Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jesajabókar — fyrri hluti
„HVERN skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ Jesaja Amozson svarar boði Jehóva Guðs og segir: „Hér er ég, send þú mig!“ (Jesaja 1:1; 6:8) Honum er þá falið það hlutverk að vera spámaður. Hann segir frá spámennsku sinni í biblíubókinni sem nefnd er eftir honum.
Jesajabók er skrifuð af spámanninum sjálfum og spannar 46 ára tímabil, frá um það bil 778 f.Kr. til 732 f.Kr. eða eitthvað fram yfir það. Bókin hefur að geyma dóma yfir Júda, Ísrael og grannþjóðum þeirra en grunntónninn er þó ekki dómsboðskapur heldur „hjálpræði“ Jehóva Guðs. (Jesaja 25:9) Nafnið Jesaja merkir meira að segja „hjálpræði Jehóva“. Í þessari grein verður fjallað um höfuðþætti Jesajabókar 1:1–35:10.
„SKULU ÞÓ AÐEINS LEIFAR AF HONUM AFTUR HVERFA“
Ósagt er látið um það í Biblíunni hvort hinn spádómlegi boðskapur í fyrstu fimm köflum Jesajabókar hafi verið fluttur áður en Jesaja er skipaður spámaður eða eftir það. (Jesaja 6:6-9) Ljóst er þó að Jerúsalem og Júda eru sjúk „frá hvirfli til ilja“. (Jesaja 1:6) Skurðgoðadýrkun er í algleymingi, leiðtogarnir eru spilltir, konurnar stærilátar og fólk þjónar ekki Guði á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. Jesaja á hvað eftir annað að segja fólki að ‚hlýða grandgæfilega‘ en það vill hvorki heyra né skilja.
Sameinaður her Ísraels og Sýrlands hótar að ráðast inn í Júda. Jehóva notar Jesaja og börn hans „til tákns og jarteikna“ og fullvissar Júda um að hernaðarbandalaginu muni ekki takast ætlunarverk sitt. (Jesaja 8:18) Varanlegur friður kemur þó ekki fyrr en „Friðarhöfðingi“ tekur við völdum. (Jesaja 9:6, 7) Jehóva ætlar að láta Assýringa svara til saka, þjóðina sem hann notar sem ‚vönd reiði sinnar‘. Júdamenn verða fluttir í útlegð og „aðeins leifar . . . aftur hverfa“. (Jesaja 10:5, 21, 22) Réttlæti verður komið á þegar fram kemur táknrænn ‚kvistur af stofni Ísaí‘. — Jesaja 11:1.
Biblíuspurningar og svör:
1:8, 9 — Hvernig verður dóttirin Síon „ein eftir eins og varðskáli í víngarði, eins og vökukofi í melónugarði“? Þetta merkir að Jerúsalem verður ákaflega varnarlaus að sjá þegar Assýringar gera innrás. Hún verður eins og veikbyggður varðskáli í víngarði eða hrörlegur kofi í melónugarði. En Jehóva kemur borginni til hjálpar og leyfir ekki að hún verði eins og Sódóma og Gómorra.
1:18 — Hvað merkja orðin: „Komið, eigumst lög við“? Þetta er ekki boð um að ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu með gagnkvæmum tilslökunum. Átt er við dómsvettvang þar sem dómarinn réttláti, Jehóva, gefur Ísrael tækifæri til að breyta sér og hreinsa sig.
6:8a — Af hverju eru fornöfnin „ég“ og „vor“ notuð hér? Fornafnið „ég“ stendur fyrir Jehóva Guð. Fleirtölumyndin „vor“ gefur til kynna að önnur persóna sé hjá Jehóva. Það er auðvitað eingetinn sonur hans. — Jóhannes 1:14; 3:16.
6:11 — Hvað á Jesaja við þegar hann spyr: „Hversu lengi, Drottinn?“ Hann er ekki að spyrja hve lengi hann þurfi að prédika boðskap Jehóva fyrir daufum eyrum heldur langar hann til að vita hve lengi andlega sjúk þjóðin haldi áfram að smána nafn Guðs.
7:3, 4 — Hvers vegna kemur Jehóva hinum illa Akasi konungi til hjálpar? Sýrlands- og Ísraelskonungar ætla sér að steypa Akasi Júdakonungi af stóli og setja í staðinn leppkonung sinn, Tabelsson, en hann var ekki afkomandi Davíðs. Hefði þetta áform Satans gengið eftir hefði það raskað framvindu sáttmálans um ríkið sem Jehóva gerði við Davíð. Jehóva kom Akasi til hjálpar til að varðveita ættlegg hins fyrirheitna ‚Friðarhöfðingja‘. — Jesaja 9:6.
7:8 — Hvernig var Efraím „gjöreytt“ áður en 65 ár voru liðin? Það var á dögum „Peka Ísraelskonungs“, skömmu eftir að Jesaja bar fram spádóminn, sem byrjað var að flytja íbúa tíuættkvíslaríkisins burt og flytja útlendinga inn í landið í staðinn. (2. Konungabók 15:29) Þessu var haldið áfram langt fram á daga Asarhaddons Assýríukonungs en hann var sonur og arftaki Sanheríbs. (2. Konungabók 17:6; Esrabók 4:1, 2; Jesaja 37:37, 38) Þessir fólksflutningar Assýringa til og frá Samaríu rúmast innan 65 áranna sem nefnd eru í Jesaja 7:8.
11:1, 10 — Hvernig getur Jesús Kristur verið ‚kvistur af stofni Ísaí‘ og sömuleiðis „rótarkvistur Ísaí“? (Rómverjabréfið 15:12) Jesús er „af stofni Ísaí“ því að hann er kominn af Davíð, syni hans. (Matteus 1:1-6; Lúkas 3:23-32) En með því að hljóta konungstign breytist samband Jesú við forfeður sína. Hann verður „Eilífðarfaðir“ þeirra vegna þess að hann hefur fengið vald og mátt til að veita hlýðnum mönnum eilíft líf á jörð. (Jesaja 9:6) Þar með er hann einnig „rótarkvistur“ forfeðra sinna, þeirra á meðal Ísaí.
Lærdómur:
1:3. Ef við ákveðum að lifa ekki eftir kröfum skaparans erum við fávísari en uxi eða asni. Ef við lærum hins vegar að meta allt sem Jehóva hefur gert fyrir okkur hegðum við okkur ekki eins og skynlausar skepnur og við yfirgefum hann ekki.
1:11-13. Trúarathafnir, sem eru aðeins yfirskin, og bænir, sem eru formið eitt, þreyta Jehóva. Verk okkar og bænir ættu að spretta af réttum hvötum.
1:25-27; 2:2; 4:2, 3. Þrælkun og útlegð Júdamanna átti að taka enda og hópur iðrandi manna að snúa heim til Jerúsalem til að endurreisa sanna tilbeiðslu. Jehóva er miskunnsamur við iðrandi syndara.
2:2-4. Með því að taka dyggan þátt í að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum hjálpum við fólki af mörgum þjóðum að kynnast vegi friðarins og eiga frið við aðra.
4:4. Jehóva hreinsar burt siðferðileg óhreinindi og blóðsekt.
5:11-13. Það stríðir gegn sannri þekkingu að sleppa alveg fram af sér beislinu varðandi skemmtun. — Rómverjabréfið 13:13.
5:21-23. Umsjónarmenn í söfnuðinum mega ekki vera „vitrir . . . í augum sjálfra sín“. Þeir verða líka að sýna hóf í „víndrykkju“ og þeir mega ekki vera hlutdrægir.
11:3a. Fordæmi Jesú og kennsla hans vitnar um að það er ánægjulegt að óttast Jehóva.
„DROTTINN MUN MISKUNNA JAKOB“
Í 13. til 23. kafla er að finna dóma Jehóva yfir þjóðunum. En „Drottinn mun miskunna Jakob“ með því að leyfa öllum ættkvíslum Ísraels að snúa heim. (Jesaja 14:1) Í yfirlýsingunni um eyðingu Júda í 24. til 27. kafla er jafnframt gefið fyrirheit um að þjóðin fái að snúa heim á ný. Jehóva lætur í ljós reiði sína við ‚drykkjurútana í Efraím‘ (Ísrael) fyrir að ganga til bandalags við Sýrlendinga, og sömuleiðis við ‚presta og spámenn‘ Júda fyrir að sækjast eftir bandalagi við Assýringa. (Jesaja 28:1, 7) „Aríel“ (Jerúsalem) er fordæmd fyrir að fara „suður til Egyptalands“ til að leita sér verndar. (Jesaja 29:1, neðanmáls; 30:1, 2) Þeim sem trúa á Jehóva er engu að síður heitið hjálpræði.
Jehóva ætlar að verja „Síonfjall“ eins og „ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni“. (Jesaja 31:4) Eftirfarandi fyrirheit er einnig gefið: „Konungurinn ríkir með réttlæti.“ (Jesaja 32:1) Meðan Assýringar ógna Júda og „friðarboðarnir gráta beisklega“ heitir Jehóva því að þjóð sín verði læknuð og hljóti „fyrirgefning misgjörða sinna“. (Jesaja 33:7, 22-24) Jehóva er „reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her“. (Jesaja 34:2) Júda skal ekki liggja í eyði til frambúðar. „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.“ — Jesaja 35:1.
Biblíuspurningar og svör:
13:17 — Af hverju ætli Medar hafi metið silfur einskis og ekki langað í gull? Medar og Persar leggja minna upp úr ránsfengnum en vegsemdinni sem fylgir því að sigra. Það sýnir sig hjá Kýrusi þegar hann skilar útlögunum gull- og silfurkerunum sem Nebúkadnesar hafði rænt úr musteri Jehóva.
14:1, 2 — Hvernig atvikast það að þjónar Jehóva „hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum“? Þetta rættist á mönnum eins og Daníel sem fór með hátt embætti í Babýlon í valdatíð Meda og Persa, og sömuleiðis á Ester sem varð drottning í Persíu og á Mordekai sem var skipaður forsætisráðherra Persaveldis.
20:2-5 — Gekk Jesaja bókstaflega um nakinn í þrjú ár? (Biblíurit, ný þýðing 2002) Hugsanlegt er að hann hafi einungis farið úr utanyfirfötunum og gengið um „fáklæddur“. — Biblían 1981.
21:1 — Hvaða svæði er kallað „öræfin við hafið“? Hér er átt við Babýlon þótt hún hafi legið fjarri sjó. Hins vegar flæddu fljótin Efrat og Tígris árvisst yfir bakka sína og mynduðu mýrlendi eða eins konar ‚haf‘.
24:13-16 — Hvernig urðu Gyðingar „á meðal þjóðanna . . . sem þá er olíuviður er skekinn“ og sem ‚eftirtíningur að loknum vínberjalestri‘? Aðeins fáeinir myndu lifa af eyðingu Jerúsalem og Júda, rétt eins og ósköp fáir ávextir eru eftir á tré eða vínviði eftir uppskeru. Hvert sem hinir eftirlifandi yrðu fluttir, hvort heldur þeir yrðu „á austurvegum“ í Babýlon eða „á ströndum hafsins“ við Miðjarðarhaf, myndu þeir lofa Jehóva.
24:21 — Hverjir mynda ‚her hæðanna‘ og „konunga jarðarinnar“? ‚Her hæðanna‘ gætu verið illir andar. ‚Konungar jarðarinnar‘ eru þá jarðneskir valdhafar sem illu andarnir hafa sterk áhrif á. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
25:7 — Hver er ‚skýla sú sem hylur alla lýði og sá hjúpur sem breiddur er yfir allar þjóðir‘? Hér er átt við tvo erkióvini mannkyns, syndina og dauðann.
Lærdómur:
13:20-22; 14:22, 23; 21:1-9. Spádómsorð Jehóva rætast alltaf, rétt eins og þau rættust á Babýlon.
17:7, 8. Fæstir Ísraelsmenn hlustuðu á Jehóva en sumir mændu þó til hans. Sumir í kristna heiminum taka líka við boðskapnum um ríki Guðs.
28:1-6. Ísrael mun falla fyrir Assýríu en Guð sér til þess að trúir einstaklingar komist lífs af. Dómar hans skilja ekki réttláta eftir án vonar.
28:23-29. Jehóva leiðréttir einlæga menn eftir þörfum og aðstæðum hvers og eins.
30:15. Hjálpræði Jehóva útheimtir að við sýnum „rósemi“ og reynum ekki að afla okkur hjálpræðis eftir leiðum manna. Við þurfum að vera þolinmóð, treysta á verndarmátt Jehóva og láta ekki ótta ná tökum á okkur.
30:20, 21. Við sjáum og heyrum Jehóva þegar við förum eftir því sem hann segir í innblásnu orði sínu, Biblíunni, og því sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ flytur okkur. — Matteus 24:45.
Spádómur Jesaja styrkir traust okkar á orði Guðs
Við getum verið innilega þakklát fyrir þann boðskap Guðs sem er geymdur í Jesajabók. Þeir spádómar, sem hafa ræst nú þegar, styrkja það traust okkar að ‚orðið, sem útgengur af munni Jehóva, hverfi ekki til hans fyrr en það hefir framkvæmt það sem honum vel líkar‘. — Jesaja 55:11.
Hvað um Messíasarspádómana, til dæmis í Jesaja 9:7 og 11:1-5, 10? Styrkja þeir ekki trú okkar á þær ráðstafanir sem Jehóva hefur gert til að veita okkur hjálpræði? Í bókinni eru einnig spádómar sem hljóta meiri uppfyllingu á okkar dögum eða í framtíðinni. (Jesaja 2:2-4; 11:6-9; 25:6-8; 32:1, 2) Jesajabók ber þess greinilega vitni að „orð Guðs er lifandi“. — Hebreabréfið 4:12.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Jesaja og börn hans voru „til tákns og jarteikna í Ísrael“.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jerúsalem átti að verða „eins og varðskáli í víngarði“.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hvernig fær fólk af þjóðunum hjálp til að „smíða plógjárn úr sverðum sínum“?