10. kafli
Fyrirheitið um friðarhöfðingja
1. Hvað hefur mannkynið mátt þola frá tímum Kains?
FYRSTA mannsbarnið fæddist fyrir sex þúsund árum hér um bil. Þetta var drengurinn Kain og fæðingin var mjög sérstök. Hvorki foreldrar hans né englarnir höfðu séð mannsbarn áður. Skaparinn hafði ekki einu sinni séð það. Þessi nýfæddi drengur hefði getað fært fordæmdu mannkyni von. En því miður gerðist hann morðingi á fullorðinsaldri. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Mannkynið hefur orðið vitni að ótal morðum síðan. Menn hafa sterka tilhneigingu til að gera illt og eiga hvorki frið við Guð né hver við annan. — 1. Mósebók 6:5; Jesaja 48:22.
2, 3. Hvaða leið opnaði Jesús Kristur og hvað þurfum við að gera til að hljóta slíka blessun?
2 Annað mannsbarn fæddist um fjögur þúsund árum á eftir Kain. Þetta var drengurinn Jesús og fæðing hans var einnig mjög sérstök. Hann fæddist af mey vegna kraftar heilags anda — og það er eina fæðingin sinnar tegundar í mannkynssögunni. Fjöldi glaðra engla lofsöng Guði við fæðingu hans: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúkas 2:13, 14) Jesús var ekki morðingi heldur opnaði mönnum leiðina til að eignast frið við Guð og eilíft líf. — Jóhannes 3:16; 1. Korintubréf 15:55.
3 Jesaja spáði að Jesús yrði kallaður „Friðarhöfðingi.“ (Jesaja 9:6) Hann átti að leggja líf sitt í sölurnar fyrir mannkynið svo að hægt væri að fyrirgefa því syndir þess. (Jesaja 53:11) Núna er hægt að eiga frið við Guð og hljóta syndafyrirgefningu vegna trúar á Jesú Krist. En það gerist ekki sjálfkrafa. (Kólossubréfið 1:21-23) Þeir sem vilja hljóta þessa blessun verða að læra að hlýða Jehóva Guði. (1. Pétursbréf 3:11; samanber Hebreabréfið 5:8, 9.) Ísrael og Júda gerðu hið gagnstæða á dögum Jesaja.
Á vit illra anda
4, 5. Hvernig var ástandið á dögum Jesaja og hvert leituðu sumir?
4 Vegna óhlýðni eru samtíðarmenn Jesaja svo ömurlega á sig komnir siðferðilega að það má segja að þeir séu í andlegu myrkri. Það er ekki einu sinni friður í Júdaríkinu í suðri þar sem musteri Guðs stendur. Sökum ótrúmennsku Júdamanna blasir við að Assýringar ráðist inn í landið og erfiðir tímar eru framundan. Hvar leita þeir hjálpar? Því miður leita margir til Satans en ekki Jehóva. Þeir ákalla Satan svo sem ekki með nafni, en þeir iðka andatrú líkt og Sál konungur að fornu og reyna að ná sambandi við hina dánu til að leysa vandamál sín. — 1. Samúelsbók 28:1-20.
5 Sumir hvetja jafnvel til þessa. Jesaja minnist á þetta fráhvarf og segir: „Ef þeir segja við yður: ‚Leitið til andasæringamanna og spásagnamanna, sem hvískra og umla!‘ — á ekki fólk að leita frétta hjá Guði sínum? á að leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?“ (Jesaja 8:19, síðari hluti úr Biblíunni 1912) Andamiðlar geta blekkt fólk með ‚hvískri og umli.‘ Miðillinn getur beitt þessum hljóðbrellum með búktali en látið virðast sem hljóðin komi frá öndum látinna. Stundum geta illir andar þó verið með í spilinu og þóst vera hinn látni eins og gerðist greinilega þegar Sál leitaði til seiðkonunnar í Endór. — 1. Samúelsbók 28:8-19.
6. Af hverju er það sérstaklega ámælisvert að Ísraelsmenn skuli stunda andatrú?
6 Allt þetta á sér stað í Júda þó svo að Jehóva hafi bannað andatrúariðkanir og dauðarefsing liggi við samkvæmt Móselögunum. (3. Mósebók 19:31; 20:6, 27; 5. Mósebók 18:9-12) Af hverju drýgir eignarlýður Jehóva svona alvarlega synd? Af því að þjóðin hefur snúið baki við ráðum hans og lögmáli, ‚forherst af táli syndarinnar.‘ (Hebreabréfið 3:13) „Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri“ og þeir eru orðnir fjarlægir Guði sínum. — Sálmur 119:70.a
7. Hvernig líkja margir nú á tímum eftir Ísraelsmönnum á dögum Jesaja og hvað bíður þeirra ef þeir iðrast ekki?
7 Sennilega hugsa þeir með sér: ‚Hvaða gagn er í lögmáli Jehóva þegar árás Assýringa er yfirvofandi?‘ Þeir vilja fá skjóta og auðvelda lausn á vandræðum sínum og eru ekki á þeim buxunum að bíða eftir því að Jehóva láti vilja sinn ná fram að ganga. Margir hunsa líka lög Jehóva nú á tímum og leita til andamiðla, lesa stjörnuspár eða stunda dulspeki í einhverri annarri mynd í von um að geta leyst vandamál sín. En það er jafnfáránlegt núna og forðum daga að leita svara hjá hinum dauðu. Þeir sem stunda slíkt og iðrast ekki hljóta sömu örlög og ‚manndráparar, frillulífismenn og allir lygarar.‘ Þeir eiga sér enga lífsvon í framtíðinni. — Opinberunarbókin 21:8.
‚Kenning Guðs og vitnisburður‘
8. Hvað er ‚kenningin‘ og ‚vitnisburðurinn‘ þar sem við ættum að leita leiðsagnar?
8 Lögmál Jehóva með andatrúarbanninu og öðrum boðum er ekki falið í Júda. Það er varðveitt í bók. Núna er orð hans í heild í Biblíunni sem inniheldur bæði lög hans og reglur og einnig frásögn af samskiptum hans við fólk sitt. Þessi frásaga af verkum Jehóva er vitnisburður um eðli hans og eiginleika. Hvert ættu Ísraelsmenn að leita sér til leiðsagnar í stað þess að spyrja hina dánu? „Til kenningarinnar og vitnisburðarins!“ svarar Jesaja. (Jesaja 8:20a) Þeir sem vilja fá sanna upplýsingu ættu að leita hennar í rituðu orði Guðs.
9. Er eitthvert gagn í því fyrir iðrunarlausa syndara að vitna í Biblíuna af og til?
9 Sumir Ísraelsmenn, sem eru að gutla við andatrú, segjast kannski bera virðingu fyrir rituðu orði Guðs. En þetta er innantóm hræsni. Jesaja segir: „Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða.“ (Jesaja 8:20b) Hvaða orð er Jesaja að tala um? Kannski orðin: „Til kenningarinnar og vitnisburðarins!“ Vera má að sumir fráhvarfsmenn í Ísrael vísi í orð Guðs, rétt eins og fráhvarfsmenn og fleiri vitna í Biblíuna nú á tímum. En það eru innantóm orð. Að vitna í Biblíuna gefur engan „morgunroða“ eða upplýsingu frá Jehóva ef menn gera ekki jafnframt vilja hans og forðast óhreinar venjur með öllu.b
„Ekki hungur eftir brauði“
10. Hvernig líða Júdamenn fyrir að hafa hafnað Jehóva?
10 Óhlýðni við Jehóva er ávísun á andlega blindu. (Efesusbréfið 4:17, 18) Júdamenn eru orðnir skilningslausir á það sem andlegt er. (1. Korintubréf 2:14) Jesaja lýsir ástandi þeirra svo: „[Þeir] munu ráfa hrjáðir og hungraðir.“ (Jesaja 8:21a) Tilvera Júda sem sjálfstæðs ríkis er í hættu sökum ótrúmennsku þjóðarinnar, einkanlega í stjórnartíð Akasar. Þjóðin er umkringd óvinum. Assýríuher ræðst á Júdaborgir hverja af annarri. Óvinirnir eyða ræktarland með tilheyrandi matarskorti. Margir eru „hrjáðir og hungraðir.“ En það er líka annars konar hungur sem herjar á landið. Amos spáði nokkrum áratugum áður: „Sjá, þeir dagar munu koma, — segir [Jehóva] Guð, — að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð [Jehóva].“ (Amos 8:11) Núna herjar andleg hungursneyð á Júda.
11. Læra Júdamenn af aganum sem þeir fá?
11 Læra Júdamenn af reynslunni og snúa aftur til Jehóva? Snúa þeir baki við andatrú og skurðgoðadýrkun og leita aftur „til kenningarinnar og vitnisburðarins“? Jehóva sér viðbrögð þeirra fyrir: „Er þá hungrar munu þeir fyllast bræði og formæla konungi sínum og Guði sínum.“ (Jesaja 8:21b) Já, margir kenna mennskum konungi sínum um að hafa leitt sig í þessar ógöngur. Sumir sýna jafnvel þá heimsku að kenna Jehóva um ógæfu sína! (Samanber Jeremía 44:15-18.) Það eru líka algeng viðbrögð núna að kenna Guði um ógæfu sem orsakast af illsku mannanna.
12. (a) Hvert hefur það leitt Júda að snúa baki við Guði? (b) Hvaða mikilvægra spurninga er spurt?
12 Fá Júdamenn frið með því að formæla Guði? Nei, Jesaja boðar: „Hvort sem horft er til himins eða litið til jarðar, sjá, þar er neyð og myrkur. Í angistarsorta og niðdimmu eru þeir útreknir.“ (Jesaja 8:21c, 22) Eftir að hafa horft til himins og álasað Guði horfa þeir til jarðar þar sem allt virðist vonlaust. Þeir hafa kallað yfir sig ógæfu með því að yfirgefa Guð. (Orðskviðirnir 19:3) En hvað um fyrirheit Guðs við Abraham, Ísak og Jakob? (1. Mósebók 22:15-18; 28:14, 15) Ætlar Jehóva að ganga á bak orða sinna? Tekst Assýringum eða einhverju öðru herveldi að gera út af við konungsættina sem Júda og Davíð var heitið? (1. Mósebók 49:8-10; 2. Samúelsbók 7:11-16) Verða Ísraelsmenn dæmdir í ævarandi myrkur?
„Vansæmd“ yfir landinu
13. Hver er ‚Galílea heiðingjanna‘ og hvernig ‚kom vansæmd yfir hana‘?
13 Jesaja ýjar nú að einhverjum stórkostlegustu hörmungum sem koma yfir afkomendur Abrahams: „Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna.“ (Jesaja 9:1) Galílea er landssvæði í norðurríkinu Ísrael. Í spádómi Jesaja er „Sebúlonsland og Naftalíland“ talið til Galíleu og einnig ‚leiðin til hafsins‘ sem var forn vegur meðfram Galíleuvatni og allt til Miðjarðarhafs. Á dögum Jesaja er svæðið kallað ‚Galílea heiðingjanna,‘ sennilega vegna þess að margar af borgunum þar eru byggðar annarra þjóða mönnum.c Hvernig er „vansæmd“ yfir þessu landi? Hinir heiðnu Assýringar leggja það undir sig, senda Ísraelsmenn í útlegð og flytja svo inn á allt svæðið heiðna menn sem eru ekki afkomendur Abrahams. Tíuættkvíslaríkið í norðri hverfur þannig af síðum sögunnar sem sérstakt þjóðríki. — 2. Konungabók 17:5, 6, 18, 23, 24.
14. Í hvaða skilningi verður „myrkur“ Júdaríkisins minna en tíuættkvíslaríkisins?
14 Assýringar þjarma einnig að Júda. Hverfur Júdaríkið einnig út í varanlegt „myrkur“ eins og tíuættkvíslaríkið sem Sebúlonsland og Naftalíland stendur fyrir? Nei, „síðar meir“ blessar Jehóva svæði suðurríkisins Júda og reyndar einnig landið sem áður tilheyrði norðurríkinu. Hvernig þá?
15, 16. (a) Hvenær „síðar meir“ breytist ástandið í ‚Sebúlonslandi og Naftalílandi‘? (b) Hvernig var varpað frægð á landið sem áður var í vansæmd?
15 Matteus postuli svarar því í innblásinni sögu sinni af þjónustu Jesú hér á jörð. Hann lýsir upphafinu að þjónustu hans þannig: „Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí. Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna. Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.“ — Matteus 4:13-16.
16 Já, orðin „síðar meir“ í spádómi Jesaja vísa til þjónustutíma Krists á jörð. Jesús eyddi stærstum hluta jarðvistar sinnar í Galíleu. Það var þar sem hann hóf þjónustu sína og tók að boða að ‚himnaríki væri í nánd.‘ (Matteus 4:17) Það var í Galíleu sem hann flutti hina frægu fjallræðu, valdi postulana, gerði fyrsta kraftaverkið og birtist um 500 fylgjendum eftir upprisu sína. (Matteus 5:1–7:27; 28:16-20; Markús 3:13, 14; Jóhannes 2:8-11; 1. Korintubréf 15:6) Jesús uppfyllti þannig spádóm Jesaja með því að varpa frægð á „Sebúlonsland og Naftalíland.“ Hann einskorðaði þjónustu sína auðvitað ekki við Galíleu heldur ‚varpaði frægð‘ á allt Ísraelsland með því að boða fagnaðarerindið í öllu landinu, þar á meðal í Júda.
„Mikið ljós“
17. Hvernig skín „mikið ljós“ í Galíleu?
17 En Matteus minntist líka á „mikið ljós“ í Galíleu. Hann vitnaði þar í spádóm Jesaja sem segir: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.“ (Jesaja 9:2) Á fyrstu öld okkar tímatals voru heiðnar falskenningar farnar að skyggja mjög á sannleiksljósið. Trúarleiðtogar Gyðinga höfðu bætt gráu ofan á svart með því að halda á loft trúarlegum erfikenningum sem ‚ógiltu orð Guðs.‘ (Matteus 15:6) Auðmjúkt almúgafólk var kúgað og ráðvillt og fylgdi ‚blindum leiðtogum.‘ (Matteus 23:2-4, 16) Augu margra auðmjúkra manna opnuðust þegar Jesús Messías kom fram. (Jóhannes 1:9, 12) Starf hans á jörðinni og blessunin, sem hlaust af fórn hans, er réttilega kallað „mikið ljós“ í spádómi Jesaja. — Jóhannes 8:12.
18, 19. Hvaða ástæðu höfðu þeir sem tóku við ljósinu til að gleðjast?
18 Þeir sem tóku við ljósinu höfðu ærið tilefni til að gleðjast. Jesaja heldur áfram: „Þú eykur stórum fögnuðinn [„þú gjörir þessa þjóð fjölmenna,“ Biblían 1859], þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.“ (Jesaja 9:3) Prédikun Jesú og fylgjenda hans varð þess valdandi að hjartahreinir menn gengu fram og sýndu að þeir þráðu að tilbiðja Jehóva í anda og sannleika. (Jóhannes 4:24) Fjöldi manns tók kristna trú á innan við fjórum árum. Þrjú þúsund manns létu skírast á hvítasunnudeginum árið 33. Skömmu síðar varð „tala karlmanna . . . um fimm þúsundir.“ (Postulasagan 2:41; 4:4) Lærisveinarnir endurspegluðu ljósið af kappi og „tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.“ — Postulasagan 6:7.
19 Fylgjendur Jesú fögnuðu aukningunni líkt og menn gleðjast yfir góðri uppskeru eða verðmætu herfangi sem skipt er eftir mikinn sigur. (Postulasagan 2:46, 47) Með tíð og tíma lét Jehóva ljósið skína meðal þjóðanna. (Postulasagan 14:27) Fólk allra kynþátta gat nú glaðst vegna þess að því hafði verið opnuð leiðin til að nálgast Jehóva. — Postulasagan 13:48.
„Eins og á degi Midíans“
20. (a) Hvernig reyndust Midíanítar óvinir Ísraels og hvernig bjó Jehóva svo um hnútana að það stafaði ekki lengur hætta af þeim? (b) Hvernig mun Jesús gera að engu hættuna af óvinum fólks Guðs á „degi Midíans“ síðar meir?
20 Áhrifin af starfi Messíasar eru varanleg eins og sjá má af orðum Jesaja: „Hið þunga ok hennar, stafinn, sem reið að herðum hennar, brodd rekstrarmannsins, hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíans.“(Jesaja 9:4) Öldum fyrir daga Jesaja lögðust Midíanítar og Móabítar á eitt um að tæla Ísrael til að syndga. (4. Mósebók 25:1-9, 14-18; 31:15, 16) Síðar fóru Midíanítar með hernað á hendur Ísraelsmönnum og rændu þorp og sveitabæi um sjö ára skeið. (Dómarabókin 6:1-6) En þá notaði Jehóva þjón sinn Gídeon til að gersigra her þeirra. Ekkert bendir til að fólk Jehóva hafi orðið fyrir barðinu á Midíanítum eftir þennan ‚dag Midíans.‘ (Dómarabókin 6:7-16; 8:28) Í náinni framtíð mun Jesús Kristur, hinn meiri Gídeon, reka óvinum fólks Jehóva banahögg. (Opinberunarbókin 17:14; 19:11-21) Það verður alger sigur og varanlegur „eins og á degi Midíans,“ unninn með krafti Jehóva en ekki mannlegri frækni. (Dómarabókin 7:2-22) Aldrei framar verður lagt kúgunarok á fólk Guðs!
21. Hvað gefur spádómur Jesaja til kynna um framtíð hernaðar?
21 Þótt Guð birti mátt sinn þannig er ekki verið að bera lof á hernað. Hinn upprisni Jesús er friðarhöfðingi og kemur á eilífum friði með því að gereyða óvinum sínum. Jesaja talar nú um að hermannabúnaði sé eytt í eldi: „Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur.“ (Jesaja 9:5) Aldrei framar mun heyrast hark í hermannastígvélum. Aldrei framar munu sjást blóðstokknir búningar stríðsstæltra hermanna. Styrjaldir verða stöðvaðar fyrir fullt og allt! — Sálmur 46:10.
„Undraráðgjafi“
22. Hvaða margþætt spádómsnafn er Jesú gefið í Jesajabók?
22 Þegar drengurinn fæddist, sem átti að verða Messías, var honum gefið nafnið Jesús. Nafn þetta merkir „Jehóva er hjálpræði“ en hann hefur fleiri nöfn, spádómleg nöfn sem lýsa lykilhlutverki hans og hárri stöðu. Eitt þeirra er Immanúel sem merkir „Guð með oss.“ (Jesaja 7:14, neðanmáls) Jesaja segir nú frá öðru spádómlegu nafni: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ (Jesaja 9:6) Veltu fyrir þér djúpstæðri merkingu þessa margþætta, spádómlega nafns.
23, 24. (a) Hvernig er Jesús „Undraráðgjafi“? (b) Hvernig geta kristnir ráðgjafar líkt eftir fordæmi Jesú?
23 Jesús Kristur var frábær ráðgjafi þegar hann var hér á jörð. Við lesum í Biblíunni að ‚mannfjöldinn hafi undrast mjög kenningu hans.‘ (Matteus 7:28) Hann er vitur og hluttekningarsamur ráðgjafi og býr yfir óvenjudjúpum skilningi á mannlegu eðli. Ráð hans eru oftar leiðbeiningar og kærleiksríkar ábendingar en umvöndun og ofanígjöf. Ráð hans eru undraráð af því að þau eru alltaf viturleg, fullkomin og óskeikul. Þau leiða til eilífs lífs ef þeim er fylgt. — Jóhannes 6:68.
24 Ráð Jesú eru ekki hans eigin snilligáfu að þakka heldur sagði hann: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Jesús hefur visku sína frá Jehóva Guði, alveg eins og Salómon konungur. (1. Konungabók 3:7-14; Matteus 12:42) Fordæmi hans ætti að hvetja kennara og ráðgjafa í kristna söfnuðinum til að byggja fræðslu sína alltaf á orði Guðs. — Orðskviðirnir 21:30.
„Guðhetja“ og „Eilífðarfaðir“
25. Hvað segir nafngiftin „Guðhetja“ um hinn himneska Jesú?
25 Jesús er líka „Guðhetja“ og „Eilífðarfaðir.“ Það merkir ekki að hann hrifsi völd og stöðu Jehóva sem er ‚Guð faðir okkar.‘ (2. Korintubréf 1:2) „Hann [Jesús] fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.“ (Filippíbréfið 2:6) Hann er kallaður Guðhetja, ekki alvaldur Guð. Jesús leit aldrei á sjálfan sig sem alvaldan Guð því að hann talaði um föður sinn sem „hinn eina sanna Guð,“ það er að segja eina Guðinn sem á að tilbiðja. (Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 4:11) Í Ritningunni getur orðið „guð“ merkt „hinn voldugi“ eða „hinn sterki.“ (2. Mósebók 12:12; Sálmur 8:6; 2. Korintubréf 4:4) Jesús var „guð“ og „í Guðs mynd“ áður en hann kom til jarðar. Eftir upprisu sína var honum veitt enn hærri staða á himnum en áður. (Jóhannes 1:1, NW; Filippíbréfið 2:6-11) Og titillinn „guð“ felur fleira í sér því að dómarar í Ísrael voru kallaðir „guðir“ — einu sinni af Jesú sjálfum. (Sálmur 82:6; Jóhannes 10:35) Jehóva hefur skipað Jesú dómara „sem dæma mun lifendur og dauða,“ svo að ljóst er að hann er réttnefndur Guðhetja. — 2. Tímóteusarbréf 4:1; Jóhannes 5:30.
26. Hvernig er hægt að kalla Jesú ‚Eilífðarföður‘?
26 Titillinn „Eilífðarfaðir“ lýsir valdi og mætti messíasarkonungsins til að veita mönnum von um eilíft líf á jörð. (Jóhannes 11:25, 26) Adam, faðir mannkynsins, gaf okkur dauðann í arf. Jesús, hinn síðari Adam, varð að „lífgandi anda.“ (1. Korintubréf 15:22, 45; Rómverjabréfið 5:12, 18) Eilífðarfaðirinn Jesús lifir að eilífu, svo að hlýðið mannkyn nýtur góðs af föðurhlutverki hans um alla eilífð. — Rómverjabréfið 6:9.
„Friðarhöfðingi“
27, 28. Hvaða blessun hljóta væntanlegir þegnar ‚Friðarhöfðingjans‘ bæði núna og í framtíðinni?
27 Auk þess að lifa eilíflega þarf maðurinn að búa við frið, bæði við Guð og náungann. Þeir sem lúta stjórn ‚Friðarhöfðingjans‘ hafa nú þegar ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.‘ (Jesaja 2:2-4) Þeir ala ekki hatur í brjósti vegna stjórnmálaágreinings, landakrafna, kynþáttamunar eða ólíks efnahags. Þeir eru sameinaðir í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði Jehóva, og þeir leggja sig fram um að eiga friðsamleg samskipti við náungann, bæði innan safnaðar og utan. — Galatabréfið 6:10; Efesusbréfið 4:2, 3; 2. Tímóteusarbréf 2:24.
28 Á tilsettum tíma Guðs mun Kristur koma á varanlegum og traustum friði um alla jörð. (Postulasagan 1:7) „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu.“ (Jesaja 9:7a) Jesús beitir ekki friðarhöfðingjavaldi sínu með hörku. Þegnar hans verða ekki sviptir frjálsum vilja og barðir til hlýðni heldur mun hann gera allt „með réttvísi og réttlæti.“ Það verður kærkomin breyting!
29. Hvað eigum við að gera ef við viljum njóta eilífs friðar?
29 Í ljósi þeirra vísbendinga, sem felast í spádómlegu nafni Jesú, eru lokaorðin í þessum hluta spádóms Jesaja hrífandi. Hann skrifar: „Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ (Jesaja 9:7b) Já, Jehóva er vandlátur og kostgæfinn. Hann gerir ekkert með hálfum huga. Við getum treyst að hann standi við allt sem hann lofar. Hver sem þráir eilífan frið ætti því að þjóna Jehóva af heilum hug. Megi allir þjónar Guðs vera ‚kostgæfnir til góðra verka‘ líkt og Jehóva Guð og Friðarhöfðinginn Jesús. — Títusarbréfið 2:14.
[Neðanmáls]
a Margir telja að Hiskía hafi ort Sálm 119 áður en hann tók við konungdómi. Ef svo er var sálmurinn líklega ortur um svipað leyti og Jesaja spáði.
b Hugsanlegt er að ‚þetta orð‘ í Jesaja 8:20 sé yfirlýsingin um andatrúna sem vitnað er til í Jesaja 8:19. Sé það rétt er Jesaja að segja að andatrúarfrömuðirnir í Júda haldi áfram að hvetja aðra til að leita til andamiðla og fái þar af leiðandi enga frekari upplýsingu frá Jehóva.
c Sumir telja að borgirnar 20 í Galíleu, sem Salómon konungur bauð Híram konungi í Týrus, hafi verið byggðar annarra þjóða mönnum. — 1. Konungabók 9:10-13.
[Kort/mynd á blaðsíðu 122]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
Kórasín
Betsaída
Kapernaum
Genesaretslétta
Galíleuvatn
Magadan
Tíberías
Jórdan
GADARA
Gadara
[Mynd á blaðsíðu 119]
Fæðing Kains og fæðing Jesú voru mjög sérstakar en það var aðeins fæðing Jesú sem var til blessunar.
[Mynd á blaðsíðu 121]
Það verður hungursneyð sem er miklu verri en hungur eftir brauði og þorsti eftir vatni.
[Mynd á blaðsíðu 127]
Jesús var ljós í landinu.