Treystu á Jah Jehóva!
„Treystið Jehóva æ og ætíð, því að Jah Jehóva er eilíft bjarg.“ — JESAJA 26:4, NW.
1, 2. Hvaða fagnaðarsöngur er skráður í Jesajabók 26:1-6 og hvers vegna?
NIÐURLÆGING ‚borgar ofríkisfullra þjóða‘ er tilefni til að syngja sigursöng! (Jesaja 25:3) Slíkan sigur- og lofsöng til hins alvalda Drottins Jehóva er að finna í 26. kafla Jesajabókar frá 1. til 6. versi. Hann er núna sunginn í „Júdalandi“ en Júda merkir „lofaður.“ Eins og í fyrra sinnið notar hin enska King James Version hér orðin „Drottinn Jehóva“ þar sem nafn Guðs er tvítekið. En söngurinn er langtum tilkomumeiri ef nafn Guðs fær að njóta sín þar eins og annars staðar.
2 Hlýðum á hinn hljómfagra söng: „Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann [Jehóva] að múrum og varnarvirki. Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig. Treystið [Jehóva] æ og ætíð, því að [Jah Jehóva] er eilíft bjarg. Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.“ Hvílík gleði að vera í hópi þeirra sem treysta Jehóva og taka nú undir þennan sigursöng — hópi votta Jehóva!
3. (a) Hver er hinn ‚réttláti lýður‘ og hverjir hafa gengið inn um opin ‚hlið‘ þeirrar þjóðar? (b) Hvernig tekst skipulagi Jehóva að sækja fram í sameiningu þrátt fyrir tilraunir óvinarins að sundra því?
3 Drottin Jehóva — Jah Jehóva — mun sannarlega niðurlægja hina drambsömu og frelsa þá sem treysta honum ævinlega. Þótt hinn andlegi Ísrael hafi einu sinni verið „hinn minnsti“ er hann orðinn að „voldugri þjóð,“ ‚réttlátum lýð.‘ Mikill múgur yfir þriggja milljóna manna, sem vill vinna með andlegu Ísraelsþjóðinni, hefur streymt inn um opin ‚hlið‘ skipulags Jehóva sem líkt er við borg. Saman mynda þeir alþjóðlegt bræðrafélag sem er fjölmennara en íbúatala að minnsta kosti 57 ríkja er aðild eiga að hinum svonefndu Sameinuðu þjóðum. En þjóð Guðs, og þeir sem eiga félag við hana, er í sannleika sameinuð. Um alla jörðina hafa þeir það hugarfar að hlýða réttlátum lögum hans. Skipulagsmúrar þjóðar Guðs eru virkisgarður gegn tilraunum Satans til að spilla trúfastri breytni hennar til stuðnings sannleikanum. Óvinurinn getur ekki sundrað framsækinni fylkingu þjóðar Guðs! Við treystum alltaf á ‚Jah Jehóva, hið eilífa bjarg.‘ — Jesaja 54:17; 60:22.
4, 5. (a) Hver er ‚háreista borgin‘ og hvernig fótum treður þjóð Jehóva hana í táknrænni merkingu? (b) Hvenær á spádómurinn í Jesaja 26:10 sér meiriháttar uppfyllingu og hvernig? (c) Við hvað annað á þessi spádómur einnig?
4 Þegar við látum hljóma þá aðvörun að Jehóva sé í þann mund að leggja í rúst ‚háleitu borgina‘ ‚Babýlon hina miklu‘ er uppörvandi að sjá hina hrjáðu og lítilmótlegu taka á móti fagnaðarerindinu um Guðsríki. (Opinberunarbókin 18:2, 4, 5) Á táknrænan hátt fótum troða þeir einnig ‚háreistu borgina,‘ ekki með því að taka þátt í eyðingu hennar heldur því að boða hefndardag Jehóva yfir þessu spillta kerfi. (Jesaja 61:1, 2) Um áratuga skeið hafa vottar Jehóva sýnt góðvild jafnvel hinum óguðlegu, með því að knýja dyra hjá þeim og færa þeim boðskapinn um Guðsríki sem getur bjargað lífi þeirra. En árangurinn hefur verið eins og segir í Jesaja 26:10: „Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign [Jehóva].“
5 Þessi endurreisnarspádómur á sér meiri háttar uppfyllingu nú á dögum. Þótt tækifærið standi mönnum opið vilja fremur fáir gera breytingu á lífi sínu til að mega taka á móti hylli Jehóva „í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja.“ Þeir sem smána Jehóva og dygga votta hans munu ‚ekki sjá hátign Jehóva,‘ því að þeir lifa það ekki að njóta hinna undursamlegu blessana sem munu streyma til mannkynsins eftir að nafn Jehóva hefur verið helgað. (Jesaja 11:9) Spádómurinn getur einnig átt við í paradís á jörð meðal þeirra sem reistir eru upp úr gröfunum. Hver sá sem neitar að samlaga sig kröfum Guðs, eins og koma skýrt fram í „bókum“ Guðs á þeim tíma, fær ekki nafn sitt ritað í „lífsins bók.“ — Opinberunarbókin 20:12, 15; samanber Esekíel 33:11.
Jehóva veitir frið
6. Hvað hrópa tryggir þjónar Jehóva með gleði og hvers vegna?
6 Drottinhollir þjónar Guðs hafa þó brennandi áhuga á að sjá Jah Jehóva upphafinn og vegsamaðan. Þeir ákalla hann um að ‚veita frið‘ þjónum sínum og hrópa með gleði: „Þú hefir gjört þjóðina stóra, [Jehóva], þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins.“ (Jesaja 26:12, 15) Í 210 löndum um allan hnöttinn heldur Jehóva áfram að bæta sauðumlíkum mönnum við andlega þjóð sína. Hundruð þúsundir nýrra félaga láta skírast. Yfir hálf milljón tekur þátt í einhverri grein brautryðjandastarfs í þeim mánuðum sem flest er. Stöðugt er verið að reisa nýja Ríkissali og mótshallir. Útibú Varðturnsfélagsins stækka Betelheimilin og prentsmiðjurnar og bæta við prentbúnaði. Vöxturinn er stöðugur.
7. Af hverju stafar vöxtur skipulags Jehóva?
7 Þennan vöxt má rekja til þess að ‚Friðarhöfðinginn‘ stjórnar málefnum fólks Guðs á jörðinni. Eins og Jesaja segir fyrr í spádómi sínum: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ (Jesaja 9:6, 7) Þessi orð hafa fengið stórfenglega uppfyllingu nú á dögum! Þeir sem treysta á Jehóva njóta nú þegar friðar, réttvísi og réttlætis þessarar höfðinglegu stjórnar. Hún hefur veitt þeim kærleiksríka einingu sem aðeins sannir lærisveinar Jesú njóta. (Jóhannes 13:34, 35) Enn fremur hlakka þeir með ákefð til þess tíma er ríki Jesú mun stjórna og ‚þekkingin á Jehóva‘ mun fylla alla jörðina. — Jesaja 11:9; Daníel 2:35, 44, 45.
8. Hvað sýna orð Jehóva í Jesaja 26:20 og hverju eru ‚herbergin‘ tengd?
8 Þegar vöxtur Guðsríkis nálgast hápunkt sinn hljómar kall Jehóva í Jesaja 26:20: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá.“ Vafalaust eru „herbergi“ þessa spádóms nátengd þeim liðlega 54.000 söfnuðum sem líkt og borgir þjóna vottum Jehóva út um alla jörðina nú á dögum. Tíminn verður að leiða í ljós hvað Jehóva hefur í huga. En við megum vera viss um að þegar hann eyðir hinum illu mun hann vernda þá sem treysta honum, alveg eins og á dögum Jesaja er hann gerði hina grimmu Assýringa afturreka. — Jesaja 10:24-26.
Hjálpræði er tryggt!
9. (a) Hvernig sýndi Hiskía konungur traust sitt á Jehóva? (b) Hvernig ber okkur að bregðast við þegar þeir sem hata Jehóva ofsækja okkur eða spotta?
9 Þjónar Jehóva nú á dögum treysta honum af sömu ástæðu og Hiskía konungur. Hann treysti skilyrðislaust á Jehóva sem sinn alvalda Drottin. Þess vegna bað hann þegar ógnun Assýringa hafði náð hámarki: „[Jehóva] allsherjar, Guð Ísraels, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. Hneig, [Jehóva], eyra þitt og heyr! Opna, [Jehóva], auga þitt og sjá! Heyr þú öll orð Sanheribs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð.“ (Jesaja 37:16, 17) Þegar við erum ofsótt, svívirt eða atyrt af þeim sem hata Jehóva, brennur þá ekki áþekk bæn í hjörtum okkar? Biður þú ekki Jehóva í fullu trausti til hans að afmá þá smán sem hrúgað er á nafn hans? Þannig var Jesú innanbrjóst þegar hann var í þann mund að deyja á kvalastaurnum. Hann bað jafnvel að bikarinn, sem hann var í þann mund að drekka, mætti fara „fram hjá“ honum vegna hinnar miklu smánar sem dauði hans myndi vera fyrir föður hans. — Matteus 26:39-44.
10. (a) Hvernig ber bæn Hiskía vitni um hvað olli honum mestum áhyggjum? (b) Hvernig getum við líkst Hiskía þegar við horfumst í augu við prófraunirnar rétt fyrir Harmagedón?
10 Bæn Hiskía sýnir að engar eigingjarnar hvatir lágu að baki því að hann leitaði frelsunar undan ógn Assýringa. Hann var ekki bara að reyna að bjarga eigin skinni. Þess í stað var honum hugleikið að nafn Jehóva yrði helgað og drottinvald hans upphafið. Því lauk bæn hans með þessum orðum: „En [Jehóva], Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, [Jehóva], einn ert Guð.“ (Jesaja 37:20) Þegar við okkur blasa prófraunir, sem eru undanfari lokastríðsins við Harmagedón, skulum við hafa í huga að hjálpræði sjálfra okkar er lítilsverðara mál en það að helga nafn Jehóva. Eins og okkar alvaldi Drottinn lýsti yfir um 60 sinnum fyrir munn spámannsins Esekíels: „Til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ — Esekíel 38:23.
11. (a) Hvaða mistök urðu Sanherib á og hvað sagði Jehóva um hann? (b) Hverju megum við treysta í ljósi þess hvernig fór fyrir Sanherib?
11 Eftir að Hiskía hafði lokið bæn sinni flutti Jesaja konungi orð Jehóva gegn Sanherib. Þessi assýrski guðlastari hafði gert reginmistök með því að smána hinn lifandi Guð! Fyrir munn Jesaja sagði Jehóva um Sanherib: „Hvern hefir þú smánað og spottað? Og gegn hverjum hefir þú hafið upp raust þína og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum heilaga í Ísrael!“ Og það var Hinn heilagi í Ísrael sem lét til sín taka þá nótt. Það þurfti aðeins einn engil frá Jehóva til að drepa 185.000 assýrska hermenn, rjómann af her Sanheribs. Þessi stórláti konungur hörfaði með smán heim til Níneve og nokkrum árum síðar drápu synir hans hann meðan hann var að dýrka skurðgoð sín. Við getum treyst Jehóva, þess fullviss að hann muni veita Satan og öllu liðsafli hans, sem smánar og ofsækir votta Jehóva með svívirðilegum hætti, áþekka meðferð. — Jesaja 37:23, 36-38.
‚Hinna myrtu‘ hefnt
12. (a) Hvernig lýsir Jesaja 26:21 þeim reikningsskilum sem eiga sér stað við Harmagedón? (b) Hverjir eru ‚hinir myrtu‘ sem verður hefnt jafnvel fyrir Harmagedón, og hvernig mun það fara fram?
12 Það var ógnþrunginn stríðsvöllur sem blasti við á þeim tíma en þau reikningsskil, sem eiga sér stað í ‚þrengingunni miklu,‘ verða enn ógurlegri. (Matteus 24:21) Jehóva býður okkur að veita umfangi slátrunarinnar athygli: „Því sjá, [Jehóva] gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.“ (Jesaja 26:21) Fyrst mun Jehóva láta stjórnmálaöflin fullnægja dómi yfir formælendum falstrúarvillu. Falsguðir þeirra munu ekki bjarga þeim á þeim degi. Páfinn í Róm getur haldið áfram að safna öllum trúfélögum ‚Babýlonar hinnar miklu‘ til samkirkjulegrar bænagerðar. Ekkert þeirra heiðrar hinn sanna og lifandi Guð, Jehóva. Kenningar þeirra eru villukenningar, óbiblíulegar og svo eru einnig vegir þeirra. Áhangendur þeirra hafa slátrað hver öðrum í aldanna rás. Þeir hafa úthellt blóði friðsamra kristinna manna. Nú á 20. öldinni hafa margir þessara stórsyndara stutt grimma einræðisherra sem létu skjóta eða hálshöggva votta Jehóva í fangelsum og fangabúðum. Eins og Jehóva segir skorinort fyrir munn spámanna sinna verður ‚hinna myrtu‘ hefnt. — 5. Mósebók 32:41, 43; Jesaja 1:24; 63:4; Opinberunarbókin 17:15-18; 18:21, 24.
13. Hvað segir Jesaja fyrir varðandi ‚dag Jehóva‘ og við hverja eiga orð hans?
13 Eftir að falstrúarbrögðunum hefur verið gereytt mun Jehóva láta snögglega til skarar skríða gegn öllum andstæðingum ríkis Krists sem eftir eru. Orð Guðs í Jesaja 13:6, 9 eiga við alla slíka andstæðinga, svo og ‚Babýlon hina miklu‘: „Kveinið, því að dagur [Jehóva] er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka. Sjá, dagur [Jehóva] kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.“ Það verður alveg eins og sálmaritarinn Davíð sagði fyrir: „[Jehóva] varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.“ — Sálmur 145:20; Opinberunarbókin 19:11-21.
14. Hvaða orðum Jesaja væri hyggilegt fyrir þjóðirnar að gefa gaum og hvers vegna?
14 Þjóðir jarðarinnar væru hyggnar ef þær færu eftir orðum Jesaja í 34. kafla 1. til 8. versi: „Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! . . . [Jehóva] er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar. Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra. . . . Því að nú er hefndardagur [Jehóva].“ Spilling og siðleysi er mjög útbreitt nú á dögum á sviði stjórnmála, viðskipta og falstrúarbragða. En Jehóva ætlar sér að hreinsa jörðina. Til að svo geti orðið safnar hann út úr þjóðunum þeim sem eru fúsir til að breyta um lífsstefnu og þjóna honum í réttlæti. Þeir eiga í vændum að bjargast. Allir aðrir munu líða undir lok á hefndardegi hans. — Jeremía 25:31-33.
Paradís friðarins
15. Hverju lýsir Jesaja í 35. kafla varðandi (a) nútímann? (b) framtíðina?
15 Í 35. kafla Jesajabókar lýsir spámaður Guðs á fögru, myndríku máli því ástandi sem ríkir meðal endurreistra þjóna hans, þeirra nútímamanna sem treysta honum ævinlega. Þeim hefur verið safnað inn í andlega paradís þar sem þeir „sjá vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“ Þeir hlakka líka til bókstaflegrar paradísar og uppfyllingar fyrirheitsins: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.“ (Jesaja 35:1, 2, 5, 6) Fagnar þú þessum framtíðarhorfum? Treystir þú á Jehóva, þess fullviss að hann standi við þessi fyrirheit?
16, 17. (a) Hvaða áríðandi hvatningu veitir Jesaja samhliða lýsingu sinni á paradís? (b) Hvernig ættu þjónar Jehóva að bregðast við þessari hvatningu?
16 Ef þú treystir á Jehóva getur þú átt hlut í að uppörva hina nýju, svo og aðra sem þarf að styrkja í trúnni. Jesaja skýtur þessari áríðandi hvatningu inn í miðja lýsingu sína á paradís: „Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skögrandi kné! Segið hinum ístöðulausu: ‚Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.‘“ (Jesaja 35:3, 4) Já, við viljum sjá alla, sem hneigjast til réttlætis, byggja upp traust til Jehóva til að þeir fái lifað inn í paradís á jörð.
17 Við skulum því styrkja sérhverja máttvana hönd til að hún geti „haldið fast við orð lífsins.“ Við skulum styrkja hvern þann sem er með skögrandi kné, veita honum þá hjálp sem hann þarf til að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Filippíbréfið 2:16; Kólossubréfið 1:10) Já, við skulum hughreysta hvern þann sem er niðurdreginn og uppörva hvert annað, þegar við stöndum frammi fyrir þrengingum og ofsóknum, til að fá „meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.“ (Filippíbréfið 1:14; 1. Þessaloníkubréf 5:14; Efesusbréfið 5:15, 16) Þá getum við, þegar hefndardagur Jehóva ríður yfir, treyst á blessun hans þegar ‚hann kemur og frelsar þjóna sína.‘ Verður þú á þeim degi meðal þeirra sem treysta á Jehóva til hjálpræðis?
18. Hvaða dýrleg framtíð blasir við þeim sem treysta á Jehóva og hver er ásetningur þeirra?
18 Þeir sem treysta ávallt á Jehóva eiga dýrlega framtíð í vændum. Allir syndugir kúgarar verða horfnir! Í nýjum heimi mun sonur Guðs lyfta upp til fullkomleika og syndleysis þeim sem elska Jah Jehóva. Þráir þú ekki þann tíma? Er þú berð traust til Jehóva munt þú sjálfur fá að lifa þann stórkostlega dag. Já, treystu á Jehóva öllum stundum því að það hefur hjálpræði í för með sér!
Upprifjun
◻ Til hvers hvetur sigursöngurinn í Jesaja 26 okkur?
◻ Hvaða ‚háreista borg‘ mun Jehóva niðurlægja og hvernig troðum við hana fótum?
◻ Hvað lærum við af bæn Hiskía þegar Sanherib ógnaði honum?
◻ Hvernig er ‚hinna myrtu‘ í Jesaja 26:21 hefnt?
◻ Hverjar verða afleiðingarnar ef við treystum á Jah Jehóva?
[Rammi á blaðsíðu 27]
Verður páfastóllinn lögsóttur?
Tímaritið World Press Review segir í ágripi af grein eftir Umberto Siniscalchi sem birtist í Il Giornale í Mílanó: „Æðsti áfrýjunarréttur Ítalíu sætir harðri gagnrýni fyrir að hafa í júlí [1987] ógilt handtökuskipun á hendur þremur bankamönnum í Páfagarði sem voru flæktir í Banco Ambrosiano-hneykslið.“ Úrskurðurinn, byggður á gömlum sáttmála milli Páfagarðs og ítalskra stjórnvalda, veitti stjórnarformanni bankans, sem er erkibiskup, friðhelgi, svo og framkvæmdastjóra og aðalbókara. Í ágripinu segir einnig: „Án þess að áfellast dómarana fyrir þennan úrskurð halda sumir gagnrýnendur því fram að sáttmálinn gangi í berhögg við ítölsku stjórnarskrána með því að veita friðhelgi vissum einstaklingum sem hafa framið lögbrot á ítalskri grund. Sumir meðlimir löggjafarþingsins leggja nú mikið kapp á að ná samkomulagi þess efnis að ítalskir dómstólar fái að lögsækja páfastólinn vegna glæpa sem framdir eru á Ítalíu.“