Hverjir eru þeir?
FLESTIR þekkja eitthvað til votta Jehóva. Margir hafa haft kynni af þeim sem nágrönnum og vinnufélögum eða á öðrum vettvangi hins daglega lífs. Menn hafa séð þá á götum úti bjóða vegfarendum tímarit sín eða átt við þá stutt samtöl í dyragættinni heima hjá sér.
Vottar Jehóva láta sig varða velferð annarra og vilja gjarnan stuðla að friði og skilningi milli manna. Þá langar til að upplýsa þig og aðra um hverjir þeir séu, um trú sína, starfsemi og afstöðu til mannlífsins og heimsins sem við búum öll í. Þeir hafa samið þennan bækling í þeim tilgangi.
Vottar Jehóva eru að flestu leyti eins og allir aðrir. Þeir geta eins og annað fólk þurft að glíma við fjárhagsleg, líkamleg og tilfinningaleg vandamál. Þeim verða á mistök; þeir eru hvorki fullkomnir eða óskeikulir né innblásnir af Guði. En þeir reyna að læra af reynslu sinni og þeir athuga Biblíuna rækilega til að sjá hvernig þeir geta lagfært það í lífi sínu sem þörf er á. Þeir hafa vígt sig Guði til að gera vilja hans og þeir reyna að standa við það vígsluheit. Þeir leitast við að láta orð Guðs og heilagan anda hans leiða sig í öllu sem þeir gera.
Það skiptir þá höfuðmáli að trú þeirra sé byggð á Biblíunni en ekki einungis á vangaveltum manna eða trúarsetningum. Þeir taka heilshugar undir orð Páls postula sem hann skrifaði undir innblæstri frá Guði: „Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari.“ (Rómverjabréfið 3:4, Biblían 1981a) Hvað snertir kenningar, sem sagðar eru biblíuleg sannindi, eru vottarnir eindregið fylgjandi þeirri aðferð sem íbúar Beroju beittu þegar þeir heyrðu Pál postula prédika: „Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“ (Postulasagan 17:11) Vottar Jehóva álíta að þannig skuli farið með allar trúarkenningar, þeirra jafnt sem annarra. Menn ættu að fullvissa sig um að kenningarnar séu í samræmi við Heilaga ritningu sem innblásin er af Guði. Vottarnir mæla eindregið með því að viðmælendur þeirra beiti þessari aðferð.
Af framansögðu má ljóst vera að vottar Jehóva trúa á Biblíuna sem orð Guðs. Þeir álíta hinar 66 bækur hennar vera innblásnar og sögulega nákvæmar. Það sem almennt kallast Nýja testamentið nefna þeir kristnu Grísku ritningarnar og Gamla testamentið kalla þeir Hebresku ritningarnar. Þeir treysta á hvort tveggja, Grísku og Hebresku ritningarnar, og taka þær bókstaflega nema þegar orðalagið eða sögusviðið gefur greinilega til kynna að það sé óeiginlegt eða táknrænt. Það er skilningur þeirra að margir spádómar Biblíunnar hafi þegar ræst, aðrir séu að uppfyllast og enn aðrir eigi eftir að rætast.
HEITI ÞEIRRA
Vottar Jehóva? Já, þeir kalla sig því nafni. Þetta heiti er lýsandi og gefur til kynna að þeir vitni um Jehóva, guðdóm hans og tilgang. „Guð“, „Drottinn“ og „skapari“ eru ávarpsorð á sama hátt og „forseti“, „konungur“ og „hershöfðingi“ og geta átt við allmargar og ólíkar persónur. „Jehóva“ er aftur á móti eiginnafn og vísar til hins alvalda Guðs og skapara alheimsins. Í biblíuútgáfunni frá 1908 segir í Sálmi 83:19: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Jahve, hinn hæsti yfir allri jörðunni.“
Nafnið Jehóva (eða Jahve sem sumir biblíuþýðendur og fræðimenn kjósa frekar að nota) kemur allt að 7000 sinnum fyrir í frumtexta Hebresku ritninganna. Flestar biblíuþýðingar sýna það þó ekki í þeirri mynd heldur setja í stað þess „Guð“ eða „Drottinn“. Íslenska biblían frá 1981 greinir frá þessari breytingu með fáeinum neðanmálsathugasemdum.b Allmargar nýlegar þýðingar nota annaðhvort nafnið Jehóva eða Jahve. Biblíuþýðingin New World Translation orðar því Jesaja 42:8 á þessa leið: „Ég er Jehóva. Það er nafn mitt.“
Ritningartextinn, sem vottar Jehóva sækja heiti sitt í, er í 43. kafla Jesaja. Þar er horft á veröldina eins og hún væri réttarsalur: Guðum þjóðanna er boðið að leiða fram votta sína og sanna þá fullyrðingu að málstaður þeirra sé réttmætur en að öðrum kosti hlýða á vitnisburð þeirra sem tala máli Jehóva og viðurkenna að þeir fari með sannleikann. Þar fær fólk Jehóva að heyra þessa yfirlýsingu frá honum: „Þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til. Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.“ — Jesaja 43:10, 11.
Jehóva Guð átti sér votta á jörðinni um þúsundir ára fyrir fæðingu Jesú. Í 11. kafla Hebreabréfsins eru taldir upp nokkrir þessara trúuðu manna og síðan segir í Hebreabréfinu 12:1: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ Jesús sagði frammi fyrir Pontíusi Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ Hann er nefndur „votturinn trúi og sanni“. (Jóhannes 18:37; Opinberunarbókin 3:14) Jesús sagði lærisveinum sínum: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ — Postulasagan 1:8.
Af þessum sökum finnst meira en 6.000.000 manna, sem nú á tímum kunngera fagnaðarerindið um ríki Jehóva í höndum Krists Jesú, að þeir geti með réttu kallað sig votta Jehóva.
[Neðanmáls]
a Nema annað sé tilgreint eru biblíutilvitnanir í þessum bæklingi teknar úr þessari biblíuútgáfu.
[Innskot á bls. 4]
Þeir hafa vígt sig Guði til að gera vilja hans.
[Innskot á bls. 4]
Þeir trúa því að Biblían sé orð Guðs.
[Innskot á bls. 5]
Heiti þeirra hefur vísun í nokkurs konar réttarhöld.
[Innskot á bls. 5]
Vottarnir eru um 6.000.000 í rúmlega 230 löndum.
[Mynd á bls. 3]
Þeir láta sér annt um fólk.
[Mynd á bls. 4]
Eiginnafn Guðs á fornhebresku.