Munt þú segja: „Hér er ég, send þú mig“?
„[Jehóva] sagði: ‚Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?‘ Og ég sagði: ‚Hér er ég, send þú mig!‘“ — JESAJA 6:8.
1, 2. Hvaða sérstakrar ánægju urðu hjón nokkur aðnjótandi?
„VIÐ fögnum því að skýra ykkur frá að við erum fús til að fara til Kólombíu. Við höfum notið þjónustu okkar hér í Ekvador miklu meira en þessi ritvél getur lýst.“ Þannig hljóðuðu fyrstu málsgreinarnar í bréfi tveggja votta Jehóva sem höfðu farið til Ekvador, en þar var verið að reisa nýja deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins.
2 En þessir þjónar orðsins fóru ekki til Ekvador aðeins til að hjálpa við að byggja hús; þeir gátu líka hjálpað sem kristnir kennarar. Þeir segja: „Það hefur verið reynsla okkar að þjónustan á akrinum sé eitt hið mikilvægasta. Fyrir aðeins þrem vikum fórum við átta saman til að boða trúna á markaðstorginu og dreifðum 73 bókum og liðlega 40 tímaritum. Í vikunni áður stofnuðum við tvö ný biblíunám. Við sjáum að það er mikil þörf fyrir nýju deildina. Við hjónin viljum gjarnan þakka ykkur fyrir þau sérréttindi að fá að halda áfram í þessari sérstöku grein fullrar þjónustu,“ nú í Kólombíu.
3. Hvernig hafa margir látið í ljós sams konar hugarfar og Jesaja?
3 Þessi hjón, ásamt hundruðum annarra sem hafa boðist til að fara til annarra landa, láta í ljós sama hugarfar og Jesaja spámaður. Þegar hann heyrði Jehóva spyrja: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ svaraði hann: „Hér er ég, send þú mig!“ Þá sagði Guð: „Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja.“ (Jesaja 6:8, 9) Til hvaða þjónustu bauð Jesaja sig fram og hvaða árangri skilaði hún? Hvað getum við lært af þessari frásögu? Á hún sér einhvern samjöfnuð nú á tímum?
Jesaja veitt umboð að prédika
4, 5. (a) Hvaða ástand var meðal Gyðinga þegar Jesaja fékk sýnina sem greint er frá í 6. kafla? (b) Hvað sá Jesaja í sýninni?
4 Jehóva Guð spurði Jesaja: „Hvern skal ég senda?“ árið sem Ússía konungur dó. (Jesaja 6:1) Það var árið 777 f.o.t. eða um það bil 175 árum áður en Babýloníumenn eyðilögðu Jerúsalem og lögðu land Júda í eyði. Jehóva gat séð fyrir þá erfiðleika sem voru í vændum og fól Jesaja að flytja boðskap þar að lútandi. Hvað getum við lært af því umboði sem honum var veitt til að prédika?
5 Umgjörðin um það er Jesaja var veitt þetta umboð hlýtur að hafa haft djúp áhrif á hann, líkt og hefði verið um okkur. Hann segir: „[Ég] sá . . . [Jehóva] sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: ‚Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.‘“ — Jesaja 6:1-3.
6. Hvers vegna voru það sérréttindi fyrir Jesaja að sjá þessa sýn?
6 Jesaja vissi að Ússía hafði verið sleginn holdsveiki þegar hann skundaði rembilátur inn í hið heilaga í musterinu til að færa reykelsisfórn, þótt hann væri ekki af prestaætt. Jesaja hlýtur því að hafa þótt það mikil sérréttindi að fá að sjá Guð í sýn! Jesaja var ófullkominn maður og sá Jehóva ekki bókstaflega heldur aðeins í sýn. (2. Mósebók 33:20-23) Sýnin var mikilfengleg meðal annars fyrir þá sök að í henni birtust háttsettir englar (serafar) sem þjónuðu við hásæti Jehóva. Þeir viðurkenndu heilagleika Guðs og sýndu honum virðingu með því að hylja „ásjónur“ sínar. Auk þess að sýna hæversku kunngerðu þeir með áhersluþunga heilagleika Guðs. Getur þú ímyndað þér hvaða áhrif allt þetta hlýtur að hafa haft á mann?
7. Hvernig brást Jesaja við og hvers vegna hefði okkur líklega verið eins innanbrjósts?
7 Látum Jesaja svara því: „Þá sagði ég: ‚Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, [Jehóva] allsherjar.‘“ (Jesaja 6:5) Jesaja vissi að hann var talsmaður Guðs en þessi sýn minnti hann þó á að hann hefði ekki hreinar varir er sæmdu talsmanni þessa dýrlega og heilaga konungs. Sum okkar hafa líka fundið sárlega fyrir syndugu eðli sínu og ekki fundist þess verðug að nálgast Guð í bæn, þaðan af síður að vera kennd við nafn hans. Ef svo er getum við vafalaust leitað uppörvunar í því sem Jesaja fékk að reyna eftir það.
8. Hvað gerði engill í sýninni og með hvaða afleiðingum?
8 Einn af seröfunum flaug þá til hans með glóandi kol frá brennifórnaraltarinu. Engillinn snerti munn Jesaja með kolinu og sagði: „Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.“ (Jesaja 6:6, 7) Á dögum Salómons kom eldur frá himni til vitnis um að Jehóva hefði tekið við altarisfórninni, jafnvel þótt fórnirnar gætu ekki einu sinni gert prestana fullkomlega hreina frammi fyrir Guði. (2. Kroníkubók 7:1-3; Hebreabréfið 10:1-4, 11) En þegar óhreinleiki Jesaja var brenndur burt með glóandi koli gat hann viðurkennt þann dóm Jehóva að friðþægt væri fyrir synd hans að því marki sem þurfti til að hann gæti gegnt sérstakri prédikunarþjónustu. Hvaða athyglisverðar framtíðarhorfur felast í því?
9. Hver átti að vera kjarninn í boðskap Jesaja?
9 Þessi undraverða reynsla leiddi til þess að spámaðurinn fékk það umboð til að prédika sem áður en nefnt. (Jesaja 6:8, 9) En hvers vegna átti Jesaja að segja að fólkið myndi heyra en alls ekkert skilja? Rödd Guðs bætti við: „Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki . . . að þeir mættu snúa sér og læknast.“ (Jesaja 6:10) Merkir þetta að Jesaja ætti með fruntaskap og ónærgætni að hrekja Gyðingana frá sér þannig að þeir sneru sér ekki til Jehóva? Nei, þetta var einfaldlega vísbending um að flestir Gyðingar myndu vera ósnortnir, óháð því hve rækilega og trúfastlega Jesaja innti af hendi þá prédikun sem hann hafði boðið sig fram til er hann sagði: „Hér er ég, send þú mig!“
10. (a) Hverjum var það að kenna að fólkið var blint og heyrnarsljótt? (b) Hvað átti Jesaja við þegar hann spurði: „Hversu lengi?“
10 Sökin lá hjá fólkinu. Enda þótt Jesaja gæfi því tækifæri aftur og aftur myndi það ekki tileinka sér þekkingu eða skilning. Guð sagði fyrirfram að flestir myndu sökum þrjósku sinnar og áhugaleysis á andlegum málum vera ónæmir fyrir boðskapnum. Lítill minnihluti myndi kannski taka við honum en þorri manna myndi vera blindur rétt eins og augu þeirra hefðu verið límd aftur með sterkasta lími. Hve lengi myndi þetta slæma ástand vara? Það var það sem Jesaja átti við, ekki hve mörg ár hann ætti að prédika, þegar hann spurði: „Hversu lengi, [Jehóva]?“ Guð svaraði: „Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt.“ Svo fór þótt það væri ekki fyrr en eftir daga Jesaja. Babýloníumenn fluttu íbúana alla með tölu í útlegð og skildu landið eftir ‚gjöreytt.‘ — Jesaja 6:11, 12; 2. Konungabók 25:1-26.
11. Hvaða hughreysting fólst í boðskap Jesaja?
11 Að síðustu fullvissaði Jehóva Jesaja um að ástandið væri ekki með öllu vonlaust. Það átti að vera „tíundi hluti eftir“ í landinu. Það var eins og ‚eik, sem búið var að fella, en stúfur hennar var eftir sem heilagt sæði.‘ (Jesaja 6:13) Eftir 70 ára útlegð í Babýlon sneri sæði eða leifar aftur heim, rétt eins og nýr sproti sprytti upp af stúfi stórs trés. (2. Kroníkubók 36:22, 23; Esra 1:1-4; samanber Jobsbók 14:7-9; Daníel 4:10, 13-15, 26) Enda þótt boðskapur Jesaja væri dapurlegur fólst þó ákveðin hughreysting í honum. En það er biblíuleg ástæða til að líta á Jesaja og boðskap hans sem fyrirmynd síðari atburða. Hvernig þá?
Meiri uppfylling
12. Hvaða biblíulegur grundvöllur er fyrir því að kalla Jesú hinn meiri Jesaja?
12 Öldum eftir dauða Jesaja kom fram sá sem kalla mætti hinn meiri Jesaja — Jesús Kristur. Áður en hann varð maður hafði hann boðið sig fram til að fara til jarðar þar sem hann myndi í prédikun sinni innifela meðal annars ýmislegt sem Jesaja hafði ritað. (Orðskviðirnir 8:30, 31; Jóhannes 3:17, 34; 5:36-38; 7:28; 8:42; Lúkas 4:16-19; Jesaja 61:1) Hann tengdi sjálfan sig beinlínis uppfyllingu 6. kafla Jesajabókar þegar hann gaf á því skýringu hvers vegna hann kenndi sem raun bar vitni. (Matteus 13:10-15; Markús 4:10-12; Lúkas 8:9, 10) Það var við hæfi því að flestir þeir Gyðingar, sem hlýddu á Jesú, voru jafntregir til að taka við boðskap hans og breyta samkvæmt honum og hinir sem heyrðu boðun spámannsins Jesaja. (Jóhannes 12:36-43) Árið 70 urðu þeir Gyðingar, sem höfðu gert sig ‚blinda og daufa‘ gagnvart boðskap Jesú, eyðingu að bráð sem líktist eyðingunni árið 607 f.o.t. Þessir atburðir fyrstu aldar voru þrenging fyrir Jerúsalem ‚sem engin hafði þvílík verið frá upphafi heims og myndi aldrei verða.‘ (Matteus 24:21) En eins og Jesaja spáði um iðkuðu leifar eða „heilagt sæði“ trú. Þeir mynduðu síðan andlega þjóð, hinn smurða „Ísraels Guðs.“ — Galatabréfið 6:16.
13. Hvers vegna getum við vænst enn einnar uppfyllingar Jesaja 6. kafla?
13 Við komum nú að annarri uppfyllingu á 6. kafla Jesajabókar. Um árið 60 varpaði Páll postuli ljósi á það hvers vegna margir af þeim Gyðingum, sem höfðu hlýtt á hann í Róm, tóku ekki við ‚vitnisburði hans um Guðsríki.‘ Ástæðan var sú að Jesaja 6:9, 10 var að rætast enn á ný. (Postulasagan 28:17-27) Merkir það að eftir jarðvistarþjónustu Jesú hafi smurðir lærisveinar hans átt að veita þjónustu líka þeirri sem Jesaja veitti? Já, sannarlega!
14. Hvernig áttu lærisveinar Jesú að vinna líkt starf og Jesaja?
14 Áður en hinn meiri Jesaja steig upp til himna sagði hann að lærisveinar hans myndu fá heilagan anda og síðan „verða [vottar] hans í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Rétt eins og fórnaraltarið geymdi allt það sem þurfti til að fjarlægja synd Jesaja, eins var fórn Jesú grundvöllur þess að lærisveinar hans fengju ‚friðþægt fyrir synd sína.‘ (3. Mósebók 6:12, 13; Hebreabréfið 10:5-10; 13:10-15) Því gat Guð smurt þá heilögum anda sem gaf þeim einnig kraft til að ‚vera vottar til endimarka jarðar.‘ Bæði spámaðurinn Jesaja og hinn meiri Jesaja höfðu verið sendir til að boða boðskap Guðs. Á líkan hátt voru smurðir fylgjendur Jesú „sendir frá Guði . . . í félagi við Krist.“ — 2. Korintubréf 2:17, NW.
15. Hver hafa verið almenn viðbrögð við prédikuninni, líkt og var á dögum Jesaja, og hvað er því í vændum?
15 Á okkar tímum, einkanlega frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar, hafa smurðir kristnir menn séð þörfina á að flytja heiminum boðskap Guðs, meðal annars þann að ‚hefndardagur Guðs vors‘ sé í nánd. (Jesaja 61:2) Eyðing þess dags verður mikið reiðarslag einkum fyrir kristna heiminn sem hefur um langan aldur sagst vera þjóð Guðs eins og Ísrael til forna. Enda þótt smurðir vottar Guðs hafi prédikað dyggilega um áratuga skeið hefur kristni heimurinn að stærstum hluta gert ‚hjörtu sín tilfinningalaus og eyru sín daufheyrð og augu sín afturlokuð.‘ Spádómur Jesaja gaf til kynna að það ástand myndi vara „þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt.“ Þá líður þetta illa heimskerfi undir lok. — Jesaja 6:10-12.
„Send þú mig“
16. Hvers vegna má segja að ‚múgurinn mikli‘ eigi þátt í starfi sem líkist starfi Jesaja?
16 Núna eru til milljónir kostgæfra kristinna manna sem hafa biblíulega von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. Vegna fórnarblóðs Jesú getur þessi ‚mikli múgur‘ fengið syndir sínar fyrirgefnar að því marki sem nú er nauðsynlegt. Þeir fá líka kraft og stuðning anda Guðs þegar þeir taka undir með þeim sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum og segja: „Hér er ég, send þú mig!“ Senda þá til að gera hvað? Páll segir í Rómverjabréfinu 10:13-15: „‚Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘ En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað [í Jesaja 52:7]: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ — Opinberunarbókin 7:9-15.
17. Hvert er efni boðskapar okkar líkt og var í spádómi Jesaja?
17 Hafðu hugfast að Jesaja sagði: „Hér er ég, send þú mig!“ áður en hann vissi til fulls efni boðskaparins. Ólíkt honum vitum við hvað Guð vill að þeir kunngeri sem þiggja núna boð hans: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ Í boðskapnum felst aðvörun um „hefndardag Guðs vors.“ En hann felur einnig í sér „gleðilegan boðskap.“ Þeir sem eru ‚sendir‘ eiga meðal annars þátt í að „boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.“ Ætti það ekki að veita mjög mikla lífsfyllingu? — Jesaja 61:1, 2.
18, 19. Á hvaða sérstaka vegu segja margir: „Send þú mig“?
18 Ef þú átt nú þegar þátt í að flytja „gleðilegan boðskap“ gæti þessi upprifjun á 6. kafla Jesajabókar komið þér til að spyrja: Hvernig gæti ég lagt mig betur fram í anda Jesaja 6:8? Líkt og hjónin, sem getið var í greinarbyrjun, hafa þjónar Guðs í hundraðatali boðið sig fram til sjálfboðavinnu við að byggja Betelheimili, mótshallir og Ríkissali. Margir aðrir, sem telja sig ekki kunna til byggingarstarfa, hafa flust til landa þar sem meiri þörf var fyrir prédikara en í heimalandi þeirra. Áður en það skref er stigið er hyggilegt að ráðfæra sig við deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins. Að sjálfsögðu er góður undirbúningur og fyrirhyggja nauðsynleg því að tungumál, lífsgæði, atvinnumöguleikar og margt annað getur verið gerólíkt því sem menn eiga að venjast í heimalandi sínu. Þú skalt þó ekki vísa þeim möguleika á bug vegna þess eins að meiriháttar breytingar eru nauðsynlegar til þess. Margir sem hafa viðhorf Jesaja, „Hér er ég, send þú mig!“ hafa flust búferlum og hlotið ríkulega blessun frá Guði fyrir vikið. — Samanber Orðskviðina 24:27; Lúkas 14:28-30.
19 Enn aðrir — einhleypir bræður eða systur, hjón eða jafnvel heilar fjölskyldur — hafa flust búferlum innan heimalands síns þangað sem meiri þörf er fyrir prédikara Guðsríkis eða kristna umsjónarmenn. (Postulasagan 16:9, 10) Það hefur stundum kostað miklar fórnir, svo sem þá að finna sér annars konar veraldlegt starf en áður og sætta sig jafnvel við lægri laun. Sumir hafa farið snemma á eftirlaun og fengið sér hlutastarf til að geta haft meiri tíma fyrir þjónustuna á akrinum. Það er hrósunarvert þegar öll fjölskyldan segir: „Hér erum við, send þú okkur!“ Það gerði fjölskylda Jesaja. Kona hans átti hlut í að gera vilja Guðs sem spákona og synir hans gegndu einnig hlutverki í spádómsboðskapnum. — Jesaja 7:3, 14-17; 8:3, 4.
20. Hvað ættir þú að íhuga með tilliti til Jesaja 6:8?
20 Jafnvel þótt núverandi aðstæður þínar leyfi ekki slíkar meiriháttar breytingar getur þú hugleitt hvort þú gerir allt sem þú getur þar sem þú býrð og líkir eftir fúsleika Jesaja. Leggðu þig fram við að boða boðskap Guðs, jafnvel í óblíðu veðri eða andspænis almennu áhugaleysi fólks; það gerði Jesaja. Vertu kostgæfur við að flytja öðrum „gleðilegan boðskap.“ Jehóva hefur spurt: „Hvern skal ég senda?“ Svaraðu líkt og Jesaja til forna: „Hér er ég, send þú mig!“ og vertu viljugur að flytja mönnum boðskap hans.
Til upprifjunar
◻ Við hvaða aðstæður fékk Jesaja sýnina í 6. kafla og hvað sá hann?
◻ Hvers konar umboð fékk Jesaja?
◻ Hvers vegna má kalla Jesú hinn meiri Jesaja og í hvaða skilningi inna lærisveinar hans af hendi líkt starf og Jesaja?
◻ Hvernig getum við látið í ljós sams konar viðhorf og Jesaja?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jesaja var hreinsaður og sendur út til að prédika.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Margir hafa sagt: „Hér er ég, send þú mig!“