20. kafli
Hönd Jehóva er ekki stutt
1. Hvernig er ástandið í Júda og hvers spyrja margir?
JÚDAMENN fullyrða að þeir séu í sáttmálasambandi við Jehóva. En erfiðleikar eru á hverju strái. Réttlæti er af skornum skammti, glæpir og kúgun í algleymingi og allar vonir um breytingu til batnaðar bregðast. Eitthvað mikið er að. Mörgum er spurn hvort Jehóva eigi einhvern tíma eftir að bæta ástandið. Þannig er staðan á dögum Jesaja. En lýsing hans á þessu tímabili er meira en aðeins forn saga því að í henni er fólgin spádómleg viðvörun til þeirra sem segjast dýrka Guð en hunsa lög hans. Og hinn innblásni spádómur í 59. kafla Jesajabókar hefur að geyma hlýlega hvatningu til allra sem leitast við að þjóna Jehóva á erfiðum og hættulegum tímum.
Einangraðir frá hinum sanna Guði
2, 3. Hvers vegna verndar Jehóva ekki Júda?
2 Hugsaðu þér — sáttmálaþjóð Jehóva hefur svikið hann! Hún hefur snúið baki við skapara sínum og slitið sig undan verndarhendi hans svo að hún er í miklum nauðum. Kannski kennir hún Jehóva um en Jesaja segir henni: „Sjá, hönd [Jehóva] er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki. Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.“ — Jesaja 59:1, 2.
3 Þetta eru hreinskilnisleg orð en sönn. Jehóva er hjálpræðisguð enn sem fyrr. Hann „heyrir bænir“ trúfastra þjóna sinna. (Sálmur 65:3) En hann blessar ekki syndara. Skilnaður landsmanna frá honum er sjálfum þeim að kenna. Það er illska sjálfra þeirra sem veldur því að hann byrgir auglit sitt fyrir þeim.
4. Hvaða sakir eru bornar á Júda?
4 Saga Júdamanna er í sannleika sagt skelfileg. Sumar sakirnar á hendur þeim eru tíundaðar í spádómi Jesaja: „Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.“ (Jesaja 59:3) Landsmenn ljúga og fara með illsku. Orðin „hendur yðar eru blóði ataðar,“ gefa til kynna að sumir hafi jafnvel framið morð. Þetta er mikil vanvirða við Guð en hann bannar morð í lögmálinu og fyrirbýður mönnum einnig að ‚hata bróður sinn í hjarta sínu.‘ (3. Mósebók 19:17) Taumlaus spilling Júdamanna og óhjákvæmilegar afleiðingar hennar ættu að minna okkur öll á að hafa hemil á syndsamlegum hugsunum og viðhorfum. Ella gæti svo farið að við gerðum okkur sek um vonskuverk sem myndu gera okkur viðskila við Guð. — Rómverjabréfið 12:9; Galatabréfið 5:15; Jakobsbréfið 1:14, 15.
5. Hversu djúpt eru Júdamenn sokknir í spillinguna?
5 Syndin hefur lagst eins og sýki á alla þjóðina. Spádómurinn segir: „Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir.“ (Jesaja 59:4) Réttlæti fyrirfinnst ekki. Það er jafnvel sjaldgæft að finna traustan og áreiðanlegan mann við dómstóla landsins. Júdamenn hafa snúið baki við Jehóva, reiða sig á bandalög við þjóðirnar og treysta jafnvel á líflaus skurðgoð. En allt er þetta gagnslaus ‚hégómi.‘ (Jesaja 40:17, 23; 41:29) Nóg er svo sem talað en allt er það lygi. Menn gera áætlanir en árangurinn er ranglæti og illgjörðir.
6. Hvað er líkt með kristna heiminum og Júda?
6 Ranglæti og ofbeldi Júdamanna á sér sláandi hliðstæðu í kristna heiminum. (Sjá „Fráhvarfsborgin Jerúsalem — hliðstæða kristna heimsins,“ á bls. 294.) Svokallaðar kristnar þjóðir hafa átt hlutdeild í tveim grimmilegum heimsstyrjöldum, og kirkjudeildunum hefur enn ekki tekist að stöðva þjóðernishreinsanir og ættflokkadráp sóknarbarna sinna. (2. Tímóteusarbréf 3:5) Jesús kenndi fylgjendum sínum að treysta á ríki Guðs en þjóðir kristna heimsins halda áfram að reiða sig á herbúnað og stjórnmálabandalög. (Matteus 6:10) Reyndar eru flestir af mestu vopnaframleiðendum heims í þeim löndum sem kallast kristin! Kirkjudeildir kristna heimsins treysta líka á „hégóma“ með því að reiða sig á það að menn og mannastofnanir tryggi örugga framtíð.
Beiskar afleiðingar
7. Hvers vegna eru fyrirætlanir Júdamanna einungis til skaðræðis?
7 Heilbrigt þjóðfélag getur ekki byggst á skurðgoðadýrkun og óheiðarleika, og með hátterni sínu uppskera hinir ótrúu Gyðingar erfiðleika eins og þeir hafa til sáð. Við lesum: „Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.“ (Jesaja 59:5) Fyrirætlanir Júdamanna eru til einskis, allt frá því að hugmynd kviknar uns hún er framkvæmd. Rangur hugsunarháttur þeirra veldur einungis skaðræði, rétt eins og höggormar skríða úr höggormseggjum. Og þjóðin líður fyrir.
8. Í hverju birtist brenglaður hugsunarháttur Júdamanna?
8 Sumir Júdamenn reyna kannski að verja hendur sínar með ofbeldi en án árangurs. Vernd Jehóva byggist á því að treysta honum og stunda réttlæti. Valdbeiting veitir ekki frekar vernd en köngulóarvefur getur komið í stað fatnaðar sem skjól fyrir veðri og vindum. Jesaja segir: „Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra. Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra.“ (Jesaja 59:6, 7) Hugsunarháttur Júdamanna er brenglaður. Þeir reyna að leysa vandamál sín með ofbeldi en afhjúpa óguðlegt hugarfar sitt í leiðinni. Þeim stendur á sama um það þótt mörg fórnarlömb þeirra séu saklaus og sum þjóni Guði í trú og trygglyndi.
9. Af hverju geta leiðtogar kristna heimsins ekki höndlað sannan frið?
9 Þessi innblásnu orð minna á blóðuga sögu kristna heimsins. Jehóva hlýtur að láta hann svara til saka fyrir það að rangsnúa kristninni gróflega. Kristni heimurinn er á villigötum í siðferðismálum af því að leiðtogar hans trúa, líkt og Gyðingarnir á tímum Jesaja, að stefna sín sé sú eina raunhæfa. Þeir sýna af sér þá tvöfeldni að tala um frið en stunda ranglæti. En kristni heimurinn getur ekki höndlað sannan frið meðan leiðtogar hans beita þessum aðferðum. Spádómurinn heldur áfram: „Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.“ — Jesaja 59:8.
Þeir fálma í andlegu myrkri
10. Hvað játar Jesaja fyrir hönd Júda?
10 Jehóva getur ekki blessað undirferli og skaðsemi Júdamanna. (Sálmur 11:5) Jesaja talar fyrir munn allrar þjóðarinnar og játar sekt hennar: „Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu. Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn. Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur.“ (Jesaja 59:9-11a) Gyðingar hafa ekki notað orð Guðs sem lampa fóta sinna og sem ljós á vegum sínum svo að útlitið er dökkt. (Sálmur 119:105) Þeir fálma eins og í myrkri, jafnvel um hábjartan dag. Þeir eru eins og dauðir menn. Svo heitt þrá þeir hvíld að þeir rymja eins og soltinn eða særður björn, og sumir kurra dapurlega eins og einmana dúfa.
11. Hvers vegna hljóta vonir Júdamanna um réttlæti og hjálpræði að bregðast?
11 Jesaja veit mætavel að nauðir Júdamanna eru afleiðing uppreisnar gegn Guði. Hann segir: „Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss. Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér. Vér höfum horfið frá [Jehóva] og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.“ (Jesaja 59:11b-13) Júdamenn hafa ekki iðrast, þannig að syndir þeirra vitna enn gegn þeim. Réttlæti er horfið úr landinu vegna þess að fólkið hefur yfirgefið Jehóva. Lygin er allsráðandi og menn kúga jafnvel bræður sína. Þetta er harla líkt kristna heiminum þar sem margir bæði hunsa réttlætið og ofsækja trúfasta votta Jehóva sem leitast við að gera vilja hans.
Jehóva fullnægir dómi
12. Hvernig hugsa þeir sem eiga að framfylgja réttlætinu í Júda?
12 Í Júda virðist hvorki vera til réttlæti, réttvísi né sannleikur. „Rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.“ (Jesaja 59:14) Öldungar komu saman á strætum eða torgum innan við borgarhliðin í Júda til að dæma í málum manna. (Rutarbók 4:1, 2, 11) Þeir áttu að fella réttláta og réttvísa dóma og máttu ekki þiggja mútur. (5. Mósebók 16:18-20) En nú dæma þessir menn eftir eigin geðþótta og það sem verra er, þeir telja alla sem vilja gera gott auðvelda bráð. Við lesum: „Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi.“ — Jesaja 59:15a.
13. Hvað ætlar Jehóva að gera fyrst dómarar Júda eru hirðulausir?
13 Þeir sem andmæla ekki siðspillingunni gleyma að Guð er hvorki blindur, fávís né máttlaus. Jesaja skrifar: „[Jehóva] sá það, og honum mislíkaði réttleysið. Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.“ (Jesaja 59:15b, 16) Jehóva ætlar að skerast í leikinn fyrst hinir útnefndu dómarar eru hirðulausir um skyldur sínar, og hann gerir það með réttlæti og krafti.
14. (a) Hver er afstaða margra nú á tímum? (b) Hvernig býr Jehóva sig til aðgerða?
14 Ástandið er svipað nú á tímum. Við lifum í heimi þar sem margir eru siðferðilega „tilfinningalausir.“ (Efesusbréfið 4:19) Fáir trúa að Jehóva taki nokkurn tíma af skarið og uppræti illskuna af jörðinni. En spádómur Jesaja bendir á að hann fylgist grannt með mönnunum, og felli dóma og fullnægi þeim þegar tímabært er. Eru dómar hans sanngjarnir? Jesaja bendir á að svo sé og skrifar Júdamönnum: „Hann [Jehóva] íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.“ (Jesaja 59:17) Þessi spádómlegu orð lýsa Jehóva sem hermanni er býr sig til bardaga. Hann er ákveðinn í að láta ‚hjálpræðið‘ ná fram að ganga og öruggur um algert og óvinnandi réttlæti sitt. Hann fullnægir dómum sínum með vandlæti. Það leikur enginn vafi á að réttlætið sigrar.
15. (a) Hvað gera sannkristnir menn þegar Jehóva fullnægir dómi? (b) Hvað er hægt að segja um dóma Jehóva?
15 Andstæðingar sannleikans reyna sums staðar að tálma þjónum Jehóva í starfi með því að ófrægja þá og reka áróður gegn þeim. Sannkristnir menn hika ekki við að verja sannleikann en þeir reyna aldrei að hefna sín persónulega. (Rómverjabréfið 12:19) Dýrkendur Jehóva á jörðinni koma ekki einu sinni nálægt því að fullnægja dómi hans yfir kristna heiminum þegar þar að kemur. Þeir vita að Jehóva ætlar sjálfur að fullnægja hefnd og gerir það í fyllingu tímans. Spádómurinn lofar: „Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.“ (Jesaja 59:18) Dómar Guðs verða bæði sanngjarnir og algerir, líkt og á dögum Jesaja. Þeir ná jafnvel til ‚fjarlægra landsálfa.‘ Enginn staður er svo afskekktur að dómar hans nái ekki þangað.
16. Hverjir bjargast þegar Jehóva fullnægir dómi og hvað læra þeir af björguninni?
16 Jehóva fellir réttlátan dóm yfir þeim sem leggja sig fram um að gera rétt. Jesaja boðar að þeir muni bjargast hvar sem þeir búa á jörðinni. Og virðing þeirra og lotning fyrir honum mun styrkjast verulega er þeir kynnast vernd hans af eigin raun. (Malakí 1:11) Við lesum: „Menn munu óttast nafn [Jehóva] í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur [Jehóva] knýr áfram.“ (Jesaja 59:19) Andi Jehóva sópar burt öllum hindrunum í vegi þess að vilji hans nái fram að ganga, líkt og sterkur stormur hrífur með sér flóðbylgju er sópar burt öllu sem á vegi verður. Andi hans er máttugri en nokkurt afl sem menn ráða yfir. Er hann fullnægir dómi yfir mönnum og þjóðum gerir hann það fullkomlega og algerlega.
Von og blessun iðrandi manna
17. Hver er frelsari Síonar og hvenær frelsar hann hana?
17 Jehóva talaði um sig fyrr í Jesajabók sem frelsara iðrandi manna. (Jesaja 48:17) Nú er hann aftur nefndur frelsari þeirra. Jesaja skrásetur loforð hans: „Til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum — segir [Jehóva].“ (Jesaja 59:20) Þetta hughreystandi loforð rætist árið 537 f.o.t. En Páll postuli bendir á að það rætist aftur, vitnar í það samkvæmt Sjötíumannaþýðingunni og heimfærir upp á kristna menn. Hann segir: „Þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob. Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra.“ (Rómverjabréfið 11:26, 27) Uppfylling spádómsins er reyndar mjög langdræg því að hún nær allt til okkar tíma og lengra. Hvernig?
18. Hvenær og hvernig varð „Ísrael Guðs“ til?
18 Litlar leifar Gyðinga viðurkenndu Jesú sem Messías á fyrstu öld. (Rómverjabréfið 9:27; 11:5) Á hvítasunnu árið 33 úthellti Jehóva heilögum anda yfir hér um bil 120 af þessum trúuðu mönnum og veitti þeim aðild að nýjum sáttmála sínum fyrir meðalgöngu Jesú Krists. (Jeremía 31:31-33; Hebreabréfið 9:15) Á þeim degi varð til ný þjóð sem var getin af anda Guðs. Blóðtengsl við Abraham skiptu ekki lengur máli. Hún var nefnd „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Óumskornum heiðingjum var svo bætt við hina nýju þjóð frá og með Kornelíusi. (Postulasagan 10:24-48; Opinberunarbókin 5:9, 10) Jehóva Guð ættleiddi þá svo að þeir urðu andleg börn hans og samerfingjar Jesú. — Rómverjabréfið 8:16, 17.
19. Hvaða sáttmála gerir Jehóva við Ísrael Guðs?
19 Jehóva gerir nú sáttmála við Ísrael Guðs. Við lesum: „Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá — segir [Jehóva]: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, — segir [Jehóva], — héðan í frá og að eilífu.“ (Jesaja 59:21) Við vitum ekki hvort þessi orð rættust á Jesaja sjálfum en þau rættust örugglega á Jesú sem var lofað því að „fá að líta afsprengi.“ (Jesaja 53:10) Jesús talaði það sem hann lærði af Jehóva og andi Jehóva var yfir honum. (Jóhannes 1:18; 7:16) Bræður hans og samerfingjar, sem tilheyra Ísrael Guðs, fá líka heilagan anda og flytja boðskap sem þeir læra af föður sínum á himnum. Þeir eru allir ‚lærisveinar Jehóva.‘ (Jesaja 54:13; Lúkas 12:12; Postulasagan 2:38) Jehóva gerir nú þann sáttmála fyrir milligöngu Jesaja eða Jesú, sem Jesaja táknar, að nota þá eilíflega sem votta sína en velja aldrei einhverja aðra í staðinn. (Jesaja 43:10) En hverjir eru ‚niðjar‘ þeirra sem eiga líka að njóta góðs af sáttmálanum?
20. Hvernig rættist loforð Jehóva við Abraham á fyrstu öld?
20 Jehóva hét Abraham endur fyrir löngu: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) Hinir fáu Ísraelsmenn að holdinu, sem tóku við Messíasi, héldu út til margra þjóða og boðuðu fagnaðarerindið um Krist. Frá og með Kornelíusi hlutu margir óumskornir heiðingjar blessun fyrir atbeina Jesú sem var afkvæmi eða sæði Abrahams. Þeir sameinuðust Ísrael Guðs og urðu viðbótarsæði Abrahams. Þeir eru hluti af ‚heilagri þjóð‘ Jehóva sem hefur það verkefni að „‚víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ — 1. Pétursbréf 2:9; Galatabréfið 3:7-9, 14, 26-29.
21. (a) Hvaða „niðja“ hefur Ísrael Guðs eignast í nútímanum? (b) Hvernig er sáttmáli Jehóva við Ísrael Guðs þessum ‚niðjum‘ til hvatningar?
21 Núna virðist vera búið að safna Ísrael Guðs saman. En þjóðirnar hljóta blessun áfram í stórkostlegum mæli því að Ísrael Guðs hefur eignast „niðja.“ Þetta eru lærisveinar Jesú sem eiga von um eilíft líf í paradís á jörð og Jehóva kennir þeim vegi sína. (Sálmur 37:11, 29; Jesaja 2:2-4) Þeir eru hvorki skírðir með heilögum anda Jehóva né teljast eiga aðild að nýja sáttmálanum, en andinn styrkir þá engu að síður svo að þeir geta yfirstigið alla tálma sem Satan leggur í götu boðunarstarfsins. (Jesaja 40:28-31) Þeir skipta orðið milljónum og þeim heldur áfram að fjölga því að þeir eignast sjálfir niðja. Sáttmáli Jehóva við hina smurðu gefur þessum ‚niðjum‘ það traust að hann noti þá líka sem talsmenn sína að eilífu. — Opinberunarbókin 21:3, 4, 7.
22. Hvaða traust getum við borið til Jehóva og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
22 Megum við öll viðhalda trúnni á Jehóva. Hann er bæði fús til að bjarga og fær um það! Hönd hans er ekki stutt og verður aldrei. Hann mun alltaf frelsa trúa þjóna sína. Allir sem treysta honum hafa hin góðu orð hans í munni sér „héðan í frá og að eilífu.“
[Rammagrein á blaðsíðu 294]
Fráhvarfsborgin Jerúsalem — hliðstæða kristna heimsins
Jerúsalem, höfuðborg útvalinnar þjóðar Guðs, táknar bæði himneskt andaveruskipulag hans og smurða kristna menn reista upp til himna sem brúði Krists. (Galatabréfið 4:25, 26; Opinberunarbókin 21:2) En oft voru Jerúsalembúar ótrúir honum og borginni var líkt við hórkonu og skækju. (Esekíel 16:3, 15, 30-42) Sem slík var borgin viðeigandi fyrirmynd kristna heimsins sem hefur svikið Guð.
Jesús sagði að Jerúsalem ‚lífléti spámennina og grýtti þá sem sendir væru til hennar.‘ (Lúkas 13:34; Matteus 16:21) Kristni heimurinn segist þjóna hinum sanna Guði, líkt og hin ótrúa Jerúsalem hélt fram, en er fjarlægur réttlátum vegum hans. Við megum treysta því að Jehóva dæmi kristna heiminn eftir sama réttláta mælikvarðanum og hann dæmdi fráhvarfsborgina Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 296]
Dómari á að fella réttláta og réttvísa dóma og má ekki þiggja mútur.
[Mynd á blaðsíðu 298]
Dómar Jehóva munu sópa burt öllum hindrunum á vegi þess að vilji hans nái fram að ganga, líkt og á sem flæðir yfir bakka sína.
[Mynd á blaðsíðu 302]
Jehóva heitir því í sáttmála sínum að fólk hans verði vottar hans að eilífu.