7. kafli
Snúið aftur og tilbiðjið Jehóva
1. Hvað heita aðalguðir Babýlonar og hverju er spáð um þá?
ÍSRAELSMENN verða umkringdir falsguðadýrkun í útlegðinni í Babýlon. Vígð þjóð Jehóva býr enn í landi sínu á dögum Jesaja og á sér musteri og prestastétt. En margir hafa leiðst út í skurðgoðadýrkun. Það er því mikilvægt að undirbúa þá svo að þeir fyllist ekki óttablandinni lotningu fyrir falsguðum Babýlonar eða freistist til að dýrka þá. Jesaja talar spádómlega til tveggja aðalguða Babýlonar og segir: „Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.“ (Jesaja 46:1) Bel er æðsti guð Kaldea en Nebó er dýrkaður sem guð visku og þekkingar. Virðingin, sem margir bera fyrir guðunum tveim, endurspeglast í því að nöfn þeirra eru algeng í mannanöfnum Babýloníumanna, svo sem Belsasar, Nabópólassar, Nebúkadnesar og Nebúsaradan.
2. Hvernig er bent á vanmátt guðanna í Babýlon?
2 Jesaja segir að Bel sé „hokinn“ og Nebó „boginn.“ Falsguðirnir munu falla. Þeir geta ekki komið dýrkendum sínum til hjálpar þegar Jehóva fullnægir dómi yfir Babýlon. Þeir geta ekki einu sinni bjargað sjálfum sér! Bel og Nebó verða ekki lengur bornir um í virðulegri skrúðgöngu eins og venja var á nýárshátíð Babýloníumanna heldur fluttir á kerrum eins og hver annar farangur. Lofið og aðdáunin víkur fyrir háði og fyrirlitningu.
3. (a) Hvað verður áfall fyrir Babýloníumenn? (b) Hvaða lærdóm má draga af örlögum guðanna í Babýlon?
3 Það er ekki lítið áfall fyrir Babýloníumenn að uppgötva að skurðgoðin, sem þeir dáðu svo mjög, eru ekki annað en byrði fyrir lúin vinnudýr. Falsguðir nútímans — það sem fólk treystir á, eyðir kröftum sínum í og leggur jafnvel lífið í sölurnar fyrir — eru blekking. Menn dýrka peninga, hergögn, nautnalíf, valdhafa, föðurlandið eða föðurlandstákn og margt annað. En í fyllingu tímans kemur í ljós að þessir guðir eru ekki neitt. — Daníel 11:38; Matteus 6:24; Postulasagan 12:22; Filippíbréfið 3:19; Kólossubréfið 3:5; Opinberunarbókin 13:14, 15.
4. Í hvaða skilningi eru guðir Babýlonar „bæði bognir og hoknir“?
4 Spádómurinn heldur áfram og dregur enn skýrar fram hve vitagagnslausir guðir Babýlonar eru: „Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.“ (Jesaja 46:2) Guðir Babýlonar virðast „bognir og hoknir“ eins og þeir séu sárir eftir bardaga eða útslitnir af elli. Þeir geta ekki einu sinni frelsað dýrin, sem bera þau, undan byrðum þeirra. Ætti sáttmálaþjóð Jehóva þá að heiðra þessa guði á einhvern hátt meðan hún er ánauðug í Babýlon? Síður en svo. Smurðir þjónar Jehóva heiðruðu ekki heldur falsguði ‚Babýlonar hinnar miklu‘ meðan þeir voru í andlegri ánauð, enda gátu þessir guðir ekki komið í veg fyrir að hún félli árið 1919. Þeir geta ekki heldur forðað henni frá ógæfunni sem kemur yfir hana í ‚þrengingunni miklu.‘ — Opinberunarbókin 18:2, 21; Matteus 24:21.
5. Hvernig forðast kristnir menn að gera sömu mistök og skurðgoðadýrkendurnir í Babýlon?
5 Sannkristnir menn beygja sig ekki fyrir neins konar skurðgoðum. (1. Jóhannesarbréf 5:21) Róðukrossar, talnabönd og dýrlingamyndir auðvelda hvorki aðgang að skaparanum né tala máli okkar við hann. Jesús kenndi fylgjendum sínum á fyrstu öld að biðja til Guðs á réttan hátt og sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.“ — Jóhannes 14:6, 14.
„Borið allt í frá móðurlífi“
6. Að hvaða leyti er Jehóva ólíkur guðum þjóðanna?
6 Eftir að hafa sýnt fram á hve tilgangslaust það sé að dýrka skurðgoð Babýlonar segir Jehóva þjóð sinni: „Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi.“ (Jesaja 46:3) Hvílíkur munur á Jehóva og útskornum líkneskjum Babýlonar! Þau geta ekkert gert fyrir dýrkendur sína. Þau komast ekki stað úr stað nema á burðardýri. En Jehóva hefur borið þjóð sína. Hann hefur haldið henni uppi „frá móðurlífi,“ frá því að hún varð til. Hlýjar minningar um þetta ættu að hvetja þjóðina til að koma ekki nálægt skurðgoðadýrkun heldur treysta á hann sem föður og vin.
7. Hvernig er umhyggja Jehóva fyrir tilbiðjendum sínum í samanburði við umhyggju mennskra foreldra fyrir börnum sínum?
7 Jehóva heldur áfram að tala blíðlega til þjóna sinna: „Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.“ (Jesaja 46:4) Jehóva er umhyggjusamari en nokkurt foreldri. Þegar börnin vaxa úr grasi dregur oft úr ábyrgðartilfinningu foreldranna. Og þegar foreldrarnir eldast snýst dæmið oft við og börnin hugsa um þá. En það gerist ekki hjá Jehóva. Hann hættir aldrei að annast mennsk börn sín — ekki einu sinni þegar þau komast á elliárin. Tilbiðjendur Guðs elska hann og treysta honum og þeim þykir spádómur Jesaja mjög hughreystandi. Þeir þurfa ekki að kvíða komandi dögum eða árum sem þeir verða að eyða í þessu heimskerfi. Jehóva lofar að „bera“ þá sem orðnir eru aldraðir og veita þeim þann styrk sem þeir þurfa til að halda út og vera trúfastir. Hann mun annast þá, styrkja og frelsa. — Hebreabréfið 6:10.
Varist skurðgoð nútímans
8. Hvaða óafsakanlegar syndir hafa sumir samlandar Jesaja drýgt?
8 Hugsaðu þér vonbrigði Babýloníumanna þegar þeir uppgötva að skurðgoðin, sem þeir treystu á, eru algerlega gagnslaus. Ættu Ísraelsmenn að ímynda sér að þessir guðir jafnist á við Jehóva? Auðvitað ekki. Jehóva spyr því réttilega: „Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?“ (Jesaja 46:5) Það er algerlega óafsakanlegt að sumir af samlöndum Jesaja skuli vera farnir að dýrka mállausar, lífvana og vanmátta styttur! Það er hrein heimska af hálfu þjóðar, sem þekkir Jehóva, að reiða sig á lífvana og varnarlaus líkneski gerð af mannahöndum.
9. Lýstu heimskulegum hugsunarhætti sumra skurðgoðadýrkenda.
9 Skurðgoðadýrkendurnir hugsa ekki mjög skynsamlega. Spádómurinn heldur áfram: „Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram.“ (Jesaja 46:6) Dýrkendurnir leggja mikið fé í smíði guðdómsins, rétt eins og dýrt skurðgoð sé máttugra en skurðgoð úr tré. En það skiptir ekki máli hve mikil vinna er lögð í skurðgoðið og hversu dýr efni eru notuð — það er eftir sem áður lífvana skurðgoð og ekkert annað.
10. Hvernig er sýnt fram á að skurðgoðadýrkun sé algerlega til einskis?
10 Spádómurinn færir enn sterkari rök fyrir því að skurðgoðadýrkun sé heimskuleg: „Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.“ (Jesaja 46:7) Það er fáránlegt að biðja til líkneskis sem hvorki heyrir né getur gert nokkurn skapaðan hlut! Sálmaritarinn lýsir því ágætlega hve gagnslítil slík hlutadýrkun er: „Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna. Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki, þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef. Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum. Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.“ — Sálmur 115:4-8.
„Herðið upp hugann“
11. Hvað getur hjálpað þeim sem eru tvístígandi að ‚herða upp hugann‘?
11 Eftir að Jehóva hefur sýnt fram á hve tilgangslaust það sé að dýrka skurðgoð bendir hann þjóð sinni á gildar ástæður til að þjóna sér: „Minnist þessa og látið yður segjast [„herðið upp hugann,“ NW], leggið það á hjarta, þér trúrofar. Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.“ (Jesaja 46:8, 9) Þeir sem tvístíga milli sannrar tilbeiðslu og skurðgoðadýrkunar ættu að minnast liðinnar sögu. Þeir ættu að hafa hugfast hvað Jehóva hefur gert. Það myndi gefa þeim hugrekki til að gera það sem rétt er. Það myndi hjálpa þeim að snúa sér aftur til Jehóva og tilbiðja hann.
12, 13. Í hvaða baráttu eiga kristnir menn og hvernig geta þeir gengið með sigur af hólmi?
12 Þessi hvatning er enn í fullu gildi. Sannkristnir menn eiga í baráttu við freistingar og eigin ófullkomleika, líkt og Ísraelsmenn. (Rómverjabréfið 7:21-24) Að auki eiga þeir í andlegu stríði við ósýnilegan en geysivoldugan óvin. Páll postuli segir: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ — Efesusbréfið 6:12.
13 Satan og illir andar hans reyna allar leiðir til að beina kristnum mönnum út af vegi sannrar tilbeiðslu. Ætli kristinn maður að berjast til sigurs þarf hann að fylgja ráðum Jehóva og herða upp hugann. Hvernig þá? Páll postuli svarar: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ Jehóva sendir ekki þjóna sína illa búna í bardaga. Meðal hinna andlegu herklæða er ‚skjöldur trúarinnar sem þeir geta slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.‘ (Efesusbréfið 6:11, 16) Ísraelsmenn syndguðu af því að þeir virtu einskis það sem Jehóva hafði gert til að styrkja þá andlega. Ef þeir hefðu ígrundað hin mörgu máttarverk hans í þeirra þágu hefðu þeir aldrei farið út í fyrirlitlega skurðgoðadýrkun. Lærum af dæmi þeirra og verum staðráðin í að hika aldrei í baráttunni að gera það sem rétt er. — 1. Korintubréf 10:11.
14. Hvað bendir Jehóva á til að sýna fram á að hann sé hinn eini sanni Guð?
14 Jehóva heldur áfram: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ (Jesaja 46:10) Hvaða guð jafnast á við Jehóva að þessu leyti? Það að skaparinn skuli geta sagt framtíðina fyrir sannar guðdóm hans. En það þarf meira en spádómsgáfu til að búa svo um hnútana að það rætist sem spáð er. Yfirlýsingin: „Mín ráðsályktun stendur stöðug,“ leggur áherslu á að ásetningur Guðs sé óbreytanlegur. Jehóva er óendanlega máttugur svo að ekkert í alheiminum getur hindrað hann í að gera það sem hann ætlar sér. (Daníel 4:35) Við getum því verið örugg um að þeir spádómar, sem hafa ekki ræst enn þá, geri það í fyllingu tímans. — Jesaja 55:11.
15. Á hvaða sláandi dæmi er bent sem sýnir að Jehóva getur sagt framtíðina fyrir?
15 Spádómur Jesaja bendir nú á sláandi dæmi um að Jehóva geti sagt fyrir ókomna atburði og látið þá koma fram: „Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.“ (Jesaja 46:11) Jehóva „kunngjörði endalokin frá öndverðu“ og hefur þau áhrif á gang mála meðal manna að fyrirætlun hans nær fram að ganga. Hann kallar Kýrus „úr austurátt“ frá Persíu en þar á Pasargað, uppáhaldshöfuðborg hans, eftir að standa. Kýrus verður eins og „örninn“ sem steypir sér skyndilega og óvænt yfir Babýlon.
16. Hvernig staðfestir Jehóva spádóm sinn um Babýlon?
16 Orðin: „Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma,“ staðfesta að spá Jehóva um Babýlon er örugg. Ófullkomnum mönnum hættir til að gefa hvatvísleg loforð en skaparinn stendur alltaf við orð sín. Jehóva Guð ‚lýgur ekki‘ svo að við getum treyst að hann „gjöri“ það sem hann ‚ásetur sér.‘ — Títusarbréfið 1:2.
Trúlaus hjörtu
17, 18. Hverjir eru réttilega kallaðir ‚harðsvíraðir‘ (a) til forna? (b) nú á dögum?
17 Aftur beinir Jehóva spádómsorðum sínum að Babýloníumönnum: „Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu!“ (Jesaja 46:12) Orðið ‚harðsvíraður‘ lýsir mönnum sem eru þrjóskir og forhertir í andstöðu við vilja Guðs. Babýloníumenn eru ákaflega fjarlægir Guði. Sökum haturs á honum og þjóð hans eyða þeir Jerúsalem og musterinu og flytja íbúana í útlegð.
18 Efunar- og vantrúarmenn neita þrákelknislega að hlusta á boðskapinn um ríkið sem er boðaður um allan heim núna. (Matteus 24:14) Þeir vilja ekki viðurkenna Jehóva sem réttmætan Drottin. (Sálmur 83:19; Opinberunarbókin 4:11) Þeir eru „fjarlægir réttlætinu“ og sporna gegn vilja Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þeir neita að hlusta á hann líkt og Babýloníumenn.
Hjálpræði Guðs dregst ekki
19. Hvernig vinnur Jehóva réttlætisverk í þágu Ísraels?
19 Lokaorðin í 46. kafla Jesajabókar minna á ákveðinn þátt í persónuleika Jehóva: „Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.“ (Jesaja 46:13) Það er réttlætisverk af hálfu Guðs að frelsa Ísrael. Hann lætur þjóð sína ekki vera í útlegð til langframa. Hjálp Síonar kemur á réttum tíma, hún „skal ekki dvelja.“ Ísraelsmenn skulu vekja athygli þjóðanna umhverfis eftir að þeir hafa verið leystir úr ánauð. Frelsun þeirra verður til vitnis um mátt Jehóva. Bel og Nebó, guðir Babýlonar, standa afhjúpaðir svo að allir sjá að þeir eru gagns- og getulausir. — 1. Konungabók 18:39, 40.
20. Hvers vegna geta kristnir menn treyst að ‚hjálp Jehóva dvelji ekki‘?
20 Jehóva leysti fólk sitt úr andlegri ánauð árið 1919. Hjálp hans dróst ekki. Bæði það og frelsun fortíðar, þegar Babýlon féll í hendur Kýrusi, er hvetjandi fyrir okkur. Jehóva hefur lofað að afmá þetta illa heimskerfi ásamt falsguðadýrkun þess. (Opinberunarbókin 19:1, 2, 17-21) Kristnum mönnum getur fundist sem hjálpræðið hafi dregist á langinn, ef þeir horfa á málið frá mannlegum bæjardyrum. En það er í rauninni réttlætisverk af hálfu Jehóva að bíða þolinmóður uns tíminn kemur til að uppfylla fyrirheitið. Sannleikurinn er sá að hann „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Þú mátt því treysta að ‚hjálp Guðs dvelur ekki‘ frekar en á dögum Ísraels. Hjálpræðisdagurinn nálgast jafnt og þétt en Jehóva heldur áfram að bjóða fólki að koma til sín: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:6, 7.
[Myndir á blaðsíðu 94]
Guðir Babýlonar forða henni ekki frá eyðingu.
[Myndir á blaðsíðu 98]
Kristnir menn verða að gæta sín á skurðgoðum nútímans.
[Myndir á blaðsíðu 101]
Hertu upp hugann til að gera það sem rétt er.