Deila Jehóva við þjóðirnar
„Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að [Jehóva] þreytir deilu við þjóðirnar.“ — JEREMÍA 25:31.
1, 2. (a) Hvað gerðist í Júda eftir dauða Jósía konungs? (b) Hver var síðasti konungur Júda og hvernig þurfti hann að gjalda ótrúmennsku sinnar?
ÖRÐUGIR tímar blöstu við landi Júda. Einn góður konungur, Jósía, hafði um tíma frestað brennandi reiði Jehóva. En hvað gerðist eftir að Jósía var drepinn árið 629 f.o.t.? Konungarnir, sem tóku við af honum, smánuðu Jehóva.
2 Síðasti konungur Júda, Sedekía, fjórði sonur Jósía, hélt áfram, eins og 2. Konungabók 24:19 segir, að ‚gera það sem illt var í augum Jehóva með öllu svo sem gjört hafði [eldri bróðir hans] Jójakím.‘ Hvaða afleiðingar hafði það? Nebúkadnesar réðst á Jerúsalem, tók Sedekía til fanga, drap syni hans fyrir augum hans, blindaði hann og flutti til Babýlonar. Auk þess tóku Babýloníumenn áhöldin, sem notuð voru við tilbeiðsluna á Jehóva, að herfangi og brenndu musterið og borgina. Þeir sem af lifðu voru fluttir í útlegð til Babýlonar.
3. Hvaða tímabil hófst með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. og hvað átti að gerast að því loknu?
3 Þetta ár, 607 f.o.t., markaði ekki aðeins það að þá var Jerúsalem þess tíma endanlega lögð í auðn heldur líka upphaf ‚heiðingjatímanna‘ sem minnst er á í Lúkasi 21:24. Þessu 2520 ára tímabili lauk á okkar öld, árið 1914. Þá var tíminn kominn fyrir Jehóva að lýsa yfir og fullnægja dómi á hinum spillta heimi fyrir milligöngu síns krýnda sonar, Jesú Krists sem er meiri en Nebúkadnesar. Þessi dómur hefst á nútímahliðstæðu Júda sem segist vera fulltrúi Guðs og Krists á jörðinni.
4. Hvaða spurningar koma nú fram í tengslum við spádóm Jeremía?
4 Sjáum við hliðstæðu milli ólgunnar á síðustu árum Júda undir stjórn konunga þess ríkis — þar sem áhrif skaðvænlegra atburða gætir yfir landamærin til grannþjóðanna — og ólgunnar í kristna heiminum nú á dögum? Svo sannarlega gerum við það! Hvað gefur þá spádómur Jeremía til kynna um hvernig Jehóva meðhöndli málin nú á tímum? Lítum á það.
5, 6. (a) Hvernig hvefur ástandið í kristna heiminum síðan 1914 líkst ástandinu í Júda rétt áður en það ríki var lagt í eyði ? (b) Hvaða boðskap hefur Jeremía nútímans flutt kristna heiminum?
5 Breski stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Bertrand Russell sagði fyrir um 40 árum: „Alla tíð frá 1914 hafa allir, sem fylgst hafa með þróuninni í heiminum, haft þungar áhyggjur af því sem líkist einna helst örlagabundinni hergöngu í átt til sívaxandi stórhörmunga.“ Og þýski stjórnmálamaðurinn Konrad Adenauer sagði: „Öryggi og rósemi hafa horfið úr lífi manna síðan 1914.“
6 Núna, eins og á dögum Jeremía, einkennist nálægð endaloka þessa heimskerfis af því að úthellt er hafsjó af saklausu blóði, ekki síst í hinum tveim heimsstyrjöldum þessarar aldar. Þessar styrjaldir voru að mestu leyti háðar af þjóðum kristna heimsins sem segjast tilbiðja Guð Biblíunnar. Hvílík hræsni! Það er engin furða að Jehóva skuli hafa sent votta sína til þeirra til að segja þeim með orðum Jeremía 25:5, 6: „Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, . . . En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera.“
7. Hvað ber vitni um að kristni heimurinn hafi haft viðvaranir Jehóva að engu?
7 En þjóðir kristna heimsins hafa ekki snúið aftur. Það hefur sýnt sig í því að þær færðu stríðsguðinum enn meiri fórnir í Kóreu og Víetnam. Og þær halda áfram að ausa fé í sölumenn dauðans, vopnaframleiðendurna. Þjóðir kristna heimsins lögðu fram meirihluta næstum billjón bandaríkjadala sem eytt var árlega í hergögn á níunda áratugnum. Frá 1951 til 1991 voru hernaðarútgjöld Bandaríkjanna einna meiri en nettóhagnaður allra bandarískra fyrirtækja samanlagður. Síðan kalda stríðinu lauk, sem mikið hefur verið básúnað, hafa úrelt kjarnorkuvopn verið skorin niður, en gríðarlegar birgðir annarra banvænna vopna eru enn til og eru í áframhaldandi þróun. Þau verða kannski notuð einhvern daginn.
Dómur gegn hinu undanlátsama yfirráðasvæði kristna heimsins
8. Hvernig munu orð Jeremía 25:8, 9 uppfyllast á kristna heiminum?
8 Orð Jehóva í framhaldinu í Jeremía 25:8, 9 eiga nú sérstaklega við kristna heiminn sem hefur ekki lifað í samræmi við kristna staðla um réttlæti: „Fyrir því segir [Jehóva] allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum, þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins — segir [Jehóva] — og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung.“ Þannig mun þrengingin mikla hefjast á þeim sem játa sig þjóna Guðs, kristna heiminum, og að lokum teygja sig um alla jörðina, til ‚allra þjóða umhverfis.‘
9. Á hvaða vegu hefur andlegt ástand kristna heimsins versnað á okkar tímum?
9 Sú var tíðin að Biblían var virt í kristna heiminum, að hjónaband og fjölskyldulíf var nánast alls staðar álitið uppspretta hamingju, að fólk var árrisult og naut daglegra starfa sinna. Margir hresstu sig við lestur og nám í orði Guðs, oft við lampaljós að kvöldi. En nú á dögum hafa lestir svo sem kynferðislegt lauslæti, hjónaskilnaðir, fíkniefnanotkun og drykkjuskapur, unglingaafbrot, græðgi, slæpingur við vinnu, sjónvarpsfíkn og margt annað spillt lífinu svo að ógn vekur. Þetta er undanfari þeirrar eyðingar sem Jehóva Guð er í þann mund að fullnægja á hinu undanlátsama yfirráðasvæði kristna heimsins.
10. Lýstu ástandi kristna heimsins eftir að dómi Jehóva hefur verið fullnægt.
10 Jehóva lýsir yfir eins og við lesum í 25. kafla Jeremía, 10. og 11. versi: „Ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós. Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn.“ Það kemur sannarlega mjög á óvart þegar hin stóru musteri og íburðarmiklar hallir kristna heimsins hrynja til grunna. Hve umfangsmikil verður eyðingin? Á dögum Jeremía lágu Júda og grannríkin í eyði í 70 ár sem Sálmur 90:10 kallar heila mannsævi. Dómi Jehóva verður nú á tímum fullnægt algerlega, að eilífu.
Dómur gegn Babýlon hinni miklu
11. Hver verður notaður sem verkfæri til að eyða kristna heiminum? Hvers vegna?
11 Eins og sagt er fyrir í Opinberunarbókinni 17:12-17 kemur sá tími að Jehóva hefur hið undarlega verk sitt með því að leggja ‚hornunum tíu‘ — herbúnum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna — ‚það í brjóst að gera vilja hans,‘ að eyða heimsveldi falskra trúarbragða. En hvernig gerist það? Það er á margvíslegan hátt sem hin ‚tíu horn‘ 17. kafla Opinberunarbókarinnar gætu farið að „hata skækjuna . . . og brenna hana í eldi“ eins og 16. versið orðar það. Staðreynd er að kjarnorkuvopnum hefur fjölgað og er enn að fjölga á mörgum hættusvæðum á jörðinni. En við verðum að bíða og sjá hvernig Jehóva leggur hinum pólitísku stjórnendum í brjóst að fullnægja hefnd sinni.
12. (a) Hvað kom fyrir Babýlon eftir að hún hafði eytt Jerúsalem? (b) Hvað verður um þjóðirnar eftir eyðingu kristna heimsins?
12 Til forna kom röðin að Babýlon til að finna fyrir brennandi reiði Jehóva. Í samræmi við það tekur spádómurinn, frá og með 12. versi í 25. kafla Jeremía, að horfa á málið frá breyttum sjónarhóli síðari tíma. Nú eru Nebúkadnesar og Babýlon ekki lengur í hlutverki aftökumanns Jehóva heldur taldar með öllum hinum veraldlegu þjóðum. Staðan er svipuð núna. „Hornin tíu“ í 17. kafla Opinberunarbókarinnar munu eyða falstrúarbrögðunum en síðar verður þeim sjálfum eytt ásamt öllum öðrum ‚konungum‘ jarðarinnar, eins og lýst er í 19. kafla Opinberunarbókarinnar. Jeremía 25:13, 14 lýsir því hvernig Babýlon, ásamt ‚öllum þjóðum‘ sem hafa arðrænt þjóna Jehóva, þarf að taka út dóm. Jehóva hafði notað Nebúkadnesar sem aftökumann til að refsa Júda. En bæði hann og síðari konungar Babýlonar hrokuðust gegn Jehóva sjálfum eins og sýndi sig til dæmis með vanhelgun áhaldanna úr musteri Jehóva. (Dan. 5:22, 23) Og þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem fögnuðu grannþjóðir Júda — Móab, Ammon, Týrus, Edóm og fleiri — og hæddust að þjónum Guðs. Þær urðu líka að hljóta makleg málagjöld frá Jehóva.
Dómur gegn ‚öllum þjóðunum‘
13. Hvað er átt við með „þessum bikar reiðivínsins“ og hvað kemur fyrir þá sem drekka bikarinn?
13 Þess vegna lýsir Jeremía yfir í 25. kafla, 15. og 16. versi: „Svo sagði [Jehóva], Ísraels Guð, við mig: Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til, svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra.“ Hvers vegna er það ‚bikar reiðivíns frá Jehóva‘? Í Matteusi 26:39, 42 og Jóhannesi 18:11 talaði Jesús um ‚bikar‘ sem tákn um vilja Guðs með sig. Á sama hátt er bikar notaður sem tákn um þann vilja Jehóva með þjóðirnar að þær skuli drekka af reiði hans. Jeremía 25:17-26 telur upp þessar þjóðir sem eru fyrirboðar þjóða nútímans.
14. Hverjir skulu drekka af bikar reiðivíns Jehóva og hvað táknar það fyrir okkar tíma?
14 Eftir að kristni heimurinn er, eins og Júda, orðinn „að rúst, að skelfing, að spotti og formæling,“ bíður eyðing alls heimsveldis falskra trúarbragða. Því næst verður allur heimurinn, sem Egyptaland var tákn um, að drekka af reiðivínbikar Jehóva! Já, ‚allir konungarnir norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni,‘ verða að drekka. Loks ‚skal konungurinn í Sesak drekka á eftir þeim.‘ Og hver er „konungurinn í Sesak“? Sesak er táknrænt nafn, dulmál eða merkjamál yfir Babýlon. Alveg eins og Satan var ósýnilegur konungur yfir Babýlon er hann „höfðingi heimsins“ fram á þennan dag eins og Jesús benti á. (Jóhannes 14:30) Þannig er Jeremía 25:17-26 hliðstætt Opinberunarbókinni 18. til 20. kafla í því að varpa ljósi á atburðarásina þegar reiðibikar Jehóva er látinn ganga. Fyrst ferst allt heimsveldi falskra trúarbragða og síðan stjórnmálaveldin, og að lokum er Satan sjálfum varpað í undirdjúp. — Opinberunarbókin 18:8; 19:19-21; 20:1-3.
15. Hvað gerist þegar yfirlýsingin um ‚frið og öryggi‘ heyrist?
15 Mikið hefur verið talað um frið og öryggi síðan kalda stríðinu á að hafa lokið og aðeins eitt risaveldi stendur eftir. Eins og segir í Opinberunarbókinni 17:10 á þetta risaveldi, sjöunda höfuð villidýrsins, „að vera stutt.“ En þessi ‚stutti‘ tími er að renna út. Innan skamms þagna allar yfirlýsingar um pólitískan ‚frið og öryggi‘ með ‚snögglegri tortímingu‘ þeirra, eins og Páll postuli segir. — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.
16, 17. (a) Hvaða afleiðingu hefur það ef einhver reynir að komast undan dómi Jehóva? (b) Með hvers konar eyðingu mun vilji Jehóva brátt verða á jörðinni?
16 Allt heimskerfi Satans, kristni heimurinn þar fyrstur, verður að drekka af reiðibikar Jehóva. Áframhaldandi fyrirskipun hans, sem skráð er í Jeremía 25. kafla, 27. til 29. versi, dregur það fram: „En þú skalt segja við þá: Svo segir [Jehóva] allsherjar, Ísraels Guð: Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar. En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir [Jehóva] allsherjar: Drekka skuluð þér! Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, — og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar — segir [Jehóva] allsherjar.“
17 Þetta eru sterk orð — svo sannarlega ógnvekjandi orð því að þau eru töluð af alvöldum Drottni alls alheimsins, Jehóva Guði. Um árþúsundir hefur hann með þolinmæði tekið guðlasti, skammaryrðum og hatri sem hrúgað hefur verið á heilagt nafn hans. En tíminn er loksins kominn fyrir hann til að svara bæninni sem elskaður sonur hans, Jesús Kristur, kenndi lærisveinum sínum meðan hann var á jörðinni: „En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9, 10) Það er vilji Jehóva að Jesús taki að sér það hlutverk að vera sverð hans til að fullnægja hefnd.
18, 19. (a) Hver ríður fram til að sigra í nafni Jehóva og eftir hverju bíður hann áður en hann sigrar endanlega? (b) Hvaða óttalegu atburðir gerast á jörðinni þegar englarnir sleppa ofsafengnum reiðistormi Jehóva lausum?
18 Í 6. kafla Opinberunarbókarinnar lesum við í fyrstu um að Jesús ríði fram á hvítum hesti „sigrandi og til þess að sigra.“ (Vers 2) Það hófst þegar hann var settur í hásæti sem himneskur konungur árið 1914. Aðrir hestar og riddarar koma á hæla honum og tákna þeir það allsherjarstríð, þá hungursneyð og drepsótt sem hafa herjað á jörðinni síðan. En hvenær linnir þessari ólgu? Opinberunarbókin 7. kafli upplýsir okkur um að fjórir englar haldi aftur af „fjórum vindum jarðarinnar“ uns andlegum Ísrael og miklum múgi af öllum þjóðum hefur verið safnað til hjálpræðis. (Vers 1) Hvað svo?
19 Jeremía 25. kafli, 30. og 31. vers, heldur áfram: „Af hæðum kveða við reiðarþrumur [Jehóva]. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða. Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að [Jehóva] þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! — segir [Jehóva].“ Engin þjóð kemst undan því að drekka þannig reiðibikar Jehóva. Það er því ekki seinna vænna fyrir alla réttsinnaða menn að aðgreina sig frá illsku þjóðanna áður en englarnir fjórir sleppa ofsafengnum reiðistormi Jehóva lausum. Og sannarlega er hann ofsafenginn því að spádómur Jeremía heldur áfram í 32. og 33. versi:
20. Hvaða atburðarás undirstrikar alvöru dóms Jehóva en hvers vegna eru þessar aðgerðir nauðsynlegar?
20 „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar. Þeir sem [Jehóva] hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.“ Þetta er óhugnanleg atburðarás en hún er nauðsynleg til að hreinsa jörðina af allri illsku áður en paradísin, sem Guð hefur heitið, er innleidd.
Hirðar sem æpa og kveina
21, 22. (a) Hverjir voru „hirðar“ Ísraels, í Jeremía 25:34-36, og hvers vegna voru þeirr neyddir til að æpa? (b) Hvaða nútímahirðar verðskulda reiði Jehóva og hvers vegna í ríkum mæli?
21 Vers 34. til 36. segja meira um dóm Jehóva: „Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker. Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar. Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að [Jehóva] eyðir haglendi þeirra.“
22 Hverjir eru þessir hirðar? Þeir eru ekki trúarleiðtogarnir sem hafa þegar drukkið af reiði Jehóva. Þeir eru hirðarnir á vettvangi hermálanna, einnig lýst í Jeremía 6:3, sem safna herjum sínum saman í hópa til að ögra Jehóva. Þeir eru pólitískir leiðtogar sem hafa auðgast á kostnað þegna sinna. Margir þeirra eru útsmognir braskarar, meistarar í siðspillingu. Þeir hafa verið seinir til að milda hungursneyðirnar sem hafa stráfellt heilar þjóðir bágstaddra landa. Þeir auðga ‚leiðtoga hjarðarinnar,‘ svo sem vopnasalana og ágjarna umhverfisspilla, en koma sér jafnframt undan því að sjá fyrir læknishjálp og nærandi fæðu sem gæti með litlum tilkostnaði bjargað tugmilljónum deyjandi barna.
23. Lýstu ástandinu á yfirráðasvæði Satans eftir eyðandi aðgerðir Jehóva.
23 Það er engin furða að Jeremía 25. kafla skuli ljúka í 37. og 38. versi með því að segja um þá sem hafa í eigingirni sóst eftir friði handa sér einum: „Hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði [Jehóva]. Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.“ Sannarlega óvænt og undravert! En samt mun brennandi reiði Jehóva örugglega birtast gegnum hann sem er í Opinberunarbókinni 19:15, 16 kallaður „Konungur konunga og Drottinn drottna,“ sem stjórnar þjóðunum með járnsprota. Og hvað fylgir í kjölfarið?
24. Hvaða blessun verður eyðing falstrúarbragðanna og þess sem eftir er af heimi Satans fyrir réttlátt mannkyn?
24 Hefur þú einhvern tíma kynnst fellibyl af eigin raun? Það getur verið ógnvekjandi lífsreynsla. En morguninn eftir er loftið svo óvenjutært og kyrrðin svo hressandi að þú getur þakkað Jehóva fyrir óvenjulega yndislegan dag, þó svo að eyðileggingin blasi við hvert sem litið er. Eins kannt þú að geta, þegar stormur þrengingarinnar miklu er genginn niður, horft yfir jörðina þakklátur fyrir það að þú skulir vera lifandi og reiðubúinn að taka þátt í því verki Jehóva, sem framundan er, að breyta hreinsaðri jörð í dýrlega paradís. Deila Jehóva við þjóðirnar verður þá til lykta leidd, nafn hans helgað og brautin rudd til að vilji hans verði gerður á jörðinni undir þúsund ára stjórn Messíasarríkisins. Megi þetta ríki koma skjótt!
Upprifjun tölugreina 5-24 í þessari grein
◻ Hvaða hræsni kristna heimsins er nú komin til dóms?
◻ Hvernig er litið á dómurinn frá víðari sjónarhóli í Jeremía 25:12-38?
◻ Hvaða hefndarbikar er réttur öllum þjóðunum?
◻ Hverjir eru hirðarnir sem æpa og kveina og hvers vegna er þeim brugðið?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Jehóva hefur valið verkfærið til að eyða kristna heiminum með.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Eftir að stormur þrengingarinnar miklu er genginn niður blasir hreinsuð jörð við.