Berum kennsl á réttu boðberana
„[Ég er sá] sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna.“ — JESAJA 44:25, 26.
1. Hvernig staðfestir Jehóva hverjir séu réttu boðberarnir og hvernig afhjúpar hann falska?
JEHÓVA GUÐ staðfestir sjálfur hverjir eru sannir boðberar hans. Hann gerir það með því að láta boðskap sinn fyrir munn þeirra rætast. Jehóva flettir líka rækilega ofan af fölskum boðberum. Hvernig gerir hann það? Með því að hindra að spár þeirra og tákn rætist. Þannig sýnir hann fram á að þeir séu sjálfskipaðir spámenn og að boðskapur þeirra sé í rauninni sprottinn af falskri rökfærslu sjálfra þeirra — já, heimskulegum og holdlegum hugsunarhætti þeirra.
2. Hvernig skarst í odda með boðberum á dögum Ísraelsmanna?
2 Jesaja og Esekíel sögðust báðir vera boðberar Jehóva Guðs. Voru þeir það? Við skulum athuga málið. Jesaja spáði í Jerúsalem um það bil frá árinu 778 f.o.t. til fram yfir 732 f.o.t. Esekíel var sendur í útlegð til Babýlonar 617 f.o.t. Hann spáði meðal bræðra sinna þar, Gyðinganna. Báðir þessir spámenn kunngerðu djarflega að Jerúsalem yrði lögð í eyði. Aðrir spámenn sögðu að Guð myndi ekki láta það gerast. Hverjir reyndust réttu boðberarnir?
Jehóva afhjúpar falsspámenn
3, 4. (a) Hvaða gagnstæð boð fengu Ísraelsmenn í Babýlon og hvernig afhjúpaði Jehóva falskan boðbera? (b) Hvernig myndi fara fyrir falsspámönnunum að sögn Jehóva?
3 Meðan Esekíel var í Babýlon sá hann í sýn það sem fram fór í musterinu í Jerúsalem. Við austurhlið þess voru 25 menn. Meðal þeirra voru tveir foringjar eða höfðingjar, þeir Jaasanja og Pelatja. Hvernig leit Jehóva á þá? Esekíel 11:2, 3 svarar: „Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg. Þeir segja: ‚Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist [„verða ekki byggð hús á næstunni,“ NW]?‘“ Þessir óskammfeilnu friðarboðberar voru eiginlega að segja: ‚Jerúsalem er ekki í neinni hættu. Bráðlega ætlum við meira að segja að byggja fleiri hús í henni!‘ En Guð sagði Esekíel að spá gegn þessum lygaspámönnum. Í 13. versi 11. kaflans segir Esekíel okkur hvað kom fyrir annan þeirra: „Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður.“ Pelatja hefur líklega verið þekktari og áhrifameiri höfðinginn og aðalskurðgoðadýrkandinn. Skyndilegur dauði hans sannaði að hann væri falsspámaður!
4 Þótt Jehóva tæki Pelatja af lífi kom það ekki í veg fyrir að aðrir falsspámenn lygju í nafni hans. Þessir lygarar héldu áfram á þeirri heimskulegu braut að spá gegn vilja Guðs. Þess vegna sagði Jehóva Guð við Esekíel: „Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð.“ Líkt og Pelatja myndu þeir ‚hverfa‘ fyrir þá sök að hafa ögrandi þóst sjá ‚heillasýnir Jerúsalem til handa þar sem þó engin heill var‘ eða friður. — Esekíel 13:3, 15, 16.
5, 6. Hvernig reyndist Jesaja sannur spámaður ólíkt öllum fölsku boðberunum?
5 Allt sem Jesaja spáði um Jerúsalem fyrir hönd Guðs rættist. Sumarið 607 f.o.t. eyddu Babýloníumenn borginni og fluttu eftirlifandi Gyðinga til Babýlonar. (2. Kroníkubók 36:15-21; Esekíel 22:28; Daníel 9:2) Varð þessi ógæfa til þess að þagga niður í falsspámönnum þannig að þeir hættu að ausa tómri vitleysu yfir fólk Guðs? Nei, lygaboðberarnir héldu sig við sama heygarðshornið!
6 Ofan á allt þetta máttu hinir herleiddu Ísraelsmenn þola montna spásagnamenn og stjörnuspekinga Babýlonar. En Jehóva sannaði að allir þessir falsboðberar væru fífl því að þeir höfðu spáð þveröfugt við það sem gerðist. Með tíð og tíma sýndi hann fram á að Esekíel væri sannur boðberi sinn líkt og Jesaja. Jehóva lét allt sem hann spáði fyrir munn þeirra rætast, eins og hann hafði heitið: „[Ég er] sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku, sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna.“ — Jesaja 44:25, 26.
Óvæntur boðskapur um Babýlon og Jerúsalem
7, 8. Hvaða innblásinn boðskap flutti Jesaja Babýlon og hvað merktu orð hans?
7 Júda og Jerúsalem átti að liggja í eyði í 70 ár, algerlega mannauð. En Jehóva lýsti yfir fyrir munn Jesaja og Esekíels að borgin yrði endurreist og fólk tæki aftur að búa í landinu á nákvæmlega þeim tíma sem hann hafði spáð! Þetta var furðulegur spádómur. Af hverju? Af því Babýlon var orðlögð fyrir að sleppa aldrei föngum sínum. (Jesaja 14:4, 15-17) Hver gat þá hugsanlega frelsað þessa fanga? Hver gat unnið hina voldugu Babýlon sem var varin risavöxnum borgarmúrum og fljótinu sem rann um hana? Alvaldur Jehóva gat það og sagðist ætla að gera það: „Ég er sá sem segi við djúpið [það er að segja fljótið sem varði borgina]: ‚Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!‘ Ég er sá sem segi um Kýrus: ‚Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!‘“ — Jesaja 44:27, 28.
8 Hugsaðu þér! Efratfljótið var óárennileg hindrun fyrir menn, en fyrir Jehóva var það eins og vatnsdropi á rauðglóandi yfirborði. Það myndi þorna upp á augabragði og Babýlon falla! Þótt enn væru um 150 ár fram að fæðingu Kýrusar Persakonungs lét Jehóva Jesaja spá því að hann myndi hertaka Babýlon og frelsa hina hernumdu Gyðinga með því að heimila þeim að snúa heim og endurreisa Jerúsalem og musteri hennar.
9. Hvern nefndi Jehóva sem sendimann sinn til að refsa Babýlon?
9 Við finnum þennan spádóm í Jesaja 45:1-3: „Svo segir [Jehóva] við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans . . . , til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð: Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar. Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, [Jehóva], sem kalla þig með nafni þínu.“
10. Á hvaða hátt var Kýrus ‚smurður‘ og hvernig gat Jehóva talað til hans meira en hundrað árum áður en hann fæddist?
10 Þú tekur eftir að Jehóva talar til Kýrusar eins og hans sé þegar lifandi. Það er í samræmi við þau orð Páls að Jehóva ‚kalli fram það, sem ekki er til eins og það væri til.‘ (Rómverjabréfið 4:17) Og Guð kallaði Kýrus „sinn smurða.“ Hvers vegna gerði hann það? Æðstiprestur Jehóva smurði Kýrus aldrei með heilagri smurningarolíu. Nei, þetta var spádómleg smurning sem gaf til kynna innsetningu í sérstakt embætti. Þess vegna gat Guð talað um þessa útnefningu Kýrusar sem smurningu. — Samanber 1. Konungabók 19:15-17; 2. Konungabók 8:13.
Guð uppfyllir orð boðbera sinna
11. Hvers vegna töldu Babýlonbúar sig óhulta?
11 Þegar Kýrus fór herför sína gegn Babýlon álitu íbúar hennar sig örugga og óhulta. Borgin var umlukin djúpu og breiðu borgarsíki sem Efratfljótið myndaði. Þar sem fljótið rann gegnum borgina var samfelldur viðlegubakki að austanverðu. Til að aðskilja hann frá borginni lét Nebúkadnesar reisa það sem hann kallaði „mikinn múr, óhreyfanlegan eins og fjall . . . [Hann] reisti hann fjallháan.“a Á múrnum voru hlið með gríðarstórum eirhurðum. Til að ganga inn um þau þurfti að klífa upp slakkann frá fljótsbakkanum. Það er engin furða að hernumdir Gyðingar í Babýlon örvæntu um að fá nokkurn tíma frelsi!
12, 13. Hvernig rættust orð Jehóva fyrir munn boðberans Jesaja þegar Babýlon féll fyrir Kýrusi?
12 En hernumdir Gyðingar, sem trúðu á Jehóva, höfðu sterka von! Fyrir munn spámanna sinna hafði Guð lofað að frelsa þá. Hvernig uppfyllti hann loforð sitt? Kýrus lét hersveitir sínar veita Efratfljótinu yfir í annan farveg nokkrum kílómetrum norðan við borgina. Þar með varð aðalvarnarkerfi borgarinnar að tiltölulega þurrum árfarvegi. Þessa örlagaríku nótt höfðu svallsamir Babýlonbúar sýnt það kæruleysi að skilja hliðin meðfram bökkum Efrat eftir opin. Jehóva braut ekki eirhliðin bókstaflega né mölvaði járnslárnar sem lokuðu þeim, en snilldarbragð hans til að halda þeim opnum og slagbrandalausum hafði sömu áhrif. Múrar Babýlonar voru gagnslausir! Hersveitir Kýrusar þurftu ekki að klífa yfir þá til að komast inn fyrir. Jehóva fór á undan Kýrusi og jafnaði „hólana,“ já, allar hindranir. Jesaja reyndist vera sannur boðberi Guðs.
13 Þegar Kýrus hafði borgina algerlega á valdi sínu féllu allir fjársjóðir hennar í hans hendur, jafnvel huldir fjársjóðir og fólgnir dýrgripir. Hvers vegna gerði Jehóva Guð þetta fyrir Kýrus? Til að hann kannaðist við að Jehóva, ‚sá sem kallaði hann með nafni hans,‘ væri Guð sannra spádóma og alvaldur Drottinn alheimsins. Hann skyldi vita að Guð hefði komið því í kring að hann kæmist til valda í þeim tilgangi að frelsa fólk hans, Ísraelsmenn.
14, 15. Hvernig vitum við að Kýrus átti það Jehóva að þakka að hann skyldi vinna Babýon?
14 Hlustum á orð Jehóva til Kýrusar: „Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki. Ég er [Jehóva] og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki, svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er [Jehóva] og enginn annar. Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill [það er að segja herleiddu fólki sínu] og veld óhamingju [fyrir Babýlon]. Ég er [Jehóva], sem gjöri allt þetta.“ — Jesaja 45:4-7.
15 Kýrus átti sigur sinn yfir Babýlon Jehóva að þakka því að Jehóva hafði styrkt hann til að framkvæma vilja sinn gegn Babýlon og frelsa herleitt fólk sitt. Með þessu kallaði Guð á himnana að láta réttlátum öflum eða áhrifum rigna niður. Hann kallaði á jörðina að opnast og láta spretta fram réttláta atburði og hjálpræði fyrir útlæga þjóð sína. Og táknrænir himnar Guðs og jörð hlýddu boði hans. (Jesaja 45:8) Meira en hundrað árum eftir dauða Jesaja sýndi það sig að hann var sannur boðberi Jehóva.
Gleðitíðindi boðberans til Síonar
16. Hvaða gleðifréttir var hægt að boða í eyðiborginni Jerúsalem þegar Babýlon var unnin?
16 En það er meira að gerast. Jesaja 52:7 flytur góð tíðindi fyrir Jerúsalem: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: ‚Guð þinn er setstur að völdum!‘“ Hugsaðu þér hversu hrífandi það hefur verið að sjá boðbera nálgast Jerúsalem frá fjöllunum! Hann hlýtur að hafa fréttir að færa. Hvaða fréttir? Það eru hrífandi fréttir fyrir Síon — fréttir um frið, já, fréttir um velþóknun Guðs. Það á að endurreisa musterið og Jerúsalem! Og boðberinn kunngerir sigrihrósandi gleðiröddu: „Guð þinn er setstur að völdum!“
17, 18. Hvaða áhrif hafði það á nafn Jehóva að Kýrus skyldi vinna Babýlon?
17 Þegar Jehóva leyfði Babýloníumönnum að kollvarpa táknrænu hásæti sínu, sem konungar af ætt Davíðs höfðu setið á, gat virst sem hann væri ekki konungur lengur. Mardúk, höfuðguð Babýlonar, virtist vera orðinn konungur í staðinn. En þegar Guð Síonar vann Babýlon birti hann með því alheimsdrottinvald sitt — að hann væri konunga mestur. Og til að leggja áherslu á þá staðreynd skyldi Jerúsalem, „borg hins mikla konungs,“ byggð upp að nýju ásamt musterinu. (Matteus 5:35) Þótt fætur boðberans, sem flutti slík gleðitíðindi, væru rykugir, forugir og marðir voru þeir svo sannarlega yndislegir í augum þeirra sem elskuðu Síon og Guð hennar!
18 Í spádómlegri merkingu þýddi fall Babýlonar að ríki Guðs væri stofnsett og sá sem flutti gleðitíðindin var að kunngera það. Þessi boðberi fortíðar, sem Jesaja spáði um, var auk þess fyrirboði um boðbera miklu meiri gleðitíðinda — meiri vegna hins háleita boðskapar um Guðsríki og þeirra dásemda sem það hefði í för með sér fyrir alla trúaða menn.
19. Hvaða boðskap um Ísraelsland lét Jehóva Esekíel flytja?
19 Esekíel fékk líka að bera fram glæsta endurreisnarspádóma. Hann spáði: „Svo segir [Jehóva] Guð: . . . ég [mun] aftur láta borgirnar verða byggðar, og þá skulu fallin húsin rísa úr rústum. Þá mun sagt verða: ‚Þetta land, sem komið var í auðn, er orðið eins og Edens garður.‘“ — Esekíel 36:33, 35.
20. Hvaða gleðilegu hvatningu flutti Jesaja Jerúsalem í spádómsmynd?
20 Fólk Guðs hafði syrgt Síon meðan það var í ánauð Babýlonar. (Sálmur 137:1) En nú gat það fagnað. Jesaja hvatti: „Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að [Jehóva] huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem. [Jehóva] hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.“ — Jesaja 52:9, 10.
21. Hvernig rættust orð Jesaja 52:9, 10 eftir að Babýlon féll?
21 Já, útvalin þjóð Jehóva hafði mikla ástæðu til að fagna. Hún átti að byggja aftur eyðirústirnar svo að þær yrðu eins og Edengarður. Jehóva hafði „beran gjört heilagan armlegg sinn“ í þeirra þágu. Hann bretti upp ermarnar, ef svo má segja, til að taka til hendinni og koma þeim aftur heim í ástkært heimaland sitt. Þetta var enginn smáviðburður í mannkynssögunni. Nei, allir þálifandi menn sáu Guð beita ‚berum armlegg‘ sínum til að frelsa heila þjóð með undraverðum hætti. Þeir fengu óræka sönnun fyrir því að Jesaja og Esekíel væru sannir boðberar Jehóva. Enginn gat efast um að Guð Síonar væri hinn eini lifandi og sanni Guð allrar jarðarinnar. Í Jesaja 35:2 lesum við: „Þau skulu fá að sjá vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“ Þeir sem viðurkenndu þessa sönnun fyrir guðdómi Jehóva gerðust tilbiðjendur hans.
22. (a) Hvað getum við nútímamenn verið þakklátir fyrir? (b) Af hverju ættum við að vera sérstaklega þakklát fyrir að Jehóva skuli afhjúpa falsboðbera?
22 Við getum sannarlega verið þakklát fyrir að Jehóva skuli benda á sanna boðbera sína. Hann er vissulega sá „sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna.“ (Jesaja 44:26) Endurreisnarspádómarnir, sem hann fékk Jesaja og Esekíel að flytja, upphefja sterkan kærleika hans, óverðskuldaða góðvild og miskunn við þjóna sína. Vissulega verðskuldar Jehóva lof okkar fyrir allt þetta! Og við sem nú lifum ættum að vera sérstaklega þakklát fyrir að hann skuli afhjúpa falska boðbera því að þeir eru svo margir núna í heiminum. Boðskapur þeirra, þótt tilkomumikill sé, virðir yfirlýstan tilgang Jehóva að vettugi. Næsta grein hjálpar okkur að bera kennsl á þessa fölsku boðbera.
[Neðanmáls]
a Ira Maurice Price: The Monuments and the Old Testament, 1925.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig staðfestir Jehóva hverjir séu sannir boðberar hans?
◻ Hvern nefndi Jehóva fyrir munn Jesaja sem sendimann sinn til að vinna Babýlon?
◻ Hvernig rættust spádómar Jesaja um fall Babýlonar?
◻ Hvaða góð áhrif hafði fall Babýlonar á nafn Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Samtíðarmenn Esekíels töldu Babýlon ósigrandi.