28. kafli
Ljós handa þjóðunum
1, 2. Af hverju er ljós lífsnauðsynlegt og hvers konar myrkur grúfir yfir jörðinni núna?
JEHÓVA er uppspretta ljóssins. Hann setti „sólina til að lýsa um daga, tunglið og stjörnurnar til að lýsa um nætur.“ (Jeremía 31:35) Þetta eitt ætti að vera nægileg ástæða til að viðurkenna hann sem uppsprettu lífsins því að líf er háð ljósi. Væri jörðin ekki böðuð stöðugu varma- og ljósflæði sólar væri hún óbyggileg og ekkert líf þrifist hér í þeirri mynd sem við þekkjum.
2 Það er því háalvarlegt mál fyrir okkur að Jehóva skuli hafa spáð myrkurtíma en ekki ljóss á okkar dögum, en Jesaja skrifaði vegna innblásturs: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ (Jesaja 60:2) Hér er auðvitað verið að tala um andlegt myrkur en ekki bókstaflegt, en málið er engu að síður alvarlegt því að þeim sem fá ekki andlegt ljós er ekki lífs auðið, frekar en sólarljósið væri frá þeim tekið.
3. Hvar er ljós að finna á þessum myrku tímum?
3 Við getum ekki leyft okkur að hunsa andlega ljósið sem Jehóva lætur í té á þessum myrku tímum. Við verðum að láta orð hans lýsa okkur veginn og lesa daglega í Biblíunni ef kostur er. (Sálmur 119:105) Safnaðarsamkomur eru prýðistækifæri til að hvetja hvert annað til að halda okkur á ‚götu réttlátra.‘ (Orðskviðirnir 4:18; Hebreabréfið 10:23-25) Biblíunám og heilnæmt samfélag við trúsystkini styrkir varnir okkar gegn því að sogast út í myrkur hinna ‚síðustu daga‘ sem ná hámarki á ‚reiðidegi Jehóva.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Sefanía 2:3) Dagur þessi nálgast óðfluga og hann kemur jafnörugglega og sams konar dagur rann upp yfir íbúum Jerúsalem til forna.
‚Jehóva mun dóm heyja‘
4, 5. (a) Hvernig fer Jehóva gegn Jerúsalem? (b) Hvers vegna getum við ályktað sem svo að tiltölulega fáir myndu lifa af eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t.? (Sjá neðanmálsgrein.)
4 Í síðustu versum hins hrífandi spádóms Jesaja lýsir Jehóva þeim atburðum sem eru undanfari reiðidagsins. Við lesum: „[Jehóva] kemur í eldi, og vagnar hans eru sem vindbylur, til þess að gjalda reiði sína í heift og hótun sína í eldslogum. Því að [Jehóva] mun dóm heyja með eldi, og með sverði sínu yfir öllu holdi, og þeir munu margir verða, er [Jehóva] fellir.“ — Jesaja 66:15, 16.
5 Þessi orð ættu að vekja samtíðarmenn Jesaja til vitundar um þá úlfakreppu sem þeir eru í. Jehóva hefur falið Babýloníumönnum að framkvæma dóm, og tíminn nálgast er þeir þeysa á vögnum sínum til Jerúsalem í rykskýjum eins og vindbylur væri á ferð. Það verður ógnvekjandi sjón. Jehóva notar innrásarmenn til að fullnægja eldheitum dómi yfir öllu ótrúu „holdi“ meðal Gyðinga. Það verður engu líkara en að hann sé sjálfur að berjast gegn fólki sínu. „Heift“ hans verður ekki afstýrt og hann „fellir“ marga. Þessi spádómur rætist árið 607 f.o.t.a
6. Hvaða svívirða á sér stað í Júda?
6 Er réttlætanlegt af Jehóva að ‚heyja dóm‘ gegn þjóð sinni? Já, í umfjöllun okkar um Jesajabók hefur komið margsinnis fram að Gyðingar voru djúpt sokknir í falsguðadýrkun þó að þeir ættu að heita vígðir Jehóva, og einnig er ljóst að Jehóva var ekki blindur á framferði þeirra. Þetta kemur aftur fram í næsta versi spádómsins: „Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs — þeir skulu allir undir lok líða — segir [Jehóva].“ (Jesaja 66:17) Eru þessir Gyðingar að „helga sig og hreinsa sig“ fyrir sanna tilbeiðslu? Augljóslega ekki. Hreinsunin er að heiðnum sið og á sér stað í sérstökum fórnarlundum, og síðan háma þeir í sig svínakjöt og annað sem álitið er óhreint samkvæmt Móselögunum. — 3. Mósebók 11:7, 21-23.
7. Hvernig líkist kristni heimurinn skurðgoðalandinu Júda?
7 Hvílík svívirða af hálfu þjóðar sem er í sáttmálasambandi við hinn eina sanna Guð! En blasir ekki sambærileg svívirða við hjá trúfélögum kristna heimsins nú á dögum? Þau segjast þjóna Guði og margir af leiðtogum þeirra gera sér upp mikla guðrækni. En þessi trúfélög óhreinka sig með heiðnum kenningum og siðum og sýna þar með að þau eru í andlegu myrkri. Og hvílíkt myrkur! — Matteus 6:23; Jóhannes 3:19, 20.
‚Þær skulu sjá dýrð mína‘
8. (a) Hvernig fer bæði fyrir Júdamönnum og kristna heiminum? (b) Í hvaða skilningi munu þjóðirnar ‚sjá dýrð Jehóva‘?
8 Er Jehóva kunnugt um vítavert framferði og falskenningar kristna heimsins? Lestu eftirfarandi orð hans, sem Jesaja skrásetti, og dragðu ályktun af þeim: „Ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð.“ (Jesaja 66:18) Jehóva er bæði kunnugt um athafnir og hugsanir þeirra sem segjast þjóna honum og er tilbúinn að dæma þá. Júdamenn segjast trúa á Jehóva en skurðgoðadýrkun þeirra og heiðnar athafnir eru í hróplegu ósamræmi við það. Það er til lítils fyrir þá að „hreinsa“ sig samkvæmt heiðnum siðum. Þjóðinni verður eytt í augsýn grannþjóðanna sem eru líka skurðgoðadýrkendur. Þær munu ‚sjá dýrð Jehóva‘ þegar þær horfa upp á þetta og neyðast til að viðurkenna að orð hans hafa ræst. Þegar kristni heimurinn líður undir lok neyðast margir fyrrverandi vinir og viðskiptafélagar til að standa álengdar og horfa hjálparvana upp á orð Jehóva rætast. — Jeremía 25:31-33; Opinberunarbókin 17:15-18; 18:9-19.
9. Hvaða gleðifréttir boðar Jehóva?
9 Er eyðing Jerúsalem árið 607 f.o.t. merki þess að Jehóva eigi sér ekki votta framar á jörðinni? Nei, ráðvandir menn eins og Daníel og félagar hans þrír halda áfram að þjóna honum þótt útlægir séu í Babýlon. (Daníel 1:6, 7) Samfelld röð dyggra votta Jehóva rofnar ekki, og í lok 70 áranna munu trúfastir karlar og konur yfirgefa Babýlon, snúa heim til Júda og endurvekja hreina tilbeiðslu þar. Jehóva nefnir það næst: „Ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna.“ — Jesaja 66:19.
10. (a) Hvernig verða trúfastir Gyðingar til tákns þegar þeir verða leystir frá Babýlon? (b) Hverjir eru til tákns nú á dögum?
10 Sá fjöldi trúfastra karla og kvenna, sem snýr heim til Jerúsalem árið 537 f.o.t., er undravert tákn og sönnun þess að Jehóva hafi frelsað fólk sitt. Hver gat ímyndað sér að hinir hernumdu Gyðingar fengju einhvern tíma frelsi til að stunda hreina tilbeiðslu í musteri Jehóva? Á fyrstu öldinni voru smurðir kristnir menn á sambærilegan hátt „til tákns og jarteikna,“ og auðmjúkir menn, sem vildu þjóna Jehóva, hópuðust til þeirra. (Jesaja 8:18; Hebreabréfið 2:13) Núna eru smurðir kristnir menn undravert tákn um alla jörðina og þeir dafna í landinu sem þeir hafa byggt að nýju. (Jesaja 66:8) Þeir eru lifandi merki um mátt anda Jehóva og draga til sín auðmjúka menn sem þrá að þjóna honum.
11. (a) Hvernig fræðast þjóðirnar um Jehóva eftir endurreisnina? (b) Hvernig rættist Sakaría 8:23 í upphafi?
11 En hvernig geta menn af þjóðunum, sem hafa ekki haft neina „fregn“ af Jehóva, kynnst honum eftir endurreisnina árið 537 f.o.t.? Það snúa ekki allir trúfastir Gyðingar heim til Jerúsalem eftir að ánauðin í Babýlon er á enda. Sumir búa þar áfram líkt og Daníel en aðrir dreifast víða um lönd. Á fimmtu öld f.o.t. voru Gyðingar búsettir út um allt Persaveldi. (Esterarbók 1:1; 3:8) Sumir hafa eflaust frætt heiðna nágranna sína um Jehóva því að margir af þessum þjóðum tóku gyðingatrú. Á fyrstu öld prédikaði kristni lærisveinninn Filippus fyrir eþíópskum hirðmanni sem var greinilega í þessum hópi. (Postulasagan 8:26-40) Þetta var byrjunaruppfylling á spádómi Sakaría: „Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23) Það má með sanni segja að Jehóva lét ljós lýsa meðal þjóðanna. — Sálmur 43:3.
‚Fórnargjöf Jehóva til handa‘
12, 13. Hvernig koma „bræður“ heim til Jerúsalem frá og með 537 f.o.t.?
12 Þegar Jerúsalem hefur verið endurbyggð munu Gyðingar, búsettir fjarri ættjörðinni, líta á borgina og prestastéttina sem miðstöð hreinnar tilbeiðslu. Margir munu ferðast þangað langan veg til að sækja hinar árlegu hátíðir. Jesaja skrifar: „Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf [Jehóva] til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem — segir [Jehóva] — eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss [Jehóva]. Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta — segir [Jehóva].“ — Jesaja 66:20, 21.
13 Sumir af þessum ‚bræðrum frá öllum þjóðum‘ voru nærstaddir þegar heilögum anda var úthellt yfir lærisveina Jesú á hvítasunnu. Frásagan segir: „Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.“ (Postulasagan 2:5) Þeir höfðu komið þangað til að tilbiðja Guð í samræmi við gyðinglegar venjur, en tóku trú á Jesú Krist og létu skírast er þeir heyrðu fagnaðarerindið um hann.
14, 15. (a) Hvernig söfnuðu hinir smurðu fleiri andlegum ‚bræðrum‘ eftir fyrri heimsstyrjöldina og hvernig voru þeir færðir Jehóva sem „fórnargjafir í hreinum kerum“? (b) Á hvaða hátt ‚tók Jehóva presta af þeim‘? (c) Nefndu dæmi um smurða kristna menn sem áttu þátt í að safna andlegum bræðrum sínum. (Sjá rammagrein á næstu blaðsíðu.)
14 Uppfyllist þessi spádómur á okkar dögum? Já, eftir fyrri heimsstyrjöldina skildu smurðir þjónar Jehóva, með hliðsjón af Ritningunni, að hann hefði stofnsett ríki sitt á himnum árið 1914. Nákvæmar biblíurannsóknir leiddu í ljós að safna átti fleiri ‚bræðrum‘ eða erfingjum að ríkinu. Boðberar ferðuðust ótrauðir „allt til endimarka jarðarinnar“ á alls konar flutnings- og farartækjum til að leita að tilvonandi erfingjum að ríkinu sem komu flestir úr kirkjudeildum kristna heimsins. Þeir sem fundust voru síðan færðir Jehóva að gjöf. — Postulasagan 1:8.
15 Hinir smurðu, sem safnað var fyrstu árin, ætluðust ekki til þess að Jehóva tæki við þeim eins og þeir voru áður en þeir kynntust sannleika Biblíunnar. Þeir tóku að hreinsa sig andlega og siðferðilega þannig að hægt væri að bera þá fram sem „fórnargjafir í hreinum kerum“ eða, eins og Páll postuli lýsti því, sem ‚hreina mey handa Kristi.‘ (2. Korintubréf 11:2) Auk þess að hafna kenningavillum þurftu hinir smurðu að læra að vera algerlega hlutlausir gagnvart stjórnmálum heimsins. Árið 1931, eftir að þeir höfðu hreinsast nægilega, veitti Jehóva þeim þann heiður að bera nafn sitt og kallast vottar Jehóva. (Jesaja 43:10-12) Og Jehóva ‚tók presta af þeim‘ á þann hátt að hinir smurðu voru innlimaðir í ‚konunglegt prestafélag og heilaga þjóð‘ sem færir honum lofgerðarfórnir. — 1. Pétursbréf 2:9; Jesaja 54:1; Hebreabréfið 13:15.
Samsöfnunin heldur áfram
16, 17. Hvert er „afsprengi yðar“ eftir fyrri heimsstyrjöldina?
16 Hið ‚konunglega prestafélag‘ er samanlagt 144.000 manns og að því kom að öllum hafði verið safnað saman. (Opinberunarbókin 7:1-8; 14:1) En var söfnunarstarfinu þá endanlega lokið? Nei, spádómur Jesaja heldur áfram: „Eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti — segir [Jehóva] — eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.“ (Jesaja 66:22) Þessi orð rættust fyrst þegar Gyðingar sneru heim úr ánauðinni í Babýlon og eignuðust börn. Þannig festu heimkomnir Gyðingar, „hin nýja jörð,“ rætur undir nýju gyðingastjórninni sem var „hinn nýi himinn.“ En spádómurinn hefur ræst með sérstaklega athyglisverðum hætti í nútímanum.
17 ‚Múgurinn mikli,‘ sem á von um eilíft líf á jörð, er „afsprengi“ hinnar andlegu þjóðar. Hann er „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ og stendur „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ Hann hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:9-14; 22:17) ‚Múgurinn mikli‘ hefur yfirgefið andlegt myrkur og gengið inn í ljósið sem Jehóva lætur í té. Hann iðkar trú á Jesú Krist og leitast við að halda sér andlega og siðferðilega hreinum líkt og smurðir bræður hans og systur. Hann þjónar undir handleiðslu Krists og ‚stendur stöðugur‘ að eilífu. — Sálmur 37:11, 29.
18. (a) Hvernig hefur múgurinn mikli líkt eftir smurðum bræðrum sínum? (b) Hvernig tilbiðja hinir smurðu og félagar þeirra Jehóva ‚á mánuði hverjum og á viku hverri‘?
18 Þessir iðjusömu karlar og konur með jarðneska von vita að það er mikilvægt að halda sér andlega og siðferðilega hreinum, en jafnframt að það þarf meira til að þóknast Jehóva. Samsöfnunin er í fullum gangi og þau vilja eiga hlutdeild í henni. Opinberunarbókin spáir: „[Þau eru] frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15) Þessi orð minna á næstsíðasta versið í Jesajabók: „Á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér — segir [Jehóva].“ (Jesaja 66:23) Þetta er að rætast núna. Smurðir kristnir menn og félagar þeirra, ‚múgurinn mikli,‘ safnast saman til að tilbiðja Jehóva ‚á mánuði hverjum og á viku hverri,‘ það er að segja að staðaldri, meðal annars með því að sækja safnaðarsamkomur og boða fagnaðarerindið meðal almennings. Kemur þú reglulega ‚til að falla fram fyrir Jehóva‘? Þjónar hans hafa ómælda ánægju af því og múgurinn mikli hlakkar til þess tíma er „allt hold“ — allir lifandi menn — þjónar Jehóva ‚á mánuði hverjum og á viku hverri‘ um alla eilífð.
Óvinir Guðs líða endanlega undir lok
19, 20. Hvaða tilgangi þjónaði Gehenna á biblíutímanum og hvað táknar staðurinn?
19 Eitt vers er eftir í rannsókn okkar á spádómsbók Jesaja. Bókinni lýkur með eftirfarandi orðum: „Þeir munu ganga út og sjá hræ þeirra manna, er rofið hafa trú við mig. Því að ormur þeirra mun ekki deyja og eldur þeirra ekki slokkna, og þeir munu viðurstyggð vera öllu holdi.“ (Jesaja 66:24) Líklegt er að Jesús Kristur hafi haft þennan spádóm í huga er hann hvatti lærisveinana til að einfalda líf sitt og setja hagsmuni Guðsríkis á oddinn. Hann sagði: „Ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti [„Gehenna,“ samkvæmt frummálinu], þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.“ — Markús 9:47, 48; Matteus 5:29, 30, sjá Biblíuna 1912, neðanmáls; 6:33.
20 Hvaða staður er Gehenna? Fræðimaðurinn David Kimhi, sem var Gyðingur, skrifaði endur fyrir löngu: „Þetta er staður . . . sem liggur að Jerúsalem, andstyggilegur mjög, og þangað kasta þeir hræjum og því sem óhreint er. Þar logaði líka stöðugt eldur til að brenna hið óhreina og bein hræjanna. Þess vegna er dómur hinna óguðlegu kallaður Gehinnom á líkingamáli.“ Hafi Gehenna verið losunarstaður fyrir sorp og hræ þeirra sem voru ekki taldir greftrunar verðir, eins og þessi fræðimaður segir, þá var eldurinn heppileg sorpeyðingaraðferð. Ormar átu svo það sem eldurinn skildi eftir. Hér er dregin upp viðeigandi mynd af endalokum allra óvina Guðs.b
21. Fyrir hverja eru niðurlagsorð Jesajabókar uppörvandi og hvers vegna?
21 Má ekki segja að lýsing á hræjum, eldi og ormum sé heldur óhugnanlegur endir á hinum hrífandi spádómi Jesaja? Yfirlýstum óvinum Guðs finnst það eflaust. En lýsing Jesaja á endanlegri tortímingu óguðlegra er mjög uppörvandi fyrir vini Guðs. Þjónar hans þurfa að hafa vissu fyrir því að óvinir þeirra nái aldrei yfirhöndinni á nýjan leik. Þessir óvinir hafa þjáð og hrellt dýrkendur Guðs ákaflega og smánað nafn hans ólýsanlega, en nú er þeim tortímt fyrir fullt og allt. Og þessi áþján mun aldrei endurtaka sig því að „þrengingin mun ekki koma tvisvar.“ — Nahúm 1:9.
22, 23. (a) Lýstu í stuttu máli hvaða gagn þú hefur haft af rannsókn þinni á Jesajabók. (b) Hvað ertu ákveðinn að gera að lokinni rannsókn þinni á Jesajabók, og hvaða von berðu í brjósti?
22 Rannsókn okkar á Jesajabók er nú á enda og það er augljóst að hún er ekki aðeins forn saga heldur hefur hún að geyma boðskap handa okkur. Margt er hliðstætt með okkar tímum og hinum myrku tímum sem Jesaja lifði. Í hans tíð voru hræringar í stjórnmálum, hræsni í trúmálum, spilling í dómsmálum og trúfastir og fátækir voru kúgaðir. Hið sama er uppi á teningnum núna. Trúir Gyðingar á sjöttu öld f.o.t. hljóta að hafa verið þakklátir fyrir spádóm Jesaja og það er sömuleiðis uppörvandi fyrir okkur að rannsaka hann.
23 Við lifum á erfiðum tímum er myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum, svo að við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að veita öllu mannkyni ljós fyrir milligöngu Jesaja. Þetta andlega ljós er hvorki meira né minna en forsenda eilífs lífs fyrir alla sem taka við því, óháð þjóðerni þeirra eða uppruna. (Postulasagan 10:34, 35) Höldum því áfram að ganga í ljósinu frá orði Guðs, lesa það daglega, hugleiða það og meta það mikils. Það verður okkur til eilífrar blessunar og til lofs fyrir heilagt nafn Jehóva!
[Neðanmáls]
a Jeremía 52:15 lýsir ástandinu eftir að Jerúsalem féll fyrir Babýloníumönnum og talar um „leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni.“ Bókin Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 415 segir: „Orðin ‚er eftir voru í borginni‘ virðast merkja að mikill fjöldi hafi dáið af völdum hungurs, sjúkdóma eða elds, eða fallið í stríðinu.“
b Gehenna táknar ekki eilífar kvalir því að lifandi fólki var ekki eytt þar heldur hræjum.
[Rammi á blaðsíðu 409]
Smurðar gjafir til Jehóva frá öllum þjóðum
Juan Muñiz fór frá Bandaríkjunum til Spánar árið 1920 og þaðan til Argentínu þar sem hann skipulagði söfnuði hinna smurðu. Frá 1923 skein sannleiksljósið á hjartahreina menn í Vestur-Afríku þegar trúboðinn William R. Brown (oft kallaður Biblíu-Brown) boðaði Guðsríki í Gambíu, Gana, Líberíu, Nígeríu og Síerra Leóne. Sama ár ferðaðist Kanadamaðurinn George Young til Brasilíu og síðan til Argentínu, Kostaríka, Panama, Venesúela og meira að segja til Sovétríkjanna. Um sama leyti sigldi Edwin Skinner frá Englandi til Indlands þar sem hann vann um langt árabil að uppskerunni.
[Mynd á blaðsíðu 411]
Sumir Gyðinganna á hvítasunnu voru ‚bræður fluttir heim frá öllum þjóðum.‘
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 413]