‚Enginn friður handa óguðlegum‘
„Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“ — JESAJA 57:21.
1, 2. (a) Hvað finnst mörgum um framtíð mannkynsins? (b) Hvaða árangri skilar viðleitni manna til að koma á friði?
„ÉG er mér stöðugt meðvitandi um að heimurinn gæti sprungið í loft upp hvenær sem er,“ var haft eftir bandarískum menntaskólanema í tímaritinu Psychology Today. Honum þótti líklegt að allt mannkynið myndi farast bráðlega í kjarnorkustyrjöld. Rússnesk skólastúlka lýsir afleiðingum kjarnorkustyrjaldar svo: „Allar lífverur þurrkast út — það verður ekkert gras, engin tré, engar grænar jurtir.“ Þetta eru hræðilegar framtíðarhorfur en þó eru margir þeirrar skoðunar að svona geti farið. Í nýlegri skoðanakönnun létu 40 af hundraði aðspurðra í ljós að þeir teldu „verulegar líkur“ á kjarnorkustyrjöld fyrir árið 2000. — Sjá Lúkas 21:26.
2 Veraldarleiðtogar skynja einnig hættuna. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar komu þeir á fót Sameinuðu þjóðunum í því skyni að reyna að tryggja mannkyninu frið og öryggi — en án árangurs. Þann tíma, sem liðinn er síðan, hefur magnast upp hörð samkeppni milli tveggja kjarnorkustórvelda. Endrum og eins hittast forystumenn þessara tveggja stórvelda til að freista þess að draga úr spennunni á alþjóðavettvangi, en árangurinn er rýr. Þótt trúarleiðtogar biðji um frið í bænum sínum eru aðstæður mjög líkar því sem Jesaja lýsti: „Kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.“ — Jesaja 33:7.
3. Hvers vegna er enginn möguleiki á að mönnum muni takast að koma á friði?
3 Upplýstir kristnir menn vita hvers vegna stjórnmálamönnum tekst aldrei að koma á varanlegum friði. Þeir gera sér ljóst að svo lengi sem menn eru fullir eigingirni, haturs, ágirndar, drambs og metnaðargirni tekst aldrei að tryggja frið. (Samanber Jakobsbréfið 4:1.) Auk þess hafa menn einungis takmarkaða stjórn á þeim atburðum sem hér verða. Biblían segir okkur hver heldur um stjórnvölinn: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19; 2. Korintubréf 4:4) Ástandi mannkynsins undir stjórn hans er vel lýst með orðum Jesaja: „Hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr . . . Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“ — Jesaja 57:20, 21.
„Guð friðarins“
4. Hver einn hefur mátt til að koma á friði á jörðinni?
4 Þetta merkir þó ekki að mannkynið eigi sér enga undankomuleið undan gereyðingu í kjarnorkustyrjöld. Það merkir einfaldlega að friður getur aldrei komist á af mannavöldum. Til allrar hamingju er þó til sá sem getur komið á friði, Jehóva Guð, „Guð friðarins.“ (Rómverjabréfið 16:20) Hann er nógu voldugur til að standa gegn áhrifum Satans og sú er ætlun hans að ‚blessa lýð sinn með friði.‘ (Sálmur 29:11) Auk þess hefur hann gefið þetta fagra loforð: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.
5. (a) Hvernig notaði Jehóva Daníel til að veita okkur upplýsingar um tilgang sinn? (b) Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á þessum spádómi sem Daníel skráði?
5 Endur fyrir löngu opinberaði Jehóva þá atburðarás sem yrði undanfari friðar á jörð. Fyrir milligöngu engils talaði hann við sinn trúa spámann Daníel um það sem gerast myndi á hinum „síðustu tímum,“ á okkar tímum. (Daníel 10:14) Hann sagði fyrir kapphlaup stórveldanna og sýndi fram á að það myndi fá skjótan endi á þann veg sem hvorugan þeirra býður í grun. Hann hét því að þessi óvænta þróun mála myndi boða komu ósvikins friðar. Þessi spádómur hefur geysimikla þýðingu fyrir kristna menn. Hann gefur glögga vísbendingu um hvar við stöndum í straumi tímans og styrkir ásetning okkar að varðveita hlutleysi gagnvart samkeppni þjóðanna og bíða þess hljóð að Guð gangi fram í okkar þágu. — Sálmur 146:3, 5.
Samkeppnin hefst
6. Lýstu í stuttu máli sögulegum forsendum valdabaráttu stórveldanna.
6 Sannleikurinn er sá að samkeppni risaveldanna nú á tímum er engin nýlunda. Í raun er hún framhald atburða sem áttu sér stað fyrir langa löngu. Eftir fall hins mikla heimsveldis Alexanders mikla, undir lok 4. aldar f.o.t., komust tveir af hershöfðingjum hans til valda, annar í Sýrlandi og hinn í Egyptalandi. Langvinn samkeppni hófst milli þeirra og arftaka þeirra, sem nefndir eru konungurinn norður frá og konungurinn suður frá sökum landfræðilegrar afstöðu miðað við land þjóðar Guðs. Þessi samkeppni var upphaf þeirrar sem nú er í algleymingi milli stórveldanna. Engill flutti spámanninum Daníel fyrirfram upplýsingar um þennan þátt mannkynssögunnar.
7. (a) Hvernig vitum við að ósýnileg, andleg öfl hafa hönd í bagga með málefnum manna? (b) Hver var upphaflega konungurinn norður frá og konungurinn suður frá og hvernig hófst samkeppni þeirra?
7 Fyrst lýsir engillinn því hvernig hann hafi, með stuðningi Míkaels, barist við ‚verndarengla‘ Persíu og Grikklands. (Daníel 10:13, 20-11:1) Þessi innsýn í hið andlega tilverusvið staðfestir að átök þjóða eru meira en aðeins árekstrar manna í milli. Að baki mennskra valdhafa standa illar andaverur eða ‚englar.‘ En allt frá fornu fari hafa þjónar Guðs átt sér ‚verndarengil,‘ Míkael, til að veita sér lið í baráttunni gegn þessum illu öndum. (Efesusbréfið 6:12) Síðan beinir engillinn athygli okkar að samkeppni Sýrlands og Egyptalands. Hann segir: „Og konungurinn suður frá mun öflugur verða, . . . einn af höfðingjum hans.“ (Daníel 11:5a) Konungurinn suður frá var í þessu tilviki Ptólómeus I, valdhafi Egyptalands sem tók Jerúsalem herskildi um árið 312 f.o.t. Þessu næst nefnir engillinn annan konung er muni „standa gegn honum og fara með víðtækari völd en hinn.“ (Daníel 11:5b, NW) Hér er átt við konunginn norður frá í persónu Selevkusar I Níkators, en ríki hans, Sýrland, varð voldugara en Egyptaland.
8. Hvað þýðir undraverð nákvæmni spádómsins um konunginn norður frá og konunginn suður frá fyrir kristna nútímamenn?
8 Engillinn segir fyrir í mörgum smáatriðum hina langvarandi samkeppni þeirra valdhafa í Sýrlandi og Egyptalandi sem á eftir komu. (Daníel 11:6-19) Þessir spádómar eru svo nákvæmir að sumir halda því fram að Daníelsbók hljóti að hafa verið skrifuð eftir að atburðirnir gerðust.a Í hugum kristinna manna styrkir þó stórkostleg nákvæmni þessara spádóma trú þeirra á þá hluta spádómsins sem enn á eftir að uppfyllast „á hinum síðustu tímum.“
Höfðingi sáttmálans
9. Hvernig urðu athafnir konungsins norður frá til þess að Jesús fæddist í Betlehem?
9 Ekki var við því að búast að engillinn greindi frá hverjum einasta valdhafa allt frá Ptólómeusi fram til ‚hinna síðustu tíma.‘ Eftir 19. vers hleypur spádómurinn fram til áranna rétt fyrir fæðingu Krists. Í Daníel 11:20 lesum við: „Í hans stað [konungsins norður frá] mun annar koma, er senda mun skattheimtumann til þess landsins, sem er prýði ríkisins.“ Þegar hér var komið sögu var Sýrland orðið rómverskt skattland og Ágústus Rómarkeisari tekinn við hlutverki konungsins norður frá. Það var hann sem gaf fyrirskipun um manntalið er varð til þess að Jesús fæddist í Betlehem en ekki Nasaret. — Lúkas 2:1-7; Míka 5:1.
10. Hvaða önnur tengsl konungsins norður frá og Messíasar bendir engillinn á?
10 Á eftir Ágústusi kom Tíberíus, viðurstyggilegur maður sem engillinn kallaði ‚fyrirlitlegan mann.‘ (Daníel 11:21) Í valdatíð hans var bæld niður hættuleg uppreisn við norðurlandamæri Rómaveldis og komið á friði í landamærahéruðunum. Þar með uppfylltust orð spádómsins: „Yfirvaðandi herflokkar munu skolast burt fyrir honum og eyddir verða.“ Það var einnig í hans valdatíð að rómverskir hermenn tóku Jesú af lífi til uppfyllingar þeim orðum engilsins að „sáttmálshöfðinginn“ yrði eyddur. — Daníel 11:22; 9:27.
Við ‚hinn tiltekna tíma‘
11. (a) Hverjir voru í gervi konungsins norður frá og konungsins suður frá árið 1914? (b) Hvaða spádómur uppfylltist á ‚hinum ákveðna tíma‘?
11 Að síðustu teygir spádómurinn sig fram til ‚hins tiltekna tíma‘ árið 1914. (Daníel 11:27; Lúkas 21:24) Þegar hér er komið sögu hefur þjóð Guðs tekið á sig aðra mynd. Ísrael að holdinu hefur hafnað Messíasi og andleg Ísraelsþjóð, söfnuður smurðra kristinna manna, komin í staðinn sem útvalin þjóð Jehóva. (1. Pétursbréf 2:9, 10) Konungarnir tveir hafa líka skipt um andlit. Bretland er, ásamt pólitískum félaga sínum, Bandaríkjum Norður-Ameríku, orðið konungurinn suður frá en konungurinn norður frá er núna Þýskaland. Fyrri heimsstyrjöldin var sögð fyrir með þessum orðum: „Á ákveðnum tíma mun hann [konungurinn norður frá] aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri.“ (Daníel 11:29) Konungurinn suður frá vann stríðið. Nú er annað uppi á teningnum en var í ‚fyrra sinnið,‘ það er að segja þegar hið alsigrandi Rómaveldi var konungurinn norður frá.
12. Lýstu nokkrum heimsatburðum frá 1914 sem engillinn lýsti fyrir Daníel.
12 Engillinn heldur áfram að lýsa samkeppni konunganna tveggja eftir 1914, einkum því hvernig þeir báðir beita sér gegn þjónum Jehóva. Hann segir líka að fram muni koma „viðurstyggð eyðingarinnar“ sem núna ber nafnið Sameinuðu þjóðirnar. (Daníel 11:31) Konungarnir unnu saman að því að setja Sameinuðu þjóðirnar á stofn í von um að þær kæmu á friði. En sú tilraun var dæmd til að mistakast sökum þess að hún gekk í berhögg við ríki Guðs.b (Matteus 24:15; Opinberunarbókin 17:3, 8) Að lokum beinir engillinn athygli okkar að „endalokunum.“ — Daníel 11:40.
Tími ‚endalokanna‘
13. (a) Hvað merkja ‚endalokin‘ í þessum hluta spádómsins? (b) Hverjir hafa verið í gervi konungsins norður frá og konungsins suður frá frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar?
13 Hvenær er sá tími? Stundum er þetta orðalag notað um endalokatíma þessa heimskerfis, tímabilið frá 1914 fram til Harmagedón. (Daníel 8:17, 19; 12:4) En atburðum ársins 1914, ‚hins ákveðna tíma,‘ var lýst í versi 29 og spádómur engilsins er kominn miklu lengra í tímanum.c ‚Endalokatíminn,‘ sem nefndur er hér í 40. versinu, hlýtur því að vera lokastig hinnar 2300 ára baráttu milli konungsins norður frá og konungsins suður frá. Við lesum því áfram af mikilli athygli, því að nú fréttum við af atburðum sem eiga að gerast í nánustu framtíð. Þegar þar er komið sögu hefur valdajafnvægið í heiminum breyst þannig að konungarnir hafa enn fengið ný andlit. Eftir að nasista- og fasistaöflin féllu við lok síðari heimsstyrjaldarinnar höfum við verið sjónarvottar að miklu kapphlaupi tveggja risavelda. Annað er konungurinn norður frá sem ræður yfir aðallega sósíalskri þjóðafylkingu, og hitt er konungurinn suður frá sem drottnar yfir aðallega auðvaldssinnaðri þjóðafylkingu.
14. Hvernig lýsir engillinn konunginum norður frá?
14 Eðlisfari þessa síðasta konungs norður frá er vel lýst í versum 37 og 38: „Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, . . . en guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum.“ Getur nokkur misskilið þessa lýsingu? Konungurinn norður frá, sem nú er, er yfirlýstur guðsafneitari og hafnar þeim guðum sem forverar hans hafa dýrkað. Í staðinn reiðir hann sig á vopn og vígbúnað, „guð virkjanna.“ Það hefur stuðlað að vitfirringslegu vígbúnaðarkapphlaupi sem konungarnir tveir bera báðir ábyrgð á. Árið 1985 varði konungurinn norður frá hátt í 12.000 milljörðum króna til varnarmála. Það er mikil fórn ‚gulls og silfurs, dýrra steina og gersema‘ sem hinum óseðjandi herguði er færð!
15, 16. (a) Hvernig munu málin þróast milli konunganna norður frá og suður frá? (b) Hvað mun það þýða fyrir þjóna Guðs?
15 Hvernig lyktar þá kapphlaupi þessara tveggja konunga? Engillinn segir: „Þegar að endalokunum líður [sögulokum þessara tveggja konunga], mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann, og konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum.“ (Daníel 11:40; Matteus 24:3) Ljóst er að kapphlaup risaveldanna verður ekki leyst með leiðtogafundum. Konungurinn suður frá stjakar við konunginum norður frá og konungurinn norður frá stefnir leynt og ljóst að því að auka yfirráð sín. Þetta veldur spennu þeirra í milli sem er breytileg eftir tíma og aðstæðum, en að því kemur að einhverra orsaka vegna lætur konungurinn norður frá espa sig til þeirra miklu ofbeldisverka sem Daníel lýsir.d
16 Hinir síðustu dagar eru sérlega erfiðir fyrir þjóna Guðs sem báðir konungarnir hafa ofsótt nú á okkar öld. Engillinn varaði við því að konungurinn norður frá myndi „brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna, og tíþúsundir munu að velli lagðar.“ „Landið, sem er prýði landanna,“ er hið táknræna land sem þjónar Guðs byggja. Orð engilsins hljóta því að merkja að auk þess að leggja undir sig margar þjóðir muni konungurinn norður frá ráðast á hið andlega yfirráðasvæði þjóna Jehóva. (Daníel 8:9; 11:41-44; Esekíel 20:6) Í 45. versi bætir spádómurinn við: „Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði.“ Með öðrum orðum mun hann búa sig undir að gera lokaárás á andlega paradís þeirra.
„ . . . undir lok líða“
17. Hvaða óvæntir atburðir munu reita konunginn norður frá til reiði?
17 En þegar þar er komið sögu hafa gerst atburðir sem hvorugur konunganna sá fyrir. Engillinn spáir: „En fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann [konunginn norður frá]. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum.“ — Daníel 11:44.
18. (a) Hvaðan eru ‚fregnirnar‘ komnar sem engillinn nefnir? (b) Hvernig mun fara fyrir konunginum norður frá?
18 Hverjar verða þessar fregnir? Engillinn getur þess ekki en upplýsir þó hvaðan þær koma — „frá austri,“ og Jehóva Guð og Jesús Kristur eru sagðir vera ‚konungarnir, þeir er koma úr austri.‘ (Opinberunarbókin 16:12) Þessar fregnir koma líka úr „norðri“ og Biblían talar á táknmáli um Síonfjall, borg hins mikla konungs Jehóva, sem „yst í norðri.“ (Sálmur 48:3) Það eru því „fregnir“ frá Jehóva Guði og Jesú Kristi sem senda konunginn norður frá í sína síðustu miklu herför. En hún mun enda með skelfingu fyrir hann. Síðari hluti 45. vers segir okkur: „Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.“
19. (a) Hvernig mun fara annars vegar fyrir hinum ‚hreinskilnu‘ og hins vegar fyrir heiminum? (b) Hvaða spurningum er ósvarað?
19 Svo sannarlega er „hinum óguðlegu . . . enginn friður búinn.“ (Jesaja 57:21) Saga konungsins norður frá mun því einkennast af stríði og hernaði allt til enda. Jehóva heitir hins vegar trúföstum þjónum sínum: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) En hvað mun verða um konunginn suður frá þegar konungurinn norður frá ‚líður undir lok‘? Hvað verður um kristna menn þegar konungurinn norður frá ‚slær skrauttjöldum sínum‘ á stað þar sem hann ógnar þeim? (Daníel 11:45) Hvernig mun loksins komast á friður á jörðinni? Í gegnum engil sinn hefur Jehóva svarað þessum spurningum eins og við munum komast að raun um í greinunum hér á eftir.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar er að finna í bókinni „Your Will Be Done On Earth,“ 10. kafla, útgefin 1958 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Nánari upplýsingar um þennan hluta spádómsins er að finna í bókinni „Your Will Be Done On Earth,“ 11. kafla.
c Taktu líka eftir að í 35. versi er ‚endalokatíminn‘ enn sagður vera ókominn.
d Sjá „Your Will Be Done On Earth,“ bls. 298-303.
Nokkur aðalatriði
◻ Hvaða andaöfl hafa haft áhrif á stjórnmál mannanna?
◻ Hverjir voru konungurinn norður frá og konungurinn suður frá árið 1914?
◻ Hvernig dýrkar konungurinn norður frá guð virkjanna?
◻ Hvað munu þjónar Guðs þurfa að þola af hendi konungsins norður frá?
◻ Hvernig mun að lokum fara fyrir konunginum norður frá?
[Kort/mynd á blaðsiðu 20]
Hafið mikla
Sýrland
Júdea
Egyptaland
[Mynd credit line á blaðsiðu 19]
Ljósmynd: Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna.