skrifaðar á hebresku, sem fólk Guðs átti auðvelt með að skilja á þeim tíma. En á fyrstu öld töluðu flestir grísku þannig að síðustu 27 bækur Biblíunnar voru skrifaðar aðallega á því tungumáli. Jehóva ákvað ekki að orð hans ætti einungis að vera skrifað á einu tungumáli. Nú á dögum tala næstum átta milljarðar manna mörg tungumál. Hvernig getur allt þetta fólk kynnst Jehóva?
12. Hvernig hefur Daníel 12:4 uppfyllst á síðustu dögum?
12 Fyrir milligöngu spámannsins Daníels lofaði Jehóva að þegar kæmi að tíma endalokanna myndi „sönn þekking“, sem er að finna í Biblíunni, ,verða ríkuleg‘. Margir myndu fá aukinn skilning. (Lestu Daníel 12:4.) Þýðing, útgáfa og dreifing Biblíunnar og biblíutengdra rita hefur hjálpað mörgum að skilja orð Guðs. Engin bók hefur verið þýdd á eins mörg tungumál og náð eins mikilli útbreiðslu og Biblían. Biblíuþýðingar sem hafa komið út hjá bókaútgáfum eru stundum mjög dýrar. Þjónar Jehóva hafa þýtt orð Guðs, í heild eða að hluta, á meira en 240 tungumál og allir geta fengið ókeypis eintak. Fyrir vikið bregst fólk af öllum þjóðum við ,fagnaðarboðskapnum um ríkið‘ áður en endirinn kemur. (Matt. 24:14) Réttlátur Guð okkar vill gefa eins mörgum og hægt er tækifæri til að kynnast sér með því að lesa Biblíuna. Hann gerir það vegna þess að hann elskar okkur mjög heitt.
BIBLÍAN SÝNIR AÐ GUÐ ELSKAR OKKUR
13. Hvers vegna getum við sagt að Biblían endurspegli kærleika Jehóva? (Jóhannes 21:25)
13 Biblían hjálpar okkur að skilja að mikilvægasti eiginleiki Jehóva er kærleikurinn. (1. Jóh. 4:8) Skoðum hvað Jehóva hefur látið skrifa í Biblíuna og hvað hann hefur ekki látið skrifa í hana. Hann sá okkur fyrir því sem við þurfum til að geta átt samband við hann, lifað hamingjuríku lífi núna og til að öðlast eilíft líf. En þar sem Jehóva elskar okkur gaf hann okkur ekki meiri upplýsingar en við getum meðtekið. – Lestu Jóhannes 21:25.
14. Hvernig sýnir Biblían með öðrum hætti að Guð elskar okkur?
14 Jehóva tjáir einnig kærleika sinn með því að sýna okkur virðingu í samskiptum við okkur. Í Biblíunni segir hann okkur ekki í smáatriðum hvað við eigum að gera með því að gefa okkur endalausan lista af reglum. Nei, hann höfðar til skynsemi okkar með reynslusögum, áhrifamiklum spádómum og gagnlegum leiðbeiningum. Þannig hvetur orð Guðs okkur til að elska hann og hlýða honum af einlægni.
15. (a) Hvernig hefur Jehóva sýnt þeim sem lesa orð hans áhuga? (b) Hvaða biblíupersónur eru litla stelpan, ungi bróðirinn og eldri systirin á myndinni að hugsa um? (1. Mós. 39:1, 10–12; 2. Kon. 5:1–3; Lúk. 2:25–38)
15 Biblían gefur til kynna að Jehóva hafi einlægan áhuga á okkur. Hvernig gerir hún það? Í henni eru margar frásögur sem segja frá tilfinningum fólks. Við getum skilið tilfinningar fólks í Biblíunni vegna þess að það var fólk „eins og við“. (Jak. 5:17) Og það sem meira máli skiptir er að við skiljum betur að „Jehóva er mjög umhyggjusamur og miskunnsamur“ þegar við sjáum hvernig hann kom fram við fólk eins og okkur. – Jak. 5:11.
16. Hvað lærum við um Jehóva þegar við lesum um fólk í Biblíunni sem gerði mistök? (Jesaja 55:7)
16 Biblían sýnir hvernig kærleikur Jehóva birtist á fleiri vegu. Hún fullvissar okkur um að Guð yfirgefi okkur ekki þegar við gerum mistök. Ísraelsmenn syndguðu aftur og aftur gegn Jehóva en hann fyrirgaf þeim þegar þeir iðruðust í einlægni. (Lestu Jesaja 55:7.) Kristnir menn á fyrstu öld vissu líka að Guð elskaði þá mjög heitt. Undir innblæstri hvatti Páll postuli trúsystkini sín til að „fyrirgefa og hughreysta“ mann sem hafði stundað alvarlega synd en iðrast. (2. Kor. 2:6, 7; 1 Kor. 5:1–5.) Það er merkilegt að Jehóva skyldi ekki hafna tilbiðjendum sínum þegar þeir syndguðu. Í kærleika sínum hjálpaði hann þeim, leiðrétti þá og bauð þeim að snúa til sín aftur. Hann lofar að gera það sama fyrir alla sem iðrast synda sinna nú á dögum. – Jak. 4:8–10.
METUM MIKILS ÞÁ ,GÓÐU GJÖF‘ SEM ORÐ GUÐS ER
17. Hvers vegna er Biblían svona merkileg gjöf?
17 Jehóva hefur gefið okkur stórkostlega gjöf. Hvers vegna er orð Guðs svona merkilegt? Við höfum séð að Biblían endurspeglar visku Guðs, réttlæti hans og kærleika. Hún sýnir að Jehóva vill að við kynnumst honum. Hann vill að við verðum vinir hans.
18. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir þá ,góðu gjöf‘ frá Jehóva sem Biblían er?
18 Við viljum ekki taka þeirri ,góðu gjöf‘ sem orð Guðs er sem sjálfsögðum hlut. (Jak. 1:17) Höldum því áfram að sýna þakklæti okkar fyrir hana. Við getum gert það með því að lesa heilög orð hennar og hugleiða þau í bænarhug. Þá getum við verið viss um að hinn mikli höfundur hennar blessi viðleitni okkar og við ,kynnumst Guði‘. – Orðskv. 2:5.
SÖNGUR 98 Ritningin er innblásin
a Biblían hjálpar okkur að nálgast Jehóva. Hvað segir þessi heilaga bók um visku Guðs, réttlæti og kærleika? Það sem við lærum hjálpar okkur að vera þakklátari fyrir orð Guðs og sjá Biblíuna í réttu ljósi – sem gjöf frá föður okkar á himnum.