6. KAFLI
„Stefán naut velvildar Guðs og fékk kraft frá honum“
Stefán vitnar hugrakkur fyrir Æðstaráðinu
Byggt á Postulasögunni 6:8–8:3
1–3. (a) Hvaða ógnvænlegu aðstæðum stendur Stefán frammi fyrir en hvernig bregst hann við? (b) Hvaða spurningar verða ræddar?
STEFÁN stendur frammi fyrir Æðstaráðinu. Dómararnir, 71 talsins, sitja í stórum hálfhring í tilkomumiklum sal, líklega nálægt musterinu í Jerúsalem. Í dag eru þeir samankomnir til að dæma Stefán. Þetta eru voldugir og áhrifamiklir menn og flestir þeirra virða þennan lærisvein Jesú lítils. Maðurinn sem kallaði saman ráðið er reyndar Kaífas æðstiprestur en hann fór með forystuna þegar ráðið dæmdi Jesú Krist til dauða nokkrum mánuðum áður. Er Stefán óttasleginn?
2 Það er stórmerkilegt að horfa á Stefán á þessari stundu. Dómararnir stara á hann og sjá að andlit hans er „eins og andlit engils“. (Post. 6:15) Englar flytja boðskap frá Jehóva Guði og geta því verið óhræddir og haldið ró sinni. Þannig er Stefán – jafnvel hatursfullir dómararnir geta séð það. Hvernig getur hann verið svona rólegur?
3 Svarið við þessari spurningu er lærdómsríkt fyrir þjóna Guðs nú á dögum. Við þurfum líka að átta okkur á hvernig Stefán lenti í þessari snúnu stöðu. Hvernig hafði hann áður varið trú sína? Og hvernig getum við líkt eftir honum?
„Þeir æstu upp fólkið“ (Post. 6:8–15)
4, 5. (a) Hvernig kom Stefán að miklu gagni í söfnuðinum? (b) Hvernig var Stefán í viðmóti og hvers vegna var hann kraftmikill?
4 Eins og áður hefur komið fram hafði Stefán komið að miklu gagni í hinum unga kristna söfnuði. Í síðasta kafla sáum við að hann var einn af sjö auðmjúkum mönnum sem voru tilbúnir til að aðstoða postulana þegar þeir óskuðu eftir því. Auðmýkt hans er þeim mun merkilegri þegar á það er litið hve hæfileikaríkur hann var. Í Postulasögunni 6:8 lesum við að hann hafi getað gert „mikil undur og tákn“ eins og sumir postulanna. Einnig kemur fram að hann hafi ‚notið velvildar Guðs og fengið kraft frá honum‘. Hvað þýðir það?
5 Stefán var viðmótsgóður og mildur og það laðaði fólk að honum. Hann talaði á sannfærandi hátt. Fólk fann að hann var einlægur og að það sem hann kenndi var heilnæmt og gott. Hann var kraftmikill vegna þess að andi Jehóva var með honum og hann fylgdi auðmjúkur leiðsögn hans. Hann var ekki montinn af hæfileikum sínum heldur gaf hann Jehóva heiðurinn og sýndi fólkinu sem hann ræddi við einlæga umhyggju. Það er engin furða að andstæðingum hans fannst sér stafa ógn af honum.
6–8. (a) Hvaða tvíþættu ásökun báru andstæðingar Stefáns fram og hvers vegna? (b) Hvað geta þjónar Guðs nú á dögum lært af Stefáni?
6 Ýmsir menn stigu fram og deildu við Stefán en „þeir máttu sín þó lítils gegn visku hans og þeim anda sem hann talaði af“.a Þeir voru svo pirraðir að þeir ‚fengu menn með leynd‘ til að koma með ásakanir á hendur þessum saklausa fylgjanda Krists. Þeir ‚æstu líka upp fólkið‘, öldungana og fræðimennina svo að Stefán var tekinn með valdi og færður fyrir Æðstaráðið. (Post. 6:9–12) Andstæðingarnir ásökuðu hann um tvennt: Að hann hefði lastmælt bæði Guði og Móse. Á hvaða hátt?
7 Þeir sem ákærðu Stefán sögðu að hann lastmælti Guði með því að tala gegn „þessum heilaga stað“ – musterinu í Jerúsalem. (Post. 6:13) Hann lastmælti Móse, sögðu þeir, með því að tala gegn Móselögunum og breyta siðum sem Gyðingar hefðu fengið frá Móse. Þessi ákæra var háalvarleg því að musterið, ákvæði Móselaganna og allar munnlegu erfikenningarnar sem bætt hafði verið við lögin voru Gyðingum mjög mikilvægar á þeim tíma. Ákæran þýddi að Stefán væri hættulegur maður – dauðasekur!
8 Því miður er ekki óalgengt að trúað fólk beiti slíkum aðferðum til að gera þjónum Guðs erfitt fyrir. Enn þann dag í dag eiga trúarlegir andstæðingar það til að espa valdhafa upp í að ofsækja votta Jehóva. Hvernig ættum við að bregðast við rangfærslum og fölskum ásökunum? Við getum lært margt af Stefáni.
Stefán vitnar hugrakkur um „Guð dýrðarinnar“ (Post. 7:1–53)
9, 10. Fyrir hvað hafa menn gagnrýnt ræðu Stefáns en hvað þurfum við að muna?
9 Eins og fram kom í upphafi kaflans var Stefán rólegur og andlit hans var eins og andlit engils meðan hann hlustaði á ákærurnar gegn sér. Kaífas sneri sér að honum og spurði: „Er þetta rétt?“ (Post. 7:1) Nú var komið að Stefáni að tala. Og það gerði hann!
10 Sumir hafa gagnrýnt ræðu Stefáns og haldið því fram að í þessari löngu ræðu svari hann ekki ákærunni einu orði. En í rauninni er ræða hans frábært dæmi um hvernig hægt sé að verja fagnaðarboðskapinn. (1. Pét. 3:15) Munum að Stefán var sakaður um að guðlasta með því að gera lítið úr musterinu og lastmæla Móse með því að tala gegn lögunum. Í svari sínu dregur Stefán saman þrjú tímabil í sögu Ísraels með úthugsuðum áherslum á ákveðin atriði. Lítum nánar á þessi þrjú tímabil.
11, 12. (a) Hvað bendir Stefán á varðandi Abraham? (b) Hvers vegna ræðir Stefán um Jósef?
11 Ættfeðratíminn. (Post. 7:1–16) Stefán hefur mál sitt á því að ræða um Abraham en Gyðingar virtu hann mikils fyrir trú hans. Hann byrjar á sameiginlegum grundvelli en bendir jafnframt á að Jehóva, „Guð dýrðarinnar“, hafi fyrst birst Abraham í Mesópótamíu. (Post. 7:2) Hann bjó reyndar sem útlendingur í fyrirheitna landinu. Abraham hafði hvorki musteri né Móselögin. Hvernig var þá hægt að staðhæfa að trúfesti við Guð væri alltaf háð slíku?
12 Jósef, afkomandi Abrahams, var líka mikils metinn meðal áheyrenda Stefáns en hann minnti þá á að bræður Jósefs, sem voru feður ættkvísla Ísraels, hefðu ofsótt þennan réttláta mann og selt hann í þrælkun. Guð notaði hann samt til að bjarga Ísrael úr hungursneyð. Stefán sá eflaust skýra samsvörun milli Jósefs og Jesú Krists en hann minntist ekki á það því að hann vildi halda áheyrendum sínum góðum enn um stund.
13. Hvernig svarar Stefán ákærunum gegn sér með því að ræða um Móse og hver var rauði þráðurinn í rökfærslu hans?
13 Dagar Móse. (Post. 7:17–43) Stefán sagði margt um Móse og það var skynsamlegt af honum því að margir í Æðstaráðinu voru saddúkear og þeir viðurkenndu aðeins þær biblíubækur sem Móse hafði skrifað. Munum líka að Stefán var sakaður um að lastmæla Móse. Hann svaraði þeirri ásökun beint því að hann sýndi fram á að hann bæri mikla virðingu fyrir Móse og lögunum. (Post. 7:38) Hann benti á að Móse hefði líka verið hafnað af þeim sem hann reyndi að bjarga. Þeir höfnuðu honum þegar hann var fertugur. Meira en 40 árum síðar risu þeir ítrekað gegn forystu hans.b Rauði þráðurinn í rökfærslu Stefáns var þessi: Fólk Guðs hafnaði æ ofan í æ leiðtogunum sem Jehóva valdi handa því.
14. Hvað rökstuddi Stefán með því að benda á Móse?
14 Stefán minnti áheyrendur sína á að Móse hefði boðað að spámaður líkur sér myndi koma fram í Ísrael. Hver yrði það og hvernig yrði honum tekið? Stefán svaraði því ekki fyrr en í niðurlagsorðunum. Hann nefndi annað mikilvægt atriði: Móse hafði komist að raun um að hvaða staður sem er gæti orðið heilög jörð eins og gerðist við logandi runnann þar sem Jehóva hafði talað við hann. Er þá rökrétt að ekki sé hægt að tilbiðja Jehóva nema í ákveðnu húsi eins og musterinu í Jerúsalem? Skoðum það nánar.
15, 16. (a) Af hverju var tjaldbúðin mikilvægur þáttur í rökfærslu Stefáns? (b) Hvað benti Stefán á varðandi musteri Salómons?
15 Tjaldbúðin og musterið. (Post. 7:44–50) Stefán minnti ráðið á að áður en nokkurt musteri var til í Jerúsalem hefði Guð látið Móse gera tjaldbúð – eins konar tjald sem notað var við tilbeiðslu. Móse sjálfur hafði tilbeðið Guð þar. Hver vogaði sér þá að halda því fram að tjaldbúðin hafi staðið musterinu að baki?
16 Síðar, þegar Salómon byggði musterið í Jerúsalem, var honum innblásið að koma mikilvægu atriði á framfæri í bæn sinni. Stefán orðaði það þannig: „Hinn hæsti býr … ekki í húsum sem menn reisa.“ (Post. 7:48; 2. Kron. 6:18) Jehóva getur notað musteri til að hrinda vilja sínum í framkvæmd en hann þarf ekki musteri til þess. Hvers vegna ættu þá tilbiðjendur hans að líta svo á að hrein tilbeiðsla sé háð húsi sem menn hafa byggt? Stefán rak endahnútinn á rökfærslu sína með því að vitna í Jesajabók: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin fótskemill minn. Hvers konar hús ætlið þið að reisa handa mér, segir Jehóva, eða hvar er hvíldarstaður minn? Skapaði ekki hönd mín allt þetta?“ – Post. 7:49, 50; Jes. 66:1, 2.
17. (a) Hvernig kom Stefán inn á hugsunarhátt áheyrenda sinna? (b) Hvernig svaraði Stefán ákærunum gegn sér?
17 Hugsum um það sem Stefán hefur sagt í varnarræðu sinni fram að þessu. Sýnir hann ekki snilldarlega fram á að ákærendur hans hugsuðu ekki rétt? Hann bendir á að Jehóva sé sveigjanlegur og geti komið vilja sínum í framkvæmd á ýmsa vegu. Hann er ekki bundinn af aðstæðum eða erfðavenjum. Þeir sem voru blindaðir af lotningu fyrir hinu stórfenglega musteri í Jerúsalem og siðum og erfðavenjum sem myndast höfðu kringum Móselögin höfðu misst sjónar á tilganginum með lögunum og musterinu. Ræða Stefáns vakti óbeint þessa mikilvægu spurningu: Sýnir maður ekki lögunum og musterinu mesta virðingu með því að hlýða Jehóva? Stefán varði gerðir sínar prýðilega því að hann hafði hlýtt Jehóva eins og best var á kosið.
18. Hvernig getum við reynt að líkja eftir Stefáni?
18 Hvað getum við lært af ræðu Stefáns? Hann þekkti Ritningarnar mjög vel. Við þurfum sömuleiðis að vera duglegir biblíunemendur til að ‚fara rétt með orð sannleikans‘. (2. Tím. 2:15) Við getum líka lært ýmislegt af Stefáni um nærgætni og vingjarnlegt viðmót. Áheyrendur hans voru ekki beinlínis vinveittir. Hann ræddi samt við þá eins lengi og hægt var á sameiginlegum grundvelli með því að fjalla um mál sem þeir höfðu í hávegum. Hann ávarpaði þessa öldunga líka með virðingu og kallaði þá „feður“. (Post. 7:2) Við þurfum einnig að kynna sannleika Biblíunnar „með hógværð og djúpri virðingu“. – 1. Pét. 3:15.
19. Hvernig flutti Stefán Æðstaráðinu dómsboðskap Jehóva?
19 Hins vegar veigrum við okkur ekki við að segja frá sannleika Biblíunnar af ótta við að móðga fólk og reynum ekki að milda dómsboðskap Jehóva. Stefán er gott dæmi um það. Hann sá eflaust að öll þau rök sem hann hafði lagt fyrir Æðstaráðið höfðu lítil áhrif á þessa harðbrjósta dómara. Í krafti heilags anda lauk hann því ræðu sinni á að sýna þeim óttalaust fram á að þeir væru engu betri en forfeður þeirra sem höfðu hafnað Jósef, Móse og öllum spámönnunum. (Post. 7:51–53) Þessir dómarar Æðstaráðsins höfðu myrt Messías sem Móse og allir spámennirnir höfðu sagt að myndi koma. Þeir höfðu þverbrotið Móselögin eins gróflega og hægt var!
„Drottinn Jesús, taktu við anda mínum“ (Post. 7:54–8:3)
20, 21. Hvernig brást Æðstaráðið við orðum Stefáns og hvernig styrkti Jehóva hann?
20 Dómararnir gátu ekki neitað því að Stefán hafði rétt fyrir sér. Þeir trylltust af reiði. Allur virðuleiki fauk út í veður og vind og þeir gnístu tönnum gegn honum. Stefán hefur eflaust áttað sig á að hann hlyti enga miskunn, ekkert frekar en Jesús, meistari hans, hafði hlotið.
21 Stefán þurfti að vera hugrakkur til að horfast í augu við það sem var fram undan og sýnin sem Jehóva veitti honum hefur eflaust gefið honum styrk. Hann fékk að sjá dýrð Jehóva og Jesú standa honum til hægri handar. Dómararnir héldu fyrir eyrun þegar Stefán lýsti sýninni. Af hverju? Jesús hafði fyrir nokkru sagt þessu sama ráði að hann væri Messías og myndi bráðlega sitja við hægri hönd föður síns. (Mark. 14:62) Sýn Stefáns sannaði að Jesús hefði farið með rétt mál. Ljóst var að Æðstaráðið hafði svikið og myrt Messías! Dómararnir réðust allir sem einn að Stefáni til að láta grýta hann.c
22, 23. Að hvaða leyti dó Stefán með svipuðum hætti og meistari hans og hvers vegna getum við treyst Jehóva eins og hann?
22 Stefán dó með mjög svipuðum hætti og meistari hans, með frið í hjarta. Hann treysti Jehóva fullkomlega og fyrirgaf morðingjum sínum. „Drottinn Jesús, taktu við anda mínum,“ sagði hann, kannski vegna þess að hann gat enn þá séð Mannssoninn við hlið Jehóva í sýn. Stefán vissi eflaust að Jesús hafði sagt: „Ég er upprisan og lífið.“ (Jóh. 11:25) Að lokum bað hann til Guðs hárri röddu: „Jehóva, láttu þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Síðan gaf hann upp andann. – Post. 7:59, 60.
23 Stefán varð þar með fyrsti píslarvotturinn sem getið er um meðal fylgjenda Krists. (Sjá rammann „Vottur eða píslarvottur?“) Því miður var hann þó ekki sá síðasti. Allt fram á okkar daga hafa trúarofstækismenn, pólitískir öfgamenn og aðrir grimmir andstæðingar orðið þjónum Jehóva að bana. Við höfum samt ástæðu til að treysta Jehóva eins og Stefán. Jesús ríkir nú sem konungur með öllu því valdi sem faðir hans hefur gefið honum. Ekkert getur komið í veg fyrir að hann reisi trúfasta fylgjendur sína upp frá dauðum. – Jóh. 5:28, 29.
24. Hvernig átti Sál þátt í píslarvættisdauða Stefáns og hvaða áhrif hafði dauði Stefáns til langs tíma litið?
24 Ungur maður sem hét Sál fylgdist með öllu saman. Hann var ánægður með að Stefán skyldi vera myrtur og gætti yfirhafna þeirra sem grýttu hann. Skömmu síðar beitti hann sér fyrir grimmilegum ofsóknum. En dauði Stefáns hafði langvinn áhrif. Fordæmi hans átti eftir að hvetja aðra kristna menn til að vera trúfastir, jafnvel allt til dauða. Sál, sem síðar var yfirleitt kallaður Páll, átti líka eftir að harma það mjög að hafa komið nálægt dauða Stefáns. (Post. 22:20) Hann hafði tekið þátt í morðinu á Stefáni en gerði sér síðar grein fyrir að hann hefði verið „guðlastari, ósvífinn og ofsótt fólk Guðs“. (1. Tím. 1:13) Ljóst er að Páll gleymdi aldrei Stefáni né kröftugri ræðu hans þennan dag. Í sumum af ræðum sínum og skrifum fjallaði Páll reyndar um mál sem Stefán hafði komið inn á í ræðu sinni. (Post. 7:48; 17:24; Hebr. 9:24) Með tímanum lærði Páll að líkja eftir trú og hugrekki Stefáns sem „naut velvildar Guðs og fékk kraft frá honum“. Hvað um okkur?
a Sumir þessara andstæðinga voru úr ,Leysingjasamkundunni‘. Þetta gætu hafa verið menn sem Rómverjar höfðu tekið til fanga og síðar veitt frelsi eða fyrrverandi þrælar sem höfðu tekið gyðingatrú. Sumir voru frá Kilikíu eins og Sál frá Tarsus. Ósagt er hvort Sál var meðal þessara Kilikíumanna sem máttu sín lítils gegn Stefáni.
b Í ræðu Stefáns koma fram upplýsingar sem er hvergi annars staðar að finna í Biblíunni, svo sem um menntun Móse í Egyptalandi, hve gamall hann var þegar hann flúði þaðan og hve lengi hann bjó í Midían.
c Ólíklegt er að Æðstaráðið hafi haft vald samkvæmt rómverskum lögum til að fyrirskipa aftöku. (Jóh. 18:31) Hvað sem því líður virðist Stefán hafa verið myrtur af æstum múg frekar en að hafa verið dæmdur til dauða.