11. kafli
Vei uppreisnarmönnunum!
1. Hvaða herfileg mistök gerði Jeróbóam?
ÞEGAR sáttmálaþjóð Jehóva skiptist í tvö ríki komst tíuættkvíslaríkið í norðri undir stjórn Jeróbóams. Nýi konungurinn var hæfur og röggsamur stjórnandi en trúði ekki á Jehóva í raun. Sökum þess gerði hann herfileg mistök sem settu mark sitt á alla sögu norðurríkisins. Móselögin fyrirskipuðu Ísraelsmönnum að fara upp til musterisins í Jerúsalem þrisvar á ári en það var núna í suðurríkinu Júda. (5. Mósebók 16:16) Jeróbóam óttaðist að þegnarnir myndu vilja sameinast bræðrum sínum í suðri á nýjan leik ef þeir færu þangað reglulega svo að hann „lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: ‚Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi.‘ Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan.“ — 1. Konungabók 12:28, 29.
2, 3. Hvaða áhrif höfðu mistök Jeróbóams á Ísrael?
2 Til skamms tíma litið virtust áform Jeróbóams ætla að heppnast. Fólkið hætti smám saman að fara til Jerúsalem og tók að tilbiðja frammi fyrir kálfunum tveim. (1. Konungabók 12:30) En þessar fráhvarfsiðkanir spilltu tíuættkvíslaríkinu. Jafnvel Jehú, sem var uppi mörgum árum síðar, hélt áfram að dýrka gullkálfana þótt hann hefði sýnt lofsverða kostgæfni í að uppræta Baalsdýrkun úr Ísrael. (2. Konungabók 10:28, 29) Hin kolranga ákvörðun Jeróbóams hafði ýmis önnur eftirköst, svo sem pólitískan óstöðugleika og þjáningar fyrir þjóðina.
3 Þar eð Jeróbóam var orðinn fráhvarfsmaður sagði Jehóva að ætt hans myndi ekki sitja áfram að völdum í landinu og að skelfileg ógæfa myndi koma yfir norðurríkið. (1. Konungabók 14:14, 15) Orð Jehóva rættust. Sjö af konungum Ísraels sátu að völdum tvö ár eða skemur — sumir aðeins í fáeina daga. Einn konungur fyrirfór sér og sex voru myrtir af metnaðarfullum valdaræningjum. Verst var ólgan, ofbeldið og morðin eftir stjórnartíð Jeróbóams annars sem lauk um árið 804 f.o.t. meðan Ússía sat að völdum í Júda. Það er með þessa forsögu að baki sem Jehóva sendir skýra viðvörun eða „orð“ fyrir munn Jesaja til norðurríkisins. „[Jehóva] hefir sent orð gegn Jakob, og því lýstur niður í Ísrael.“ — Jesaja 9:8.a
Metnaður og stærilæti ávísun á reiði Guðs
4. Hvaða „orð“ sendir Jehóva Ísrael og hvers vegna?
4 Það er ekki hægt að hunsa „orð“ Jehóva. „Öll þjóðin skal verða þess áskynja, bæði Efraím og Samaríubúar, sem af metnaði og stærilæti hjartans segja . . .“ (Jesaja 9:9) Norðurríkið Ísrael er ýmist kallað „Jakob,“ „Ísrael,“ „Efraím“ eða „Samaríubúar,“ en Efraím var helsta ættkvíslin og Samaría höfuðborgin. Orð Jehóva gegn ríkinu er harður dómur því að Efraím hefur forherst í fráhvarfinu og er óskammfeilinn og stærilátur gagnvart Jehóva Guði. Jehóva hlífir ekki fólkinu við afleiðingunum af vonsku þess. Það neyðist til að heyra orð hans eða gefa því gaum. — Galatabréfið 6:7.
5. Hvernig sýna Ísraelsmenn að þeir eru ósnortnir af dómi Jehóva?
5 Ástandið versnar og fólkið verður fyrir alvarlegum búsifjum. Meðal annars missir það heimili sín sem almennt eru úr sólbökuðum tigulsteini og ódýrum viði. Mýkir það hjörtu fólksins? Ætli það fari nú að gegna spámönnum hins sanna Guðs og snúa aftur til hans?b Jesaja skráir hrokafullt svar fólksins: „Tigulsteinarnir eru hrundir, en vér skulum byggja upp aftur af höggnu grjóti, mórberjatrén eru felld, en vér skulum setja sedrustré í staðinn.“ (Jesaja 9:10) Ísraelsmenn bjóða Jehóva byrginn og hafna spámönnum hans sem segja þeim hvers vegna þessar þrengingar komi yfir þá. Í reyndinni segir fólkið: ‚Við missum kannski heimili okkar úr forgengilegum tigulsteini og ódýru timbri, en við meira en bætum tjónið með því að endurbyggja þau úr miklu betri byggingarefnum — höggnu grjóti og sedrusviði!‘ (Samanber Jobsbók 4:19.) Jehóva á ekki annars úrkosti en að aga þá áfram. — Samanber Jesaja 48:22.
6. Hvernig ónýtir Jehóva ráðabrugg Sýrlendinga og Ísraelsmanna gegn Júda?
6 Jesaja heldur áfram: „Þess vegna mun [Jehóva] efla mótstöðumenn Resíns á hendur þeim.“ (Jesaja 9:11a) Peka Ísraelskonungur og Resín Sýrlandskonungur eru bandamenn. Þeir eru að leggja á ráðin með að ná tveggjaættkvíslaríkinu Júda undir sig og setja handbendi sitt, „Tabelsson,“ í hásæti Jehóva í Jerúsalem. (Jesaja 7:6) En samsærið er dauðadæmt. Resín á sér öfluga óvini og Jehóva ‚eflir‘ þá á hendur „þeim,“ það er að segja Ísraelsmönnum. Orðið „efla“ merkir hér að þeim verður leyft að verða vel ágengt í hernaði sínum, eyða bandalaginu og ónýta markmið þess.
7, 8. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir Ísrael að Assýringar vinna Sýrland?
7 Bandalagið leysist upp þegar Assýringar ráðast inn í Sýrland. „Assýríukonungur [fór] herför til Damaskus [höfuðborgar Sýrlands], tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka.“ (2. Konungabók 16:9) Peka sér áform sín með Júda renna út í sandinn þegar hinn voldugi bandamaður hans fellur. Hann er svo sjálfur ráðinn af dögum skömmu eftir dauða Resíns þegar Hósea Elason rænir völdum í Samaríu. — 2. Konungabók 15:23-25, 30.
8 Sýrland, fyrrverandi bandmaður Ísraels, er nú lénsríki Assýríu sem ræður lögum og lofum á svæðinu. Jesaja spáir hvernig Jehóva ætlar að nota þessa nýju stöðu á vettvangi stjórnmálanna: „[Jehóva mun] vopna óvini þeirra [Ísraels], Sýrlendinga að austan og Filista að vestan, og þeir skulu svelgja Ísrael með gapandi gini. Allt fyrir það linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ (Jesaja 9:11b, 12) Sýrlendingar eru nú óvinir Ísraelsmanna sem þurfa að búa sig undir árás Assýringa og Sýrlendinga. Árásin tekst. Valdaræninginn Hósea verður lýðskyldur Assýringum sem leggja á hann þungan skatt. (Assýringar fengu háa fjárhæð fáeinum áratugum áður frá Menahem Ísraelskonungi.) Spámaðurinn Hósea reyndist sannspár: „Útlendir menn hafa eytt krafti hans [Efraíms]!“ — Hósea 7:9; 2. Konungabók 15:19, 20; 17:1-3.
9. Af hverju er sagt að Filistar geri árás „aftan frá“?
9 Segir ekki Jesaja líka að Filistar ráðist inn í landið „að vestan“ eða „aftan frá“ samkvæmt frummálinu? Jú, fyrir tilkomu seguláttavitans miðuðu Hebrear áttirnar við mann sem sneri í átt til sólarupprásar. Hann horfði því til ‚austurs‘ en strandríkið Filistea var „aftan“ við hann í vestri. Sá „Ísrael,“ sem nefndur er í Jesaja 9:12, getur í þessu tilviki náð til Júda líka því að Filistar réðust inn í Júda meðan Akas, samtíðarmaður Peka, var við völd og lögðu undir sig allmargar borgir og virki þar. Júdaríki á skilið þessa ögun frá Jehóva líkt og Efraím í norðri, því að það er líka undirlagt fráhvarfi. — 2. Kroníkubók 28:1-4, 18, 19.
Uppreisnarþjóð frá ‚höfði til hala‘
10, 11. Hvernig ætlar Jehóva að refsa Ísrael vegna stöðugrar uppreisnar ríkisins?
10 Þrátt fyrir allar þjáningar sínar — og þrátt fyrir kröftugar yfirlýsingar spámanna Jehóva — heldur norðurríkið áfram uppreisn sinni gegn honum. „Þjóðin sneri sér ekki til hans, sem laust hana, og [Jehóva] allsherjar leituðu þeir ekki.“ (Jesaja 9:13) Þess vegna segir spámaðurinn: „[Jehóva mun] höggva höfuð og hala af Ísrael, pálmakvistinn og sefstráið á sama degi. Öldungarnir og virðingamennirnir eru höfuðið, spámenn þeir, er kenna lygar, eru halinn. Því að leiðtogar þessa fólks leiða það afleiðis, og þeir, sem láta leiða sig, tortímast.“ — Jesaja 9:14-16.
11 „Höfuðið“ og ‚pálmakvisturinn‘ tákna ‚öldungana og virðingarmennina,‘ það er að segja leiðtoga þjóðarinnar. „Halinn“ og „sefstráið“ eru falsspámennirnir sem segja það sem leiðtogunum geðjast. Biblíufræðingur segir: „Falsspámennirnir eru kallaðir halinn af því að þeir voru mestu dusilmenni þjóðarinnar frá siðferðilegu sjónarmiði, og af því að þeir voru þýlundaðir stuðnings- og fylgismenn illra valdhafa.“ Prófessor Edward J. Young segir um þessa falsspámenn: „Þeir voru engir leiðtogar heldur eltu leiðtogana og smjöðruðu fyrir þeim eins og dinglandi hundsskott.“ — Samanber 2. Tímóteusarbréf 4:3.
Jafnvel ‚ekkjur og munaðarleysingjar‘ eru uppreisnarmenn
12. Hve djúpt ristir spillingin í ísraelsku þjóðfélagi?
12 Jehóva er málsvari ekkna og munaðarleysingja. (2. Mósebók 22:22, 23) En sjáðu hvað Jesaja segir núna: „Fyrir því hefir [Jehóva] enga gleði af æskumönnum þess og enga meðaumkun með munaðarleysingjum þess og ekkjum, því að allir eru þeir guðleysingjar og illvirkjar, og hver munnur mælir heimsku. Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ (Jesaja 9:17) Fráhvarfið hefur spillt fólki af öllum þjóðfélagsstigum, þar á meðal ekkjum og munaðarleysingjum! Þolinmóður sendir Jehóva spámenn sína í von um að fólkið taki sinnaskiptum. Hósea segir til dæmis með bænarrómi: „Snú þú við, Ísrael, til [Jehóva], Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína.“ (Hósea 14:2) Málsvara ekkna og munaðarleysingja hlýtur að þykja það sárt að þurfa að fullnægja dómi yfir þeim.
13. Hvaða lærdóm má draga af ástandinu á dögum Jesaja?
13 Líkt og Jesaja lifum við á háskatímum fyrir dómsdag Jehóva yfir hinum óguðlegu. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Það er því mikilvægt að sannkristnir menn séu andlega, siðferðilega og hugarfarslega hreinir óháð stöðu sinni í lífinu, svo að þeir geti haldið velþóknun Guðs. Hver og einn ætti því að gæta vandlega að sambandi sínu við Jehóva. Enginn, sem hefur sloppið út úr ‚Babýlon hinni miklu,‘ ætti nokkurn tíma aftur að ‚eiga hlut í syndum hennar.‘ — Opinberunarbókin 18:2, 4.
Fölsk tilbeiðsla leiðir til ofbeldis
14, 15. (a) Hvað hlýst af djöfladýrkun? (b) Hvaða þjáningum spáir Jesaja fyrir Ísrael?
14 Fölsk tilbeiðsla er í rauninni djöfladýrkun. (1. Korintubréf 10:20) Áhrif illra anda leiða til ofbeldis eins og sýndi sig fyrir flóðið. (1. Mósebók 6:11, 12) Það er því ekkert undarlegt að ofbeldi og illska skuli fylla landið um leið og Ísraelsmenn gerast fráhverfir trúnni og fara að tilbiðja illa anda. — 5. Mósebók 32:17; Sálmur 106:35-38.
15 Með sterku myndmáli lýsir Jesaja hvernig illska og ofbeldi breiðist út um Ísrael: „Hið óguðlega athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmökk. Vegna reiði [Jehóva] allsherjar stendur landið í björtu báli og fólkið verður sem eldsmatur; enginn þyrmir öðrum. Menn rífa í sig til hægri handar og eru þó hungraðir. Þeir eta til vinstri handar og verða þó eigi saddir. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg: Manasse Efraím og Efraím Manasse, og báðir saman ráða þeir á Júda. Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ — Jesaja 9:18-21.
16. Hvernig rætast orðin í Jesaja 9:18-21?
16 Ofbeldið er stjórnlaust eins og eldur sem berst frá einum þyrnirunna til annars og kveikir á skammri stundu í „þykkum skógarrunnum“ svo að af hlýst heill skógareldur. Biblíuskýrendurnir Keil og Delitzsch kalla ofbeldið „miskunnarlausa sjálfstortímingu í stjórnlausu borgarastríði. Þeir [Ísraelsmenn] voru algerlega tilfinningalausir og gleyptu hver annan en fengu aldrei nóg.“ Líklega eru ættkvíslir Efraíms og Manasse nefndar sérstaklega af því að þær eru aðalfulltrúar norðurríkisins og skyldastar af ættkvíslunum tíu, enda afkomendur tveggja sona Jósefs. En þrátt fyrir það gera þær ekki hlé á bróðurofbeldinu nema til að heyja stríð við Júdamenn í suðri. — 2. Kroníkubók 28:1-8.
Spilltir dómarar koma fyrir dómara sinn
17, 18. Hvaða spilling gagnsýrir réttar- og stjórnkerfi Ísraels?
17 Jehóva snýr sér þessu næst að spilltum dómurum og embættismönnum Ísraels. Þeir misbeita valdi sínu með því að ræna lágt setta og þjáða sem leita réttar síns hjá þeim. Jesaja segir: „Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og færa skaðsemdarákvæði í letur til þess að halla rétti fátækra og ræna lögum hina nauðstöddu á meðal fólks míns, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi og þeir fái féflett munaðarleysingjana.“ — Jesaja 10:1, 2.
18 Lögmál Jehóva bannar hvers konar ranglæti: „Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga.“ (3. Mósebók 19:15) Þessir embættismenn hunsa þetta lagaboð og setja sín eigin „skaðsemdarákvæði“ til að réttlæta hreinan og beinan þjófnað af versta tagi — að sölsa undir sig fátæklegar eigur ekkna og munaðarleysinga. Falsguðir Ísraels eru auðvitað blindir á þetta ranglæti en Jehóva ekki. Hann beinir nú athyglinni að þessum illu dómurum fyrir munn Jesaja.
19, 20. Hvernig á staða hinna spilltu dómara í Ísrael að breytast og hvað verður um „auðæfi“ þeirra?
19 „Hvað ætlið þér að gjöra á degi hegningarinnar og þegar eyðingin kemur úr fjarska? Til hvers viljið þér þá flýja um ásjá? Og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar? Er nokkuð annað fyrir hendi en að falla á kné meðal hinna fjötruðu eða hníga meðal hinna vegnu?“ (Jesaja 10:3, 4a) Ekkjur og munaðarleysingjar geta ekki skotið máli sínu til heiðarlegra dómara. Það er því vel við hæfi að Jehóva skuli spyrja þessa spilltu dómara Ísraels hvert þeir ætli að leita þegar hann krefur þá reikningsskapar. Þeir eru í þann mund að uppgötva hve „óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.“ — Hebreabréfið 10:31.
20 „Auðæfi“ þessara illu dómara verða skammvinn, það er að segja hin veraldlega upphefð, virðing og vald sem fylgir stöðu þeirra og ríkidæmi. Sumir verða teknir sem stríðsfangar og þurfa að „falla á kné“ með öðrum föngum en hinir verða drepnir og lík þeirra munu liggja meðal veginna manna. „Auðæfi“ þeirra eru líka illa fenginn auður sem óvinurinn rænir.
21. Hefur reiði Jehóva slotað vegna refsingarinnar sem þjóðin hefur hlotið?
21 Jesaja lýkur þessu erindi með harðri viðvörun: „Allt fyrir þetta [alla þá ógæfu sem þjóðin hefur mátt þola til þessa] linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ (Jesaja 10:4b) Jehóva hefur sitthvað fleira að segja Ísrael. Hann dregur ekki til baka útrétta hönd sína fyrr en hann er búinn að greiða uppreisnarríkinu í norðri síðasta eyðingarhöggið.
Varaðu þig á falsi og eigingirni annarra
22. Hvaða lærdóm má draga af örlögum Ísraels?
22 Orð Jehóva fyrir munn Jesaja lagðist þungt á Ísrael og ‚hvarf ekki aftur til hans við svo búið‘ án árangurs. (Jesaja 55:10, 11) Sagan segir frá dapurlegum endalokum Ísraelsríkis í norðri, og við getum gert okkur í hugarlund hvílíkar þjáningar landsmenn hafa gengið í gegnum. Eins er víst að orð Guðs rætist á núverandi heimskerfi, einkanlega kristna heiminum sem hefur svikið hann. Það er því mikilvægt að kristnir menn leggi aldrei eyrun við fjandsamlegum lygaáróðri gegn Guði! Orð Guðs hefur fyrir löngu afhjúpað klækjabrögð Satans svo að við þurfum ekki að láta gabbast eins og Ísraelsmenn til forna. (2. Korintubréf 2:11) Hættum aldrei að tilbiðja Jehóva „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Þá mun útrétt hönd hans ekki slá okkur eins og hún sló hinn uppreisnargjarna Efraím heldur mun hann faðma okkur hlýlega að sér og hjálpa okkur eftir veginum til eilífs lífs í paradís á jörð. — Jakobsbréfið 4:8.
[Neðanmáls]
a Jesaja 9:8–10:4 skiptist í fjögur erindi sem enda öll á uggvænlegu viðkvæði: „Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.“ (Jesaja 9:12, 17, 21; 10:4) Þetta stílbragð bindur Jesaja 9:8–10:4 saman í eitt samsett „orð.“ (Jesaja 9:8) Og við veitum athygli að „hönd [Jehóva] er enn þá útrétt,“ ekki til að bjóða sættir heldur til að dæma. — Jesaja 9:13.
b Af spámönnum Jehóva í norðurríkinu má nefna Jehú (ekki konunginn), Elía, Míka Jimlason, Elísa, Jónas, Ódeð, Hósea, Amos og Míka frá Móreset.
[Mynd á blaðsíðu 139]
Illskan og ofbeldið geisaði eins og skógareldur í Ísrael.
[Mynd á blaðsíðu 141]
Jehóva lætur þá sem níðast á öðrum svara til saka.