Jehóva umbunar þeim sem leita hans
„Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:6.
1, 2. Af hverju geta neikvæðar hugsanir stundum sótt á þjóna Jehóva?
„ÉG HEF verið vottur Jehóva í næstum 30 ár en aldrei fundist ég verðug þess að kallast það,“ segir Barbara.a „Ég hef verið brautryðjandi og fengið mörg önnur verkefni en samt virðist það ekki duga til að sannfæra mig innst inni um að ég verðskuldi að kallast vottur.“ Keith tekur í sama streng. „Stundum hefur mér fundist ég óverðugur vegna þess að þjónar Jehóva hafa margar ástæður til að vera glaðir en ég var ekki glaður,“ segir hann. „Þetta olli mér sektarkennd sem gerði bara illt verra.“
2 Margir trúfastir vottar Jehóva, bæði fyrr og nú, hafa átt við svipaðar tilfinningar að stríða. Hvað um þig? Vandamálin hrannast kannski upp hjá þér meðan trúsystkini þín virðast vera áhyggjulaus, hamingjusöm og njóta lífsins. Þetta getur valdið því að þér finnist þú hvorki njóta velþóknunar Jehóva né verðskulda athygli hans. En vertu ekki fljótur til að álykta svo. Biblían er mjög hughreystandi þegar hún segir: „[Jehóva] hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.“ (Sálmur 22:25) Þetta er spádómur um Messías sem sýnir að Jehóva bæði hlustar á trúfasta þjóna sína og umbunar þeim.
3. Af hverju erum við ekki ónæm fyrir álagi þessa heimskerfis?
3 Enginn er ónæmur fyrir álagi þessa heimskerfis, ekki einu sinni þjónar Jehóva. Við búum í heimi sem er undir stjórn erkióvinar Jehóva, Satans djöfulsins. (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þjónar Jehóva hljóta ekki vernd með undraverðum hætti heldur eru þeir helsti skotspónn Satans. (Jobsbók 1:7-12; Opinberunarbókin 2:10) Við þurfum því að vera „þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni“ þangað til stundin rennur upp að Guð tekur í taumana. (Rómverjabréfið 12:12) Við þurfum að treysta því að Jehóva láti sér annt um okkur. Látum ekki þá hugsun ná tökum á okkur að Jehóva Guð elski okkur ekki.
Þau voru þolgóð
4. Nefndu dæmi um trúfasta þjóna Jehóva sem máttu þola ýmislegt.
4 Margir þjónar Jehóva til forna máttu þola ýmiss konar erfiðleika. Hanna var til dæmis „sárhrygg“ vegna þess að hún var barnlaus, en henni fannst það jafngilda því að Guð hefði gleymt henni. (1. Samúelsbók 1:9-11) Þegar morðkvendið Jesebel lét elta Elía varð hann hræddur og bað til Jehóva: „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum.“ (1. Konungabók 19:4) Og Páli postula hlýtur að hafa fundist ófullkomleikinn þjakandi þegar hann viðurkenndi að sig langaði til að gera hið góða en hið illa væri sér tamast. „Ég aumur maður!“ bætti hann við. — Rómverjabréfið 7:21-24.
5. (a) Hvaða umbun hlutu Hanna, Elía og Páll? (b) Hvaða hughreystingu getum við sótt í orð Guðs ef við verðum niðurdregin?
5 Við vitum auðvitað að Hanna, Elía og Páll voru öll þolgóð í þjónustu Jehóva og hann umbunaði þeim ríkulega. (1. Samúelsbók 1:20; 2:21; 1. Konungabók 19:5-18; 2. Tímóteusarbréf 4:8) Engu að síður áttu þau við alls konar mannlegar kenndir að glíma, þar á meðal sorg, örvæntingu og ótta. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að við verðum stundum niðurdregin. En hvað geturðu gert þegar áhyggjur lífsins valda því að þú spyrð þig hvort Jehóva elski þig í raun og veru? Þá geturðu leitað hughreystingar í orði Guðs. Í greininni á undan ræddum við til dæmis um þau orð Jesú að Jehóva hefði ‚talið á okkur öll höfuðhárin‘. (Matteus 10:30) Þessi hlýlegu orð bera með sér að Jehóva lætur sér innilega annt um hvern einstakan þjón sinn. Og við munum líka eftir samlíkingu Jesú við spörvana. Fyrst enginn þessara smáu fugla fellur til jarðar án þess að Jehóva veiti því athygli getur varla verið að hann loki augunum fyrir erfiðleikum þínum.
6. Hvernig getur Biblían hughreyst þá sem eru niðurdregnir?
6 Geta ófullkomnir menn virkilega verið dýrmætir í augum hins almáttuga skapara, Jehóva Guðs? Já, og margir biblíutextar veita okkur vissu fyrir því. Ef við hugleiðum þá getum við tekið undir með sálmaskáldinu sem orti: „Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.“ (Sálmur 94:19) Við skulum líta á nokkra staði í Biblíunni þar sem finna má hughreystandi dæmi af þessu tagi. Þau sýna okkur enn betur fram á að við erum mikils virði í augum Guðs og að hann umbunar okkur ef við höldum áfram að gera vilja hans.
„Eign“ Jehóva
7. Hvaða uppörvandi spádóm lét Jehóva Malakí flytja spilltri þjóð?
7 Ástandið meðal Gyðinga var ákaflega dapurlegt á fimmtu öld f.Kr. Prestarnir tóku við gölluðum skepnum og fórnuðu þeim á altari Jehóva. Dómarar voru hlutdrægir. Galdrakukl, lygar, svik og hjúskaparbrot voru í algleymingi. (Malakí 1:8; 2:9; 3:5) Malakí flutti þessari óskammfeilnu og spilltu þjóð ótrúlegan spádóm. Jehóva ætlaði að bæta ástandið meðal þjóðar sinnar svo að hún nyti velþóknunar hans á ný. Við lesum: „Þeir skulu vera mín eign — segir Drottinn allsherjar — á þeim degi, sem ég hefst handa, og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum.“ — Malakí 3:17.
8. Hvers vegna má í meginatriðum heimfæra spádóminn í Malakí 3:17 upp á múginn mikla?
8 Spádómur Malakís uppfyllist á okkar dögum í tengslum við andasmurða kristna menn. Þeir mynda andlega þjóð sem í eru 144.000 manns og hún er sannarlega „eign“ Jehóva og „eignarlýður“. (1. Pétursbréf 2:9) Spádómur Malakís getur einnig verið hvetjandi fyrir ‚múginn mikla‘ sem ‚stendur frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum‘. (Opinberunarbókin 7:4, 9) Saman mynda hóparnir eina hjörð undir umsjón eins hirðis, Jesú Krists. — Jóhannes 10:16.
9. Af hverju talar Jehóva um þjóna sína sem „eign“ sína?
9 Hvernig lítur Jehóva á þá sem ákveða að þjóna honum? Eins og fram kemur í Malakí 3:17 lítur hann á þá eins og ástríkur faðir á son sinn. Og við tökum eftir með hve hlýlegu orðfæri hann lýsir fólki sínu. Hann kallar það „eign“ sína. Samkvæmt öðrum biblíuþýðingum talar hann um „eiginlega eign“ sína, „dýrmætustu eign“ sína og „gersemar“ sínar. Af hverju ætli Jehóva finnist þjónar sínir svona sérstakir? Meðal annars af því að hann er þakklátur Guð. (Hebreabréfið 6:10) Hann nálægir sig þeim sem þjóna honum af heilu hjarta og þeir eru mjög sérstakir í augum hans.
10. Hvernig verndar Jehóva fólk sitt?
10 Áttu einhverja eign sem er þér dýrmætari en aðrar? Þú gerir eflaust ráðstafanir til að vernda hana. Þannig hugsar Jehóva um „eign“ sína. Hann hlífir fólki sínu að vísu ekki við öllum prófraunum og sorgum. (Prédikarinn 9:11) Hins vegar verndar hann trúa þjóna sína og styrkir þá svo að þeir geti staðist allar prófraunir. (1. Korintubréf 10:13) Það var þess vegna sem Móse sagði Ísraelsmönnum, þjóð Guðs til forna: „Verið hughraustir og öruggir . . . Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (5. Mósebók 31:6) Jehóva umbunar þjónum sínum og lítur á þá sem sérstaka „eign“ sína.
Jehóva ‚umbunar‘
11, 12. Hvernig getum við barist gegn efasemdum með því að minna okkur á að Jehóva umbunar þjónum sínum?
11 Annað merki þess að Jehóva meti þjóna sína mikils er að hann umbunar þeim. Hann sagði Ísraelsmönnum: „Reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir Drottinn allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ (Malakí 3:10) Jehóva á auðvitað eftir að umbuna þjónum sínum með eilífu lífi þegar þar að kemur. (Jóhannes 5:24; Opinberunarbókin 21:4) Þessi óviðjafnanlega umbun endurspeglar hve kærleiksríkur og örlátur Jehóva er. Hún sýnir að hann metur mjög mikils þá sem ákveða að þjóna honum. Ef við temjum okkur að hugsa um Jehóva sem örlátan Guð og minna okkur á að hann umbunar þjónum sínum getur það hjálpað okkur að sporna gegn efasemdum um stöðu okkar frammi fyrir honum. Jehóva hvetur okkur meira að segja til að líta þannig á sig því að Páll skrifaði: „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6.
12 Við þjónum Jehóva auðvitað af því að við elskum hann, ekki bara af því að hann lofar að umbuna okkur fyrir. En það er hvorki rangt né eigingjarnt að hlúa að voninni um launin. (Kólossubréfið 3:23, 24) Jehóva umbunar þeim sem leita hans í einlægni, vegna þess að hann elskar þá og metur þá afar mikils.
13. Af hverju er lausnargjaldið skýrasta merkið um að Jehóva elski okkur?
13 Lausnargjaldið er skýrasta merkið um það hve dýrmætt mannkynið er í augum Jehóva. Jóhannes postuli skrifaði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Að Jehóva skyldi færa Jesú Krist sem lausnarfórn sýnir að það er ekki rétt að við séum einskis virði eða að Jehóva geti ekki elskað okkur. Fyrst hann greiddi svona hátt gjald fyrir okkur — eingetinn son sinn — hlýtur hann að elska okkur innilega.
14. Hvernig leit Páll á lausnargjaldið og hvernig sjáum við það?
14 Ef neikvæðar hugsanir sækja á þig skaltu því hugsa um lausnargjaldið. Líttu á það sem persónulega gjöf Jehóva til þín. Það gerði Páll postuli. Þú manst að hann sagði: „Ég aumur maður!“ en hélt svo áfram: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn . . . sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Rómverjabréfið 7:24, 25; Galatabréfið 2:20) Þó að Páll tæki svona til orða leit hann ekki stórt á sig. Hann treysti einfaldlega að Jehóva mæti hann mikils sem einstakling. Þú getur líka litið á lausnargjaldið sem persónulega gjöf frá Guði. Jehóva er ekki aðeins máttugur frelsari heldur er hann líka kærleiksríkur og umbunar þeim sem þjóna honum.
Gættu þín á ‚vélabrögðum‘ Satans
15-17. (a) Hvernig notfærir Satan sér neikvæðar hugsanir? (b) Hvernig getur frásagan af Job uppörvað okkur?
15 Kannski finnst þér eftir sem áður erfitt að trúa að hin innblásnu og hughreystandi orð Biblíunnar eigi við þig. Þú hugsar ef til vill sem svo að aðrir geti hlotið eilíft líf í nýjum heimi Guðs en þú hreinlega verðskuldir það ekki. Hvað er til ráða ef þú hugsar þannig?
16 Eflaust manstu eftir hvatningu Páls til Efesusmanna: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Efesusbréfið 6:11) Þegar minnst er á vélabrögð Satans dettur þér kannski fyrst í hug efnishyggja og siðleysi. Það er eðlilegt því að hvort tveggja hefur reynst mörgum þjónum Guðs hættulegt, bæði fyrr og nú. Við megum hins vegar ekki horfa fram hjá öðru vélabragði Satans: Hann reynir að sannfæra fólk um að Jehóva Guð elski það ekki.
17 Satan er leikinn í að notfæra sér slíkar tilfinningar til að gera fólk afhuga Guði. Mundu hvað Bildad sagði við Job: „Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði, og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur? Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart, og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans, hvað þá maðurinn, maðkurinn, og mannssonurinn, ormurinn!“ (Jobsbók 25:4-6; Jóhannes 8:44) Geturðu ímyndað þér hve niðurdrepandi það hlýtur að hafa verið fyrir Job að heyra þetta? Láttu Satan ekki draga úr þér kjark heldur vertu vakandi fyrir vélabrögðum hans þannig að þú hafir bæði kjark og hugarþrek til að berjast þeim mun harðar við að gera rétt. (2. Korintubréf 2:11) Job þurfti að vísu á leiðréttingu að halda en Jehóva umbunaði honum þolgæðið með því að gefa honum tvöfalt aftur allt sem hann hafði misst. — Jobsbók 42:10.
Jehóva „er meiri en hjarta vort“
18, 19. Í hvaða skilningi er Guð „meiri en hjarta vort“ og „þekkir alla hluti“?
18 Vissulega getur verið erfitt að vinna bug á djúpstæðri depurð eða kjarkleysi en andi Jehóva getur hjálpað þér smám saman að „brjóta niður vígi . . . og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði“. (2. Korintubréf 10:4, 5) Þegar neikvæðar hugsanir virðast vera að yfirbuga þig skaltu ígrunda orð Jóhannesar postula: „Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.
19 Hvað merkja orðin „Guð er meiri en hjarta vort“? Stundum getur hjartað átt það til að dæma okkur hart, ekki síst þegar við finnum sárlega fyrir ófullkomleika okkar og göllum. Eins getur verið að uppvöxtur okkar og uppruni hafi þau áhrif að við höfum sterka tilhneigingu til að hugsa neikvætt um sjálf okkur, rétt eins og Jehóva sé ekki ánægður með neitt sem við gerum. Jóhannes postuli fullvissar okkur um að Jehóva sé yfir það hafinn. Hann einblínir ekki á mistök okkar heldur sér hvað í okkur býr. Hann veit líka hvaða hvatir búa með okkur og hvað við viljum gera. Davíð skrifaði: „Hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:14) Já, Jehóva þekkir okkur betur en við sjálf!
„Prýðileg kóróna“ og „konunglegt höfuðdjásn“
20. Hvernig lítur Jehóva á þjóna sína samkvæmt endurreisnarspádómi Jesaja?
20 Forðum daga veitti Jehóva þjóð sinni von um að hún fengi að snúa heim á ný og lét Jesaja spámann koma því á framfæri. Þjóðin myndi sannarlega þurfa á slíkri uppörvun að halda í útlegðinni í Babýlon. Jehóva horfði fram til þess tíma þegar Ísraelsmenn væru komnir heim í land sitt á nýjan leik og sagði: „Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.“ (Jesaja 62:3) Með þessum orðum klæddi Jehóva fólk sitt tign og reisn ef svo má að orði komast. Eins hefur hann gert fyrir hina andlegu Ísraelsþjóð á okkar dögum. Það er rétt eins og hann hafi haldið henni hátt á lofti svo að allir gætu dáðst að henni.
21. Hvernig geturðu styrkt traust þitt á að Jehóva umbuni þér trúfestina og þolgæðið?
21 Þessi spádómur rætist fyrst og fremst á hinum andasmurðu en sýnir engu að síður hvernig Jehóva heiðrar alla sem þjóna honum. Þegar efasemdir sækja á þig skaltu því hafa hugfast að þrátt fyrir ófullkomleikann geturðu verið eins dýrmætur í augum Jehóva og „prýðileg kóróna“ eða „konunglegt höfuðdjásn“. Haltu því áfram að gleðja hjarta hans með því að leggja þig fram um að gera vilja hans. (Orðskviðirnir 27:11) Þá geturðu treyst að Jehóva umbunar þér trúfestina og þolgæðið.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum er breytt.
Manstu?
• Á hvaða hátt erum við eins og sérstök „eign“ Jehóva?
• Af hverju er mikilvægt að hafa hugfast að Jehóva umbunar þeim sem leita hans?
• Gegn hvaða ‚vélabrögðum‘ Satans þurfum við að vera á varðbergi?
• Hvað merkir það að Guð sé „meiri en hjarta vort“?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Páll
[Mynd á blaðsíðu 28]
Elía
[Mynd á blaðsíðu 28]
Hanna
[Mynd á blaðsíðu 30]
Í orði Guðs er að finna mikinn sjóð hughreystandi orða.