Hlustaðu — varðmaður Jehóva talar!
„Ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. . . . Þú [skalt] vara þá við í mínu nafni.“ — ESEKÍEL 3:17.
1. Hvers vegna skyldum við hlusta þegar ‚varðmaður‘ Jehóva talar?
VARÐMAÐUR Jehóva er að flytja boðskap Guðs á þessu augnabliki. Ert þú að hlusta? Líf þitt veltur á því hvort þú tekur þakklátur á móti þeim boðskap og lætur það viðhorf birtast í verki. Bráðlega munu ‚þjóðirnar kynnast Jehóva‘ þegar hann helgar sitt heilaga nafn með því að gereyða þessu óguðlega heimskerfi og halda verndarhendi yfir þjónum sínum. Vonast þú til að vera í þeirra hópi? (Esekíel 36:23; 39:7; 2. Pétursbréf 3:8-13) Svo kann að vera, en það verður aðeins ef þú hlustar þegar varðmaður Jehóva talar.
2. Hvaða afleiðingar hafði það fyrir Júdaríkið að hlusta ekki á spámenn Guðs?
2 Það að hlusta ekki á spámenn Guðs endaði með ósköpum fyrir Júdaríkið árið 607 f.o.t. Óvinaþjóðirnar hlökkuðu yfir því er Babýloníumenn eyddu ríkinu. En nafn Jehóva var upphafið mjög þegar hann stýrði málum svo að trúfastir Gyðingar fengu snúið heim í land sitt árið 537 f.o.t!
3. Hvað inniheldur Esekíelsbók?
3 Spámaður Jehóva, Esekíel, sagði fyrir bæði þessa eyðingu og endurreisn. Sú biblíubók, sem ber nafn hans og hann lauk við í Babýloníu um árið 591 f.o.t., segir frá (1) köllun Esekíels, (2) leikrænum flutningi spádóma, (3) boðskap gegn Ísrael, (4) forspá um dóm Jerúsalem, (5) spádómum gegn öðrum þjóðum, (6) endurreisnarfyrirheitum, (7) spádómi gegn Góg í Magóg og (8) sýn er hann sá af helgidómi Guðs. Við hvetjum þig til að lesa bókina um leið og við nemum hana. Þannig munt þú sjá hvernig hún hefur áhrif á okkur nú á dögum og þú munt hlusta þegar varðmaður Jehóva talar.a
Guð skipar varðmann
4. (a) Hvað sá Esekíel í sýn? (b) Hverjar voru ‚verurnar‘ og hvaða eiginleika höfðu þær til að bera?
4 Þann 5. tammús árið 613 f.o.t. (á fimmta útlegðarári Jókjakíns Júdakonungs í Babýlon), var hinn þrítugi prestur Esekíel meðal herleiddra Gyðinga „við Kebarfljótið“ en það var einn af skurðunum sem lá út frá Efratfljótinu. Í sýn sá hann himneskan stríðsvagn Jehóva sem ‚fjórar verur‘ þjónuðu. (Lestu Esekíel 1:4-10.) Hver ‚vera‘ eða vængjaður kerúb hafði fjórar ásjónur. (Esekíel 10:1-20; 11:22) Þær gefa til kynna að kerúbunum sé af Guði gefinn kærleikur (maðurinn), réttvísi (ljónið), máttur (nautið) og viska (örninn). Hver kerúb stóð hjá feikistóru ‚hjóli innan í öðru hjóli‘ og andi Guðs eða starfskraftur gat látið þau ganga í hvaða átt sem vera skyldi. — Esekíel 1:1-21.
5. Hvað táknar stríðsvagninn á himnum og hvaða áhrif ætti þessi sýn að hafa á þjóna Jehóva?
5 Dýrleg ímynd Jehóva stýrði vagninum. (Lestu Esekíel 1:22-28.) Stríðsvagninn er viðeigandi tákn hins andlega englaskipulags Guðs! (Sálmur 18:11; 103:20, 21; Daníel 7:9, 10) Jehóva ekur vagninum í þeim skilningi að hann drottnar yfir þessum sköpunarverum og notar þær samkvæmt tilgangi sínum. Stilling var yfir honum sem í vagninum sat líkt og regnboganum umhverfis hann. En Esekíel var gagntekinn. Þessi ógnarlega sýn af dýrð Jehóva og mætti sem hinn æðsti drottinvaldur himneskra hersveita ætti að vekja með okkur lotningu og þakklæti fyrir þau sérréttindi að fá að þjóna honum sem hluti af jarðnesku skipulagi hans.
6. (a) Hvaða skipun fékk Esekíel og hvernig leit hann á þjónustu við Guð? (b) Meðal hvers konar fólks átti Esekíel að spá og hvaða gagn höfum við af því að vita hvernig Guð skipti við hann?
6 Þótt Esekíel væri minntur á smæð sína og mannlegan uppruna, með því að vera nefndur „mannsson,“ var hann skipaður spámaður Jehóva. (Lestu Esekíel 2:1-5.) Esekíel átti að fara til ‚fráhverfra‘ þjóða, Ísraels- og Júdaríkis. Fyrst át hann að boði Guðs bókrollu er geymdi harmljóð, en hún bragðaðist eins og hunang sökum þess að hann var þakklátur fyrir að vera spámaður Guðs. Á líkan hátt þykja smurðum kristnum mönnum og samþjónum þeirra það sérréttindi að vera vottar um Jehóva. Esekíel átti að spá meðal þverúðugra og þrjóskra manna, en Guð myndi gera ásjónu hans jafneinbeitta og ásjónu þeirra, enni hans jafnhart sem demant. Hann átti að spá með djörfung hvort sem þeir hlustuðu eða ekki. Það er hughreystandi að vita að Guð mun hjálpa okkur að bera vitni með hugrekki á hvaða starfssvæði sem er, á sama hátt og hann studdi Esekíel við erfiðar aðstæður. — Esekíel 2:6-3:11.
7. Hvaða ábyrgð fólst í umboði Esekíels?
7 Það að eta bókrolluna olli Esekíel „mikilli geðshræring“ sem hæfði vel boðskap hennar. Hann sat í ‚sjö daga utan við sig‘ í Tel Abíb til að melta boðskap hennar. (Esekíel 3:12-15) Við þurfum líka að hugleiða og nema orð Guðs kostgæfilega til að skilja djúp andleg sannindi. Esekíel hafði nú boðskap að færa og var skipaður varðmaður Guðs. (Lestu Esekíel 3:16-21.) Hinn nýskipaði varðmaður átti að vara löglausa Ísraelsmenn við því að þeir stæðu frammi fyrir aftöku af hendi Guðs.
8. Hverjir þjóna sem ‚varðmaður‘ Jehóva nú á dögum og hverjir starfa með þeim?
8 Ef Esekíel brygðist skyldu sinni sem varðmaður myndi Jehóva gera hann ábyrgan fyrir lífi þeirra er færust. Þótt þeir sem vildu ekki að hann veitti þeim áminningu legðu á hann táknræn bönd myndi hann halda djarflega áfram að boða boðskap Guðs. (Esekíel 3:22-27) Á okkar tímum neitar kristni heimurinn að hlusta og reynir að setja hömlur á smurða kristna menn. En frá og með 1919 hafa hinir smurðu þjónað sem ‚varðmaður‘ Jehóva og boðað hugrakkir boðskap hans núna á ‚endalokatíma‘ þessa heimskerfis. (Daníel 12:4) Ört vaxandi ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ Jesú vinnur með þeim að þessu starfi. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16) Þar eð varðmannshópurinn heldur áfram að boða boðskap Guðs ætti hver og einn af hinum smurðu og af hinum ‚mikla múgi‘ svo sannarlega að vilja boða hann sem reglulegur boðberi.
Spádómar í leikrænum flutningi
9. (a) Hvers konar fordæmi gaf Esekíel okkur? (b) Hvað gerði Esekíel til að lýsa umsátri Babýloníumanna um Jerúsalem og hvað var táknað með dögunum 390 og dögunum 40?
9 Þessu næst flutti Esekíel spádóma með látbragðsleik. Hann sýndi þar hugrekki samhliða dirfsku sem ætti að vera okkur fordæmi í að vinna auðmjúkir en hugrakkir það starf sem Guð hefur falið okkur. Hann átti að draga upp mynd af Jerúsalem á tígulstein og leggjast síðan niður og snúa andlitinu að honum. Hann átti að liggja á vinstri hliðinni á 390 daga til að bera misgjörð tíuættkvíslaríkisins Ísraels, og síðan á hægri hliðinni í 40 daga til að bera synd tveggja ættkvíslaríkisins Júda. Hver dagur skyldi tákna eitt ár. Dagarnir 390 náðu frá stofnun Ísraels árið 997 f.o.t. fram til eyðingar Jerúsalem árið 607 f.o.t. Árin 40 fyrir Júda töldust frá því er Jeremía var skipaður spámaður Guðs árið 647 f.o.t. til eyðingar Júda árið 607 f.o.t. — Esekíel 4:1-8; Jeremía 1:1-3.
10. Hvernig lék Esekíel áhrif umsátursins og hvaða lærdóm getum við dregið af því að Guð skyldi halda honum uppi?
10 Að þessu loknu lék Esekíel áhrif umsátursins. Til tákns um hungursneyðina dró hann fram lífið á tæplega 230 grömmum matar og innan við 7 desilítrum vatns á dag. Brauðið hans var óhreint. Það var bakað við tað úr blöndu af hveiti, byggi, baunum, linsubaunum, hirsi og speldi sem lögmálið lagði bann við. (3. Mósebók 19:19) Þetta sýndi að Jerúsalembúar myndu þurfa að búa við mikið harðræði. En það er mikil hughreysting að vita að Guð muni hjálpa okkur að vera trúföst og rækja þá skyldu okkar að prédika andspænis alls kyns erfiðleikum, alveg eins og hann viðhélt Esekíel við erfiðar aðstæður. — Esekíel 4:9-17.
11. (a) Hvaða verkum er sagt frá í Esekíel 5:1-4 og hver var þýðing þeirra? (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að Guð skyldi uppfylla þá spádóma sem Esekíel bar fram með látbragðsleik?
11 Eftir þetta tók Esekíel sér sverð og rakaði af sér allt hár og skegg. (Lestu Esekíel 5:1-4.) Þeir sem dæju af völdum hungursneyðar og drepsóttar yrðu eins og sá þriðjungur af hári spámannsins sem hann brenndi í Jerúsalem miðri. Þeir sem féllu í stríðinu yrðu eins og sá þriðjungur er hann sló með sverði. Þeim sem lifðu af yrði dreift meðal þjóðanna líkt og þeim þriðjungi hársins sem hann dreifði út í vindinn. En sumir útlagarnir yrðu eins og þau fáeinu hár af hinum tvístruðu sem voru bundin í skikkjulaf Esekíels til tákns um að þeir myndu taka upp sanna guðsdýrkun í Júda eftir 70 ára útlegð. (Esekíel 5:5-17) Sú staðreynd að Jehóva uppfyllti þennan og aðra spádóma, sem túlkaðir voru með látbragðsleik, ætti að koma okkur til að treysta honum sem uppfyllir spádóma sína. — Jesaja 42:9; 55:11.
Eyðing framundan!
12. Hvað gefur Esekíel 6:1-7 til kynna að innrásarmenn myndu gera? (b) Hver er hin fyrirmyndaða Jerúsalem samkvæmt spádómi Esekíels og hvernig mun fara fyrir henni?
12 Árið 613 f.o.t. ávarpaði Esekíel landið til að gefa til kynna hvað myndi henda hjáguðadýrkendurna í Júda. (Lestu Esekíel 6:1-7.) Innrásarmenn myndu eyða fórnarhæðum, reykelsisstjökum og ölturum sem notuð voru við falska guðsdýrkun. Tilhugsunin ein um eyðingu af völdum hungursneyðar, drepsóttar og hernaðar myndi koma mönnum til að hrópa „Vei!“ og leggja á það áherslu með því að klappa saman höndum og stappa niður fótum. Lík andlegra saurlífismanna myndu liggja eins og hráviði á fórnarhæðunum. Þegar kristni heimurinn, sem Jerúsalem táknaði, verður sams konar eyðingu að bráð mun hann vita að ógæfa hans er frá Jehóva. — Esekíel 6:8-14.
13. Hver var ‚vöndurinn‘ í hendi Jehóva og hver skyldi vera afleiðingin af notkun hans?
13 ‚Endirinn var að koma yfir fjórar álfur landsins,‘ hið ótrúa trúarkerfi Júda. Ógæfan myndi vera eins og ‚kóróna‘ á höfði skurðgoðadýrkendanna þegar ‚vöndurinn‘ í hendi Guðs — Nebúkadnesar og hersveitir Babýloníumanna — létu til skara skríða gegn þjóð Jehóva og musteri hans. Mannfjöldinn, þeir sem keyptu og þeir sem seldu í Júda, yrði annaðhvort drepinn eða fluttur í útlegð og hendur þeirra er tækist að halda lífi yrðu lémagna. Þegar falstrúarkerfi þeirra yrði kollvarpað væri það eins og myndu þeir raka sig sköllótta af sorg. — Esekíel 7:1-18.
14. Hvað gat Jerúsalem ekki gert með því að greiða mútur og hvað gefur það til kynna fyrir kristna heiminn?
14 Jehóva og aftökusveitum hans verður ekki mútað. (Lestu Esekíel 7:19.) Mútur gátu ekki komið í veg fyrir að ‚kjörgripurinn,‘ hið allra helgasta, yrði svívirtur þegar kaldeískir „ræningjar“ hrifsuðu hin heilögu áhöld og skildu musterið eftir í rústum. Jehóva ‚batt enda á hið ofmetnaðarfulla vald manna‘ þegar Sedekía konungur var handtekinn og hinir fremstu meðal Levítaprestanna drepnir. (2. Konungabók 25:4-7, 18-21) Syndarar í hinni umsetnu Jerúsalem gátu ekki umflúið ógæfuna með mútum þegar Guð ‚dæmdi þá‘ sem sáttmálsbrjóta. Eins mun verða í hinni yfirvofandi vanhelgun þess sem kristni heimurinn álítur heilagt; hann mun ekki geta keypt sig með mútufé undan aftöku þegar dómi Guðs verður fullnægt á honum. Þá verður of seint fyrir hann að hlusta á ‚varðmann‘ Jehóva. — Esekíel 7:20-27.
Andvarpað vegna svívirðinganna
15. Hvað sá Esekíel í Jerúsalem og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
15 Þegar Esekíel sá Guð í dýrð þann 5. elúl árið 612 f.o.t. ‚tók líkast sem hönd væri í höfuðhár hans‘ og flutti hann í innblástursanda til Jerúsalem. Stríðsvagninn himneski hafði líka flutt sig þangað. Það sem Esekíel sá þar ætti að koma okkur til að hrylla við tilhugsuninni um að hlusta á fráhvarfsmenn. (Orðskviðirnir 11:9) Ísraelskir fráhvarfsmenn voru í musterinu að tilbiðja skurðgoðatákn (ef til vill heilaga súlu) sem vakti vandlæti Guðs. (2. Mósebók 20:2-6) Þegar Esekíel kom inn í innri forgarðinn sá hann þar margar svívirðingar! (Lestu Esekíel 8:10, 11.) Það var svívirðilegt að 70 af öldungum Ísraelsmanna skyldu vera að brenna reykelsi frammi fyrir falsguðum sem veggjaristurnar táknuðu! — Esekíel 8:1-12.
16. Hvað gefur sýn Esekíels til kynna um áhrif fráhvarfs frá trúnni?
16 Sýn Esekíels bendir okkur á hve andlega banvænt fráhvarf frá trúnni er. Ísraelskonur höfðu verið taldar á að gráta Tammús, babýlonskan guð og elskhuga frjósemisgyðjunnar Ístar! Og hvílík svívirða að 25 Ísraelsmenn skyldu dýrka sólina í innri forgarðinum! (5. Mósebók 4:15-19) Þeir héldu viðbjóðslegum vöndli upp að nösum Guðs, en hann kann að hafa táknað getnaðarlim karlmanns. Engin furða er að Jehóva skyldi ekki hlusta á bænir þeirra. Eins mun kristni heimurinn án árangurs leita hjápar hans í ‚þrengingunni miklu‘! — Esekíel 8:13-18; Matteus 24:21.
Merktur til björgunar
17. Hvaða sjö menn sá Esekíel í sýn og hvað gerðu þeir?
17 Þessu næst sjáum við sjö menn — einn er línklæddur ritari en hinir sex bera eyðingarvopn. (Lestu Esekíel 9:1-7.) ‚Mennirnir sex‘ táknuðu himneskar aftökusveitir Jehóva enda þótt hann gæti líka notað jarðnesk öfl. Þeir sem ‚línklæddi maðurinn‘ merkti á ennið myndu hljóta miskunn Guðs vegna þess að þeir voru ekki hlynntir þeim svívirðingum sem fram fóru í musterinu. ‚Mennirnir sex‘ hófu eyðingu sína þar á staðnum á öldungunum 70 sem dýrkuðu skurðgoðin, konunum sem grétu Tammús og þeim 25 sem tilbáðu sólina. Babýloníumenn drápu þá og aðra sem sýndu Guði óhollustu árið 607 f.o.t.
18. (a) Hver er ‚línklæddi maðurinn‘ nú á tímum? (b) Hvert er ‚merkið,‘ hverjir hafa það núna og hvaða afleiðingar mun það hafa að bera merkið?
18 ‚Línklæddi maðurinn‘ táknar smurða kristna menn sem hóp. Þeir ganga hús úr húsi og setja táknrænt merki á þá sem verða hluti hins ‚mikla múgs‘ ‚annarra sauða‘ Krists. ‚Merkið‘ er sönnunargagnið fyrir því að slíkir sauðir séu vígðir, skírðir einstaklingar og hafi persónuleika líkan Kristi. Þeir ‚andvarpa og kveina yfir svívirðingum, sem fram fara í kristna heiminum, og þeir eru gengnir út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 18:4, 5) „Merki“ þeirra sýnir aftökusveitum Guðs ótvírætt að þeim skuli þyrmt í ‚þrengingunni miklu.‘ Þeir geta haldið þessu „merki“ með því að taka þátt með hinum smurðu í að merkja aðra. Ef þú hefur verið ‚merktur‘ skalt þú því taka kostgæfilega þátt í því starfi að ‚merkja‘ aðra. — Esekíel 9:8-11.
Eyðing í eldi framundan!
19. Hverju dreifir ‚línklæddur maður‘ nútímans út um kristna heiminn?
19 Línklæddi maðurinn gekk milli hjólanna á stríðsvagninum á himnum til að ná í glóandi kol. Þeim var dreift yfir Jerúsalemborg sem aðvörun um að eyðing hennar væri tákn um brennandi reiði Guðs. (Esekíel 10:1-8; Harmljóðin 2:2-4; 4:11) Á dögum Esekíels notaði Jehóva Babýloníumenn til að úthella reiði sinni. (2. Kroníkubók 36:15-21; Jeremía 25:9-11) En hvað um okkar daga? Hinn fyrirmyndaði ‚línklæddi maður‘ dreifir brennandi boðskap Guðs út um kristna heiminn til merkis um að reiði Guðs gegn honum og afganginum af Babýlon hinni miklu fái brátt lausan tauminn. Að sjálfsögðu hafa þeir sem neita að hlusta á ‚varðmanna‘ Jehóva enga von um að bjargast — Jesaja 61:1, 2; Opinberunarbókin 18:8-10, 20.
20. (a) Hvaða áhrif ætti samstilling hjóla stríðsvagnsins á himnum og kerúbanna að hafa á okkur? (b) Hvað gerðu sumir af höfðingjunum og við hvað líktu þeir Jerúsalem ranglega?
20 Athyglinni er aftur beint að stríðsvagninum á himnum, himnesku skipulagi Guðs. Með samstillingu hjólanna og kerúbanna í huga ættum við að finna okkur knúin til fullkomins samstarfs við jarðneskt skipulag Guðs. Knúin af hollustu ættum við einnig að vernda það fyrir sviksömum mönnum. (Esekíel 10:9-22) Slíkir menn voru til á dögum Esekíels, því að hann sá 25 höfðingja leggja á ráðin um uppreisn með hjálp Egypta gegn aftökusveitum Guðs. Þeir líktu Jerúsalem við pott og sjálfum sér við kjöt sem væri óhult inni í honum. En þeir höfðu sannarlega rangt fyrir sér! ‚Sverð útlendra manna,‘ Babýloníumanna, átti að drepa suma af samsærismönnunum en aðrir yrðu fluttir í útlegð. Það átti að gerast vegna þess að Guð lét Gyðingana svara til saka fyrir að rjúfa sáttmála sinn. (Esekíel 11:1-13; 2. Mósebók 19:1-8; 24:1-7; Jeremía 52:24-27) Með því að kristni heimurinn fullyrðir að hann sé í sáttmálasambandi við Guð en leggur um leið traust sitt á veraldleg bandalög, þá mun hann líða undir lok þegar aftökusveitir Jehóva ráðast á hann.
21. Hvað gerðist eftir 70 ára auðnarástand Júda og hvaða hliðstæð þróun átti sér stað meðal hinna smurðu leifa?
21 Þótt Ísraelsmönnum hefði verið ‚dreift út um löndin‘ eins og árið 617 f.o.t. var Guð ‚helgidómur‘ eða hæli handa þeim útlögum sem iðruðust. (Esekíel 11:14-16) En hvers annars mátti vænta? (Lestu Esekíel 11:17-21.) Eftir 70 ára auðnarástand Júda fengu leifar að snúa heim í hið hreinsaða „Ísraelsland.“ Á svipaðan hátt voru hinar smurðu leifar leystar úr fjötrum árið 1919, eftir að hafa verið í ánauð Babýlonar, og undir leiðsögn anda Guðs hafði ‚land‘ hins andlega Ísraels verið hreinsað. Þeir sem eru ‚merktir‘ til björgunar njóta því núna hylli Guðs ásamt endurreistum leifum hins andlega Ísraels. Og ef þú heldur áfram að hlusta á „varðmann“ Guðs kannt þú að verða meðal þeirra sem lifa af þegar Jehóva dregur sverð sitt úr slíðrum.
[Neðanmáls]
a Námsstjórinn skyldi, eftir því sem tími leyfir, láta lesa upp hinar skáletruðu tilvísanir þegar söfnuðurinn nemur þessa grein og hinar tvær sem á eftir fara.
Manst þú?
◻ Hvers vegna eigum við að hlusta þegar ‚varðmaður‘ Jehóva talar?
◻ Hvað táknaði stríðsvagn Guðs á himnum?
◻ Hverjir þjóna sem ‚varðmaður‘ Jehóva nú á dögum?
◻ Hvaða fráhvarfsverk sá Esekíel í Jerúsalem og hvaða áhrif ætti þessi sýn að hafa á okkur?
◻ Hver er ‚línklæddi maðurinn‘ nú á tímum og hvert er ‚merkið‘ sem hann setur á enni manna?