Styðjum Krist og trúan þjón hans dyggilega
„Húsbóndinn . . . mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ — MATTEUS 24:45-47.
1, 2. (a) Hver er leiðtogi okkar að sögn Biblíunnar? (b) Hvað ber vitni um að Kristur sé leiðtogi safnaðarins?
„ÞÉR skuluð ekki . . . láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ (Matteus 23:10) Með þessum skýru orðum gerði Jesús lærisveinunum ljóst að enginn maður á jörðu ætti að vera leiðtogi þeirra. Þeir áttu aðeins að eiga einn leiðtoga — Jesú Krist á himnum. Guð veitti Jesú þessa stöðu. Hann „vakti hann frá dauðum og . . . [gaf] hann söfnuðinum svo sem höfuðið yfir öllu; en söfnuðurinn er líkami hans.“ — Efesusbréfið 1:20-23, Biblían 1912.
2 Kristur er „höfuðið yfir öllu“ innan kristna safnaðarins og hefur því umsjón með öllu sem þar gerist. Ekkert sem á sér stað í söfnuðinum fer fram hjá honum. Hann fylgist vandlega með andlegri velferð allra safnaða. Þetta kemur skýrt fram í opinberuninni sem Jóhannes postuli fékk við lok fyrstu aldar. Fimm sinnum sagði Jesús söfnuðunum sjö að hann þekkti verk þeirra, styrk og veikleika, og hann gaf þeim áminningar og hvatningu eftir því sem við átti. (Opinberunarbókin 2:2, 9, 13, 19; 3:1, 8, 15) Það er full ástæða til að ætla að Kristur hafi fylgst jafn vel með andlegri velferð annarra safnaða í Litlu-Asíu, Palestínu, Sýrlandi, Babýloníu, Grikklandi, á Ítalíu og annars staðar. (Postulasagan 1:8) En hvað með okkar daga?
Trúr þjónn
3. Af hverju er viðeigandi að líkja Kristi við höfuð og söfnuði hans við líkama?
3 Eftir upprisu Jesú frá dauðum og stuttu áður en hann steig upp til föður síns á himnum sagði hann við lærisveinana: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ Hann sagði líka: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:18-20) Hann myndi halda áfram að vera leiðtogi þeirra eða höfuð. Í bréfum sínum til kristinna manna í Efesus og Kólossu líkti Páll postuli kristna söfnuðinum við líkama sem Kristur er höfuð yfir. (Efesusbréfið 1:22, 23; Kólossubréfið 1:18) Í biblíufræðiritinu The Cambridge Bible for Schools and Colleges segir að þessi líking „gefi ekki aðeins til kynna að unnið sé náið með höfðinu, heldur einnig að vilji þess sé framkvæmdur fyrir milligöngu lima líkamans. Þeir eru verkfæri höfuðsins.“ Hvaða hóp hefur Kristur notað sem verkfæri sitt frá því að honum var gefið konungsvald árið 1914? — Daníel 7:13, 14.
4. Hvað fundu Jehóva og Jesús þegar þeir grandskoðuðu andlega musterið, eins og sagt var fyrir í spádómi Malakís?
4 Í spádómi Malakís var sagt fyrir að Jehóva og „engill sáttmálans“, nýkrýndur sonur hans, Jesús Kristur, myndu koma til að dæma og grandskoða ‚musteri‘ Jehóva eða táknrænt tilbeiðsluhús hans. Tíminn þegar ‚dómurinn byrjaði á húsi Guðs‘ hófst að öllum líkindum árið 1918.a (Malakí 3:1; 1. Pétursbréf 4:17) Þeir sem sögðust vera fulltrúar Guðs og sannrar tilbeiðslu hér á jörð voru rannsakaðir gaumgæfilega. Kirkjur kristna heimsins höfðu öldum saman vanvirt Jehóva með kenningum sínum og áttu stóran þátt í blóðbaði fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þeim var því hafnað. Trúfastar leifar andasmurðra kristinna manna voru reyndar og hreinsaðar og hlutu velþóknun Jehóva. Í augum hans varð þessi hópur „menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er“. — Malakí 3:3.
5. Hver reyndist vera trúi ‚þjónninn‘ í samræmi við spádóm Jesú um „komu“ sína?
5 Jesús gaf lærisveinunum samsett tákn til að þeir gætu séð hvenær ‚koma hans yrði og endalok veraldar‘. Í samræmi við spádóm Malakís hjálpaði þetta tákn þeim einnig að bera kennsl á þjónshópinn. Jesús sagði: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:3, 45-47) Þegar Kristur ‚kom‘ til að grandskoða ‚þjóninn‘ árið 1918 fann hann trúfastar leifar andasmurðra lærisveina. Þessi hópur hafði notað þetta tímarit frá árinu 1879 og önnur biblíutengd rit til að sjá fyrir andlegri fæðu „á réttum tíma“. Hann viðurkenndi þennan hóp sem ‚þjón‘ sinn eða verkfæri og árið 1919 fól hann honum umsjón með öllum jarðneskum eigum sínum.
Umsjón með jarðneskum eigum Krists
6, 7. (a) Á hvaða annan hátt lýsti Jesús trúum ‚þjóni‘ sínum? (b) Hvað gefur Jesús til kynna með því að nota orðið „ráðsmaður“?
6 Nokkrum mánuðum áður en Jesús bar fram spádóminn um tákn komu sinnar og um ‚þjóninn‘, sem yrði fulltrúi hans hér á jörð, lýsti hann þessum ‚þjóni‘ á annan hátt og varpaði þannig ljósi á ábyrgðarstörf hans. Jesús sagði: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ — Lúkas 12:42, 44.
7 Hér er þjónninn kallaður ráðsmaður en það er þýðing á grísku orði sem merkir „forstöðumaður heimilis eða eignar“. Ráðsmaðurinn er ekki bara hópur gáfumanna sem skýrir áhugavert efni í Biblíunni. Auk þess að veita nærandi andlega fæðu „á réttum tíma“ yrði þessi „trúi og hyggni ráðsmaður“ settur yfir öll hjú Krists og fengi umsjón með hagsmunum hans hér á jörð, það er að segja ‚öllum eigum hans‘. Hvað er fólgið í því?
8, 9. Hvaða „eigur“ á þjónninn að annast?
8 Ábyrgðarstörf þjónsins fela meðal annars í sér að annast fasteignir, sem fylgjendur Krists nota í þjónustunni við Guð, eins og til dæmis aðalstöðvar og deildarskrifstofur Votta Jehóva og tilbeiðslustaði þeirra um allan heim, ríkissali og mótshallir. Það sem meira er, þjónninn sér einnig fyrir andlega uppbyggjandi biblíufræðsludagskrá á vikulegum safnaðarsamkomum og mótum sem haldin eru reglulega. Á þessum samkomum er fjallað um uppfyllingu biblíuspádóma og veittar tímabærar leiðbeiningar um hvernig megi fylgja meginreglum Biblíunnar í daglega lífinu.
9 Ráðsmaðurinn á líka að hafa umsjón með því mikilvæga starfi að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. Það felur í sér að kenna mönnum að halda allt það sem Kristur, höfuð safnaðarins, býður þeim að gera núna á endalokatímanum. (Matteus 24:14; 28:19, 20; Opinberunarbókin 12:17) Með prédikunar- og kennslustarfinu hefur verið safnað saman ‚miklum múgi‘ trúfastra fylgjenda hinna andasmurðu leifa. Þessar „gersemar allra þjóða“ eru án efa hluti af verðmætum ‚eigum‘ Krists sem trúi þjónninn hefur umsjón með. — Opinberunarbókin 7:9; Haggaí 2:7.
Hið stjórnandi ráð — fulltrúi þjónshópsins
10. Hvaða hópi var falið að taka ákvarðanir á tímum hinna frumkristnu og hvaða áhrif hafði það á söfnuðina?
10 Sú þunga ábyrgð, sem trúi þjónninn fengi, fæli augljóslega í sér að taka margar ákvarðanir. Í frumkristna söfnuðinum voru postularnir og öldungarnir í Jerúsalem fulltrúar þjónshópsins og tóku ákvarðanir í þágu alls safnaðarins. (Postulasagan 15:1, 2) Ákvörðunum hins stjórnandi ráðs á fyrstu öldinni var miðlað til safnaðanna með bréfum og fyrir milligöngu farandumsjónarmanna. Frumkristnir menn voru ánægðir að fá þessa skýru leiðsögn og stuðluðu að friði og einingu með því að vera samstarfsfúsir. — Postulasagan 15:22-31; 16:4, 5; Filippíbréfið 2:2.
11. Hverja notar Kristur núna til að leiða söfnuðinn og hvernig ættum við að líta á þennan hóp andasmurðra kristinna manna?
11 Núna myndar lítill hópur andasmurðra umsjónarmanna hið stjórnandi ráð fylgjenda Krists, eins og á tímum hinna frumkristnu. Kristur, höfuð safnaðarins, notar „hægri hendi“ máttar síns til að leiðbeina þessum trúu mönnum sem hafa umsjón með boðun Guðsríkis. (Opinberunarbókin 1:16, 20) Albert Schroeder, sem sat til langs tíma í hinu stjórnandi ráði, lauk jarðnesku skeiði sínu fyrir skemmstu. Hann skrifaði í grein um ævistarf sitt: „Hið stjórnandi ráð kemur saman á hverjum miðvikudegi. Fundurinn hefst með bæn þar sem beðið er um leiðsögn anda Jehóva. Lögð er sérstök áhersla á að gæta þess að allar ákvarðanir séu teknar og öll mál afgreidd í samræmi við orð Guðs, Biblíuna.“b Við getum treyst þessum dyggu andasmurðu mönnum. Það er ekki síst í tengslum við þá sem við ættum að taka til okkar hvatningu Páls: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar.“ — Hebreabréfið 13:17.
Trúa þjóninum sýnd viðeigandi virðing
12, 13. Hvaða biblíulegu ástæður höfum við fyrir því að sýna þjónshópnum virðingu?
12 Ein helsta ástæðan fyrir því að við ættum að sýna trúa þjónshópnum viðeigandi virðingu er að þannig sýnum við í reynd húsbóndanum Jesú Kristi virðingu. Páll sagði um hina andasmurðu: „Sá, sem kallaður er sem frjáls, [er] þræll Krists. Þér eruð verði keyptir.“ (1. Korintubréf 7:22, 23; Efesusbréfið 6:6) Þegar við lútum dyggilega leiðsögn trúa þjónsins og stjórnandi ráðs hans erum við því að lúta Kristi, húsbónda þjónsins. Ein leið til að viðurkenna að ‚Jesús Kristur sé Drottinn‘ er að sýna viðeigandi virðingu fyrir þeim sem hann notar til að sjá um jarðneskar eigur sínar. — Filippíbréfið 2:11.
13 Önnur biblíuleg ástæða fyrir því að sýna trúa þjóninum virðingu er sú að í táknrænum skilningi er talað um andasmurða kristna menn hér á jörð sem „musteri“ sem andi Guðs „býr í“. Sem slíkir eru þeir ‚heilagir‘. (1. Korintubréf 3:16, 17; Efesusbréfið 2:19-22) Jesús hefur treyst þessum heilaga musterishópi fyrir jarðneskum eigum sínum. Það þýðir að viss réttindi og ábyrgð innan kristna safnaðarins tilheyrir eingöngu þessum þjónshópi. Þess vegna líta allir í söfnuðinum svo á að það sé heilög skylda sín að fylgja og halda á lofti leiðbeiningum trúa þjónsins og stjórnandi ráðs hans. ‚Aðrir sauðir‘ álíta það sannarlega mikinn heiður að fá að hjálpa þjónshópnum að annast hagsmuni húsbóndans. — Jóhannes 10:16.
Að styðja þjónshópinn dyggilega
14. Hvernig fylgja aðrir sauðir andasmurða þjónshópnum og starfa sem „kauplausir verkamenn“ eins og Jesaja spáði?
14 Í spádómi Jesaja var sagt fyrir að aðrir sauðir yrðu undirgefnir hinum andasmurðu sem tilheyra Ísrael Guðs: „Svo segir Drottinn: Auður [„Kauplausir verkamenn,“ NW] Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: ‚Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð.‘“ (Jesaja 45:14) Í táknrænum skilningi fylgja aðrir sauðir andasmurða þjónshópnum og stjórnandi ráði hans, þeir lúta forystu þeirra. Aðrir sauðir eru eins og „kauplausir verkamenn“ því að þeir nota fúslega krafta sína og efnislegar eigur til að styðja alþjóðlega prédikunarstarfið sem Kristur fól andasmurðum fylgjendum sínum á jörðinni. — Postulasagan 1:8; Opinberunarbókin 12:17.
15. Hvernig er sambandi annarra sauða og hins andlega Ísraels lýst í spádóminum í Jesaja 61:5, 6?
15 Aðrir sauðir eru ánægðir og þakklátir fyrir að fá að þjóna Jehóva undir yfirumsjón þjónshópsins og stjórnandi ráðs hans. Þeir viðurkenna að hinir andasmurðu tilheyra „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16) Í táknrænum skilningi eru þeir „útlendingar“ og „aðkomnir menn“ sem tengjast hinum andlega Ísrael. Þeir þjóna með gleði sem „akurmenn“ og „víngarðsmenn“ undir handleiðslu hinna andasmurðu sem eru „prestar Drottins“ og „þjónar Guðs vors“. (Jesaja 61:5, 6) Þeir taka ötulan þátt í því að prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum. Þeir aðstoða þjónshópinn heilshugar við að annast og hlúa að nýjum sauðum Jesú.
16. Hvað fær aðra sauði til þess að veita hinum trúa og hyggna þjóni dyggan stuðning?
16 Aðrir sauðir skilja að þeir njóta góðs af viðleitni trúa þjónsins til að útvega þeim andlega fæðu á réttum tíma. Þeir eru auðmjúkir og gera sér grein fyrir því að ef hins trúa og hyggna þjóns nyti ekki við vissu þeir lítið sem ekkert um dýrmæt sannindi Biblíunnar um drottinvald Jehóva, helgun nafns hans, Guðsríki, nýjan himin og nýja jörð, sálina, ástand hinna dánu, hver Jehóva er í raun og veru, hver sonur hans er og hvað heilagur andi er. Af einskæru þakklæti og trúfesti styðja aðrir sauðir andasmurða ‚bræður‘ Krists á jörðinni núna á endalokatímanum. — Matteus 25:40.
17. Hvað hefur hið stjórnandi ráð talið nauðsynlegt að gera og um hvað verður rætt í næstu grein?
17 Í ljósi þess hve hinir andasmurðu eru orðnir fáir geta þeir ekki verið til staðar í öllum söfnuðum til að sjá til þess að rétt sé farið með eigur Krists. Þess vegna útnefnir hið stjórnandi ráð karlmenn af öðrum sauðum til umsjónarstarfa á deildarskrifstofum, í umdæmum, á farandsvæðum og í söfnuðum Votta Jehóva. Segir viðhorf okkar til þessara undirhirða eitthvað um trúfesti okkar við Krist og dyggan þjón hans? Um það verður rætt í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Nánari umfjöllun um þetta efni er að finna í Varðturninum 1. apríl 2004, bls. 12-17 og 1. mars 1993, bls. 28-29.
b Greinin var birt í enskri útgáfu þessa tímarits 1. mars 1988 á bls. 10-17.
Til upprifjunar
• Hver er leiðtogi okkar og hvað sýnir að hann veit hvað á sér stað innan safnaðanna?
• Hverjir reyndust vera ‚trúr þjónn‘ þegar musterið var kannað og hvaða eigur var þeim falið að annast?
• Hvaða biblíulegu ástæður höfum við fyrir því að styðja trúa þjóninn dyggilega?
[Myndir á blaðsíðu 24]
‚Eigurnar‘, sem ‚ráðsmaðurinn‘ hefur umsjón með, eru meðal annars efnislegar eignir, andleg fræðsludagskrá og prédikunarstarfið.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Aðrir sauðir styðja trúa þjónshópinn með því að prédika af kappi.