Jehóva — styrkur okkar
„Jah Jehóva er styrkur minn og kraftur.“ — JESAJA 12:2, NW.
1. (a) Hvers vegna eru vottar Jehóva ólíkir öðrum? (b) Hvernig lætur Jesaja 12:2 í ljós hvað Jehóva hefur gert fyrir þjóna sína?
SÆKIR þú samkomur í Ríkissal votta Jehóva? Þar hittir þú fólk sem er gerólíkt öðrum! Hverjir eru þetta og hvað gerir þá frábrugðna öðrum? Þetta er fólk Guðs og það er ólíkt öðrum vegna þess að það ber nafnið sem er mest allra — nafn hins dýrlega skapara allra undraverka alheimsins. Nafn hans er nefnt yfir okkur. Það er í hans nafni sem við komum glaðir saman til að þiggja þá andlegu úrvalsfæðu sem hann gefur „á réttum tíma“ í gegnum skipulag sitt. (Lúkas 12:42) Sem vottar Jehóva lofsyngjum við óviðjafnanlegt nafn hans með orðum Jesaja í 12. kafla, 2. versi þar sem segir: „Sjá! Guð er mitt hjálpræði. Ég er öruggur og óttast ekki, því að Jah Jehóva er styrkur minn og kraftur, hann er orðinn mér hjálpræði.“ (NW) Guð okkar hefur frelsað okkur úr mörgum þrengingum. Núna nálgast endanlegt hjálpræði okkar — einnig frá hendi Jah Jehóva!
2. (a) Hve oft kemur orðalagið „Jah Jehóva“ fyrir í Biblíunni og hvar? (b) Hvernig má einnig þýða orðið „kraftur“ í Jesaja 12:2 og hvers vegna á það einnig vel við?
2 Orðalagið „Jah Jehóva,“ þar sem nafn Guðs er tvítekið, kemur aðeins tvisvar fyrir í Biblíunni, hér og í Jesaja 26:4. Jafnvel þýðendur hinnar ensku King James Version töldu við hæfi að láta standa þar orðin „Drottinn Jehóva.“ Neðanmálsathugasemd í Nýheimsþýðingunni upplýsir að orðið, sem þýtt er „kraftur“ í Jesaja 12:2, geti einnig merkt „ljóð“ og „lofsöngur.“ Sannarlega er hinn alvaldi Jah Jehóva, sem gæðir þjóna sína styrk og krafti, verður þess að við syngjum honum hljómmikinn logsöng! — Jesaja 40:28-31.
3. (a) Hverju hefur Jah Jehóva opnað leið og á hvaða grundvelli? (b) Hvaða áhrif hafa orð Páls í Rómverjabréfinu 11:33-36 á votta Jehóva?
3 Máttur Jehóva hefur visku hans, réttvísi og kærleika að mótvægi. Með því að láta þessa eiginleika koma fram hefur Jah Jehóva opnað trúuðu mannkyni leið til hjálpræðis á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Í því sambandi skrifaði Páll postuli: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga [Jehóva]? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans? Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið? Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.“ (Rómverjabréfið 11:33-36) Okkur ber því að halda okkur fast við Jah Jehóva og segja frá fullkomnu trausti okkar til hans sem hins alvalda Guðs og æðsta drottinvalds! — Samanber Hebreabréfið 3:14.
4. (a) Hvers vegna hafði Jesaja spámaður ærna ástæðu til að segja: „Ég er öruggur og óttast eigi“? (b) Hvers vegna hafa þjónar Jehóva fullt tilefni til að treysta Jah Jehóva nú á 20. öldinni?
4 Jesaja hafði ærið tilefni til að segja að hann ‚væri öruggur og óttaðist eigi.‘ Spámaðurinn kynntist síðar frelsunarverkum Guðs. Hann var sjónarvottur að því þegar Jehóva stóð við orð sitt með því að auðmýkja Assýríu og rembilátan konung hennar, Sanherib. Á einni nóttu drap aðeins einn engill, sem okkar alvaldi Guð, Jehóva, sendi, 185.000 assýrska hermenn! Þessi stórfenglega björgun varð til þess að Hiskía konungur og allur Júda treysti skilyrðislaust á Jah Jehóva. (Jesaja 37:6, 7, 21, 36-38) Nú á 20. öldinni hefur Jehóva einnig frelsað þjóna sína undan kúgun, bönnum, ofsóknum og úr fangabúðum. Líkt og hinir raupsömu Assýringar á tímum Jesaja réðist nasistaleiðtoginn Adolf Hitler af heift gegn vottum Jehóva og öskraði einu sinni: „Þessu kyni skal útrýmt úr Þýskalandi!“ En það var Hitler og nasistaflokkur hans sem var útrýmt. Og núna hefur hinn smái hópur þýskra votta, sem treysti á Jehóva, vaxið í meira en 121.200! — Sálmur 27:1, 2; Rómverjabréfið 8:31, 37.
5. Hvernig eiga orðin í Jesaja 12:3-5 við nútímaþjóna Guðs sem treysta honum?
5 Hvar sem ofsóknir verða leita þjónar Jehóva hressingar og styrks í því að drekka lífgandi sannleiksvötn. Spámaður Guðs sagði í Jesaja 12:3-5: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Og á þeim degi munuð þér segja: ‚Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið [Jehóva], því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.‘“ Megum við halda áfram að teyga sannindi Guðsríkis og mikla með þakklátum hjörtum nafn hins alvalda Drottins Jehóva. Í fullu trausti til Jehóva skulum við ‚prédika orðið, gefa okkur að því í tíma og ótíma.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Hvað sem andstæðingarnir kunna að gera mun Jah Jehóva leiða okkur með kærleikshendi eftir vegi hjálpræðisins!
‚Borg ofríkisfullra þjóða‘
6, 7. (a) Fyrir hvað ættu dýrkendur Jehóva að mikla hann í samræmi við Jesaja 25:1? (b) Hvernig lýsir Jesaja 25:2, 3 vissri borg? (c) Hvaða borg átti spámaðurinn líklega við og hvers vegna?
6 Beinum nú athygli okkar að 25. kafla Jesajabókar. Í 1. versinu lesum við: „[Jehóva], þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.“ Dýrkendur Jehóva treysta honum og tigna fyrir þau dásemdarverk sem hann hefur gert þeirra á meðal. En Jesaja stillir nú upp skýrri andstæðu og segir við Jehóva: „Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur. Þess vegna munu . . . borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.“ — Jesaja 25:2, 3.
7 Hverjar eru hinar ónafngreindu ofríkisborgir? Jesaja kann að hafa haft í huga borgina Ar, höfuðborg Móabs sem hafði alla tíð verið óvinur þjóðar Guðs. En samhengið virðist hæfa annarri grein á skipulagi Satans betur — erkióvininum Babýlon. Þegar fylling tímans kæmi myndi Babýlon leggja Júda og Jerúsalem í eyði, gera tilbeiðsluhús Jehóva að rúst og flytja þá sem eftir lifðu í útlegð. Jesaja hefur eftir rembilátum konungi Babýlonar: „Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að . . . gjörast líkur Hinum hæsta!“ En Jehóva ætlaði að vekja upp Kýrus Persakonung, láta hann kollvarpa Babýlon og flytja þjóð Guðs aftur heim í land sitt. Eins og spáð var er ekkert eftir á borgarstæði Forn-Babýlonar annað en ‚grjóthrúga‘ og ‚hrunin rúst.‘ — Jesaja 14:12-14; 13:17-22.
8, 9. (a) Hvaða aðra Babýlon eiga dýrkendur Jehóva í baráttu við og hvernig varð hún til? (b) Hvernig lýsir Jesaja henni og hvers vegna er það við hæfi?
8 Núna, meira en 25 öldum eftir að Babýlon var kollvarpað, þurfa dýrkendur Jehóva enn að etja kappi við aðra Babýlon — ‚Babýlon hina miklu, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 17:5) Hún er heimsveldi falskra trúarbragða. Hún kom fram á sjónarsviðið skömmu eftir flóðið á dögum Nóa þegar Nimrod reisti hina upphaflegu Babýlon sem varð vagga falskra sértrúarbragða. Eftir að Jesús og postular hans höfðu stofnsett kristnina spilltu fráhvarfsmenn sannindum Biblíunnar með því að blanda saman við þau heiðnum, babýlonskum „lærdómum illra anda“ og trúkerfi kristna heimsins varð til. (1. Tímóteusarbréf 4:1) Þessi gervikristni varð síðan meginstofn ‚Babýlonar hinnar miklu‘ sem teygir greinar sínar um alla jörðina til allra þjóða mannkyns. Jesaja lýsir henni sem ‚borg ofríkisfullra þjóða.‘
9 Í meira en 4000 ár, frá grundvöllun hinnar upphaflegu Babýlonar fram til okkar daga, hafa grimmir einræðisherrar haft ofríkisfulla klerka sem skósveina til að kúga og drottna yfir almenningi. Þannig hefur ‚einn maður drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Jesús fann til með mönnum „því þeir voru hrjáðir og umkomulausir“ vegna misþyrminga slíkra falshirða. Sá hópur er ámælisverðastur nú á tímum sem nefndur er „lögleysinginn,“ myndaður af prestastétt kristna heimsins er hefur upphafið sjálfa sig og gengið fram fyrir skjöldu í að ofsækja og berjast á móti vottum Jehóva. — Matteus 9:36; 2. Þessaloníkubréf 2:3, 4, neðanmáls.
10. (a) Hvernig hefur ‚borg ofríkisfullra þjóða‘ neyðst til að mikla Jehóva og einnig óttast hann, í samræmi við Jesaja 25:3? (b) Hvernig talar Jesaja um Jehóva í Jesaja 25:4, 5 bæði í tengslum við ‚lítilmagnann‘ og ‚ofríkismennina‘?
10 Árið 1919 leysti Jehóva sanna þjóna sína undan oki ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Þessi ‚borg ofríkisfullra þjóða‘ neyddist til að vegsama Jehóva með því að hún mátti horfa með beiskju á það „furðuverk“ sem hann vann með því að endurreisa dýrkendur sína til starfa. Áhangendur falskra trúarbragða eru líka neyddir til að óttast Jehóva vegna vitneskjunnar um það sem þeir eiga í vændum. Um aldaraðir hafa ofríkisfullir klerkar hafið sig hátt yfir leikmennina. En núna segir Jesaja um Jehóva: „Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir, glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.“ — Jesaja 25:4, 5.
Enginn gleðisöngur í „Babýlon“!
11. Hvers vegna er enginn gleðisöngur sunginn á valdasvæði ‚Babýlonar hinnar miklu‘ og hvernig birtist það á samkirkjulegum fundi í Assisi á Ítalíu?
11 Þannig er ástatt núna á öllu yfirráðasvæði ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Þar ómar enginn gleðisöngur. Trúarleiðtogar hennar hafa ekki hugmynd um hvaða guði þeir eiga að dýrka. Það sýndi sig berlega á samkirkjulegum fundi í Assisi á Ítalíu þann 27. október 1986. Í tilefni af friðarári Sameinuðu þjóðanna kallaði Jóhannes Páll páfi II. þar saman leiðtoga helstu trúarbragða ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Þeir báðu allir um frið, sumir búddatrúarmunkar í heilar tólf stundir einn daginn. En til hvers báðu þeir? Til Maríu? Eða til heilagrar þrenningar kristna heimsins? Eða til þrenningar hindúa? Eða til hinna þúsunda guða búddatrúarinnar? Eða til Allah? Eða ákölluðu þeir refinn sem shintótrúarmenn dýrka? Voru kannski bænir amerísks indíána af Crow-ættkvíslinni skástar? Hann var sagður vera ‚mikilfenglegur með konunglegan höfuðbúnað‘ þegar hann kveikti í friðarpípunni og bar fram bænir sínar „inni í reykskýið sem steig upp frá honum í köldu loftinu.“
12. Hvaða orð Míka og Jesaja taka þessir trúarleiðtogar ekki undir?
12 Eitt er víst: Enginn þessara trúarleiðtoga, allt frá Dalai Lama búddatrúarmanna til „hans Heilagleika“ Metódíusar grísku rétttrúnaðarkirkjunnar samsinnir orðum Biblíunnar í Míka 4:5: „Vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ Þeir taka ekki undir hin innblásnu sannindi í 42. kafla Jesajabókar 5. og 8. versi: „Svo segir [Jehóva] Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga: Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.“
13. Hvað gerðist í raun í Assisi og hvernig fordæmdi Jesús slíkt þegar hann var á jörðinni?
13 Í Assisi var mikið lagt upp úr tilkomumiklum helgiathöfnum, trúarlegum einkennisklæðum og bænum sem þuldar voru upp aftur og aftur. Það var það sem sonur Jehóva, Jesús, fordæmdi þegar hann var á jörðinni. Hann sagði um trúarleiðtoga sinnar samtíðar: „Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum,“ og hann ávarpaði þá umbúðalaust og sagði: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast.“ (Matteus 23:5, 13; sjá einnig Matteus 6:1-8.) Það eru ekki ytri helgiathafnir eða tilbeiðslustaður sem máli skiptir hjá Guði. Eins og Jesús sagði: „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:21, 24.
Hin sanna friðaruppspretta
14. (a) Hvers vegna eru bænir trúarbragða heimsins um frið hræsnisfullar? (b) Hver er dómur Guðs yfir trúarbrögðum kristna heimsins?
14 Tæplega nokkur, sem virðir fyrir sér ringulreið trúarbragðanna í heiminum, getur verið svo barnalegur að halda að bænir trúarleiðtoganna geti komið á heimsfriði. Þeir hafa þulið upp hræsnisfullar bænir um aldaraðir en samtímis verið af lífi og sál þátttakendur í styrjöldum þjóðanna, krossferðunum og hinum illræmdu ofsóknum á hendur þeim sem voru þeim ekki sammála. Spámaður Jehóva spurði: „Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.“ (Jeremía 13:23) Trúarbrögð kristna heimsins, meginstofn ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða, hafa verið vegin á vogarskálum Guðs og léttvæg fundin. Þau eru dauðadæmd! — Jeremía 2:34, 35, 37; 5:29-31; Daníel 5:27.
15. Hvernig mun Jehóva koma á varanlegum friði og hvernig þjóna þeir sem treysta honum málstað friðarins?
15 Jehóva, „Guð friðarins,“ mun koma á varanlegum friði með því að tortíma öllum sem eru blóðsekir og byggja síðan jörðina mönnum sem elska sannleika og réttlæti. (Filippíbréfið 4:9) Að sögn Davíðs konungs eru það hinir auðmjúku, sem ‚treysta Jehóva og gera gott,‘ sem munu „fá landið til eignar“ og fá að „gleðjast yfir ríkulegri gæfu“ og friði. (Sálmur 37:3, 11) Þeir sem ‚treysta alltaf á Jehóva og gera gott‘ þjóna málstað friðarins á þann hátt sem hinir, er beina ruglingslegum bænum til aragrúa guða, skurðgoða og líkneskja, geta aldrei. — Sálmur 115:2-8; Jesaja 44:14-20.
16. Hvaða veislu býr Jehóva auðmjúkum mönnum sem safnað er út úr ‚borg ofríkisfullra þjóða‘?
16 Það er mikill munur á bænum og vonum þjóna Guðs og þeirra sem styðja ‚Babýlon hina miklu‘! Við skiljum mætavel að ‚sigursöngur ofríkismannanna á eftir að hljóðna.‘ (Jesaja 25:5) En um hina auðmjúku, sem safnað er út úr ‚borg ofríkisfullra þjóða,‘ segir Jesaja: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, . . . skírðu dreggjavíni.“ (Jesaja 25:6) Hin andlega fæða, sem nútímadýrkendur Jehóva nærast á, er bragðgóð, mettandi, sannkallaður veislumatur! Hjörtu okkar styrkjast til þolgæðis og gleði okkar er yfirfljótandi þegar við þjónum Jehóva kostgæfilega og bíðum þeirrar endursköpunar og þeirrar veislu alls kyns gæða sem Jehóva hefur heitið að veita á hinni nýju jörð. — Sálmur 104:1, 14, 15; Matteus 19:28.
17. Hvaða „furðuverk“ mun Jehóva vinna og hvað mun það hafa í för með sér?
17 Bráðlega mun Jah Jehóva gera „furðuverk“ þegar hann ekki aðeins afmáir ‚Babýlon hina miklu‘ heldur einnig þá „skýlu“ fordæmingar sem hjúpar mannkynið vegna syndar Adams. (Jesaja 25:7) Já, á grundvelli fórnar Jesú mun Guð okkar uppfylla spádóminn í Jesaja 25:8: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það.“ Það verður stórkostlegt gleðiefni þegar Adamssyndin og dauðinn hverfur og við getum boðið velkomna ástvini sem snúa aftur úr helgreipum dauðans! Þá munu trúfastir vottar Jehóva hafa gefið smánaranum mikla, Satan djöflinum, fullkomið og endanlegt svar! (Orðskviðirnir 27:11) Enginn mun framar spotta þá því að þeir hafa sigrað vegna ráðvendni sinnar. Í „trúfesti og sannleika“ hefur Jehóva sjálfur fullnað það sem hann sagði fyrir — sín ‚löngu ráðnu ráð.‘ Öll jörðin verður orðin réttlát paradís, fyllt réttlátu fólki. Það eru stórkostlegar framtíðarhorfur!
18. Hvað erum við ráðin í að gera, í samræmi við Jesaja 25:9, þrátt fyrir andstreymi?
18 Við munum uppskera örugg laun ef við treystum alltaf á Jehóva á þeim drungalegu tímum sem við lifum. Hvaða álag sem við þurfum að berjast við í daglegu lífi okkar, hvort heldur í því að sjá fjölskyldum okkar farborða, halda fast við meginreglur Biblíunnar í skólanum eða bera vitni á erfiðu starfssvæði — skulum við alltaf treysta á Jehóva. Náið samband okkar við Jehóva, hann sem „heyrir bænir,“ mun tryggja okkur hjálpræði. (Sálmur 65:3) Við skulum því vera ráðin í að vera í hópi þeirra sem segja með orðum Jesaja 25:9: „Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er [Jehóva], vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvernig er Jah Jehóva styrkur okkar og kraftur?
◻ Hver er ‚borg ofríkisfullra þjóða‘?
◻ Hvernig hefur ‚borg ofríkisfullra þjóða‘ neyðst til að mikla Jehóva og einnig óttast hann?
◻ Hvað sýnir að enginn gleðisöngur er sungin í ‚Babýlon hinni miklu‘?
◻ Hvaða „furðuverk“ á Jehóva enn eftir að vinna í þágu þjóna sinna?