Hvað mun dagur Drottins þýða fyrir þig?
„Drottna þú mitt á meðal óvina þinna.“ — SÁLMUR 110:2.
1-3. (a) Hvers vegna hafa átök fylgt upphafi Drottins dags og hverju hefur Jesús áorkað? (b) Hvernig mun Jesús fullna sigur sinn?
ÁRIÐ 1914 var Jesús settur í hásæti sem konungur Guðsríkis og dagur Drottins rann upp. Samstundis mætti hinum nýja konungi hörð mótstaða frá Satan djöflinum og handbendum hans á jörðinni. (Sálmur 2:1-6) Fyrstu árin af degi Drottins hafa því verið baráttuár er Jesús hefur gengið fram til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna.‘ — Sálmur 110:2.
2 Sigrar hins nýja konungs hafa verið tilkomumiklir. Eftir 1914 reyndi Satan að „gleypa“ hið nýfædda Guðsríki en var í staðinn sjálfum úthýst háðulega af himnum. (Opinberunarbókin 12:1-12) Síðan ‚háði hann stríð‘ gegn þeim sem eftir voru af hinum smurðu, en tókst ekki að koma í veg fyrir að þeir „risu á fætur“ árið 1919 eða tækju við ‚litlu bókinni‘ úr hendi Jesú Krists. (Opinberunarbókin 10:8-11; 11:11, 12; 12:17) Hann reyndist jafnvanmegnugur þess að koma í veg fyrir að hinum síðustu af þeim 144.000 yrði safnað saman eða múgurinn mikli (af öllum þjóðum), sem „þjóna [Jehóva] dag og nótt í musteri hans,“ yrði safnað. — Opinberunarbókin 7:1-3, 9-15.
3 Ljóst er að frá 1914 hefur Jesús ‚farið út sigrandi.‘ Eigi að síður er margt ógert. Jesús á enn eftir að fullna sigur sinn. Hann á enn eftir að ganga fram til að uppræta sérhverjar menjar um heimskerfi Satans. (Opinberunarbókin 6:1, 2; 19:11-21) Hvað mun sú mikla aðgerð þýða fyrir okkur sem einstaklinga?
Babýlon hin mikla svipt klæðum á almannafæri
4. Hvernig er falstrúarbrögðum lýst í Opinberunarbókinni?
4 Eyðing heims Satans byrjar með falstrúarbrögðunum. Opinberunarbókin lýsir heimsveldi falskra trúarbragða — að kristna heiminum meðtöldum — sem vændiskonu, Babýlon hinni miklu, sem er í sambandi við konunga jarðarinnar og gerir mannkynið drukkið með saurlifnaði sínum. Sjálf er hún einnig drukkin — af blóði, svo viðbjóðslegt sem það er — blóði þjóna Guðs. (Opinberunarbókin 17:1-6) Opinberunarbókin lýsir einnig endalokum þessarar fyrirlitlegu, gömlu skækju, og við fáum betur skilið þýðingu þess ef við höfum í huga hvernig fór fyrir annarri trúarskækju sem uppi var á sjöundu öld fyrir okkar tímatal.
5, 6. Hvers vegna var hin ótrúa Jerúsalem kölluð skækja og hvaða dóm kvað Jehóva þar af leiðandi yfir borginni?
5 Þessi skækja var borgin Jerúsalem. Hún átti að vera sá staður á jörðinni þar sem Jehóva var tilbeðinn, en Guð sagði við hana: „Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin.“ (Esekíel 22:4) Borgin átti líka að vera andlega hrein en hún hafði lifað skækjulífi með því að leggja lag sitt við þjóðirnar. „Ég er fullur reiði gegn þér,“ sagði Jehóva við hana, „fyrir að fremja allt þetta, verk valdasjúkrar vændiskonu.“ — Esekíel 16:30, NW; 23:1-21; Jakobsbréfið 4:4.
6 Heyrum þá dóminn sem Jehóva hefur kveðið upp yfir skækjunni: „Fyrir því skal ég saman safna öllum friðlum þínum [þjóðunum], þeim er þú varst geðþekk, og það öllum þeim, er þú elskaðir . . . og þeir munu . . . færa þig af klæðum þínum og taka af þér skartgripi þína og skilja þig eftir nakta og bera. Og þeir munu brenna hús þín í eldi.“ (Esekíel 16:37, 39, 41; 23:25-30) Sagan vitnar um hvernig fór. Babýloníumenn komu árið 607 f.o.t. og skildu Jerúsalem eftir nakta og bera. Íbúar hennar og auðæfi voru flutt burt til Babýlonar. Borgin var lögð í rúst, musterið brennt og landið skilið eftir í eyði. — 2. Kroníkubók 36:17-21.
7. Hver verða endalok Babýlonar hinnar miklu?
7 Eitthvað þessu líkt mun fara fyrir Babýlon hinni miklu. Opinberunarbókin aðvarar: „Konungar jarðarinnar [valdhafar nútímans sem Babýlon hin mikla hefur drýgt andlegan saurlifnað með] munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:2, 16) Með því að hafa í huga hvernig fór fyrir Forn-Babýlon vitum við hvað þetta þýðir. Þær þjóðstjórnir, sem áður ‚elskuðu‘ falstrúarbrögðin, munu eyða þeim. Auðæfi þeirra verða hrifsuð burt og þau verða brennd, gerð að engu. Það eru viðeigandi endalok fyrirlitlegrar stofnunar!
Himinninn myrkvast
8. Hvers konar tími verður þrengingin mikla fyrir mannkynið?
8 Með eyðingu Babýlonar hinnar miklu hefst ‚þrengingin mikla‘ sem Jesús spáði. (Matteus 24:21; Opinberunarbókin 7:14) Opinberunarbókin segir um þann tíma: „Mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð. Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina.“ (Opinberunarbókin 6:12, 13) Þetta er hinn ‚mikli jarðskjálfti‘ „á Ísraelslandi“ sem Esekíel spáði um. (Esekíel 38:18, 19; Jóel 3:14-16) Þetta er endanleg eyðing þessa óguðlega heimskerfis. Mun eitthvað koma fyrir hina bókstaflegu sól, tungl og stjörnur á þeim tíma?
9, 10. Hverju spáði Esekíel um Egyptaland og hvernig rættist það?
9 Esekíel varaði við væntanlegu falli hins mikla nágranna Ísraels í suðri, Egyptalands. Hann sagði: „Þegar þú [Faraó] slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína. Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, — segir [Jehóva] Guð.“ — Esekíel 32:7, 8.
10 Þegar Faraó og her hans féll myrkvaðist himinninn ekki bókstaflega. Hins vegar varð framtíð Egyptalands mjög dökk. Eins og biblíufræðingurinn C. F. Keil bendir á: „Myrkrið sem fylgdi [falli Faraós] táknar algerlega vonlaust ástand.“ Egyptaland var endanlega búið að vera sem sjálfstætt heimsveldi og var eftir það undir yfirráðum hvers heimsveldisins á fætur öðru. Nú er stærstur hluti hins forna heimsveldis, sem Faraóarnir réðu, undir yfirráðum Arabaríkis.
11. (a) Hvað táknar það sem kom fyrir Egyptaland? (b) Hvers vegna er framtíðin niðdimm fyrir heim Satans í þrengingunni miklu?
11 En Keil sá aðra og dýpri merkingu í spádómi Esekíels. Hann segir: „Fall þessa heimsveldis [Egyptalands] er fyrirboði og undanfari þess að öllum óguðlegum heimsveldum verði kollvarpað á degi hinsta dóms.“ Það er efnislega rétt. Eins og Opinberunarbókin bendir á verða framtíðarhorfur óguðlegs mannkyns í þrengingunni miklu jafndökkar og framtíð Egypta. Það verður eins og sólin hætti að lýsa að degi og að nóttu sjáist hvorki tunglskin né vinalegt stjörnublik. Þeir sem neita að heiðra konung Jehóva munu farast og ekki einu sinni hljóta heiðvirða greftrun er riddarinn á hvíta hestinum fullnar sigur sinn. (Opinberunarbókin 19:11, 17-21; Esekíel 39:4, 17-19) Engin furða er að óguðlegir menn skuli segja við „fjöllin og hamrana: ‚Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?‘“ — Opinberunarbókin 6:16, 17; Matteus 24:30.
Stríðið heldur áfram
12. Hvernig hefur Satan látið í ljós hatur sitt á Jesú Kristi á Drottins degi?
12 En hvað um kristna menn? Þeir hafa fundið óþyrmilega fyrir linnulausu stríði Satans og riddarans á hvíta hestinum. Með því að Satan hefur ekki getað barist gegn Jesú persónulega hefur hann gefið allri reiði sinni lausan tauminn gegn þeim sem eftir eru af hinum smurðu — og á síðustu árum gegn múginum mikla sem safnast hefur til þeirra. Eins og Jesús varaði við hafa ‚allar þjóðir hatað þá vegna nafns hans.‘ (Matteus 24:9) Satan hefur beitt öllum tiltækum ráðum, meðal annars skrílslátum, fangavist, pyndingum og morðum, í baráttu sinni gegn þeim. — 2. Tímóteusarbréf 3:12.
13. Hvernig hefur Satan beitt slægð í hernaði sínum gegn þjónum Guðs?
13 Satan hefur einnig beitt ýmsum kænskubrögðum. (Efesusbréfið 6:11) Með ‚táli auðæfanna‘ hefur hann freistað sumra til að hægja ferðina eða hætta með öllu helgri þjónustu sinni. (Matteus 13:22; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Aðra hefur hann lokkað út í óhreinleika og siðleysi. (1. Korintubréf 5:1, 2) „Áhyggjur þessa lífs“ hvíla þungt á mörgum og Satan notfærir sér það til að reyna að ‚íþyngja‘ þeim. (Lúkas 21:34) Í öðrum tilvikum hefur hann notfært sér persónuárekstra eða uppreisnartilhneigingar til að draga athyglina frá ‚því sem máli skiptir.‘ — Filippíbréfið 1:10; 1. Korintubréf 1:11, 12; Jakobsbréfið 4:1-3.
14, 15. Hvernig getum við sigrað í baráttunni gegn Satan?
14 Kristnir menn hafa því þurft að þroska með sér þolgæði á Drottins degi. Sumum hefur ekki tekist það og hvert slíkt tilfelli er smásigur fyrir Satan. (1. Pétursbréf 5:8) Flestir hafa þó haft loforð Jesú að leiðarljósi: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Með hjálp Jehóva hafa þeir sigrað og þar með glatt hjarta hans. — Orðskviðirnir 27:11; 1. Jóhannesarbréf 2:13, 14.
15 Ekkert okkar vill gera Satan það til geðs að hætta þjónustu okkar! Við skulum því fylgja heilræðum Páls og herbúast sannleika, réttlæti og trú — prédika fagnaðarerindið af kostgæfni og nema til að viðhalda sterkri trú. Við skulum líka biðja án afláts og halda vöku okkar. Með þeim hætti munum við varðveita okkur „óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.“ (1. Korintubréf 1:8; Efesusbréfið 6:10-18; 1. Þessaloníkubréf 5:17; 1. Pétursbréf 4:7) Þá mun Drottins dagur færa okkur ríkulega blessun.
Stórfengleg þjónustusérréttindi
16. Hvers vegna var Jóhannesi sagt að skrifa ekki það sem þrumurnar sjö sögðu, og hvað þýddi það fyrir smurða kristna menn árið 1919?
16 Í Opinberunarbókinni 10:3, 4 segir Jóhannes að hann hafi heyrt ‚sjö þrumur‘ tala. Hann vildi gjarnan skrifa niður það sem hann hafði heyrt en segir: „Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: ‚Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki.‘“ Auðsjáanlega var enn ekki tímabært að þessar upplýsingar væru gerðar heyrinkunnar. Í stað þess er Jóhannesi sagt að taka litlu bókina og eta. „Þrumurnar sjö“ virðast tákna fulla tjáningu tilgangs Jehóva. (Sálmur 29:3; Jóhannes 12:28, 29; Opinberunarbókin 4:5) Þegar smurðir kristnir menn átu litlu bókrolluna í táknrænum skilningi árið 1919 var enn ekki tímabært að þeir fengu fullan skilning á tilgangi Jehóva. (Samanber Daníel 12:8, 9.) Þrátt fyrir það sóttu þeir óttalaust fram með þann skilning að bakhjarli, sem þeir höfðu, og sýndu sig verðuga þess að hljóta frekari upplýsingu.
17. Nefndu dæmi um nýjan skilning sem Jehóva hefur veitt þjónum sínum frá 1919.
17 Eftir því sem árin liðu fengu þeir smám saman ítarlegri skilning á vilja Jehóva. Til dæmis gerðu þeir sér ljóst að verið var að skilja sauðina í dæmisögu Jesú frá höfrunum fyrir Harmagedón. (Matteus 25:31-46) Þeir gerðu sér ljóst að fæðing Guðsríkis árið 1914 var uppfylling 12. kafla Opinberunarbókarinnar. Þeir öðluðust dýpri skilning á mikilvægi þess að nota nafn Jehóva og skildu hver hinn mikli múgur í 7. kafla Opinberunarbókarinnar var. Þessar vaxandi opinberanir veittu þjónum Guðs mikið trúnaðartraust. — Orðskviðirnir 4:18; 2. Pétursbréf 1:19.
18. Hvaða einstæð þjónustusérréttindi hafa þjónar Guðs hlotið á Drottins degi og hvernig ætti það að snerta hjörtu okkar?
18 Samtímis treysti Jehóva þjónum sínum á jörð fyrir einstæðum þjónustusérréttindum. Í tilkomumikilli sýn sá Jóhannes engla boða mannkyni eilífan fagnaðarboðskap, kunngera fall Babýlonar hinnar miklu og vara menn við því að fá merki dýrsins. (Opinberunarbókin 14:6-10) Enda þótt englar hafi vafalaust haft yfirumsjón með þessum guðlegu þjónustusérréttindum voru það menn, vottar Jehóva á jörðinni, sem bókstaflega fluttu mannkyni boðskapinn. Jóhannes sá líka Jesú ‚skera upp á jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 14:14-16) Jesús hefur safnað uppskerunni með því að láta þegna sína á jörðinni prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Hvílík sérréttindi að mega taka þátt með englunum og Jesú Kristi sjálfum í svona mikilvægri þjónustu! Þegar við gerum það finnum við hve samstilltir við erum hinu mikla, ósýnilega, himneska skipulagi Jehóva með sínum trúföstu andaverum.
Vernd Guðs
19. (a) Hvernig mun fjandskapur Satans gegn þjónum Guðs ná hámarki? (b) Hverjir munu sigra í lokabardaganum?
19 Eftir því sem endalok þessa heims nálgast eykur Satan þrýsting sinn á kristna menn. Í 38. og 39. kafla Esekíelsbókar er því lýst hvernig fjandskapur hans nær hámarki, en þar er hann á spádómsmáli kallaður Góg frá Magóg. Samkvæmt þessum innblásna spádómi mun Satan gera allsherjarárás á þjóna Guðs í því skyni að eyða þeim í eitt skipti fyrir öll. Mun honum takast það? Opinberunarbókin svarar: „Hornin tíu [„konungar“ okkar daga eða valdhafar] . . . munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, — því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.“ (Opinberunarbókin 17:12, 14) Trúfastir kristnir menn munu örugglega bera sigur úr býtum ef þeir varðveita trúfesti sína við hinn mikla, sigursæla konung sinn. Hersveitir Gógs verða þurrkaðar út. — Esekíel 39:3, 4, 17-19; Opinberunarbókin 19:17-21.
20. Hvaða blessun mun Drottins dagur hafa í för með sér fyrir trúfasta kristna menn í þrengingunni miklu?
20 Drottins dagur hefur þannig í för með sér frelsi fyrir þjóna Guðs. Þeir af hinum smurðu, sem enn verða á jörðinni við lok þrengingarinnar miklu, munu hafa tryggingu fyrir því að þeir muni hljóta líf á himnum og vera staðráðnir í að ljúka trúfastir jarðlífi sínu. (Opinberunarbókin 7:1-3; 2. Tímóteusarbréf 4:6-8) Múgurinn mikli mun einnig lifa af og Jesús mun ‚leiða hann til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.‘ (Opinberunarbókin 7:14, 17) Það eru mikil laun fyrir þolgæði og trúfesti!
21. Hvað mun gerast á jörðinni á Drottins degi eftir þrenginguna miklu?
21 Dagur Drottins hefur nú náð stórkostlegum áfanga: Þúsundáraríki Jesú Krists er hafið. (Opinberunarbókin 20:6, 11-15) Móða lífsvatnsins, sem talað er um í spádómum bæði Opinberunarbókarinnar og Esekíelsbókar, mun streyma frá hásæti Jehóva til mannkynsins, og þeim sem drekka af henni verður smám saman lyft upp til mannlegs fullkomleika. (Esekíel 47:1-12; Opinberunarbókin 22:1, 2) Helja verður tæmd og milljarðar látinna manna munu fá tækifæri til að drekka lífsvatnið. — Jóhannes 5:28, 29.
22. Hvaða atburðir bíða mannkyns við lok þúsundáraríkis Krists?
22 Við lok þúsund áranna hefur mannkyninu verið lyft upp til fullkomleika. Þá mun Satan í síðasta sinn ganga fram á hið jarðneska sjónarsvið. Enn á ný mun hann reyna að blekka mannkynið og jafnvel þá munu sumir fylgja honum. Þeir eru nefndir „Góg og Magóg“ því að þeir munu sýna sama illa hugarfarið og ‚Gógsmúgur‘ í spádómi Esekíels. En uppreisnarandi þeirra verður þurrkaður út í eitt skipti fyrir öll þegar þeim verður, ásamt Satan og illum öndum hans, kastað í hið táknræna eldsdíki. (Opinberunarbókin 20:7-10; Esekíel 39:11) Þeirra sem sýna trúfesti í þessari lokaprófun bíður dýrleg framtíð, og hið fullkomnaða mannkyn mun þá verða eitt með réttlátu alheimsskipulagi Jehóva. Jehóva Guð mun þá sjálfur vera „allt í öllu.“ — 1. Korintubréf 15:24, 28; Opinberunarbókin 20:5.
23. Hvaða orð Páls eru mjög tímabær í ljósi þess hvaða tíma við lifum?
23 Ef við höldum út bíður okkar blessun sem við getum tæpast gert okkur í hugarlund. Mundu að Drottins dagur hefur nú staðið um tíma. Stórfenglegir atburðir hafa nú þegar byrjað að gerast í kringum okkur. Orð Páls eru því tímabær: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ (Galatabréfið 6:9) Við skulum ekki ‚þreytast að gera það sem gott er‘ nú á Drottins degi. Ef við höldum út mun þessi dagur færa einu og sérhverju okkar eilífa blessun.
Veistu svarið?
◻ Hverju verður fyrst eytt af heimi Satans?
◻ Hvernig mun Jesús fullna sigur sinn á óvinum sínum?
◻ Hvernig hefur Satan barist gegn vottum Jehóva á Drottins degi?
◻ Hvaða einstæðar blessunar hafa þjónar Guðs notið frá 1919?
◻ Hvað ert þú staðráðinn í að gera í ljósi þess hvar við stöndum í tímanna rás?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Örlög Forn-Jerúsalem sýna hvernig fara mun fyrir Babýlon hinni miklu innan skamms.