18. kafli
Lærdómur um ótrúmennsku
1. Hvernig ætli það hafi verið að vera staddur í umsetinni borg forðum daga?
ÍMYNDAÐU þér að þú sért staddur í umsetinni borg endur fyrir löngu. Miskunnarlaus og öflugur óvinur er úti fyrir. Þú veist að aðrar borgir hafa fallið í hendur hans og nú hefur hann einsett sér að vinna og ræna borgina þína með tilheyrandi nauðgunum og drápum. Hann er margfalt öflugri en svo að það sé vit í að berjast við hann. Eina vonin er að borgarmúrarnir haldi. Af múrnum sérðu vígturna óvinarins og valslöngvur sem geta skotið stórum hnullungum og brotið varnarvirki þín. Og hann er með múrbrjóta, múrstiga, bogmenn, stríðsvagna og mikið herlið. Þetta lítur ekki vel út!
2. Hvenær á umsátrið sér stað sem lýst er í Jesaja 22. kafla?
2 Sagt er frá slíku umsátri um Jerúsalem í 22. kafla Jesajabókar. Erfitt er að benda á eitt ákveðið umsátur þar sem allt þetta kemur fram. Að því er best verður séð ber að skilja spádóminn sem almenna lýsingu á hinum ýmsu umsátrum sem Jerúsalem má þola, sem almenna viðvörun um það sem framundan er.
3. Hvernig bregðast Jerúsalembúar við umsátrinu sem Jesaja lýsir?
3 Hvað gera Jerúsalembúar í umsátrinu sem Jesaja lýsir? Hrópa þeir á hjálp Jehóva úr því að þeir eru sáttmálaþjóð hans? Nei, þeir haga sér mjög óskynsamlega, rétt eins og margir sem segjast tilbiðja Guð nú á dögum.
Umsetin borg
4. (a) Hver er ‚Sjóna-dalurinn‘ og af hverju er nafnið dregið? (b) Hvernig er andlegt ástand Jerúsalembúa?
4 Í 21. kafla Jesajabókar voru boðaðir þrír dómar með inngangsorðunum „spádómur.“ (Jesaja 21:1, 11, 13) Kafli 22 hefst með sömu orðum: „Spádómur um Sjóna-dalinn. Hvað kemur að þér, að allt fólk þitt skuli vera stigið upp á húsþökin.“ (Jesaja 22:1) ‚Sjóna-dalurinn‘ er Jerúsalem. Þó svo að borgin standi hátt er hún nefnd dalur af því að hún er umkringd hærri fjöllum. Hún er kennd við ‚sjónir‘ eða sýnir af því að margar opinberanir og sýnir Guðs eru gefnar þar. Þess vegna ættu borgarbúar að gefa gaum að orðum hans. En það er öðru nær; þeir hafa villst út í falska tilbeiðslu. Óvinurinn, sem situr um borgina, er verkfæri Guðs til að fullnægja dómi yfir einþykkri þjóð hans. — 5. Mósebók 28:45, 49, 50, 52.
5. Í hvaða tilgangi fara menn líklega upp á húsþökin?
5 Við veitum athygli að Jerúsalembúar hafa ‚stigið upp á húsþökin.‘ Flöt þök tíðkuðust í Forn-Ísrael og voru þau gjarnan samverustaður fjölskyldna. Jesaja lætur ósagt af hvaða tilefni farið er upp á húsþökin þessu sinni en orð hans lýsa vanþóknun. Trúlega eru menn að ákalla falsguði en það var venja þeirra á árunum fyrir 607 f.o.t. er Jerúsalem var eytt. — Jeremía 19:13; Sefanía 1:5.
6. (a) Hvernig er ástandið í Jerúsalem? (b) Hvers vegna eru sumir kátir en hvað er framundan?
6 Jesaja heldur áfram: „Þú ofkætisfulli, hávaðasami bær, þú glaummikla borg? Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki fallið fyrir sverði né beðið bana í orustum.“ (Jesaja 22:2) Mikill fjöldi hefur þyrpst til borgarinnar og þar er mikil ólga. Fólk á götum úti er hávaðasamt og óttaslegið. En sumir eru kátir. Kannski finnst þeim þeir óhultir eða halda að hættan sé að líða hjá.a En það er mikil flónska að fagna. Margir borgarbúar eiga eftir að deyja, ekki fyrir sverði heldur með langtum grimmilegri hætti. Þegar borg er umsetin er lokað fyrir aðdrætti og birgðir fljótar að ganga til þurrðar. Hungur og þrengsli eru ávísun á farsóttir og verða mörgum að aldurtila. Og svona fer bæði árið 607 f.o.t. og 70 e.o.t. — 2. Konungabók 25:3; Harmljóðin 4:9, 10.b
7. Hvað gera valdhafarnir í Jerúsalem í umsátrinu og hvað verður um þá?
7 Hvernig er forysta valdhafanna í Jerúsalem þegar kreppir að borginni? Jesaja svarar: „Höfðingjar þínir lögðu allir saman á flótta, voru handteknir án þess skotið væri af boga. Allir menn þínir, er náðust, voru handteknir hver með öðrum, þótt þeir hefðu flúið langt burt.“ (Jesaja 22:3) Valdhafarnir og kapparnir flýja en nást. Þeir eru teknir og fluttir burt í fjötrum án þess að ör sé hleypt af boga. Þetta gerist árið 607 f.o.t. Sedekía konungur flýr að nóttu til ásamt köppum sínum eftir að rofið er skarð í borgarmúrinn. Óvinirnir komast á snoðir um það, elta þá uppi og ná þeim á Jeríkóvöllum. Kapparnir tvístrast en Sedekía er handtekinn, blindaður, bundinn eirfjötrum og fluttur til Babýlonar. (2. Konungabók 25:2-7) Ótrúmennska hans hefur hrikalegar afleiðingar.
Harmi sleginn yfir ógæfunni
8. (a) Hvernig bregst Jesaja við spádóminum um ógæfu Jerúsalem? (b) Hvernig verður ástandið í borginni?
8 Jesaja er djúpt snortinn af spádóminum og segir: „Látið mig einan, ég vil gráta beisklega. Gjörið mér eigi ónæði með því að hugga mig yfir eyðingu dóttur þjóðar minnar.“ (Jesaja 22:4) Spámaðurinn er harmi sleginn yfir þeim örlögum sem bíða Móabs og Babýlonar. (Jesaja 16:11; 21:3) Nú ígrundar hann þær hörmungar sem fólk hans á í vændum og það setur að honum enn dýpri harm. Hann er óhuggandi vegna þess að „dagur skelfingar, undirokunar og úrræðaleysis var kominn frá hinum alvalda, [Jehóva] allsherjar, í Sjóna-dalnum. Múrar voru brotnir niður, óhljóðin heyrðust til fjalla.“ (Jesaja 22:5) Alger skelfing og úrræðaleysi ríkir í Jerúsalem. Fólk reikar stefnulaust um, tryllt af ótta. ‚Óhljóðin heyrast til fjalla‘ er óvinurinn tekur að brjóta niður múrinn. Eru borgarbúar teknir að hrópa til Guðs í heilögu musteri hans á Móríafjalli? Kannski. En miðað við ótryggð þeirra er sennilega ekki átt við annað en það að skelfingaróp þeirra bergmáli í fjöllunum umhverfis.
9. Lýstu hernum sem ógnar borginni.
9 Hvers konar óvinur er það sem ógnar borginni? Jesaja segir: „Elam tók örvamælinn, ásamt mönnuðum vögnum og hestum, og Kír tók hlífar af skjöldum.“ (Jesaja 22:6) Óvinurinn er alvopnaður. Bogmenn eru með fulla örvamæla og hermenn búa skildina til bardaga. Herinn er búinn stríðsvögnum og þjálfuðum hestum. Hann er skipaður mönnum frá Elam, norður af Persaflóa sem nú heitir, og frá Kír sem er sennilega nágranni Elams. Með því að nefna þessi lönd er á það bent hve langt að innrásarmennirnir eru komnir. Það er einnig vísbending um að bogmenn frá Elam hafi verið í hernum sem ógnaði Jerúsalem á dögum Hiskía.
Varnartilraunir
10. Hvaða framvinda er ills viti fyrir borgina?
10 Jesaja lýsir framvindunni: „Þínir fegurstu dalir fylltust hervögnum, og riddarar tóku sér stöðu fyrir borgarhliðunum. Og hann tók skýluna burt frá Júda.“ (Jesaja 22:7, 8a) Dalverpin fyrir utan Jerúsalem eru full af hervögnum og riddurum sem búast til árásar á borgarhliðin. ‚Skýlan,‘ sem á að taka burt frá Júda, er líklega eitt af borgarhliðunum og það er ekki góðs viti fyrir varnarmenn borgarinnar ef óvinirnir ná því.c Með því að taka burt varnarskýluna er borgin berskjölduð fyrir árásarmönnum.
11, 12. Hvað gera borgarbúar sér til varnar?
11 Jesaja beinir nú athyglinni að varnartilraunum fólksins. Vopn eru það fyrsta sem mönnum dettur í hug. „Á þeim degi skyggndist þú um eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu, og þér sáuð, að veggskörðin voru mörg í Davíðsborg. Og þér söfnuðuð vatninu í neðri tjörninni.“ (Jesaja 22:8b, 9) Vopn eru geymd í vopnabúrinu í Skógarhúsinu sem Salómon reisti. Það er byggt úr sedrusviði frá Líbanon og er því kallað „Líbanonsskógarhúsið.“ (1. Konungabók 7:2-5) Skörðin í múrnum eru könnuð og menn safna vatni sem er mikilvæg varnaraðgerð. Fólkið lifir ekki án vatns og borgin stendur ekki án þess. En við tökum eftir að það er ekki minnst einu orði á að fólkið leiti liðsinnis Jehóva heldur reiðir það sig á mátt sinn og megin. Gerum aldrei þau mistök. — Sálmur 127:1.
12 Hvað er hægt að gera við skörðin í borgarmúrnum? „[Þið] tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð húsin til þess að treysta með múrvegginn.“ (Jesaja 22:10) Kannað er hvaða hús megi rífa til að fá efni í múrskörðin og hindra að óvinurinn nái múrnum.
Trúlaus þjóð
13. Hvernig reynir fólkið að tryggja sér vatn en hverjum gleymir það?
13 „Þér bjugguð til vatnstæðu milli múrveggjanna tveggja fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En að honum, sem þessu veldur, gáfuð þér eigi gætur, og til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu, lituð þér ekki.“ (Jesaja 22:11) Vatnssöfnunin, sem nefnd er bæði hér og í 9. versi, minnir á ráðstafanir Hiskía konungs til að verja borgina gegn innrás Assýringa. (2. Kroníkubók 32:2-5) En íbúar borgarinnar í þessum spádómi Jesaja eru algerlega trúlausir. Þeir eru ólíkir Hiskía að því leyti að hugurinn hvarflar ekki einu sinni til skaparans meðan þeir eru að treysta varnir borgarinnar.
14. Hvaða óviturlega afstöðu hefur fólk þrátt fyrir viðvörun Jehóva?
14 Jesaja heldur áfram: „Á þeim degi kallaði hinn alvaldi, [Jehóva] allsherjar, menn til að gráta og kveina, til að reyta hár sitt og gyrðast hærusekk. En sjá, hér er gleði og glaumur, naut drepin, sauðum slátrað, kjöt etið, vín drukkið: ‚Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!‘“ (Jesaja 22:12, 13) Jerúsalembúar hafa ekkert samviskubit þótt þeir hafi gert uppreisn gegn Jehóva. Þeir hvorki gráta, reyta hár sitt né gyrðast hærusekk til merkis um iðrun. Ef þeir gerðu það myndi Jehóva sennilega hlífa þeim við hryllingnum sem í vændum er. En þeir gefa sig skemmtun og nautnum á vald. Við sjáum sama hugarfar meðal margra nú á dögum sem trúa ekki á Guð. Þeir búast ekki við upprisu frá dauðum né lífi í paradís framtíðarinnar, svo að þeir dekra við sjálfa sig og segja: ‚Etum og drekkum, því að á morgun deyjum vér!‘ (1. Korintubréf 15:32) Hvílík skammsýni! Ef þeir aðeins settu traust sitt á Jehóva ættu þeir varanlega von. — Sálmur 4:7-9; Orðskviðirnir 1:33.
15. (a) Hver er dómur Jehóva gegn Jerúsalem og hver fullnægir honum? (b) Af hverju hlýtur kristni heimurinn sams konar örlög og Jerúsalem?
15 Hinir umsetnu Jerúsalembúar eru ekki öruggir lengur. Jesaja segir: „Opinberun [Jehóva] allsherjar hljómar í eyrum mínum: ‚Sannlega skuluð þér eigi fá afplánað þessa misgjörð áður en þér deyið‘ — segir hinn alvaldi, [Jehóva] allsherjar.“ (Jesaja 22:14) Vegna þverúðar þeirra er þeim ekki fyrirgefið og dauðinn er vís. Alvaldur Drottinn, Jehóva allsherjar, hefur sagt það. Spádómsorð Jesaja uppfyllast með þeim hætti að ógæfan kemur tvisvar yfir hina ótrúu Jerúsalem. Fyrst er borginni eytt af herjum Babýlonar og síðar af herjum Rómar. Kristni heimurinn, ótrúr eins og hann er, á einnig ógæfu yfir höfði sér því að þar segjast menn tilbiðja Guð en afneita honum með verkum sínum. (Títusarbréfið 1:16) Syndir kristna heimsins og annarra trúarbragða heimsins, sem hunsa réttlæti Guðs, hafa ‚hlaðist allt upp til himins.‘ Synd þeirra er meiri en svo að friðþægt verði fyrir hana, svo að það er líkt komið fyrir henni og fráhvarfsborginni Jerúsalem. — Opinberunarbókin 18:5, 8, 21.
Eigingjarn ráðsmaður
16, 17. (a) Hver fær nú viðvörun frá Jehóva og hvers vegna? (b) Hvernig fer fyrir Sébna sökum metnaðar hans?
16 Spámaðurinn beinir nú athyglinni frá ótrúrri þjóð að ótrúum einstaklingi. Hann skrifar: „Svo mælti hinn alvaldi, [Jehóva] allsherjar: Far þú og gakk til þessa dróttseta, hans Sébna, er forstöðu veitir húsi konungsins: Hvað hefir þú hér að gjöra? Og hvern átt þú hér, er þú lætur höggva þér hér gröf? Þú sem höggva lætur gröf handa þér á háum stað og lætur grafa handa þér legstað í berginu.“ — Jesaja 22:15, 16.
17 Ráðsmaðurinn Sébna ‚veitir forstöðu húsi konungsins,‘ sennilega Hiskía. Þetta er áhrifastaða því að hann gengur næstur konungi að völdum og mikils er vænst af honum. (1. Korintubréf 4:2) Sébna ætti fyrst og fremst að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti en nú er hann að reyna að upphefja sjálfan sig. Hann lætur höggva handa sér gröf á háum stað, íburðarmikla gröf við hæfi konungs. Jehóva sér það og innblæs Jesaja að vara hinn ótrúa ráðsmann við: „Sjá, [Jehóva] varpar þér burt, maður! Hann þrífur fast í þig, vefur þig saman í böggul og þeytir þér sem sopp út á víðan vang. Þar skalt þú deyja og þar skulu þínir dýrlegu vagnar vera, þú sem ert húsi Drottins þíns til svívirðu! Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða.“ (Jesaja 22:17-19) Sébna, sem er svo upptekinn af sjálfum sér, verður ekki einu sinni lagður í venjulega gröf í Jerúsalem heldur þeytt eins og soppi í fjarlægt land þar sem hann deyr. Í þessu er fólgin viðvörun til allra sem falið er vald eða yfirráð meðal fólks Guðs. Sá sem misnotar vald sitt missir það fyrr eða síðar og má búast við brottvísun.
18. Hver tekur við af Sébna og hvað merkir það að hann fái kyrtil hans og lykilinn að húsi Davíðs?
18 En hvernig er Sébna sviptur embætti? Jehóva svarar fyrir munn Jesaja: „Á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason. Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja. Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka.“ (Jesaja 22:20-22) Eljakím tekur við stöðu Sébna og fær embættisklæði ráðsmannsins ásamt lyklinum að húsi Davíðs. Biblían notar orðið „lykill“ sem tákn yfirráða, stjórnar eða valds. (Samanber Matteus 16:19.) Ráðgjafa konungs var falið lyklavaldið og hann hafði gjarnan almenna yfirumsjón með vistarverum hans og ákvað jafnvel hverjir kæmu til greina í þjónustu hans. (Samanber Opinberunarbókina 3:7, 8.) Ráðsmannsembættið er því áhrifastaða og mikils krafist af þeim sem fer með það. (Lúkas 12:48) Sébna er kannski hæfur maður en hann er ótrúr svo að Jehóva víkur honum úr starfi.
Tveir táknrænir naglar
19, 20. (a) Hvernig reynist Eljakím fólki sínu til blessunar? (b) Hvernig fer fyrir þeim sem halda áfram að reiða sig á Sébna?
19 Að lokum grípur Jehóva til táknmáls til að lýsa því hvernig völdin verða færð frá Sébna til Eljakíms. Hann segir: „Ég rek hann [Eljakím] eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns. En hengi allur þungi föðurættar hans sig á hann með niðjum sínum og skyldmennum, öll smákerin, eigi aðeins skálarnar, heldur og öll leirkerin, þá mun naglinn [Sébna] — það eru orð [Jehóva] allsherjar, — sem rekinn var á haldgóðum stað, jafnskjótt láta undan, brotna og detta niður, og byrðin, sem á honum hékk, skal sundur molast, því að [Jehóva] hefir talað það.“ — Jesaja 22:23-25.
20 Eljakím er fyrri naglinn sem hér er nefndur og hann skal verða „veglegt hásæti“ í húsi Hilkía föður síns. Hann óvirðir ekki hús eða mannorð föður síns líkt og Sébna. Eljakím verður eins og traustur snagi fyrir búshluti, það er að segja aðra í þjónustu konungs. (2. Tímóteusarbréf 2:20, 21) Sébna er síðari naglinn sem virðist traustur en verður samt fjarlægður. Hver sem reiðir sig á hann dettur niður.
21. Hver var látinn víkja í nútímanum líkt og Sébna, hvers vegna og hver tók við af honum?
21 Örlög Sébna minna á að ef menn segjast tilbiðja Guð og þiggja þjónustusérréttindi ættu þeir að nota þau til að lofa hann og þjóna öðrum. Þeir ættu ekki að misnota aðstöðuna til að auðgast eða upphefja sig. Kristni heimurinn hefur löngum þóst vera útnefndur ráðsmaður og fulltrúi Jesú Krists á jörð, en hefur smánað skaparann með því að raka saman auði og sanka að sér völdum, líkt og Sébna vanvirti föður sinn með því að upphefja sjálfan sig. Þegar ‚dómurinn byrjaði á húsi Guðs‘ árið 1918 vék hann kristna heiminum úr embætti. Annar ráðsmaður var valinn — „sá trúi og hyggni ráðsmaður“ — og settur yfir hús Jesú á jörð. (1. Pétursbréf 4:17; Lúkas 12:42-44) Þessi samsetti ráðsmaður hefur reynst þess verður að bera hinn konunglega ‚lykil‘ að húsi Davíðs. Hann hefur reynst haldgóður ‚nagli‘ og haldið uppi hinum ólíku ‚kerjum‘ sem eru smurðir kristnir menn með ýmsa ábyrgð er vænta andlegs viðurværis frá honum. Hinir ‚aðrir sauðir‘ hafa líka treyst á þennan „nagla,“ þennan Eljakím nútímans, en þeir eru eins og ‚útlendingar innan borgarhliða‘ Jerúsalem fortíðar. — Jóhannes 10:16; 5. Mósebók 5:14.
22. (a) Af hverju var tímabært að víkja Sébna úr ráðsmannsembætti? (b) Af hverju var tímabært að skipa ‚hinn trúa og hyggna ráðsmann‘ í embætti?
22 Eljakím tók við af Sébna þegar Sanheríb ógnaði Jerúsalem með her sínum. Hinn „trúi og hyggni ráðsmaður“ hefur verið skipaður til þjónustu á endalokatímanum, en honum lýkur þegar Satan og sveitir hans gera lokaárás á „Ísrael Guðs“ og félaga hans, hina aðra sauði. (Galatabréfið 6:16) Árásin fer þannig að óvinum réttlætisins verður eytt eins og gerðist á dögum Hiskía. Þeir sem reiða sig á hinn trúa ráðsmann, ‚naglann á haldgóðum stað,‘ komast af alveg eins og trúfastir Jerúsalembúar lifðu af þegar Assýringar réðust inn í Júda. Það er því viturlegt að halda ekki í kristna heiminn, ‚naglann‘ sem búinn er að missa traustið.
23. Hvað verður um Sébna að lokum og hvað lærum við af því?
23 Hvað verður um Sébna? Engar heimildir eru um það hvernig spádómurinn um hann í Jesaja 22:18 rættist. Hann líkist kristna heiminum þegar hann upphefur sig og fellur í ónáð, en vera má að hann hafi lært sína lexíu. Hann er þá harla ólíkur kristna heiminum. Þegar marskálkur Assýríukonungs krefst þess að Jerúsalem gefist upp fer Eljakím fyrir sendinefndinni sem fer til fundar við hann. En Sébna er honum við hlið sem kanslari konungs og er greinilega enn í þjónustu hans. (Jesaja 36:2, 22) Þetta er lærdómsríkt fyrir þá sem þurfa að víkja úr þjónustustöðu í skipulagi Guðs. Það er viturlegt að halda áfram að þjóna Jehóva á hvern þann hátt sem hann leyfir í stað þess að móðgast og reiðast. (Hebreabréfið 12:6) Þannig er hægt að umflýja þá ógæfu sem bíður kristna heimsins og njóta blessunar Guðs og velþóknunar um alla eilífð.
[Neðanmáls]
a Margir Gyðingar fögnuðu er hersveitir Rómverja, sem höfðu setið um Jerúsalem, hurfu á brott árið 66 e.o.t.
b Að sögn sagnaritarans Jósefusar á fyrstu öld var hungursneyðin í Jerúsalem slík árið 70 að fólk át leður, gras og hey. Sagt er frá einu dæmi þar sem móðir steikti son sinn og át.
c ‚Skýla Júda‘ getur líka verið eitthvað annað sem verndar borgina, svo sem virki með vopnabúrum og hermannaskálum.
[Mynd á blaðsíðu 231]
Sedekía flýr en er handtekinn og blindaður.
[Mynd á blaðsíðu 232, 233]
Útlitið er ekki gott fyrir Gyðinga sem eru innikróaðir í Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 239]
Hiskía gerir Eljakím að ‚nagla á haldgóðum stað.‘
[Mynd á blaðsíðu 241]
Margir af forkólfum kristna heimsins hafa vanvirt skaparann með því að sanka að sér auði líkt og Sébna.
[Mynd á blaðsíðu 242]
Trúfastur þjónshópur hefur verið settur yfir hús Jesú nú á tímum.