Þekktu Jehóva gegnum orð hans
„Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — JÓHANNES 17:3.
1, 2. (a) Hvað merkja orðin „þekking“ og „að þekkja“ eins og þau eru notuð í Ritningunni? (b) Hvaða dæmi skýra þessa merkingu?
AÐ ÞEKKJA einhvern sem kunningja eða hafa yfirborðsþekkingu á einhverju nær hvergi nærri merkingu orðanna „þekking“ og „að þekkja“ eins og þau eru notuð í Ritningunni. Í Biblíunni fela þau í sér „það að þekkja af reynslunni,“ þekkingu sem tjáir „trúnaðartraust milli einstaklinga.“ (The New International Dictionary of New Testament Theology) Það felur í sér að þekkja Jehóva með því að taka mið af vissum verkum hans, svo sem þeim mörgu dæmum í Esekíelsbók þar sem Guð fullnægði dómi á syndurum og sagði: ‚Og þið skuluð viðurkenna [„þekkja,“ NW] að ég er Jehóva.‘ — Esekíel 38:23.
2 Taka má fáein dæmi til að skýra hve fjölbreytt notkunarsvið orðanna „að þekkja“ og „þekkingar“ er. Jesús sagði mörgum, sem sögðust hafa starfað í nafni hans, „aldrei þekkti ég yður,“ og átti við það að hann hefði aldrei átt neitt saman við þá að sælda. (Matteus 7:23) Síðara Korintubréf 5:21 segir að Kristur hafi ‚ekki þekkt synd.‘ Það merkir ekki að honum hafi ekki verið kunnugt um syndina heldur að hann hafi aldrei syndgað persónulega. Þegar Jesús sagði: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist,“ fólst meira í því en aðeins að vita eitthvað um Guð og Krist. — Samanber Matteus 7:21.
3. Hvaða sannanir eru fyrir því að Jehóva sé hinn sanni Guð?
3 Hægt er að kynnast mörgum af eiginleikum Jehóva af orði hans, Biblíunni. Einn þeirra er sú hæfni hans að koma fram með nákvæma spádóma. Það er eitt af því sem einkennir hinn sanna Guð: „Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er! Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir!“ (Jesaja 41:22, 23) Í orði sínu segir Jehóva frá því sem áður var í sambandi við sköpun jarðar og lífsins á henni. Hann sagði fyrir með löngum fyrirvara það sem átti að gerast síðar og gerðist í reynd. Og jafnvel núna ‚kunngerir hann oss, hvað verða muni,‘ einkum það sem á að gerast núna á „síðustu dögum.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; 1. Mósebók 1:1-30; Jesaja 53:1-12; Daníel 8:3-12, 20-25; Matteus 24:3-21; Opinberunarbókin 6:1-8; 11:18.
4. Hvernig hefur Jehóva notað mátt sinn og hvernig á hann eftir að nota hann?
4 Annar eiginleiki Jehóva er máttur. Hann birtist greinilega í himingeimnum þar sem firnamiklir kjarnasamrunaofnar senda frá sér ljós og orku. Þegar uppreisnargjarnir menn eða englar ögra drottinvaldi Jehóva notar hann mátt sinn sem „stríðshetja“ til að verja sitt góða nafn og réttláta staðla sína. Við slík tækifæri hikar hann ekki við að beita krafti sínum til eyðingar eins og í flóðinu á dögum Nóa, í eyðingu Sódómu og Gómorru og við frelsun Ísraels gegnum Rauðahafið. (2. Mósebók 15:3-7; 1. Mósebók 7:11, 12, 24; 19:24, 25) Innan skamms mun Guð beita mætti sínum til að „sundurmola Satan undir fótum yðar.“ — Rómverjabréfið 16:20.
5. Hvaða eiginleika er Jehóva gæddur, auk máttar?
5 En þrátt fyrir þennan ótakmarkaða mátt er Guð lítillátur. Sálmur 18:36, 37 segir: „Lítillæti þitt gjörði mig mikinn. Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum.“ Lítillæti Guðs leyfir honum að ‚horfa djúpt á himni og á jörðu og reisa lítilmagnann úr duftinu.‘ — Sálmur 113:6, 7.
6. Hvaða eiginleiki Jehóva á þátt í að bjarga mannslífum?
6 Miskunn Jehóva í samskiptum við manninn bjargar mannslífum. Hvílík miskunn sem Manasse var sýnd þegar honum var fyrirgefið, þó svo að hann hefði framið hræðileg ódæðisverk! Jehóva segir: „Þegar ég segi við hinn óguðlega: ‚Þú skalt vissulega deyja!‘ og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, [þá skulu] allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, . . . honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!“ (Esekíel 33: 14, 16; 2. Kroníkubók 33:1-6, 10-13) Jesús endurspeglaði miskunn Jehóva þegar hann hvatti til þess að fyrirgefa 77 sinnum, já jafnvel 7 sinnum sama daginn! — Sálmur 103:8-14; Matteus 18:21, 22; Lúkas 17:4.
Guð sem hefur tilfinningar
7. Hvernig er Jehóva ólíkur hinum grísku guðum og hvaða dýrmæt sérréttindi standa okkur opin?
7 Grískir heimspekingar, svo sem Epíkúringar, trúðu á guði en álitu að þeir væru of fjarri jörðinni til að hafa nokkurn áhuga á manninum eða verða fyrir áhrifum af tilfinningum hans. Þetta er sannarlega ólíkt sambandi Jehóva við trúfasta votta sína! „[Jehóva] hefir þóknun á lýð sínum.“ (Sálmur 149:4) Óguðlegir menn fyrir flóðið hryggðu hann og ollu því að honum ‚sárnaði í hjarta sínu.‘ Með ótrúmennsku sinni ollu Ísraelsmenn Jehóva sorg og sársauka. Ef kristnir menn eru óhlýðnir geta þeir hryggt anda Jehóva; með trúfesti geta þeir hins vegar glatt hann. Það er furðulegt að hugsa sér að smáir menn á jörðinni geti glatt eða hryggt skapara alheimsins! Í ljósi alls þess sem hann hefur gert fyrir okkur er stórkostlegt að við skulum hafa þau dýrmætu sérréttindi að geta glatt hann. — 1. Mósebók 6:6; Sálmur 78:40, 41; Orðskviðirnir 27:11; Jesaja 63:10; Efesusbréfið 4:30.
8. Hvernig notaði Abraham djörfung sína gagnvart Jehóva?
8 Orð Guðs sýnir að kærleikur Jehóva gefur okkur mikla „djörfung.“ (1. Jóhannesarbréf 4:17) Tökum Abraham sem dæmi þegar Jehóva kom til að eyða Sódómu. Abraham sagði við Jehóva: „Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu? Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru? . . . Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ Hugsa sér að segja slíkt við Guð! Samt féllst Jehóva á að þyrma Sódómu ef þar fyndust 50 réttlátir. Abraham hélt áfram og fékk töluna lækkaða úr 50 í 20. Nú óttaðist hann að hann væri kannski einum of ágengur og sagði: „Ég bið þig, [Jehóva], að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu.“ Og enn lét Jehóva það eftir: „Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu.“ — 1. Mósebók 18:23-33.
9. Hvers vegna leyfði Jehóva Abraham að tala eins og hann gerði og hvað getum við lært af því?
9 Hvers vegna leyfði Jehóva Abraham að tala svona djarflega við sig? Meðal annars vegna þess að Jehóva var ljóst hve órótt Abraham var. Hann vissi að föðurbróðir Abrahams, Lot, bjó í Sódómu og að Abraham hafði áhyggjur af öryggi hans. Auk þess var Abraham vinur Guðs. (Jakobsbréfið 2:23) Þegar einhver er hranalegur við okkur, reynum við þá að bera kennsl á þær tilfinningar sem búa að baki orðum hans og afsaka hann, einkum ef hann er vinur okkar og er undir einhvers konar tilfinningaálagi? Er það ekki hughreystandi að Jehóva skuli vera skilningsríkur þegar við tölum við hann með djörfung, eins og hann var við Abraham?
10. Hvernig hjálpar djörfung okkur þegar við biðjum?
10 Einkum þegar þungar áhyggjur hvíla á okkur eða við erum örvingluð þurfum við að úthella sál okkar með djörfung fyrir honum „sem heyrir bænir.“ (Sálmur 51:19; 65:3, 4) Jafnvel á þeim stundum þegar okkur kann að bresta orð ‚biður andinn fyrir oss með andvörpum‘ og Jehóva hlustar. Hann getur vitað hugsanir okkar: „Þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, [Jehóva], þekkir það eigi til fulls.“ Samt sem áður ættum við að halda áfram að biðja, leita og knýja á. — Rómverjabréfið 8:26; Sálmur 139:2, 4; Matteus 7:7, 8.
11. Hvernig sýnir það sig að Jehóva lætur sér mjög annt um okkur?
11 Jehóva er annt um okkur. Hann viðheldur því lífi sem hann skapaði. „Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:15, 16) Við erum hvött til að sjá hvernig hann elur fugla merkurinnar. Líttu á hve fögrum búningi hann skrýðir liljur vallarins. Jesús bætti því við að Guð muni gera jafnmikið eða meira fyrir okkur en þessar lífverur. Er þá nokkur ástæða til að vera áhyggjufullur? (5. Mósebók 32:10; Matteus 6:26-32; 10:29-31) Fyrra Pétursbréf 5:7 hvetur okkur til að ‚varpa allri áhyggju okkar á hann, því að hann beri umhyggju fyrir okkur.‘
„Ímynd veru hans“
12, 13. Hvernig getum við séð Jehóva og hlustað á hann auk þess sem sköpunarverkið og Biblían opinbera?
12 Við getum séð Jehóva Guð gegnum sköpunarverk hans; við getum séð hann með því að lesa um verk hans í Biblíunni og við getum líka séð hann í þeim orðum og athöfnum sem skráð eru úr ævi Jesú Krists. Jesús segir það sjálfur í Jóhannesi 12:45: „Sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.“ Aftur segir hann í Jóhannesi 14:9: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ Kólossubréfið 1:15 segir: „[Jesús] er ímynd hins ósýnilega Guðs.“ Hebreabréfið 1:3 lýsir yfir: „[Jesús], sem er ljómi dýrðar [Guðs] og ímynd veru hans.“
13 Jehóva sendi son sinn ekki aðeins til að greiða lausnargjald heldur einnig til að gefa fordæmi til eftirbreytni, bæði í orði og verki. Jesús talaði orð Guðs. Hann sagði í Jóhannesi 12:50: „Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.“ Hann gerði ekki það sem honum sýndist heldur það sem Guð sagði honum að gera. Í Jóhannesi 5:30 sagði hann: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér.“ — Jóhannes 6:38.
14. (a) Hvað kom Jesú til að finna til með fólki? (b) Hvers vegna hópaðist fólk að Jesú til að hlusta á hann?
14 Jesús sá fólk sem var holdsveikt, bæklað, heyrnarlaust, blint, haldið illum öndum og fólk sem syrgði látna ástvini. Fullur meðaumkunar læknaði hann sjúka og reisti upp dána. Hann sá mannfjöldann andlega hrjáðan og tvístraðan og tók að kenna honum margt. Hann kenndi ekki aðeins með réttum orðum heldur einnig með geðþekkum orðum frá hjartanu sem náðu beint til hjartna annarra, sem drógu þá til hans, sem fengu þá til að mæta snemma dags í musterið til að hlusta á hann, sem komu þeim til að elta hann og hlusta á hann með ánægju. Menn hópuðust til hans og lýstu yfir að ‚aldrei hefði nokkur maður talað þannig.‘ Þeir undruðust hvernig hann kenndi. (Jóhannes 7:46; Matteus 7:28, 29; Markús 11:18; 12:37; Lúkas 4:22; 19:48; 21:38) Og þegar óvinir hans reyndu að veiða hann með spurningum svaraði hann þannig að hann þaggaði niður í þeim. — Matteus 22:41-46; Markús 12:34; Lúkas 20:40.
15. Hvert var stefið í prédikun Jesú og í hvaða mæli lét hann aðra taka þátt í að útbreiða það?
15 Hann boðaði að ‚himnaríki væri í nánd‘ og hvatti áheyrendur sína til að ‚leita fyrst ríkis Guðs.‘ Hann sendi aðra út til að prédika að ‚himnaríki væri í nánd‘ og til að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum.‘ Þeir áttu að vera vottar Krists „allt til endimarka jarðarinnar.“ Núna feta næstum fjórar og hálf milljón votta Jehóva í fótspor hans og gera þetta. — Matteus 4:17; 6:33; 10:7; 28:19; Postulasagan 1:8.
16. Hvernig reyndi sérstaklega á kærleika Jehóva en hverju áorkaði sá kærleikur fyrir mannkynið?
16 „Guð er kærleikur,“ er okkur sagt í 1. Jóhannesarbréfi 4:8. Þessi áberandi eiginleiki hans var reyndur til hins ýtrasta þegar hann sendi eingetinn son sinn til jarðar til að deyja. Þær kvalir, sem þessi ástkæri sonur mátti þola, og áköllin, sem hann beindi til föður síns, hljóta að hafa valdið Jehóva miklum sársauka, jafnvel þótt Jesús hafi afsannað þá ásökun Satans að Jehóva gæti ekki haft menn á jörðinni sem sýndu óhagganlega ráðvendni gagnvart honum undir erfiðri prófraun. Við ættum líka að gera okkur grein fyrir hve mikil fórn Jesú var, því að Guð sendi hann hingað til að deyja fyrir okkur. (Jóhannes 3:16) Þetta var ekki skjótur og auðveldur dauðdagi. Við skulum skoða frásögn Biblíunnar af atburðinum til að gera okkur grein fyrir hvað þetta kostaði bæði Guð og Jesú og skynja þannig hve gríðarmikla fórn þeir færðu fyrir okkur.
17-19. Hvernig lýsti Jesús þeirri eldraun sem hann átti í vændum?
17 Að minnsta kosti fjórum sinnum lýsti Jesús fyrir postulum sínum hvað væri framundan. Aðeins fáeinum dögum áður en það gerðist sagði hann: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta.“ — Markús 10:33, 34.
18 Jesús var undir miklu álagi út af því sem var framundan fyrir hann. Hann vissi vel hve hryllileg húðstrýking Rómverja var. Leðurólarnar í hýðingarsvipunni voru með málmgöddum og sauðabeinum þannig að húðstrýkingin hafði í för með sér að bak og fótleggir urðu eitt blæðandi sár. Nokkrum mánuðum áður hafði Jesús gefið í skyn hvílíku tilfinningaálagi hin ókomna þrekraun ylli honum, og hann sagði eins og við lesum í Lúkasi 12:50: „Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.“
19 Álagið jókst því meir sem tíminn nálgaðist. Hann talaði um þetta við himneskan föður sinn: „Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu.“ (Jóhannes 12:27) Jehóva hlýtur að hafa verið snortinn af þessu ákalli eingetins sonar síns! Í Getsemanegarðinum, aðeins nokkrum klukkustundum fyrir dauða sinn, var Jesús sárkvalinn og sagði við Pétur, Jakob og Jóhannes: „Sál mín er hrygg allt til dauða.“ Nokkrum mínútum síðar bað hann síðustu bænar sinnar til Jehóva um þetta efni: „‚Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.‘ Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“ (Matteus 26:38; Lúkas 22:42, 44) Þetta kann að hafa verið það sem kallað er blóðsviti á máli læknisfræðinnar. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri en getur átt sér stað undir gífurlegu tilfinningaálagi.
20. Hvað hjálpaði Jesú að komast gegnum eldraunina?
20 Hebreabréfið 5:7 segir um þessa stund í Getsemanegarðinum: „Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ Í hvaða skilningi var Jesús bænheyrður úr því að sá sem „megnaði að frelsa hann frá dauða“ frelsaði hann ekki frá dauða? Lúkas 22:43 svarar: „Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.“ Bæninni var svarað á þann hátt að engillinn, sem Guð sendi, styrkti Jesú til að halda út eldraunina.
21. (a) Hvað sýnir að Jesús komst sigursæll gegnum eldraunina? (b) Hvað viljum við geta sagt þegar prófraunir okkar magnast?
21 Það er auðsætt af framhaldinu. Þegar innri barátta Jesú var afstaðin reis hann á fætur, fór aftur til Péturs, Jakobs og Jóhannesar og sagði: „Standið upp, förum!“ (Markús 14:42) Hann var í reynd að segja: ‚Við skulum fara þannig að hægt sé að svíka mig með kossi, láta margmenni taka mig til fanga, láta halda ólögleg réttarhöld yfir mér og dæma mig ranglega. Ég skal fara til að láta hæða mig, hrækja á mig, húðstrýkja og negla mig á kvalastaur.‘ Í sex klukkustundir hékk hann þar sárkvalinn og hélt út allt til enda. Um leið og hann dó hrópaði hann sigri hrósandi: „Það er fullkomnað.“ (Jóhannes 19:30) Hann hafði verið staðfastur og sannað ráðvendni sína í því að halda drottinvaldi Jehóva á lofti. Allt sem Jehóva hafði sent hann til jarðar til að gera hafði verið gert. Þegar við deyjum eða Harmagedón skellur á, munum við þá geta sagt um það verkefni sem við höfum fengið frá Jehóva: „Það er fullkomnað“?
22. Hvað sýnir í hvaða mæli þekkingin á Jehóva er útbreidd?
22 Undir öllum kringumstæðum getum við verið viss um að á tilsettum tíma Jehóva, sem nálgast ört, verði „jörðin . . . full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.
Manst þú?
◻ Hvað merkir það að þekkja og búa yfir þekkingu?
◻ Hvernig höfum við lært um miskunn Jehóva og fyrirgefningu í orði hans?
◻ Hvernig talaði Abraham með djörfung við Jehóva?
◻ Hvers vegna getum við séð eiginleika Jehóva endurspeglast í Jesú?