23. kafli
Vonið á Jehóva
1, 2. (a) Hvað inniheldur 30. kafli Jesajabókar? (b) Hvaða spurningum ætlum við að velta fyrir okkur?
Í ÞRÍTUGASTA kafla Jesajabókar má lesa ýmsa fleiri spádóma gegn óguðlegum, en kaflinn vekur einnig athygli á sumum af fegurstu eiginleikum Jehóva. Reyndar er þeim lýst svo ljóslifandi að við nánast skynjum hughreystandi nærveru hans, heyrum leiðbeinandi rödd hans og finnum græðandi snertingu hans. — Jesaja 30:20, 21, 26.
2 En fráhvarfsmennirnir í Júda, samlandar Jesaja, vilja ekki snúa sér aftur til Jehóva heldur treysta á menn. Hvað ætli Jehóva finnist um það? Hvernig getur þessi kafli í spádómsbók Jesaja hjálpað kristnum mönnum að vona á Jehóva? (Jesaja 30:18) Skoðum málið.
Heimska og ógæfa
3. Hvaða ráðabrugg afhjúpar Jehóva?
3 Júdaleiðtogar hafa verið að þreifa fyrir sér um tíma hvernig þeir geti komist hjá því að lenda undir oki Assýringa. En Jehóva hefur fylgst með þeim og nú afhjúpar hann ráðabruggið: „Vei hinum þverúðugu börnum — segir [Jehóva]. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan. Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands.“ — Jesaja 30:1, 2a.
4. Hvernig hefur hin uppreisnargjarna þjóð Guðs sett Egyptaland í hans stað?
4 Það er mikið áfall fyrir leiðtogana að heyra ráðabrugg sitt afhjúpað! Að fara til Egyptalands og stofna til bandalags þar er ekki aðeins fjandsamleg aðgerð gegn Assýríu heldur jafnframt uppreisn gegn Jehóva Guði. Á dögum Davíðs konungs treysti þjóðin á Jehóva sem vígi og leitaði hælis ‚í skugga vængja hans.‘ (Sálmur 27:1; 36:8) Núna leitar hún sér „hælis hjá Faraó“ og vill „fá sér skjól í skugga Egyptalands.“ (Jesaja 30:1, 2b) Hún hefur sett Egyptaland í sæti Guðs. Þetta eru drottinsvik! — Lestu Jesaja 30:3-5.
5, 6. (a) Af hverju eru það stórkostleg mistök að gera bandalag við Egyptaland? (b) Hvaða ferð fór þjóð Guðs forðum daga sem sýnir fram á hvílík fásinna þessi ferð er?
5 Jesaja kemur með nánari upplýsingar, rétt eins og hann vilji svara þeim sem kynnu að segja að ferðin til Egyptalands sé bara óvænt og óformleg heimsókn: „Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum.“ (Jesaja 30:6a) Ferðin er greinilega vel skipulögð. Sendimennirnir ætla að fara með asna og úlfalda klyfjaða dýrum varningi, og leiðin suður til Egyptalands liggur um torfæra eyðimörk með öskrandi ljónum og höggormum. Loks ná sendimennirnir á áfangastað og afhenda Egyptum fjársjóðina. Þeir hafa keypt sér vernd — eða svo halda þeir. En Jehóva segir að þeir séu að fara „til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim. Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.“ (Jesaja 30:6b, 7) „Stórgortarinn,“ öðru nafni ‚drekinn,‘ er Egyptaland sem lofar öllu fögru en gerir ekki neitt. (Jesaja 51:9, 10) Það eru örlagarík mistök fyrir Júda að stofna til þessa bandalags.
6 Vera má að ferðalýsing Jesaja minni áheyrendur hans á svipaða ferð á dögum Móse er forfeður þeirra fóru um sömu „eyðimörkina miklu og hræðilegu.“ (5. Mósebók 8:14-16) En þá voru Ísraelsmenn að yfirgefa Egyptaland og ánauðina. Núna eru sendimenn á leið til Egyptalands og eru eiginlega að ganga á vit ánauðarinnar. Hvílík fásinna! Verum aldrei svo óskynsöm að afsala okkur andlega frelsinu og láta hneppa okkur í þrælkun. — Samanber Galatabréfið 5:1.
Andstaða við boðskap spámannsins
7. Af hverju lætur Jehóva spámanninn skrásetja viðvörun sína til Júdamanna?
7 Jehóva segir Jesaja að skrásetja boðskapinn sem hann hefur flutt „svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega.“ (Jesaja 30:8) Það þarf að skjalfesta vanþóknun Jehóva á því að treysta frekar á bandalög við menn en á hann svo að komandi kynslóðir, þar á meðal við, geti dregið lærdóm af því. (2. Pétursbréf 3:1-4) En það er önnur og meiri ástæða fyrir skrásetningunni. „Þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu [Jehóva].“ (Jesaja 30:9) Þjóðin hefur hafnað ráðum Guðs og nú þarf að skjalfesta það svo að hún geti ekki borið á móti því síðar að hún hafi fengið viðeigandi viðvörun. — Orðskviðirnir 28:9; Jesaja 8:1, 2.
8, 9. (a) Hvernig reyna Júdaleiðtogar að spilla spámönnum Jehóva? (b) Hvernig sýnir Jesaja að hann lætur ekki kúga sig?
8 Jesaja nefnir dæmi um uppreisnarhug manna. Þeir „segja við sjáendur: ‚Þér skuluð eigi sjá sýnir,‘ og við vitranamenn: ‚Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.‘“ (Jesaja 30:10) Þegar Júdaleiðtogar fyrirskipa trúum spámönnum að slá sér „gullhamra“ og birta sér „blekkingar“ í stað þess að segja „sannleikann,“ þá eru þeir að sýna að þeir vilja einungis heyra það sem kitlar eyrun. Þeir vilja fá lof en ekki last. Spámaður, sem vill ekki spá eftir þeirra höfði, á að ‚fara út af veginum, beygja út af brautinni.‘ (Jesaja 30:11a) Annaðhvort á hann að tala það sem lætur vel í eyrum eða hætta hreinlega að prédika!
9 „Komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru,“ heimta andstæðingar Jesaja. (Jesaja 30:11b) Þeir vilja að hann hætti að tala í nafni Jehóva, ‚Hins heilaga í Ísrael.‘ Þessi titill fer í taugarnar á þeim af því að hinn hái mælikvarði Jehóva afhjúpar hve auvirðilegir þeir eru. En Jesaja svarar: „Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo.“ (Jesaja 30:12a) Hann segir hiklaust orðin sem andstæðingarnir vilja síst heyra og gefur okkur gott fordæmi með því að láta ekki kúga sig. Kristnir menn verða að boða boðskap Guðs án nokkurrar tilslökunar og lýsa yfir: ‚Svo segir Jehóva,‘ líkt og Jesaja gerði. — Postulasagan 5:27-29.
Afleiðingar uppreisnarinnar
10, 11. Hvaða afleiðingar hefur uppreisn Júda?
10 Júda hefur hafnað orði Guðs og treyst á lygi og „andhælisskap.“ (Jesaja 30:12b) Jehóva ætlar ekki að láta kyrrt liggja eins og þjóðin vill heldur á hún að líða undir lok! Endalokin verða óvænt og alger eins og Jesaja leggur áherslu á með líkingu. Hann segir að uppreisnargirni þjóðarinnar sé eins og „veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann.“ (Jesaja 30:13) Uppreisnargirnin vex eins og bunga á háum vegg og verður þjóðinni til falls að lokum.
11 Jesaja tekur aðra líkingu þar sem hann sýnir fram á að eyðingin verði alger: „Hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.“ (Jesaja 30:14) Engin verðmæti verða eftir í Júda — ekki einu sinni nógu stórt leirbrot til að moka heitri ösku úr arni eða ausa vatni úr þró. Skammarleg endalok það! Eyðing þeirra sem snúast gegn sannri tilbeiðslu núna verður ekkert síður snögg og alger. — Hebreabréfið 6:4-8; 2. Pétursbréf 2:1.
Boði Jehóva hafnað
12. Hvernig geta Júdamenn umflúið eyðingu?
12 En áheyrendur Jesaja þurfa ekki að farast. Þeir geta forðast eyðinguna eins og hann bendir á: „Svo hefir hinn alvaldi [Jehóva], Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ (Jesaja 30:15a) Jehóva er reiðubúinn að bjarga fólki sínu — svo framarlega sem það sýnir „rósemi“ og trú með því að reyna ekki að bjarga sér með bandalögum við menn, og „þolinmæði“ með því að treysta á verndarmátt hans og láta ekki ótta ná tökum á sér. „En þér vilduð það ekki,“ bætir spámaðurinn við. — Jesaja 30:15b.
13. Á hvað treysta Júdaleiðtogar og er það réttlætanlegt?
13 Jesaja útfærir þetta nánar: „Og [þið] sögðuð: ‚Nei, á hestum skulum vér þjóta‘ — fyrir því skuluð þér flýja! — ‚og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða‘ — fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!“ (Jesaja 30:16) Júdamenn halda að fráir gæðingar geti frekar bjargað þeim en Jehóva. (5. Mósebók 17:16; Orðskviðirnir 21:31) En spámaðurinn bendir þeim á að þeir treysti á tálvon af því að óvinirnir ná þeim. Jafnvel fjöldinn kemur þeim ekki að gagni. „Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja.“ (Jesaja 30:17a) Júdaher mun flýja dauðskelkaður undan köllum fáeinna óvina.a Á endanum verða ekki eftir nema litlar leifar sem eru eins og „vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.“ (Jesaja 30:17b) Spádómurinn rætist þegar Jerúsalem er eytt árið 607 f.o.t. og aðeins leifar komast lífs af. — Jeremía 25:8-11.
Hughreysting í fordæmingunni
14, 15. Hvernig voru orðin í Jesaja 30:18 hughreystandi fyrir Júdamenn forðum daga og hvernig eru þau hughreystandi fyrir kristna menn núna?
14 Áheyrendur Jesaja eru enn með þessi alvarlegu orð ómandi í eyrunum þegar tónninn í boðskapnum breytist. Nú tekur blessunarloforð við af hörmungahótuninni. „En [Jehóva] bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að [Jehóva] er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.“ (Jesaja 30:18) Hvílík huggunarorð! Jehóva er brjóstgóður faðir og þráir að hjálpa börnum sínum. Hann þráir að líkna og miskunna. — Sálmur 103:13; Jesaja 55:7.
15 Þessi hughreystingarorð rætast á leifum Gyðinga sem fá miskunnarlega að lifa af eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. og þeim fáu sem snúa heim til fyrirheitna landsins árið 537 f.o.t. En orð spámannsins eru einnig hughreystandi fyrir kristna menn nú á tímum. Við erum minnt á að Jehóva ‚líkni‘ okkur með því að binda enda á þennan illa heim. Hann er „Guð réttlætis“ svo að trúir tilbiðjendur hans mega treysta því að hann láti heim Satans ekki standa stundinni lengur en réttlætið útheimtir. Þess vegna hafa „allir þeir, sem á hann vona,“ ríka ástæðu til að vera glaðir.
Jehóva hughreystir þjóna sína með því að bænheyra þá
16. Hvernig hughreystir Jehóva niðurdregna?
16 En sumir eru kannski að missa kjarkinn af því að þeir bjuggust við frelsuninni fyrr. (Orðskviðirnir 13:12; 2. Pétursbréf 3:9) Vonandi geta orð Jesaja hughreyst þá þar sem hann bendir á sérstakan þátt í persónuleika Jehóva. „Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.“ (Jesaja 30:19) Það lýsir mikilli blíðu að Jesaja skiptir úr fleirtölu í 18. versi yfir í eintölu í því 19. Þegar Jehóva hughreystir bágstadda hugsar hann um hvern mann sem einstakling. Hann spyr ekki niðurdreginn son: ‚Af hverju geturðu ekki verið sterkur eins og bróðir þinn?‘ heldur hlustar hann á hvern og einn og ‚bænheyrir þegar hann heyrir til hans.‘ (Galatabréfið 6:4) Þetta er hughreystandi. Jehóva styrkir niðurdregna sem biðja til hans. — Sálmur 65:3.
Lesið orð Guðs og heyrið leiðbeiningar hans
17, 18. Hvernig leiðbeinir Jehóva jafnvel á erfiðleikatímum?
17 Jesaja minnir lesendur á að þrengingar séu framundan. Hann talar um „neyðarbrauð og þrengingarvatn.“ (Jesaja 30:20b) Bágindi og kúgun umsátursins verða eins og daglegt brauð og vatn. Engu að síður er Jehóva reiðubúinn að bjarga hjartahreinum mönnum. „Hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann, og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ — Jesaja 30:20b, 21.
18 Jehóva á sér engan jafnoka sem kennari. En hvernig geta menn ‚litið‘ hann og ‚heyrt‘? Jehóva opinberar sig fyrir milligöngu spámannanna og orð þeirra standa í Biblíunni. (Amos 3:6, 7) Þegar trúir tilbiðjendur hans lesa í Biblíunni er eins og föðurleg rödd hans vísi þeim veginn og hvetji þá til að breyta sér svo að þeir geti gengið hann. Kristnir menn ættu hver og einn að leggja vandlega við hlustirnar þegar Jehóva talar í Biblíunni og biblíutengdum ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Allir ættu að leggja sig fram við biblíulestur því að ‚það er líf þeirra.‘ — 5. Mósebók 32:46, 47; Jesaja 48:17.
Ígrundaðu blessun framtíðarinnar
19, 20. Hvaða blessun er búin þeim sem hlýða rödd hins mikla kennara?
19 Þeir sem hlýða rödd hins mikla kennara henda frá sér skurðgoðum sínum eins og þau séu viðurstyggð. (Lestu Jesaja 30:22.) Þeir eiga mikla blessun í vændum eins og lýst er í Jesaja 30:23-26, en þar er undurfagur endurreisnarspádómur sem uppfylltist fyrst þegar leifar Gyðinga sneru heim úr útlegð árið 537 f.o.t. Spádómurinn bendir á hina stórfenglegu blessun sem Messías kemur til leiðar í andlegu paradísinni núna og í hinni bókstaflegu sem framundan er.
20 „Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga. Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.“ (Jesaja 30:23, 24) Daglegt fæði manna verður „kjarngott og kostamikið.“ Búpeningurinn nýtur góðs af frjósemi landsins og fær „saltan fóðurblending“ sem er aðeins gefinn við hátíðleg tækifæri. Fóðurblendingurinn er jafnvel „hreinsaður“ sem er sjaldan gert nema kornið sé ætlað til manneldis. Þetta er falleg lýsing á rausnarlegri blessun Jehóva yfir trúföstu mannkyni.
21. Hversu alger verður blessunin framundan?
21 „Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta.“ (Jesaja 30:25a)b Hér lýsir spámaðurinn á líkingamáli hversu alger blessun Jehóva verður. Nóg verður af dýrmætu vatninu sem streymir bæði um fjöll og láglendi, meira að segja „á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð.“ Hungur verður liðin tíð. (Sálmur 72:16) En nú beinir spámaðurinn athyglinni enn hærra en til fjallanna: „Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er [Jehóva] bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.“ (Jesaja 30:26) Þetta er hrífandi hámark á fögrum spádómi. Dýrð Guðs skín í öllum ljóma sínum. Sjöföld blessun bíður trúrra dýrkenda hans — margfalt meiri en þeir hafa áður kynnst.
Dómur og gleði
22. Hvað eiga óguðlegir í vændum, ólíkt hinum trúföstu?
22 Tónninn í boðskap Jesaja breytist nú aftur. „Sjá,“ segir hann, rétt eins og til að ná athygli áheyrenda. „Nafn [Jehóva] kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur.“ (Jesaja 30:27) Jehóva hefur enn ekki skorist í leikinn heldur leyft óvinunum að fara sínu fram. En nú nálgast hann til að fullnægja dómi — líkt og þykkur reykjarmökkur eða þrumuský sem nálgast jafnt og þétt. „Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.“ (Jesaja 30:28) Óvinir þjóðar Guðs verða umkringdir ‚ólgandi vatnsfalli,‘ hristir ofsalega „í sáldi“ og stöðvaðir með ‚bitil í munni.‘ Þeim verður tortímt.
23. Hvað veitir kristnum mönnum „hjartans gleði“?
23 Aftur breytist tónninn hjá Jesaja er hann fer að lýsa góðri líðan trúrra tilbiðjenda Guðs sem snúa aftur heim í land sitt einn góðan veðurdag. „Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall [Jehóva] til hellubjargs Ísraels.“ (Jesaja 30:29) Sannkristnir menn eru gripnir sömu „hjartans gleði“ er þeir ígrunda dóminn yfir heimi Satans, verndina sem Jehóva, ‚klettur hjálpræðisins,‘ veitir þeim og blessunina sem ríki hans kemur til leiðar. — Sálmur 95:1.
24, 25. Hvernig leggur spádómur Jesaja áherslu á að dómurinn yfir Assýríu sé raunverulegur?
24 Eftir að Jesaja hefur tjáð þessa gleði snýr hann sér aftur að dómnum og bendir á þá sem reiði Guðs bitnar á. „Þá mun [Jehóva] heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum. Já, fyrir raustu [Jehóva] mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum.“ (Jesaja 30:30, 31) Með sterku myndmáli lýsir Jesaja hve dómur Guðs yfir Assýríu er raunverulegur. Það er eins og hún standi skjálfandi frammi fyrir Guði er hún sér hann ‚reiða ofan armlegg sinn‘ til að fullnægja dómi.
25 Áfram heldur spámaðurinn: „Í hvert sinn sem refsivölur sá, er [Jehóva] reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim. Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur [Jehóva] kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.“ (Jesaja 30:32, 33) Jesaja notar Tófet-brennslugrófina í Hinnomsdal sem tákn um það hversu skyndilega og algerlega Assýringum verður eytt. — Samanber 2. Konungabók 23:10.
26. (a) Hvaða nútímaþýðingu hefur spádómur Jehóva yfir Assýríu? (b) Hvernig vona kristnir menn á Jehóva?
26 Þó svo að þessu dómsorði sé beint gegn Assýríu nær spádómur Jesaja lengra. (Rómverjabréfið 15:4) Jehóva kemur aftur eins og úr fjarska og kaffærir, sáldar og beislar alla sem kúga fólk hans. (Esekíel 38:18-23; 2. Pétursbréf 3:7; Opinberunarbókin 19:11-21) Megi dagur sá vera skammt undan. Kristnir menn bíða frelsunardagsins með óþreyju og styrkja sig við lestur hinna lifandi orða í 30. kafla Jesajabókar sem hvetur þá til að eiga gott bænasamband við hann, leggja sig fram við biblíunám og hugleiða þá blessun sem ríki hans hefur í för með sér. (Sálmur 42:2, 3; Orðskviðirnir 2:1-6; Rómverjabréfið 12:12) Þannig geta orð Jesaja hjálpað okkur öllum að vona á Jehóva.
[Neðanmáls]
a Ef Júdamenn hefðu verið Guði trúir hefði hið gagnstæða getað gerst. — 3. Mósebók 26:7, 8.
b Í Jesaja 30:25b stendur: „Á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.“ Í byrjunaruppfyllingunni kann þetta að hafa ræst með falli Babýlonar en það opnaði leiðina fyrir Ísrael til að njóta blessunarinnar sem boðuð er í Jesaja 30:18-26. (Sjá 19. grein.) Einnig er hugsanlegt að það vísi til eyðingarinnar í Harmagedón þegar þessi blessun getur ræst til fulls í nýja heiminum.
[Mynd á blaðsíðu 305]
Ísraelsmenn forðuðu sér frá Egyptalandi á dögum Móse en Júdamenn leita sér þar hjálpar á dögum Jesaja.
[Mynd á blaðsíðu 311]
„Á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta.“
[Mynd á blaðsíðu 312]
Jehóva kemur í reiði og þrumuskýi.