NÁMSGREIN 45
Jehóva hjálpar okkur að sinna boðuninni
,Þeir skulu átta sig á að spámaður var á meðal þeirra.‘ – ESEK. 2:5.
SÖNGUR 67 Boða trú
YFIRLITa
1. Hverju getum við búist við og hvað getum við verið viss um?
VIÐ getum búist við andstöðu þegar við boðum fólki trúna. Og hún mun sennilega aukast í framtíðinni. (Dan. 11:44; 2. Tím. 3:12; Opinb. 16:21) En við getum verið viss um að Jehóva veitir okkur þá hjálp sem við þurfum. Hvernig getum við verið viss um það? Jehóva hefur alltaf hjálpað þjónum sínum að sinna verkefnum sínum, sama hversu erfið þau reynast. Tökum sem dæmi atburði í lífi spámannsins Esekíels, en hann flutti Gyðingum í útlegð í Babýlon boðskap.
2. Hvernig lýsti Jehóva fólkinu sem Esekíel flutti boðskap og hvað skoðum við í þessari grein? (Esekíel 2:3–6)
2 Hvers konar fólk var á því svæði sem Esekíel flutti boðskap sinn? Jehóva sagði að Ísraelsmenn væru ,þrjóskir‘, ,forhertir‘ og ,uppreisnargjarnir‘. Þeir voru skaðlegir eins og þyrnar og hættulegir eins og sporðdrekar. Engin furða að Jehóva skuli hafa sagt aftur og aftur við Esekíel: ,Þú skalt ekki hræðast.‘ (Lestu Esekíel 2:3–6.) Esekíel gat flutt boðskapinn sem hann var sendur með vegna þess að hann (1) var sendur af Jehóva, (2) fékk kraft frá anda Guðs og (3) nærðist á orði Guðs. Hvernig hjálpaði þetta Esekíel? Og hvernig nýtist þetta okkur?
ESEKÍEL VAR SENDUR AF JEHÓVA
3. Hvað hlýtur að hafa styrkt Esekíel og hvernig fullvissaði Jehóva hann um stuðning sinn?
3 Jehóva sagði við Esekíel: „Ég sendi þig.“ (Esek. 2:3, 4) Það hlýtur að hafa styrkt Esekíel. Hann vissi sjálfsagt að Jehóva hafði sagt eitthvað svipað þegar hann valdi Móse og Jesaja sem spámenn sína. (2. Mós. 3:10; Jes. 6:8) Hann vissi líka hvernig Jehóva hafði hjálpað þeim að takast á við erfið verkefni. Þegar Jehóva sagði tvisvar við Esekíel „ég sendi þig“, hafði spámaðurinn því góða ástæðu til að treysta á stuðning hans. Og Esekíel skrifaði oft í bók sinni: ,Orð Jehóva kom til mín.‘ (Esek. 3:16) Hann sagði líka oft: „Orð Jehóva kom aftur til mín.“ (Esek. 6:1) Esekíel var án efa fullviss um að hann var sendur af Jehóva. Þar að auki var faðir Esekíels prestur og sagði honum líklega að Jehóva hefði alltaf fullvissað spámenn sína um stuðning sinn. Hann hafði sagt við Ísak, Jakob og Jeremía: „Ég er með þér.“ – 1. Mós. 26:24; 28:15; Jer. 1:8.
4. Hvað hlýtur að hafa gefið Esekíel styrk?
4 Hvernig myndu Ísraelsmenn almennt bregðast við boðskap Esekíels? Jehóva sagði: „Ísraelsmenn munu ekki hlusta á þig því að þeir vilja ekki hlusta á mig.“ (Esek. 3:7) Fólk var í raun að hafna Jehóva þegar það hafnaði Esekíel. Orð Jehóva fullvissuðu Esekíel um að hann hefði ekki brugðist sem spámaður þótt fólkið hafnaði boðskapnum. Hann fullvissaði líka Esekíel um að þegar dómarnir sem hann hafði boðað rættust myndu Ísraelsmenn „átta sig á að spámaður var á meðal þeirra“. (Esek. 2:5; 33:33) Þessi hughreysting hefur örugglega gefið Esekíel þann styrk sem hann þurfti til að sinna boðun sinni.
VIÐ ERUM SEND AF JEHÓVA
5. Hvað gefur okkur styrk samkvæmt Jesaja 44:8?
5 Við sækjum líka styrk í að vita að það er Jehóva sem sendir okkur. Hann sýnir okkur mikla virðingu með því að kalla okkur votta sína. (Jes. 43:10) Það er ekki lítill heiður! Rétt eins og Jehóva sagði við Esekíel: ,Þú skalt ekki hræðast,‘ segir hann við okkur: „Skelfist ekki.“ Hvers vegna er ástæðulaust að óttast andstæðinga okkar? Vegna þess að það er Jehóva sem sendir okkur og lofar að styðja okkur rétt eins og hann gerði við Esekíel. – Lestu Jesaja 44:8.
6. (a) Hvernig fullvissar Jehóva okkur um stuðning sinn? (b) Hvar fáum við hughreystingu?
6 Jehóva lofar að hann muni styðja okkur. Rétt áður en hann sagði: „Þið eruð vottar mínir,“ sagði hann til dæmis: „Þegar þú gengur gegnum vötnin verð ég með þér og yfir árnar, þá flæða þær ekki yfir þig. Þegar þú gengur gegnum eldinn muntu ekki brenna þig og þú sviðnar ekki í loganum.“ (Jes. 43:2) Í boðuninni flæða stundum yfir okkur vandamál og við stöndum frammi fyrir eldraunum. En jafnvel þá höldum við áfram að boða trúna með hjálp Jehóva. (Jes. 41:13) Flestir hafna boðskapnum nú á dögum rétt eins og á dögum Esekíels. Við megum ekki gleyma að þótt þeir hafni boðskapnum þýðir það ekki að okkur hafi mistekist sem vottar Guðs. Það er hughreystandi að vita að það gleður Jehóva þegar við höldum trúföst áfram að flytja boðskapinn. Páll postuli sagði: „Hver og einn fær laun eftir því sem hann leggur af mörkum.“ (1. Kor. 3:8; 4:1, 2) Systir sem hefur verið brautryðjandi í mörg ár segir: „Það gleður mig að vita að Jehóva launar okkur erfiðið.“
ESEKÍEL FÉKK KRAFT FRÁ ANDA GUÐS
7. Hvernig hlýtur Esekíel að hafa liðið þegar hann hugsaði um sýnina sem hann sá? (Sjá forsíðumynd.)
7 Esekíel sá hversu máttugur andi Guðs er. Hann sá í sýn hvernig heilagur andi hjálpaði máttugum andaverum og knúði risavaxin hjól á himneskum vagni. (Esek. 1:20, 21) Hvernig brást Esekíel við? Hann lýsir því þannig: „Þegar ég sá þetta féll ég á grúfu.“ Þetta hafði svo mikil áhrif á Esekíel að hann féll á jörðina. (Esek. 1:28) Í hvert sinn sem Esekíel hefur rifjað upp þessa áhrifamiklu sýn hlýtur hún að hafa styrkt sannfæringu hans um að hann gæti sinnt þjónustu sinni með hjálp anda Guðs.
8, 9. (a) Hvað sagði Jehóva Esekíel að gera? (b) Hvernig styrkti Jehóva Esekíel frekar til að boða trúna á erfiðu starfssvæði?
8 Jehóva sagði við Esekíel: „Mannssonur, stattu á fætur svo að ég geti talað við þig.“ Þegar Jehóva sagði þetta og gaf Esekíel jafnframt anda sinn fékk hann þann styrk sem hann þurfti til að standa upp. Esekíel skrifaði: ,Andi kom í mig og reisti mig á fætur.‘ (Esek. 2:1, 2) Eftir þetta leiðbeindi „hönd“ Guðs, eða heilagur andi hans, Esekíel í þjónustu hans. (Esek. 3:22; 8:1; 33:22; 37:1; 40:1) Andi Guðs gaf Esekíel þann styrk sem hann þurfti til að sinna verkefni sínu – að flytja boðskapinn fólki sem var ,með hart enni og forhert í hjarta‘. (Esek. 3:7) Jehóva sagði við Esekíel: „Ég hef gert andlit þitt eins hart og andlit þeirra og enni þitt eins hart og enni þeirra. Ég hef gert enni þitt hart eins og demant, harðara en tinnustein. Óttastu þá ekki og láttu ekki svip þeirra hræða þig.“ (Esek. 3:8, 9) Jehóva sagði í raun við Esekíel: „Láttu ekki þrjósku fólksins draga úr þér kjark. Ég mun efla þig.“
9 Eftir þetta flutti andi Guðs Esekíel á starfsstæði hans. „Máttug hönd Jehóva var yfir mér,“ sagði Esekíel. Það tók spámanninn viku að skilja boðskapinn sem hann átti að flytja til að hann gæti gert það af sannfæringu. (Esek. 3:14, 15) Síðan leiddi Jehóva hann út á sléttu þar sem ,andi kom í hann‘. (Esek. 3:23, 24) Esekíel var tilbúinn að hefja þjónustu sína.
VIÐ FÁUM KRAFT FRÁ ANDA GUÐS
10. Hvaða hjálp þurfum við til að sinna boðun trúarinnar og hvers vegna?
10 Hvaða hjálp þurfum við til að sinna boðun trúarinnar? Til að svara því skulum við rifja upp hvað gerðist hjá Esekíel. Áður en hann hóf að flytja boðskap sinn veitti andi Guðs honum þann styrk sem hann þurfti. Við getum, líkt og Esekíel, aðeins sinnt boðuninni með hjálp anda Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að Satan er í stríði við okkur til þess að stöðva boðun trúarinnar. (Opinb. 12:17) Frá mannlegum bæjardyrum séð virðist Satan okkur langtum yfirsterkari. En í raun erum við að sigra hann þegar við boðum trúna. (Opinb. 12:9–11) Hvernig má það vera? Þegar við tökum þátt í boðuninni er augljóst að við látum ekki ógnir Satans hræða okkur. Í hvert skipti sem við boðum trúna er það ósigur fyrir Satan. Hvað segir það okkur að við getum boðað trúna þrátt fyrir andstöðu? Það er augljóst að við fáum kraft frá heilögum anda og að Jehóva hefur velþóknun á okkur. – Matt. 5:10–12; 1. Pét. 4:14.
11. Hvað gerir andi Guðs fyrir okkur og hvernig getum við haldið áfram að fá hann?
11 Hvað fleira getum við lært af því að Jehóva herti í táknrænni merkingu andlit og enni Esekíels? Andi Guðs getur gert okkur kleift að sigrast á hvaða erfiðleikum sem við mætum í þjónustu okkar. (2. Kor. 4:7–9) Hvað getum við gert til að vera viss um að við höldum áfram að fá anda Guðs? Við þurfum að halda staðfastlega áfram að biðja um andann, sannfærð um að Jehóva heyri bænir okkar. Jesús sagði við lærisveina sína: „Haldið áfram að biðja … haldið áfram að leita … haldið áfram að banka.“ Jehóva svarar með því að „gefa þeim heilagan anda sem biðja hann“. – Lúk. 11:9, 13; Post. 1:14; 2:4.
ESEKÍEL NÆRÐIST Á ORÐI GUÐS
12. Hvaðan kom bókrollan og hvað hafði hún að geyma samkvæmt Esekíel 2:9–3:3?
12 Esekíel fékk ekki aðeins kraft frá anda Guðs heldur nærðist einnig á orði hans. Esekíel sá í sýn hönd sem hélt á bókrollu. (Lestu Esekíel 2:9–3:3.) Hvaðan kom hún? Hvað stóð í henni? Og hvernig nærði hún Esekíel? Lítum nánar á það. Bókrollan kom frá hásæti Guðs. Jehóva sendi líklega einn af englunum fjórum sem Esekíel hafði séð áður til að færa honum bókrolluna. (Esek. 1:8; 10:7, 20) Bókrollan hafði að geyma orð Guðs – dómsboðskap í löngu máli sem Esekíel átti að flytja uppreisnargjörnum útlögunum. (Esek. 2:7) Boðskapurinn var ritaður báðum megin á bókrollunni.
13. Hvað sagði Jehóva Esekíel að gera við bókrolluna og hvers vegna var hún sæt á bragðið?
13 Jehóva sagði spámanninum að borða bókrolluna og ,láta hana fylla magann‘. Esekíel hlýddi Jehóva og borðaði alla bókrolluna. Hvað táknaði þessi hluti sýnarinnar? Esekíel þurfti að drekka í sig boðskapinn sem hann átti að flytja. Hann þurfti að gera boðskapinn að sínum, láta hann hafa áhrif á innstu tilfinningar sínar. Þá gerðist nokkuð furðulegt. Bókrollan reyndist „sæt eins og hunang“ á bragðið. (Esek. 3:3) Hvers vegna? Það var sæt, eða ánægjuleg, reynsla fyrir Esekíel að fá þann heiður að vera fulltrúi Jehóva. (Sálm. 19:8–11) Hann var þakklátur honum að fá að þjóna sem spámaður hans.
14. Hvað hjálpaði Esekíel að vera tilbúinn að takast á við verkefni sitt?
14 Síðar sagði Jehóva við Esekíel: „Hlustaðu á allt sem ég segi þér og hugleiddu það.“ (Esek. 3:10) Þannig sagði Jehóva Esekíel að leggja á minnið það sem var skráð í bókrollunni og hugleiða það. Það nærði Esekíel að gera það. Það gerði honum líka kleift að flytja fólkinu kröftugan boðskap. (Esek. 3:11) Esekíel var tilbúinn að gera verkefni sínu góð skil með boðskap Guðs í hjarta sínu og á vörum sér. – Samanber Sálm 19:14.
VIÐ NÆRUMST Á ORÐI GUÐS
15. Hvað þurfum við að ,festa í huga‘ til að halda út?
15 Við verðum líka að halda áfram að nærast á orði Guðs til að halda út í þjónustunni. Við verðum að ,festa í huga‘ allt sem Jehóva segir við okkur. Hann talar við okkur í rituðu orði sínu, Biblíunni. Hvernig getum við séð til þess að orð Guðs haldi áfram að hafa áhrif á hugsanir okkar, tilfinningar og hvatir?
16. Hvað verðum við að gera við orð Guðs og hvernig getur hjarta okkar drukkið það í sig?
16 Við nærumst andlega þegar við lesum í orði Guðs og hugleiðum það rétt eins og við nærumst líkamlega þegar við borðum mat og meltum hann. Höfum í huga það sem Jehóva kennir okkur með dæminu um bókrolluna. Jehóva vill að við látum orð sitt „fylla magann“, það er að segja að við drekkum það í okkur. Við gerum það með því að biðja til Guðs, lesa og hugleiða. Við byrjum á því að biðja til Guðs til að búa hjartað undir að taka á móti hugsunum hans. Síðan lesum við í Biblíunni. Við stöldrum því næst við og hugleiðum, eða hugsum vandlega um, það sem við höfum lesið. Hver er árangurinn? Því meira sem við hugleiðum því betur drekkur okkar táknræna hjarta í sig orð Guðs.
17. Hvers vegna er mikilvægt að hugleiða það sem við lesum í Biblíunni?
17 Hvers vegna er mikilvægt að lesa í Biblíunni og hugleiða það sem við lesum? Það gefur okkur þann innri styrk sem við þurfum til að flytja boðskapinn um Guðsríki núna og þann harða dómsboðskap sem við gætum þurft að flytja í náinni framtíð. Og samband okkar við Jehóva verður enn sterkara þegar við hugleiðum aðlaðandi eiginleika hans. Árangurinn verður sannarlega sætur, eða ánægjulegur – við njótum innri friðar og lífsfyllingar. – Sálm. 119:103.
HVÖTT TIL AÐ HALDA ÚT
18. Hvað mun fólk á starfssvæði okkar þurfa að viðurkenna og hvers vegna?
18 Við erum ekki spámenn eins og Esekíel. En við erum ákveðin í að halda áfram að flytja innblásinn boðskap sem Jehóva hefur varðveitt í Biblíunni þangað til hann ákveður að boðuninni sé lokið. Þegar dóminum verður fullnægt mun fólk á starfssvæði okkar ekki geta sagt að það hafi ekki fengið viðvörun eða að Guði hafi yfirsést það. (Esek. 3:19; 18:23) Fólk þarf að viðurkenna að boðskapurinn sem við fluttum var frá Guði.
19. Hvað gefur okkur styrk til að sinna þjónustu okkar?
19 Hvað gefur okkur styrk til að sinna þjónustunni? Það sama og gaf Esekíel styrk. Við höldum áfram að flytja boðskapinn vegna þess að við vitum að Jehóva sendir okkur, við fáum kraft frá heilögum anda hans og nærumst á orði hans. Með hjálp Jehóva fáum við hvatningu til að sinna þjónustu okkar og halda út „allt til enda“. – Matt. 24:13.
SÖNGUR 65 Sækjum fram
a Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem hjálpaði spámanninum Esekíel að sinna verkefni sínu að boða trúna. Við fjöllum um það hvernig Jehóva hjálpaði spámanni sínum en það styrkir traust okkar á að Jehóva muni líka hjálpa okkur að boða trúna.