-
Vei uppreisnarmönnunum!Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 1. bindi
-
-
1. Hvaða herfileg mistök gerði Jeróbóam?
ÞEGAR sáttmálaþjóð Jehóva skiptist í tvö ríki komst tíuættkvíslaríkið í norðri undir stjórn Jeróbóams. Nýi konungurinn var hæfur og röggsamur stjórnandi en trúði ekki á Jehóva í raun. Sökum þess gerði hann herfileg mistök sem settu mark sitt á alla sögu norðurríkisins. Móselögin fyrirskipuðu Ísraelsmönnum að fara upp til musterisins í Jerúsalem þrisvar á ári en það var núna í suðurríkinu Júda. (5. Mósebók 16:16) Jeróbóam óttaðist að þegnarnir myndu vilja sameinast bræðrum sínum í suðri á nýjan leik ef þeir færu þangað reglulega svo að hann „lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: ‚Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi.‘ Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan.“ — 1. Konungabók 12:28, 29.
2, 3. Hvaða áhrif höfðu mistök Jeróbóams á Ísrael?
2 Til skamms tíma litið virtust áform Jeróbóams ætla að heppnast. Fólkið hætti smám saman að fara til Jerúsalem og tók að tilbiðja frammi fyrir kálfunum tveim. (1. Konungabók 12:30) En þessar fráhvarfsiðkanir spilltu tíuættkvíslaríkinu. Jafnvel Jehú, sem var uppi mörgum árum síðar, hélt áfram að dýrka gullkálfana þótt hann hefði sýnt lofsverða kostgæfni í að uppræta Baalsdýrkun úr Ísrael. (2. Konungabók 10:28, 29) Hin kolranga ákvörðun Jeróbóams hafði ýmis önnur eftirköst, svo sem pólitískan óstöðugleika og þjáningar fyrir þjóðina.
3 Þar eð Jeróbóam var orðinn fráhvarfsmaður sagði Jehóva að ætt hans myndi ekki sitja áfram að völdum í landinu og að skelfileg ógæfa myndi koma yfir norðurríkið. (1. Konungabók 14:14, 15) Orð Jehóva rættust. Sjö af konungum Ísraels sátu að völdum tvö ár eða skemur — sumir aðeins í fáeina daga. Einn konungur fyrirfór sér og sex voru myrtir af metnaðarfullum valdaræningjum. Verst var ólgan, ofbeldið og morðin eftir stjórnartíð Jeróbóams annars sem lauk um árið 804 f.o.t. meðan Ússía sat að völdum í Júda. Það er með þessa forsögu að baki sem Jehóva sendir skýra viðvörun eða „orð“ fyrir munn Jesaja til norðurríkisins. „[Jehóva] hefir sent orð gegn Jakob, og því lýstur niður í Ísrael.“ — Jesaja 9:8.a
-
-
Vei uppreisnarmönnunum!Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 1. bindi
-
-
a Jesaja 9:8–10:4 skiptist í fjögur erindi sem enda öll á uggvænlegu viðkvæði: „Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ (Jesaja 9:12, 17, 21; 10:4) Þetta stílbragð bindur Jesaja 9:8–10:4 saman í eitt samsett „orð.“ (Jesaja 9:8) Og við veitum athygli að „hönd [Jehóva] er enn þá útrétt,“ ekki til að bjóða sættir heldur til að dæma. — Jesaja 9:13.
-