21. kafli
Hönd Jehóva er á lofti
1. Af hverju metur Jesaja skaparann mikils?
JESAJA spámaður elskar Jehóva. Hann hefur yndi af því að lofa hann og ákalla. „[Jehóva], þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt!“ Hann þekkir skapara sinn og er sérstaklega snortinn af verkum hans eins og sjá má af framhaldinu: „Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.“ (Jesaja 25:1) Líkt og Jósúa forðum daga veit Jesaja að Jehóva er trúfastur og sannur og að öll „ráð“ hans, allt sem hann ætlar sér, koma fram. — Jósúabók 23:14.
2. Hvaða ráð lætur Jehóva spámanninn boða og gegn hverjum?
2 Ráð Jehóva eru meðal annars þeir dómar sem hann hefur fellt yfir óvinum Ísraels. Jesaja lýsir nú einum þeirra: „Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.“ (Jesaja 25:2) Hvaða ónefndu bæir eða borgir eru þetta? Móab er langstæður óvinur þjóðar Guðs og hugsanlegt er að Jesaja sé að tala um borgina Ar í Móab, eða þá aðra og voldugri borg — Babýlon.a — Jesaja 15:1; Sefanía 2:8, 9.
3. Hvernig heiðra óvinir Jehóva hann?
3 Hvernig bregðast óvinir Jehóva við þegar ráð hans gegn hinni sterku borg rætast? „Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.“ (Jesaja 25:3) Það er skiljanlegt að óvinir hins alvalda Guðs óttist hann. En hvernig heiðra þeir hann? Hætta þeir að dýrka falsguði og taka upp hreina tilbeiðslu? Síður en svo. Þeir heiðra hann líkt og faraó og Nebúkadnesar þegar þeir neyðast til að viðurkenna að hann er margfalt öflugri en þeir sjálfir. — 2. Mósebók 10:16, 17; 12:30-33; Daníel 4:37.
4. Hvaða ‚borg ofríkisfullra þjóða‘ er til núna og hvernig neyðist hún jafnvel til að heiðra Jehóva?
4 Í nútímanum tákna þessar „borgir ofríkisfullra þjóða“ heimsveldi falstrúarbragðanna, ‚Babýlon hina miklu.‘ Hún er kölluð „borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.“ (Opinberunarbókin 17:5, 18) Kristni heimurinn er þar fremstur í flokki. Trúarleiðtogar hans heiðra Jehóva með því að viðurkenna gremjulega að hann hefur afrekað mikið í þágu votta sinna. Trúarleiðtogarnir urðu sérstaklega „ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina“ þegar hann endurvakti þjóna sína árið 1919 og þeir tóku kröftuglega til starfa eftir að þeir losnuðu úr andlegri ánauð Babýlonar hinnar miklu. — Opinberunarbókin 11:13.b
5. Hvernig verndar Jehóva þá sem treysta honum algerlega?
5 Þó svo að Jehóva sé ógnvekjandi í augum óvina sinna er hann hæli fyrir auðmjúka og hógværa menn sem vilja þjóna honum. Sannir guðsdýrkendur verða fyrir barðinu á trúarlegum og pólitískum harðstjórum sem reyna með öllum ráðum að brjóta niður trú þeirra á Jehóva. En þeir eru óhagganlegir og um síðir þaggar Jehóva auðveldlega niður í andstæðingum sínum, rétt eins og hann dragi ský fyrir brennheita eyðimerkursólina eða reisi skjólmúr fyrir slagveðri. — Lestu Jesaja 25:4, 5.
‚Veisla handa öllum þjóðum‘
6, 7. (a) Hvers konar veislu ber Jehóva fram og fyrir hverja? (b) Fyrirboði hvers er veislan sem Jesaja spáði?
6 Jehóva er eins og ástríkur faðir sem bæði verndar og nærir börn sín, einkum andlega. Eftir að hann frelsaði þjóna sína árið 1919 bjó hann þeim sigurveislu og bar fram gnóttir andlegrar fæðu: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“ — Jesaja 25:6.
7 Veislan er haldin á „fjalli“ Jehóva, fjallinu sem „hús [hans] stendur á“ og þangað streyma allar þjóðir „á hinum síðustu dögum.“ Þetta er hið ‚heilaga fjall‘ Jehóva þar sem trúir dýrkendur hans gera engan skaða og fremja ekkert illt. (Jesaja 2:2; 11:9) Á þessum upphafna tilbeiðslustað ber hann trúum þjónum sínum ríkmannlega veislu. Og hin andlegu gæði, sem eru svo ríkulega fram borin núna, eru fyrirboði þeirra efnislegu gæða sem veitt verða þegar Guðsríki er orðið eina stjórnin yfir mannkyninu. Þá verður hungri útrýmt og „gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:8, 16.
8, 9. (a) Hvaða tveir óvinir mannkyns verða afmáðir? Skýrðu svarið. (b) Hvað gerir Guð til að afmá svívirðu fólks síns?
8 Þeir sem gæða sér á andlegum veisluföngum Guðs eiga unaðslega framtíð í vændum. Jesaja líkir synd og dauða við kæfandi „skýlu“ eða „hjúp“ og segir: „[Jehóva] mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir. Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ — Jesaja 25:7, 8a.
9 Synd og dauði hverfa og árþúsundalangar lygar og svívirðingar á hendur þjónum Jehóva verða þurrkaðar út. (Opinberunarbókin 21:3, 4) „Svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það.“ (Jesaja 25:8b) Þetta gerist með þeim hætti að Jehóva fjarlægir Satan og sæði hans sem eru forsprakkar svívirðunnar. (Opinberunarbókin 20:1-3) Það er engin furða að fólk Guðs skuli hrópa: „Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er [Jehóva], vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“ — Jesaja 25:9.
Hinir drambsömu niðurlægðir
10, 11. Hvað á Móab í vændum frá Jehóva?
10 Jehóva bjargar auðmjúkum þjónum sínum. En Móabítar, grannþjóð Ísraels, eru drambsamir og Jehóva hefur andstyggð á drambi. (Orðskviðirnir 16:18) Móab verður því auðmýktur. „Hönd [Jehóva] mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli. Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans. Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.“ — Jesaja 25:10-12.
11 Hönd Jehóva mun „hvíla yfir“ fjalli hinna drambsömu Móabíta með þeim afleiðingum að þeir verða troðnir niður eins og hálmur „í haugpolli.“ Á dögum Jesaja er venja að troða hálm niður í mykjuna sem notuð er til áburðar, svo að samlíkingin boðar að Móab verði auðmýktur þó að hann virðist öruggur bak við háa múra.
12. Af hverju eru Móabítar valdir úr til að fá dóm Jehóva?
12 Af hverju velur Jehóva Móabíta úr og sendir þeim þessi harkalegu skilaboð? Móabítar eru afkomendur Lots sem var bróðursonur Abrahams og tilbað Jehóva. Þeir eru því bæði nágrannar og ættmenn sáttmálaþjóðar Guðs. Þrátt fyrir það hafa þeir tekið sér falsguði og sýnt Ísrael djúpstæðan fjandskap. Þeir verðskulda þessi örlög. Að þessu leyti líkjast Móabítar óvinum þjóna Guðs nú á tímum, ekki síst kristna heiminum sem segist runninn af rótum kristna safnaðarins á fyrstu öld en er ein meginstoð Babýlonar hinnar miklu eins og áður er nefnt.
Hjálpræðiskvæði
13, 14. Hvaða ‚rammgerða borg‘ á fólk Guðs núna og hverjir mega ganga inn í hana?
13 Hvað um fólk Guðs? Það hefur upp röddina í söng, himinlifandi yfir vernd hans og velvild. „Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki. Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir.“ (Jesaja 26:1, 2) Þessi orð rættust áreiðanlega forðum daga en þau rætast líka greinilega núna. ‚Réttlátum lýð‘ Jehóva, hinum andlega Ísrael, er gefið sterkt skipulag sem er eins og rammgerð borg, og það er ærið tilefni fagnaðar og söngs.
14 Hvers konar fólk gengur inn í þessa „borg“? Í kvæðinu segir að það séu þeir sem hafa „stöðugt hugarfar. Þú [Guð] veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig. Treystið [Jehóva] æ og ætíð, því að [Jah Jehóva] er eilíft bjarg.“ (Jesaja 26:3, 4) Þeir sem hafa „stöðugt hugarfar“ þrá að hlýða réttlátum frumreglum Jehóva og treysta honum en ekki viðskipta-, stjórnmála- og trúarkerfinu sem er á fallanda fæti. „Jah Jehóva“ er eina bjargfasta öryggið. Þeir sem treysta honum óhikað njóta verndar hans og ‚ævarandi friðar.‘ — Orðskviðirnir 3:5, 6; Filippíbréfið 4:6, 7.
15. Hvernig hefur ‚háreist borg‘ verið niðurlægð á okkar tímum og hvernig er hún ‚troðin niður af fótum fátækra‘?
15 Hvílíkur munur á þeim og óvinunum! „Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.“ (Jesaja 26:5, 6) Sem fyrr er hugsanlegt að Jesaja sé að tala um ‚háreista borg‘ í Móab eða einhverja aðra borg, til dæmis Babýlon sem er vissulega háreist í hroka sínum. Hvort heldur sem er hefur Jehóva náð yfirhöndinni svo að fætur ‚fátækra og umkomulausra‘ þjóna hans troða hina ‚háreistu borg‘ niður. Þessi spádómur lýsir Babýlon hinni miklu ágætlega, ekki síst kristna heiminum. Árið 1919 neyddist þessi ‚háreista borg‘ til að sleppa þjónum Jehóva sem var auðmýkjandi fall fyrir hana, og þeir hafa síðan fótum troðið fyrrverandi fangara sinn með því að boða almenningi væntanlega hefnd Jehóva á henni. — Opinberunarbókin 8:7-12; 9:14-19; 14:8.
Þrá eftir réttlæti og ‚minningu‘ Jehóva
16. Hvernig er Jesaja gott dæmi um djúpa hollustu?
16 Eftir sigursönginn tjáir Jesaja djúpa hollusta sína og nefnir umbunina sem það hefur í för með sér að þjóna Guði réttlætisins. (Lestu Jesaja 26:7-9.) Spámaðurinn er góð fyrirmynd um að ‚vænta Jehóva‘ og hafa sterka þrá til ‚nafns‘ hans og ‚minningar.‘ Hvað er minning Jehóva? Önnur Mósebók 3:15 segir: „[Jehóva] . . . er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns [„þetta minnir á mig frá kynslóð til kynslóðar,“ NW].“ Jesaja þykir vænt um nafn Jehóva og allt sem það stendur fyrir, meðal annars réttláta staðla hans og vegi. Þeir sem glæða með sér slíkan kærleika til Jehóva geta treyst á blessun hans. — Sálmur 5:9; 25:4, 5; 135:13; Hósea 12:6.
17. Hvaða sérréttinda njóta óguðlegir ekki?
17 En það elska ekki allir Jehóva og háleita staðla hans. (Lestu Jesaja 26:10.) Hinir óguðlegu eru hvattir til að læra réttlæti svo að þeir fái að ganga inn í ‚landið þar sem réttlæti skal ríkja,‘ landið þar sem siðferðilega og andlega ráðvandir þjónar Jehóva búa. En þeir neita þrjóskufullir að gera það og gefa ekki gætur að „hátign [Jehóva].“ Þeir lifa það ekki að njóta blessunarinnar sem mannkyninu veitist eftir að nafn hans hefur verið helgað. Sumir kunna jafnvel ekki að meta góðvild Jehóva í nýja heiminum þegar öll jörðin verður ‚land réttlætisins,‘ og nöfn þeirra verða ekki rituð í bók lífsins. — Jesaja 65:20; Opinberunarbókin 20:12, 15.
18. Hvernig eru sumir á dögum Jesaja blindir að eigin ósk og hvenær neyðast þeir til að „sjá“ Jehóva?
18 „[Jehóva], hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum.“ (Jesaja 26:11) Hönd Jehóva er á lofti á dögum Jesaja og hann verndar fólk sitt með því að snúast gegn óvinum þess. En fæstir sjá það þeim augum. Þeir hafa sjálfir valið að vera andlega blindir en neyðast um síðir til að „sjá“ Jehóva eða viðurkenna hann þegar þeir eyðast í vandlætingareldi hans. (Sefanía 1:18) ‚Þeir skulu viðurkenna að ég er Jehóva,‘ segir hann síðar við Esekíel. — Esekíel 38:23.
‚Jehóva agar þann sem hann elskar‘
19, 20. Hvernig og hvers vegna hefur Jehóva agað fólk sitt og hverjir hafa notið góðs af þessum aga?
19 Jesaja veit að landar hans njóta ekki friðar og farsældar nema með blessun Jehóva. „[Jehóva], veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka.“ (Jesaja 26:12) En það hefur gengið á ýmsu í sögu Júda þrátt fyrir það og þrátt fyrir að Jehóva skuli hafa gefið þjóð sinni tækifæri til að verða „prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:6) Hvað eftir annað hefur þjóðin leiðst út í falsguðadýrkun og fengið ögun fyrir. En ögunin er merki um kærleika Jehóva af því að hann „agar þann, sem hann elskar.“ — Hebreabréfið 12:6.
20 Jehóva agar þjóð sína oft með því að leyfa að aðrar þjóðir eða „aðrir drottnar“ ráði yfir henni. (Lestu Jesaja 26:13.) Árið 607 f.o.t. leyfir hann Babýloníumönnum að flytja hana í útlegð. En lærir hún af því? Þjáningar einar sér eru engum til gagns, en ef hinn þjáði lærir af þeim, iðrast og sýnir Jehóva óskipta hollustu, þá hefur hann gott af þeim. (5. Mósebók 4:25-31) Sýna einhverjir Gyðingar iðrun Guði að skapi? Já, Jesaja segir spádómlega: „Nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn.“ Eftir heimkomuna úr útlegðinni árið 537 f.o.t. þarf að aga Gyðingana margsinnis fyrir syndir þeirra, en aldrei framar tilbiðja þeir guði úr steini.
21. Hvað verður um þá sem hafa kúgað fólk Guðs?
21 Hvað um fangara þeirra? „Dauðir lifna ekki,“ segir Jesaja, „Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.“ (Jesaja 26:14) Babýlon skal líða fyrir grimmd sína gagnvart útvalinni þjóð Jehóva. Hann ætlar að nota Meda og Persa til að vinna hina hreyknu Babýlon og frelsa útlæga þjóð sína. Borgin mikla Babýlon verður máttvana, nánast dauð, og hverfur af sjónarsviðinu um síðir.
22. Hvaða blessunar hefur fólk Guðs notið í nútímanum?
22 Í nútímauppfyllingunni voru leifar andlegra Ísraelsmanna leystar úr haldi Babýlonar hinnar miklu árið 1919, eftir ögun sína. Þær voru lífgaðar á ný í þjónustu Jehóva og sneru sér að boðunarstarfinu af nýjum krafti. (Matteus 24:14) Jehóva hefur veitt hinum smurðu aukningu og meira að segja bætt við þá ‚miklum múgi‘ til að þjóna með þeim. (Jóhannes 10:16) „Þú hefir gjört þjóðina stóra, [Jehóva], þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins. [Jehóva], í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá.“ — Jesaja 26:15, 16.
Þeir skulu „rísa upp“
23. (a) Hvernig birtist máttur Jehóva árið 537 f.o.t.? (b) Hvernig birtist hann aftur árið 1919?
23 Jesaja beinir athyglinni aftur að stöðu Júdamanna meðan þeir eru enn í útlegð í Babýlon og líkir þjóðinni við konu sem hefur fæðingarhríðir en getur ekki fætt án hjálpar. (Lestu Jesaja 26:17, 18.) Hjálpin berst árið 537 f.o.t. og fólk Jehóva snýr heim á ný, óðfúst að endurreisa musterið og taka upp sanna tilbeiðslu aftur. Það er eins og þjóðin rísi upp frá dauðum. „Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.“ (Jesaja 26:19) Hvílíkur vitnisburður um mátt Jehóva! Hvílíkur vitnisburður þegar þessi orð rættust í andlegum skilningi árið 1919! (Opinberunarbókin 11:7-11) Og við bíðum þess óþreyjufull að þau rætist bókstaflega í nýja heiminum og þeir sem dauðir eru ‚heyri raust Jesú og gangi fram‘ úr gröfunum. — Jóhannes 5:28, 29.
24, 25. (a) Hvernig hafa Gyðingar hugsanlega falið sig að boði Jehóva árið 539 f.o.t.? (b) Hverju er ‚herbergið‘ hugsanlega tengt nú á tímum og hvaða afstöðu þurfum við að hafa í því sambandi?
24 En trúfastir menn þurfa að hlýða fyrirmælum Jehóva til að njóta andlegu blessunarinnar sem Jesaja hefur lofað: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá. Því sjá, [Jehóva] gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.“ (Jesaja 26:20, 21; samanber Sefanía 1:14.) Þessi vers hafa hugsanlega ræst upphaflega þegar Medar og Persar unnu Babýlon árið 539 f.o.t. undir forystu Kýrusar konungs. Gríski sagnaritarinn Xenófon segir að þegar Kýrus kom inn í Babýlon hafi hann fyrirskipað öllum að halda sig innan dyra því að riddaralið hans hefði „fengið skipun um að drepa alla sem fyndust utan dyra.“ Vera má að í nútímanum sé ‚herbergið‘ í spádóminum tengt tugþúsundum safnaða þjóna Jehóva um allan heim. Þessir söfnuðir munu gegna stóru hlutverki í lífi okkar áfram, meira að segja í „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:14) Það er mjög mikilvægt að hafa heilbrigða afstöðu til safnaðarins og sækja samkomur að staðaldri. — Hebreabréfið 10:24, 25.
25 Heimur Satans er brátt á enda runninn. Við vitum ekki enn hvernig Jehóva verndar fólk sitt þegar þessi ógnartími rennur upp en svo mikið er víst að björgun er komin undir hollustu, hlýðni og trú á hann. — Sefanía 2:3.
26. Hver er „Levjatan“ á dögum Jesaja og okkar, og hvað verður um þetta ‚sjóskrímsli‘?
26 Jesaja horfir fram til þessa tíma og segir: „Á þeim degi mun [Jehóva] með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.“ (Jesaja 27:1) Í byrjunaruppfyllingunni er „Levjatan“ þau lönd þangað sem Ísrael hefur tvístrast, svo sem Babýlon, Egyptaland og Assýría. Þau geta ekki hindrað að fólk Jehóva snúi heim þegar stundin rennur upp. En Levjatan nútímans virðist vera Satan, ‚hinn gamli höggormur,‘ og hið illa heimskerfi jarðar sem hann notar í baráttunni gegn hinum andlega Ísrael. (Opinberunarbókin 12:9, 10; 13:14, 16, 17; 18:24) „Levjatan“ missti takið á fólki Jehóva árið 1919 og hverfur bráðlega af sjónarsviðinu þegar Jehóva ‚banar sjóskrímslinu.‘ Ekkert sem „Levjatan“ reynir að gera fólki Jehóva þangað til heppnast í raun. — Jesaja 54:17.
‚Yndislegur víngarður‘
27, 28. (a) Hvað hefur fyllt jörðina úr víngarði Jehóva? (b) Hvernig verndar Jehóva víngarð sinn?
27 Jesaja flytur nú annað kvæði þar sem hann lýsir fögrum orðum frjósemi hinnar frelsuðu þjóðar Jehóva: „Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð: Ég, [Jehóva], er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.“ (Jesaja 27:2, 3) Leifar andlegra Ísraelsmanna og iðjusamir félagar þeirra hafa fyllt jörðina andlegum ávexti. Það er verðugt tilefni fagnaðar og söngs. Og það er Jehóva að þakka af því að hann hefur annast víngarðinn af mikilli natni. — Samanber Jóhannes 15:1-8.
28 Reiði Jehóva er vikin fyrir gleði. „Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku — nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.“ (Jesaja 27:4, 5) Jehóva vill tryggja að vínviðurinn haldi áfram að gefa af sér gnóttir af yndislegu víni svo að hann upprætir og brennir sem í eldi öllu illgresi sem getur spillt víngarðinum. Enginn skyldi því voga sér að ógna velferð kristna safnaðarins heldur ættu menn að ‚leita hælis hjá Jehóva‘ með því að leita hylli hans og verndar. Þannig friðmælast þeir við Guð sem er svo mikilvægt að Jesaja nefnir það tvisvar. Og árangurinn er sá að „á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.“ (Jesaja 27:6)c Uppfylling þessa vers er prýðisdæmi um mátt Jehóva. Frá 1919 hafa smurðir kristnir menn fyllt jörðina með „ávöxtum,“ með nærandi andlegri fæðu. Það hefur skilað þeim árangri að milljónir annarra sauða hafa gengið til liðs við þá og þjóna Guði dyggilega „dag og nótt.“ (Opinberunarbókin 7:15) Þeir búa í spilltum heimi en varðveita fagnandi hin háleitu lög Jehóva. Og hann lætur þeim fjölga jafnt og þétt. Missum aldrei sjónar á þeim miklu sérréttindum að neyta þessa ‚ávaxtar‘ og gefa öðrum af honum með lofsöng okkar!
[Neðanmáls]
a Ar merkir sennilega „borg“ eða „bær.“
b Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 170.
c Fjallað er um Jesaja 27:7-13 í rammagrein á bls. 285.
[Rammagrein á blaðsíðu 285]
‚Mikill lúður‘ boðar frelsi
Kvalir Júdamanna færast í aukana árið 607 f.o.t. þegar Jehóva agar hina óstýrilátu þjóð og sendir hana í útlegð. (Lestu Jesaja 27:7-11.) Synd þjóðarinnar er meiri en svo að hægt sé að friðþægja fyrir hana með dýrafórnum. Jehóva ‚rekur‘ Ísrael þess vegna burt úr landi sínu eins og sauða- eða geitahjörð, hann ‚hrífur‘ hann burt eins og lauf í hvössum vindi. Síðan geta jafnvel máttlitlar þjóðir, sem konurnar tákna, látið greipar sópa um það sem eftir er í landinu.
En það kemur að því að Jehóva frelsar fólk sitt úr ánauð líkt og bóndi frelsar kornið sem er eins og fangi í axinu. „Á þeim degi mun [Jehóva] slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja [Jehóva] á fjallinu helga í Jerúsalem.“ (Jesaja 27:12, 13) Eftir að Kýrus vinnur Babýlon árið 539 f.o.t. gefur hann út þá tilskipun að allir Gyðingar í heimsveldinu séu frjálsir, þar á meðal Gyðingar í Assýríu og Egyptalandi. (Esrabók 1:1-4) Það er eins og blásið sé í „mikinn lúður“ og frelsislag ómi fyrir fólki Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 275]
‚Veisla með krásum.‘
[Mynd á blaðsíðu 277]
Babýlon er troðin fótum fyrrverandi fanga sinna.
[Mynd á blaðsíðu 278]
‚Gakk inn í herbergi þitt.‘