3. kafli
Friðarhöfðinginn ríkir mitt á meðal óvina
1, 2. (a) Hvað sagði Jesús Kristur að skilnaði við nokkra lærisveina sína? (b) Þýddi það að heimurinn ætti að snúast til trúar áður en hann byrjaði að ríkja sem Friðarhöfðingi?
SKÖMMU áður en Friðarhöfðingi framtíðarinnar, Jesús Kristur, steig upp til himna fyrir ríflega 19 öldum sagði hann að skilnaði við trúfasta lærisveina sína: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda. . . . Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.
2 Kröfðust þessi orð Jesú að allur heimurinn snerist til trúar áður en ‚endir veraldar‘ hæfist árið 1914? Nei, núna, undir lok 20. aldarinnar, er enn langt í land með að mannheimurinn snúist til fylgis við Jesú Krist sem frelsara og konung. Það hefur þó ekki seinkað því sem Jehóva sagði fyrir í spádómum Biblíunnar. Það var aldrei tilgangur Guðs að allur mannheimurinn snerist til trúar áður en Jesús Kristur tæki að ríkja sem Friðarhöfðingi. Þvert á móti var sagt fyrir að hann myndi byrja að ríkja mitt á meðal óvina sinna.
3. Hvernig kemur fram í Sálmi 110, sem Jesús vísaði í, að hann myndi ríkja mitt á meðal óvina sinna?
3 Jesú var þessi staðreynd fullljós þegar hann var hér á jörðu. Skömmu fyrir píslarvættisdauða sinn átti hann í orðadeilu við trúarlega andstæðinga sína og vísaði þá í Sálm 110. Við lesum um það í Lúkasi 20:41-44: „Hann sagði við þá: ‚Hvernig geta menn sagt að Kristur sé sonur Davíðs? Davíð segir sjálfur í Sálmunum: [Jehóva] sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?‘“
4-6. (a) Hvernig kemur einnig fram í Sálmi 2 að Jesús þyrfti ekki að bíða þess að heimurinn snerist til trúar áður en hann hæfi að ríkja sem Friðarhöfðingi? (b) Hvenær rættist Sálmur 2:7?
4 Augljóslega átti ekki að snúa öllum heiminum til trúar áður en Jesús Kristur, sonur Davíðs, tæki að ríkja. Hann átti að byrja að ríkja meðal óvina sem Jehóva Guð myndi berjast gegn og gera að fótskör sonar síns. Sálmur 2 sýnir einnig að Friðarhöfðinginn átti að taka völd mitt á meðal óvina sinna. Sálmurinn hljóðar svo:
5 „Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð? Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða [Kristi]: ‚Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.‘ Hann sem situr á himni hlær. [Jehóva] gjörir gys að þeim. Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni: ‚Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.‘
6 Ég vil kunngjöra ályktun [Jehóva]: Hann mælti við mig [Krist]: ‚Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.‘ [Sálmur 2:7 rættist þegar Jehóva reisti son sinn upp frá dauðum og varð þar með eilífðarfaðir Jesú. (Rómverjabréfið 1:4)] Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali. Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.‘ Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu. Þjónið [Jehóva] með ótta og fagnið með lotningu. Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu, því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.“
7. Hvernig vitnuðu postular Jesú Krists í Sálm 2 eftir hvítasunnudaginn?
7 Samkvæmt Postulasögunni 4:24-27 vitnuðu postular Jesú Krists í þennan annan sálm eftir hvítasunnudaginn árið 33: „Hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: ‚Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er, þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð? Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn [Jehóva] og gegn hans Smurða. Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels.‘“
Meginuppfylling Sálms 2
8. (a) Hvenær hlaut Sálmur 2:1, 2 sína fyrri uppfyllingu? (b) Hvenær hófst meginuppfylling 2. sálmsins?
8 Fyrri uppfylling spádómsorðanna í Sálmi 2:1, 2 átti sér stað árið 33 í tengslum við manninn Jesú Krist. Hann hafði verið smurður heilögum anda Jehóva þegar hann tók skírn hjá Jóhannesi skírara. Aðaluppfylling Sálms 2 hefur hins vegar átt sér stað frá lokum heiðingjatímanna árið 1914. (Lúkas 21:24) Sannast hefur vel og rækilega að tímar heiðingjanna, sem hófust með fyrri eyðingu Jerúsalemborgar árið 607 f.o.t., enduðu árið 1914.a Þá var hringt til útfarar yfir þjóðum þessa heims, þeirra á meðal þjóðum kristna heimsins.
9. Hvað varð um konungsríki Guðs, eins og það birtist í gegnum konungsætt Davíðs, samfara fyrri eyðingu Jerúsalem?
9 Þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.o.t. leið undir lok konungsríki Jehóva Guðs yfir Ísraelsþjóðinni sem konungar af ætt Davíðs voru fulltrúar fyrir. Alla tíð síðan hafa Gyðingar að holdinu engan konung haft yfir sér af konungsætt Davíðs. En konungsríki hins hæsta Guðs í höndum afkomanda Davíðs, sem Jehóva gerði við sáttmála um eilíft ríki, átti ekki að liggja í rústum að eilífu.
10, 11. (a) Hvað sagði Guð fyrir munn spámannsins Esekíels um hásæti Davíðs? (b) Hver átti „réttinn til ríkis“ Davíðs? (c) Hvað sögðu Gyðingarnir þegar hann bauð sig fram sem réttmætan erfingja?
10 Skömmu fyrir fyrri eyðingu Jerúsalem lét Jehóva spámann sinn Esekíel mæla þessi orð til síðasta konungsins þar: „En þú, dauðadæmdi guðleysingi, höfðingi Ísraels, hvers dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp, svo segir [Jehóva] Guð: Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! Þetta skal ekki lengur vera svo. Upp með hið lága, niður með hið háa! Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur sem á réttinn til ríkis. Honum mun ég selja ríkið í hendur.“ — Esekíel 21:25-27, neðanmáls.
11 Jesús Kristur var sá sem átti „réttinn til ríkis,“ og ætt hans er í Matteusi 1:1-16 og Lúkasi 3:23-31 rakin til Davíðs. Hann var almennt ávarpaður sem ‚sonur Davíðs.‘ Daginn sem hann reið sigurglaður inn í Jerúsalem sitjandi á asna, eins og sagt var fyrir í spádóminum, fylgdi honum og postulunum fjöldi Gyðinga sem hrópaði fagnandi: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva]! Hósanna í hæstum hæðum!“ — Matteus 21:9.
‚Sonur Davíðs‘ settur í hásæti á himnum
12. Hvar var Jesús Kristur settur í hásæti sem varanlegur erfingi Davíðs við lok heiðingjatímanna árið 1914?
12 Þeim 2520 árum, sem heiðingjunum var leyft að fótumtroða ríki Guðs í höndum konungsættar Davíðs, lauk árið 1914. Þá rann upp sá tími að Jesús Kristur, ‚sonur Davíðs‘ skyldi settur í hásæti, þó ekki hér á jörðu, heldur á hæstu himnum við hægri hönd Jehóva Guðs! — Daníel 7:9, 10, 13, 14.
13. (a) Hvenær var byrjað að benda á að heiðingjatímarnir myndu enda árið 1914, og hverjir gerðu það? (b) Hver var afstaða þjóða jarðar gagnvart hinum nýkrýnda „syni Davíðs“?
13 Þeir sem tengdust Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninn höfðu, allt frá árinu 1876, bent á þetta tímamótaár. En þjóðir jarðar, jafnvel kristna heimsins, neituðu að viðurkenna að núna væri kominn tíminn fyrir þær til að afsala sér jarðneskum völdum í hendur hinum nýkrýnda ‚syni Davíðs.‘ Þær viðurkenndu ekki að Guð hefði veitt honum réttinn til að ríkja yfir allri jörðinni sem er fótskör Jehóva Guðs. (Matteus 5:35) Þær vöktu athygli á hve gróflega þær höfnuðu réttmætum konungi jarðar, með því að steypa sér út í fyrri heimsstyrjöldina.
14. (a) Hvaða afstöðu létu þjóðirnar í ljós gagnvart kristnum mönnum tengdum Varðturnsfélaginu, þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út? (b) Hvað táknar því það ástand sem nú ríkir í heiminum?
14 Í öllum hinum stríðandi þjóðum voru vígðir kristnir menn, tengdir Varðturnsfélaginu, beittir gífurlegum þrýstingi til að freista þess að fá þá til að hverfa frá þeim ásetningi sínum að forðast blóðskuld. Þeir skildu ekki alveg til fullnustu hvað í því fælist að varðveita kristið hlutleysi. Þeir fundu óþyrmilega fyrir því hvernig spádómur ‚sonar Davíðs,‘ Jesú Krists, um lærisveina hans við ‚endalok veraldar‘ rættist: „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Þetta hatur hefur ekki rénað frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hverju bera þessir atburðir okkar aldar og ástand heimsmálanna glöggt vitni? Því að Friðarhöfðinginn ríkir núna mitt á meðal óvina sem hann á hér á jörðinni!
15. Hvernig fór fyrir Satan djöflinum og djöflasveitum hans þegar stríð braust út á himni, og hvenær hlýtur því að hafa lokið?
15 Alvaldur Guð kom á fót messíasarríki sínu á hinum fyrirfram ákveðna tíma, þrátt fyrir alla óvini þess bæði á himni og jörð. Opinberunarbókin 12:1-9 greinir frá því að eftir að himneskt skipulag Jehóva, líkt eiginkonu, fæddi þetta ríki braust út styrjöld á himni. Hinir heilögu himnar voru ekki lengur staður fyrir drekann táknræna, Satan djöfulinn, og djöflaengla hans. Mannlegt auga fékk ekki litið þetta stríð þar sem hinn nýkrýndi konungur, sonur Davíðs, barðist við Satan og illa anda hans, yfirbugaði þá, úthýsti þeim af himnum og varpaði niður í nágrenni jarðarinnar. Þessari niðurlægingu hinna djöfullegu afla var greinilega lokið að fullu árið 1918 þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk.
Niðurlægður heyr djöfullinn stríð
16, 17. (a) Gegn hverjum heyr hinn niðurlægði Satan djöfull stríð? (b) Hverja notar hann í þeim stríðsrekstri?
16 Hinn niðurlægði Satan djöfull, drekinn táknræni, er nú sérstaklega reiður skipulagi Jehóva sem líkt er eiginkonu. (Opinberunarbókin 12:17) Hann heyr því harðskeytt stríð gegn andagetnum leifum vígðra kristinna manna sem bera þess merki að skipulag Guðs sé andleg móðir þeirra. — Galatabréfið 4:26.
17 Satan heyr líka stríð við hina ‚aðra sauði‘ sem vinna trúir með leifunum að því að bera vitni um fæðingu Guðsríkis. (Jóhannes 10:16) Bæði notar hann niðurlægðar djöflasveitir sínar, sem núna eru í grennd við jörðina, og sýnilegan hluta skipulags síns til að heyja þetta stríð gegn leifunum og hinum ‚öðrum sauðum.‘
18. (a) Hver er vörn smurðra kristinna manna og félaga þeirra í stríði djöfulsins gegn þeim? (b) Hvaða kafli í stjórn Friðarhöfðingjans er brátt á enda?
18 Stjórn Friðarhöfðingjans mitt á meðal jarðneskra óvina sinna er brátt á enda. Hann hefur haldið frábærlega á málum. Dag og nótt standa drottinhollir englar hans reiðubúnir til að taka við konunglegum skipunum hans og framkvæma þær snarlega. Þeir eru verndarsveit hinna smurðu leifa og félaga þeirra, hins ‚mikla múgs‘ ‚annarra sauða,‘ sem þjóna hagsmunum Guðsríkis á þeim knappa tíma sem eftir er af stjórn Friðarhöfðingjans mitt á meðal óvina sinna. — Opinberunarbókin 7:9.
[Neðanmáls]
a Nánari skýringar er að finna í bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, bls. 138-41, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.