NÁMSGREIN 13
SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa
Finnum hughreystingu í velþóknun Jehóva
„Ég hef velþóknun á þér.“ – LÚK. 3:22.
Í HNOTSKURN
Hvernig þú getur sigrast á efasemdum um að þú hafir velþóknun Jehóva.
1. Hverju gætu sumir þjónar Jehóva velt fyrir sér?
ÞAÐ er hughreystandi til þess að vita að Jehóva hefur velþóknun á fólki sínu sem hópi. Biblían segir: „Jehóva hefur yndi af fólki sínu.“ (Sálm. 149:4) En sumir efast stundum um að Jehóva hafi velþóknun á þeim sem einstaklingum. Margir af þjónum Jehóva sem minnst er á í Biblíunni glímdu við slíkar tilfinningar. – 1. Sam. 1:6–10; Job. 29:2, 4; Sálm. 51:11.
2. Hverjir hafa velþóknun Jehóva?
2 Biblían sýnir skýrt að ófullkomnir menn geti öðlast velþóknun Jehóva. Hvernig? Með því að trúa á Jesú og láta skírast. (Jóh. 3:16) Þannig sýnum við opinberlega að við höfum iðrast synda okkar og lofað Guði að gera vilja hans. (Post. 2:38; 3:19) Jehóva gleðst þegar við stígum þessi skref til að eignast nána vináttu við hann. Hann hefur velþóknun á okkur og lítur á okkur sem nána vini sína svo framarlega sem við gerum okkar besta til að lifa í samræmi við vígsluheit okkar. – Sálm. 25:14
3. Hvaða þrjár spurningar skoðum við?
3 Hvers vegna finnst sumum stundum eins og Jehóva hafi ekki velþóknun á þeim? Hvernig lætur Jehóva í ljós velþóknun sína? Og hvernig getur þjónn Jehóva styrkt þá sannfæringu að hann hafi velþóknun hans?
HVERS VEGNA FINNST SUMUM EINS OG JEHÓVA HAFI EKKI VELÞÓKNUN Á ÞEIM?
4, 5. Hvað getum við verið viss um jafnvel þótt okkur finnist við einskis virði?
4 Margir hafa allt frá bernsku glímt við þá tilfinningu að finnast þeir einskis virði. (Sálm. 88:15) Bróðir sem heitir Adrián segir: „Mér hefur alltaf fundist ég einskis virði. Með fyrstu minningum mínum er þegar ég bað Jehóva um að fjölskyldan mín kæmist í paradís þótt ég væri sannfærður um að ég væri ekki nógu góður til að vera þar.“ Tony ólst ekki upp á heimili votta. Hann segir: „Foreldrar mínir sögðu mér aldrei að þeir elskuðu mig eða væru stoltir af mér. Fyrir vikið fannst mér að ekkert sem ég gerði væri nóg til að gera þá ánægða.“
5 Ef við glímum stundum við þá tilfinningu að við séum einskis virði getum við minnt okkur á að Jehóva sjálfur dró okkur til sín. (Jóh. 6:44) Hann sér það góða í okkur sem við sjáum kannski ekki sjálf og hann þekkir hjarta okkar. (1. Sam. 16:7; 2. Kron. 6:30) Við getum þess vegna treyst honum þegar hann segir að við séum dýrmæt. – 1. Jóh. 3:19, 20.
6. Hvernig hugsaði Páll postuli um fyrri syndir sínar?
6 Sum okkar gerðu ýmislegt áður en við kynntumst sannleikanum sem fyllir okkur ef til vill enn sektarkennd. (1. Pét. 4:3) Aðrir sem þjóna Jehóva trúfastlega glíma við syndugar tilhneigingar. Hvað með þig? Dæmir hjarta þitt þig? Ef svo er getur verið hughreystandi að vita að aðrir trúfastir þjónar Jehóva hafa glímt við sams konar tilfinningar. Páli postula leið illa þegar hann hugsaði um ófullkomleika sinn. (Rómv. 7:24) Hann hafði iðrast og látið skírast. En hann sagðist samt vera „sístur postulanna“ og „verstur“ meðal syndara. – 1. Kor. 15:9; 1. Tím. 1:15.
7. Hverju megum við ekki gleyma varðandi fyrri syndir okkar?
7 Himneskur faðir okkar lofar að fyrirgefa okkur ef við iðrumst. (Sálm. 86:5) Ef við sjáum einlæglega eftir að hafa syndgað getum við því treyst að Jehóva standi við orð sín og að hann hafi fyrirgefið okkur. – Kól. 2:13.
8, 9. Hvernig getum við sigrast á þeirri tilfinningu að ekkert sem við gerum nægi til að þóknast Jehóva?
8 Okkur langar að þjóna Jehóva eins vel og við getum. En sumum finnst þeir aldrei gera nóg til að hafa velþóknun Jehóva. Systir að nafni Amanda segir: „Ég á það til að hugsa að ég þurfi alltaf að gera meira til að gefa Jehóva mitt besta. Ég ætlast oft til meira af sjálfri mér en ég get. Þegar mér mistekst geri ég ráð fyrir að Jehóva sé jafn óánægður með mig og ég sjálf.“
9 Hvernig getum við sigrast á þeirri tilfinningu að ekkert sem við gerum nægi til að þóknast Jehóva? Munum að Jehóva er ekki stífur og ósanngjarn. Hann ætlast ekki til meira af okkur en við getum. Hann kann að meta allt sem við gerum fyrir hann svo framarlega sem við gerum okkar besta. Hugleiðum líka dæmi í Biblíunni um fólk sem þjónaði Jehóva heils hugar. Páll lagði til dæmis hart að sér árum saman, ferðaðist þúsundir kílómetra og stofnaði marga söfnuði. En missti hann velþóknun Jehóva þegar aðstæður hans breyttust og hann gat ekki lengur tekið eins mikinn þátt í boðuninni? Nei. Hann hélt áfram að gera það sem hann gat og Jehóva blessaði hann. (Post. 28:30, 31) Það sem hvert og eitt okkar getur gert fyrir Jehóva getur á svipaðan hátt verið breytilegt. En það sem skiptir Jehóva máli er hvers vegna við gerum það. Skoðum nú dæmi um hvernig Jehóva lætur í ljós að hann hafi velþóknun á okkur.
HVERNIG LÆTUR JEHÓVA Í LJÓS VELÞÓKNUN SÍNA?
10. Hvernig getum við „heyrt“ Jehóva tjá okkur velþóknun sína? (Jóhannes 16:27)
10 Jehóva tjáir sig í Biblíunni. Jehóva hefur unun af því að tjá kærleika sinn og velþóknun í garð þjóna sinna. Í Biblíunni eru tvö dæmi um að hann sagði Jesú að hann væri elskaður sonur sinn sem hann hefði velþóknun á. (Matt. 3:17; 17:5) Myndir þú vilja heyra Jehóva tjá þér velþóknun sína? Hann talar ekki til okkar frá himni en hann gerir það á síðum Biblíunnar. Við getum „heyrt“ Jehóva tjá velþóknun sína þegar við lesum það sem Jesús sagði við lærisveina sína. (Lestu Jóhannes 16:27.) Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns fullkomlega. Þegar við lesum að hann sagði ófullkomnum en trúföstum lærisveinum sínum að hann hefði velþóknun á þeim getum við ímyndað okkur hvernig Jehóva segir þetta við okkur. – Jóh. 15:9, 15.
11. Hvers vegna eru erfiðleikar okkar ekki tákn um að við höfum glatað velþóknun Jehóva? (Jakobsbréfið 1:12)
11 Jehóva gefur okkur það sem við þurfum. Jehóva er fús að hjálpa okkur, til dæmis með því að sjá okkur fyrir efnislegum þörfum okkar. En hann getur leyft að við göngum í gegnum erfiðleika, eins og hinn réttláti Job er dæmi um. (Job 1:8-11) Prófraunir eru ekki merki um að við höfum glatað velþóknun Jehóva. Þær gefa okkur öllu heldur tækifæri til að sýna hversu djúpt kærleikur okkar til Guðs ristir og hversu vel við treystum honum. (Lestu Jakobsbréfið 1:12.) Og meðan á prófraununum stendur finnum við fyrir kærleika Jehóva og hvernig hann hjálpar okkur að halda út.
12. Hvað getum við lært af reynslu Dmítríȷ́s?
12 Skoðum reynslu bróður sem heitir Dmítríȷ́ og býr í Asíu. Hann missti vinnuna og gat ekki fundið aðra í marga mánuði. Hann ákvað að fara oftar í boðunina og sýna þannig að hann treysti Jehóva. Mánuðir liðu án þess að hann fengi vinnu. Síðan veiktist hann alvarlega og varð rúmfastur. Hann fór að efast um að hann væri góður eiginmaður og faðir og velti fyrir sér hvort hann hefði misst velþóknun Jehóva. Kvöld eitt prentaði dóttir hans út Jesaja 30:15 á blað: „Styrkur ykkar er fólginn í að halda rónni og treysta mér.“ Hún færði honum versið þar sem hann lá í rúminu og sagði: „Pabbi, mundu þetta þegar þér líður illa.“ Dmítríȷ́ gerði sér grein fyrir að Jehóva hafði séð til þess að fjölskyldan hans hefði enn fæði, klæði og húsnæði. „Það sem ég þurfti að gera,“ segir hann, „var að halda rónni og halda áfram að treysta á Guð minn.“ Ef þú ert í svipuðum aðstæðum geturðu treyst því að Jehóva sé annt um þig og hjálpi þér að halda út.
13. Hverja getur Jehóva notað til að tjá okkur velþóknun sína og hvernig?
13 Jehóva hefur gefið okkur trúsystkini. Jehóva notar bræður okkar og systur til að tjá okkur velþóknun sína. Hann getur til dæmis fengið einhvern til að segja okkur eitthvað uppörvandi á réttum tíma. Systir í Asíu upplifði þetta þegar hún var undir miklu álagi. Hún hafði misst vinnuna og var orðin alvarlega veik. Maðurinn hennar syndgaði alvarlega og gat ekki lengur verið öldungur. „Ég skildi ekki hvers vegna þetta var að gerast,“ segir hún. „Ég hugsaði að ég hefði kannski gert eitthvað rangt og misst velþóknun Jehóva.“ Systir okkar grátbað Jehóva um að fullvissa sig um að hún hefði velþóknun hans. Hvernig gerði hann það? Hún segir: „Öldungarnir töluðu við mig og fullvissuðu mig um að Jehóva elskaði mig.“ Seinna bað hún aftur til Jehóva um þetta. „Þennan sama dag fékk ég bréf frá hópi trúsystkina í söfnuðinum,“ segir hún. „Þegar ég las hughreystandi orð þeirra skildi ég að Jehóva hafði bænheyrt mig.“ Jehóva tjáir okkur oft velþóknun sína með hjálp hlýlegra orða annarra. – Sálm. 10:17.
14. Hvernig tjáir Jehóva okkur stundum velþóknun sína?
14 Jehóva getur notað trúsystkini okkar til að gefa okkur leiðbeiningar og sýnir okkur þannig velþóknun sína. Á fyrstu öld fól Jehóva Páli postula til dæmis að skrifa 14 innblásin bréf til trúsystkina hans. Í þeim voru beinskeyttar en jafnframt kærleiksríkar leiðbeiningar. Hvers vegna innblés Jehóva Páli að gefa þessar leiðbeiningar? Jehóva er góður faðir og agar börnin sín „sem honum þykir vænt um“. (Orðskv. 3:11, 12) Ef við fáum leiðbeiningar byggðar á Biblíunni getum við litið á það sem merki um að við höfum velþóknun Jehóva, ekki að við höfum glatað henni. (Hebr. 12:6) Hvaða aðrar vísbendingar höfum við um að Jehóva hafi velþóknun á okkur?
FLEIRI MERKI UM VELÞÓKNUN JEHÓVA
15. Hverjum gefur Jehóva heilagan anda og hvers vegna getur það gefið okkur öryggiskennd?
15 Jehóva gefur þeim heilagan anda sem hann hefur velþóknun á. (Matt. 12:18) Við getum spurt okkur: „Hef ég sýnt einhverja eiginleika sem heilagur andi hefur hjálpað mér að rækta?“ Ertu til dæmis þolinmóðari við aðra nú en þegar þú kynntist Jehóva? Því betur sem þú sýnir ávöxt anda Guðs þeim mun augljósara verður að þú hafir velþóknun hans. – Sjá rammann „Ávöxtur andans er …“
16. Hverjum felur Jehóva boðunina og hvað finnst þér um það? (1. Þessaloníkubréf 2:4)
16 Jehóva trúir þeim fyrir fagnaðarboðskapnum sem hann hefur velþóknun á. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:4.) Tökum eftir hvernig systir sem heitir Jocelyn hafði gagn af því að boða öðrum trúna. Einn morguninn vaknaði hún döpur. „Mér fannst ég ekkert hafa að gefa,“ segir hún. „En ég var brautryðjandi og þetta var dagur sem ég átti að vera í boðuninni svo að ég bað til Jehóva og fór af stað.“ Þennan morgun hitti Jocelyn Mary, vingjarnlega konu sem þáði biblíunámskeið. Nokkrum mánuðum seinna sagði Mary frá því að hún hefði verið búin að biðja til Guðs um hjálp þegar Jocelyn bankaði upp á. Jocelyn segir: „Mér fannst Jehóva vera að segja við mig: ‚Ég hef velþóknun á þér.‘“ Auðvitað bregðast ekki allir vel við boðun okkar. En við getum verið viss um að Jehóva gleðjist þegar við reynum okkar besta til að boða öðrum fagnaðarboðskapinn.
17. Hvað lærir þú af því sem Vicky segir um lausnarfórnina? (Sálmur 5:12)
17 Jehóva lætur þá sem hann hefur velþóknun á njóta góðs af lausnargjaldinu. (1. Tím. 2:5, 6) En hvað ef hjarta okkar samþykkir ekki að Jehóva hafi velþóknun á okkur, jafnvel þótt við trúum á lausnarfórnina og séum skírð? Gleymum ekki að við getum ekki treyst tilfinningum okkar fullkomlega en við getum treyst Jehóva. Hann álítur þá sem trúa á lausnarfórnina réttláta og lofar að blessa þá. (Lestu Sálm 5:12; Rómv. 3:26) Systur sem heitir Vicky fannst gagnlegt að hugleiða lausnarfórnina vandlega. Dag einn þegar hún gerði það skildi hún þetta loksins. Hún segir: „Jehóva hafði sýnt mér þolinmæði ótrúlega lengi … En samt sagði ég eiginlega við hann: ‚Kærleikur þinn er ekki nógu sterkur til að ná til mín. Fórn sonar þíns nægir ekki til að greiða fyrir syndir mínar.‘“ Með því að hugleiða þá gjöf sem lausnargjaldið er, fór hún að finna að Jehóva elskaði hana. Við munum líka finna að Jehóva elskar okkur og hefur velþóknun á okkur þegar við hugleiðum lausnarfórnina.
18. Hvað getum við verið viss um þegar við elskum föður okkar á himnum?
18 Þótt við leggjum hart að okkur að fara eftir því sem við höfum lært í þessari námsgrein gætum við orðið kjarklítil af og til og velt fyrir okkur hvort við höfum velþóknun Jehóva. Munum þá að hann hefur velþóknun á þeim sem „elska hann staðfastlega“. (Jak. 1:12) Höldum þess vegna áfram að nálgast Jehóva og tökum eftir hvernig hann lætur í ljós velþóknun sína á okkur. Gleymum ekki að Jehóva er „ekki langt frá neinum okkar“. – Post. 17:27.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
Hvers vegna finnst sumum eins og Jehóva hafi ekki velþóknun á þeim?
Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva lætur í ljós að hann hafi velþóknun á okkur.
Hvernig getum við verið viss um að við höfum velþóknun Jehóva?
SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn