„Hugfest þér“ musteri Guðs!
„Mannsson, . . . hugfest þér allt, er ég sýni þér . . . Kunngjör þú Ísraelslýð allt það, sem þú sér.“ — ESEKÍEL 40:4.
1. Hvernig var komið fyrir útvalinni þjóð Guðs árið 593 f.o.t.?
ÞAÐ var árið 593 f.o.t., 14. útlegðarár Ísraelsþjóðarinnar. Gyðingunum í Babýlon hlýtur að hafa virst ástkært heimaland sitt vera í órafjarlægð. Síðast þegar flestir þeirra sáu Jerúsalem stóð hún í ljósum logum, voldugir múrar hennar voru brotnir og tígulegar byggingarnar rústir einar. Musteri Jehóva var í rúst — dýrðardjásn borgarinnar, eina miðstöð hreinnar tilbeiðslu í öllum heiminum. Meginhluti útlegðar Ísraels var enn framundan. Hin fyrirheitna frelsun rynni ekki upp fyrr en eftir 56 ár. — Jeremía 29:10.
2. Af hverju hlýtur minningin um musteri Guðs í Jerúsalem að hafa hryggt Esekíel?
2 Það hlýtur að hafa hryggt hinn trúfasta spámann Esekíel að hugsa til þess að musteri Guðs lægi í rústum í mörg hundruð kílómetra fjarlægð, orðið að eyðilegu villidýrabæli. (Jeremía 9:11) Búsí, faðir hans, hafði þjónað þar sem prestur. (Esekíel 1:3) Og Esekíel hefði notið þessara sömu sérréttinda sjálfur hefði hann ekki verið fluttur ungur í útlegð ásamt fyrirmennum Jerúsalem árið 617 f.o.t. Núna var hann um fimmtugt og vissi sennilega að hann myndi hvorki sjá Jerúsalem aftur né eiga nokkurn þátt í endurbyggingu musterisins. Þú getur því rétt ímyndað þér hvað það hlýtur að hafa verið honum mikils virði að sjá dýrlegt musteri í sýn!
3. (a) Hver var tilgangurinn með musterissýn Esekíels? (b) Hverjir eru fjórir meginþættir sýnarinnar?
3 Þessi viðamikla sýn spannar níu kafla í Esekíelsbók og gaf herleiddum Júdabúum það trústyrkjandi fyrirheit að hrein tilbeiðsla yrði endurreist. Um allar aldir síðan, allt fram á okkar dag, hefur sýnin verið þeim sem elska Jehóva hvatning og uppörvun. Hvernig? Athugum hvaða þýðingu spádómssýn Esekíels hafði fyrir hina herleiddu Ísraelsmenn. Hún hefur fjóra meginþætti: musterið, prestastéttina, landshöfðingjann og landið.
Musterið endurreist
4. Hvert er farið með Esekíel í upphafi sýnarinnar, hvað sér hann og hver fer með hann í skoðunarferð?
4 Fyrst er farið með Esekíel upp á „mjög hátt fjall.“ Gegnt honum á fjallinu er stórt musteri eins og borg umlukin múrum. Engill, „ásýndum sem af eiri væri,“ fer með spámanninn í ítarlega skoðunarferð um svæðið. (Esekíel 40:2, 3) Er sýninni vindur fram sér hann engilinn mæla vandlega þrenn samstæð hlið musterisins og varðherbergi þeirra, ytri forgarð, innri forgarð, herbergi eða matsali, altari og helgidóm musterisins ásamt hinu heilaga og hinu allrahelgasta.
5. (a) Um hvað fullvissar Jehóva Esekíel? (b) Hvað voru ‚lík konunganna‘ sem fjarlægja átti úr musterinu og af hverju var mikilvægt að gera það?
5 Síðan birtist Jehóva sjálfur í sýninni. Hann fer inn í musterið og fullvissar Esekíel um að hann muni búa þar. En Jehóva krefst þess að hús sitt sé hreinsað og segir: „[Láti þeir] hórdóm sinn og lík konunga sinna vera langt í burtu frá mér, og ég mun búa meðal þeirra að eilífu.“ (Esekíel 43:2-4, 7, 9) Með ‚líkum konunganna‘ var trúlega átt við skurðgoð. Uppreisnargjarnir stjórnendur og íbúar Jerúsalem höfðu spillt musteri Guðs með skurðgoðum og í reynd gert þau að konungum. (Samanber Amos 5:26.) Þessi skurðgoð voru lífvana og óhrein í augum Jehóva og fjarri því að vera lifandi guðir eða konungar. Þau varð að fjarlægja. — 3. Mósebók 26:30; Jeremía 16:18.
6. Hvað táknaði mæling musterisins?
6 Hvað boðaði þessi hluti sýnarinnar? Hann fullvissaði hina herleiddu um algera endurreisn hreinnar tilbeiðslu í musteri Guðs. Og mæling musterisins var trygging Guðs fyrir því að sýnin uppfylltist örugglega. (Samanber Jeremía 31:39, 40; Sakaría 2:6-12.) Öll skurðgoðadýrkun yrði hreinsuð burt. Jehóva myndi blessa hús sitt á ný.
Prestastéttin og landshöfðinginn
7. Hvað er sagt um levítana og prestana?
7 Prestastéttin skyldi einnig hreinsast eða fágast. Ávíta átti levítana fyrir að hafa leiðst út í skurðgoðadýrkun, en hrósa og umbuna prestaniðjum Sadóks fyrir að hafa haldið sér hreinum.a Báðir hópar skyldu samt gegna þjónustu í endurreistu húsi Guðs og var það vafalaust háð trúfesti þeirra sem einstaklinga. Jehóva lýsti enn fremur yfir: „Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu.“ (Esekíel 44:10-16, 23) Það átti því að reisa prestastéttina við og umbuna prestunum trúfestina og þolgæðið.
8. (a) Hverjir voru höfðingjar Forn-Ísraels? (b) Hvaða áberandi þátt tók landshöfðinginn í Esekíelssýninni í hreinni tilbeiðslu?
8 Sýnin minnist einnig á landshöfðingja nokkurn. Allt frá dögum Móse hafði þjóðin haft höfðingja eða höfuðsmenn. Hebreska orðið fyrir höfðingja, nasiʼʹ, gat átt við um höfuð eða leiðtoga ættar, ættkvíslar eða jafnvel þjóðar. Í sýn Esekíels eru stjórnendur Ísraels ávítaðir sem hópur fyrir að kúga fólkið og þeir hvattir til að vera óvilhallir og réttsýnir. Landshöfðinginn tekur áberandi þátt í hreinni tilbeiðslu, enda þótt hann tilheyri ekki prestastéttinni. Hann fer inn og út úr ytri forgarðinum ásamt öðrum ættkvíslum, sem ekki eru prestaættar, situr í forsal Austurhliðsins og lætur fólkinu í té sumar af fórnunum. (Esekíel 44:2, 3; 45:8-12, 17) Sýnin fullvissaði þannig landa Esekíels um að hin endurreista þjóð nyti þeirrar blessunar að eiga fyrirmyndarleiðtoga, menn sem styddu prestastéttina í að koma skipulagi á þjóð Guðs og væru til eftirbreytni í andlegum málum.
Landið
9. (a) Hvernig skyldi landinu skipt, en hverjir fengju ekki arfleifð? (b) Hvað var helgaða landspildan og hvað var á henni?
9 Að síðustu lýsir sýn Esekíels Ísraelslandi sem átti að skipta og hver ættkvísl átti að fá landspildu. Landshöfðinginn átti einnig að fá arfleifð en prestarnir ekki af því að Jehóva sagði: „Ég er óðal þeirra.“ (Esekíel 44:10, 28; 4. Mósebók 18:20) Samkvæmt sýninni skyldi spilda landshöfðingjans vera beggja vegna sérstaks svæðis er nefndist helgaða landspildan. Þetta var ferköntuð landspilda sem skiptist í þrjár ræmur — nyrsta ræman handa iðrunarfullum levítum, miðræman handa prestunum og syðsta ræman handa borginni ásamt beitilandi og akurlendi beggja vegna. Musteri Jehóva yrði staðsett á landræmu prestanna, mitt á ferhyrndu landspildunni. — Esekíel 45:1-7.
10. Hvaða þýðingu hafði spádómurinn um skiptingu landsins fyrir trúfasta Júdamenn í útlegðinni?
10 Þetta hlýtur að hafa glatt hjörtu hinna herleiddu! Hver fjölskylda var fullvissuð um að hún fengi arfleifð í landinu. (Samanber Míka 4:4.) Hin upphafna hreina tilbeiðsla yrði þar þungamiðjan. Og taktu eftir að í sýn Esekíels myndi landshöfðinginn, líkt og prestarnir, búa á landi sem fólkið gæfi. (Esekíel 45:16) Í hinu endurreista landi átti fólkið því að leggja eitthvað af mörkum til starfs þeirra sem Jehóva fæli að fara með forystuna og sýna stuðning sinn með því að fylgja handleiðslu þeirra. Þetta land var þannig ímynd skipulagningar, samvinnu og öryggis.
11, 12. (a) Hvaða spádómlega fullvissu veitir Jehóva fólki sínu fyrir því að hann blessi endurreist land þess? (b) Hvað tákna trén á fljótsbökkunum?
11 Myndi Jehóva blessa landið? Spádómurinn svarar spurningunni með heillandi lýsingu. Lækur rennur frá musterinu og verður stöðugt vatnsmeiri uns hann er orðinn að beljandi fljóti þegar hann fellur í Dauðahafið. Fljótið endurlífgar lífvana hafið og fiskveiðar blómgast með fram strandlengjunni. Á fljótsbökkunum vex fjöldi trjáa sem bera ávöxt árið um kring til næringar og lækningar. — Esekíel 47:1-12.
12 Þetta fyrirheit endurómaði og staðfesti eldri endurreisnarspádóma sem voru hinum herleiddu afar kærir. Oftar en einu sinni höfðu innblásnir spámenn Jehóva lýst endurreistum og endurbyggðum Ísrael sem paradís. Aftur og aftur höfðu spádómarnir minnst á landsvæði sem lifnuðu við. (Jesaja 35:1, 6, 7; 51:3; Esekíel 36:35; 37:1-14) Fólkið gat því vænst þess að lífgandi blessun Jehóva streymdi fram líkt og fljót frá hinu endurreista musteri. Fyrir vikið myndi andlega dauð þjóð lifna við. Hin endurreista þjóð nyti þeirrar blessunar að eiga framúrskarandi andlega menn — menn sem væru jafnréttlátir og traustir og trén á fljótsbökkunum í sýninni, menn sem tækju forystu í að endurreisa eyðiland. Jesaja hafði einnig skrifað um „réttlætis-eikur“ sem myndu „byggja upp hinar fornu rústir.“ — Jesaja 61:3, 4.
Hvenær uppfyllist sýnin?
13. (a) Í hvaða skilningi blessaði Jehóva endurreista þjóð sína með ‚réttlætiseikum‘? (b) Hvernig uppfylltist spádómurinn um Dauðahafið?
13 Urðu þeir sem sneru heim úr útlegðinni fyrir vonbrigðum? Því fór fjarri! Endurreistar leifar sneru heim í ástkært land sitt árið 537 f.o.t. Undir leiðsögn ‚réttlætiseika‘ — svo sem fræðimannsins Esra, spámannanna Haggaí og Sakaría og æðstaprestsins Jósúa — voru hinar fornu rústir byggðar upp að nýju með tíð og tíma. Landshöfðingjar, svo sem Nehemía og Serúbabel, stjórnuðu landinu af sanngirni og réttvísi. Musteri Jehóva var endurreist og lífsráðstafanir hans — sú blessun að lifa eftir sáttmála hans — streymdu fram á ný. (5. Mósebók 30:19; Jesaja 48:17-20) Ein slík blessun var þekking. Prestastéttin tók aftur til starfa og prestarnir uppfræddu fólkið í lögmálinu. (Malakí 2:7) Fyrir vikið lifnaði það við andlega og bar aftur ávöxt sem þjónar Jehóva, líkt og endurlífgun Dauðahafsins og hinar blómlegu fiskveiðar táknuðu.
14. Af hverju hlýtur spádómur Esekíels að eiga sér meiri uppfyllingu en þá sem átti sér stað eftir heimkomu Gyðinganna úr útlegð í Babýlon?
14 Voru þessir atburðir eina uppfylling Esekíelssýnarinnar? Nei, þeir eru vísbending um eitthvað miklu meira. Í rauninni var ekki hægt að byggja musterið, sem Esekíel sá, samkvæmt lýsingunni. Gyðingarnir tóku sýnina að vísu alvarlega og fylgdu henni meira að segja bókstaflega í sumu.b En musterið í sýninni var of stórt til að rúmast í einu lagi á Móríafjalli þar sem fyrra musterið hafði staðið. Auk þess var Esekíelsmusterið ekki í borginni heldur í nokkurri fjarlægð á aðgreindri landspildu. Síðara musterið var aftur á móti byggt á sama stað og fyrra musterið hafði staðið, í Jerúsalemborg. (Esrabók 1:1, 2) Og bókstafleg á rann aldrei frá musterinu í Jerúsalem. Forn-Ísrael sá því aðeins minniháttar uppfyllingu á spádómi Esekíels. Það bendir til að sýnin hljóti að eiga sér viðameiri andlega uppfyllingu.
15. (a) Hvenær tók hið andlega musteri Jehóva til starfa? (b) Hvað bendir til að Esekíelssýnin hafi ekki uppfyllst á jarðvistardögum Krists?
15 Esekíelssýnin á sér augljóslega aðaluppfyllingu í hinu mikla andlega musteri Jehóva sem Páll postuli fjallar ítarlega um í Hebreabréfinu. Þetta musteri tók til starfa þegar Jesús Kristur var smurður æðstiprestur þess árið 29. En uppfylltist sýn Esekíels á dögum Jesú? Ekki að því er best verður séð. Í æðstaprestshlutverki sínu uppfyllti Jesús spádómsmynd friðþægingardagsins með skírn sinni, fórnardauða og inngöngu í hið allrahelgasta, sjálfan himininn. (Hebreabréfið 9:24) Það vekur hins vegar athygli að ekki er minnst einu orði á æðstaprestinn eða friðþægingardaginn í Esekíelssýninni. Það virðist því ólíklegt að sýnin hafi átt við fyrstu öld okkar tímatals. Hvaða tímaskeið á hún þá við?
16. Á hvaða spádóm minnir sviðsetning Esekíelssýnarinnar og hvernig auðveldar það okkur að tímasetja aðaluppfyllingu sýnarinnar?
16 Til að svara því skulum við snúa okkur aftur að sýninni sjálfri. Esekíel segir: „Í guðlegri sýn flutti hann mig til Ísraelslands og setti mig niður á mjög hátt fjall, og á því var gagnvart mér sem endurreist borg.“ (Esekíel 40:2) Sviðsetning sýnarinnar, hið ‚mjög háa fjall,‘ minnir okkur á orðin í Míka 4:1: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.“ Hvenær rætist þessi spádómur? Míka 4:5 sýnir að það gerist meðan þjóðirnar eru enn að tilbiðja falsguði. Það er á okkar tímum, „hinum síðustu dögum,“ sem hrein tilbeiðsla hefur verið endurreist og öðlast aftur réttmætan sess sinn í lífi þjóna Guðs.
17. Hvernig hjálpar spádómurinn í Malakí 3:1-5 okkur að ákvarða hvenær musterið í Esekíelssýninni var hreinsað?
17 Hvað gerði þessa endurreisn mögulega? Munum að þýðingarmesti atburður Esekíelssýnarinnar er þegar Jehóva kemur í musterið og krefst þess að hús sitt sé hreinsað af skurðgoðadýrkun. Hvenær var andlegt musteri Guðs hreinsað? Í Malakí 3:1-5 segir Jehóva að hann muni „koma til musteris síns“ í fylgd ‚engils sáttmálans,‘ Jesú Krists. Til hvers? Til að vera „sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna.“ Þessi bræðsla eða fágun hófst í fyrri heimsstyrjöldinni. Hvað hafði hún í för með sér? Jehóva hefur búið í húsi sínu og blessað andlegt land fólks síns frá árinu 1919. (Jesaja 66:8) Af þessu má því ráða að musterissýn Esekíels eigi sér þýðingarmikla uppfyllingu á hinum síðustu dögum.
18. Hvenær á lokauppfylling musterissýnarinnar sér stað?
18 Líkt og aðrir endurreisnarspádómar á sýn Esekíels sér frekari uppfyllingu í paradís, lokauppfyllingu. Þá fyrst nýtur réttsinnað mannkyn að fullu góðs af musterisfyrirkomulagi Guðs. Þá miðlar Kristur mannkyninu gildi lausnarfórnar sinnar í félagi við 144.000 himneska presta sína. Öllum hlýðnum þegnum stjórnar hans verður lyft upp til fullkomleika. (Opinberunarbókin 20:5, 6) En aðaluppfylling Esekíelssýnarinnar getur ekki verið bundin við paradís. Af hverju ekki?
Sýnin á aðallega við okkar tíma
19, 20. Hvers vegna hlýtur aðaluppfylling sýnarinnar að eiga sér stað núna en ekki í paradís?
19 Esekíel sá musteri sem hreinsa þurfti af skurðgoðadýrkun og andlegum hórdómi. (Esekíel 43:7-9) Það getur varla átt við tilbeiðsluna á Jehóva í paradís. Prestarnir í sýninni tákna þar að auki hinn smurða prestahóp meðan hann er enn á jörð, en ekki eftir upprisu hans til himna eða í þúsundáraríkinu. Af hverju? Taktu eftir því að prestarnir eru sagðir þjóna í innri forgarðinum. Varðturninn hefur sýnt fram á að þessi forgarður táknar hina einstæðu andlegu stöðu undirpresta Krists meðan þeir eru enn á jörð.c Taktu líka eftir því að sýnin leggur áherslu á ófullkomleika prestanna. Þeim er sagt að færa fórnir fyrir eigin syndir. Þeir eru varaðir við hættunni á því að verða óhreinir — andlega og siðferðilega. Þeir tákna því ekki hina smurðu upprisna sem Páll postuli skrifaði um: „Lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir.“ (1. Korintubréf 15:52; Esekíel 44:21, 22, 25, 27) Prestarnir í sýninni hafa samneyti við fólkið og þjóna því beint. Sú verður ekki raunin í paradís þegar prestahópurinn verður á himnum. Sýnin gefur þess vegna frábæra mynd af því hvernig hinir smurðu vinna náið með ‚múginum mikla‘ á jörðinni nú á tímum. — Opinberunarbókin 7:9; Esekíel 42:14.
20 Musterissýn Esekíels boðar því hin heilnæmu áhrif andlegrar hreinsunar sem á sér stað núna. En hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Hér er ekki um að ræða einhverja torskilda guðfræðilega ráðgátu. Sýnin er nátengd daglegri tilbeiðslu þinni á hinum eina sanna Guði, Jehóva. Í greininni á eftir sjáum við hvernig.
[Neðanmáls]
a Þetta kann að hafa snert Esekíel persónulega því að sagt er að hann hafi sjálfur verið af prestaætt Sadóks.
b Hin forna Mísna gefur til kynna að altarið í endurreista musterinu, vængjahurðir musterisins og eldunarsvæðin hafi verið byggð í samræmi við sýn Esekíels.
c Sjá Varðturninn 1. ágúst 1996, bls. 16 og 1. maí 1974, bls. 107.
Manstu?
◻ Hver var fyrri uppfylling Esekíelssýnarinnar í sambandi við musterið og prestastéttina?
◻ Hvernig uppfylltist sýn Esekíels fyrst í sambandi við úthlutun landsins?
◻ Hverjir þjónuðu sem trúfastir landshöfðingjar við endurreisn Ísraels til forna og hverjir sem „réttlætis-eikur“?
◻ Af hverju hlýtur musterissýn Esekíels að eiga sér aðaluppfyllingu á hinum síðustu dögum?