Hafðu gagn af kennslu Guðs
„Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt.“ — JESAJA 48:17.
1. Hvernig mun okkur vegna ef við förum eftir kennslu Guðs í lífi okkar?
JEHÓVA GUÐ veit hvað er okkur fyrir bestu. Enginn er honum fremri í hugsun, orði eða verki. Sem skapara okkar er honum kunnugt um þarfir okkar og fullnægir þeim ríkulega. Hann kann sannarlega að fræða okkur. Og ef við förum eftir kennslu Guðs höfum við sjálf gagn af og njótum sannrar hamingju.
2, 3. (a) Hvernig hefði þjóð Guðs til forna unnið sjálfri sér gagn með því að hlýða boðorðum hans? (b) Hvað gerist ef við förum eftir kennslu Guðs í lífi okkar nú á tímum?
2 Kennsla Guðs endurspeglar innilega löngun hans að sjá þjóna sína forðast ógæfu og hafa ánægju af lífinu með því að fylgja lögum hans og meginreglum. Ef þjóð Jehóva til forna hefði hlustað á hann hefði hún notið ríkulegrar blessunar því að hann hafði sagt henni: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.
3 Þjóð Guðs til forna hefði unnið sjálfri sér gagn með því að gefa gaum að boðorðum hans og fyrirmælum. Í stað þess að verða fyrir ógæfu af hendi Babýloníumanna hefði hún notið friðar og velsældar á við djúpt fljót sem er vatnsmikið árið um kring. Réttlætisverk hennar hefðu auk þess verið jafnóteljandi og bylgjur sjávarins. Eins er það ef við förum eftir kennslu Guðs í lífi okkar; þá getum við notið hins margvíslega gagns sem hlýst af henni. Hvaða gagn er það?
Hún breytir lífi manna
4. Hvernig hefur kennsla Guðs haft áhrif á líf margra?
4 Kennsla Guðs hefur gert mörgum gagn með því að breyta lífi þeirra til batnaðar. Þeir sem fara eftir fræðslu Jehóva láta af ‚holdsins verkum,‘ svo sem saurlífi, skurðgoðadýrkun, spíritisma, deilum og öfund. Í staðinn sýna þeir af sér ávöxt andans sem er kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:19-23) Þeir taka líka ráðleggingum Páls í Efesusbréfinu 4:17-24 þar sem hann hvatti trúbræður sína til að framganga ekki eins og þjóðirnar; hugsun þeirra væri allslaus, hugur þeirra myrkvaður og þeir væru fjarlægir lífi Guðs. Þeir sem líkjast Kristi láta ekki skynlaust hjarta leiða sig heldur hafa þeir ‚hætt sinni fyrri breytni og afklæðst hinum gamla manni og endurnýjast í aflvaka huga síns.‘ Þeir ‚íklæðast hinum nýja persónuleika sem er skapaður eftir vilja Guðs í sönnu réttlæti og hollustu.‘
5. Hvernig hefur kennsla Guðs áhrif á framgöngu fólks?
5 Einn ávinningur þess að fara eftir kennslu Guðs er sá að hún sýnir fólki hvernig það eigi að ganga með Guði. Ef við göngum með Jehóva eins og Nói gerði, þá fylgjum við lífsstefnu sem okkar mikli fræðari hefur lagt drög að. (1. Mósebók 6:9; Jesaja 30:20, 21) En ‚hugsun manna af þjóðunum er allslaus‘ eins og Páll sagði. Og skrif sprottin frá hugum sumra eru svo sannarlega innantóm. Maður, sem virti fyrir sér áletrun á vegg í Pompeii, skrifaði sjálfur: „Það er undur að þú, ó veggur, skulir enn ekki hafa molnað undan þunga svona mikils þvaðurs.“ En það er ekkert þvaður í ‚kenningu Jehóva‘ og prédikuninni um Guðsríki sem hún gerir mögulega. (Postulasagan 13:12) Með þessu starfi er vitinu komið fyrir sannleiksunnandi fólk. Því er kennt að hætta að ganga eftir sinni syndugu braut, fáfrótt um tilgang Guðs. Það býr ekki lengur við myrkur í huga sér og lætur ekki skynlaust hjarta, sem sækist eftir gagnslausum markmiðum, knýja sig til verka.
6. Hvaða samband er milli hlýðni okkar við kennslu Jehóva og hamingju okkar?
6 Kennsla Guðs er okkur líka gagnleg á þann hátt að hún lætur okkur kynnast Jehóva og samskiptum hans við mennina. Slík þekking færir okkur nær Guði, glæðir kærleika okkar til hans og eykur löngun okkar til að hlýða honum. Fyrsta Jóhannesarbréf 5:3 segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ Við fylgjum líka boðorðum Jesú vegna þess að við vitum að kenning hans er frá Guði. (Jóhannes 7:16-18) Slík hlýðni verndar okkur fyrir andlegu tjóni og stuðlar að hamingju okkar.
Raunverulegur tilgangur í lífinu
7, 8. (a) Hvernig eigum við að skilja Sálm 90:12? (b) Hvernig getum við öðlast viturt hjarta?
7 Kennsla Jehóva er gagnleg á þann hátt að hún sýnir okkur hvernig við eigum að nota líf okkar þannig að það hafi tilgang. Reyndar sýnir kennsla Guðs okkur hvernig við eigum að telja ævidaga okkar á sérstakan hátt. Sjötíu ára lífslíkur gefa fyrirheit um 25.550 ævidaga alls. Fimmtugur maður er búinn að eyða 18.250 þeirra og þeir 7300 dagar, sem hann vonast til að eiga eftir, virðast sannarlega fáir. Einkum þá gerir hann sér kannski gleggri grein fyrir því hvers vegna spámaðurinn Móse bað til Guðs í Sálmi 90:12: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ En hvað átti Móse við með því?
8 Móse átti ekki við það að Guð opinberaði nákvæmlega hve langa ævi hver Ísraelsmaður myndi eiga í dögum talið. Samkvæmt Sálmi 90, versi 9 og 10 gerði þessi hebreski spámaður sér ljóst að ævin gæti verið um 70 eða 80 ár — svo sannarlega stutt. Orðin í Sálmi 90:12 voru því greinilega eins konar bæn Móse um að Jehóva sýndi eða kenndi honum og þjóð hans að sýna visku í því að ‚telja daga sína‘ og nota þá á þann hátt sem Guð hefði velþóknun á. En hvað þá um okkur? Erum við þakklát fyrir hvern dýrmætan dag? Öðlumst við viturt hjarta með því að leitast við að nota hvern dag á verðugan hátt til dýrðar okkar mikla fræðara, Jehóva Guði? Kennsla Guðs hjálpar okkur að gera það.
9. Hvers má vænta ef við lærum að telja daga okkar Jehóva til dýrðar?
9 Ef við lærum að telja daga okkar, Jehóva til dýrðar, getum við kannski haldið áfram að telja því að kennsla Guðs veitir þekkingu til eilífs lífs. „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Að sjálfsögðu veitti það okkur ekki eilíft líf þótt við öfluðum okkur allrar veraldlegrar þekkingar sem völ er á. En við getum hlotið eilíft líf ef við öflum okkur og notum nákvæma þekkingu á tveim þýðingarmestu persónum alheimsins og iðkum trú í raun og veru.
10. Hvað segir alfræðibók um menntun og hvernig samrýmist það ávinningnum af kennslu Guðs?
10 Óháð því hve lengi við höfum þegar lifað skulum við muna eftir þessum merka ávinningi sem hlýst af kennslu Guðs: Hún gefur þeim sem fara eftir henni raunverulegan tilgang í lífinu. The World Book Encyclopedia segir: „Menntun ætti að hjálpa fólki að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Hún ætti líka að hjálpa því að byggja upp jákvætt mat á menningararfleifð sinni og njóta meiri lífsfyllingar.“ Kennsla Guðs er gagnleg með því að hjálpa okkur að njóta lífsfyllingar. Hún hjálpar okkur að meta andlega arfleifð okkar sem fólks Guðs mjög mikils. Og hún gerir okkur svo sannarlega að nýtum þjóðfélagsþegnum því að hún gerir okkur kleift að gegna veigamiklu hlutverki í því að fullnægja þörfum fólks um heim allan. Hvers vegna er hægt að segja það?
Kennsluáætlun um heim allan
11. Hvernig lagði Thomas Jefferson áherslu á nauðsyn fullnægjandi menntunar?
11 Kennsla Guðs fullnægir menntaþörf manna betur en nokkur önnur fræðsluáætlun. Thomas Jefferson, sem varð þriðji forseti Bandaríkjanna, benti á nauðsyn þess að kenna fólki. Í bréfi dagsettu þann 13. ágúst 1786 til George Wythe, sem var vinur hans og einn þeirra sem undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna, skrifaði Jefferson: „Ég tel að lögin um útbreiðslu þekkingar meðal fólksins séu langþýðingarmestu lögin í lagasafni voru. Engan annan öruggan grundvöll er hægt að hugsa sér til varðveislu frelsis og hamingju. . . . Skerðu, minn háttvirti herra, upp herör gegn fáfræði; komdu á og bættu lögin um menntun almennings. Láttu samlanda okkar vita . . . að skatturinn, sem greiddur verður í þessum tilgangi [til menntamála] er ekki nema þúsundasti hluti þess sem greitt verður konungum, prestum og aðalsmönnum sem rísa munu upp á meðal vor ef vér látum fólkið eiga sig í fáfræði sinni.“
12. Hvers vegna er hægt að segja að kennsla Guðs sé árangursríkasta og gagnlegasta fræðsluáætlunin um allan heim?
12 Kennsla Jehóva lætur réttsinnað fólk alls ekki eiga sig í fáfræði. Hún sér fyrir bestu fræðsluáætlun um allan heim því til gagns. Meðan síðari heimsstyrjöldin var enn í algleymingi fyrir 50 árum sá bandarísk nefnd um enduruppbyggingu menntunar brennandi þörf á „fræðslu um allan heim.“ Þessi þörf er enn fyrir hendi, en það er aðeins ein heimsfræðsluáætlun sem hefur náð árangri — kennsla Guðs. Hún er líka gagnlegust af því að hún reisir fólk upp úr örvæntingu, lyftir því upp siðferðilega og andlega, bjargar því undan drambi og fordómum heimsins og veitir því þekkingu til eilífs lífs. Framar öllu öðru kemur þessi fræðsluáætlun fólki að gagni alls staðar af því að hún kennir því að þjóna fræðaranum mikla, Jehóva Guði.
13. Hvernig uppfyllist Jesaja 2:2-4 nú á dögum?
13 Mikill fjöldi fólks, sem er núna að verða þjónar Guðs, hefur gagn af kennslu hans. Það er sér meðvitandi um andlega þörf sína og veit að dagur Jehóva er nærri. (Matteus 5:3; 1. Þessaloníkubréf 5:1-6) Núna, „á hinum síðustu dögum,“ streymir þetta fólk af öllum þjóðum til fjalls Jehóva, hinnar hreinu tilbeiðslu á honum. Hún er tryggilega grundvölluð og hátt upp hafin yfir hverja þá tilbeiðslu sem er andstæð vilja Guðs. (Jesaja 2:2-4) Ef þú ert vígður vottur Jehóva, ert þú ekki glaður yfir því að vera meðal þess sívaxandi fjölda sem tilbiður Guð og hefur gagn af kennslu hans? Það er stórkostlegt að vera meðal þeirra sem hrópa: „Lofið Jah, þið lýðir!“ — Sálmur 150:6, NW.
Gagnleg áhrif á hugarfar okkar
14. Hvaða ávinningur er af því að fylgja ráðleggingu Páls í 1. Korintubréf 14:20?
14 Meðal hins margvíslega gagns, sem fylgir kennslu Guðs, er hin góðu áhrif sem hún getur haft á hugsun okkar og hugarfar. Hún kemur okkur til að hugsa um það sem er rétt, hreint, göfugt og lofsvert. (Filippíbréfið 4:8) Kennsla Jehóva hjálpar okkur að fylgja ráðleggingu Páls: „Verið . . . sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Ef við förum eftir þessari hvatningu sækjumst við ekki eftir þekkingu á hinu illa. Páll skrifaði líka: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Efesusbréfið 4:31) Að fara eftir slíkum ráðleggingum hjálpar okkur að forðast siðleysi og aðrar grófar syndir. Þetta getur bæði verið gagnlegt líkamlega og andlega en sérstaklega veitir það okkur þá gleði að vita að við þóknumst Guði.
15. Hvað getur hjálpað okkur að halda áfram að vera dyggðug í hugsun?
15 Ef við eigum að halda okkur dyggðugum í hugsun er okkur hjálp í því að forðast ‚vondan félagsskap sem spillir góðum siðum.‘ (1. Korintubréf 15:33) Sem kristnir menn umgöngumst við ekki hórdómsmenn, frillulífismenn eða aðra misgerðamenn. Það er því rökrétt að við megum ekki hafa félagsskap við slíka einstaklinga með því að lesa um þá okkur til holdlegrar ánægju, eða með því að horfa á þá í sjónvarpi eða kvikmyndahúsi. Hjartað er svikult, það getur hæglega fengið löngun í það sem illt er og getur freistast til að gera það. (Jeremía 17:9) Við skulum því forðast slíkar freistingar með því að halda okkur við kennslu Guðs. Hún getur haft svo gagnleg áhrif á hugsun þeirra sem ‚elska Jehóva‘ að þeir ‚hati hið illa.‘ — Sálmur 97:10, NW.
16. Hvernig getur kennsla Guðs haft áhrif á hugarfar okkar?
16 Páll sagði samverkamanni sínum, Tímóteusi: „Drottinn sé með þínum anda. Náð sé með yður.“ (2. Tímóteusarbréf 4:22) Postulinn þráði að Guð hefði fyrir milligöngu Drottins Jesú Krists velþóknun á þeim aflvaka sem hvatti Tímóteus og aðra kristna menn til verka. Kennsla Guðs hjálpar okkur að vera kærleiksrík, góðviljuð og mild. (Kólossubréfið 3:9-14) Og það er sannarlega ólíkt hugarfari margra núna á þessum síðustu dögum! Þeir eru hrokafullir, vanþakklátir, kærleikslausir, ósáttfúsir, framhleypnir, skemmtanasjúkir og gersneyddir sannri guðrækni. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þegar við höldum áfram að njóta gagns af kennslu Guðs í lífi okkar sýnum við hins vegar hugarfar sem gerir okkur ástfólgin Guði og mönnum.
Gagnleg í mannlegum samskiptum
17. Hvers vegna er auðmjúk samvinna mikilvæg?
17 Kennsla Jehóva hjálpar okkur að sjá ávinninginn af auðmjúkri samvinnu við trúbræður okkar. (Sálmur 138:6) Ólíkt mörgum nú á tímum brjótum við ekki gegn réttlátum meginreglum heldur erum sáttfús. Til dæmis hlýst margt gott af því að hinir útnefndu umsjónarmenn séu samlyndir á öldungafundum. Þeir geta talað með stillingu í þágu sannleikans án þess að leyfa tilfinningum að skyggja á rökhugsun eða valda óeiningu. Allir meðlimir safnaðarins njóta góðs af einingaranda okkar ef við höldum öll áfram að fara eftir kennslu Guðs. — Sálmur 133:1-3.
18. Hvaða viðhorf hjálpar kennsla Guðs okkur að hafa til trúbræðra okkar?
18 Kennsla Guðs er líka gagnleg í því að hjálpa okkur að hafa rétt viðhorf til trúbræðra okkar. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Einkum frá 1919 hefur Jehóva látið þjóna sína boða dóma sína og heimskerfi Satans hefur skolfið og nötrað undan þessari viðvörun um heim allan. Um leið hefur Guð dregið guðhrædda menn — „gersemar“ — til að aðgreina sig frá þjóðunum og taka þátt með smurðum kristnum mönnum í að fylla tilbeiðsluhús Jehóva dýrð. (Haggaí 2:7) Við ættum sannarlega að líta á slíkar gersemar, er Guð dregur til sín, sem ástkæra félaga.
19. Hvað opinberar kennsla Guðs um það að útkljá persónuleg ágreiningsmál milli trúbræðra?
19 Vegna þess að við erum öll ófullkomin ganga hlutirnir ekki alltaf snurðulaust fyrir sig. Þegar Páll var í þann mund að leggja af stað í aðra trúboðsferð sína var Barnabas ákveðinn í að taka Markús með. Páll var ekki sáttur við það vegna þess að Markús hafði „skilið . . . við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.“ Þetta varð til þess að ‚þeim varð mjög sundurorða.‘ Barnabas tók Markús með sér til Kýpur en Páll fékk Sílas til að fara með sér um Sýrland og Kilikíu. (Postulasagan 15:36-41) Síðar greri greinilega um heilt með þeim því að Markús var með Páli í Róm og postulinn lauk lofsorði á hann. (Kólossubréfið 4:10) Einn ávinningurinn af kennslu Guðs er sá að hún sýnir okkur hvernig eigi að útkljá persónuleg ágreiningsmál milli kristinna manna með því að fylgja ráðum eins og þeim sem Jesús gaf í Matteusi 5:23, 24 og Matteusi 18:15-17.
Ávallt gagnleg og sigursæl
20, 21. Hvað ætti umfjöllun okkar um kennslu Guðs að fá okkur til að gera?
20 Jafnvel þessi stutta umfjöllun okkar um gagnið af kennslu Guðs og suma þá sigra sem hún vinnur hefur vafalaust sýnt okkur öllum að við þurfum að halda ótrauð áfram að fylgja henni í lífi okkar. Við skulum því með bænarhug halda áfram að læra af okkar mikla fræðara. Bráðlega hrósar kennsla Guðs sigri sem aldrei fyrr. Hún hrósar sigri þegar vitsmunamenn þessa heims hafa dregið andann í síðasta sinn. (Samanber 1. Korintubréf 1:19.) Enn fremur mun þekkingin á Jehóva fylla jörðina eins og djúp sjávarins er vötnum hulið þegar milljónir manna í viðbót læra og gera vilja Guðs. (Jesaja 11:9) Þetta verður hlýðnu mannkyni sannarlega til mikils gagns og upphefur Jehóva á stórkostlegan hátt sem drottinvald alheimsins!
21 Kennsla Guðs mun alltaf reynast gagnleg og hrósa sigri. Munt þú halda áfram að njóta góðs af henni sem ákafur nemandi hinnar miklu kennslubókar Guðs? Lifir þú í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar og segir öðrum frá sannleika hennar? Ef svo er getur þú hlakkað til fulls sigurs kennslunnar frá Guði, til dýrðar okkar mikla fræðara, alvöldum Drottni Jehóva.
Hvað hefur þú lært?
◻ Hvaða áhrif getur kennsla Guðs haft á líf okkar?
◻ Hvernig mætir kennsla Guðs menntaþörf?
◻ Hvaða gagnleg áhrif getur kennsla Guðs haft á hugsun okkar og viðhorf?
◻ Hvernig reynist kennsla Guðs gagnleg í mannlegum samskiptum?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Kennsla Guðs sýnir okkur hvernig eigi að ganga með Guði eins og Nói gerði.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Fólk af öllum þjóðum streymir til fjalls Jehóva.