13. kafli
„Æpið fagnaðaróp allar í einu!“
1. Af hverju eru spádómsorðin í 52. kafla Jesajabókar gleðiefni og hvaða tvær uppfyllingar hljóta þau?
FRELSUN! Fátt er gleðilegra fyrir fanga en vonin um frelsun. Frelsun og endurreisn gengur eins og rauður þráður gegnum Jesajabók, svo að það kemur ekki á óvart að gleði og fögnuð skuli bera oftar á góma þar en í nokkurri annarri biblíubók, ef Sálmarnir eru undanskildir. Fimmtugasti og annar kafli Jesajabókar tiltekur sérstaklega hvers vegna fólk Guðs hafi ástæðu til að fagna. Þessi spádómur rættist á Jerúsalem árið 537 f.o.t. og hefur ræst í enn fyllri mæli á ‚Jerúsalem í hæðum‘ sem er andaveruskipulag Jehóva á himnum. Þessu skipulagi er stundum líkt við móður og eiginkonu. — Galatabréfið 4:26; Opinberunarbókin 12:1.
„Íklæð þig styrk þínum, Síon!“
2. Hvenær vaknar Síon og hvernig gerist það?
2 Jehóva kallar, fyrir munn Jesaja, til hinnar ástkæru Síonar: „Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga. Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!“ (Jesaja 52:1, 2) Jerúsalem hefur legið í eyði í 70 ár vegna þess að borgarbúar kölluðu yfir sig reiði Jehóva. (2. Konungabók 24:4; 2. Kroníkubók 36:15-21; Jeremía 25:8-11; Daníel 9:2) Nú er kominn tími til að hún vakni af löngu aðgerðarleysi og klæðist skartklæðum frelsisins. Jehóva hefur blásið Kýrusi í brjóst að frelsa ‚hina herteknu, dótturina Síon,‘ svo að fyrrverandi íbúar Jerúsalem og afkomendur þeirra geti yfirgefið Babýlon, snúið heim og endurvakið sanna tilbeiðslu. Enginn óumskorinn eða óhreinn má finnast í Jerúsalem. — Esrabók 1:1-4.
3. Af hverju má kalla söfnuð smurðra kristinna manna ‚dótturina Síon‘ og í hvaða skilningi hafa þeir verið frelsaðir?
3 Þessi orð Jesaja rætast einnig á söfnuði smurðra kristinna manna sem er „dóttirin Síon“ í nútímanum því að ‚Jerúsalem í hæðum‘ er móðir hinna smurðu.a Þeir hafa losnað úr fjötrum fráhvarfshugmynda og heiðinna kenninga, og verða nú að halda sér hreinum frammi fyrir Jehóva, ekki með umskurn holdsins heldur hjartans. (Jeremía 31:33; Rómverjabréfið 2:25-29) Það er meðal annars fólgið í því að halda sér andlega, hugarfarslega og siðferðilega hreinum frammi fyrir Jehóva. — 1. Korintubréf 7:19; Efesusbréfið 2:3.
4. Hvað upplifðu jarðneskir fulltrúar ‚Jerúsalem í hæðum,‘ líkt og Jerúsalembúar fortíðar?
4 ‚Jerúsalem í hæðum‘ hefur reyndar aldrei óhlýðnast Jehóva. En fulltrúar hennar á jörð, smurðir kristnir menn, brutu lög Jehóva óafvitandi í fyrri heimsstyrjöldinni af því að þeir skildu ekki fyllilega í hverju raunverulegt, kristið hlutleysi væri fólgið. Þeir misstu velþóknun hans og voru hnepptir í andlega fjötra ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:5) Þrælkunin náði hámarki í júní 1918 þegar átta starfsmenn Varðturnsfélagsins voru fangelsaðir á röngum forsendum, meðal annars fyrir meint samsæri. Skipulagt boðunarstarf lagðist nálega niður á þeim tíma. En árið 1919 ómaði skýr og sterk hvatning um andlega árvekni. Smurðir kristnir menn greindu sig nú betur frá siðferðilegum og andlegum óhreinleika Babýlonar hinnar miklu. Þeir hristu af sér ryk ánauðarinnar og ‚Jerúsalem í hæðum‘ öðlaðist ljóma ‚heilagrar borgar‘ þar sem andlegur óhreinleiki leyfist ekki.
5. Af hverju hefur Jehóva fullan rétt til að endurleysa fólk sitt án þess að greiða föngurum þess bætur?
5 Jehóva hafði fullan rétt til að frelsa fólk sitt, bæði árið 537 f.o.t. og árið 1919. Jesaja segir: „Svo segir [Jehóva]: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.“ (Jesaja 52:3) Babýlon fortíðar og Babýlon hin mikla hnepptu sáttmálaþjóð Guðs í þrælkun án þess að greiða nokkuð fyrir. Þar eð ekkert fégjald var greitt var Jehóva enn þá löglegur eigandi fólks síns. Þurfti hann að telja sig skuldbundinn einhverjum? Auðvitað ekki. Í báðum tilfellum gat hann með réttu endurleyst dýrkendur sína án þess að greiða föngurum þeirra nokkrar bætur. — Jesaja 45:13.
6. Hvað lærðu óvinir Jehóva ekki af sögunni?
6 Óvinir Jehóva höfðu ekkert lært af sögunni. Við lesum: „Svo segir hinn alvaldi [Jehóva]: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.“ (Jesaja 52:4) Ísraelsmönnum hafði verið boðið að setjast að sem gestir í Egyptalandi en síðar hneppti faraó þá í þrælkun. Jehóva drekkti faraó og her hans í Rauðahafi. (2. Mósebók 1:11-14; 14:27, 28) Þegar Sanheríb Assýríukonungur ógnaði Jerúsalem felldi engill Jehóva 185.000 af hermönnum hans. (Jesaja 37:33-37) Babýlon fortíðar og Babýlon hin mikla geta ekki heldur umflúið afleiðingarnar af því að kúga fólk Guðs.
‚Lýður minn skal fá að þekkja nafn mitt‘
7. Hvaða áhrif hefur útlegð fólks Jehóva á orðstír hans?
7 Útlegð fólks Jehóva hefur haft áhrif á orðstír hans eins og spádómurinn bendir á: „Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra — segir [Jehóva] — þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba — segir [Jehóva] — og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn. Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: ‚Sjá, hér er ég!‘“ (Jesaja 52:5, 6) Hvaða hagsmuna hefur Jehóva hér að gæta? Hvað varðar Jehóva um það að Ísrael skuli vera í ánauð í Babýlon? Hann þarf að láta til sín taka af því að Babýlon hefur hernumið fólk hans og drambar af því sigri hrósandi. Hún hefur óvirt nafn Jehóva með stærilæti sínu. (Esekíel 36:20, 21) Hún viðurkennir ekki að Jerúsalem liggi í eyði vegna þess að Jehóva hafði vanþóknun á fólki sínu. Hún lítur svo á að þrælkun Gyðinga sé merki þess að Guð þeirra sé máttlítill. Belsasar, annar af konungum Babýlonar á þeim tíma, gengur svo langt að spotta Jehóva með því að nota ker úr musteri hans í veislu þar sem guðir Babýlonar eru heiðraðir. — Daníel 5:1-4.
8. Hvernig hefur verið farið með nafn Jehóva frá dauða postulanna?
8 Hvernig snertir þetta „Jerúsalem, sem í hæðum er“? Eftir að fráhvarfið náði fótfestu meðal þeirra sem kölluðu sig kristna mátti með sanni segja að ‚nafn Guðs yrði þeirra vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.‘ (Rómverjabréfið 2:24; Postulasagan 20:29, 30) Reyndar hættu Gyðingar að lokum að nota nafn Guðs sökum hjátrúar. Fráhvarfsmenn frá kristninni öpuðu þetta eftir og hættu að nota einkanafn Guðs skömmu eftir dauða postulanna. Þetta fráhvarf var undanfari kristna heimsins sem er ein uppistaða Babýlonar hinnar miklu. (2. Þessaloníkubréf 2:3, 7; Opinberunarbókin 17:5) Taumlaust siðleysi kristna heimsins og óskammfeilin blóðsekt hefur kastað rýrð á nafn Jehóva. — 2. Pétursbréf 2:1, 2.
9, 10. Hvaða dýpri skilning á kröfum Jehóva og nafni hefur sáttmálaþjóð hans fengið í nútímasögu?
9 Sáttmálaþjóð Guðs fékk betri skilning á kröfum hans þegar Jesús Kristur, hinn meiri Kýrus, frelsaði hana úr ánauð Babýlonar hinnar miklu árið 1919. Hún var þá búin að losa sig við margar af kenningum kristna heimsins sem eiga ættir að rekja til forkristinnar heiðni, svo sem kenningarnar um þrenningu, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir í logum vítis. Nú hófst hún handa við að losa sig að fullu við babýlonsk áhrif. Og hún gerði sér grein fyrir því hve mikilvægt það væri að vera algerlega hlutlaus gagnvart flokkadráttum heimsins. Hún vildi jafnvel hreinsa sig af sérhverri blóðskuld sem einhver meðal hennar kynni að hafa bakað sér.
10 Nútímaþjónar Guðs skildu líka betur en áður hve nafn Jehóva er mikilvægt. Árið 1931 tóku þeir sér nafnið vottar Jehóva og lýstu þannig opinberlega yfir að þeir styddu Jehóva og nafn hans. Og með útgáfu Nýheimsþýðingarinnar árið 1950 veittu þeir nafni Guðs þann sess sem því ber í Biblíunni. Nafn Jehóva er þeim mikils virði og þeir kunngera það til endimarka jarðar.
‚Fagnaðarboðinn‘
11. Af hverju er upphrópunin „Guð þinn er setstur að völdum!“ viðeigandi með tilliti til atburða ársins 537 f.o.t.?
11 Nú beinist athyglin aftur að Síon meðan hún liggur í eyði. Sendiboði nálgast sem hefur góð tíðindi að færa: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: ‚Guð þinn er setstur að völdum!‘“ (Jesaja 52:7) Hvernig var hægt að segja, árið 537 f.o.t., að Guð Síonar væri sestur að völdum? Hefur Jehóva ekki alltaf verið við völd? Jú, hann er „konungur aldanna.“ (Opinberunarbókin 15:3) En upphrópunin: „Guð þinn er setstur að völdum!“ á vel við vegna þess að konungdómur Jehóva birtist í nýrri mynd með því að Babýlon er fallin og Kýrus hefur fyrirskipað að Gyðingar skuli endurreisa musterið í Jerúsalem og taka upp hreina tilbeiðslu þar á ný. — Sálmur 97:1.
12. Hver var ‚fagnaðarboði‘ öðrum fremur og hvernig?
12 Á dögum Jesaja var ekki hægt að benda á ákveðinn einstakling eða hóp sem ‚fagnaðarboða.‘ En nú getum við gert það. Jesús Kristur er mesti friðarboði Jehóva. Meðan hann var hér á jörð boðaði hann það fagnaðarerindi að menn yrðu leystir undan áhrifum erfðasyndarinnar, þar á meðal sjúkdómum og dauða. (Matteus 9:35) Jesús var kappsamur boðberi betri tíma og greip hvert tækifæri til að fræða fólk um ríki Guðs. (Matteus 5:1, 2; Markús 6:34; Lúkas 19:1-10; Jóhannes 4:5-26) Og lærisveinar hans líktu eftir honum.
13. (a) Hvernig víkkar Páll út merkingu orðanna „hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans“? (b) Í hvaða skilningi eru fætur fagnaðarboðans „yndislegir“?
13 Páll postuli vitnar í Jesaja 52:7 í Rómverjabréfinu til að leggja áherslu á nauðsyn þess að boða fagnaðarerindið. Hann varpar fram röð áleitinna spurninga, þar á meðal: „Hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ Síðan segir hann: „Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ (Rómverjabréfið 10:14, 15) Páll víkkar út merkingu Jesaja 52:7 og notar fleirtöluna „þeirra“ í stað eintölunnar („fagnaðarboðans“) í frumtexta Jesaja. Allir kristnir menn líkja eftir Jesú og boða fagnaðarerindi friðarins. Jesaja segir að fagnaðarboðinn nálgist Jerúsalem á fjöllunum í grenndinni. Það er hvorki hægt að sjá fætur hans né heyra fótatakið úr fjarlægð. Það er boðberinn sjálfur sem skiptir máli hér en fæturnir og fótatakið eru tákn hans. Nútímavottar Jehóva eru kærkomin sjón fyrir auðmjúka menn sem taka við lífsboðskap fagnaðarerindisins, líkt og auðmjúku fólki á fyrstu öld þótti Jesús og lærisveinar hans vera fögur sjón.
14. Hvernig hefur Jehóva sest að völdum í nútímanum og frá hvaða tíma hefur það verið boðað mannkyni?
14 Árið 1919 var aftur tekið að boða: „Guð þinn er setstur að völdum.“ Það ár var haldið mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum þar sem J. F. Rutherford, þáverandi forseti Varðturnsfélagsins, hreif áheyrendur með ræðunni: „Ávarp til samverkamanna.“ Ræðan var byggð á Jesaja 52:7 og Opinberunarbókinni 15:2 og allir viðstaddir voru hvattir til að boða fagnaðarerindið. ‚Yndislegir fætur‘ fóru að sjást „á fjöllunum.“ Smurðir kristnir menn, og síðar félagar þeirra af hópi ‚annarra sauða,‘ gengu kappsamir að verki og boðuðu þann fagnaðarboðskap að Jehóva væri sestur að völdum. (Jóhannes 10:16) Hvernig var Jehóva sestur að völdum? Hann birti konungdóm sinn að nýju árið 1914 er hann setti son sinn, Jesú Krist, í embætti sem konung í nýstofnuðu ríki sínu á himnum. Árið 1919 birti hann konungdóm sinn á ný er hann frelsaði „Ísrael Guðs“ úr Babýlon hinni miklu. — Galatabréfið 6:16; Sálmur 47:9; Opinberunarbókin 11:15, 17; 19:6.
„Varðmenn þínir hefja upp raustina“
15. Hvaða „varðmenn“ hefja upp raustina árið 537 f.o.t.?
15 Fást einhver viðbrögð við upphrópuninni: „Guð þinn er setstur að völdum“? Já, Jesaja skrifar: „Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir [Jehóva] hverfa aftur til Síonar.“ (Jesaja 52:8) Engir bókstaflegir varðmenn standa vörð í Jerúsalem árið 537 f.o.t. til að taka á móti fyrstu útlögunum er þeir snúa aftur. Borgin hefur legið í eyði í 70 ár. (Jeremía 25:11, 12) ‚Varðmennirnir,‘ sem hefja upp raustina, hljóta því að vera Ísraelsmennirnir sem frétta fyrstir af því að Síon skuli endurreist og fá það verkefni að koma tíðindunum áfram til annarra barna Síonar. Er varðmennirnir sjá Jehóva gefa Babýlon á vald Kýrusar árið 539 f.o.t. eru þeir ekki í minnsta vafa um að Jehóva sé að frelsa fólk sitt. Þeir æpa fagnaðaróp allir í einu, ásamt þeim sem svara kallinu, og boða öðrum gleðitíðindin.
16. Hvern sjá varðmennirnir „augliti til auglitis“ og hvað merkir það?
16 Hinir vökulu varðmenn eiga náið einkasamband við Jehóva. Það er eins og þeir sjái hann „augliti til auglitis.“ (4. Mósebók 14:14) Náið samband þeirra við hann og hver við annan undirstrikar einingu þeirra og gleðina í boðskapnum. — 1. Korintubréf 1:10.
17, 18. (a) Hvernig hefur varðmannshópur nútímans hafið upp raustina? (b) Í hvaða skilningi hefur varðmannshópurinn verið einhuga í boðuninni?
17 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ er varðmannshópur nútímans, og hann ‚hefur upp raustina,‘ ekki aðeins gagnvart þeim sem eru nú þegar í sýnilegu skipulagi Guðs heldur einnig gagnvart þeim sem fyrir utan eru. (Matteus 24:45-47) Árið 1919 var boðað til söfnunar þeirra sem enn vantaði af hinum smurðu, og árið 1922 var hert á boðinu. Það var á mótinu í Cedar Point í Ohio þegar hvatt var til þess að ‚kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.‘ Frá 1935 hefur athyglin beinst að því að safna saman miklum múgi sauðumlíkra manna. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Á síðustu árum hefur konungdómur Jehóva verið boðaður af auknum krafti. Hvernig? Árið 2000 tóku um sex milljónir manna þátt í því að boða konungdóm Jehóva í meira en 230 löndum og svæðum. Og Varðturninn, sem er helsta málgagn varðmannshópsins, flytur gleðiboðskapinn á rúmlega 130 tungumálum.
18 Samstillt átak sem þetta útheimtir auðmýkt og bróðurkærleika. Til að boðunin sé áhrifarík þurfa allir að flytja sama boðskap, halda nafni Jehóva á loft, lausnarráðstöfun hans, visku, kærleika og ríki. Allir kristnir menn í heiminum eru einhuga í starfi og boða gleðitíðindin sem einn maður, og það styrkir einkasamband þeirra við Jehóva.
19. (a) Hvernig taka „eyðirústir Jerúsalem“ á sig gleðilegan blæ? (b) Í hvaða skilningi hefur Jehóva „beran gjört heilagan armlegg sinn“?
19 Þegar fólk Guðs rekur upp gleðióp verður jafnvel gleðibragur yfir bústað þeirra. Spádómurinn heldur áfram: „Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að [Jehóva] huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem. [Jehóva] hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.“ (Jesaja 52:9, 10) Eyðirústir Jerúsalem taka á sig gleðilegan blæ með heimkomu Gyðinga frá Babýlon vegna þess að nú er hægt að endurvekja hina hreinu tilbeiðslu á Jehóva. (Jesaja 35:1, 2) Ljóst er að Jehóva hefur hönd í bagga með þessu. Hann hefur „beran gjört heilagan armlegg sinn,“ rétt eins og hann hafi ‚brett upp ermarnar‘ til að bjarga fólki sínu. — Esrabók 1:2, 3.
20. Hverju hefur Jehóva áorkað í nútímanum með því að gera heilagan armlegg sinn beran og hverju á hann eftir að áorka?
20 Núna á „síðustu dögum“ hefur Jehóva berað heilagan armlegg sinn og endurlífgað hinar smurðu leifar sem eru ‚vottarnir tveir‘ í Opinberunarbókinni. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Opinberunarbókin 11:3, 7-13) Eftir 1919 voru þeir leiddir inn í andlega paradís, hið andlega óðal sem þeir deila með milljónum samverkamanna sinna, hinum öðrum sauðum. Að síðustu mun Jehóva beran gera heilagan armlegg sinn og bjarga fólki sínu í „Harmagedón.“ (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þá munu ‚öll endimörk jarðarinnar sjá hjálpræði Guðs vors.‘
Mikilvæg krafa
21. (a) Hvers er krafist af þeim sem ‚bera ker Jehóva‘? (b) Af hverju þurfa Gyðingar ekki að yfirgefa Babýlon í flýti?
21 Þeir sem yfirgefa Babýlon og snúa heim til Jerúsalem verða að uppfylla ákveðna kröfu. Jesaja skrifar: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva]! Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að [Jehóva] fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.“ (Jesaja 52:11, 12) Ísraelsmenn verða að skilja eftir hvaðeina sem er á einhvern hátt spillt af falstrú Babýlonar. Þeir bera ker Jehóva úr musterinu í Jerúsalem svo að þeir verða að vera hreinir, ekki aðeins hið ytra að forminu til heldur fyrst og fremst í hjörtum sér. (2. Konungabók 24:11-13; Esrabók 1:7) Og Jehóva fer á undan þeim svo að þeir þurfa ekki að fara í neinum flýti eða hlaupa æðislega eins og blóðþyrstir hermenn veiti þeim eftirför. Jehóva er bakvörður þeirra. — Esrabók 8:21-23.
22. Hvernig leggur Páll áherslu á að smurðir kristnir menn verði að vera hreinir?
22 Orð Jesaja um hreinleikann rætast að fullu á afkomendum „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ Páll vitnaði í Jesaja 52:11 er hann hvatti kristna menn í Korintu til að ganga ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum: „Þess vegna segir [Jehóva]: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“ (2. Korintubréf 6:14-17) Kristnir menn verða að forðast babýlonska falsdýrkun alveg eins og Ísraelsmenn á heimleiðinni frá Babýlon.
23. Hvernig leitast nútímaþjónar Jehóva við að halda sér hreinum?
23 Smurðir fylgjendur Jesú Krists urðu sérstaklega að uppfylla þessa kröfu er þeir flúðu Babýlon hina miklu árið 1919. Þeir hreinsuðu sig smátt og smátt af öllum falstrúarmenjum. (Jesaja 8:19, 20; Rómverjabréfið 15:4) Þeir urðu sér líka meðvitaðri um mikilvægi siðferðilegs hreinleika. Vottar Jehóva hafa alltaf haldið háleitt siðferði í heiðri, en árið 1952 birtust greinar í Varðturninum þar sem bent var á að það þyrfti að aga siðlaust fólk til að halda söfnuðinum hreinum. Ögunin getur líka komið syndaranum í skilning um nauðsyn þess að iðrast í einlægni. — 1. Korintubréf 5:6, 7, 9-13; 2. Korintubréf 7:8-10; 2. Jóhannesarbréf 10, 11.
24. (a) Hvað eru ‚ker Jehóva‘ nú á tímum? (b) Hvers vegna treysta kristnir menn að Jehóva haldi áfram að ganga á undan þeim og vera bakvörður þeirra?
24 Smurðir kristnir menn og múgurinn mikli eru staðráðnir í að snerta ekkert sem er andlega óhreint. Þeir eru hreinir og þar með hæfir til að bera ‚ker Jehóva‘ sem eru ráðstafanir hans varðandi heilaga þjónustu hús úr húsi, biblíunámskeið og aðrar þjónustugreinar kristninnar. Ef þjónar Guðs varðveita hreinleika sinn mega þeir treysta því að hann haldi áfram að ganga á undan þeim og vera bakvörður þeirra. Hreinir þjónar Jehóva hafa ótal ástæður til að ‚æpa fagnaðaróp allir í einu.‘
[Neðanmáls]
a Nánari umfjöllun um samband ‚Jerúsalem í hæðum‘ og smurðra barna hennar á jörð er að finna í 15. kafla þessarar bókar.
[Mynd á blaðsíðu 183]
Síon verður frelsuð úr ánauð.
[Mynd á blaðsíðu 186]
Árið 1919 fóru ‚yndislegir fætur‘ að sjást aftur „á fjöllunum.“
[Mynd á blaðsíðu 189]
Vottar Jehóva boða gleðitíðindin sem einn maður.
[Mynd á blaðsíðu 192]
Þeir sem ‚bera ker Jehóva‘ verða að vera andlega og siðferðilega hreinir.