Notaðu viturlega kristið frelsi þitt
„Þér eruð frjálsir menn, . . . breytið . . . sem þjónar Guðs.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:16.
1. Hvaða frelsi glataði Adam og hvaða frelsi mun Jehóva veita mannkyninu aftur?
ÞEGAR fyrstu foreldrar okkar syndguðu í Edengarðinum fyrirgerðu þeir miklum verðmætum sem þeir hefðu getað gefið börnum sínum í arf — frelsi undan synd og spillingu. Af því leiðir að við erum öll fædd sem þrælar spillingar og dauða. Til allrar hamingju ætlar Jehóva þó að lyfta trúföstum mönnum aftur upp til stórkostlegs frelsis. Núna bíða réttsinnaðir menn óþreyjufullir eftir að „Guðs börn verði opinber“ en af því mun leiða að þeir verða ‚leystir úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:19-21.
‚Smurðir til að prédika‘
2, 3. (a) Hverjir eru „Guðs börn“? (b) Hvaða stórkostlegrar stöðu njóta þeir og hvaða ábyrgð fylgir henni?
2 Hver eru þessi „Guðs börn“? Þau eru andasmurðir bræður Jesú sem verða meðstjórnendur hans í ríkinu á himnum. Þeir fyrstu komu fram á sjónarsviðið á fyrstu öld okkar tímatals. Þeir tóku við þeim frelsandi sannleika sem Jesús kenndi og frá og með hvítasunnunni árið 33 áttu þeir hlutdeild í þeim dýrlegu sérréttindum sem Pétur talaði um þegar hann skrifaði þeim: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.‘“ — 1. Pétursbréf 2:9a; Jóhannes 8:32.
3 Hvílík blessun — að vera eignarlýður Guðs! Og leifar þessara smurðu sona Guðs nú á tímum njóta sömu blessunarríku stöðu frammi fyrir Guði. En svona miklum sérréttindum og upphefð fylgir ábyrgð. Pétur beindi athyglinni að henni þegar hann hélt áfram: „‚Þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ — 1. Pétursbréf 2:9b.
4. Hvernig hafa smurðir kristnir menn rækt þá ábyrgð sem fylgir kristnu frelsi þeirra?
4 Hafa smurðir kristnir menn rækt þessa ábyrgð að víðfrægja dáðir Guðs? Já. Í spádómi um hina smurðu frá 1919 sagði Jesaja: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að [Jehóva] hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, til að boða náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors.“ (Jesaja 61:1, 2) Smurðar leifar nútímans boða öðrum fagnaðarerindi frelsisins kostgæfilega og fylgja með því fordæmi Jesú sem þessi ritningarstaður átti fyrst og fremst við. — Matteus 4:23-25; Lúkas 4:14-21.
5, 6. (a) Hver er árangurinn af kappsfullri prédikun smurðra kristinna manna? (b) Hvaða sérréttinda og ábyrgðar nýtur múgurinn mikli?
5 Sökum kappsfullrar prédikunar þeirra hefur komið fram á sjónarsviðið mikill múgur annarra sauða núna á síðustu dögum. Þeir eru komnir af öllum þjóðum til að ganga í lið með hinum smurðu í þjónustu Jehóva, og sannleikurinn hefur einnig veitt þeim frelsi. (Sakaría 8:23; Jóhannes 10:16) Eins og Abraham eru þeir lýstir réttlátir vegna trúar og hafa eignast náið samband við Jehóva Guð. Og líkt og Rahab eiga þeir björgun í vændum sökum þess að þeir eru lýstir réttlátir — í þeirra tilfelli björgun í Harmagedón. (Jakobsbréfið 2:23-25; Opinberunarbókin 16:14, 16) En þessum miklu sérréttindum fylgir líka sú ábyrgð að segja öðrum frá dýrð Guðs. Þess vegna sá Jóhannes þá lofa Jehóva opinberlega, „hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14.
6 Ásamt þeim fáu sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum notaði múgurinn mikli, sem nú telur yfir fjórar milljónir, næstum einn milljarð klukkustunda á síðasta ári til að víðfrægja dáðir Jehóva. Þeir hefðu ekki getað notað andlegt frelsi sitt betur.
„Heiðrið keisarann“
7, 8. Hvaða ábyrgð gagnvart veraldlegum yfirvöldum er fólgin í kristnu frelsi og hvaða röng viðhorf verðum við að forðast í þessu efni?
7 Kristið frelsi okkar felur í sér margs konar aðra ábyrgð. Pétur benti á nokkra þætti hennar er hann skrifaði: „Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ (1. Pétursbréf 2:17) Hvað er gefið í skyn með orðunum „heiðrið keisarann“?
8 ‚Keisarinn‘ táknar veraldleg yfirvöld. Núna er virðingarleysi fyrir yfirvöldum orðið mjög útbreitt um heim allan og þessi andi getur hæglega haft áhrif á kristna menn. Kristinn maður getur meira að segja farið að velta fyrir sér hvers vegna hann eigi að ‚heiðra keisarann‘ úr því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í ljósi þessara orða gæti honum fundist að hann megi óhlýðnast lögum sem eru óþægileg fyrir hann og skjóta undan skatti ef hann kemst upp með það. En það gengi í berhögg við skýrt boð Jesú þess efnis að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er.‘ Hann væri í reynd að ‚nota frelsið sem hjúp yfir vonskuna.‘ — Matteus 22:21; 1. Pétursbréf 2:16.
9. Nefndu tvær góðar ástæður fyrir að vera hlýðin veraldlegum yfirvöldum.
9 Kristnum mönnum er skylt að heiðra yfirvöld og vera þeim undirgefin — jafnvel þótt það sé afstæð undirgefni. (Postulasagan 5:29) Hvers vegna? Í 1. Pétursbréfi 2:14, 15 bendir Pétur á þrjár ástæður þegar hann segir að yfirvöld séu ‚send (af Guði) til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.‘ Óttinn við refsingu er næg ástæða til að hlýða yfirvöldum. Hvílík skömm væri það fyrir einn af vottum Jehóva að vera sektaður eða fangelsaður fyrir líkamsárás, þjófnað eða einhven annan glæp! Reyndu að ímynda þér hvílíkt yndi sumir myndu hafa af því að blása slíkt upp! Á hinn bóginn hljótum við lof réttsýnna valdsherra þegar við getum okkur orð fyrir að vera hlýðnir þegnar. Við getum fyrir vikið fengið meira frelsi til að boða fagnaðarerindið. Enn fremur ‚þöggum við niður vanþekkingu heimskra manna með því að breyta vel.‘ (1. Pétursbréf 2:15b) Þetta er önnur ástæða til að hlýða yfirvöldum. — Rómverjabréfið 13:3.
10. Hver er mikilvægasta ástæðan fyrir að hlýða veraldlegum yfirvöldum?
10 En það er enn mikilvægari ástæða fyrir því. Yfirvöldin standa með leyfi Jehóva. Eins og Pétur segir eru hinir pólitísku stjórnendur „sendir“ af Jehóva og það er „vilji Guðs“ að kristnir menn séu þeim undirgefnir. (1. Pétursbréf 2:15a) Páll postuli tekur í sama streng: „Ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“ Þess vegna kemur samviska okkar, sem er uppfrædd frá Biblíunni, okkur til að hlýða yfirvöldum. Ef við neitum að beygja okkur undir þau erum við að ‚veita Guðs tilskipun mótstöðu.‘ (Rómverjabréfið 13:1, 2, 5) Hver okkar á meðal myndi að yfirlögðu ráði vilja taka afstöðu gegn ráðstöfun Guðs? Það væri alvarleg misnotkun kristins frelsis.
„Elskið bræðrafélagið“
11, 12. (a) Hvaða ábyrgð gagnvart trúbræðrum fylgir kristnu frelsi okkar? (b) Hverjir verðskulda sérstaklega kærleika okkar og tillitssemi og hvers vegna?
11 Pétur sagði einnig að kristinn maður ætti að ‚elska bræðrafélagið.‘ (1. Pétursbréf 2:17) Það er önnur ábyrgð sem fylgir kristnu frelsi. Flest tilheyrum við söfnuði. Já, við tilheyrum öll alþjóðlegu bræðrafélagi eða bræðaskipulagi. Það er viturleg notkun frelsis okkar að sýna bræðrum okkar kærleika. — Jóhannes 15:12, 13.
12 Páll postuli nefnir ákveðinn hóp kristinna manna sem verðskulda kærleika okkar alveg sérstaklega. Hann sagði: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Það eru öldungarnir sem fara með forystuna í söfnuðinum. Að vísu eru þessir menn ekki fullkomnir. Eigi að síður eru þeir útnefndir undir yfirumsjón hins stjórnandi ráðs. Þeir taka forystuna með fordæmi sínu og tillitssemi og þeim er falið að vaka yfir sálum okkar. Þetta er mikið ábyrgðarstarf. (Hebreabréfið 13:7) Sem betur fer ríkir góður samstarfsandi í flestum söfnuðum og það er ánægjulegt fyrir öldungana að vinna með þeim. Það er erfiðara þegar einstaklingar vilja ekki vera samvinnuþýðir. Öldungurinn vinnur eftir sem áður verk sitt en eins og Páll segir gerir hann það „andvarpandi.“ Við viljum sannarlega ekki koma öldungunum til að andvarpa! Við viljum að þeir hafi gleði af starfi sínu þannig að þeir geti byggt okkur upp.
13. Nefndu nokkrar leiðir til að vera samvinnuþýð við öldungana.
13 Hvernig getum við verið samvinnuþýð við öldungana? Meðal annars með því að hjálpa til við hreingerningu og viðhald ríkissalarins. Við erum einnig samvinnuþýð með því að heimsækja sjúka og hjálpa fötluðum. Eins getum við lagt kapp á að halda okkur andlega sterkum þannig að við verðum ekki til þyngsla. Mikilvæg leið til að vera samvinnuþýð felst í því að halda söfnuðinum siðferðilega og andlega hreinum, bæði með eigin hegðun og með því að láta vita af alvarlegri synd sem við fáum vitneskju um.
14. Hvernig ættum við að vera samvinnuþýð þegar öldungarnir grípa til ögunaraðgerða?
14 Stundum verða öldungar að gera iðrunarlausan syndara rækan til að halda söfnuðinum hreinum. (1. Korintubréf 5:1-5) Það er vernd fyrir söfnuðinn. Það getur líka verið syndaranum til hjálpar. Oft hefur slíkur agi stuðlað að því að koma vitinu fyrir syndarann. En hvað þá ef hinn brottræki er náinn vinur eða ættingi? Setjum sem svo að einstaklingurinn sé faðir þinn eða móðir, sonur þinn eða dóttir. Erum við samt sem áður samvinnuþýð og virðum aðgerðir öldunganna? Það getur að vísu verið erfitt, en það væri alvarleg misnotkun frelsisins að véfengja ákvörðun öldunganna og halda áfram að eiga félagsskap við þann sem hefur reynst hafa spillandi áhrif á söfnuðinn. (2. Jóhannesarbréf 10, 11) Þjónar Jehóva eiga sem heild hrós skilið fyrir það hve samvinnuþýðir þeir eru við öldungana í slíkum málum. Árangurinn er sá að skipulagi Jehóva er haldið hreinu og óspilltu af heiminum. — Jakobsbréfið 1:27.
15. Hvað ætti einstaklingur að gera þegar í stað ef hann drýgir alvarlega synd?
15 En hvað þá ef við drýgjum alvarlega synd? Davíð konungur lýsti þeim sem Jehóva hefur velþóknun á er hann sagði: „Hver fær að stíga upp á fjall [Jehóva], hver fær að dveljast á hans helga stað? — Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.“ (Sálmur 24:3, 4) Ef við, einhverra orsaka vegna, erum ekki lengur með „óflekkaðar hendur og hreint hjarta,“ þá verðum við að vera skjót til að bæta úr því. Eilíft líf okkar er í húfi.
16, 17. Hvers vegna ætti sá sem er sekur um alvarlegar syndir ekki að reyna að afgreiða málið upp á eigin spýtur?
16 Sumir hafa freistast til að fela alvarlegar syndir og ef til vill hugsað með sér: ‚Ég hef játað syndina fyrir Jehóva og iðrast, þannig að það er varla ástæða til að blanda öldungunum í málið.‘ Syndarinn kann að skammast sín eða óttast hvað öldungarnir kynnu að gera. Hann ætti hins vegar að muna að enda þótt Jehóva einn geti hreinsað okkur af synd hefur hann falið öldungunum meginábyrgðina fyrir hreinleika safnaðarins. (Sálmur 51:4) Það er þeirra hlutverk að lækna og ‚leiðrétta hina heilögu.‘ (Efesusbréfið 4:12, NW) Að leita ekki til þeirra þegar við þörfnumst andlegrar hjálpar er sambærilegt við að leita ekki til læknis þegar við erum veik.
17 Sumir sem reyna að taka sjálfir á málunum komast að raun um að samviskan er enn að þjaka þá mörgum mánuðum eða jafnvel árum síðar. Það sem verra er, sumir sem fela alvarlega synd syndga aftur og jafnvel í þriðja sinn. Þegar málið loks kemur til kasta öldunganna er um að ræða endurtekna synd. Það væri miklu betra að fylgja heilræði Jakobs. Hann skrifaði: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum.“ (Jakobsbréfið 5:14) Farðu til öldunganna meðan enn er tími til að lækna. Ef við bíðum of lengi gætum við forherst í syndinni. — Prédikarinn 3:3; Jesaja 32:1, 2.
Útlit og afþreying
18, 19. Hvers vegna hrósaði prestur vottum Jehóva?
18 Fyrir fimm árum hrósaði prestur á Ítalíu vottum Jehóva hlýlega í sóknarblaðinu.a Hann sagði: „Persónulega geðjast mér að vottum Jehóva; ég játa það hreinskilnislega. . . . Þeir sem ég þekki eru óaðfinnanlegir í framkomu, vingjarnlegir . . . [og] mjög sannfærandi. Hvenær munum við skilja að það þarf að koma sannleikanum á framfæri með viðeigandi hætti? Að þeir sem kunngera sannleikann þurfa ekki að vera áhugalausir, illa lyktandi, ósnyrtilegir, druslulegir?“
19 Samkvæmt þessum orðum var presturinn snortinn, meðal annars af klæðaburði og framkomu vottanna. Bersýnilega höfðu vottarnir, sem hann hafði hitt, hlýtt á heilræðin sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið í þessum efnum gegnum árin. (Matteus 24:45) Biblían segir að klæðnaður kvenna eigi að vera „sæmandi.“ (1. Tímóteusarbréf 2:9) Á þessum hnignunartímum eiga þessi ráð líka erindi til karla. Er ekki rökrétt að fulltrúar Guðsríkis eigi að koma sómasamlega fram gagnvart þeim sem fyrir utan eru?
20. Hvers vegna ættu kristnir menn öllum stundum að gæta að klæðaburði sínum?
20 Sumir kunna að samsinna því að á samkomum og þjónustunni á akrinum eigi þeir að gæta vel að klæðaburði sínum en þeim finnst kannski að meginreglur Biblíunnar í þessum efnum eigi ekki við öðrum stundum. En hættum við nokkurn tíma að vera fulltrúar Guðsríkis? Að vísu eru aðstæður breytilegar. Ef við erum að aðstoða við byggingu ríkissalar, þá klæðum við okkur öðruvísi en værum við að sækja samkomu í sama ríkissal. Í frístundum er trúlegt að við klæðum okkur líka frjálslegar. En klæðnaður okkar ætti að vera „sæmandi“ öllum stundum sem aðrir sjá til okkar.
21, 22. Hvernig höfum við verið vernduð gegn skaðlegri afþreyingu og hvernig ættum við að líta á heilræði um slík mál?
21 Annað svið, sem hefur verið mikill gaumur gefinn, er afþreying. Menn — einkum ungt fólk — þarfnast afþreyingar. Það er ekki synd eða tímasóun að skipuleggja afþreyingu handa fjölskyldunni. Jafnvel Jesús bauð lærisveinum sínum að ‚hvílast um stund.‘ (Markús 6:31) En gættu þess að afþreying opni ekki leið fyrir andlega spillingu. Við lifum í heimi þar sem stór hluti skemmtiefnis leggur áherslu á siðleysi, gróft ofbeldi, hrylling og spíritisma. (2. Tímóteusarbréf 3:3; Opinberunarbókin 22:15) Hinn trúi og hyggni þjónn er vakandi fyrir slíkum hættum og varar okkur stöðugt við þeim. Finnst þér slíkar áminningar skerða frelsi þitt eða ertu þakklátur fyrir að skipulag Jehóva skuli láta sér nógu annt um þig til að vekja athygli þína stöðugt á slíkum hættum? — Sálmur 19:8; 119:95.
22 Gleymdu aldrei að enda þótt Jehóva gefi okkur frelsi berum við ábyrgð á hvernig við notum það. Ef við virðum góð ráð að vettugi og tökum rangar ákvarðanir getum við engum öðrum um kennt. Páll postuli segir: „Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.“ — Rómverjabréfið 14:12; Hebrebréfið 4:13.
Horfðu til frelsis Guðs barna
23. (a) Hvaða blessunar í sambandi við frelsi njótum við núna? (b) Hvaða blessana bíðum við óþreyjufull?
23 Við njótum sannarlega mikillar blessunar. Við erum frjáls undan falstrú og hjátrú. Svo er lausnargjaldinu fyrir að þakka að við getum nálgast Jehóva með hreinni samvisku, andlega frjáls undan þrælkun syndar og dauða. Og bráðlega munu ‚Guðs börn verða opinber.‘ Í Harmagedón munu bræður Jesú í himneskri dýrð sinni opinberast mönnum þegar þeir eyða óvinum Jehóva. (Rómverjabréfið 8:19; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8; Opinberunarbókin 2:26, 27) Eftir það munu þessir synir Guðs opinberast á þann hátt að þeir miðla blessun sem streymir til mannkynsins frá hásæti Guðs. (Opinberunarbókin 22:1-5) Loks mun þessi opinberun sona Guðs hafa í för með sér að trúfast mannkyn verður blessað með dýrðarfrelsi Guðs barna. Þráir þú þann tíma? Þá skaltu nota kristið frelsi þitt viturlega. Þrælaðu fyrir Guð núna, þá munt þú njóta þessa undursamlega frelsis um alla eilífð!
[Neðanmáls]
a Síðar dró presturinn orð sín til baka, bersýnilega sökum þrýstings.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvernig hafa hinir smurðu og hinir aðrir sauðir vegsamað Jehóva?
◻ Hvers vegna ættu kristnir menn að heiðra veraldleg yfirvöld?
◻ Á hvaða vegu getur kristinn maður verið samvinnuþýður við öldungana?
◻ Hvers vegna eru vottar Jehóva ólíkir mörgum í heiminum í klæðaburði?
◻ Hvað ættum við að forðast í sambandi við afþreyingu?
[Myndir á blaðsíðu 16]
Kristinn maður ætti alltaf að vera vel og smekklega til fara og klæða sig eftir því sem við á hverju sinni.